Breytt áætlun

Breytt áætlun

Þegar breyta þarf út frá áður ákveðnum áætlunum, kemur sér vel að þvermóðska mun fyrst og fremst vera eitthvað sem tekur að hrjá fólk þegar það eldist. Þannig vafðist ekki fyrir flokknum að breyta ferðaplönum þegar í ljós kom að veðrið var ekki alveg með okkur í liði í dag.

Laugafell, eða hvað?

Áætlun dagsins hljóðaði upp á léttan hálendisrenning, kíkja í Laugafell og jafnvel eitthvað meira. Einhverjir sögðust meira að segja hafa frétt af eldgosi austur á landi sem gaman væri að kíkja á en þangað er víst alveg bannað að fara nema í lögreglufylgd þannig að ekki kom það til greina.

Þeir fyrstu voru vaknaðir og búnir að smyrja nestið fljótlega upp úr kl. 7 en þegar tók að birta af degi kom í ljós að útsýnið inn á hálendi var ekki svo kræsilegt. Skítasunnanþræsingur og snjóstrókurinn stóð fleiri hundruð metra til norðurs af öllum fjöllum. Þótt vissulega væri freistandi að lofa gömlum þráa að taka sig upp og bogna hvergi, var samt ljóst að ferðaveðrið inn til landsins væri lítið spennandi. Því varð úr að kíkja austur fyrir Vaðlaheiði og láta ráðast hvað yrði úr deginum.

Ljúft í Fnjóskadalnum

Ofsagt væri að halda því fram að veður og færi upp á Vaðlaheiði hefði lofað góðu en þegar kom niður í Fnjóskadal var allt mun skaplegra. Yfir Fnjóská var farið á brúnni til móts við Systragil og stefnan tekin á Lundsskóg. Þar er bakarinn, sem var með í för, stoltur sumarhúsaeigandi. Hann hafði hins vegar ekki verið viðbúinn breyttum ferðaplönum, engill lykill með í för, og því verður ferð í heita pottinn að bíða betri tíma.

Skógarstígar þræddir

Greiðlega gekk að þræða skógarstíga og veginn suður í gegnum Lundsskóg og Þórðarstaðaskóg, með smá útúrdúrum. Fyrri samlokan var tekin fyrir sunnan Þórðarstaði og síðan farið að huga að heimferð. Smá upplausn kom í flokkinn á tímabili þegar hluti hans reyndi að fela sig bakvið fjárhúsin á Þórðarstöðum, í óljósum tilgangi. Komið var við hjá gömlum félaga, Billa bakara, sem leyfði sér að vera ekki á svæðinu. Til baka var ekið vestan Fnjóskár og sama leið vestur yfir heiði. Þannig má með sanni segja að vel hafi ræst úr deginum og voru menn á einu máli um að þetta hefði verið hin besta æfing.

Heyrst hefur…

  • …að sparifötin hans Sigurgeirs séu að verða verulega slitin
  • …að formaðurinn hafi engu gleymt
  • …að díselolía henti vel á 800 Polaris
  • …að mikið nesti hafi komið heim óétið
  • …að flokkurinn verði bara meðfærilegri með hverju árinu sem líður
Glerárdalur á öðrum degi jóla

Glerárdalur á öðrum degi jóla

Birtustundir á þessum árstíma eru hvorki langar né margar og því nauðsynlegt að grípa þá glugga sem gefast. Eftir snjókomu liðina vikna þarf ekki að fara langt til að komast á sleða og Glerárdalurinn lofaði góðu þegar birta tók af degi.

Skörð í flokknum

Fimm karlar mættir helspenntir upp við hitaveituskúr um það bil sem ratljóst var orðið. Fremstur í flokki var auðvitað Ingólfur bakari á glænýrri kanadískri græju sem beinlínis lýsti af í skammdegishúminu. Aðrir urðu að láta sér gömlu tuggurnar duga. Varla var þó hægt að telja flokkinn fullskipaðann þar sem nokkra fastameðlimi vantaði. Afsakanir voru mis góðar, einn vantaði t.d. starfhæf lungu en annar var á leiðinni í bíltúr. Þanning var nú það.

Hafði öllu gleymt – eða hvað…?

Smári þóttist hafa öllu gleymt frá fyrra vetri, sagist mundi keyra bæði hægt og varlega, en gamlir taktir virtust þó rifjast upp furðu fljótt. Gunni Garðars sigldi lygnan sjó á sínum túrbóvædda Nytro en sá reyndar félögunum fyrir smá líkamsrækt inn á milli. Unglingurinn lét ekki sitt eftir liggja þótt bæði beltistommur og vélarkúbik væru undir meðaltali ferðarinnar. Vildi meina að þetta ylti hvort sem er mest á karlinum sem héldi um stýrið og gjöfina.

Lofar bara góðu

Snjóalög voru nokkuð misjöfn, eins og við var að búast eftir hvassviðrin sem hafa geysað. Heilt yfir lofa þó dalurinn og nærsveitir bara góðu. Farið var upp Lambárdal og yfir öxlina niður Lamba, með viðkomu í ýmsum brekkum og giljum. Neðri leiðin til baka niður á Súlumýrar og góður dagur að baki.

