Jólaferð um norðanvert hálendið

Sleðamenn virðast hafa verið nokkuð duglegir að keyra um jóladagana. Mest er um stuttar skreppur, enda dagurinn ekki langur á þessum árstíma. A.m.k. einn hópur úr Eyjafirði fór þó í lengri ferð inn á hálendið um jólin.

Það voru þeir Eiríkur Jónsson, Smári Sig., Hreiðar í Vín, Jón Björns. og Sigurgeir Steindórs. sem lögðu í´ann árla dags síðastliðinn laugardag. Ekið var á bílum inn Þormóðsstaðadal þar sem sleðar voru teknir af kerrum, enda stefnan að aka upp Kerhólsöxlina. Þótt snjólítið væri þar fremra var vandræðalaust að komast upp. Lúmskur steinn varð þess þó valdandi að för eins sleðans varð aldrei lengri en nokkur hundruð metrar og mátti eigandinn bóta í það súra epli að snúa við í bæinn.

Nægur snjór en lélegt austan við fljót

Er kom inn á fjallið var nægur snjór og frábært færi. Ekin var full ferð í Landakot og stefnan tekin austur í Gæsavötn með viðkomu í Sandbúðum. Ágætur snjór var austur að Skjálfandafljóti en mjög lélegt þar fyrir austan. Eftir stopp í Gæsavötnum var snúið til baka og nú stefnt í Laugafell þar sem gist var um nóttina. Daginn eftir var ekið niður að skálanum Grána og var allgóður snjór á þeirri leið. Loks var stefnan tekin til baka í bílana. Komust allir þangað fyrir eigin vélarafli, þór ónýt lega í einum sleða og bensíntruflanir í öðrum settu mark sitt á ferðina, í bland við grimmdarfrostið. Meðfylgjandi myndir tóku Smári Sig. og Eiríkur í ferðinni.

Norðanmenn kíkja upp

...og komst meira að segja uppúr aftur.

Smári á góðri stundu (á Yammanum).

Í gær kíktu þeir Hreiðar í Vín, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs á hálendið upp af Eyjafirði. Sendi Smári eftirfarandi frásögn af ferðinni.

Það var varla farið að skíma af degi þegar formaðurinn hringdi og sagði að nú ætti að drífa sig. Vertíðin byrjar vel, hann fullbeittur, ákveðinn og varla að maður væri búinn með morgunkaffið. Þegar svo sást til himins kom í ljós að sólin kæmi fljótlega á loft, heiður himinn og töluvert frost.

Það stóð á endum, þegar komið var fram að Brúsahvammsbrekkunni var tekið af og allt bjart framundan. Formaðurinn lagði áherslu á að menn yrðu að vera á góðum sleðum, það væri mjög brýnt og taldi rétt að slá undir “spari” sleðanum sínum fyrir Smára Sig. Þetta gengi ekki lengur. Smári fékk því bláa RMK´inn formannsins þennan með litasjónvarpinu. Sjálfur þurfti formaðurinn endilega að rifja upp hvað svarti RMK´inn var ofboðslega góður. Sigurgeir var enn á gömlu græjunni frá í fyrra en með allt niður um sig, ekkert siglingatæki, bara festingar. Reyndi að útskýra fyrir okkur að hann væri búinn að borga inná nýtt litatæki, umboðsmaðurinn hefði vélað sig til að kaupa og borga en ekkert tæki birtist. Þegar fara átti af stað kom auðvitað í ljós að ekki var allt meðferðis, greinilegt að einhver hefur ruglað öllum sleðabúnaðinum heima í bílskúr í sumar, sennilega hefur konan eitthvað verið að endurraða. Það svona vantaði eitt og annað.

Ekki var til setunnar boðið að nýta veðrið og þetta frábæra færi sem lá fyrir. Fullbeittir var brunað inn allan Eyjafjarðardal og færið bara alveg magnað. Þegar komið var upp úr Rununni hafði veðrið skipt um gír, kominn fræsingur af suðvestan og skafrenningur, en fullt af snjó. Áfram var haldið inn fjall og heldur bætti í vindinn og skyggnið varð núll. “Ekki bogna, ekki bogna, aðeins lengra strákar,” heyrðist í formanninum. Þetta var greinilega allur pakkinn. Það var ekki fyrr en innundir Landakotsafleggjara sem samkomulag náðist um að snúa við. Enda urðu menn að ná í bæinn fyrir kvöldmat. Íþróttatíminn byrjar kl 7 og þangað verður að mæta þó ekki væri nema til að segja ferðasöguna. Það stóð á endum, að rétt náðist í bæinn fyrir íþróttatímann, með brosið út að eyrum.

Svona rétt í lokinn “hann er nú svo sem ágætur sá blái.”

Sýning og árshátíð gengu vel

Vetrarsport 2004 og árshátíð vélsleðamanna í Sjallanum um helgina tókust vel. Aðsókn á sýninguna í Íþróttahöllina var ágæt og aðsókn á árshátíðina sló öll fyrri met. Þar fór Ómar Ragnarsson á kostum eins og við var að búast og góður rómur var gerður að þeim skemmtiatriðum sem í boði voru. Myndir frá sýningunni eru hér að neðan.

Vetrarkoma undirbúin

Sleðamenn vissu að nú eru síðustu forvöð að ganga frá sínum málum á hálendinu áður en snjóar hellast yfir, því vitað er að mikill snjór og góður er í vændum. Smári Sig. sendi eftirfarandi sögu og myndir frá ferð helgarinnar.

Nýtt orkuver

Byrjað var á að fara í Laugafell þar sem rafvirkinn dró úr pússi sínu nýja stjórnstöð fyrir raforkuverið. Nú gætu menn fylgst með spennunni á rafgeyminum þá daga sem þeir verða þar veðurtepptri. Eins var heitavatninu komið á gamla Ferðafélagsskálann en þar var vatnslaust og skítkalt í húsinu. Þeir alhörðustu tóku golfsettið út og slógu sín allra síðustu högg að þessu sinni áður en vetur leggst að.

Handriðin tekin

Á Fjórðungsöldu þurfti að stoppa og hirða upp gamlar leifar eftir síðust ferð. Áfram brunað, ekki áð fyrr en komið var að Skjálfandabrú og vegriðin tekin niður að vanda. Einfaldlega til að snjórinn sem er að koma geti lagst með öllum sínum þunga á brúnna. Í Gæsavötnum var tekið til hendinni að venju og allt gert klárt eins og kostur er.

Enginn heima

Á heimleiðinni á sunnudag var víða farið svona rétt til að athuga hvort þetta væri ekki allt á sínum stað. Tungnafellsjökull mátaður og tryggt að allt væri þar klárt og tilbúið fyrir meiri snjó – ekki veitti af. Hrafninn vinur okkar úr Nýjadal mætti á svæðið, fylgdi okkur hvert fótmál og heimtaði mat. Brunað var því næst í Sandbúðir og gerðu menn fastlega ráð fyrir að Guðmundur bóndi væri þar mættur en hann er búinn að vera á leiðinni þangað frá því um miðjan september. Nú hlyti karl að vera mættur. En viti menn, sama eyðibýlið og oft áður. Ekki nokkur sála og ekki verið þar lifandi maður svo vikum skifti. Straujað var í Galtaból og þaðan í Landakot svona rétt til að taka stöðuna. Í Landakoti töldu kunnugir að komið væri nýtt pústurrör á húsið, svo nú skal kynda duglega þar í vetur. Greinilega vel undirbúnir.

Til umhugsunar vegna bensínmála

tunnur.jpg

Þessar tunnur höfðu staðið lengi í alfaraleið við Gæsavötn, til mikillar óprýði, en voru sem betur fer fjarlægðar á dögunum.

Nú líður væntanlega að því að menn fara að huga að bensínmálum sínum á hálendinu fyrir komandi vetur. Í þeim efnum eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Erum á gráu svæði

Augljóst hagræði er af því að eiga bensín á góðum stað til að nota í vetrarferðum. Því er jafnan komið fyrir í námunda við fjölsótta skála og t.d. eiga Eyfirðingar og fleiri að jafnaði talsverðar byrgðir í Laugafelli, Gæsavötnum og víðar. Er nú svo komið að bensínmagnið bara á þessum tveimur stöðum sem nefndir voru mælist í tugum þúsunda lítra þegar allir hafa komið með sitt á haustin. Ljóst má vera að við erum á talsvert gráu svæði með þessi bensínmál því strangar reglur gilda um geymslu á bensíni. Við höfum hins vegar að mestu fengið frið enn sem komið er en það er alls ekki sjálfgefið að svo verði alltaf. Mesta hættan er að menn gleymi sér og hugi ekki nógu vel að fráganginum þannig að einhver “óviðkomandi” sem leið á um geri úr þessu mál. Mikilvægt er að miða allan frágang við að sem minnst hætta sé á að þetta pirri aðra fjallafara, þ.e. sé sem minnst áberandi.

