Reynsluakstur á MX Z Renegade 600 SDI H.O.

Eins og fram hefur komið fékk Sleðasíðan um síðustu helgi til prófunar nýjan sleða, Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI H.O. Þetta er sleði sem kynntur var í byrjun janúar sl. og telst því vera 2005 árgerð. Hér er skellt saman í einn pakka nýju belti (136×16 tommur) og hinni háþróuðu 600 SDI vél. Hver er svo útkoman? Þið getið fræðst nánar um það hér að neðan. Myndirnar tóku auk undirritaðs þeir Sigurgeir Steindórsson, Smári Sigurðsson og Sævar Sigurðsson.

Óslitin sigurganga

Þann 9. desember 2001 birtist hér á Sleðasíðunni frétt sem byrjaði á þessa leið: “Fjörið í snjókrossinu vestanhafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn.” Þótt flestir hafi eflaust á þessum tímapunkti gert sér grein fyrir að tilkoma hins nýja sleða væru mikil tíðindi, hefur líkast til fáa órað fyrir hversu hve miklar breytingar voru í raun framundan. Ski-doo var hér að hefja mikla sigurgöngu sem staðið hefur óslitið síðan. Á það bæði við um keppnisbrautina og sölu á almennum markaði, þar sem þeir tróna nú í toppsætinu sem söluhæsti framleiðandinn.

REV-byggingarlagið tekur völdin

Með þessum byltingarkennda keppnissleða var Ski-doo að leggja grunnin að sleðum sem gengið hafa undir samheitinu REV og íslenskir orðspekingar tóku snemma upp á að nefna “refinn”. Því fer þó fjarri að um einn sleða sé að ræða heldur er REV-skammstöfunin samheiti yfir þetta nýja byggingarlag sem síðan hefur verið að ná til sífellt stærri hluta af framleiðslulínu Ski-doo. Fyrstu sleðarnir fyrir almennan markað voru kynntir rúmu ári eftir að keppnissleðinn var afhjúpaður, þ.e. frá og með 2003 árgerðinni. Nú er þetta byggingarlag að kalla má allsráðandi hjá Ski-doo.

Hver var breytingin?

REV-skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið höfðu ráðandi í vélsleðum. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðann til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hafði fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sæti því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita standa ökumenn meira og minna alla keppnina og hönnun REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr 20-30 cm framar en áður tíðkaðist og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum.

Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin var færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” Ski-doo af eldri gerð. Í REV á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum. Það er heila málið. Loks tókst með REV-boddíinu að létta sleðann verulega.

Leitin að hinum fullkomna sleða

Sem fyrr segir hefur REV-byggingarlagið verið að taka yfir alla framleiðslulínu Ski-doo og í byrjun janúar sl. var fyrsti sleðinn af 2005 árgerð kynntur, MX Z Renegade með 600 SDI vél og 136×16 tommu belti. Þetta er sá sleði sem er til prófunar að þessu sinni. En eftir hverju er Ski-doo að sækjast með þessum nýja sleða? Við skulum strax átta okkur á því að vélsleði er ekki bara vélsleði heldur eru þeir jafn fjölbreyttir og útfærslurnar eru margar. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. mjög við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vélarstærðin er annað atriði. Stærri vél þýðir meira afl en líka oft meiri eyðslu og fleiri kíló.

Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Gallinn við slíkar málamiðlanir getur verið sá að þá standi menn upp með sleða sem stendur sig ekki vel á neinu sviði. Hins vegar hafa svona “blendingssleðar”, sem gjarnan er einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina, notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri.

Engin málamiðlun

Hinn nýi MX Z Renegade er skýrt dæmi um svona sleða. Forsvarsmenn Ski-doo fullyrða að hér sé engin málamiðlun á ferðinni en hvað sem því líður er a.m.k. ljóst er að með smíði hans hefur verið stigið skrefi lengra í að búa til þennan alhliða sleða sem svo marga dreymir um. Í þessu skrefi felst m.a. að breikka beltið um eina tommu, úr 15 tommum í 16. Þannig er hægt að hafa það styttra en á “hefðbundnum” fjallasleðum, ná samt sama gripfleti og floti en með sleða sem er liprari í snúningum og þægilegri í akstri. Þannig er gripflötur Renegade 600 með 136×16 tommu belti sá sami og á 144×15 tommu beltum keppinautanna. Val er um tvær gerðir af spyrnum, þ.e. 44,5 mm (1,75”) eða 31,8 mm (1,25”) og var prófunarsleðinn á fínna beltinu. Þetta nýja belti virðist koma vel út. Að vísu gafst ekki kostur á að reyna sleðann í púðursnjó þannig að ekki reyndi fyrir alvöru á flotið en spyrnan var mjög góð. Þá var sleðinn áberandi lipur í snúningum þannig að allt virðist benda til að markmið Ski-doo varðandi beltisgerðina hafi náðst.

Annað meginmarkmið var að smíða sleða með öflugri en þó sparneytinni vél. Þarna virðist Ski-doo svo sannarlega hafa hitt í mark því 600 SDI vélin er hreinasta undur, eins og nánar verður komið að síðar.

Vel búinn sleði

Hinn nýi Renegade er vel búinn sleði og fátt sem hægt er að sakna. Aftan við sætið er ágætt lokað geymsluhólf fyrir ýmsa smáhluti og jafnvel nesti til dagsins. Síðan kemur hann með ágætri farangursgrind sem er tilbúinn til að taka við auknum farangri. Hægt er að fá auka eldsneytisbrúsa sem ætlað er sérstakt pláss aftan við sætið og nær raunar innundir það. Hiti í handföngum og bensíngjöf er að sjálfsögðu staðalbúnaður og sama er að segja um hinn frábæra snarvendu bakkgír. Ég er einn af þeim sem sjaldan hef saknað rafstarts og því pirraði mig ekkert að slíkt skuli ekki koma sem staðalbúnaður í þessum sleða. Það þarf heldur ekki að toga nema tvisvar í spottann þótt sleðinn sé alveg kaldur og þar kemur SDI innsprautunin til sögunnar. Fyrst er togað einu sinni til að skynjararnir fái að vinna sitt verk og síðan aftur. Þá dettur sleðinn í gang og malar ljúflega.

Menn skiptast nokkuð í tvö horn varðandi útlit REV-sleðana. Sjálfur myndi ég seint telja þá í hópi fallegustu sleða en hef þó orðið sáttari við þá með tímanum. Hvað sem um útlitið má segja er hins vegar ekki hægt að deila um að hönnunin er snjöll og vel hugsuð. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að opna hliðarnar alveg úr fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Þessi sleði er með meðalhárri rúðu sem mér finnst passa honum vel. Ég hef séð menn kvarta undan því að rúðan á REV þyrfti að skýla ökumanninum betur. Ég sé enga ástæðu til að setja út á þetta atriði því þótt rúðan sé mjó fannst mér hún veita dágott skjól. Á það ber að líta að einstök veðurblíða var þá daga sem sleðinn var prófaður og því var ekki spáð svo mjög í þetta atriði. Smíði og frágangur á sleðanum virtist í fínu lagi og enga “lausa enda” að sjá í þeim efnum.

Þvílík vél!

Hvað skal segja um 600 SDI vélina? Ég var búinn að lesa að hún væri öflugasta 600 vélin á markaðinum – en hugsaði nú samt – þetta er nú bara 600. Eftir fyrsta hringinn var fyrsta hugsunin hins vegar þessi: “Þeir hljóta að hafa misst í hann 800 vél í misgripum.” Þvílík vél! Hún svarar um leið og er komið við gjöfina og sleðinn hreinlega stekkur af stað. Sjálfsagt myndu flestar 800 og 900 vélar hafa betur á endanum en aflið í þessari er yfirdrifið við flestar aðstæður. Í reynsluakstrinum var m.a. spyrnt upp brekkur samhliða 800 RMK og 900 Mountaincat og máttu þeir hafa sig alla við.

Með aflinu er þó ekki nema hálf sagan sögð og varla það. Það á eftir að skrifa um sparneytnina og tæknina. Með SDI innsprautuninni var Ski-doo að koma fram með öfluga tvígengisvél sem mætti auknum kröfum um eyðslu og mengun en án þess að henni fylgdi sú auka þyngd sem er í fjórgengisvélum. Tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Meðal búnaðar er svokallaður “Knock sensor” en það er skynjari sem eykur bensínmagnið inn á vélina ef hætta er á að hún sé að ofhitna, t.d. ef bensínið er lélegt.

Þessi 600 vél er tæknilega þróaðasta vélin frá Bombardier og þegar umtöluð fyrir litla eyðslu, bæði á bensíni og olíu. Eyðsla sleðans var ekki mæld í reynsluakstrinum enda hefði það haft takmarkað gild þar sem sleðinn var enn á fyrsta tanki. En miðað við prófanir erlendis stenst það sem framleiðandinn segir um vélina.Hún stenst þegar væntanlegar mengunarreglugerðir sem taka gildi í Bandaríkjunum að tveimur árum liðnum og þar er Ski-doo því í góðum málum. Þegar þannig fer saman kraftmesta 600 vélin og sú eyðslugrennsta, ja þá er erfitt að sjá að hægt sé að gera betur.

Aksturseiginleikar

Ég hafði aldrei keyrt REV-sleða þegar ég settist upp á þennan og eitt af því sem mér hafði verið tjáð var að menn þyrftu nánast að læra að aka vélsleða upp á nýtt. REV-hegðaði sér svo ólíkt öðrum sleðum. Ég komst fljótlega að því að þetta á ekki við rök að styðjast. Vissulega eru hreyfingarnar aðrar en ég hef vanist en mér fannst ég orðin ágætlega hagvanur eftir tiltölulega stutta stund. Hluti af því er að aksturseiginleikarnir eru einfaldlega það góðir að þér fer strax að líka vel við sleðann.

Við skulum byrja á framendanum. A-arma fjöðrunin að framan er 9,5 tommur. Hún skilar hlutverki sínu með sóma og dugar að benda á úrslit úr snjókrosskeppnum því til sönnunar. Sleðinn stýrir frábærlega og kemur þar væntanlega bæði til byggingarlag hans og skíðin, sem mér líkaði mjög vel við. Hvort skíði er með tveimur samsíða meiðum og þau svínvirka. Lykilatriði er einnig lögunin á skíðinu sjálfu, þ.e. svæðinu á milli meiðanna. Raunar má undrum sæta hversu stutt er síðan sleðaframleiðendur fóru af alvöru að spá í endurbætur á skíðum í ljósi þess að þetta er snertiflötur sleðans við snjóinn og hefur úrslitaáhrif varðandi aksturinn. Þessi sleði virðist standa býsna fast í skíðin en þó var hann ágætlega léttur í stýri.

Afturfjöðrunin hefur þróast vel hjá Ski-doo undanfarin ár, ekki síst í snjókrosskeppnunum, og nefnist þessi útgáfa SC-10 III. Hún skilar 13 tommu fjöðrun og auðvelt er að stilla hana þannig að hún henti mismunandi þungum ökumönnum, nú eða þá mis mikilli farangurshleðslu ef því er að skipta.

Bæði að aftan og framan er sleðinn með hina háþróuðu tvívirku HPG gasdempara. Þeir eru þannig gerðir að u.þ.b. þriðjungs vegalengd frá hvorum enda eru göt eða framhjáhlaup. Þannig fæst mýkri og þægilegri fjöðrun þegar demparinn er að virka á miðsvæðinu, þ.e. á meðan ójöfnurnar eru ekki mjög miklar, en þegar harðnar á dalnum og álagið á demparann eykst stífnar fjöðrunin þannig að sleðinn slær síður saman. Þannig vill Ski-doo meina að hægt sé að fá eiginleika tveggja mismunandi dempara í einum.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hina breyttu ásetu á REV. Sumir hafa t.d. algerlega hafnað þeirri hugmynd að geta ekki rétt alveg úr hnjánum. Eflaust er einstaklingsbundið hvernig mönnum líkar REV-ásetan en mér líkaði hún vel þegar á heildina er litið. Á löngum akstri getur verið þreytandi að sitja stöðugt með bogin hné en á móti kemur að auðvelt er að standa upp og rétta úr sér þannig. Mestan tíma tók að venjast því að geta ekki fært sig enn framar á sleðann þegar ekið var í hliðarhalla. Maður hefur vanist því að geta lagst fram með stýrinu en hér er hins vegar búið að færa stýrið framar þannig að því er ekki að heilsa. Þetta er því eingöngu huglægt atriði en ekki raunverulegt vandamál því þú ert jú bara framar á sleðanum. Raunar eru tvær stillingar á stýrinu og var það stillt í þá fremri. Stigbrettin eru einnig mjög góð og veita öryggistilfinningu.

Niður brattar brekkur

Um helgina gafst kostur á að reyna sleðann við ýmsar aðstæður en þó vantaði púðursnjóinn. Því reyndi ekki fyrir alvöru á samanburð við löngu sleðana, sem þó hefði sannarlega verið gaman. Færið var eiginlega of gott því yfirdrifið aflið í 600 vélinni skilaði ökumanninum á alla þá tinda sem hann þorði að reyna við. Mér fannst sleðinn góður í hliðarhalla en gat ekki prófað nógu vel hvernig er að skáskera brekkur á þessu breiðara belti, hvort það er hugsanlega erfiðara. Það var fyrst og fremst eitt atriði sem olli nokkrum vonbrigðum en það eru bremsueiginleikar niður brattar brekkur. Auðvelt er að láta sleðann halda vel á móti á meðan brattinn er hæfilegur en í bröttustu brekkunum var hraðinn á niðurleiðinni áberandi meiri en á samanburðarsleðunum, RMK á 144 tommu belti og Mountaincat á 151 tommu belti. Þetta kann að stafa af því að þyngdarpunkturinn sé framar á REV-sleðunum og þ.a.l. hvíli tiltölulega lítil þyngd á beltinu þegar ekið er niður mikinn bratta.

Fyrir hverja?

Ljóst er að Ski-doo ætlar Renegade sleðunum, og ekki síst þessum nýja 600 SDI, stórt og mikilvægt hlutverk. Vélin á að sameina kosti fjór- og tvígengisvéla, þ.e. vera létt og öflug en eyða og menga lítið. Sleðanum er ætlað að sameina kosti fjallasleða og “trail”-sleða án þess að um neina málamiðlun sé að ræða, “no-compromise sled” eins og þeir Ski-doo menn segja. Þessi tveggja daga kynni af sleðanum benda til að sú kunni einmitt að vera raunin, að tekist hafi að sameina í einum sleða marga eftirsóknarverða eiginleika. Þótt ekki hafi reynt á akstur í púðri benti frammistaðan í brekkunum til þess að 800 og 900 fjallasleðarnir megi heldur betur vara sig. Um aksturseiginleikana verður ekki deilt. Þeir eru frábærir. Sleðinn er eyðslugrannur og þannig útbúinn að hann hentar vel til lengri hálendisferða. Ég hef gripið í talsvert marga sleða um ævina og Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI HO er einn af þeim eftirtektarverðustu. Þetta er sleði með skemmtilegan “karakter” og það voru sannarlega þung spor að skila honum aftur.

Plúsar:
Þróuð og aflmikil vél
Fjöðrun
Stýring

Mínusar:
Bremsueiginleikar niður brattar brekkur
Að þurfa að skila sleðanum aftur

Frábær helgi vestan og austan Eyjafjarðar

Nýliðin helgi stendur eftir í minningunni sem ein af betri sleðahelgum sem undirritaður man eftir. Kemur þar margt til. Veðrið var frábært, sleðafærið sömu leiðis, tækifæri gafst til að ferðast um flottustu sleðaleiðir beggja vegna Eyjafjarðar, snjókrossmótið í Ólafsfirði brást ekki frekar en við var að búast og síðast en ekki síst var Sleðasíðan með til afnota glænýjan Ski-doo MX Z Renegate 600 SDI H.O. Reynsluakstrinum sem slíkum verða gerð ítarleg skil hér á síðunni seinna í vikunni en að þessu sinni farið fljótt yfir sögu í ferðum helgarinnar.

Léttur hringur um Tröllaskaga

Á laugardeginum tóku margir daginn snemma og stormuðu út í Ólafsfjörð til að taka eina bunu áður en keppnin byrjaði. Má segja að Tröllaskaginn hafi iðað af sleðum allan daginn. Óku menn vítt um, m.a. til Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Voru þeir þannig búnir með góðan dagsskammt strax upp úr hádegi. Síðuhöfundur lét sér nægja að mæta skömmu áður en snjókrossmótið hófst og fylgdist með tilþrifunum þar. Að keppni lokinn var síðan tekinn léttur hringur í góðra vina hópi, svona rétt til að venjast nýja sleðanum.

Nú var komið að Fjörðum

Sunnudagurinn lofaði ekki síður góðu og nú var stefnan tekin út með Eyjafirði að austan. Ferðafélagar voru þeir Sigurgeir á 900 Mountain Cat og Smári Sig á RMK 800. Á Grenivík var stefnan tekin upp í fjall eftir hinum magnaða vegi sem Bjössi í Kaldbaksferðum hafði forgöngu um að gera. Er ljóst að hann er mikil bót fyrir sleðamenn þegar jafn snjólítið er á láglendi og nú. Á planinu stóð yfir viðgerð á gömlum XLT. Þótti síðuhöfundi það allmerkileg sjón, enda átti hann slíkan sleða árum saman og þurfti aldrei að hreyfa skrúfu. Þótt freistandi væri að hafa viðdvöl og fylgjast með framvindu viðgerðarinnar var brunað af stað inn Grenjárdal og áfram út Trölladal. Færið og veðrið var eins og það gerist allra best og var nú rennt í fjallaskörðin eitt af öðru. Ekki var linnt látum fyrr en staðið var á brún Keflavíkurdals. Var síðan snúið til baka og kaffistopp tekið í sólskininu á hlaðinu í Þönglabakka. Þar er ansi snjólaust í kring en þó alveg vandræðalaust að aka. Að kaffi loknu var ekið yfir í Hvalavatnsfjörð. Þar er einnig mjög snjólétt og nenntu menn ekki að vera í þræðingum þegar nægur er snjórinn hærra uppi. Var því nefinu snúið til fjalls á ný og enn fleiri brekkur sigraðar, áður en komið var aftur í bílana fyrir ofan Grenivík. Frábær dagur að baki. – Halldór

Heyrst hefur…
…að þeir sem óku með Smára og Sigurgeir fyrir hádegi á laugardaginn hafi ekki treyst sér aftur seinnipartinn
…að 600 sé alveg nóg

Myndirnar tóku síðuhöfundur, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs.

Dagur hinna löngu belta

Margir voru á ferli í Ólafsfirði og nágrenni í gær til að nota allan nýja snjóinn áður en hann færi aftur. Þeirra á meðal var Smári Sig. sem hafði vaðið fyrir neðan sig og fór í félagsskap tveggja fílefldra lögreglumanna, þeirra Hemma og Jobba. Sendi hann meðfylgjandi ferðasögu og myndir.

Púður, púður, púður

Við ætluðum að taka af á Dalvík og keyra þaðan á sleðum yfir í Ólafsfjörð. Á Dalvík var hins vegar enginn snjór svo ekið var á bílunum til Ólafsfjarðar. Þar hafði snjóað síðustu daga og allt hvítt. Brunað var af stað upp Syðriárdalinn og hvílíkt færi. Púður, púður, púður svo aka þurfti “full rör”. Greinilega margir á ferð og slóðir um allt. Eftir mikinn svita og hita komumst við upp úr dalnum og horfðum niður í Héðinsfjörð. Þá höfðu Jósavin og Robbi bæst í hópinn.

Og allir komu þeir aftur… (upp)

Eftir drykklanga kaffi- og vökvapásu var strikið tekið niður í Héðinsfjörð. Ekki fóru allir niður í dalbotn….sem betur fer því það sem eftir lifði dags fór í að koma hersingunni upp aftur. Er leið á daginn fjölgaði verulega á staðnum því margir fóru yfir til Siglufjarðar og voru á bakaleið aftur í Ólafsfjörð. Því var margmenni og margar ráðleggingar til þeirra sem ekki komust upp. Margir misbeittir ökumenn reyndu við aðra sleða enn sína eigin með þó misjöfnum árangri. Allir fóru upp að lokum , reyndar sumir í snæri. Talið er að sjaldan hafi menn misst eins mikinn vökva og þennan dag.

Vel nýttur dagur á Mývatnsmóti

Hin árlega vélsleðakeppni í Mývatnssveit var sem kunnugt er haldin um síðustu helgi. Sumir nýttu laugardaginn betur en aðrir. Þannig fóru Smári Sig., Benni á Bílvirkja, Sigurgeir og tveir upprennandi kappakstursdrengir, þeir Valur og Ævar, af stað árla morguns, tóku létta sleðaferð áður en keppni hófst og aðra að henni lokinni. Smári sendi eftirfarandi ferðasögu og Sigurgeir lagði til myndir.

Auðvitað mættum við snemma til hátíðarinnar í Mývatnssveit á laugardag en alla leiðina austur var hvergi snjó að sjá. Það var ekki fyrr en í Kröflu sem einhvern skafl var að finna. Hann var auðvitað nýttur og byrjuðum við á að taka eina bunu norður eftir að Gæsafjöllunum og þaðan stefnt á Þeistareykjaskála. Færið í harðara lagi og þurfti að hafa “ribburnar” niðri. Þeir sem ekki höfðu slíkan búnað hlýnuðu heldur mikið. Ekki var hægt að komast í skálann þar sem snjórinn var akkúrat enginn þar í kring. Á baka leið í Kröflu var farið að Víti og upp á Hábunguna.

Þá var kominn tími til að renna á mótssvæðið og fylgjast með keppnisdrengjunum sýna listir sínar. Allt það dæmi virtist ganga stórslysalaust fyrir sig og held það sé bara gott að ekki var búið að finna þetta upp hér á árum áður. Gömlu mennirnir fóru nefnilega í brautina þegar allir aðrir voru farnir. Sannast sagna var betra að fara hægt og rólega svo ekki hlytist tjón af.

Eftir keppnisatganginn töldu Ingi í Bílaver og Pétur hótelhaldari að það þyrfti að sýna okkur nokkra nýja staði og brunuðu af stað með okkur í halarófu ásamt nokkrum austan mönnum. Greinilegt að tímaskortur var í uppsiglingu því ekið var eins og “búðingarnir” komust. Fyrst reynt við skálann við Eilífsvötn og síðan að skála all sérstökum sem heitir Híði. Greinilegt var að þeir kumpánar Ingi og Pétur voru ekki í sinni fyrstu ferð á þessum slóðum. En til baka að bílunum komum við aftur og alveg á met tíma.