Best og flottast í sleðaheiminum

Sýningin Vetrarlíf var haldin um liðna helgi í Garðabæ og þótti takast með ágætum. Góð aðsókn var á laugardeginum en óveður á sunnudeginum hefur að líkindum eitthvað dregið úr umferð. Samkvæmt venju voru sleðaumboðin og tengd fyrirtæki í forgrunni og sýndu öll það nýjasta og flottasta sem í boði er. Ekki veit ég hvort valdir voru áhugaverðustu sleðarnir og flottustu básarnir, eins og jafnan þegar sýningin hefur verið á Akureyri, en ég tek það þá bara að mér hér og nú.

Áhugaverðasti nýi sleðinn

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Ég held að fáir geti andmælt því að nýja Axys-línan frá Polaris er helsta nýjungin í ár, enda vel við hæfi á 60 ára afmæli tegundarinnar. Hér er komið algerlega nýtt boddý með nýrri 800 vél og nýrri afturfjöðrun. Aksturseiginleikarnir eiga að vera í sérflokki og nýja 800 vélin umtalsvert snarpari en forverinn. Sleðinn er boðinn með tveimur beltislengdum, hefðbundinn stuttur sem 120“ og 137“ Switchback. Þótt afturfjöðrunin líti svipað út og Pro-ride fjöðrunin sem hún leysir af hólmi þá er hönnunin engu að síður ný. Meðal nýrra fídusa í vélinni eru þriggja þrepa rafstýrðir pústventlar, rafdrifin olíudæla sem m.a. þýðir að inngjöfin er umtalsvert léttari, sveifarásinn hefur verið léttur o.fl. Útlitið er skemmtilegt með LED-framljósi og flottu mælaborði. Virkilega spennandi græja sem fróðlegt verður að sjá hvernig reynist og þá einnig hvort fjallasleðarnir fá eitthvað af þessu nýja góðgæti 2016.

Annar verðugur kandídat er nýi Viper sleðinn frá Yamaha. Samstarf Arctic Cat og Yamaha virðist hafa skilað góðum árangri og hefur sleðinn hlotið fyrirtaks dóma. Reyndar þurfti að innkalla sleðana og gera endurbætur vegna bensínleka, en úr því er væntanlega búið að bæta. Ég fékk kost á að reynsluaka frumgerð af sleðanumn síðastliðið vor og get vitnað um að hann lofaði virkilega góðu og er klárlega lang meðfærilegasti 4-gengis sleði sem í boði er. Þá skemmir ekki fyrir að hann er á frábæru verði hérlendis –eða svona að svo miklu leyti sem hægt er að taka um að nýir vélsleðar hérlendis séu á frábæru verði – hmm.

Verklegasti sleðinn

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Hér er e.t.v. meiri samkeppni um titilinn en ég held þó að hann falli í skaut Ski-doo með nýju T-3 útfærsluna. Hér er kominn svaðalegasti fjöldaframleiddi sleði sem í boði er, með 174x16x3“ belti. Einnig er Ski-doo að kynna breytingar á framfjöðrun í ár sem skila á betri aksturseiginleikum.

Þegar rætt er um verklega sleða verður að minnast á 900 Pro-Lite sleðana frá Black Dimond, sem Motul flytur inn. En þeir verða þó líklega frekar að flokkast sem sérsmíði, þótt vissulega séu þeir framleiddir í talsverðu magni. En auðvitað er svo sérsmíðaði spyrnusleði þeirra Hafnarfeðga, sem var í Yamaha-básnum, einn í flokki.

Flottasti básinn

Motul-básinn var virkilega  flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Motul-básinn var virkilega flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Af stærri sýnendum þótti mér bás Motul-manna frá Akureyri algerlega ber af. Virkilega flott upp settur og höfðu norðanmenn ekki talið eftir sér að koma með nánast hálfa búðina með sér. Mikið vöruúrval þeirra lyfti sýningunni upp. Vel gert!

Af sýnendum með minni bása var Garmin búðin eins og jafnan með fínan bás og þá var básinn hjá Landsbjörg einnig mjög smekklegur og vel fram settur með hliðsjón af þeim skilaboðum sem félagið er að koma á framfæri.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Aðrar merkar nýjungar

Ég hef í þessum pistli lítið minnst á Arctic Cat og Lynx, sem merkir þó engan veginn að þeir séu ekki með áhugaverða sleða í ár. Þvert á móti. Mér skilst t.d. að Arctic Cat sé að bjóða 73 módel í ár þannig að sannarlega ættu allir að geta fundið sleða við hæfi. Maður heyrir líka bara góðar sögur af þjónustu umboðsins, sem hefur sitt að segja. Væri ég síðan sjálfur að velja mér nýjan sleða hygg ég að ofarlega, ef ekki efst, á óskalistanum væri Boondocker frá Lynx. Svaðalega flottur og líklega meiri alhliða sleði en flestir keppinautarnir í púðursleða-flokknum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sýningunni.