Gangið vel frá körunum

Ef aðstæður eru þannig að bensínílátin séu á staðnum allt árið (sbr. öll kerin í Gæsavötnum) verður að ganga þannig frá að þau séu, utan mestu alfaraleiðar, hulin með grjóti og sem alla minnst áberandi. Sérstaklega mikilvægt er að vanda frágang í síðustu ferð að vori því þegar hálendisvegir opna stóreykst umferð fólks sem er e.t.v. ekkert sérlega hrifið af því að aka eða ganga fram á hrúu af fiskikörum fullum af bensínbrúsum. Misbrestur hefur verið á þessum frágangi í Gæsavötnum, eins og fram kom hér á vefnum ekki alls fyrir löngu. Þó er ánægjulegt að segja frá því að í kjölfar þeirrar umfjöllunar batnaði ástandið til muna og verstu dæmin voru fjarlægð.

Því seinna því betra

Ef um er að ræða ílát sem farið er með að hausti og tekin aftur að vori, eins og t.d. bensínkerrur, tunnur eða slíkt, er mikilvægt að menn fresti því í lengstu lög á haustin að fara með bensínið en taki síðan afganginn sama dag og hálendisvegir opna á vorin. Í kjölfar norðanáttarinnar að undanförnu hefur komið föl á jörð og því líklegt að margir vilji drífa sig af stað með bensínkerrurnar sínar. Þótt ekki sé hægt að banna mönnum það verður þó að teljast líklegt að allur sá snjór sem kominn er og kemur næstu daga eigi eftir að hverfa aftur. Því gæti verið ráðlegt að fresta för enn um sinn.

Eldsneytisfrágangur á hálendinu

Til þeirra sem málið varðar!

Eins og flestir vita koma jeppa og sleðamenn eldsneyti sínu fyrir á völdum stöðum á hálendinu. Sjálfsagt er þetta allt bannað en við gerum þetta samt okkur til þæginda.

Þessum birgðastöðvum fjölgar stöðugt a.m.k. hér á norðanverðu hálendinu. Í Gæsavötnum er kominn tími til að gera eitthvað róttækt í málinu. Þar má telja í stuttum göngutúr 19 “birgðastöðvar”. Sumar eru vel faldar og þarf mikla útsjónarsemi til að finna þær. Það merkir að eigendurnir hafa unnið heimavinnuna sína og gengið þannig frá að ekki er til ama.

Því miður eru enn nokkrir aðilar sem eiga þarna fiskikör eða önnur ílát sem blasa við ferðafólki í svörtu hrauninu. Þegar farið er að stafla fiskikörum í tvær hæðir er auðvelt fyrir sjóndapra að sjá þau í margra mílna fjarlægð þar sem bakgrunnurinn er svartur. Hvað þá þegar fjórar 200 ltr tunnur eru látnar standa á fjölförnu, göngutúrasvæði staðarins.

Í Gæsavötnum eru allar gistinætur bókaðar fram í miðjan september og umferð “gömlu Gæsavatnaleiðar” er mjög mikil. Það eru því nokkur hundruð ef ekki þúsund manns sem fara um svæðið og skoða “birgða” dýrðina.

Það eru því eindregin tilmæli Gæsavatnafélagsins að menn taki þetta til sín sem eiga og gangi betur um.

Frelsið sem við höfum er vandmeðfarið, það getur verið dýrt að misnota það

Fjalla – kveðjur
Frá Gæsavatnafélaginu
Smári Sigurðsson

Fín sumarferð inn á hálendið

Þótt komið sé vel fram á sumar horfa sleðamenn enn löngunaraugum á þær fannir sem enn sjást í fjöllum. Um helgina fór hópur Eyfirðinga í fína sumarferð inn á Nýjabæjarafrétt ofan Eyjafjarðar og komst að því að víða var hægt að aka. Farið var með með sleðana á kerrum inn Eyjafjarðardal og þar var leikur einn að komast á snjó. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Þeir sem fóru voru: Formaðurinn, Sigurgeir , Steindór, Jón, Dunni og Hemmi auk SS. Heldur grisjaði í gegnum snjóinn fyrstu metrana eftir veginum frá bílunum en svo kom nægur snjór og frábært færi. Stefnan tekin án vandræða í Landakot og síðan í átt að Galtabóli en ekki gekk það eftir. Náðum þó að fara langt suður fyrir Galtaból rétt fyrir austan Lambalækjardrögin. Í frábæru veðri og hlýindum var stefnan næst tekin á Bergland. Er komið var vestur fyrir Eyjafjarðardalsbotn, fóru menn að efast um að hægt væri að fara vestur að Urðarvötnunum. En með mjög einbeittum vilja formannsins var komist með léttum leik á snjó alla leið í Bergland. Að vísu mörgum krókum og beygjum síðar. Hægt var að renna alveg heim í hlað og þar settust menn að snæðingi eftir að “brytinn” galdraði fram “steik”. Langt var liðið á kvöld og kominn tími til að huga að heimferð. Var hópurinn
kominn í bæinn aftur skömmu eftir miðnætti. Fín ferð í byrjun sumars.

Mögnuð kvöldferð í Laugafell

Sumir menn eru einfaldlega þrjóskari en aðrir og neita að viðurkenna að veturinn sé búinn. Síðastliðin föstudag fóru fimm garpar á sleðum frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og inn í Laugafell. Gekk ferðin að óskum en væntanlega er þetta með síðustu ferðum inn á hálendið á þessu vori.

Lagt var af stað kl. 5 en hægt var að komast á snjó í gilinu sunnan við gönguhúsið í Hlíðarfjalli. Þaðan var greið leið upp á topp Hlíðarfjalls, a.m.k. fyrir þá sem höfðu belti og hestöfl til að takast á við færið en það var mjög blautt eftir hlýindi dagsins. Þurftu sumir smá hjálp síðustu brekkuna. Af Hlíðarfalli var ekin hefðbundin leið niður í Glerárdal, fram af Þröminni niður í Skjóldal og upp úr honum áleiðis inn á Nýjabæjarfjall. Þar er enn nægur snjór og frábært færi. Þegar nálgaðist Laugafell minnkaði snjórinn ört og kostaði talsverðar þræðingar að finna færa leið. Í Laugafelli var allt í góðu standi og gæsavarp hafið. Þar hafði þá enginn komið síðan 18. apríl sem segir sína sögu um ástandið í vetur. Eftir bað, kaffi og smásögur var tankað og ekin sama leið til baka. Lagt var af stað úr Laugafelli um kl. 11 og tók ferðin til baka um þrjá og hálfan tíma. Gekk hún áfallalítið en þó náði síðuhöfundur að verða bensínlaus á versta stað, í bröttu gili upp úr Heimari-Lambárdal. Allt reddaðist það þó og án efa hafa menn verið fegnir að skríða í rúmið er heim kom, ánægðir með frábæra ferð.

Í ferðina fóru Hreiðar í Vín, Smári Sig., Jón Björns., Eiríkur Jónsson og Halldór A. Meðfylgjandi myndir tóku Eiríkur, Smári og Halldór.

Kosningahelgi á fjöllum

Endalausar fréttir af skoðanakönnunum. Sömu fréttir dag eftir dag. Þessi úti í dag og hinn er inni en á morgun er allt breytt. Þá er sá sem var úti í gær kominn inn en sá sem var inni er úti. Þessi hringavitleysa minnir á vísuna góðu:

Týndur fannst en fundinn hvarf
að fundnum týndur leita þarf.
Svo týnist sá sem fundinn fer,
að finna þann sem týndur er.

Menn gripu því feginshendi tækifærið sem gafst til að eyða kosningahelginni á fjöllum, fjarri öllum skoðanakönnunum og spámönnum.