Sagt var…
…að Smári Sig hafi ekki þorað að taka neitt nesti með sér í túrinn, eftir aðganginn í síðustu ferð
…að Sigurgeir ætli ekki að setja nýja GPS inn á sleðann fyrr en búið er að smíða þjófheldar festingar
…að Benni hafi ekki mátt fara á eldhúsbílnum austur
…að kappakstursdrengirnir á hafi ekki komist eins hratt og “gömlukarlarnir

Könnunarferð á hálendið

Margir brugðu sér á sleða á blíðunni sl. laugardag. Síðuhöfundur fór ásamt fleirum í könnunarferð inn á hálendið og reyndust bæði færi og snjóalög betri en gert var ráð fyrir í kjölfar hlýindanna undanfarið.

Fínt á Fjallinu

Farið var upp af Öxnadalsheiði og verður að segjast eins og er að Kaldbaksdalurinn er afskaplega lélegur neðantil. Snjólög eru líkari því sem eru í maí-júní í eðlilegu árferði. Þó var vandræðalaust að þræða sig fyrsta spottann og þegar kom ofar í dalinn var nægur snjór. Upp á Nýjabæjarfjalli er allt á kafi og kom skemmtilega á óvart að þó nokkuð nýsnævi var ofan á harðfenninu. Færið var hreint út sagt frábært. Brunað var inn í Laugafell með viðkomu í Litlakoti og þar tekin kaffipása. Þó nokkur snjór er í kringum Laugafell og engar þræðingar. Ýmis mál voru krufin til mergjar í kaffitímanum, m.a. tófuveiðar, snjóalög o.fl. Sýndist þar sitt hverjum.

Fínn hringur

Frá Laugafelli var ekið áleiðis að Galtabóli og þaðan í Landakot, alltaf í sama góða færinu. Frá Landakoti var stefnan tekin áleiðis í Bergland, með viðkomu á brún Eyjafjarðardals. Áð var í Berglandi og síðan tekin örugg stefna norður í Litlakot. Þar bættust Siggi Bald og Mummi Lár í hópinn og voru að koma úr fínni ferð á Bárðarbungu. Var nú greið leið til baka norður Nýjabæjarfjall og í bílana.

Tapað nesti

Ferðin var án allra stórtíðinda. Þó lenti síðuhöfundur í þeirri óskemmtilegu reynslu að flutningsaðili sem fenginn var til að geyma nesti hans reyndist ekki vandanum vaxinn. Losnaði lokið á kaffibrúsanum og drjúgur hluti innihaldsins helltist niður, sem betur fer bara í pokann hans Smára. Hafa í framhaldinu vaknað áleitnar spurningar um fjöðrunina á RMK. Meðfylgjandi myndir tóku Smári Sig og Halldór Jónsson í ferðinni.

Frábær ferð á vegum EY-LÍV í Fjörður og Flateyjardal

Eins og fram hefur komið var áformað að fara dagsferð í Laugafell á vegum EY-LÍV sl. laugardag. Þegar til kom þótti ráðlegra að breyta áætlun og var stefnt út á Grenivík þar sem Guðni Hermannsson (í Straumrás) tók við hópnum og leiddi um heimalendur sínar. Áttu menn þarna hreint frábæran dag. Guðni sendi bráðskemmtilega frásögn um ferðina og Alfreð Schiöth lagði til myndir.

Legið undir yfirbreiðslu á Lynx

Við hittumst við Shell á Akureyri því ferðin átti að vera, ef gæfi veður og færi, Öxnadalsheiði- Laugafell og heim aftur, en hitt til vara. Eftir að hafa legið um stund undir yfirbreiðslunni á Lynxinum ákvað Björn formaður að vegna ótryggs veðurs inná hálendinu, væri bezt að stefna hópnum í Fjörður / Flateyjardal (þar er að sjálfsögðu alltaf bezta veðrið og leiðsögn í lagi).

Lagt af stað

Farið var upp frá Grenivík á 29 sleðum en einhverjir hljóta að hafa verpt á leiðinni því að í Þönglabakka voru þeir orðnir 35. Fórum við sem leið lá upp á Grenivíkurfjall út Grenjárdal og norður á Þröskuld. Á þessum kafla tóku nokkrir úr hópnum eldsnögga bunu á Kaldbak og voru snöggir að því. Héldum síðan út Trölladal og fórum síðan inn Þverdal og yfir illræmd skörð sem reynst hafa mörgum sleðamanninum erfiður farartálmi og ýmsir þurft að snúa frá. En í þetta sinn gekk allt eins og í sögu þrátt fyrir nokkurt svell í brekkunni og eilitlar hjartsláttartruflanir örfárra ferðafélaga.

Aldrei skal ég ganga

Eftir smá stopp þarna á brúninni( nokkrir báðu um nestispásu en fengu ekki) var haldið sem leið lá yfir í Hóls- og Bakkadal og þar norður um með stefnu á hið gamla höfuðból og prestssetur Þönglabakka. Þegar komið var útá láglendið kom í ljós að mestallur snjór var horfinn og hafði fararstjórinn töluvert mikið fyrir því að þræða skorninga vítt og breitt um hið heimsfræga tún Þönglabakkastaðar, (en það nefnilega er túnið sem kötturinn fótbraut sig á hérna um árið) því eins og sönnum sleðamönnum sæmir dugir ekki að ganga þegar hægt er að keyra. Gátum við að lokum eftir nokkra fyrirhöfn lagt sleðunum hérumbil alveg við húsvegginn.

Sást til Noregs?

Eftir langa og langþráða nestispásu og frægðarsögustund héldum við áfram suður og yfir höfðann og var býsna hlykkjótt leiðin kringum þúfnastykki og framhjá grjóti og drullu en allt hafðist það nú samt. Ókum síðan suður hlíðina ofan við Tindriðastaði, Kussungstaði og Þverá og tókum næst hús á Gili. Þar var áð um stund, enda ýmsir orðnir svangir aftur. Frá Gili fórum við suður Tungur og yfir Hávörður og austur um Leirdal skammt norðan við Gljúfurárvað og þaðan beint á ská yfir í Heiðarhús á Flateyjardalsheiði. Þar var enn sest að snæðingi um stund. Síðan hélt hluti hópsins heim á leið um Bakkaheiði til Grenivíkur en aðrir fóru upp í skarðið ofan við Náttfaravíkina. Þar var útsýn víð og fagurt um að litast. Taldi einn ferðafélagi sig sjá alveg til Noregs en flestir voru nú á því að um Húsavík væri að ræða.

 

Gist í Svartárkoti

Laugardaginn 14. febrúar sl. fóru sjö ferðafélagar á sex sleðum af stað frá Stöng í Mývatnssveit áleiðis í skála Ferðafélags Akureyrar, Bræðrafell sem stendur austan við Kollóttudyngju. Jakob Kárason er skálavörður þessa skála og vart mun finnast skáli á fjöllum sem betur er útbúin en þessi skáli þótt hann sé ekki stór. Steini Pje sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Á fimmtudegi var hringt í Skútustaði og þá var sagt gott sleðafæri og hægt að komast suður með Bláfjalli og var það ætlun hópsins að fara þaðan. Þegar Mývatssveitin blasti við var ljóst að mikinn snjó hafði tekið upp og ekki fært að fara þá leið. Því var ekið að Stöng og haldið þaðan. Ferðafélagarnir hafa áður eldað grátt silfur við Kráku sem er bergvatnsá sem kemur undan hrauninu sunnan Sellandafjalls og sjaldnast hægt að komast yfir hana á snjó. Því urðum við að aka suður fyrir upptök Kráku og þaðan til norðurs í átt að Sellandafjalli, austur að Bláfjalli og þaðan til austurs. Ef ég man rétt er sagt að tröllkerling, Kráka sem bjó í Sellandafjalli hafi reiðst er smalastrákur sem hún hafði rænt og haft hjá sér í hellinum strauk frá henni, og þá tekið upp hrísvönd og dregið niður rás þá er áin nú rennur í og sagt að áin mundi alltaf verða til bölvunnar. Þetta var því verulegur krókur fyrir okkur ferðafélaganna og er við komum að Hvammsfjöllum var orðið myrkur og ógerlegt að þræða gegn um hraunið. Auk þess voru viðsjárverðar bleytur og ein slík nægði fyrir skálavörðinn til að festa fákinn sinn. Því var snúið frá og hringt í Svartárkot og pöntuð gisting en hjónin í Svartárkoti hafa komið upp góðum bústað og frábært var að gista hjá þeim.

Sunnudagsmorguninn heilsaði með góðu veðri og fylgdi Tryggvi bóndi okkur norður fyrir Grjótá, en nægur snjór var milli Svartárkots og Stangar ef farið er nægilega vestarlega. Að sjá var nægur snjór í Dyngjuföllum og frá Svartárkoti er frábært að fara dagferð um það svæði. Vil því benda á þessa góðu gistingu. Þeir sem ferðina fóru voru, greinarhöfundur Steini Pje, Gunnar Helgason, Vilhelm Ágústsson, Jakob Kárason, Kristján Grant, Hólmar (tengdasonur Stjána) og sonarsonur Steina, Ísak Már 11 frá Hjalla í Reykjadal.

Arctic Cat kynnir 2005 árgerðina

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Eins og við var að búast er ýmislegt áhugavert að finna í 2005 línunni frá Arctic Cat sem kynnt var í gær. Mesta athygli vekur að sjálfsögðu nýja fjallasleðalínan, sem nú heitir einfaldlega M, en það er líka ýmislegt annað spennandi að gerast.

Segja má að framleiðslulínan hafi verið einfölduð nokkuð frá því í fyrra og sleðum fækkað. Þannig heyrir 800 mótorinn sögunni til, þar á meðal Pantera EFI ferðasleðinn sem einhverjir munu eflaust sakana. Áhugavert er að sjá nýja ACT drifbúnaðinn koma í fleiri sleða, nýja gerð af FOX framdempara þar sem loftþrýstingur kemur í stað gorms og hljóðeinangrun hefur verið aukin þannig að minni hávaði berst frá vélinni. Er Arctic Cat mér vitanlega eini framleiðandinn sem sett hefur upp sérstaka rannsóknarstofu þar sem skipulega er unnið í því að draga sem mest úr hávaða frá vélsleðum.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Sportsleðar
Firecat sleðarnir hafa sannarlega slegið í gegn hjá Arctic Cat. Þar fer saman létt boddý, góð fjöðrun og frábærar vélar. Endurbætur á næsta ári miða að því að koma fram með enn léttari og öflugri sleða. Nýja ACT-drifið, nýja hljóðeinangrunin, nýtt sæti og nýr afturöxull með þremur búkkahjólum í stað tveggja áður eru meðal endurbóta. Í vélarsalnum er allt að mestu óbreytt, enda af hverju að breyta því sem er frábært. Áhugaverðastar eru 600 EFI og 700 með blöndungum eða EFI. Sögusagnir um nýjan 800 mótor í Firecat boddýinu áttu því miður ekki við rök að styðjast. Hægt er að fá bæði 128 og 144 tommu löng belti en þau eru sem kunnugt er 13,5 tommu breið eða heldur mjórri en hjá flestum öðrum. ZR 900 og ZR 900 EFI koma báðir að mestu óbreyttir. Vélin skilar um 150 hestöflum og boddíið er hið sama og í fyrra, enda passar þessi vél ekki í Firecat-boddíið.

Nýja M-línan
Nýja M-fjallasleðalínan er ný útfærsla á Firecat boddíinu. Sleðarnir eru allt að 15 kg léttari en gamla Mountaincat boddíið-M1. Sleðanir koma á 15 tommu breiðu belti, í stað 13,5 tommu á Firecat. Loftintakið er á öðrum stað en á Firecat, eða rétt við framsljósið. Þetta hefur einnig í för með sér aðeins aðra hönnun á framstykkinu og þannig er t.d. hægt að fjarlægja hliðarnar á framskúffunni til að hafa t.d. betra aðgengi að kúplingum. Vélarnar eru þær sömu og í Firecat, eða 500, 600 og 700, og eru sleðarnir auðkenndir með M5, M6 og M7 í samræmi við það. M5 kemur með 141×1.6 tommu belti, M6 með annað hvort 141×2,25 eða 153×2.25 og M7 er hægt að fá með 141, 153 eða 162×2,25 tommu beltum. Þá má ekki gleyma King Cat 900 EFI sem kemur áfram í M1 boddíinu og á 162 tommu belti. Eins og jafnan áður er hægt að fá ýmsar sérútgáfur ef menn panta sleðana nógu snemma.

Sabercat

Sabercat

Sabercat
Sabercat er í raun Firecat í aðeins “mildari” útgáfu sem hentar betur til trail-aksturs og ferðalaga. Hann fær sömu endurbætur og Firecat og er mjög áhugaverður sleði. Sömu vélar eru í boði og í Firecat, sem og beltislengdir. Þessi sleði er hins vegar með ýmsan aukabúnað til að gera aksturinn enn þægilegri.

Ferðasleðar
Það er helst í ferðageiranum sem Arctic Cat er ekki að breyta miklu þetta árið. Nú heyrir Pantera 800 EFI sögunni til en áherslan er á T660 Turbo ST fjórgengissleðann. Hann er sannarlega meðal áhugaverðustu valkostanna í fjórgengisflórunni og vert að gefa honum auga. Með 2005 árgerðinni fær sleðinn ýmislegt af þeim útbúnaði sem áður var á ZR-sleðunum og er því enn betur búinn en áður. Fagurrauður liturinn og krómað gler ætti líka að tryggja næga athygli hvar sem er. Einnig er ferðasleði með 600 EFI tvígengisvél í boði.

Reynsluakstur á RX-1

Um síðustu helgi fékk Sleðasíðan afhentan Yamaha RX-1 frá Toyota á Akureyri til reynsluaksturs. Sleðinn var prófaður við ýmsar aðstæður í þrjá daga og nú liggur niðurstaðan fyrir.

Sprengja síðasta árs
Þegar sleðaframleiðendur voru fyrir réttum tveimur árum að keppast við að kynna 2003 árgerðina litu ýmsir áhugaverðir sleðar dagsins ljós. Við skulum muna að þetta var árið sem Ski-doo kom með REV á almennan markað og Arctic Cat með Firect, hvoru tveggja sleða sem hlotið hafa verðskuldaða athygli og lof. Einnig kynnti Arctic Cat tveggja strokka 900 vélina á þessum tíma. Enginn þessara sleða varð þó þess heiðurs aðnjótandi að hljóta nafnbótina “Sleði ársins” hjá hinu virta tímariti Snow Goer. Sá titill var þegar frátekinn fyrir eina mestu sprengju sem komið hefur inn á vélsleðamarkaðinn hin síðari ár, RX-1 frá Yamaha.

Sleði fyrir íslenskar aðstæður?
Með RX-1 gerði Yamha það sem ýmsir höfðu spáð að myndi ekki verða raunveruleiki fyrr en eftir mörg ár. Þeir komu fram með fullskapaðan fjórgengissleða, sambærilegan að afli við öflugustu tvígengissleða og innan þeirra þyngdarmarka sem hljóta að teljast vel ásættanleg. Með því er þó á engan hátt verið að draga úr þeirri staðreynd að RX-1 er þungur sleði í samanburði við þá tveggja strokka tvígengislínu sem verið hefur nær allsráðandi hjá öðrum sleðaframleiðendum síðustu ár. En er RX-1 sleði fyrir íslenskar aðstæður? Eða er þetta einfaldlega nökkvaþungt skrímsli með vonlausa aksturseiginleika? Fyrir milligöngu Toyota á Akureyri, umboðsaðila Yamaha, var ákveðið að Sleðasíðan tæki RX-1 til reynsluaksturs og freistaði þess að dæma hvers konar sleði væri hér á ferðinni.

Byrjað var á stuttum sleða á 121 tommu belti. Undirritaður hafði sleðann til afnota um síðustu helgi og verður sú reynsla tíunduð hér á eftir. Á föstudaginn og laugardaginn var tíminn notaður til að fara stutta spretti og en á sunnudaginn var farið upp á Vaðlaheiði til að fá reynslu af notkun sleðans í lengri akstri. Næst er röðin síðan komin að RX-1 á 151 tommu belti og verður fróðlegt að fá samanburðinn þegar þar að kemur. Meðfylgjandi myndir tóku greinarhöfundur og Sævar Sigurðsson.

Einstök vél
Kynning Yamaha á RX-1 kom nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti því ótrúlega lítið hafði lekið út um áformin. Það sem Yamhaha gerði var að taka vélina úr hinu vinsæla R1 mótorhjóli og laga hana að notkun í sleða. Þetta er fjögurra strokka 998 cc línuvél með fimm ventlum á hverjum strokk og fjórir 37 mm blöndungar sjá um að fæða græjuna þannig að öll 145+ hestöflin fái notið sín. Eitt af þeim vandamálum sem menn sáu fyrir sér var að vélsleðakúpling myndi aldrei virka á þeim snúningshraða sem litlar en kraftmiklar fjórgengisvélar þurfa. Þetta leysir Yamaha snilldarlega með einföldum niðurgírunarbúnaði. Útkoman er einstök vél, gríðarlega aflmikil en mun sparneytnari en sambærilegar tvígengisvélar. Yamhaha gefur upp allt að 30% minni eyðslu en sambærileg tvígengisvél og prófanir Maximumsled.com hafa staðfest þær tölur. Bara hljóðið eitt ætti að duga til þess að hrífa hvern þann með sér sem á heyrir. Gangur vélarinnar er líka ansi mikið öðruvísi en í stóru tvígengissleggjunum. Engin nístandi víbringur, aðeins lágvært suð sem breytist í hávært urr þegar komið er við gjöfina.

Þessi stóra vél gerir það að verkum að RX-1 er engin léttavara. Hins vegar finnst ótrúlega lítið fyrir þyngdinni í öllum venjulegum akstri. Vélinni er komið fyrir eins neðarlega og hægt er og leitast við að sem mest af þyngdinni sem styst frá driföxlinum og ökumanninum. Í hefðbundnum “trail”-akstri virkar RX-1 ekkert þyngri en “hefðbundnir” stuttir sleðar, nema síður sé. Það er fyrst og fremst þegar þú festir þig að öll 300 kílóin verða að veruleika. Hins vegar er vélarorkan af þeirri stærðargráðu að festur eru eitthvað sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af. Þá má minna á að sleðinn hefur verið léttur verulega frá fyrstu árgerðinni og mun þannig léttast um heil 15 kg á næsta ári.

Áseta
Eitt af því sem mér finnst skipta miklu máli við vélsleða er hvernig mér finnst að sitja á honum og hvernig afstaðan á milli sætis og stýris kemur út. Það er alveg sama hvort menn hugsa notkun sleðans fyrir styttri eða lengri ferðir, góð áseta er lykilatriði, ásamt því að þægilegt sé að standa þegar það á við. Í þeim efnum er erfitt að búa til einn sleða sem hentar öllum. Ég verð að setja að fyrir minn smekk er ásetan á RX-1 í hæsta gæðaflokki. Sætið er hæfilega stíft og vel lagað og útsýni á mælana mjög gott. Stýrið sjálft mætti þó að skaðlausu vera bæði hærra og jafnvel breiðara. Með hærra stýri væri auðveldara að ráða við sleðann í hliðarhalla og skáskera brekkur. Það kostar þó nokkur átök að rífa sleðann upp á annað skíðið og örugglega betra að ökumaðurinn sé sæmilega vel á sig kominn.

Aksturseiginleikar
Ég verð að viðurkenna að ég hafði vissar efasemdir um RX-1 áður en ég fékk hann til prófunar. Ég þóttist vita að vélin væri frábær en hafði áhyggjur af aksturseiginleikunum út af þyngdinni. Þú ert hins vegar ekki búinn að nota svona sleða lengi þegar slíkar efasemdir eru foknar út í veður og vind. Það sem kom mér mest á óvart er hversu léttur og meðfærilegur sleðinn í raun virkar. Hann beygir vel og lætur að flestu leyti vel að stjórn. Helsti gallinn er að þú verður að hafa varann á þér í kröppum beygjum. Innra skíðið vill fara á loft og jafnvel ber á að sleðinn skriki út undan sér. Þarna kemur þyngdin án efa til sögunnar en þetta kann að vera hægt að leysa með því að stilla fjöðrunina betur. T.d. má hugsa sér að láta sleðann standa betur í skíðin en þá verður að hafa í huga að hann þyngist væntanlega í stýri að sama skapi og einnig er spurning hver áhrifin verða á afturfjöðrunina.

Ég gerði reyndar engar sérstakat tilraunir með mismunandi uppsetningu á fjöðrun.Heilt yfir fannst mér sleðinn vel upp settur og hef raunar alla tíð verið ágætlega sáttur við Pro Action afturfjöðrunina frá Yamaha. Hún hefur reyndar ekki þróast mikið í gegnum árin en eins og fram hefur komið verða verulegar breytingar á henni frá og með 2005 árgerðinni. Þetta er ágætlega burðarmikil fjöðrun, stendur sig mjög vel á meðan ekki er mjög óslétt færi, en á virkilegum karga eru aðrar útfærslur betri. Galli við þá Yamaha sleða sem ég hef haft kynni af hefur verið óþarflega mikið slit á meiðum og ekki er ég frá því að RX-1 geti verið sama marki brenndur. A.m.k. þóttist ég nokkrum sinnum finna smá plastlykt ef færið var hart. Engin hitavandamál voru hins vegar með vélina þótt inn á milli kæmu kaflar með lítilli kælingu.

Nýtur sín vel í hraðakstri
Best nýtur RX-1 sín venjulegum “trail”-akstri. Þannig er líka sennilega bróðurparturinn af öllum akstri sleðamanna. Og hraðinn er ekki vandamál. Eftir því sem hraðar var ekið, eftir því naut sleðinn sín betur. Upp á Vaðlaheiði gafst kostur á að gefa duglega í. Færið var talsvert rifið á köflum en það var svo sannarlega ekki vandamál. Þótt mælirinn sýndi vel yfir 100 km hraða haggaðist maður ekki á sætinu. Framfjöðrunin stóð sig frábærlega og ég fullyrði að ég hef engan sleða keyrt sem lætur jafn vel af stjórn á mikilli ferð. Við þessar aðstæður fannst mér sleðinn njóta sín hvað best og skapaði tilfinningu sem ég hef ekki áður notið á 30 ára sleðaferli. Ég viðurkenni fúslega að vera frekar huglaus þegar kemur að hraðakstri á vélsleða en á RX-1 fannst mér allir vegir vera færir.