Erfiður vetur að baki

Nú er senn á enda einn erfiðasti vetur sem sleðamenn Norðanlands hafa gengið í gegnum. Ekki nóg með að snjóinn vantaði heldur var veðrið einnig lagtímum saman með þeim hætti að ekki viðraði til að nota þann snjó sem þó var á hálendinu. Það segir sína sögu að Kaldbaksdalurinn á Öxnadalsheiði skuli hafa verið orðinn nánast ófær fyrir sleða í lok apríl en þar er alla jafna trygg leið upp á hálendið fram til loka maí a.m.k. En ef að fjallið kemur ekki til Múhameðs þá fer Múhameð til fjallsins og því ekki um annað að ræða að bregða undir sig betri fætinum (eða raunar bílunum) og aka þangað sem hægt er að komast á snjó. Ákveðið var að leggja af stað frá Akureyri eftir vinnu á fimmtudaginn síðasta, aka þjóðveg 1 austur á Hérað og komast upp í Snæfell um kvöldið. Allt gekk þetta eftir þótt reyndar væru ekki alveg allir tilbúnir á uppgefnum brottfarartíma. En annað hefði líka verið óeðlilegt og þeir hinir sömu urðu bara að auka aðeins við snúninginn á (hvíta) Landkrúsernum til að ná hópnum.

Búið að loka!

Rennt var inn í Egilsstaði rétt fyrir kl. 9 um kvöldið og hugsuðu menn sér nú gott til glóðarinnar að fá sér vel að borða á Esso-stöðinni. En því miður virtust Egilsstaðabúar ekkert of áfjáðir í að eiga viðskipti við 10 svanga sleðakarla úr Eyjafirði. „Við lokum kl. 9 og erum búin að slökkva á grillinu,“ var svarið og dugðu engar fortölur. Okkur vantaði líka Billa bakara en hann hefur áður sýnt leikni sína í að tala kvenþjóðina til við svipaðar aðstæður. Í Shell-skálanum var svipað upp á teningnum, búið að loka, en þá var okkur bent á Pizza 67 handan götunnar. Þar var líka tekið á móti hópnum opnum örmum. Að vísu „villtust“ sumir inn á kosningaskrifstofu D-listans á neðri hæðinni og hafa eflaust fengið blíðar móttökur þar líka. Var nú pizzunum sporðrennt með bestu lyst og virtust sumir í hópnum ekkert of áfjáðir í að halda áfram för um kvöldið. Allir náðust þó út að lokum og var þá lagt í´ann upp Fljótsdalinn og upp úr honum, áleiðis í Snæfell. Sleðarnir voru teknir af við fyrsta skafl sem sást en þá var reyndar mjög farið að styttast í Snæfellsskála. Höfðu menn á orði að líkast til hefði aldrei liðið styttri tími frá því að allir búnaður var hnýttur á sleðana og þar til komið var á áfangastað og tími að leysa allt aftur. Í Snæfellsskála var komið um kl. 1 og mál að fara að halla sér. Að vísu var veðrið með þeim hætti að erfitt var að koma sér inn í hús og lofaði þetta góðu um næsta dag.

Breytt áætlun

Föstudagurinn brást ekki vonum manna og heilsaði bjartur og fagur en í ljós kom að menn höfðu átt misjafnar draumfarir. Til dæmis dreymdi formanninn að brotist hefði verið inn í Cortínuna sem hann átti endur fyrir löngu. Hafði þjófurinn m.a. á brott með sér geislaspilara (a.t.h. að þetta var Cortína 1966 módel) og alla mæla úr mælaborðinu. Var mikið skeggrætt hvað þessi draumur táknaði fyrir ferðina og sýndist sitt hverjum.

Að loknum hefðbundnum morgunverkum var lagt af stað inn að jökli en planið var að renna í Esjufjöll. Þar áttum við bókaða gistingu næstu nótt. Þegar komið var drjúga leið inn á jökul var hins vegar farið að þyngja yfir og ljóst þótt að ekki væri bjart sunnan til á jöklinum. Hins vegar var glansbjart að sjá norður og vestur. Því var stefnunni breytt í skyndi og snúið í átt að Kverkfjöllum. Heiti lækurinn í Hveragili togaði líka í menn og þangað var stefnt. Komið var að læknum á „hefðbundnum“ stað en nú var ákveðið að breyta út af vananum og taka bað undir fossinum sem er nokkru neðar. Þangað höfðu fæstir komið áður og reyndist þetta ævintýraferð hin mesta. Var engu líkt að skríða upp undir fossinn þar sem heitt vatnið steyptist af feiknakrafti fram af brúninni. Eftir bað og afslöppun var þrætt í gegnum Kverkfjallaranann áleiðis að Sigurðarskála. Þar var stoppað stutt og stefnan tekin áleiðis inn að jökli og upp Löngufönn. Var gaman að koma að lóninu fyrir neðan skála Jöklarannsóknafélagsins en hægt var að aka á sleðum alveg að fjöruborðinu. Nú var stýrinu snúið í átt að Sigurðarskála og eftir nokkrar umræður var ákveðið að hafa þar næturstað, enda ekki útlit fyrir að það væri að birta yfir sunnar á jöklinum. Var því gisting í Esjufjöllum afpöntuð.

Áttu menn ljúfa kvöldstund, borðuðu vel og slöppuðu af. Þegar verið var að klára uppþvottinn heyrðist í sleðum og í hlað renndi Ásbjörn Helgi Árnason, sleðagarpur frá Neskaupstað, með tvo sunnlenska meðreiðarsveina, Óskar Guðmundsson og Valdimar Long, sem báðir voru í sinni fyrstu sleðaferð.

Mílurnar rúlla inn

Á laugardagsmorgni var fínt veður í Kverkfjöllum og að sjálfsögðu var ákveðið að byrja á að renna í morgunbað í Hveragili. Lækurinn var með allra heitasta móti og tók verulega á að komast ofan í hann. Á eftir stóðu menn fáklæddir á bakkanum lengi dags á meðan mesti hitinn rauk úr þeim. Síðan var lagt í hann inn á Brúarjökul. Þótti reyndar sumum baðið fara fyrir lítið þar sem menn fengu að svitna vel strax í brekkunni upp frá læknum.
Þegar inn á jökul var komið skyldu leiðir. Ásbjörn og félagar tóku stefnuna á Hermannaskarð og þaðan niður í Esjuföll. Á meðan renndu Eyfirðingar niður að Hnútulóni, þar sem Kverká kemur undan jöklinum, og þaðan var stefnan tekin á Skálafellsjökul til að endurnýja bensínbyrgðir. Var sú för tíðindalítil en gaman var að bruna niður Skálafellsjökulinn, kílómeter eftir kílómeter með 60-80 cm jafnföllnum púðursnjó.

Alltaf er gott að koma niður að Jöklaseli og var þar vel tekið á móti hópnum, jafnvel þótt við lentum aðeins inn á svæði sem ætlað var fyrir kvikmyndatökuflokk sem þarna var. Inn í húsinu sáum við ágrip af handritinu sem virtist glæpasaga af svæsnustu gerð. Reyndum við að fá hlutverk fyrir G. Hjálmarsson sem illmennið í myndinni en tókst ekki. Líkast til hefur þeim þótti Guðmundur of góðlegur. Eftir drjúgt stopp á Skálafellsjökli var stefnan tekin upp jökulinn að nýju, niður með Veðurárdalsfjöllum og í Esjufjöll. Er þangað var komið þótti okkur einkennilegt að sjá hvergi merki um Ásbjörn og félaga þar sem langt var liðið á daginn og þeir hefðu átt að vera langt á undan okkur.

Úr Esjufjöllum var ákveðið að aka sömu leið til baka inn á jökul og þaðan í Snæfell. Var greitt ekið og reyndi nú á hver væri hraðskreiðastur. Herma fregnir að þeir grænu hafi fengið þarna nokkra uppreisn æru þar sem 1.000 mótornum í Þönderkettinum virtist vegna einna best. Þegar komið var í Snæfell voru Ásbjörn og félagar að renna þar í hlað og kom þá skýringin á fjarveru þeirra í Esjufjöllum. Mótor í einum sleðanum hafði bilað í Hermannaskarði og voru hinir tveir búnir að draga hann 70-80 km leið í Snæfell. Greinilega alvöru menn á ferð.

Nú voru höfð snör handtök við að undirbúa kvöldmáltíðina, nautalundir með öllu tilheyrandi. Maturinn var að sjálfsögðu frábær og eftir kaffi og súkkulaði var mesti vindurinn úr mannskapnum. Einhverjir hringdu til byggða í kringum miðnættið til að fá helstu kosningatölur en annars létu menn sig kosningarnar litlu skipta heldur sögðu smásögur og rifjuðu upp gömul afrek á fjöllum.

Framsókn með 4

Á sunnudagsmorgni hafði veðrið heldur snúist til verri vegar. Komin norðaustanátt og éljahraglandi annað slagið. Því var ekkert annað að gera en undirbúa heimferð og ganga frá skálanum. Var ákveðið að ljúka ferðinni með sundi á Egilsstöðum, sem og gekk eftir. Á leiðinni niður Fljótsdalinn bárust síðan fréttir af úrslitum kosninganna daginn áður. Framsókn fékk 4!

Frábært veður og færi á hálendinu

Fjölmenni var á hálendinu um síðustu helgi í blíðuveðri og frábæru færi. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Við fórum þrír af stað, Sigurgeir, Eiríkur og Smári, um Kaldbaksdal á föstudags- eftirmiðdag, áleiðis í Laugafell. Þá voru greinilega margir farnir af stað á undan okkur. Dalurinn virtist fremur rýr við fyrstu sýn en bara fínn þegar á reyndi. Hálfgert harðlífi var að renna suður “fjallið” að Litla koti en síðan batnaði færið jafnt og örugglega allt þar til það gat ekki orðið betra.

Á laugardagsmorgni, eftir bað og éljagang, braust sólin fram og sýndi sínar betri hliðar. Byrjað var á að renna úr Laugafelli, suður um í Nýjadal og hrafninum gefið. Stefnan þaðan var tekin suður fyrir Mjóhálsinn og reynt við fjöllin austur um og yfir í Snapadal. Færið og veðrið verður vart betra en þarna var. Strauið var tekið þvert yfir Vonarskarð, með viðkomu hjá Hníflunum í gengum skarðið milli Tindafells og Hnúðs. Heldur var nú hokrið mikið á melunum niður með Hraunkvíslinni en við komumst þó í Gæsavötn. Þar fengu menn sér smávægilegan hvíldarlúr um stund. Þá var ákveðið að skella sér í eftirmiðdagsferð austur með jökli. Færið var rennislétt nýsnævi, betra enn nokkru sinni. Erfitt var að hemja fákana fyrr en komið var upp á topp Kistufells, þaðan sem útsýnið var engu líkt…engu líkt. Enginn okkar hafði komið þarna upp áður, og veðrið maður. Horfðum við beint ofaní Toppgíginn á Urðarhálsi og sáum vel yfir úfinn Dyngjujökullinn austur í Kverkfjöll, þar sem gufan sást vel stíga til himins. Hugfangnir héldum við til baka í Gæsavötn og á þeirri leið fjölgaði í hópnum. Formaðurinn og G. Hjálmarsson voru mættir og voru auðvitað sendir í slóðina og sagt að fara upp á Kistufell.

Sunnudagur fagnaði okkur með logni og heiðríkju sem aldrei fyrr. Strikið var tekið inn Dyngjujökul og stoppað um stund við Gjálp. Síðan svo sem leið liggur niður Köldukvíslarjökul og í Snapadal þar sem loks gafst stund til kaffidrykkju og sögustundar. Því næst var tekin styzta leið upp með Rauðá og uppá Tungnafellsjökul, niður Hagajökul nyrðri og í Laugafell. Á heimleiðinni var skotist ofaní Hafrárdal og snjóalög skoðuð með vegagerð í huga. Þá var og brunað norður Seldalsfjallið í von um að finna færa leið niður á Öxnadalsheiði, en því miður virtist það ekki gerlegt. Þannig lauk 450 km helgarferð þar sem allt lék við okkur.

Landakotsmenn í “langferð”

Einn er sá hópur sleðamanna sem kenndur er við skálann Landakot en skálinn er á hálendinu upp af Eyjafirði. Í hópnum eru menn sem voru meðal þeirra fyrstu sem stunduðu vetrarferðir á vélsleðum um hálendið og eru þeir enn að um 30 árum síðar.

Eitthvað hefur þeim félögum verið legið á hálsi fyrir að ferðirnar séu orðnar bæði færri og styttri en áður var, a.m.k. þótti einhverjum (sem væntanlega er illa þenkjandi) það tíðindum sæta á dögunum þegar Landakotsmenn höfðu sig „alla leið“ inn í Litlakot á Nýjabæjarfjalli. Eins og kunnugir vita er Litlakot einmitt gamli Landakotsskálinn sem fluttur var inn á Nýjabæjarfjall með herþyrlu fyrir nokkrum árum eftir að nýtt hús hafði risið í Landakoti. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni en þær eru ættaðar frá Steina Pé.

Spilaferð í Gæsavötn

Það er alveg ásættanlegt að halda kyrru fyrir í heilan dag á meðan snjóar. Því fengu menn að kynnast í Gæsavötnum á miðvikudaginn í síðustu viku og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.

Á þriðjudagsmorgni var stefnan tekin upp Kaldbaksdalinn og inn í Laugafell. Þar var fyllt á alla koppa og kirnur, nú átti að fara langt austur. Um kvöldmatarleytið vorum við komnir í Gæsavötn eftir hálfgerða harðlífisferð, þar sem skiptust á skaflar af nýsnævi og grjótharðir svellklammar. Í Gæsavötnum var enn tankað og undirbúin brottför lengra, a.m.k. í Sigurðarskála. En þá rauk ´ann upp með miklum sperringi, suðvestan og snjókoma, og stóð við það nóttina og allan miðvikudaginn. Þegar komið var undir kvöld á miðvikudag og menn orðnir hundleiðir á spilunum, var ljóst að við vorum að falla á tíma með austurferð svo réttast var að hörfa. Skutumst því til baka í Laugafell, í fínu veðri. Þar mátuðum við nýju laugina, heitari sem aldrei fyrr. Var tekið kvöld- og svo aftur morgunbað áður en heim var haldið. Ágæt ferð en heldur snubbótt. Það var Hreiðar formaður, Sigurgeir Steindórs., Benni á Bílvirkja, Eiríkur, Smári Sig. og löggurnar þrjár, Steini Pé. Óli Óla og Geir, sem tóku þennan rúnt. Myndir Steini Pé. og Smári Sig.

Sprett úr spori í Kverkfjöll

Hópur eyfirskra sleðamanna fór í fína ferð inn á hálendið um helgina. Ekið var Laugafell, Gæsavötn og austur í Kverkfjöll framan við Dyngjujökul. Svipuð leið var farin til baka.
Ekið var af Öxnadalsheiði og inn Nýjabæjarfjall, sem hefur að geyma mikinn snjó. Færið þar er nú frekar rifið en fer batnandi þegar innar dregur. Ögn hefur bætt á í Laugafelli frá síðustu ferð. Fínt er að fara hefðbundna leið í Sandbúðir en frekar eru nú gil “tómleg”. Fyrir austan Sandbúðir borgar sig ekki að fara venjulega leið á Skjálfandafljótsbrú, heldur fara suður fyrir Tunguhraunið, eða jafnvel alveg norður fyrir það, þar sem þarna er verulega lélegt færi. Svolítið hefur bætt á í kringum Gæsavötn síðustu daga.

Austur með jökli er verulega flott færi og gott að taka fákana til kostana. Heldur er rýrt á aurunum fyrir neðan Sigurðarskála en vel má skreppa í baðið, þó það hafi ekki verið gert að þessu sinni. Á heimleiðinni stungu menn sér niður í Villingadalinn. Þar er fínn snjór í dalbotninum en hann bara endar um miðjan dal og alautt allt til byggða. Í ferðinni voru m.a. 2 nýir sleðar teknir til kostanna. Gafst gott tækifæri til að athuga hámarkshraðann því rennifæri var sem fyrr segir austur með jökli allt í Sigurðarskála, enda voru menn snöggir. Myndir: Halldór Jóns.

Ski-doo 2004 – REV og meiri REV

Þá hefur Ski-doo kynnt sleðalínu sína fyrir árið 2004. Álit manna á henni ræðst væntanlega af því hvort þeim líkar við REV-boddíið eða ekki. Það er nefnilega ljóst að Ski-doo er að veðja á að REV-inn sé framtíðin og 2004-línan tekur mið af því.