Hliðarhalli – brekkur – púður
Vert er að hafa á hreinu að RX-1 er ekki besti púðursleðinn eða fjallaklifrarinn á markaðinum, enda ekki ætlað að vera það. Þetta á auðvitað ekki síst við um stutta sleðann sem prófaður var að þessu sinni. Mín upplifun af sleðanum er hins vegar sú að hann sé vel meðfærilegur í hliðarhalla og á meðan hann hefur spyrnu klifrar hann endalaust upp brekkur. Stutta beltið hentar ekki í púðursnjó, frekar en hjá öðrum stuttum sleðum, en mér fannst hann samt ótrúlega duglegur. Gríðarlega spennandi ferð upp Geldingsárgilið í Vaðlaheiði, í miklum lausasnjó, var einn af hápunktum helgarinnar en fékk snöggan og sorglegan endi þegar ökumaðurinn fipaðist eitt augnablik í þröngum skorningi. Þá var gott að skóflan var með í för.

Útlit og frágangur
Útlit er eitthvað sem menn verða aldrei sammála um. Einnig getur smekkur manns breyst. Mér fannst t.d. Firecat til að byrja með einhver ljótasti sleði sem ég hafði séð. Nú, tveimur árum seinna, finnst mér hann einhver sá fallegasti á markaðinum. Mér hefur hins vegar frá upphafi þótt RX-1 hreint ótrúlega flottur og það álit dofnaði ekki við að prófa gripinn. Það er helst að manni finnist hlutföllin í stutta sleðanum svolítið skrítin. Að framendinn beri það sem fyrir aftan er hálfgerðu ofurliði. En hér ræður smekkur hvers og eins. Rúðan er ágætlega heppnuð en mætti þó fyrir minn smekk vera aðeins breiðari. Mér fannst gusta heldur mikið um hendurnar. Sleðinn er til í nokkrum litasamsetningum en sá sem undirritaður hafði til afnota var svartur. Yfireitt finnst mér það svona frekar óspennandi útfærsla en fer þessum sleða hins vegar ágætlega. Sigbrettin líkaði mér ágætlega við, þótt svona 1 tommu breikkun myndi ekki skemma fyrir.

Yamaha hefur alla haft orð á sér fyrir vandaðan frágang og þar er RX-1 engin undantekning. Það er hrein unun að sjá hversu allt virðist vandað og vel hugsað. Digital mælaborðið er ótrúlega “kúl” ásamt því að virka vel. Hitastilling fyrir handföng og bensíngjöf er stiglaus og vel fyrir komið sitt hvoru megin á stýrinu. Takki til að hækka og lækka ljós er einnig vel staðsettur og ljósið sjálft er mjög gott. Hái geislinn lýsir vel framfyrir sleðann og ef ljósin eru lækkuð fæst mjórri og lægri geisli sem ætti að nýtast vel ef keyra þarf í vondu veðri.

Flott en pirrandi
Útfærsla á púströrunum er ótrúlega flott en á sama tíma dálítið pirrandi. Þegar þú t.d. setur sleðann í gang á morgnanna eftir að hann hefur staðið úti þá þarftu að lofa honum að ganga í smá stund. Þú vilt hins vegar nota tímann til að losa aðeins um sleðann, lyfta honum upp að aftan og láta hann detta niður til að losa um klaka í beltinu. Á RX-1 færðu hins vegar pústið beint í andlitið við þessa athöfn. Stærsti ókostur þessa fyrirkomulags með púströrin er hins vegar alger skortur á farangursrými. Þú getur ekki tekið með þér nesti til dagsins nema þá að fá þér tanktösku eða aðra lausa hirslu sem þú hengir utan á sleðann. Fyrir þá sem stunda langferðir skapa púströrin einnig vandamál upp á farangursgindur. Þetta munu þó íslenskir hugvitsmenn vera búnir að leysa og hefur undirritaður t.d. heyrt að Sigurjón Hannesson “Breikkarinn” hafi hannað útfærslu sem virki vel.

Fyrir hverja?
Ýmsar efasemdarraddir hafa heyrst um ágæti RX-1. Eftir að hafa sjálfur reynt hann get ég með góðri samvisku sagt að fæstar þær sögur eiga við rök að styðjast. Enda koma örugglega flestar sögurnar frá mönnum sem ekki hafa prófað gripinn. Það er einfaldlega mjög erfitt að finna neikvæða hluti til að segja um RX-1.

Í heildina líkaði mér frábærlega vel við sleðann þótt alltaf megi finna eitthvað til að setja útá. Það eru til sleðar sem standa sig mjög vel á tilteknu sviði og myndu þ.a.l. þar standa sig betur á því en RX-1. Hins vegar hef ég trú á að þessi sleði ætti að geta hentað mjög stórum hópi sleðamanna því hann er að gera marga hluti mjög vel. Nóg afl, góð áseta, góðir alhliða aksturseiginleikar og vönduð smíði er eitthvað sem ég held að margir séu að sækjast eftir. Flott útlit og 30% minni eyðsla en félaginn á tvígengissleðanum ætti heldur ekki að skemma fyrir. Fyrir þá sem stunda langferðir um hálendið er sleði sem þessi augljós kostur og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa valið þessa leið. Ég er hins vegar sannfærður um að þeim mun fjölga.

Að lokum
Eins og fram hefur komið hér á síðunni mun Yamaha leggja aukna áherslu á fjórgengistæknina á næsta tímabili og ætlar greinilega að veðja á hana. Á þessu hafa menn mismunandi skoðanir eins og gengur. Ég segi hins vegar: Frábært! Þó ekki nema fyrir það eitt að ekki séu allir framleiðendur að matreiða sama grautinn í svipuðum skálum. Yamaha sýndi okkur með RX-1 að fjórgengistæknin er og verður alvöru valkostur í sleðum. Fyrir að vilja, þora, geta og gera fær Yamaha mitt atkvæði.
Texti: Halldór Myndir: Halldór og Sævar Sig.

Plúsar:
Yfirdrifið vélarafl
Einstakt “sound”
Áseta
Stöðugleiki í akstri
Frágangur
Aðalljós

Mínusar:
Skortur á farngurshólfi
Lyftir skíðunum heldur mikið í beygjum
Stýrið mætti vera hærra

Yamaha kynnir 2005 árgerðina

RS Rage kemur með nýju þriggja stokka fjórgengisvélinni og á 136” belti.

RS Rage kemur með nýju þriggja stokka fjórgengisvélinni og á 136” belti.

Fimm nýir sleðar með nýrri fjórgengisvél og alls níu sleðar með fjórgengisvél, fimm útfærslur af nýrri afturfjöðrun og allt að 15 kg léttari RX-1. Þetta eru hápunktarnir í 2005 línunni af Yamaha sem kynnt var með stæl í gær.

Ljóst er að Yamaha er að veðja á fjórgengistæknina og hefur þar náð verulegu forskoti á aðra framleiðendur. Spurningin er hvað aðrir gera – ná þeir að þróa tvígengisvélar sem uppfylla væntanlegar mengunarreglugerðir eða hella þeir sér af krafti í fjórgengisslaginn. Það verður tíminn að leiða í ljós. Sem stendur er Yamaha í nokkurskonar sérdeild, úrvalsdeild mundu sumir segja – og með góðum rökum, á meðan aðrir hafa eflaust aðrar skoðanir á þeim bláu.

Yfirlit um það helsta

Sem fyrr segir koma fimm nýir sleðar sem allir skarta sömu vélinni, nýrri þriggja stokka fjórgengisvél. Að rúmtaki er hún svipuð og fjögurra strokka vélin í RX-1, eða 973 cc. Aflið er rétt um 120 hö eða svipað og hjá sleðum með 600 tvígengisvél. Þar er þessum sleða enda ætlað að keppa, á hinum stóra markaði fyrir 600 sleða í Bandaríkjunum og reiknar Yamaha með að ná dágóðri sneið af þeirri köku. Sleðarnir sem um ræðir nefnast RS Vector, RS Vector ER, RS Vector Mountain, RS Rage og RS Venture.

RX-1 er áfram í boði í sömu útfærslum, þ.e. stuttur RX-1, RX-1 ER, RX Warrior og RX-1 Mountain. Allir koma þó verulega endurbættir og léttari en í fyrra.

Aðeins fimm sleðar með tvígengisvél eru nú í framleiðslulínu Yamaha. Þar má helst nefna SXViper Mountain sem kemur á nýrri gerð af skíðum og nýrri afturfjöðrun. Þeir sleðar sem nú heyra sögunni til frá því í fyrra eru stuttur SXViper, Mountain Max 700 og Venture 700.

Snjólalögum misskipt á Eyjafjarðarsvæðinu

addi

Gríðarlegur fjöldi sleðamanna var á ferð um helgina í frábæru veðri. Smári Sig. ók grimmt báða dagana og sendi meðfylgjandi upplýsingar um snjóalög.

Laugardagur

Á laugardag fórum við inn úr Glerárdalnum í Skjóldal og inn á Nýjabæjarfjall. Þar var allstaðar nægur snjór og frábært færi. Kíktum ofan í Þverdal og Villingadal. Þar er akkúrart enginn snjór og dreg ég í efa að Villingadalurinn sé fær.

Sunnudagur

Hvert fóru allir?

Hvert fóru allir?

Á sunnudag var farið á Vaðlaheiði suður og niður í Gönguskörð. Á heiðinni var hreint frábært púður og allt á kafi í snjó. Gilið niður í Gönguskörð var ágætt en snjórinn minnkaði þegar komið var vestur úr Gönguskarðinu. Héldum þá inn Garðsárdal, sem var ágætur norðantil en innan við skálann Adda tók að minnka heldur. Runan uppúr var ansi snjólaus og áin opin í miðri brekku. Þegar upp í Almenningin var komið tók aftur við hreint frábært færi.

Laglegir RMK-ar.

Laglegir RMK-ar.

Það voru ýmsir sleðamenn sem tóku þátt í helgarfjörinu. Halldór Jóns var auðvitað að prófa nýju græjuna, Polaris 800 Switchback með ýmsum aukabúnaði, og var sáttur.

Hringferð um Fjörður

Í gær skruppu þeir frændur Guðni í Straumrás og Jói Eysteins á Eyrarlandi ca. 100 km hringferð um Fjörður (Grenivík-Kaldbakur-Gil-Þönglabakki-Kaldbakur-Grenivík) með ýmsum útúrdúrum.í algjörri “bongó-blíðu” eins og Guðni sagði. Færið er frekar hart fyrir neðan ca 300 metra en samt föl ofaná til kælingar. Annars alveg frábært. Mjög magurt er á láglendi fyrir utan Gil og í kringum Þönglabakka. Guðni sendi meðfylgjandi mynd en eins og athugulir lesendur munu eflaust taka eftir þá ók Jói á “réttu sortinni” í þessari ferð. Þ.e. réttu sortinni að mati Arctic Cat mannsins Guðna en Jói hefur fram til þessa fremur verið tengdur við Polaris.

Glerárdalurinn kannaður

Fjölmargir drifu sig á sleða um helgina, enda menn orðnir spenntir að skoða allan snjóinn sem bæst hefur við síðustu daga. Í Glerárdalnum ofan Akureyrar var mikil sleðaumferð og sendi Halldór Jónsson eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Polaris af ýmsum gerðum

Það varð nú ekki hjá því komist að skoða snjóalög í næsta nágrenni Akureyrar þegar smá hlé varð á snjókomunni og vel viðraði. Við skelltum okkur fimm félagar í sunnudagsskoðunarferð í gær, 18. janúar, á Glerárdalinn. Þeir sem fóru voru. Benedikt á Bílvirkja á Polaris Indy 600 Touring, Guðlaugur Már (strákurinn Gulli) á Polaris 440, Sigurgeir í Vélsmiðjunni á Polaris XC 600, Smári á nýju græjunni Polaris RMK 800 og undirritaður á Polaris Classic Touring ofurfimmunni sem reyndar er með 700 vél með meiru. Þetta var sem sagt töluverð blanda, bæði manna og sleða, þótt sleðategundin hafi bara verið Polaris.

Hæfilega langt og gróft

Veðrið var gott, sérstaklega framan af, en skyggni varð lélegt þegar kom fram á seinni hluta dagsins fyrir myrkur. Færið var hins vegar frábært; mikill púðursnjór en það verður nú að viðurkennast að erfitt var það stundum fyrir nokkra í hópnum. Það leyndi sér ekki að gott var að hafa hæfilega langt og gróft belti og ekki spillti fyrir að vélarstærðin væri í efri flokknum og hestöflin 130 til 150. Svo var auðvitað líka gott að þyngdin á sleða og manni væri hæfileg. Hæfilegt er auðvitað teygjanlegt og gildir ekki það sama um alla. Gott reyndist að hafa einn ungan og hraustan til að koma sumum sleðunum upp erfiðustu brekkurnar. Skrýtið hvað þeir láta betur að stjórn og komast meira hjá sumum; eða kannski er það bara ekkert skrýtið!

Fjallabak til baka

Þrömin reyndist flestum erfið svo fara varð “fjallabak” til baka. Ekki var það átakslaust en allt hafðist farsællega að lokum. Á heimleiðinni var stoppað við Lamba og seinna kaffið og kakóið drukkið og reynt að tæma nestisboxin. Tókst það hjá sumum en ekki öllum. Undirritaður mun því keppast við að tæma nestisboxið næstu daga þannig að það verði tilbúið fyrir nýja áfyllingu í vikulokin. Ekki er ólíklegt að fararskjótinn verði þá nýr Polaris, með 800 vél, 155 hestöfl, gróft 144″ belti og þyngd sleðans verði í neðri kantinum. Þá er eins gott að ökumaðurinn standi sig, því ekki verður sleðanum um kennt, ef strandað verður í miðri brekku á sama tíma og aðrir komast á toppinn. Það voru þreyttir en ánægðir ferðafélagar sem skiluðu sér heim aftur síðla dags.

Ófært á jökul upp frá Gæsavötnum

Smári Sig. fór ásamt fleirum á jeppa inn í Gæsavötn um helgina. Að hans sögn er lítill snjór þar í kring og ekki hægt að komast á jökul upp frá Gæsavötnum. Farið var upp Bárðardal og að sögn Smára var ansi gaman að keyra frá Fossgilsmosum í Laugafell, töluvert púður og þungt færi. Frá Laugafelli er ansi rýrt að sjá til vesturs. Færið frá Laugafelli var hart og austur fyrir Bergvatnskvíslina er bara fínn snjór. Mjög rifið og autt er að sjá norðan undir Tungnafellsjökli. Komið var við hjá gígnum Bokka, sem væntanlega er ekki mikill ferðamannastaður alla jafna, en vert er að sögn Smára að kíkja á hann á veturna þegar hægt er að komast að honum.

Sem fyrr er enginn snjór í Gæsavötnum nema rétt í kringum hurðina á skálanum. Sökum snjóleysis er ekki hægt að fara á jökul við Gæsavötn. Þar er ekki kominn nægur snjór í jökulgarðana og ruðningana sem yfirleitt fyllast að vetri. Eina ráðið er að fara upp hjá Kistufelli eða Köldukvíslarjökulinn. Smári og félagar fóru inn á jökul við Kistufell. Það var mjög fínt og færið á jöklinum flott – púður yfir öllu. Meðfylgjandi myndir tók Smári í ferðinni.

Jólaferð um norðanvert hálendið

Sleðamenn virðast hafa verið nokkuð duglegir að keyra um jóladagana. Mest er um stuttar skreppur, enda dagurinn ekki langur á þessum árstíma. A.m.k. einn hópur úr Eyjafirði fór þó í lengri ferð inn á hálendið um jólin.

Það voru þeir Eiríkur Jónsson, Smári Sig., Hreiðar í Vín, Jón Björns. og Sigurgeir Steindórs. sem lögðu í´ann árla dags síðastliðinn laugardag. Ekið var á bílum inn Þormóðsstaðadal þar sem sleðar voru teknir af kerrum, enda stefnan að aka upp Kerhólsöxlina. Þótt snjólítið væri þar fremra var vandræðalaust að komast upp. Lúmskur steinn varð þess þó valdandi að för eins sleðans varð aldrei lengri en nokkur hundruð metrar og mátti eigandinn bóta í það súra epli að snúa við í bæinn.

Nægur snjór en lélegt austan við fljót

Er kom inn á fjallið var nægur snjór og frábært færi. Ekin var full ferð í Landakot og stefnan tekin austur í Gæsavötn með viðkomu í Sandbúðum. Ágætur snjór var austur að Skjálfandafljóti en mjög lélegt þar fyrir austan. Eftir stopp í Gæsavötnum var snúið til baka og nú stefnt í Laugafell þar sem gist var um nóttina. Daginn eftir var ekið niður að skálanum Grána og var allgóður snjór á þeirri leið. Loks var stefnan tekin til baka í bílana. Komust allir þangað fyrir eigin vélarafli, þór ónýt lega í einum sleða og bensíntruflanir í öðrum settu mark sitt á ferðina, í bland við grimmdarfrostið. Meðfylgjandi myndir tóku Smári Sig. og Eiríkur í ferðinni.

Norðanmenn kíkja upp

...og komst meira að segja uppúr aftur.

Smári á góðri stundu (á Yammanum).

Í gær kíktu þeir Hreiðar í Vín, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs á hálendið upp af Eyjafirði. Sendi Smári eftirfarandi frásögn af ferðinni.

Það var varla farið að skíma af degi þegar formaðurinn hringdi og sagði að nú ætti að drífa sig. Vertíðin byrjar vel, hann fullbeittur, ákveðinn og varla að maður væri búinn með morgunkaffið. Þegar svo sást til himins kom í ljós að sólin kæmi fljótlega á loft, heiður himinn og töluvert frost.

Það stóð á endum, þegar komið var fram að Brúsahvammsbrekkunni var tekið af og allt bjart framundan. Formaðurinn lagði áherslu á að menn yrðu að vera á góðum sleðum, það væri mjög brýnt og taldi rétt að slá undir “spari” sleðanum sínum fyrir Smára Sig. Þetta gengi ekki lengur. Smári fékk því bláa RMK´inn formannsins þennan með litasjónvarpinu. Sjálfur þurfti formaðurinn endilega að rifja upp hvað svarti RMK´inn var ofboðslega góður. Sigurgeir var enn á gömlu græjunni frá í fyrra en með allt niður um sig, ekkert siglingatæki, bara festingar. Reyndi að útskýra fyrir okkur að hann væri búinn að borga inná nýtt litatæki, umboðsmaðurinn hefði vélað sig til að kaupa og borga en ekkert tæki birtist. Þegar fara átti af stað kom auðvitað í ljós að ekki var allt meðferðis, greinilegt að einhver hefur ruglað öllum sleðabúnaðinum heima í bílskúr í sumar, sennilega hefur konan eitthvað verið að endurraða. Það svona vantaði eitt og annað.

Ekki var til setunnar boðið að nýta veðrið og þetta frábæra færi sem lá fyrir. Fullbeittir var brunað inn allan Eyjafjarðardal og færið bara alveg magnað. Þegar komið var upp úr Rununni hafði veðrið skipt um gír, kominn fræsingur af suðvestan og skafrenningur, en fullt af snjó. Áfram var haldið inn fjall og heldur bætti í vindinn og skyggnið varð núll. “Ekki bogna, ekki bogna, aðeins lengra strákar,” heyrðist í formanninum. Þetta var greinilega allur pakkinn. Það var ekki fyrr en innundir Landakotsafleggjara sem samkomulag náðist um að snúa við. Enda urðu menn að ná í bæinn fyrir kvöldmat. Íþróttatíminn byrjar kl 7 og þangað verður að mæta þó ekki væri nema til að segja ferðasöguna. Það stóð á endum, að rétt náðist í bæinn fyrir íþróttatímann, með brosið út að eyrum.

Svona rétt í lokinn “hann er nú svo sem ágætur sá blái.”

Sýning og árshátíð gengu vel

Vetrarsport 2004 og árshátíð vélsleðamanna í Sjallanum um helgina tókust vel. Aðsókn á sýninguna í Íþróttahöllina var ágæt og aðsókn á árshátíðina sló öll fyrri met. Þar fór Ómar Ragnarsson á kostum eins og við var að búast og góður rómur var gerður að þeim skemmtiatriðum sem í boði voru. Myndir frá sýningunni eru hér að neðan.

Vetrarkoma undirbúin

Sleðamenn vissu að nú eru síðustu forvöð að ganga frá sínum málum á hálendinu áður en snjóar hellast yfir, því vitað er að mikill snjór og góður er í vændum. Smári Sig. sendi eftirfarandi sögu og myndir frá ferð helgarinnar.

Nýtt orkuver

Byrjað var á að fara í Laugafell þar sem rafvirkinn dró úr pússi sínu nýja stjórnstöð fyrir raforkuverið. Nú gætu menn fylgst með spennunni á rafgeyminum þá daga sem þeir verða þar veðurtepptri. Eins var heitavatninu komið á gamla Ferðafélagsskálann en þar var vatnslaust og skítkalt í húsinu. Þeir alhörðustu tóku golfsettið út og slógu sín allra síðustu högg að þessu sinni áður en vetur leggst að.

Handriðin tekin

Á Fjórðungsöldu þurfti að stoppa og hirða upp gamlar leifar eftir síðust ferð. Áfram brunað, ekki áð fyrr en komið var að Skjálfandabrú og vegriðin tekin niður að vanda. Einfaldlega til að snjórinn sem er að koma geti lagst með öllum sínum þunga á brúnna. Í Gæsavötnum var tekið til hendinni að venju og allt gert klárt eins og kostur er.

Enginn heima

Á heimleiðinni á sunnudag var víða farið svona rétt til að athuga hvort þetta væri ekki allt á sínum stað. Tungnafellsjökull mátaður og tryggt að allt væri þar klárt og tilbúið fyrir meiri snjó – ekki veitti af. Hrafninn vinur okkar úr Nýjadal mætti á svæðið, fylgdi okkur hvert fótmál og heimtaði mat. Brunað var því næst í Sandbúðir og gerðu menn fastlega ráð fyrir að Guðmundur bóndi væri þar mættur en hann er búinn að vera á leiðinni þangað frá því um miðjan september. Nú hlyti karl að vera mættur. En viti menn, sama eyðibýlið og oft áður. Ekki nokkur sála og ekki verið þar lifandi maður svo vikum skifti. Straujað var í Galtaból og þaðan í Landakot svona rétt til að taka stöðuna. Í Landakoti töldu kunnugir að komið væri nýtt pústurrör á húsið, svo nú skal kynda duglega þar í vetur. Greinilega vel undirbúnir.