Vissulega geturðu enn fengið Ski-doo í „hefðbundinni” útfærslu en meginþunginn í framleiðslunni er á REV í hinum ýmsu útfærslum. Þessi áhersla þarf raunar ekki að koma neinum á óvart því fáir sleðar hafa slegið jafn eftirminnilega í gegn og REV og salan á 2003 módelinu fór jafnvel fram úr björtustu vonum Ski-doo manna sjálfra. Ef litið er í fljótheitum yfir línuna hjá Ski-doo virðist hún eiga það sameiginlegt með 2004 árgerðinni frá hinum framleiðendunum sem kynnt hafa sína sleða að það eru engar stórar nýjungar á ferðinni. Fyrst og fremst er um að ræða frekari þróun, útfærslur og endurbætur á því sem kynnt var í 2003 árgerðinni. Ski-doo kemur að vísu með eina nýja vél en það er 600 með SDI-innspýtingu. En lítum nánar á einstaka sleða.

MX Z

Öll MX Z línan kemur í REV útfærslu. Á toppnum tróna “X” og “Renagade X” sem bera öll einkenni keppnissleðans frábæra. Báðir eru með hinn stórsniðuga elektróníska bakkgír sem raunar má finna í mörgum sleðum frá Ski-doo. X er á 15x121x1″ belti en Renagade X á 15x136x1.25 belti og með nýja gerð af sæti sem hannað er fyrir mountain-sleðana. Í vélbúnaði er val um 800 vél með DPM, hina nýju 600 SDI, eða 600 H.O.
Af öðrum útfærslum af MX Z má nefna Adrenaline, sem ætlaður er fyrir kröfuhörðustu ökumennina, með öflugum HPG-VR dempurum og Trail MX Z, sem er aðeins “mildari” útgáfa.

REV í ferðaútgáfu

GSX nefnist ný sleðalína frá Ski-doo. Hún byggir á REV-boddínu en er smíðuð fyrir þá sem vilja stunda lengri akstur. Þetta er í stuttu máli REV í ferðalagaútfærslu, hlaðinn ýmsum aukabúnaði til að gera aksturinn sem þægilegastann. Sem fyrr eru ýmsar vélar í boði en væntanlega verður 800 vélin vinsælust.

Legend

Eins manns ferðasleðarnir frá Ski-doo hafa gengið undir nafninu Legend undanfarin ár en nú er þetta nafn einnig látið ná yfir tveggja manna ferðasleðana. Nafnið Grand Touring heyrir því sögunni til. Legend kemur í “hefðbundna” boddíinu og er ekki að sjá miklar breytingar á milli ára. Vélarstærðir eru 600, 700 og 800, að ógleymdum fjórgengissleðanum.

Summit

Ski-doo var fyrsti framleiðandinn til að smíða sérstakan fjalla- eða klifursleða. Þetta var Summit 580 árgerð 1994 og muna eflaust margir eftir einum fyrsta sleðanum af þessari gerð hérlendis sem Vilhelm Ágústsson keypti. Árið 2004 markar því viss tímamót þar sem Summit á 10 ára afmæli. Raunar eru nokkrar vikur síðan Ski-doo afhjúpaði Summit 2004 en hann byggir að sjálfsögðu á REV. Það sérstaka við þessa sleða er að þeir koma á 16″ breiðu belti í stað hins hefðbundna 15″ beltis sem algengast er. Í þessari útfærslu segir Ski-doo að 144″ langa beltið gefi sama flot og 151″ langt belti hjá öðrum. Einnig býður Ski-doo Summitinn með 151″ og 159″ beltislengd. Allt er gert til að hafa sleðana sem léttasta enda hefur það tekist bærilega. Nýtt og léttara sæti lítur m.a. dagsins ljós og raf-bakkgírinn er staðalbúnaður. Án efa frábærir sleðar í brekkurnar.

Hafðist í þriðju tilraun

Hitavandamál á heimleiðinni.

Hitavandamál á heimleiðinni.

Síðastliðinn fimmtudag fór hópur sleðamanna af Öxnadalsheiði áleiðis í Gæsavötn. Erindið var að koma þangað rafgeymi sem tekinn var heim í vinnuferð í Gæsavötn skömmu eftir áramót. Búið var að gera tvær tilraunir til að fara með rafgeyminn en ekki tekst, sem segir meira en mörg orð um aðstæður til fjallaferða að undanförnu. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Brottför var auglýst kl 16:00 á fimmtudaginn. Annar verðlaunahafana frá síðustu árshátíð EY-LÍV var eins og spenntur rottubogi og var tilbúinn löngu fyrir hádegi. Þó fór svo að spennan varð of mikil og bíða varð um stund eftir kappanum. Tekið var af á Öxnadalsheiðinni og er snjór í Kaldbaksdalnum í minna lagi, en vel fær. Lögð var til aftaníþota sem nota átti fyrir gaskút og rafgeyminn. Þotan var ekki alveg í stuði því hún gafst upp eftir 500 m. Fjallið uppi er hinsvegar hreint frábært, rennislétt og nægur snjór. Þegar innar er komið og farið að nálgast Fossárdrögin fer snjór minnkandi og best er að taka slaginn vel austur fyrir Geldingsárdrögin, nær allt að Lambalækjardrögum. Þá er þetta í góðu lagi. Einn stimpill yfirgaf okkur á síðustu kílómetrunum í Laugafell svo taka varð snæri til kostanna.

Í Gæsavötn og aftur heim

Á föstudagsmorgni skiptu menn liði. Sá stimpillausi fór í snæri áleiðis heim en hinir voru búnir að koma rafgeyminum fyrir aftána „trukknum“ hjá Geir, sem var bara ánægður með þyngdina. „Hann fýkur ekki á meðan.“ Farið var austur í Sandbúðir í fínu færi og merkilegt nokk, þar stendur skálinn þrátt fyrir að vindhraði hafi tvisvar slegið í 100 m/sek á síðustu vikum. Ekki einusinni snjór inni og allt í stakasta lagi. Heldur varð færið rýrara er austar dró. Miklar þræðingar voru í gengum hraunið og svellklammar í öllum lægðum eftir leysingar að undanförnu. Snjólaust var á Skjálfandafljótsbrú og enn minni snjór frá brúnni og upp í Gæsavötn. Þar, líkt og í Sandbúðum var allt í gotti. Þá var rafgeymirinn loks kominn á áfangastað eftir tvær árangurlausar tilraunir.

hemmi7

Sér niður að Hjörvarsskála. Þar er enginn vaknaður.

Á heimleiðinn skiptust á skin og skúri. Sólin braust fram með látum um stund en alveg skyggnislaust var þess á milli. Farið vara um Sandbúðir, Galtaból og Landakot. Eitthvað bar á hitavandamálum, sem enginn skildi af hverju stöfuðu. Nokkru sinnum þurfti að stoppa vegna þessa og aldrei sá sami er átti í hlut.

Kalt mat eftir túrinn

Þarna voru nokkrir að taka nýju sleðana sína til kostanna. Ljóst er að glottið á Steina Pé er ekkert að minnka og Benni er aldrjúgur með Skíddann, ef hitamælirinn er undanskilinn. Geir varð hálf hissa í ferðalok, ekkert bilaði og allt virkaði, enda kominn með hálfnýjan trukk. Júlli brosti eins og venjulega en hafði fulla ástæðu til að þessu sinni, enda kominn á Polaris-búðing. Hann getur a.m.k. tekið allt nestið sitt með núna án þessa að hafa þotu. Prófaði að taka bæði stökk og dýfu og það gekk eftir. Að vísu datt eitthvað smálegt úr sambandi. Formaðurinn fór bara hálfan túr og sparaði bensín á heimleiðinni. Sennilega er gamli sleðinn ekki eins góður og sögur herma. Verðlaunahafinn er enn á gamla sleðanum, sleða sem hætt er að framleiða. Komst að vísu hjálparlaust. Hann á ekki von í að taka verðlaunin að ári ef fram heldur sem horfir.

Áhugaverður Arctic Cat 2004

Þá hefur Arctic Cat kynnt 2004 árgerðina. Líkt og hjá Yamaha og Polaris, sem áður höfðu kynnt sína sleða, er fáar stórvægilegar nýjungar að sjá í fljótu bragði en þó leynist ýmislegt áhugavert undir ef betur er að gáð. Arctic Cat menn eru að fylgja eftir góðu ári þar sem þeir kynntu m.a. hinn vinsæla Firecat og horfa án efa með bjartsýni fram á veginn (eða snjóinn). Ef litið er yfir framleiðslulínuna er að sjá sem hún hafi verið einfölduð en þó þannig að í raun eru enn fleiri módel í boði en áður. Þannig ætti hver og einn að geta fundið sleða við hæfi. Valið er þó lang í frá auðvelt því Arctic Cat er með marga afar áhugaverða sleða. Sem fyrr er EFI í boði á mörgum sleðum, nokkuð sem kettirnir hafa fram yfir flesta aðra. En lítum þá á helstu sleðaflokka.