Til umhugsunar vegna bensínmála

tunnur.jpg

Þessar tunnur höfðu staðið lengi í alfaraleið við Gæsavötn, til mikillar óprýði, en voru sem betur fer fjarlægðar á dögunum.

Nú líður væntanlega að því að menn fara að huga að bensínmálum sínum á hálendinu fyrir komandi vetur. Í þeim efnum eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Erum á gráu svæði

Augljóst hagræði er af því að eiga bensín á góðum stað til að nota í vetrarferðum. Því er jafnan komið fyrir í námunda við fjölsótta skála og t.d. eiga Eyfirðingar og fleiri að jafnaði talsverðar byrgðir í Laugafelli, Gæsavötnum og víðar. Er nú svo komið að bensínmagnið bara á þessum tveimur stöðum sem nefndir voru mælist í tugum þúsunda lítra þegar allir hafa komið með sitt á haustin. Ljóst má vera að við erum á talsvert gráu svæði með þessi bensínmál því strangar reglur gilda um geymslu á bensíni. Við höfum hins vegar að mestu fengið frið enn sem komið er en það er alls ekki sjálfgefið að svo verði alltaf. Mesta hættan er að menn gleymi sér og hugi ekki nógu vel að fráganginum þannig að einhver “óviðkomandi” sem leið á um geri úr þessu mál. Mikilvægt er að miða allan frágang við að sem minnst hætta sé á að þetta pirri aðra fjallafara, þ.e. sé sem minnst áberandi.

Gangið vel frá körunum

Ef aðstæður eru þannig að bensínílátin séu á staðnum allt árið (sbr. öll kerin í Gæsavötnum) verður að ganga þannig frá að þau séu, utan mestu alfaraleiðar, hulin með grjóti og sem alla minnst áberandi. Sérstaklega mikilvægt er að vanda frágang í síðustu ferð að vori því þegar hálendisvegir opna stóreykst umferð fólks sem er e.t.v. ekkert sérlega hrifið af því að aka eða ganga fram á hrúu af fiskikörum fullum af bensínbrúsum. Misbrestur hefur verið á þessum frágangi í Gæsavötnum, eins og fram kom hér á vefnum ekki alls fyrir löngu. Þó er ánægjulegt að segja frá því að í kjölfar þeirrar umfjöllunar batnaði ástandið til muna og verstu dæmin voru fjarlægð.

Því seinna því betra

Ef um er að ræða ílát sem farið er með að hausti og tekin aftur að vori, eins og t.d. bensínkerrur, tunnur eða slíkt, er mikilvægt að menn fresti því í lengstu lög á haustin að fara með bensínið en taki síðan afganginn sama dag og hálendisvegir opna á vorin. Í kjölfar norðanáttarinnar að undanförnu hefur komið föl á jörð og því líklegt að margir vilji drífa sig af stað með bensínkerrurnar sínar. Þótt ekki sé hægt að banna mönnum það verður þó að teljast líklegt að allur sá snjór sem kominn er og kemur næstu daga eigi eftir að hverfa aftur. Því gæti verið ráðlegt að fresta för enn um sinn.

Eldsneytisfrágangur á hálendinu

Til þeirra sem málið varðar!

Eins og flestir vita koma jeppa og sleðamenn eldsneyti sínu fyrir á völdum stöðum á hálendinu. Sjálfsagt er þetta allt bannað en við gerum þetta samt okkur til þæginda.

Þessum birgðastöðvum fjölgar stöðugt a.m.k. hér á norðanverðu hálendinu. Í Gæsavötnum er kominn tími til að gera eitthvað róttækt í málinu. Þar má telja í stuttum göngutúr 19 “birgðastöðvar”. Sumar eru vel faldar og þarf mikla útsjónarsemi til að finna þær. Það merkir að eigendurnir hafa unnið heimavinnuna sína og gengið þannig frá að ekki er til ama.

Því miður eru enn nokkrir aðilar sem eiga þarna fiskikör eða önnur ílát sem blasa við ferðafólki í svörtu hrauninu. Þegar farið er að stafla fiskikörum í tvær hæðir er auðvelt fyrir sjóndapra að sjá þau í margra mílna fjarlægð þar sem bakgrunnurinn er svartur. Hvað þá þegar fjórar 200 ltr tunnur eru látnar standa á fjölförnu, göngutúrasvæði staðarins.

Í Gæsavötnum eru allar gistinætur bókaðar fram í miðjan september og umferð “gömlu Gæsavatnaleiðar” er mjög mikil. Það eru því nokkur hundruð ef ekki þúsund manns sem fara um svæðið og skoða “birgða” dýrðina.

Það eru því eindregin tilmæli Gæsavatnafélagsins að menn taki þetta til sín sem eiga og gangi betur um.

Frelsið sem við höfum er vandmeðfarið, það getur verið dýrt að misnota það

Fjalla – kveðjur
Frá Gæsavatnafélaginu
Smári Sigurðsson

Fín sumarferð inn á hálendið

Þótt komið sé vel fram á sumar horfa sleðamenn enn löngunaraugum á þær fannir sem enn sjást í fjöllum. Um helgina fór hópur Eyfirðinga í fína sumarferð inn á Nýjabæjarafrétt ofan Eyjafjarðar og komst að því að víða var hægt að aka. Farið var með með sleðana á kerrum inn Eyjafjarðardal og þar var leikur einn að komast á snjó. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Þeir sem fóru voru: Formaðurinn, Sigurgeir , Steindór, Jón, Dunni og Hemmi auk SS. Heldur grisjaði í gegnum snjóinn fyrstu metrana eftir veginum frá bílunum en svo kom nægur snjór og frábært færi. Stefnan tekin án vandræða í Landakot og síðan í átt að Galtabóli en ekki gekk það eftir. Náðum þó að fara langt suður fyrir Galtaból rétt fyrir austan Lambalækjardrögin. Í frábæru veðri og hlýindum var stefnan næst tekin á Bergland. Er komið var vestur fyrir Eyjafjarðardalsbotn, fóru menn að efast um að hægt væri að fara vestur að Urðarvötnunum. En með mjög einbeittum vilja formannsins var komist með léttum leik á snjó alla leið í Bergland. Að vísu mörgum krókum og beygjum síðar. Hægt var að renna alveg heim í hlað og þar settust menn að snæðingi eftir að “brytinn” galdraði fram “steik”. Langt var liðið á kvöld og kominn tími til að huga að heimferð. Var hópurinn
kominn í bæinn aftur skömmu eftir miðnætti. Fín ferð í byrjun sumars.

Mögnuð kvöldferð í Laugafell

Sumir menn eru einfaldlega þrjóskari en aðrir og neita að viðurkenna að veturinn sé búinn. Síðastliðin föstudag fóru fimm garpar á sleðum frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og inn í Laugafell. Gekk ferðin að óskum en væntanlega er þetta með síðustu ferðum inn á hálendið á þessu vori.

Lagt var af stað kl. 5 en hægt var að komast á snjó í gilinu sunnan við gönguhúsið í Hlíðarfjalli. Þaðan var greið leið upp á topp Hlíðarfjalls, a.m.k. fyrir þá sem höfðu belti og hestöfl til að takast á við færið en það var mjög blautt eftir hlýindi dagsins. Þurftu sumir smá hjálp síðustu brekkuna. Af Hlíðarfalli var ekin hefðbundin leið niður í Glerárdal, fram af Þröminni niður í Skjóldal og upp úr honum áleiðis inn á Nýjabæjarfjall. Þar er enn nægur snjór og frábært færi. Þegar nálgaðist Laugafell minnkaði snjórinn ört og kostaði talsverðar þræðingar að finna færa leið. Í Laugafelli var allt í góðu standi og gæsavarp hafið. Þar hafði þá enginn komið síðan 18. apríl sem segir sína sögu um ástandið í vetur. Eftir bað, kaffi og smásögur var tankað og ekin sama leið til baka. Lagt var af stað úr Laugafelli um kl. 11 og tók ferðin til baka um þrjá og hálfan tíma. Gekk hún áfallalítið en þó náði síðuhöfundur að verða bensínlaus á versta stað, í bröttu gili upp úr Heimari-Lambárdal. Allt reddaðist það þó og án efa hafa menn verið fegnir að skríða í rúmið er heim kom, ánægðir með frábæra ferð.

Í ferðina fóru Hreiðar í Vín, Smári Sig., Jón Björns., Eiríkur Jónsson og Halldór A. Meðfylgjandi myndir tóku Eiríkur, Smári og Halldór.

Kosningahelgi á fjöllum

Endalausar fréttir af skoðanakönnunum. Sömu fréttir dag eftir dag. Þessi úti í dag og hinn er inni en á morgun er allt breytt. Þá er sá sem var úti í gær kominn inn en sá sem var inni er úti. Þessi hringavitleysa minnir á vísuna góðu:

Týndur fannst en fundinn hvarf
að fundnum týndur leita þarf.
Svo týnist sá sem fundinn fer,
að finna þann sem týndur er.

Menn gripu því feginshendi tækifærið sem gafst til að eyða kosningahelginni á fjöllum, fjarri öllum skoðanakönnunum og spámönnum.

Erfiður vetur að baki

Nú er senn á enda einn erfiðasti vetur sem sleðamenn Norðanlands hafa gengið í gegnum. Ekki nóg með að snjóinn vantaði heldur var veðrið einnig lagtímum saman með þeim hætti að ekki viðraði til að nota þann snjó sem þó var á hálendinu. Það segir sína sögu að Kaldbaksdalurinn á Öxnadalsheiði skuli hafa verið orðinn nánast ófær fyrir sleða í lok apríl en þar er alla jafna trygg leið upp á hálendið fram til loka maí a.m.k. En ef að fjallið kemur ekki til Múhameðs þá fer Múhameð til fjallsins og því ekki um annað að ræða að bregða undir sig betri fætinum (eða raunar bílunum) og aka þangað sem hægt er að komast á snjó. Ákveðið var að leggja af stað frá Akureyri eftir vinnu á fimmtudaginn síðasta, aka þjóðveg 1 austur á Hérað og komast upp í Snæfell um kvöldið. Allt gekk þetta eftir þótt reyndar væru ekki alveg allir tilbúnir á uppgefnum brottfarartíma. En annað hefði líka verið óeðlilegt og þeir hinir sömu urðu bara að auka aðeins við snúninginn á (hvíta) Landkrúsernum til að ná hópnum.

Búið að loka!

Rennt var inn í Egilsstaði rétt fyrir kl. 9 um kvöldið og hugsuðu menn sér nú gott til glóðarinnar að fá sér vel að borða á Esso-stöðinni. En því miður virtust Egilsstaðabúar ekkert of áfjáðir í að eiga viðskipti við 10 svanga sleðakarla úr Eyjafirði. „Við lokum kl. 9 og erum búin að slökkva á grillinu,“ var svarið og dugðu engar fortölur. Okkur vantaði líka Billa bakara en hann hefur áður sýnt leikni sína í að tala kvenþjóðina til við svipaðar aðstæður. Í Shell-skálanum var svipað upp á teningnum, búið að loka, en þá var okkur bent á Pizza 67 handan götunnar. Þar var líka tekið á móti hópnum opnum örmum. Að vísu „villtust“ sumir inn á kosningaskrifstofu D-listans á neðri hæðinni og hafa eflaust fengið blíðar móttökur þar líka. Var nú pizzunum sporðrennt með bestu lyst og virtust sumir í hópnum ekkert of áfjáðir í að halda áfram för um kvöldið. Allir náðust þó út að lokum og var þá lagt í´ann upp Fljótsdalinn og upp úr honum, áleiðis í Snæfell. Sleðarnir voru teknir af við fyrsta skafl sem sást en þá var reyndar mjög farið að styttast í Snæfellsskála. Höfðu menn á orði að líkast til hefði aldrei liðið styttri tími frá því að allir búnaður var hnýttur á sleðana og þar til komið var á áfangastað og tími að leysa allt aftur. Í Snæfellsskála var komið um kl. 1 og mál að fara að halla sér. Að vísu var veðrið með þeim hætti að erfitt var að koma sér inn í hús og lofaði þetta góðu um næsta dag.

Breytt áætlun

Föstudagurinn brást ekki vonum manna og heilsaði bjartur og fagur en í ljós kom að menn höfðu átt misjafnar draumfarir. Til dæmis dreymdi formanninn að brotist hefði verið inn í Cortínuna sem hann átti endur fyrir löngu. Hafði þjófurinn m.a. á brott með sér geislaspilara (a.t.h. að þetta var Cortína 1966 módel) og alla mæla úr mælaborðinu. Var mikið skeggrætt hvað þessi draumur táknaði fyrir ferðina og sýndist sitt hverjum.

Að loknum hefðbundnum morgunverkum var lagt af stað inn að jökli en planið var að renna í Esjufjöll. Þar áttum við bókaða gistingu næstu nótt. Þegar komið var drjúga leið inn á jökul var hins vegar farið að þyngja yfir og ljóst þótt að ekki væri bjart sunnan til á jöklinum. Hins vegar var glansbjart að sjá norður og vestur. Því var stefnunni breytt í skyndi og snúið í átt að Kverkfjöllum. Heiti lækurinn í Hveragili togaði líka í menn og þangað var stefnt. Komið var að læknum á „hefðbundnum“ stað en nú var ákveðið að breyta út af vananum og taka bað undir fossinum sem er nokkru neðar. Þangað höfðu fæstir komið áður og reyndist þetta ævintýraferð hin mesta. Var engu líkt að skríða upp undir fossinn þar sem heitt vatnið steyptist af feiknakrafti fram af brúninni. Eftir bað og afslöppun var þrætt í gegnum Kverkfjallaranann áleiðis að Sigurðarskála. Þar var stoppað stutt og stefnan tekin áleiðis inn að jökli og upp Löngufönn. Var gaman að koma að lóninu fyrir neðan skála Jöklarannsóknafélagsins en hægt var að aka á sleðum alveg að fjöruborðinu. Nú var stýrinu snúið í átt að Sigurðarskála og eftir nokkrar umræður var ákveðið að hafa þar næturstað, enda ekki útlit fyrir að það væri að birta yfir sunnar á jöklinum. Var því gisting í Esjufjöllum afpöntuð.

Áttu menn ljúfa kvöldstund, borðuðu vel og slöppuðu af. Þegar verið var að klára uppþvottinn heyrðist í sleðum og í hlað renndi Ásbjörn Helgi Árnason, sleðagarpur frá Neskaupstað, með tvo sunnlenska meðreiðarsveina, Óskar Guðmundsson og Valdimar Long, sem báðir voru í sinni fyrstu sleðaferð.

Mílurnar rúlla inn

Á laugardagsmorgni var fínt veður í Kverkfjöllum og að sjálfsögðu var ákveðið að byrja á að renna í morgunbað í Hveragili. Lækurinn var með allra heitasta móti og tók verulega á að komast ofan í hann. Á eftir stóðu menn fáklæddir á bakkanum lengi dags á meðan mesti hitinn rauk úr þeim. Síðan var lagt í hann inn á Brúarjökul. Þótti reyndar sumum baðið fara fyrir lítið þar sem menn fengu að svitna vel strax í brekkunni upp frá læknum.
Þegar inn á jökul var komið skyldu leiðir. Ásbjörn og félagar tóku stefnuna á Hermannaskarð og þaðan niður í Esjuföll. Á meðan renndu Eyfirðingar niður að Hnútulóni, þar sem Kverká kemur undan jöklinum, og þaðan var stefnan tekin á Skálafellsjökul til að endurnýja bensínbyrgðir. Var sú för tíðindalítil en gaman var að bruna niður Skálafellsjökulinn, kílómeter eftir kílómeter með 60-80 cm jafnföllnum púðursnjó.

Alltaf er gott að koma niður að Jöklaseli og var þar vel tekið á móti hópnum, jafnvel þótt við lentum aðeins inn á svæði sem ætlað var fyrir kvikmyndatökuflokk sem þarna var. Inn í húsinu sáum við ágrip af handritinu sem virtist glæpasaga af svæsnustu gerð. Reyndum við að fá hlutverk fyrir G. Hjálmarsson sem illmennið í myndinni en tókst ekki. Líkast til hefur þeim þótti Guðmundur of góðlegur. Eftir drjúgt stopp á Skálafellsjökli var stefnan tekin upp jökulinn að nýju, niður með Veðurárdalsfjöllum og í Esjufjöll. Er þangað var komið þótti okkur einkennilegt að sjá hvergi merki um Ásbjörn og félaga þar sem langt var liðið á daginn og þeir hefðu átt að vera langt á undan okkur.

Úr Esjufjöllum var ákveðið að aka sömu leið til baka inn á jökul og þaðan í Snæfell. Var greitt ekið og reyndi nú á hver væri hraðskreiðastur. Herma fregnir að þeir grænu hafi fengið þarna nokkra uppreisn æru þar sem 1.000 mótornum í Þönderkettinum virtist vegna einna best. Þegar komið var í Snæfell voru Ásbjörn og félagar að renna þar í hlað og kom þá skýringin á fjarveru þeirra í Esjufjöllum. Mótor í einum sleðanum hafði bilað í Hermannaskarði og voru hinir tveir búnir að draga hann 70-80 km leið í Snæfell. Greinilega alvöru menn á ferð.

Nú voru höfð snör handtök við að undirbúa kvöldmáltíðina, nautalundir með öllu tilheyrandi. Maturinn var að sjálfsögðu frábær og eftir kaffi og súkkulaði var mesti vindurinn úr mannskapnum. Einhverjir hringdu til byggða í kringum miðnættið til að fá helstu kosningatölur en annars létu menn sig kosningarnar litlu skipta heldur sögðu smásögur og rifjuðu upp gömul afrek á fjöllum.

Framsókn með 4

Á sunnudagsmorgni hafði veðrið heldur snúist til verri vegar. Komin norðaustanátt og éljahraglandi annað slagið. Því var ekkert annað að gera en undirbúa heimferð og ganga frá skálanum. Var ákveðið að ljúka ferðinni með sundi á Egilsstöðum, sem og gekk eftir. Á leiðinni niður Fljótsdalinn bárust síðan fréttir af úrslitum kosninganna daginn áður. Framsókn fékk 4!

Frábært veður og færi á hálendinu

Fjölmenni var á hálendinu um síðustu helgi í blíðuveðri og frábæru færi. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Við fórum þrír af stað, Sigurgeir, Eiríkur og Smári, um Kaldbaksdal á föstudags- eftirmiðdag, áleiðis í Laugafell. Þá voru greinilega margir farnir af stað á undan okkur. Dalurinn virtist fremur rýr við fyrstu sýn en bara fínn þegar á reyndi. Hálfgert harðlífi var að renna suður “fjallið” að Litla koti en síðan batnaði færið jafnt og örugglega allt þar til það gat ekki orðið betra.

Á laugardagsmorgni, eftir bað og éljagang, braust sólin fram og sýndi sínar betri hliðar. Byrjað var á að renna úr Laugafelli, suður um í Nýjadal og hrafninum gefið. Stefnan þaðan var tekin suður fyrir Mjóhálsinn og reynt við fjöllin austur um og yfir í Snapadal. Færið og veðrið verður vart betra en þarna var. Strauið var tekið þvert yfir Vonarskarð, með viðkomu hjá Hníflunum í gengum skarðið milli Tindafells og Hnúðs. Heldur var nú hokrið mikið á melunum niður með Hraunkvíslinni en við komumst þó í Gæsavötn. Þar fengu menn sér smávægilegan hvíldarlúr um stund. Þá var ákveðið að skella sér í eftirmiðdagsferð austur með jökli. Færið var rennislétt nýsnævi, betra enn nokkru sinni. Erfitt var að hemja fákana fyrr en komið var upp á topp Kistufells, þaðan sem útsýnið var engu líkt…engu líkt. Enginn okkar hafði komið þarna upp áður, og veðrið maður. Horfðum við beint ofaní Toppgíginn á Urðarhálsi og sáum vel yfir úfinn Dyngjujökullinn austur í Kverkfjöll, þar sem gufan sást vel stíga til himins. Hugfangnir héldum við til baka í Gæsavötn og á þeirri leið fjölgaði í hópnum. Formaðurinn og G. Hjálmarsson voru mættir og voru auðvitað sendir í slóðina og sagt að fara upp á Kistufell.

Sunnudagur fagnaði okkur með logni og heiðríkju sem aldrei fyrr. Strikið var tekið inn Dyngjujökul og stoppað um stund við Gjálp. Síðan svo sem leið liggur niður Köldukvíslarjökul og í Snapadal þar sem loks gafst stund til kaffidrykkju og sögustundar. Því næst var tekin styzta leið upp með Rauðá og uppá Tungnafellsjökul, niður Hagajökul nyrðri og í Laugafell. Á heimleiðinni var skotist ofaní Hafrárdal og snjóalög skoðuð með vegagerð í huga. Þá var og brunað norður Seldalsfjallið í von um að finna færa leið niður á Öxnadalsheiði, en því miður virtist það ekki gerlegt. Þannig lauk 450 km helgarferð þar sem allt lék við okkur.

Landakotsmenn í “langferð”

Einn er sá hópur sleðamanna sem kenndur er við skálann Landakot en skálinn er á hálendinu upp af Eyjafirði. Í hópnum eru menn sem voru meðal þeirra fyrstu sem stunduðu vetrarferðir á vélsleðum um hálendið og eru þeir enn að um 30 árum síðar.

Eitthvað hefur þeim félögum verið legið á hálsi fyrir að ferðirnar séu orðnar bæði færri og styttri en áður var, a.m.k. þótti einhverjum (sem væntanlega er illa þenkjandi) það tíðindum sæta á dögunum þegar Landakotsmenn höfðu sig „alla leið“ inn í Litlakot á Nýjabæjarfjalli. Eins og kunnugir vita er Litlakot einmitt gamli Landakotsskálinn sem fluttur var inn á Nýjabæjarfjall með herþyrlu fyrir nokkrum árum eftir að nýtt hús hafði risið í Landakoti. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni en þær eru ættaðar frá Steina Pé.