Firecat

Eldkettirnir slógu hressilega í gegn í fyrra og fyrir 2004 eru alls 12 útgáfur í boði. Það eru þrír litit (rauður, svartur og grænn), þrjár vélarstærðir (500 F5, 600 F6 og 700 F7) og þrjár grunngerðir með mismunandi búnaði (Standard, Sno Pro og EXT, sem stendur fyrir Extended Track). F6 og F7 eru boðnir bæði sem EFI og með blöndungum. Standard útfærslan er með 1″ spyrnum í belti og hefðbundinni fjöðrun, Sno Pro er með keppnisfjöðrun og annað hvort 1″ eða 1-3/8″ spyrnum og EXT er með hefðbundna föðrun og 144”x1-1/4″ belti.

ZR 900

Í ZR-línunni er nú aðeins 900 mótorinn í boði og er hægt að fá hann í fjórum sleðagerðum. Þ.e. með blöndungum eða EFI og með standard eða Sno Pro fjöðrun. Litirnir eru rauður, grænn eða svartur. Eitt það áhugaverðasta við þennan sleða er ný útfærla af drifi þar sem hið hefðbundna keðjuhús er horfið. Þetta kalla þeir Arctc Cat menn ACT Diamond Drive system.

Sabercat

Sabrecat er ný lína frá Arctcic Cat, sleði sem byggir á Firecat og leysir Zl af hólmi. Í raun má segja að þetta sé aðeins mildari útfærsla af Firecat, með t.d. sama byggingarlag og sömu útfærslu á mótor, en hentugri til lengri ferða. Það eru 10 útfærslur í boði. Vélarstærðir eru 500cc, 600cc, 600cc EFI og 700cc EFI. Grunngerðirnar kallast Standard, LX og EXT, hver um sig með mismunandi búnaði.

T660 Turbo

Arctcic cat reið á sínum tíma á vaðið með fjórgengisvél í sleða og er um að ræða 660 cc þriggja strokka mótor. Nú er búið að skella á hann túrbínu og við það hoppar aflið upp í heil 110 hestöfl. Blaðamenn Maximum Sled sannreyndu að sleðinn nær a.m.k. 100 mílna hraða og ætti því að vera nokkuð skemmtilegur. Hann stenst þó engan samanburð við RX-1 frá Yamaha. Sleðann er einnig hægt að fá í touring-útfærslu og þá með eða án túbínu.

Pantera

Panteran er óbreytt frá fyrra ári. Álitlegastar eru 600 EFI og 800 EFI sem eru hlaðnar búnaði, m.a. með farstarti! Litasamsetningin er vissulega sérstök þar sem gyllti liturinn er allsráðandi.

Mouintain

Maður spyr sig óneitanlega hvenær kapphlaupið um að bjóða lengsta beltið tekur enda. Arctic Cat kom á síðasta ári fram með 1M 900 á 151″ belti sem var bæði kraftmeiri og léttari en hjá keppinautunum. Polaris “yfirbauð” þá í beltislengd með 159″ beltinu á Vertical Esp. en nú bætir Arctic Cat um betur og kynnir til sögunnar King Cat á 162″ x 2-1/4″ belti, sem á þó að vera léttara en 159″ beltið. Ekkert er til sparað til að hafa sleðann sem léttastann en um er að ræða svokallaða “vorútgáfu” þ.e. fyrir þá sem panta snemma. Hefðbundni fjallakötturinn er boðinn á 151″ eða 159″ belti með 800 eða 900 vél (með eða án EFI) og hægt er að fá 600 EFI á 144″ belti.

Álitlegt sleðafæri á norðurhálendinu

Jeppamenn úr Eyjafirði og Húsavík fóru upp úr Bárðardal um helgina og inn í Laugafell. Á ýmsu gekk enda víða krapi undir snjónum. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðalýsingu og myndir.

Þeir sem fóru á föstudag voru eina 13 klukkutíma að komast í Laugarfell. Þeir hrepptu versta veður og svo er allstaðar vatn undir snjónum eftir hlákur undanfarna daga.

Við fórum tveir af stað kl 5 á laugardagsmorgun. Þá var enn suðvestan fræsingur, bjart uppyfir en lága renningur. Framanaf var auðvelt að sjá hvar hópurinn frá föstudeginum hafði stungið sér til sunds en þegar innar dró versnaði veðrið og erfiðara var að sjá eitthvað hvernig landið lá. Endaði með að við sökktum öðrum bílnum í krapa. Snjór var yfir krapanum svo ekkert sást hvar krapinn var og hvar ekki. Þegar ekki var hægt að sneiða fram hjá dokkum og dældum vegna skyggnis fór sem fór. Eftir einn og hálfann tíma náðum við bílnum aftur upp og brunuðum af stað. Þegar komið var upp að Kiðagilshnjúk var komið fínt færi, sérstaklega fínt sleðafæri. Krapinn leyndist undir allt þar til komið var í yfir 850 hæð en þá varð minna um vatnið. Þræða varð hæðirnar mjög norðarlega vestur í Laugafell. Vorum 7 tíma á leiðinni. Veðrið var nú orðið alveg “bongo” og rétt að taka eina bunu upp í Landakot því eini möguleikinn var að vera nógu “hátt uppi” Greinilega hefur mikið gengið á í veðrinu undanfarið eins og sést á myndunum af skálanum.

Stefnan var upphaflega tekin á Gæsavötn með rafgeyminn en sú ferð verður að bíða um stund. Ljóst er að það þarf töluvert frost til að frysta krapann því það er svo mikill snjór yfir honum. En sleðafærið er gott þótt snjór sé í minna lagi, sérlega í og við Laugafell. Myndir og texti: Smári Sig.

Aukinn og endurbættur Polaris 2004

Þetta verður ár endurbóta en ekki mikilla nýjunga hjá Polaris. Það var ljóst eftir að 2004 árgerðin var kynnt fyrir blaðamönnum vetsanhafs nú í vikunni. Vonbrigði segja sumir en þó er e.t.v. réttara að segja að Polarismenn séu trúir þeirri stefnu sinni að stökkbreytingar séu ekki vænlegar til árangurs í vélsleðabransanum.

Og hver getur líka með góðri samvisku haldið því fram að þetta sé röng stefna. Höfum í huga að enginn framleiðir fleiri sleða árlega en Polaris og enginn býður jafn fjölbreytt úrval sleða, alls 39 mismunandi módel. Er það ekki einmitt þessi árangur sem telur þegar öllu er á botninn hvolft.

Þrátt fyrir hið mikla úrval eru ýmsir grunnþættir sameiginlegir. T.d. eru allar 500, 600, 700 og 800 Polaris-vélarnar útbúnar með hinum sniðuga búanði sem snýr kveikjunni við, þ.e. með rafrænum “bakkgír” og endurbættu kælikerfi sem eykur kæligetuna um allt að 40%. Stærri vélarnar eru einnig með búnaði sem seinkar kveikjunni ef vélin hitnar of mikið. Allir sleðar með Polarisvélum fá nýja gerð af kúplingu. Raunar eru aðeins örfáir sleðar sem enn eru með Fuiji-vélar og síðan er Frontier með fjórgengisvél áfram í boði. Nánast allir sleðar fá einnig nýja og öfluga bremsu. Ný gerð af belti kemur á nokkra sleða og þannig mætti áfram telja.

En lítum þá á sleðana og byrjum á Pro X línunni sem fyrst var kynnt í fyrra. Þar eru 8 módel í boði með mismunandi vélarstærðum. Þeir sem eru fyrir mestu átökin renna eflaust hýru auga til Pro X2 en hann er með sæti svipað og keppnissleðinn, öflugri dempara o.fl. Fyrir þá allra villtustu er síðan Pro XR sem er í raun 440 keppnissleðinn með 800 vél!

Næsti flokkur kallast XC SP og þar eru þrjár vélarstærðir í boði, 600, 700 og 800. Þetta eru vel búnir sleðar með góða akstureiginleika og ættu að uppfylla þarfir allra “venjulegra” ökumanna. Ný gerð af sæti og afturljósi er kynnt á þessum sleðum og gefur forsmekkinn af því sem kemur á næsta ári á öðrum sleðum, ef að líkum lætur.

Millilangir sleðar á 136″ belti hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Polaris hefur boðið SKS í þessum flokki en nú hefur hann fengið nýtt nafn, Switchback, og er kominn á 144″ belti. Þetta er blanda af góðum aksturssleða og sleða sem hentar í púðrið og mun án efa seljast vel.

Í ferðageiranum eru tvær línur í gangi, Classic, sem er geysilega vel búinn sleði með einföldu sæti og stuttu belti og tveggja manna sleðarnir koma á 136″ belti og kallast EDGE Touring. Ýmsar vélarstærðir eru í boði, allt frá 340 loftkældum upp í hina öflugu 800 vél. Loks eru það RMK púðursleðarnir. Í þeim er nú að finna ýmsilegt af því sem kynnt var í Vertical Escape í fyrra en hann var eins og menn muna valinn sleði ársins.

Sem fyrr segir kann sumum að þykja full lítið af nýjungum hjá Polaris þetta árið en þær eru þó ýmsar ef betur er að gáð og rakið var hér að framan. Gleymum heldur ekki að 2005 eru merk tímamót hjá Polaris en þá munu menn fagna því að hálf öld verður liðin frá upphafi fyrirtækisins. E.t.v. er stærri tíðinda að vænta þá.

Yamaha 2004

2003rx1

RX-1. Ári eftir að hann kom á markað hafa keppinautarnir ekki enn fundið svar. Þetta er sannarlega eini sleði sinnar tegundar.

Yamaha er samkvæmt venju fyrsti framleiðandinn til að kynna 2004 árgerðina af sleðum en hulunni var svipt af henni vetur í Bandaríkjunum fyrr í dag. Eftir að hafa varpað sprengju inn á markaðinn fyrir ári síðan með RX-1 fjórgengissleðanum og kynnt hinn geysivinsæla Viper fyrir tveimur árum, má segja að breytingarnar hjá Yamaha séu smærri í sniðum að þessu sinni. Þó eru ýmsar nýjungar á ferðinni, m.a. ný útfærsla af RX-1 á 136 tommu belti og ný Venture 700 ferðasleði

Grunngerðin af RX-1 á stuttu belti kemur að mestu óbreytt, enda reynst vel. Sleðinn fær þó nýja gerð af belti frá Camoplast (Rip Saw track ) sem á að gefa enn betri spyrnu. Þetta nýja belti kemur raunar á flestum sleðunum. Einnig má nefna nokkrar minniháttar “fíniseringar”, svo sem endurbætta úrfærslu á hita í handföngum og bensíngjöf, sleðinn hefur verið léttur um 2,5 kg að framan og fleira mætti telja.

RX Warrior er ný útfærsla á RX-1, þ.e. nánast sami sleði og RX-1 en með 136 tommu belti. Honum er ætlað að keppa við t.d. SKS frá Polaris og Renegate frá Ski-doo sem báðir hafa notið mikilla vinsælda. Þessi vinsæla beltislengd er tilraun til að búa til sleða sem hentar sem flestum aðstæðum, þ.e. með meira flot en stuttbeltasleðarnir en betri akstureiginleika en púður- eða klifursleðar á beltum yfir 140 tommur. Warrior er með nýrri útfærslu af afturfjöðrun sem á að vera mjög einfalt að stilla.

SXViperX er annar nýr sleði. Þetta er hreinræktaður sportsleði byggðir á hinum vinsæla og gullfallega Viper sem margir vilja meina að sé einn flottasti sleði sem smíðaður hefur verið. SXViperX er hlaðinn búnaði, m.a. Ohlins dempurum.

SXVenom er líka nýtt nafn en þar er a ferðinni endurfæðing sleða með 600 þriggja strokka mótornum sem ekki var í framleiðslulínunni fyrir árið 2003.

Fyrir ferðadeildina kemur Yamaha með mjög spennandi kost í nýrri Venture 700. Sleðinn hefur nú fengið vélina úr Viper og einnig sama flotta útlitið. Stjórntækin og mælaborðið er hið sama og í RX-1. Þetta er m.ö.o. aflmeiri og flottari sleði en fyrirrennarinn og tilbúinn að takast á við hvaða fjöll sem er.

Mountain-sleðarnir frá Yamaha koma að mestu óbreytir frá fyrri árgerð en þó allir með einhverjum smá endurbótum. Þetta eru RX-1 á 151×2 tommu belti, SXViper á 144×2 tommu belti og hinn þrautreyndi Mountain Max 700 á 141×2 tommu belti.

Nú hefur Yamaha sem sagt lagt sín spil á borðið og þá er bara að bíða og sjá hverju hinir framleiðendurnir svara.

Innréttingaferð í Gæsavötn

Um helgina var farin vinnuferð í Gæsavötn í þeim tilgangi að setja upp nýja eldhúsinnréttingu. Einstök veðurblíða var allan tímann og kom í ljós að snjóalög á hálendinu eru mun betri en flestir í byggð virðast telja.

Það var alls 14 manna hópur úr Eyjafirði og frá Húsavík sem stefndi inn í Gæsavötn á föstudagskvöldið. Húsvíkingar, þ.e. Ingi Sveinbjörns., Ingunn og Helga dóttir þeirra, voru fyrri til að leggja af stað og voru búin að koma góðum hita í skálann þegar Eyfirðingar mættu um miðnættið á 5 bílum. Þar voru á ferð Benni á Bílvirkja, Hreiðar í Vín, Jón Björns., Jósavin, Ingólfur bakari, Sigurgeir Steindórs., Steindór sonur hans, Halldór Jóns., Þorgerður og Smári Sig. auk síðuhöfundar. Ekið var upp Eyjafjarðardal og þegar upp var komið tekin stefna í Galtaból, síðan í Sandbúðir, þaðan norðan við Fjórðungsöldu með stefnu á Jökulfallið og loks á brúna yfir Skjálfandafljót. Færið var frábært fyrir jeppa en þegar komið var upp á brún Eyjafjarðardals var nægur snjór til að aka nánast beint af augum, rennislétt og mjúkt.

Innréttingasmíð og útsýnisferð

Sem fyrr segir var erindið að setja upp nýja eldhúsinnréttingu, nánar tiltekið nýja neðri skápa ásamt eldavél. Eftir morgunkaffi var hafist handa við að taka gömlu innréttinguna niður og undirbúa uppsetningu á þeirri nýju. Fljótlega kom í ljós að 28 vinnufúsar hendur var algert offramboð miðað við umfang verkefnisins. Þeir sem ekki komust að styttu sér helst stundir við að hnýta í smiðina og setja út á verkið. Því þótti snemma ljóst að það myndi vinnast mun betur ef fækkað yrði á staðnum. Um hádegisbil lagði meginþorri hópsins upp í útsýnisferð, enda veðurblíðan hreint einstök, en þeir sem helst kunnu til verka við smíðar urðu eftir til að koma innréttingunni fyrir. Ekið var upp á Gæsahnjúk og þaðan tekin stefnan á Trölladyngju. Vandræðalaust var að komast á toppinn og tók þá við smá leikaraskapur í gígnum. Að því loknu var ekið til baka í Gæsavötn og var þá innréttingasmíði nærri lokið. Hluti hópsins fór heim um kvöldið en afgangurinn sló upp stórveislu.

Heim á leið í vetrarblíðu

Í morgun, sunnudag, var enn vaknað í einmuna blíðu, heiðskíru veðri með 8 siga frosti og logni. Eftir þrif á skálanum var ekið vestur yfir Skjálfandafljót, að Fjórðunungsöldu og upp á hana. Síðan niður að Sandbúðum og tekið kaffistopp, Nú skildu leiðir. Húsvíkingar stefndu til byggða niður Bárðardal en þeir sem eftir voru af Eyfirðingum renndu í bað í Laugafell og síðan heim um Eyjafjarðardal.

Þéttur og góður snjór

Sem fyrr segir er frábært jeppafæri á þeim hluta hálendisins sem ekið var um. Víðast er nægur snjór þannig að hægt er að aka beint af augum og færið einstaklega slétt og mjúkt. Sleðafæri er einnig ágætt á köflum, þ.e. á svæðinu upp af Eyjafirði og austur fyrir Sandbúðir. Þar fyrir austan er heldur þynnri snjór. Almennt má segja að snjóalög lofi mjög góðu fyrir veturinn. Sá snjór sem er kominn er mjög þéttur og góður og því ákjósanlegt undirlag. Þannig eru öll skilyrði fyrir hendi til þess að þetta verði með allra bestu ferðavetrum á fjöllum. texti: Halldór A. Myndir: Halldór A og Halldór Jóns.