Spilaferð í Gæsavötn

Það er alveg ásættanlegt að halda kyrru fyrir í heilan dag á meðan snjóar. Því fengu menn að kynnast í Gæsavötnum á miðvikudaginn í síðustu viku og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.

Á þriðjudagsmorgni var stefnan tekin upp Kaldbaksdalinn og inn í Laugafell. Þar var fyllt á alla koppa og kirnur, nú átti að fara langt austur. Um kvöldmatarleytið vorum við komnir í Gæsavötn eftir hálfgerða harðlífisferð, þar sem skiptust á skaflar af nýsnævi og grjótharðir svellklammar. Í Gæsavötnum var enn tankað og undirbúin brottför lengra, a.m.k. í Sigurðarskála. En þá rauk ´ann upp með miklum sperringi, suðvestan og snjókoma, og stóð við það nóttina og allan miðvikudaginn. Þegar komið var undir kvöld á miðvikudag og menn orðnir hundleiðir á spilunum, var ljóst að við vorum að falla á tíma með austurferð svo réttast var að hörfa. Skutumst því til baka í Laugafell, í fínu veðri. Þar mátuðum við nýju laugina, heitari sem aldrei fyrr. Var tekið kvöld- og svo aftur morgunbað áður en heim var haldið. Ágæt ferð en heldur snubbótt. Það var Hreiðar formaður, Sigurgeir Steindórs., Benni á Bílvirkja, Eiríkur, Smári Sig. og löggurnar þrjár, Steini Pé. Óli Óla og Geir, sem tóku þennan rúnt. Myndir Steini Pé. og Smári Sig.

Sprett úr spori í Kverkfjöll

Hópur eyfirskra sleðamanna fór í fína ferð inn á hálendið um helgina. Ekið var Laugafell, Gæsavötn og austur í Kverkfjöll framan við Dyngjujökul. Svipuð leið var farin til baka.
Ekið var af Öxnadalsheiði og inn Nýjabæjarfjall, sem hefur að geyma mikinn snjó. Færið þar er nú frekar rifið en fer batnandi þegar innar dregur. Ögn hefur bætt á í Laugafelli frá síðustu ferð. Fínt er að fara hefðbundna leið í Sandbúðir en frekar eru nú gil “tómleg”. Fyrir austan Sandbúðir borgar sig ekki að fara venjulega leið á Skjálfandafljótsbrú, heldur fara suður fyrir Tunguhraunið, eða jafnvel alveg norður fyrir það, þar sem þarna er verulega lélegt færi. Svolítið hefur bætt á í kringum Gæsavötn síðustu daga.

Austur með jökli er verulega flott færi og gott að taka fákana til kostana. Heldur er rýrt á aurunum fyrir neðan Sigurðarskála en vel má skreppa í baðið, þó það hafi ekki verið gert að þessu sinni. Á heimleiðinni stungu menn sér niður í Villingadalinn. Þar er fínn snjór í dalbotninum en hann bara endar um miðjan dal og alautt allt til byggða. Í ferðinni voru m.a. 2 nýir sleðar teknir til kostanna. Gafst gott tækifæri til að athuga hámarkshraðann því rennifæri var sem fyrr segir austur með jökli allt í Sigurðarskála, enda voru menn snöggir. Myndir: Halldór Jóns.

Ski-doo 2004 – REV og meiri REV

Þá hefur Ski-doo kynnt sleðalínu sína fyrir árið 2004. Álit manna á henni ræðst væntanlega af því hvort þeim líkar við REV-boddíið eða ekki. Það er nefnilega ljóst að Ski-doo er að veðja á að REV-inn sé framtíðin og 2004-línan tekur mið af því.

Vissulega geturðu enn fengið Ski-doo í „hefðbundinni” útfærslu en meginþunginn í framleiðslunni er á REV í hinum ýmsu útfærslum. Þessi áhersla þarf raunar ekki að koma neinum á óvart því fáir sleðar hafa slegið jafn eftirminnilega í gegn og REV og salan á 2003 módelinu fór jafnvel fram úr björtustu vonum Ski-doo manna sjálfra. Ef litið er í fljótheitum yfir línuna hjá Ski-doo virðist hún eiga það sameiginlegt með 2004 árgerðinni frá hinum framleiðendunum sem kynnt hafa sína sleða að það eru engar stórar nýjungar á ferðinni. Fyrst og fremst er um að ræða frekari þróun, útfærslur og endurbætur á því sem kynnt var í 2003 árgerðinni. Ski-doo kemur að vísu með eina nýja vél en það er 600 með SDI-innspýtingu. En lítum nánar á einstaka sleða.

MX Z

Öll MX Z línan kemur í REV útfærslu. Á toppnum tróna “X” og “Renagade X” sem bera öll einkenni keppnissleðans frábæra. Báðir eru með hinn stórsniðuga elektróníska bakkgír sem raunar má finna í mörgum sleðum frá Ski-doo. X er á 15x121x1″ belti en Renagade X á 15x136x1.25 belti og með nýja gerð af sæti sem hannað er fyrir mountain-sleðana. Í vélbúnaði er val um 800 vél með DPM, hina nýju 600 SDI, eða 600 H.O.
Af öðrum útfærslum af MX Z má nefna Adrenaline, sem ætlaður er fyrir kröfuhörðustu ökumennina, með öflugum HPG-VR dempurum og Trail MX Z, sem er aðeins “mildari” útgáfa.

REV í ferðaútgáfu

GSX nefnist ný sleðalína frá Ski-doo. Hún byggir á REV-boddínu en er smíðuð fyrir þá sem vilja stunda lengri akstur. Þetta er í stuttu máli REV í ferðalagaútfærslu, hlaðinn ýmsum aukabúnaði til að gera aksturinn sem þægilegastann. Sem fyrr eru ýmsar vélar í boði en væntanlega verður 800 vélin vinsælust.

Legend

Eins manns ferðasleðarnir frá Ski-doo hafa gengið undir nafninu Legend undanfarin ár en nú er þetta nafn einnig látið ná yfir tveggja manna ferðasleðana. Nafnið Grand Touring heyrir því sögunni til. Legend kemur í “hefðbundna” boddíinu og er ekki að sjá miklar breytingar á milli ára. Vélarstærðir eru 600, 700 og 800, að ógleymdum fjórgengissleðanum.

Summit

Ski-doo var fyrsti framleiðandinn til að smíða sérstakan fjalla- eða klifursleða. Þetta var Summit 580 árgerð 1994 og muna eflaust margir eftir einum fyrsta sleðanum af þessari gerð hérlendis sem Vilhelm Ágústsson keypti. Árið 2004 markar því viss tímamót þar sem Summit á 10 ára afmæli. Raunar eru nokkrar vikur síðan Ski-doo afhjúpaði Summit 2004 en hann byggir að sjálfsögðu á REV. Það sérstaka við þessa sleða er að þeir koma á 16″ breiðu belti í stað hins hefðbundna 15″ beltis sem algengast er. Í þessari útfærslu segir Ski-doo að 144″ langa beltið gefi sama flot og 151″ langt belti hjá öðrum. Einnig býður Ski-doo Summitinn með 151″ og 159″ beltislengd. Allt er gert til að hafa sleðana sem léttasta enda hefur það tekist bærilega. Nýtt og léttara sæti lítur m.a. dagsins ljós og raf-bakkgírinn er staðalbúnaður. Án efa frábærir sleðar í brekkurnar.

Hafðist í þriðju tilraun

Hitavandamál á heimleiðinni.

Hitavandamál á heimleiðinni.

Síðastliðinn fimmtudag fór hópur sleðamanna af Öxnadalsheiði áleiðis í Gæsavötn. Erindið var að koma þangað rafgeymi sem tekinn var heim í vinnuferð í Gæsavötn skömmu eftir áramót. Búið var að gera tvær tilraunir til að fara með rafgeyminn en ekki tekst, sem segir meira en mörg orð um aðstæður til fjallaferða að undanförnu. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Brottför var auglýst kl 16:00 á fimmtudaginn. Annar verðlaunahafana frá síðustu árshátíð EY-LÍV var eins og spenntur rottubogi og var tilbúinn löngu fyrir hádegi. Þó fór svo að spennan varð of mikil og bíða varð um stund eftir kappanum. Tekið var af á Öxnadalsheiðinni og er snjór í Kaldbaksdalnum í minna lagi, en vel fær. Lögð var til aftaníþota sem nota átti fyrir gaskút og rafgeyminn. Þotan var ekki alveg í stuði því hún gafst upp eftir 500 m. Fjallið uppi er hinsvegar hreint frábært, rennislétt og nægur snjór. Þegar innar er komið og farið að nálgast Fossárdrögin fer snjór minnkandi og best er að taka slaginn vel austur fyrir Geldingsárdrögin, nær allt að Lambalækjardrögum. Þá er þetta í góðu lagi. Einn stimpill yfirgaf okkur á síðustu kílómetrunum í Laugafell svo taka varð snæri til kostanna.

Í Gæsavötn og aftur heim

Á föstudagsmorgni skiptu menn liði. Sá stimpillausi fór í snæri áleiðis heim en hinir voru búnir að koma rafgeyminum fyrir aftána „trukknum“ hjá Geir, sem var bara ánægður með þyngdina. „Hann fýkur ekki á meðan.“ Farið var austur í Sandbúðir í fínu færi og merkilegt nokk, þar stendur skálinn þrátt fyrir að vindhraði hafi tvisvar slegið í 100 m/sek á síðustu vikum. Ekki einusinni snjór inni og allt í stakasta lagi. Heldur varð færið rýrara er austar dró. Miklar þræðingar voru í gengum hraunið og svellklammar í öllum lægðum eftir leysingar að undanförnu. Snjólaust var á Skjálfandafljótsbrú og enn minni snjór frá brúnni og upp í Gæsavötn. Þar, líkt og í Sandbúðum var allt í gotti. Þá var rafgeymirinn loks kominn á áfangastað eftir tvær árangurlausar tilraunir.

hemmi7

Sér niður að Hjörvarsskála. Þar er enginn vaknaður.

Á heimleiðinn skiptust á skin og skúri. Sólin braust fram með látum um stund en alveg skyggnislaust var þess á milli. Farið vara um Sandbúðir, Galtaból og Landakot. Eitthvað bar á hitavandamálum, sem enginn skildi af hverju stöfuðu. Nokkru sinnum þurfti að stoppa vegna þessa og aldrei sá sami er átti í hlut.

Kalt mat eftir túrinn

Þarna voru nokkrir að taka nýju sleðana sína til kostanna. Ljóst er að glottið á Steina Pé er ekkert að minnka og Benni er aldrjúgur með Skíddann, ef hitamælirinn er undanskilinn. Geir varð hálf hissa í ferðalok, ekkert bilaði og allt virkaði, enda kominn með hálfnýjan trukk. Júlli brosti eins og venjulega en hafði fulla ástæðu til að þessu sinni, enda kominn á Polaris-búðing. Hann getur a.m.k. tekið allt nestið sitt með núna án þessa að hafa þotu. Prófaði að taka bæði stökk og dýfu og það gekk eftir. Að vísu datt eitthvað smálegt úr sambandi. Formaðurinn fór bara hálfan túr og sparaði bensín á heimleiðinni. Sennilega er gamli sleðinn ekki eins góður og sögur herma. Verðlaunahafinn er enn á gamla sleðanum, sleða sem hætt er að framleiða. Komst að vísu hjálparlaust. Hann á ekki von í að taka verðlaunin að ári ef fram heldur sem horfir.

Áhugaverður Arctic Cat 2004

Þá hefur Arctic Cat kynnt 2004 árgerðina. Líkt og hjá Yamaha og Polaris, sem áður höfðu kynnt sína sleða, er fáar stórvægilegar nýjungar að sjá í fljótu bragði en þó leynist ýmislegt áhugavert undir ef betur er að gáð. Arctic Cat menn eru að fylgja eftir góðu ári þar sem þeir kynntu m.a. hinn vinsæla Firecat og horfa án efa með bjartsýni fram á veginn (eða snjóinn). Ef litið er yfir framleiðslulínuna er að sjá sem hún hafi verið einfölduð en þó þannig að í raun eru enn fleiri módel í boði en áður. Þannig ætti hver og einn að geta fundið sleða við hæfi. Valið er þó lang í frá auðvelt því Arctic Cat er með marga afar áhugaverða sleða. Sem fyrr er EFI í boði á mörgum sleðum, nokkuð sem kettirnir hafa fram yfir flesta aðra. En lítum þá á helstu sleðaflokka.

Firecat

Eldkettirnir slógu hressilega í gegn í fyrra og fyrir 2004 eru alls 12 útgáfur í boði. Það eru þrír litit (rauður, svartur og grænn), þrjár vélarstærðir (500 F5, 600 F6 og 700 F7) og þrjár grunngerðir með mismunandi búnaði (Standard, Sno Pro og EXT, sem stendur fyrir Extended Track). F6 og F7 eru boðnir bæði sem EFI og með blöndungum. Standard útfærslan er með 1″ spyrnum í belti og hefðbundinni fjöðrun, Sno Pro er með keppnisfjöðrun og annað hvort 1″ eða 1-3/8″ spyrnum og EXT er með hefðbundna föðrun og 144”x1-1/4″ belti.

ZR 900

Í ZR-línunni er nú aðeins 900 mótorinn í boði og er hægt að fá hann í fjórum sleðagerðum. Þ.e. með blöndungum eða EFI og með standard eða Sno Pro fjöðrun. Litirnir eru rauður, grænn eða svartur. Eitt það áhugaverðasta við þennan sleða er ný útfærla af drifi þar sem hið hefðbundna keðjuhús er horfið. Þetta kalla þeir Arctc Cat menn ACT Diamond Drive system.

Sabercat

Sabrecat er ný lína frá Arctcic Cat, sleði sem byggir á Firecat og leysir Zl af hólmi. Í raun má segja að þetta sé aðeins mildari útfærsla af Firecat, með t.d. sama byggingarlag og sömu útfærslu á mótor, en hentugri til lengri ferða. Það eru 10 útfærslur í boði. Vélarstærðir eru 500cc, 600cc, 600cc EFI og 700cc EFI. Grunngerðirnar kallast Standard, LX og EXT, hver um sig með mismunandi búnaði.

T660 Turbo

Arctcic cat reið á sínum tíma á vaðið með fjórgengisvél í sleða og er um að ræða 660 cc þriggja strokka mótor. Nú er búið að skella á hann túrbínu og við það hoppar aflið upp í heil 110 hestöfl. Blaðamenn Maximum Sled sannreyndu að sleðinn nær a.m.k. 100 mílna hraða og ætti því að vera nokkuð skemmtilegur. Hann stenst þó engan samanburð við RX-1 frá Yamaha. Sleðann er einnig hægt að fá í touring-útfærslu og þá með eða án túbínu.

Pantera

Panteran er óbreytt frá fyrra ári. Álitlegastar eru 600 EFI og 800 EFI sem eru hlaðnar búnaði, m.a. með farstarti! Litasamsetningin er vissulega sérstök þar sem gyllti liturinn er allsráðandi.

Mouintain

Maður spyr sig óneitanlega hvenær kapphlaupið um að bjóða lengsta beltið tekur enda. Arctic Cat kom á síðasta ári fram með 1M 900 á 151″ belti sem var bæði kraftmeiri og léttari en hjá keppinautunum. Polaris “yfirbauð” þá í beltislengd með 159″ beltinu á Vertical Esp. en nú bætir Arctic Cat um betur og kynnir til sögunnar King Cat á 162″ x 2-1/4″ belti, sem á þó að vera léttara en 159″ beltið. Ekkert er til sparað til að hafa sleðann sem léttastann en um er að ræða svokallaða “vorútgáfu” þ.e. fyrir þá sem panta snemma. Hefðbundni fjallakötturinn er boðinn á 151″ eða 159″ belti með 800 eða 900 vél (með eða án EFI) og hægt er að fá 600 EFI á 144″ belti.

Álitlegt sleðafæri á norðurhálendinu

Jeppamenn úr Eyjafirði og Húsavík fóru upp úr Bárðardal um helgina og inn í Laugafell. Á ýmsu gekk enda víða krapi undir snjónum. Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðalýsingu og myndir.

Þeir sem fóru á föstudag voru eina 13 klukkutíma að komast í Laugarfell. Þeir hrepptu versta veður og svo er allstaðar vatn undir snjónum eftir hlákur undanfarna daga.

Við fórum tveir af stað kl 5 á laugardagsmorgun. Þá var enn suðvestan fræsingur, bjart uppyfir en lága renningur. Framanaf var auðvelt að sjá hvar hópurinn frá föstudeginum hafði stungið sér til sunds en þegar innar dró versnaði veðrið og erfiðara var að sjá eitthvað hvernig landið lá. Endaði með að við sökktum öðrum bílnum í krapa. Snjór var yfir krapanum svo ekkert sást hvar krapinn var og hvar ekki. Þegar ekki var hægt að sneiða fram hjá dokkum og dældum vegna skyggnis fór sem fór. Eftir einn og hálfann tíma náðum við bílnum aftur upp og brunuðum af stað. Þegar komið var upp að Kiðagilshnjúk var komið fínt færi, sérstaklega fínt sleðafæri. Krapinn leyndist undir allt þar til komið var í yfir 850 hæð en þá varð minna um vatnið. Þræða varð hæðirnar mjög norðarlega vestur í Laugafell. Vorum 7 tíma á leiðinni. Veðrið var nú orðið alveg “bongo” og rétt að taka eina bunu upp í Landakot því eini möguleikinn var að vera nógu “hátt uppi” Greinilega hefur mikið gengið á í veðrinu undanfarið eins og sést á myndunum af skálanum.

Stefnan var upphaflega tekin á Gæsavötn með rafgeyminn en sú ferð verður að bíða um stund. Ljóst er að það þarf töluvert frost til að frysta krapann því það er svo mikill snjór yfir honum. En sleðafærið er gott þótt snjór sé í minna lagi, sérlega í og við Laugafell. Myndir og texti: Smári Sig.

Aukinn og endurbættur Polaris 2004

Þetta verður ár endurbóta en ekki mikilla nýjunga hjá Polaris. Það var ljóst eftir að 2004 árgerðin var kynnt fyrir blaðamönnum vetsanhafs nú í vikunni. Vonbrigði segja sumir en þó er e.t.v. réttara að segja að Polarismenn séu trúir þeirri stefnu sinni að stökkbreytingar séu ekki vænlegar til árangurs í vélsleðabransanum.

Og hver getur líka með góðri samvisku haldið því fram að þetta sé röng stefna. Höfum í huga að enginn framleiðir fleiri sleða árlega en Polaris og enginn býður jafn fjölbreytt úrval sleða, alls 39 mismunandi módel. Er það ekki einmitt þessi árangur sem telur þegar öllu er á botninn hvolft.

Þrátt fyrir hið mikla úrval eru ýmsir grunnþættir sameiginlegir. T.d. eru allar 500, 600, 700 og 800 Polaris-vélarnar útbúnar með hinum sniðuga búanði sem snýr kveikjunni við, þ.e. með rafrænum “bakkgír” og endurbættu kælikerfi sem eykur kæligetuna um allt að 40%. Stærri vélarnar eru einnig með búnaði sem seinkar kveikjunni ef vélin hitnar of mikið. Allir sleðar með Polarisvélum fá nýja gerð af kúplingu. Raunar eru aðeins örfáir sleðar sem enn eru með Fuiji-vélar og síðan er Frontier með fjórgengisvél áfram í boði. Nánast allir sleðar fá einnig nýja og öfluga bremsu. Ný gerð af belti kemur á nokkra sleða og þannig mætti áfram telja.

En lítum þá á sleðana og byrjum á Pro X línunni sem fyrst var kynnt í fyrra. Þar eru 8 módel í boði með mismunandi vélarstærðum. Þeir sem eru fyrir mestu átökin renna eflaust hýru auga til Pro X2 en hann er með sæti svipað og keppnissleðinn, öflugri dempara o.fl. Fyrir þá allra villtustu er síðan Pro XR sem er í raun 440 keppnissleðinn með 800 vél!

Næsti flokkur kallast XC SP og þar eru þrjár vélarstærðir í boði, 600, 700 og 800. Þetta eru vel búnir sleðar með góða akstureiginleika og ættu að uppfylla þarfir allra “venjulegra” ökumanna. Ný gerð af sæti og afturljósi er kynnt á þessum sleðum og gefur forsmekkinn af því sem kemur á næsta ári á öðrum sleðum, ef að líkum lætur.

Millilangir sleðar á 136″ belti hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Polaris hefur boðið SKS í þessum flokki en nú hefur hann fengið nýtt nafn, Switchback, og er kominn á 144″ belti. Þetta er blanda af góðum aksturssleða og sleða sem hentar í púðrið og mun án efa seljast vel.

Í ferðageiranum eru tvær línur í gangi, Classic, sem er geysilega vel búinn sleði með einföldu sæti og stuttu belti og tveggja manna sleðarnir koma á 136″ belti og kallast EDGE Touring. Ýmsar vélarstærðir eru í boði, allt frá 340 loftkældum upp í hina öflugu 800 vél. Loks eru það RMK púðursleðarnir. Í þeim er nú að finna ýmsilegt af því sem kynnt var í Vertical Escape í fyrra en hann var eins og menn muna valinn sleði ársins.

Sem fyrr segir kann sumum að þykja full lítið af nýjungum hjá Polaris þetta árið en þær eru þó ýmsar ef betur er að gáð og rakið var hér að framan. Gleymum heldur ekki að 2005 eru merk tímamót hjá Polaris en þá munu menn fagna því að hálf öld verður liðin frá upphafi fyrirtækisins. E.t.v. er stærri tíðinda að vænta þá.

Yamaha 2004

2003rx1

RX-1. Ári eftir að hann kom á markað hafa keppinautarnir ekki enn fundið svar. Þetta er sannarlega eini sleði sinnar tegundar.

Yamaha er samkvæmt venju fyrsti framleiðandinn til að kynna 2004 árgerðina af sleðum en hulunni var svipt af henni vetur í Bandaríkjunum fyrr í dag. Eftir að hafa varpað sprengju inn á markaðinn fyrir ári síðan með RX-1 fjórgengissleðanum og kynnt hinn geysivinsæla Viper fyrir tveimur árum, má segja að breytingarnar hjá Yamaha séu smærri í sniðum að þessu sinni. Þó eru ýmsar nýjungar á ferðinni, m.a. ný útfærsla af RX-1 á 136 tommu belti og ný Venture 700 ferðasleði

Grunngerðin af RX-1 á stuttu belti kemur að mestu óbreytt, enda reynst vel. Sleðinn fær þó nýja gerð af belti frá Camoplast (Rip Saw track ) sem á að gefa enn betri spyrnu. Þetta nýja belti kemur raunar á flestum sleðunum. Einnig má nefna nokkrar minniháttar “fíniseringar”, svo sem endurbætta úrfærslu á hita í handföngum og bensíngjöf, sleðinn hefur verið léttur um 2,5 kg að framan og fleira mætti telja.