Vélsleðaannáll 2002

Við áramót tíðkast að líta um öxl og rifja upp það sem hæst bar á gamla árinu. Því er ekki úr vegi að renna yfir hvernig vélsleðaárið 2002 kom lesendum Sleðasíðu HA fyrir sjónir. Eins og jafnan þegar annálar eru annars vegar er mjög stiklað á stóru.

Janúar:
Stærstu tíðindi janúarmánuðar voru án efa þegar Yamaha öllum að óvörum afhjúpaði RX-1, fyrsta „alvöru” fjórgengissleðann sem er samkeppnisfær í hópi öflugustu tvígengissleða. Menn áttu vart til nógu stór lýsingarorð í fórum sínum enda stökkið í raun stærra en nokkurn gat órað fyrir. Þó nokkrir sleðar hafa selst hérlendis og ekki annað vitað en að sleðinn standist þær væntingar sem til hans eru gerðar. Hann er vissulega talsvert þyngri en tvígengissleðar en ætti engu að síður að geta hentað ýmsum vel, t.d. til ferðalaga.
Arctic Cat komst einnig í fréttirnar í janúar. Þá var boðuð koma tveggja nýrra sleða sem síðan voru settir á markað í Bandaríkjunum í lok mánaðarins. Stóru tíðindin voru þau að báðir eru með 900 cc tveggja strokka vél og Kattarmenn því fyrstir til að bjóða slíkt. Einn slíkur sleði í Mountain Cat útfæslu rataði til Íslands ekki löngu síðar. Þá boðaði Arctcic Cat einnig komu 2003 árgerðarinnar þar sem Firecat sleðarnir vöktu verðskuldaða athygli, enda mögnuð tæki eins og eigendur þeirra hérlendis hafa þegar sannreynt.
Frá Haftækni bárust þær fréttir að búið væri að útbúa Íslandskort fyrir Garmin GPS tæki. Góðar fréttir fyrir ferðakarla og kerlingar.
Af snjóalögum á Íslandi voru ekki eins upplífgandi fréttir. „Nú er það svart á hálendinu“ hljóðaði fyrirsögn 7. janúar en þar sagði af jeppaferð inn í Gæsavötn helgina á undan.

Febrúar:
Framleiðendur héldu áfram að kynna 2003 árgerðina í febrúar. Ski-doo kom fram með REV-sleðana og menn fengu vart vatni haldið af hrifningu. Einnig var kynnt 800 vél með nýrri gerð af innspýtingu, SDI, sem sögð var marka tímamót í smíði tvígengisvéla fyrir vélsleða.
Hér heima komust Eyfirðingar fyrstu ferð vetrarins á sleða inn í Laugafell. Þá var komið fram í miðjan febrúar sem sagði meira en mörg orð um snjóalögin framan af vetri. Ferðalangar báru nú þær fréttir af snjólaögum á hálendinu að þau væru öll að koma til. Inn á Glerárdal var þá einnig kominn góður snjór og lyftist nú heldur á mönnum brúnin. Keppnisvertíðin hófst með móti á Dalvík þar sem Alexander „Lexi“ Kárason stóð sig manna best og tilkynnt var um að þættir um snjókrossið yrðu sýndir í Ríkissjónvarpinu þá um veturinn. Þá bættist nýr vefmiðill við þegar snow.is fór í loftið.
En því miður voru ekki allar fréttir mánaðarins jafn ánægjulegar. Þá lést á 63. aldursári, Tómas Eyþórsson, fyrrverandi umboðsmaður Polaris á Íslandi. Tómas var umboðsmaður fyrir Polaris í hátt í þrjá áratugi og er óumdeildanlega einn af þeim sem eiga hvað drýgstan þátt í þróun sleðamennsku hér á landi. Með brotthvarfi hans lauk ákveðnum kafla í þeirri sögu.

Mars:
Polaris kynnti 2003 árgrðina til sögunnar í mars og innihélt hún m.a. nýju Pro X línuna og Vertical Escape púðursleðann. Þá kynnti Blade áform sín um nýjan fjórgengissleða með 1.500 cc vél.
Í Bandaríkjunum lauk WSA-mótaröðinni og það var Arctic Cat ökumaðurinn Tucker Hibbert sem stóð uppi sem meistari í bæði Pro Stock og Pro Open, þrátt fyrir að helsti keppinautur hans, Blair Morgan á Ski-doo, inni sigur í báðum flokkum í lokakeppninni. Af keppnismálum innanlands bar Mývatnsmótið hæst og þar sigraði einnig samni maður bæði í Pro Stock og Pro Open. Sá ók hins vegar Lynx og heitir Halldór „Wisegrip“ Óskarsson.

Apríl:
Aprílmánuður rann upp bjartur og fagur og var nú ekið sem aldrei fyrr. EY-LÍV stóð til að mynda fyrir vel heppnaðri ferð í Skagaförð og í Kerlingafjöllum héldu menn mikið mót og blautt. Keppnismenn létu ekki sitt eftir liggja og flugu um loftin blá á fákum sínum. Yfir Atlantshafið frá Bandaríkjunum flugu einnig nokkrir kappar til að taka þátt í alþjóðlegu móti í Ólafsfirði og sýndu góða takta. Síðustu helgina í apríl lauk keppnistímabilinu með móti á Egilsstöðum og varð Árni Þór Bjarnason Íslandsmeistari í Pro Open en Alexander Kárason í Pro Sport. Nýju Lynxsleðarnir af 2003 árgerðinni voru einnig kynntir undir lok mánaðarins.
Frá Jöklarannsóknafélaginu bárust þær fréttir í apríl að nánast allir jöklar landsins hafi hopað á árinu 2001 en félgið sjálft sótti engu að síður fram og kom fyrir nýjum skála í Esjufjöllum um miðjan mánuðinn.

Maí-september:
Þegar kom fram í maí fór heldur að hægjast um þótt menn héldu áfram að aka grimmt og færu í magnaðar vorferðir þar sem veðurblíðan lék við menn. Helst bar til tíðinda í þessum ferðum hjá Eyfirðingum að þær kostuðu óvenju marga driföxla. Voru sumir einnig gripnir með allt niðir um sig. Þær fréttir bárust einnig að sala á vélsleðum hefði dregist lítillega saman á milli ára, skv. tölum frá Samtökum vélsleðaframleiðenda (ISMA). Sleðamenn af öllu landinu hittust á vel heppnuðu „Sumar-djambori“ á Langjökli og í september opnaði Félag vélsleðamanna í Eyjafirði, EY-LÍV, eigin heimasíðu.

Október.
Í október fór að færast líf í tuskurnar á nýjan leik. Húsvíkingar gengust fyrir grasspyrnu en sýndu hins vegar takmarkaða gestrisni og „jörðuðu” keppinauta sína í brautinni.
Landsfundur LÍV var haldinn á Hveravöllum og tókst vel í alla staði. Jón Birgir hélt dauðahaldi í forsetastólinn við mikla hrifningu viðstaddra, enda staðið sig með sóma. EY-LÍV hélt einnig aðalfund sinn og þar var svipað uppi á teningnum. Formaðurinn neitaði að víkja. Á aðalfundi LÍV var upplýst um þreifingar Reykjavíkur-LÍV-félaga um aðgengi að endurvarpakerfi 4×4 klúbbsins og varð það að veruleika nú ekki alls fyrir löngu.
Breytingar urðu á umboðsmálum þegar Arctic Trucks tók við umboðinu fyrir Yamaha af Merkúr.

Nóvember:
Í síðari hluta október snjóaði drjúgt fyrir norðan og fyrstu daga nóvembermánaðar freistuðu nokkrir bjartsýnismenn þess að komast á sleðum upp úr Eyjafirði og inn í Laugafell. Það tókst, enda harðsnúið lið á ferð.
Félögin héldu sýningar sínar og árshátíðir í síðari hluta mánaðarins og var mikið um dýrðir samkvæmt venju.

Desember:
LÍV-Reykjavík var með aðalfund í byrjun desember og settu formanninn á. Einnig brast á með sumarblíðu um allt land með óæskilegum afleiðingum fyrir snjóalög. Reyndir sleðamenn héldu þó ró sinni til fullnustu og þóttust vita að snjórinn kæmi á endanum. Þegar að var gáð reynist líka vera nokkur snjór hærra uppi og óku menn nokkuð grimmt undir lok ársins.