RX Warrior er ný útfærsla á RX-1, þ.e. nánast sami sleði og RX-1 en með 136 tommu belti. Honum er ætlað að keppa við t.d. SKS frá Polaris og Renegate frá Ski-doo sem báðir hafa notið mikilla vinsælda. Þessi vinsæla beltislengd er tilraun til að búa til sleða sem hentar sem flestum aðstæðum, þ.e. með meira flot en stuttbeltasleðarnir en betri akstureiginleika en púður- eða klifursleðar á beltum yfir 140 tommur. Warrior er með nýrri útfærslu af afturfjöðrun sem á að vera mjög einfalt að stilla.

SXViperX er annar nýr sleði. Þetta er hreinræktaður sportsleði byggðir á hinum vinsæla og gullfallega Viper sem margir vilja meina að sé einn flottasti sleði sem smíðaður hefur verið. SXViperX er hlaðinn búnaði, m.a. Ohlins dempurum.

SXVenom er líka nýtt nafn en þar er a ferðinni endurfæðing sleða með 600 þriggja strokka mótornum sem ekki var í framleiðslulínunni fyrir árið 2003.

Fyrir ferðadeildina kemur Yamaha með mjög spennandi kost í nýrri Venture 700. Sleðinn hefur nú fengið vélina úr Viper og einnig sama flotta útlitið. Stjórntækin og mælaborðið er hið sama og í RX-1. Þetta er m.ö.o. aflmeiri og flottari sleði en fyrirrennarinn og tilbúinn að takast á við hvaða fjöll sem er.

Mountain-sleðarnir frá Yamaha koma að mestu óbreytir frá fyrri árgerð en þó allir með einhverjum smá endurbótum. Þetta eru RX-1 á 151×2 tommu belti, SXViper á 144×2 tommu belti og hinn þrautreyndi Mountain Max 700 á 141×2 tommu belti.

Nú hefur Yamaha sem sagt lagt sín spil á borðið og þá er bara að bíða og sjá hverju hinir framleiðendurnir svara.

Innréttingaferð í Gæsavötn

Um helgina var farin vinnuferð í Gæsavötn í þeim tilgangi að setja upp nýja eldhúsinnréttingu. Einstök veðurblíða var allan tímann og kom í ljós að snjóalög á hálendinu eru mun betri en flestir í byggð virðast telja.

Það var alls 14 manna hópur úr Eyjafirði og frá Húsavík sem stefndi inn í Gæsavötn á föstudagskvöldið. Húsvíkingar, þ.e. Ingi Sveinbjörns., Ingunn og Helga dóttir þeirra, voru fyrri til að leggja af stað og voru búin að koma góðum hita í skálann þegar Eyfirðingar mættu um miðnættið á 5 bílum. Þar voru á ferð Benni á Bílvirkja, Hreiðar í Vín, Jón Björns., Jósavin, Ingólfur bakari, Sigurgeir Steindórs., Steindór sonur hans, Halldór Jóns., Þorgerður og Smári Sig. auk síðuhöfundar. Ekið var upp Eyjafjarðardal og þegar upp var komið tekin stefna í Galtaból, síðan í Sandbúðir, þaðan norðan við Fjórðungsöldu með stefnu á Jökulfallið og loks á brúna yfir Skjálfandafljót. Færið var frábært fyrir jeppa en þegar komið var upp á brún Eyjafjarðardals var nægur snjór til að aka nánast beint af augum, rennislétt og mjúkt.

Innréttingasmíð og útsýnisferð

Sem fyrr segir var erindið að setja upp nýja eldhúsinnréttingu, nánar tiltekið nýja neðri skápa ásamt eldavél. Eftir morgunkaffi var hafist handa við að taka gömlu innréttinguna niður og undirbúa uppsetningu á þeirri nýju. Fljótlega kom í ljós að 28 vinnufúsar hendur var algert offramboð miðað við umfang verkefnisins. Þeir sem ekki komust að styttu sér helst stundir við að hnýta í smiðina og setja út á verkið. Því þótti snemma ljóst að það myndi vinnast mun betur ef fækkað yrði á staðnum. Um hádegisbil lagði meginþorri hópsins upp í útsýnisferð, enda veðurblíðan hreint einstök, en þeir sem helst kunnu til verka við smíðar urðu eftir til að koma innréttingunni fyrir. Ekið var upp á Gæsahnjúk og þaðan tekin stefnan á Trölladyngju. Vandræðalaust var að komast á toppinn og tók þá við smá leikaraskapur í gígnum. Að því loknu var ekið til baka í Gæsavötn og var þá innréttingasmíði nærri lokið. Hluti hópsins fór heim um kvöldið en afgangurinn sló upp stórveislu.

Heim á leið í vetrarblíðu

Í morgun, sunnudag, var enn vaknað í einmuna blíðu, heiðskíru veðri með 8 siga frosti og logni. Eftir þrif á skálanum var ekið vestur yfir Skjálfandafljót, að Fjórðunungsöldu og upp á hana. Síðan niður að Sandbúðum og tekið kaffistopp, Nú skildu leiðir. Húsvíkingar stefndu til byggða niður Bárðardal en þeir sem eftir voru af Eyfirðingum renndu í bað í Laugafell og síðan heim um Eyjafjarðardal.

Þéttur og góður snjór

Sem fyrr segir er frábært jeppafæri á þeim hluta hálendisins sem ekið var um. Víðast er nægur snjór þannig að hægt er að aka beint af augum og færið einstaklega slétt og mjúkt. Sleðafæri er einnig ágætt á köflum, þ.e. á svæðinu upp af Eyjafirði og austur fyrir Sandbúðir. Þar fyrir austan er heldur þynnri snjór. Almennt má segja að snjóalög lofi mjög góðu fyrir veturinn. Sá snjór sem er kominn er mjög þéttur og góður og því ákjósanlegt undirlag. Þannig eru öll skilyrði fyrir hendi til þess að þetta verði með allra bestu ferðavetrum á fjöllum. texti: Halldór A. Myndir: Halldór A og Halldór Jóns.

Vélsleðaannáll 2002

Við áramót tíðkast að líta um öxl og rifja upp það sem hæst bar á gamla árinu. Því er ekki úr vegi að renna yfir hvernig vélsleðaárið 2002 kom lesendum Sleðasíðu HA fyrir sjónir. Eins og jafnan þegar annálar eru annars vegar er mjög stiklað á stóru.

Janúar:
Stærstu tíðindi janúarmánuðar voru án efa þegar Yamaha öllum að óvörum afhjúpaði RX-1, fyrsta „alvöru” fjórgengissleðann sem er samkeppnisfær í hópi öflugustu tvígengissleða. Menn áttu vart til nógu stór lýsingarorð í fórum sínum enda stökkið í raun stærra en nokkurn gat órað fyrir. Þó nokkrir sleðar hafa selst hérlendis og ekki annað vitað en að sleðinn standist þær væntingar sem til hans eru gerðar. Hann er vissulega talsvert þyngri en tvígengissleðar en ætti engu að síður að geta hentað ýmsum vel, t.d. til ferðalaga.
Arctic Cat komst einnig í fréttirnar í janúar. Þá var boðuð koma tveggja nýrra sleða sem síðan voru settir á markað í Bandaríkjunum í lok mánaðarins. Stóru tíðindin voru þau að báðir eru með 900 cc tveggja strokka vél og Kattarmenn því fyrstir til að bjóða slíkt. Einn slíkur sleði í Mountain Cat útfæslu rataði til Íslands ekki löngu síðar. Þá boðaði Arctcic Cat einnig komu 2003 árgerðarinnar þar sem Firecat sleðarnir vöktu verðskuldaða athygli, enda mögnuð tæki eins og eigendur þeirra hérlendis hafa þegar sannreynt.
Frá Haftækni bárust þær fréttir að búið væri að útbúa Íslandskort fyrir Garmin GPS tæki. Góðar fréttir fyrir ferðakarla og kerlingar.
Af snjóalögum á Íslandi voru ekki eins upplífgandi fréttir. „Nú er það svart á hálendinu“ hljóðaði fyrirsögn 7. janúar en þar sagði af jeppaferð inn í Gæsavötn helgina á undan.

Febrúar:
Framleiðendur héldu áfram að kynna 2003 árgerðina í febrúar. Ski-doo kom fram með REV-sleðana og menn fengu vart vatni haldið af hrifningu. Einnig var kynnt 800 vél með nýrri gerð af innspýtingu, SDI, sem sögð var marka tímamót í smíði tvígengisvéla fyrir vélsleða.
Hér heima komust Eyfirðingar fyrstu ferð vetrarins á sleða inn í Laugafell. Þá var komið fram í miðjan febrúar sem sagði meira en mörg orð um snjóalögin framan af vetri. Ferðalangar báru nú þær fréttir af snjólaögum á hálendinu að þau væru öll að koma til. Inn á Glerárdal var þá einnig kominn góður snjór og lyftist nú heldur á mönnum brúnin. Keppnisvertíðin hófst með móti á Dalvík þar sem Alexander „Lexi“ Kárason stóð sig manna best og tilkynnt var um að þættir um snjókrossið yrðu sýndir í Ríkissjónvarpinu þá um veturinn. Þá bættist nýr vefmiðill við þegar snow.is fór í loftið.
En því miður voru ekki allar fréttir mánaðarins jafn ánægjulegar. Þá lést á 63. aldursári, Tómas Eyþórsson, fyrrverandi umboðsmaður Polaris á Íslandi. Tómas var umboðsmaður fyrir Polaris í hátt í þrjá áratugi og er óumdeildanlega einn af þeim sem eiga hvað drýgstan þátt í þróun sleðamennsku hér á landi. Með brotthvarfi hans lauk ákveðnum kafla í þeirri sögu.

Mars:
Polaris kynnti 2003 árgrðina til sögunnar í mars og innihélt hún m.a. nýju Pro X línuna og Vertical Escape púðursleðann. Þá kynnti Blade áform sín um nýjan fjórgengissleða með 1.500 cc vél.
Í Bandaríkjunum lauk WSA-mótaröðinni og það var Arctic Cat ökumaðurinn Tucker Hibbert sem stóð uppi sem meistari í bæði Pro Stock og Pro Open, þrátt fyrir að helsti keppinautur hans, Blair Morgan á Ski-doo, inni sigur í báðum flokkum í lokakeppninni. Af keppnismálum innanlands bar Mývatnsmótið hæst og þar sigraði einnig samni maður bæði í Pro Stock og Pro Open. Sá ók hins vegar Lynx og heitir Halldór „Wisegrip“ Óskarsson.

Apríl:
Aprílmánuður rann upp bjartur og fagur og var nú ekið sem aldrei fyrr. EY-LÍV stóð til að mynda fyrir vel heppnaðri ferð í Skagaförð og í Kerlingafjöllum héldu menn mikið mót og blautt. Keppnismenn létu ekki sitt eftir liggja og flugu um loftin blá á fákum sínum. Yfir Atlantshafið frá Bandaríkjunum flugu einnig nokkrir kappar til að taka þátt í alþjóðlegu móti í Ólafsfirði og sýndu góða takta. Síðustu helgina í apríl lauk keppnistímabilinu með móti á Egilsstöðum og varð Árni Þór Bjarnason Íslandsmeistari í Pro Open en Alexander Kárason í Pro Sport. Nýju Lynxsleðarnir af 2003 árgerðinni voru einnig kynntir undir lok mánaðarins.
Frá Jöklarannsóknafélaginu bárust þær fréttir í apríl að nánast allir jöklar landsins hafi hopað á árinu 2001 en félgið sjálft sótti engu að síður fram og kom fyrir nýjum skála í Esjufjöllum um miðjan mánuðinn.

Maí-september:
Þegar kom fram í maí fór heldur að hægjast um þótt menn héldu áfram að aka grimmt og færu í magnaðar vorferðir þar sem veðurblíðan lék við menn. Helst bar til tíðinda í þessum ferðum hjá Eyfirðingum að þær kostuðu óvenju marga driföxla. Voru sumir einnig gripnir með allt niðir um sig. Þær fréttir bárust einnig að sala á vélsleðum hefði dregist lítillega saman á milli ára, skv. tölum frá Samtökum vélsleðaframleiðenda (ISMA). Sleðamenn af öllu landinu hittust á vel heppnuðu „Sumar-djambori“ á Langjökli og í september opnaði Félag vélsleðamanna í Eyjafirði, EY-LÍV, eigin heimasíðu.

Október.
Í október fór að færast líf í tuskurnar á nýjan leik. Húsvíkingar gengust fyrir grasspyrnu en sýndu hins vegar takmarkaða gestrisni og „jörðuðu” keppinauta sína í brautinni.
Landsfundur LÍV var haldinn á Hveravöllum og tókst vel í alla staði. Jón Birgir hélt dauðahaldi í forsetastólinn við mikla hrifningu viðstaddra, enda staðið sig með sóma. EY-LÍV hélt einnig aðalfund sinn og þar var svipað uppi á teningnum. Formaðurinn neitaði að víkja. Á aðalfundi LÍV var upplýst um þreifingar Reykjavíkur-LÍV-félaga um aðgengi að endurvarpakerfi 4×4 klúbbsins og varð það að veruleika nú ekki alls fyrir löngu.
Breytingar urðu á umboðsmálum þegar Arctic Trucks tók við umboðinu fyrir Yamaha af Merkúr.

Nóvember:
Í síðari hluta október snjóaði drjúgt fyrir norðan og fyrstu daga nóvembermánaðar freistuðu nokkrir bjartsýnismenn þess að komast á sleðum upp úr Eyjafirði og inn í Laugafell. Það tókst, enda harðsnúið lið á ferð.
Félögin héldu sýningar sínar og árshátíðir í síðari hluta mánaðarins og var mikið um dýrðir samkvæmt venju.

Desember:
LÍV-Reykjavík var með aðalfund í byrjun desember og settu formanninn á. Einnig brast á með sumarblíðu um allt land með óæskilegum afleiðingum fyrir snjóalög. Reyndir sleðamenn héldu þó ró sinni til fullnustu og þóttust vita að snjórinn kæmi á endanum. Þegar að var gáð reynist líka vera nokkur snjór hærra uppi og óku menn nokkuð grimmt undir lok ársins.

Víða gott sleðafæri en mætti vera samfelldara á köflum

Í gær, 2. nóvember, fóru fjórir harðsnúnir kappar á sleðum upp úr Eyjafirði og inn í Laugafell. Er þetta eftir því sem næst verður komist fyrsta sleðaferð vetrarins inn á hálendið.

Fram Eyjafjarðardal

Það voru þeir Hreiðar í Vín, Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs, Smári Sig. og síðuhöfundur sem lögðu af stað frá Vín um kl. hálf eitt á laugardaginn. Veðrið var eins og það getur best orðið, logn, sólskin og hiti um frostmark. Ekið var með sleðana á kerrum sem leið liggur fram Eyjafjarðardal og skammt framan við Vatnahjallann voru fákarnir teknir niður. Leiðin fram dalinn sóttist vel. Snjó hafði skafið í niðurgrafinn veginn og víða hægt að spretta úr spori. Þó hafði ekki skafið það mikið að hliðhalli væri til vandræða og þurfti hvergi að grípa til skóflunnar, sem þó var höfð ofarlega til vonar og vara.

Þræðingar er upp kom

Þegar upp á hálendið var komið blasti dýrðin við og mikil hamingja hjá flokknum. Ekki var það þó svo gott að hægt væri að aka beint af augum heldur varð að þræða lægðir og veginn þar sem það var hægt. Þóttust sumir hafa orðið varir við að hafa steytt á steini undir snjónum en það fékkst þó ekki staðfest. Satt best að segja voru menn ekki nema rétt hæfilega bjartsýnir að fært væri í Laugafell enda virtist mun meiri snjór að sjá austur á bóginn. Það leið þó ekki löng stund áður en rennt var í hlað í Laugafelli við mikinn fögnuð. Var nú sest inn í Hjörvarsskála og drukkið miðdegiskaffi ásamt því að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Allt virtist í góðu standi þar efra og eftir dágott stopp var ákveðið að renna í Landakot.

Heldur var nú færið rýrt á köflum og víða grjót undir en þó sóttist ferðin vel. Skrifað var í gestabók og síðan haldið áleiðis að botni Eyjafjarðardals. Var nokkuð farið að bregða birtu enda kostaði nokkrar þræðingar að finna færa leið síðasta spölinn að slóðinni frá því fyrr um daginn. Það hafðist þó allt að lokum og var þá leiðin greið niður dalinn í bílana. Var komið þangað um kl. 18:30 og góð ferð á enda. Var mikil tilhlökkun í hópnum að gorta af ferðalaginu við félagana. Niðurstaða ferðarinnar í stuttu máli var sú að víða væri gott sleðafæri en mætti þó vera samfelldara á köflum. Texti: HA – Myndir: Smári Sig.

Vor- vorferð og vornætursiglingar

Eitt fagurt vorkvöld nú á dögunum ákváðu nokkrir sprækir sleðamenn að bregða sér í bað í Laugafelli og koma heim aftur um kvöldið. Auglýst var brottför kl 17:00 frá Akureyri og var meirihlutinn mættur á tíma, enda með grun um að farið yrði af stað á auglýstum tíma. Það stóð líka heima, þó enn vantaði formanninn. Í Kaldbaksdalnum voru teknar nokkrar brekkur til prufu meðan beðið var, færið blautt en nægur snjór. Það eru ár og dagar síðan “Dalurinn” hefur verið svona góður um mánaðamótin maí-júní.

Í þriggja stafa tölu

Ekki varð það lakara þegar upp var komið. Sól skein í heiði, færið flott, nægur snjór og menn misstu hraðamælinn fljótt í þriggja stafa tölu. Engin bönd héldu og formaðurinn varð að sjá um sig sjálfur. En Guðmundur vinur hans ákvað þó að bíða því hann “ratar ekkert formaðurinn”.

Mikið vatn í mótor

Strikið var tekið eftir eyranu, GPS algerlega óþarfur og ekki áð fyrr en komið var í Bergland. En þá vantaði aftan á hópinn. Eftir stundarbið var ákveðið að fara til baka og sjá hverju sætti. “Ætli einhver Kötturinn hafi geyspað golunni,”? var sagt. Viti menn í fyrsta og eina pollinum sem komið var að sást kappakstursdrengurinn á kafi og einn gamlinginn að drag´ann upp. Mótorinn fullur af vatni. Merkilegt hvað kemst mikið vatn í þessa 600 mótora. Þegar drengurinn var kominn á þurrt ríða formaðurinn og Guðmundur í hlað og fóru mikinn.

Sögg öxulskipti

Eftir stundar stopp þótti tími til að fara lengra. Snjórinn minkaði, vatnið óx og melarnir urðu fleiri. En engin vandamál á ferðinni – ekki enn. Tekin stefna á 200-300 metra langann fjörð, menn stilla hver á sitt prógram og sigla fjörðinn endilangann eða fóru eitthvert fjallabak með tilheyrandi stökkum. Allir komast yfir, en hvað, bara rétt upp á bakkann. Demo sleðaútgáfan hefur enn stoppast með brotinn driföxul, enda passar það búið er að aka um 300 km á þessum öxli. Lengur endist þeir ekki. Kappakstursmeistarinn sendur norður fjall og í bæinn til að sækja nýjan öxul. Honum er naumt skammtaður tíminn til fararinnar svo gott var að byrja að rífa strax. Það vakti furðu hve fumlaust menn gengu til verka við rifrildið. Rétt eins og menn hefðu gert þetta áður. Ekkert vafðist fyrir mönnum og allar “mutteringar” og boltar losaðir.

Í Laugafell

Upp úr miðnætti kom nýr öxull og sami kraftur í viðgerðarliðinu. Þeir gefa formúlu teaminu ekkert eftir. Heldur urðu melirnir fleiri og vatnið meira þegar sunnar dróg. Sem betur fer hafa menn farið þetta fyrr og og fundu brátt réttu lænurnar sem gáfu snjó alla leið í Laugafell. En þá var klukkan orðin 03:00 og tími til að snúa heim að nýju því sumir áttu að mæta til vinnu kl 08:00. Á þessum tímapunkti skiptu menn liði. Sumir fóru í koju og ætluðu að bíða morguns með brottför en hinn hópurinn var kominn í bæinn rétt um kl. 05:30, svona rétt náðu sturtu og morgunkaffinu fyrir vinnuna.

Missti af morgunbaðinu

Segir fátt af hinum sem sváfu eins og englar nema Guðmundur sem gat ekkert sofið fyrir einhverjum tilboðshugsunum. En svo mikið er víst að hann missti af morgunbaðinu og það þurfti að hrista hann um hálfellefu til að koma honum á lappir svo hann yrði ekki læstur inni í húsinu. Tekinn var útúrdúr á heimferðina með viðkomu í Landakoti. Þar er nægur snjór og hreint engin vandamál í gangi.

Texti: Smári Sig. Myndir: Smári Sig og Halldór Jóns

Viðburðarík vorferð á hvítasunnu 2002

Síðastliðin hvítasunnuhelgi bauð upp á hið ágætasta veður um allt land og því notuðu fjölmargir tækifærið og drifu sig á fjöll. Þeirra á meðal var hópur sleðamanna úr Eyjafirði sem átti einkar viðburðaríka helgi í stórgóðri ferð um Vatnajökul og víðar. Óvenju miklar bilanir settu mark sitt á ferðina en þær komu þó ekki í veg fyrir að hún væri kláruð með sóma að kvöldi hvítasunnudags, eins og að var stefnt í upphafi.

Snemma byrja vandræðin

Ferðin hófst um miðjan dag á fimmtudegi þegar Hreiðar formaður, Smári Sig., G. Hjámarsson og Júlli í Brynju lögðu upp af Öxnadalsheiði. Var ferðinni heitið í Gæsavötn en þangað ætlaði afgangurinn af hópnum einnig að koma seinna um kvöldið. Segir fátt af ferð þeirra félaga þar til þeir fara að nálgast Laugafell. Þá neitaði sleði íssalans úr Brynju að fara lengra enda hitinn á vélinni orðinn mun meiri en góðu hófi gegndi. Kom í ljós að kælivatnið var allt farið lönd og leið með tilheyrandi óæskilegum afleiðingum fyrir vélina. Var ljóst að sleðanum yrði ekki ekið lengra í þessari ferð. Hringdi nú Júlli heim í Fíu sína og sagði farir sínar ósléttar. Fía miskunaði sig yfir karlinn og féllst á að lána honum sinn sleða svo hann gæti haldið ferðinni áfram. Var í snarhasti safnað saman harðsnúnum flokki manna til að færa Júlla sleðann upp í Laugafell og draga þann úrbrædda heim.

Sauðburður í sveitinni

Segir nú af hinum hluta hópsins sem ætlaði í umrædda ferð. Þar var um að ræða Benna á Bílvirkja, feðgana af Vélsmiðjunni, Dórana minni og meiri, Sævar GPS-sala og Jósavin byggingafulltrúa. Uppgefin brottför úr bænum var kl. 8 um kvöldið og stóðst það all vel. Upp á Öxnadalsheiði var komið laust fyrir 9 og þá kom ljós að Jósavin yrði seinn fyrir. Hafði karl farið heim úr vinnunni snemma dags til að skrúfa í græjunni, enda hafði hún komið heim með brotinn driföxul úr síðustu ferð. Að auki var sauðburður byrjaður í sveitinni og voru bæði Grána og Móra að bera. Menn gerðu sig nú klára og biðu eftir karlinum. Var tíminn m.a. drepinn við að skoða nýtt litasjónvarp sem GPS-salinn hafði tekið með. Jósavin skilaði sér síðan auðvitað á endanum. Voru nú höfð snör handtök að drífa sig af stað upp Kaldbaksdalinn, enda verulega farið að líða á kvöldið og ljóst að ekki yrði háttum náð snemma í Gæsavötnum að þessu sinni. Raunar skipti það litlu málið því veðrið var hreint einstakt, eins og það getur best orðið á vorin.

Snúinn dempari og laust lok

Ekki höfðu menn ekið lengi þegar byggingafulltrúinn stoppaði. Í ljós kom að asinn á karli hafði verið svo mikill við að setja búkkann undir sleðann fyrr um daginn að dempari snéri vitlaust og rakst niður í beltið. Í Litlakoti var því stoppað, sleðanum velt á hliðina og losað upp á búkkanum þannig að hægt væri að koma demparanum í rétt horf. Stutt frá Laugafelli mættum við síðan þeim sem voru á heimleið með bilaða sleðann hans Júlla. Sögðu þeir hann bíða í Laugafelli ásamt tveimur öðrum og yrði samferða okkur austur í Gæsavötn.

Í Laugafelli var ekið beint að bensíntönkunum og allar holur fylltar. Enginn var þó Júlli á staðnum og kom í ljós að honum hafði leiðst biðin og lagt af stað í Gæsavötn. Var nú hælum slegið við rass og lagt af stað í miðnæturblíðunni. Sóttist ferðin all vel en þó sótti ofurfimman hjá Dóra í að losa tappann á kælivatnsboxinu og þar með losa af sér kælivatnið. Þessu mátti þó öllu redda og á fjórða tímanum var ekið í hlað á Gæsavötnum. Var þá ekkert að gera nema drífa sig í koju enda stutt til morguns, ekki síst þar sem menn vissu af Smára Sig. í húsinu.

Á Hnjúkinn

Föstudagsmorgun rann upp bjartur og fagur. Fóru menn sér að engu óðslega í morgunblíðunni. Sinntu morgunverkum af kostgæfni og snæddu nýorpin gæsaregg. Um 11 leytið var síðan lagt af stað upp á jökul og stefnt á Hvannadalshnjúk. Færið á jöklinum var lengst af gott og allt lék í lyndi. Tekinn var sveigur upp að Grímsvötnum en þó ekki farið ofan í vötnin þar sem Hnjúkurinn var hreinn og tælandi í fjarska. Heldur varð færið ósléttara þegar komið var upp úr Hermannaskarði og norðan í Snæbreiðinni, nánast upp við topp, vildi nýi 900 kötturinn ekki fara lengra. Driföxulinn kominn í tvennt og allt stopp. Nú voru góð ráð dýr. Að vísu hafði varaöxull verið tekinn með að heiman en var skilinn eftir í Gæsavötnum Þangað voru 100 km en þó ljóst að eina leiðin til að halda för áfram væri að sækja öxulinn. Því lögðu tveir af stað til baka í Gæsavötn á meðan afgangurinn af hópnum gekk á Hvannadalshnjúk. Útsýnið af toppnum sveik engan og mikill fögnuður að vera staddir á hæsta tindi landsins, enda sumir ekki komið þar áður.

Þyrlumenn í golfi

Eftir að hafa virt landið fyrir sér um stund var haldið aftur niður. Þá gerðist nokkuð einkennilegt. Eins og upp úr þurru birtist herþyrla og eftir að hafa sveimað um stund umhverfis Hnjúkinn settist hún efst á Snæbreiðina. Biðu menn ekki boðana, ræstu sleða sína og brunuðu á staðinn. Var helst haldið að þyrlumenn ágirntust 900 græjuna sem eins og fyrr segir hafði verið skilin eftir upp undir toppi. Sá ótti reyndist ástæðulaus því í ljós kom að þarna voru á ferð varnarliðsmenn af Keflavíkurflugvelli, komnir í þeim tilgangi að spila golf. Eftir að hafa slegið nokkrar kúlur út á jökulinn svifu þeir á braut og voru horfnir jafn skyndilega og þeir komu.

Sleðaviðgerð og húsbygging í 2.000 m hæð

Var nú tekið til við að rífa 900 sleðann og bíða eftir þeim sem fóru að sækja öxulinn. Styttu menn sér m.a. stundir við að grafa snjóhús all mikið. Verkið sóttist reyndar seinna en ella þar sem bæði formaður bygginganefndar Eyjafjarðar og byggingafulltrúinn voru með í för. Sérstaklega var byggingafulltrúinn erfiður. Sagði engar samþykkrar teikningar af snjóhúsinu liggja fyrir, vatn til brunavarna væri ekki til staðar eins og reglugerð kvæði á um, óvíst væri um burðarþol og hlutverk hússins væri óskilgreint. Heimtaði hann stöðugar úttektir á byggingartíma sem töfðu verkið nokkuð. Í þann mun sem öxullinn renndi í hlað var húsið þó orðið það stórt að þar gátu sex menn setið með góðu móti í skjóli fyrir nöprum austanvindinum. Eftir að varahlutir voru komnir á staðinn kepptust menn sem mest þeir máttu við að gera við og kom sér sannarlega vel að hafa bifvélavirkja með í för.

Óvæntur næturstaður

Nokkuð var nú farið að líða á kvöldið og enn óvíst með næturstað. Ýmsir möguleikar voru ræddir en ljóst þótti að til að geta ekið af krafti næstu tvo daga þyrfi að komast í bensín, annað hvort á Skálafellsjökli eða láta ferja það áleiðis í Snæfell. Það var þá jafnframt líklegasti næturstaðurinn þótt þangað væri langt að aka. Stutt var í nýjan skála Jöklarannsóknarfélagsins í Esjufjöllum en hann var bókaður um kvöldið. Smári vissi að þar var m.a. um að ræða Villa sem var á Hveravöllum og var hringt í hann til að tryggja að heitt væri á könnunni þegar við ækjum um Esjufjöllin. Þá kom í ljós að Villi og félagar höfðu orðið seinir fyrir og voru enn staddir á þjóðvegi 1 einhvers staðar á Suðurlnadi. Því var ljóst að þeir myndu ekki ná í skálann um kvöldið og við gátum því hlaupið í skarðið. Kættust menn nú verulega enda dagurinn þegar orðinn langur og flestir lítið sofnir frá nóttinni áður. Sprett var úr spori niður í Esjufjöll og þar rennt í hlað hjá hinum nýja og glæsilega skála. Svo skemmtilega vildi til að hluti hópsins hafði verið þarna á ferð réttum fjórum árum áður, ekki löngu áður en gamli skálinn fauk. Nú var slegið upp veislu með skinku, brúnuðum kartöflum og ýmsu góðgæti og upp úr því sofnuðu flestir fljótlega.

Loksins komust við í bað

Enn var sama blíðan þegar vaknað var á laugardagsmorgninum og borðuðu sumir morgunmatinn léttklæddir á dyrahellunni. Esjuföll eru einstakur staður, ekki síst á vordegi sem þessum, og nutu menn svo sannarlega útsýnisins. Síðan var lagt af stað áleiðis á Skálafellsjökul. Á leiðinni mættum við m.a. miklum flokki Ski-doo sleða sem hélt til á Skálafellsjökli um hlelgina í ferð á vegum umboðsins. Niður undir hótelinu var mikið um að vera en þar var þá verið að taka upp auglýsingamynd fyrir nýja Hummerinn. Var ekki laust við að sveitamenn úr Eyjafirði væru nokkuð kjálkasíðir út af öllu tilstandinu sem virtist þurfa í kringum þetta. Nú var tankað og spáð í næsta legg ferðarinnar. Var ákveðið að taka stefnuna á Kverkfjöll og miða við að gista í Sigurðarskála. Litlu mátti reyndar muna að við misstum einn mann, en sá var orðinn einkar áhugasamur um allar þær freistingar sem Skálafellsjökull hefur upp á að bjóða. Hann náðist þó með fyrir rest. Nú var sú staða raunar komin upp að flokkurinn skiptist í tvennt. Þrír tóku strikið heim á leið þar sem tveir ætluðu að vera komnir heim um kvöldið og einn að sameinast konu sinni í Laugafelli.

Afgangurinn stefndi hins vegar í bað í Hveragili og var nú ekið greitt, enda jökulinn eggsléttur. Heiti lækurinn brást ekki vonum manna og ómuðu ánægjustunurnar um allt Hvreagil þegar menn skriðu ofan í. Eftir þetta þrifabað var síðan þrædd leið í gegnum Kverkfjallaranann og í Sigurðarskála. Nú hófst undirbúningur mikillar grillveislu sem endaði, eins og að var stefnt, með miklu áti. Eftir matinn fengu menn sér ýmist göngutúr eða tóku lífinu með ró heima í skála. Var snemma gengið til náða og sofið vel.

Enn brotinn öxull

Ekki breyttist veðrið og að morgni hvítasunnudags var enn vaknað í glaðasólskini. Eftir að hafa tekið saman og gengið frá skálanum var fyrst ekið að íshellinum og síðan rennt upp Löngufönn, sem gekk áfallalaust. Nokkur strekkingur var uppi á brún jökulsins en þó litu menn á Hverasvæðið og tóku síðan stefnuna inn á jökul. Planið var að fara á Bárðarbungu og þaðan niður Köldukvíslarjökul ofan í Vonarskarð. Var greitt ekið og lítið stoppað fyrr en upp á Bárðarbungu. Kom þá í ljós að heldur hafði fækkað í flokknum. Eftir snögga talningu komust menn að því að það vantaði Benna og Dóra Jóns. Loks kom Benni og bar þær fréttir að ofurfimman væri með brotinn driföxul inn á miðjum jökli. Nú var engum varaöxlum til að dreifa og sleðinn ekki hæfur til dráttar. Í Gæsavötnum voru hins vegar tvær kerrur og nú þeystu tveir þangað til að sækja þær en hinir óku aftur til baka til að veita Dóra félagsskap og undirbúa flutning til byggða.

440 hestöfl dugðu vel

Þegar kerran var komin á staðinn var dregin upp járnsög og rekkverkið sagað ofan af henni. Síðan var skíðunum snúið við á sleðanum þannig að bogni endinn vísaði aftur og hann síðan settur afturábak með beltið upp á kerruna. Þannig var hann dreginn niður í Gæsavötn. Þar var byrjað að rífa en fljótlega kom í ljós að meira var skemmt en bara driföxullinn og því sýnt að ekki yrði gert við gripinn á fjöllum. Því var ákveðið að prófa að draga sleðann áfram niður á Öxnadalsheiði, þótt færið væri orðið ansi blautt og snjórinn mjög farinn að minnka. Fyrst var kerran hengd aftan í 700 Venturuna hjá Smára og hann síðan bundinn aftan í 900 köttinn hans Sigurgeirs og 1000 köttinn hjá Guðmundi. Þannig var búið að beita um 440 hestöflum fyrir kerruna, enda sóttist ferðin vel. Ekið var í Sandbúðir, þaðan beint í Bergland og sem leið lá niður á Öxnadalsheiði. Þar endaði ferðin formlega og stóð á endum að um korteri eftir að komið var í bílana lagðist þokan yfir en annars hafði ekki dregið ský fyrir sólu allan túrinn. Myndir og texti: Halldór Arinbjarnarson.

Blautt en gott mót í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjallamótið um liðna helgi verður mörgum minnistætt. Sem kunnugt er var ansi blautt á fjöllum þessa daga og setti það mark sitt á ferðalagið. Elín H. Gísladóttir, stjórnarmaður í EY-LÍV, sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Ævintýrið hóft fyrir alvöru á föstudagskvöldið. Ekið var frá Laugafelli í Ingólfsskála og var veðrið og skyggnið frábært. Í samfloti voru 25 sleðar og voru þar Akureyringar, Húsvíkingar og Austfirðingar á ferð saman. Frá Ingólfsskála var stefnan tekin beint á Kerlingarfjöll enda farið að dimma. Farið var yfir jaðar Hofsjökuls og var færið á jöklinum var dálítið úfið og hart.

Í myrkri og krapa

Þegar komið var niður af jöklinum stutt frá Kerlingarfjallaskála var komið myrkur og þar lentum við í miklu krapi og bleytu. Sátu allt upp í 8 sleðar fastir í krapanum samtímis. Sumir komust klakklaust yfir aðrir misstu sleðana niður nokkrum sinnum. Í stuttu máli má segja að fyrstu menn komu í Kerlingarfjallaskála um kl. hálfeitt en þeir síðustu ekki fyrr en um hálf sex um morguninn. Var þá ekki bara búið að koma okkar hópi í hús heldur einnig hópi af Sunnlendingum sem einnig var í brasi í krapinu. Að vísu voru nokkrir sleðar skildir eftir í krapinu og ákveðið að sækja næsta dag. Á laugardagskvöldið var svo heljar veisla.

Góð heimferð

Ræs var snemma á sunnudag, etin morgunmatur, pakkað, þrifið og lestað. Veðrið var úrhellis kraparigining þegar lagt var af stað. Nú sást hvar vatnið svo hægt var að krækja framhjá stærstu krapapyttunum. Strax eftir að komið var upp í Hofsjökulinn fór veðrið að skána og var sólin mætt áður en kom að Ingólfsskála. Fengum við frábært veður það sem eftir var leiðarinnar. Komið var niður á Öxnadalsheiði kl 17.30 um kvöldið eftir mikið fjallaævintýri sem lengi verður munað.

Kerlingarfjallaferð 1987

Nú þegar fólk er sem óðast að búa sig á mót í Kerlingarfjöllum er ekki úr vegi að rifja upp fyrstu fjallaferð síðuhöfundar en hún var einmitt á landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum veturinn 1987. Á þeim 15 árum sem síðan eru liðin hefur ýmislegt gerst í sleðamálum og útbúnaði fjallafara. T.d. er hætt er við að Kawaski Inwader sem undirritaður ók stoltur í þá daga þætti varla samkeppnisfær í dag.

8 tíma í Laugafell

Lagt var upp frá Þormóðsstöðum áleiðið í Laugafell. Var þá nokkuð áliðið dags og veðrið ekkert sérstakt. Hópurinn var nokkuð stór, væntanlega um 15 sleðar. Í Þormóðsstaðadal mætti mönnum mikill lausasnjór og gekk á með miklu brasi. Tók ferðin upp í Laugafell eina 8 klukkutíma og höfðu þá margir svitadropar fallið. Menn höfðu sameinast um kaup á einu lórantæki og með hjálp þess var ekið beint á skálann, sem þóttu nánast galdrar.
Um morguninn var þungt yfir en þó úrkomulaust. Ekið var austur með Hofsjöklií nokkrum renningi en veðrið skánaði er sunnar dró. Er komið var í Kerlingafjöll var komið hið besta veður. Daginn eftir var m.a. farið á Langjökul í mikilli blíðu og síðan heim daginn þar á eftir. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni en hægt er að smella á þær til að sjá þær stærri.

Lögguferð 2002

Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu en hann og Hreiðar í Vín fóru í síðustu viku árlega sleðaferð með hópi lögreglumanna frá Akureyri.

Það var vel stemmdur hópur sem lagði upp Þormóðsstaðadal. Heldur dróst nú brottför þar sem undirritaður var bara “hálfklár ” þegar leggja átti af stað. Skórnir stóðu enn tilbúnir í bílskúrnum heima. Ferðaáætlun var að fara í Gæsavötn og gista þar. Þegar upp var komið var frekar hryssingslegt veður en formaðurinn (Hreiðar) teymdi hópinn af röggsemi. Í Landakoti tóku löggurnar meira bensín til fararinnar. Geir “Trukkdriver” mátti draga eina 150 lítra á þotuna og varð ekki meint af. Skotið var á fundi og planinu breytt, ákveðið að fara í Laugafell þar sem útlit var fyrir enn hvassari suðaustanátt í Gæsavötnum. Menn voru bara kátir með þennan kaldaskít, “bara hressandi,” sagði Steini Pjé.

Langur dagur

Eftir morgunbaðið og um áttaleytið var kominn tími til að halda austureftir. Menn hressir í bragði (þó svo Óli hafi nánast ekkert sofið frekar en venjulega) enda skein sól í heiði. Stoppað var augnablik í Sandbúðum og svo haldið austur í Gæsavötn þar sem tankað var, þotan skilin eftir og tekið smá kaffitár. Ákveðið var að prófa nýja leið austur, fara alveg upp að jökli og meðfram honum allt að Kistufelli. Færið reyndist frábært og veðrið ekki lakara. Frá Kistufelli var ekið með jökulstálinu í rennisléttu nýsnævi. Losnaði þá um bensingjöfina hjá flestum en aðrir vorkendu sleðanum að snúast svona hratt og héldu sig á “löglegum” hraða, þrátt fyrir heimildir um annað. Menn höfðu aldrei keyrt jafnt langt á svona sléttum grundum, eða eina 40 km. Eftir stutt kaffistopp í Sigurðarskála var kominn tími til að fara með liðið í helgidóminn. Baða átti línuna í Hveragili. Farið var upp skriðjökulinn og gilin þrædd austur yfir Kverkfjöllin. Heitilækurinn tók hlýlega á móti okkur eftir frábærann sprett. Eftir þrifabað var glímt við nokkrar brekkur og þær auðvitað sigraðar. Því næst var haldið niður með Kverkárnesi allt niður í Hvannalindir og í Grágæsadal. Þar fór brytinn í búninginn og galdraði fram kvöldmat og tilheyrandi að hætti Steina Pjé. Kvöldvakan var stutt – nokkrar smásögur og fyrri frægðarverk. Langur dagur var að baki og bensínfingurinn aumur.

Áfram skein sólin

Næsti dagur heilsaði eins og sá fyrri með sól, logni og hita. Sumir þurftu að ganga á fund “páfans” og leystu sín mál en aðrir lögðu ekki í skriftir, sögðust ekki þurfa þess. Japanski búðingurinn steikti meiðana á fyrstu metrunum en hresstist fljótt eftir smá kælingu. Aðrir víxluðu kertum, settu aftur gömlu ónýtu kertin í og allt lék í lindi. Farið var niður í Krepputungur, sem eru byrjaðar að blána og skoðað ættartal goðanna við Jökulsá á Fjöllum. Þaðan var farið í Dreka og lagfærður opinn, skemmdur gluggi. Kíkt var í Víti og farið suður Öskjuna, yfir Dyngjuskarð, niður hjá Kattbeking, yfir Trölladyngju og í Gæsavötn. Þar var þotan tekin með, heldur léttari enn fyrr. Brennt var í Laugarfell og nú fyrst fór veður að breytast, eða öllu heldur birtan, því komin var snjóblinda. Þegar vestar kom mætti okkur þoka en samt var hlýtt í veðri. Í Laugafelli var tekið enn eitt þrifabaðið, með svo miklum tilþrifum að Dunni nánst skar af sér fótinn. Var þetta skráð sem vinnuslys. Eftir baðið og plástrun, nýbakað brauð og kaffi, var haldin sama leið til baka niður í snjóléttan Þormóðsstaðadalinn og enn í sömu þokunni. Þar beið yfirvaldið sinna manna og flutti í bæinn.

Eyfirskir sleðamenn latir um páskana

Eyfirskir sleðamenn voru ekki duglegir að ferðast um páskana og hefur síðuhöfundur aðeins haft spurnir af einum sex manna hópi sem fór í alvöru fjallaferð. Lagt var upp um miðjan dag á skírdegi og haldið í Gæsavötn þar sem gist var fyrstu nóttina í góðu yfirlæti. Þaðan var ekið daginn eftir áleiðis í Sigurðarskála. Talsverðar þræðingar eru um hraunið frá Gæsavötnum um Dyngjuháls og Urðarháls en fyrir framan Dyngjujökul er nokkuð góður snjór. Frá Sigurðarskála var ekið í Hvannalindir og þaðan í Grágæsadal. Þar hugðust menn búa um sig en þá birtist flokkur jeppamanna sem var með skálann bókaðan. Sleðamenn slógu því hælum við rass og óku vestur í Kistufell til að gista. Daginn eftir, á laugardegi, var síðan haldið heim á leið með viðkomu í Laugafelli. Mikið snjóaði á laudardaginn og var ekið niður Þormóðsstaðadal í gríðarlegum lausasnjó. Að sögn Sigurgeirs á Vélsmiðju Steindórs, sem fór í þessa ágætu ferð, eru snjóalög víðast sæmileg þótt menn hafi vissulega upplifað bjartari tíma í þeim efnum. Nýi 900 kötturinn virkaði fínt og er eigandinn alsæll með gripinnn. Nokkuð var um jeppamenn á fjöllum um páskahelgina en þeir félagar urðu ekki varir við að neinir aðrir sleðamenn hefðu hætt sér úr byggð. Er vonandi að menn fari nú að hysja upp um sig buxurnar, eða réttara sagt sleðagallann, og drífa sig á fjöll. Nú eru tveir bestu mánuðir ársins framundan og um að gera að nota þá vel.

 

 

Frábært veður á hálendinu í gær

Fjölmargir drifu sig á fjöll í gær í frábæru veðri. Sævar í Haftækni sendi eftirfarandi sögu og myndir af ferð félaga úr Ungmennafélaginu sem fóru í Laugafell og víðar.

Veðurspáin var frábær, hörkufrost og léttskýjað. Brottför úr “Vínardalnum” var einum og hálfum tíma eftir útgefinn brottfarartíma og telst það “normal”. Leiðangursmenn voru Hreiðar, Jósavin, Eiríkur, G.Hjálmars. Sigurgeir, Jón Björns og Sævar Sig.

Þumbast var fram Sölvadalinn með sleðana á kerrum en hæpið er það borgi sig. Betra er að taka af neðar og keyra fram dalinn. Kerhólsöxlin (Kerhólskambur segja heimamenn) var eins og best verður á kosið. Þó er grjót uppúr efst en samt allt í lagi. Uppi á fjallinu er snjórinn harður og rifinn og í heildina talið er lítill snjór miðað við meðalið. Ekið var í slóð þeirra Landakotsjarla sem voru að moka frá húsinu þegar við komum að. Frostið svo mikið að það var bara mokað frá efri hlera. Áfram var haldið og voru þræðingur þegar nálgaðist Laugafell, eins og að vori, en þó var nýfallinn snjór þegar komið var heimundir.

Í Hjörvarsskála var hressing og nýja eldhúsinnréttingin fékk lof og last eins og gengur. Að loknu kakói var tankað og þurfti G.Hjálmars áfallahjálp eftir að hafa séð hvað nýi Þönderinn eyddi (50% meira en Jamminn). Sennilega er það bara nýja 28″ Garmin tækið með Íslandskortinu sem er svona eyðslufrekt. Skyndilega birtist Björn Hesjuvellingur með fjöldan allan af hestöflum prýddum fjallaförum sem voru á leið í Laugafell. Var þarna haft stutt stopp, spé og spaug en allir voru að njóta náttúrunnar. Eftir orkulestun ókum við suður á bóginn í “höstu” færi og var stoppað á Fjórðungsöldu. Þar sást til allra enda á hálendinu í heiðríkjunni. Frostið líklega á þriðja tuginn en það var létt yfir mönnum. Svona áttu dagarnir að vera. Því næst var ekið í Sandbúðir. Þar sem Greifinn af Sandbúðum var með í för var boðið upp á KEA Saxbauta úr dós, sem allir reyndar afþökkuðu. Ákveðið var að gista ekki á hálendinu í þessari ferð. Því var ekið sem leið lá í Galtaból og þaðan í Landakot. Þar var enginn maður, jarlarnir farnir heim, enda var sólin sest og hrímþoka lögst yfir. Smá hressing var tekin fyrir lokasprettinn og nokkrar stórhríðarsögur rifjaðar upp.

Formaðurinn ákvað að fara Þormóðsstaðadal í stað þess að fara sömu leið og við komum upp. “Bara að gá.” Ekið var sem leið lá, allt í rútum og engin vandræði, enda sumir hér búnir að fara þetta yfir þúsund sinnum. Þegar við komum niður í daldrögin mýktist færið og varð frábært, silkifæri “saggði” formaðurinn með norðlenskasta hreim sem til er. Þó voru göt á ánni og þurfti að beita ökuleikni. G. Hjámars sagði að Jósavin þyrfti að borða meira til að geta beitt Panterunni í hliðarhalla. Ekin var hámarksferð fyrir minn smekk, og var það frábært. Komum niður að Þormóðsstaði þar sem allt er í myrkri og kulda og fannst mönnum þetta dapurlegt hvernig byggðin er að fara. Loks var keyrt niður dalinn og að bílunum. Ferð lokið.

Ein bilun kom upp í ferðinni. Búkkahjól datt undan hjá Hreiðari. Sigurgeir greip það upp á ferðinni, Jósavin átti bolta, Eíríkur átti rétta lykilinn og hjólið sett undir. Af þessu varð þriggja mínútna töf. Þetta var frábær ferð, stutt, erfið en góð.

Ski-doo kynnir nýja vél

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Ski-doo hefur nú kynnt alla 2003 línuna fyrir blaðamönnum vestanhafs. Þegar hefur mikið verið fjallað um að nýu REV-sleðana en það er ýmislegt annað forvitnilegt að gerast. Það á einkum við um vélamálin og það jafnvel þó að ekki sé kynnt til sögunnar fjórgengisvél sem er samkeppnisfær í afli við RX-1 frá Yamaha.

Hæst ber nýja 800 tvígengisvél sem nefnist SDI (Semi-direct injection) og er eldsneytiskerfi hennar öðruvísi úr garði gert en tíðkast hefur í vélsleðavélum. Nýjungin felst í því að tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Þessi nýja vél á að menga 50% minna en forverinn, vera 25% sparneytnari og skila fleiri hestöflum. Þetta eru álitlegar tölur og fyllilega sambærilegar við það sem RX-1 fjórgengisvélin frá Yamaha á að gera. Þá verða bæði 800 og 600 Ski-doo vélarnar boðnar í svokallaðri H.O. (High Output) útfærslu, sem skila enn meira afli en “standard”.

Umbyltur MX – Ski-doo kynnir REV

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Í vetur hefur verið skammt stórra högga á milli í vélsleðaheiminum. Í nokkur undanfarin ár hafa í raun fáar grundvallarbreytingar orðið í smíði vélsleða þótt vissulega sé einhver þróun alltaf í gangi en það sem gerst hefur í vetur er hins vegar mun stærra í sniðum en menn hafa átt að venjast. Fram á sjónarsviðið hafa komið nýir sleðar sem svo sannarlega hafa hrist upp í því sem fyrir var. Fyrst kom Arctcic Cat með nýjan Sno Pro, þá Ski-doo með nýjan keppnissleða og loks Yamaha með nýjan fjórgengissleða. Senn mun liggja fyrir hvað verður boðið upp á í 2003 árgerðinni og eins og við var búist kemur m.a. Ski-doo með nýjan MX Z sem byggður er á áðurnefndum keppnissleða.

REV

Við skulum líta aðeins á þennan nýja MX sem fullu nafni mun heita MX X REV en síðasta skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. En í hverju felst byltingin? Ekki er hún a.m.k. í vélarmálum því sleðinn verður annars vegar boðinn með núverandi tveggja strokka 800 vél og hins vegar 600 tveggja strokka vél, sem reyndar er ný af nálinni en þó byggð á eldri vélum. Hún á að skila talsvert meira afli en núverandi 600 vél, eða allt að 125 hestöflum.

 Nýtt byggingarlag

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið hafa ráðandi í vélsleðum til þessa. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðinn til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hefur fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sitji því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita þá hefur mjög færst í vöxt að ökumenn standi nánast alla keppnina og hönnun nýja REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr um 15 cm framar en tíðkast hefur og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum. Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin hefur verið færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” MX. Nú á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum.

Nýr framendi

Framendinn á sleðanum er einnig nýr þar sem A-arma fjöðrunin hlýtur að vekja athygli. Ef marka má úrslit úr snjókrosskeppnum vetrarins er þetta fjöðrun sem svínvirkar. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að fella hliðarnar alveg niður fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Fjöðrunin að aftan er byggð á búkkanum úr 2002 árgerðinni af MX með nokkrum endurbótum sem aukið hafa slaglengdina í 14,5 tommur. Að öllu samanlögðu á sleðinn að vega um 227 kg með 800 vélinni sem hlýtur að teljast allgott. Ljóst er að hér er komið leiktæki með frábæra aksturseiginleika og undarlegt ef eftirspurnin næsta haust verður ekki í samræmi við það, ekki síst þar sem verðið á að vera mjög samkeppnisfært. Með nýrri aflmikilli fjórgengisvél, sem sögur segja að Ski-doo muni spila út innan tíðar, verður MX Z REV líka enn áhugaverðari kostur, þ.e. ef…

MXREV.4

Hér sést útsýni ökumanns.

MXREV.1

Hér sést hvernig hægt er að taka hliðarnar úr framendanum til að auðvelda aðgengi.

MXREV.2

Sjálft húddið er bara lítið lok.

MXREV.3

Fjöðrunin.

Sprengjan er fallin – fyrsti “alvöru” fjórgengissleðinn

2003rx1Ljóst má vera að Yamaha hefur hrist duglega upp í vélsleðaheiminum með nýja RX-1 sleðanum. Í raun er hér kominn fyrsti alvöru fjórgengissleðinn sem er samanburðarhæfur við öflugustu tvígenissleða. Vélin er 998 cc, vatnskæld fjögurra strokka línuvél sem byggð er á hinni vinsælu R1 mótorhjólavél og skilar frá sér 145-150 hestöflum. Yamaha-menn kalla vélina Genesis Extreme. Hún er með tveimur yfirliggjandi knastásum, fimm ventlum á sílender (samtals 20 ventar!) og 37 mm blöndungum

Snúningshraði vélarinnar er allt að 10.200 snúningar á mínútu (rpm), sem er of mikið fyrir hefðbundnar vélsleðakúplingar. Snúningshraðinn er því gíraður niður framan við fremri kúplingu þannig að hann verður um 8.000 rpm að hámarki. Vélinni er hallað aftur um 30 gráður til að koma henni betur fyrir og snúa blöndungarnir fram. Pústið snýr því aftur, er leitt undir sætið og kemur út sitt hvoru megin við það að aftanverðu. Vélin er einnig neðar og aftar en t.d. í SRX-sleðanum og þyngdarpunkturinn því betri. Forsvarsmenn Yamaha fullyrða að nýja vélin sé 30% sparneytnari en en 800 cc tvígengisvél og togi 65% meira.

Nýr frá grunni

En það er ekki bara vélin sem er ný. Þetta er algerlega nýr sleði, að búkkanum frátöldum. Grindin er af nýrri gerð þar sem saman fer styrkur og léttleiki. Framfjöðrunin hefur ekki áður sést hjá Yamaha en svipar óneitanlega til A-arma fjöðrunarinnar sem Arctic Cat hefur þróað með góðum árangri. Að framan á sleðinn að fjaðra um 9 tommur en 11,5 að aftan. Þar er notuð reynd fjöðrun frá Yamaha, sama og í SX Viper, hin svokallaða Pro Action. Eins og vera ber er RX-1 vel búinn að öllu leyti, með stafrænu mælaborði og ýmsu fleiru.

Þrjár útfærslur

Sleðinn kemur í þremur útfærslum sem auk grunngerðarinnar RX-1 eru RX-1 ER (með bakkgír) og Mountain RX-1 á 151×2 tommu belti, hærra stýri, mountain-aturfjöðrun en eins að öðru leyti. Einnig býður Yamaha þrjár gerðir til viðbótar sem fást munu í takmarkaðann tíma (“vortípur”). Verðið er e.t.v. lægra en margir hefðu búist við, eða frá 8.850 dollurum. Til samanburðar kostar Ventura 700 8.399 dollara og SX Viper 7.499 dollara.

En hvað með aðra sleða?

Skiljanlega falla aðrir sleðar frá Yamaha af 2003 árgerðinni nokkuð í skuggann af þessari sprengju sem nú hefur verið varpað inn á vélsleðamarkaðinn en fleiri athyglisverðir sleðar finnast í framleiðlulínunni fyrir 2003. SX Viper hefur fengið nokkrar minniháttar endurbætur, m.a. nýtt belti og sætisáklæði. Þetta er mest seldi nýi sleðinn af 2002 árgerðinni og hefur komið mjög vel út vestanhafs. Þá kemur Viper nú í mountain-útgáfu á 144×2 tommu belti. Venture ferðasleðarnir standa áfram fyrir sínu og eru nánast óbreyttir frá 2002 módelinu.

Kverkfjöll og nágrenni

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála. Fv.: Sævar, Benedikt, Elín, Hreiðar, Halldór og Úlfar. Guðmundur Hjálmarsson tók myndina.

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála.

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og litlu sunnar og vestar á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu. Liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Ekki er vitað nákvæmlega hversu oft gosið hefur í Kverkfjöllum sökum þess að eldstöðin liggur undir jökli og hversu afskekkt þau eru. Þó eru ummerki um a.m.k. 20 gos frá landnámi sem líklegt er að eigi rætur sínar að rekja til Kverkfjalla.

Skiptast í tvennt

Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverkina sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverkina skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla afar stórir skriðjökulskildir, Dyngjujöklull að vestanverðu og Brúarjökull að austanverðu. Ná þeir allt frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli og falla aflíðandi norður á hásléttuna. Dyngjujökull hljóp fram á árunum 1999-2000 og er enn með öllu ófær.

Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5–6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.

Að komast í Kverkfjöll

Í Kverkfjallarana.

Í Kverkfjallarana.

Kverkfjallasvæðið var um aldir vel varið frá náttúrunnar hendi. Stafar það af því að undan skriðjöklunum beggja vegna falla miklar jöklulár, Kreppa undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Svæðið á milli þeirra nefnist Krepputunga. Fornar heimildir og munnmæli benda til mannaferða yfir Vatnajökul á miðöldum en jökullinn var þá langtum minni en síðar varð. Ekki er ólíklegt að leið Norðlendinga suður yfir jökul hafi legið upp austan Kverkfjalla. Fyrstur til að ganga á Kverkfjöll var þýski jarðfræðingurinn Trautz árið 1910.

Sumarið 1970 var Kreppa brúuð suðvestur af Arnardal og rudd akslóð inn Krepputungu um Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð að Kverkfjöllum. Vestan úr Ódáðahrauni liggur svonefnd Austurleið [F910] yfir brú sem byggð var yfir Jökulsá á Fjöllum rétt sunnan Upptyppinga árið 1986. Út frá henni liggur Kverkfjallaleið [F902] suður til Kverkfjalla. Austurleið heldur áfram austur yfir Krepputungu en við Kreppuháls greinist frá henni Hvannalindavegur [F903] suður í Hvannalindir.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Vetrarferðir opnuðu fólki alveg nýja sýn á Kverkfjöll, eins og raunar allt hálendið. Þegar snjór er nægur er auðvelt að aka á sleðum og bílum framan við skriðjöklana, Dyngjujökul og Brúarjökul, og inn í Krepputungu, en einnig er algengt að koma í Kverkfjöll ofan frá, þ.e. af Vatnajökli. Þá er jafnan ekið niður svonefnda Löngufönn en athuga verður að sú leið getur stundum verið algerlega ófær út af jökulsprungum. Einnig hefur verið ekið um sjálfa Kverkina en hún er algeralega ófær öllum ökutækjum um þessar mundir. Sé komið niður Brúarjökul þarf að komast yfir Kverkfjallaranann eða krækja austur fyrir hann.

Sigurðarskáli

Sumarið 1971 reistu Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðar og Húsavíkur skála í Kverkfjöllum, Sigurðarskála. Stendur hann vestan undir svonefndu Virkisfelli og er kenndur við Sigurð Egilsson, forgöngumann í ferðamálum á Húsavík. Tjaldsvæði er rétt við skálann. Á seinni árum hefur verið byggt við Sigurðarskála og tekur hann nú um 85 manns í svefnpokagistingu. Skálinn er opinn allt árið og þar er gæsla yfir sumartímann.

Jarðhiti í Kverkfjöllum

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum vestari. Tengist það misgengi með sigstalli til vesturs. Hverasvæðið er um 3 km á lengd og allt að 1 km á breidd og liggur í 1600 -1700 m hæð yfir sjó. Efst og syðst er Hveradalur, aðskilinn með Þrengslum frá Hveraskál [Neðri-Hveradal], sem er víð geil mót norðvestri að Dyngjujökli. Norðan í skarðinu er Gámur, einn öflugasti gufuhver landsins. Austan við Hveradal er skáli Jöklarannsoknarfélags Íslands í um 1750 metra hæð.

Gönguleið í Hveradal liggur frá Kverkjökli, skáhallt upp svonednda Löngufönn og áfram með brúnum upp í skála Jöklarannsóknafélagsins. Í slíka ferð þarf að ætla sér allan daginn fram og til baka. Ekki er ráðlegt að ganga þessa leið nema að vera í góðu formi og hafa allan varann á því að hætturnar á leiðinni eru margar. En þessi fjallganga er ógleymanleg!

Innst í Hveradal er allstórt lón, oft ísi lagt en tæmist stundum. Annað lón eða stöðuvatn er í ketilsigi rétt austur af skála Jöklarannsóknafélagsins. Er sigið um 600 m breitt og 100 m djúpt. Það myndaðist árið 1959 í eins konar sprengigosi í tengslum við jarðhita. Þá eru og hitur ofarlega í Skarphéðinstindi og víðar í Kverkfjöllum eystri.

Hveragil

Austan Kverkfjalla er jarðhita að finna í Hveragili á um tveggja km löngum kafla og eru þar víða 40 til 60 gráðu heitar laugar. Í gilinu eru fallegar kalkútfellingar og bólstraberg. Í ánni sem kemur undan Kverkjökli er vottur af jarðhitavatni sem veldur því að íshellir myndast yfir farveginum. Jarðhiti er undir skriðjöklinum og afrennsli er til hellisárinnar frá ketilssiginu í öskjunni efra.

(Helsta heimild: Vefur Umhverfisstofnunar)

Nýr Ski-doo slær í gegn á fyrsta WSA-mótinu

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Fjörið í snjókrossinu vestan hafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn. Ekki liggja enn fyrir miklar upplýsingar um þetta nýja tæki en ljóst er að það svínvirkar með nýrri gerð af framfjöðrun og vægast sagt flottu útliti.

Á föstudaginn var keppt um átta laus sæti á X-games og þar stóð uppi sem öruggur sigurvegari Curt Peterson á einum hinna nýju Ski-doo sleða. Hann bar m.a. sigurorð af mönnum eins og Carl Kuster, Kurtis Crapo, Earl Reimer, Matt Judnick, Todd Wolff, Tomi Ahmasalo og Michael Island en þessir tryggðu sér allir sæti á X-games. Samtals voru það sjö ökumenn á Ski-Doo, fimm á Polaris og tveir á Arctic Cat sem kepptu í úrslitahíti um laus sæti á X-games.

Meistarar með misgóða takta

Á laugardaginn var keppt í undanriðlum í Pro Open og Pro Stock og þá mættu allir “stóru” karlarnir til leiks. Margir sýndu góða takta en enginn þó eins og Polarisökumaðurinn og Íslandsvinurinn Noel Kohanski sem sigraði á alþjóðlega mótinu í Ólafsfirði sl. vor. Hann var greinilega enn heitur frá því í Ólafsfirði og fór nær ósigraður í gegnum daginn. Annar Polarisökumaður, Levi Lavallee, sigraði í Semi-Pro Open en þar lauk keppni á laugardaginn.

Sumar stórstörnurnar áttu erfitt uppdráttar á köflum. T.d. átti Blair Morgan, sem nú mætti til leiks á Ski-doo, í basli með kúplinguna og Tucker Hibbert átti einnig í basli með nýja Sno Proinn. Cris Vincent, sem nú keppir fyrir Yamaha, náði öðru sæti í einu híti og sýndi að nýi Yamminn er til alls vís. Toni Haikonen (nú á Arctic Cat), Earl Reimer og Carl Schubitzke “enduðu” allir daginn mis mikið meiddir.

Vortúr í Snæfell 2001

Vortúrarnir eru skemmtilegasti hluti sleðamennskunnar og meðfylgjandi myndir voru teknar í ferð sem farin var laust eftir miðjan maí á síðasta vori.

Ekið var af Öxnadalsheiði á miðvikudagskvöldi inn í Laugafell og gist þar fyrstu nóttina. Daginn eftir var haldið áleiðis austur á bóginn en ekið skemmra en ætlað var sökum bilana sem hrjáðu hópinn. M.a. þurfti einn að fá nýjan sleða sendann að heimann. Á föstudagsmorgni var vaknað í mikilli blíðu og þá ekið norðan Dyngjujökuls í Kverkfjöll og baðað í Hveragili. Þar snéru tveir úr hópnum heim á leið en aðrir óku áfram austur í Snæfell.

Laugardagurinn var notaður í skoðunarferðir um nágrennið í frábæru veðri. M.a. var ekið niður í Víðidal, litið niður í Geithellnadal og síðan brunað upp á Vesturdalsjökul, sem gengur út úr Vatnajökli. Farið var upp á Goðahnjúka og síðan snúið við niður Eyjabakkajökul, litið á íshellinn og ekið áfram um Eyjabakka að Laugarfelli til að fara í bað. Að því loknu var stefnt til baka í Snæfellsskála og brunað upp á Snæfellið áður en gengið var til kvöldmatar.

Á sunnudagsmorgni var skítaveður og var því brottför frestað fram á kvöld. Um 10 leytið um kvöldið var síðan lagt af stað heim og stóð á endum að síðuhöfundur rétt náði að komast á fund á Akureyri kl. 8 á mánudagsmorgni.

 

Landaleitarmenn hinir seinni

Landaleitarmenn nefndist flokkur vaskra manna sem Þingeyingar gerðu út árið 1880 til að kanna svæðið umhverfis Ódáðahraun. Í þeirri ferð fundust m.a. Gæsavötn, kofarústirnar í Hvannalindum og fleiri merkir staðir. Sl. miðvikudag voru „Landaleitarmenn hinir seinni“ á ferð.

Tilgangur fararinnar nú var að kanna hvort finna mætti styttri akfæra leið í Gæsavötn en þá sem nú er notuð, þ.e. fyrir þá sem koma að norðan. Sem kunnugt er þarf nú að aka Sprengisandsleið suður að Tómasarhaga áður en beygt er norðaustur með Tungnafellsjökli áleiðis í Gæsavötn. Til fararinnar völdust fjórir vaskir menn úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og var gengin sem næst bein lína frá vaðinu yfir Langadrag á Gæsavatnaleið norðvestur að vegamótum Sprengisandsleiðar og Dragaleiðar, þ.e. þar sem ytri afleggjarinn í Laugafell tengist Sprengisandsleið. Samtals eru þetta um 25 km sem lagðir voru að baki á sex og hálfri klukkustund. Of snemmt er að fullyrða nokkuð um árangur ferðarinnar “en verið er að flokka og vinna þau gögn sem safnað var”, eins og sagt er á máli fagmanna. Einmuna veðurblíða var á hálendinu þennan dag og bærðist ekki hár á höfði. Meðfylgjandi myndir tók Smári Sig. af ferðafélögum sínum.