Vetrarlíf í Garðabæ um helgina

vetrarlif14Sem kunnugt er var ákveðið að halda sýningu og árshátíð til skiptis sunnan og norðan heiða, þ.e. annað árið fyrir sunnan og hitt fyrir norðan. Nú er komið að LÍV-Reykjavík að spreyta sig og sýningin Vetrarlíf verður haldin um komandi helgi,  29.-30. nóvember, og árshátíð á laugardagskvöldinu. Sýningin er í Kauptúni í Garðabæ, á móti IKEA. Opið verður kl 10-17:30 á laugardag og 11-17 á sunnudag.

Án efa verður öllu tjaldað til. Sleðaumboðin verða að sjálfsögðu öll á staðnum og einnig fullt af öðrum fyrirtækjum sem tengjast sleðamennsku almennu vetrarsporti.

Nýja Team 23 myndin

Strákarnir í Team 23 eru búnir að setja nýja sleðamyndbandið sitt á netið. Góður rómur var gerður að myndinni þegar hún var frumsýnd á föstudagskvöldið enda mörg flott atriði sem náðst hafa á mynd. Sem sagt fín frumraun og næsta mynd verður enn betri, lofa strákarnir 🙂

Margt um manninn í Motul

Fjölmargir lögðu leið sína í Motul á Akureyri á föstudagskvöldið þar sem var opið hús og ýmislegt til gamans gert. Óstaðfestar fregnir herma að svo vel hafi nýju FXR-gallarnir selst um kvöldið að Birkir og félagar hafi þurft að hringja í ofboði út og panta meira til að eiga örugglega nóg fyrir jólin 😉

Einn af hápunktum kvöldsins var þegar strákarnir í Team-23 sýndu nýja sleðamynd, þar sem þeir höfðu klippt saman ýmis skemmtileg skot frá liðnum vetri. Fékk myndin góð viðbrögð og að auki var lofað enn betri mynd að ári. Virkilega gaman að sjá hvað unga deildin er að koma sterk inn í sportið, full af áhuga, en búðin bókstaflega fylltist þegar leið að sýningu myndarinnar.

Hér að neðan eru nokkar myndir sem teknar voru í gærkvöld.

Opið hjá Motul á föstudagskvöldið – Nýja sleðamyndin frumsýnd

motulopidSleðafólk norðan heiða ætti að gera sér ferð í verslun Motul á Akureyri á föstudagskvöldið. Frá kl. 18 verður kynning á nýjustu sleðafötunum frá FXR og Tobe, enda ekki seinna vænna að fara að galla sig upp fyrir veturinn.

Kl. 20 er svo komið að frumsýningu á nýrri íslenskri sleðamynd sem strákarnir í Team 23 genginu hafa snarað saman og hefur að geyma myndbrot frá afrekum þeirra síðasta vetur. Virkilega flott framtak hjá þessum áhugasömu köppum.

Nú ef að líkum lætur má einnig berja augum hjá þeim Motul mönnum eitthvað af splunkunýjum Arctic Cat sleðum og jafnvel kynna sér Pro-Lite ofurgræjurnar frá Black Diamond, sem Motul er með umboð fyrir.

Sleðast með Chris Brown

Undanfarna vetur hefur færst í vöxt að sleðamenn bregði sér bæjarleið í Ameríkuhrepp til að takast á við púðrið góða og æfa sig í smá skógarferðum. Flestir hafa lagt leið sína til norðvestur fjallaríkjanna: Wyoming, Idaho og Colorado, en þar upp í fjöllunum eru mörg frábær sleðasvæði. Wyoming hefur verið vinsæll áfangastaður margra enda t.d. svæðið suðvestan Yellowstone þjóðgarðsins sannkallað ævintýraland. Hópar héðan hafa einnig farið til goðsagnarinnar Bret Rasmussen sem gerir út frá Idaho og einhverjir heimsótt annan ekki minna frægan í Colorado, Chris Burant.

Þeir sem mættu á síðasta félagsfund EY-LÍV fengu skemmtilega sögu og sáu myndband frá ferð fjögurra sleðajaxla frá Akureyri til Whiser í Kanada. Það sem gerir svæðið ekki síst áhugavert fyrir Íslendinga auðvelt aðgengi með beinu flugi Icelandair til Vancouver og oft er hægt að sleðast í frábærum snjó í minni hæð en suður í fjallaríkjum Bandaríkjanna. Hins vegar er úrkomusamara svona nálægt Kyrrahafinu og því e.t.v. meira happdrætti að hitta á bjarta daga.

Þeir félgagar, Örn Traustason, Stefán Traustason, Steindór Jónsson og Arnar Þór Sigursteinsson, heimsóttu í Whisler enn eina sleðagoðsögnina, Chris Brown. Með honum sleðuðust kapparnir í tvo daga í vægast sagt svakalegu púðri. Má segja að sjón sé sögu ríkari 🙂 Fyrst koma nokkrar myndir og þá vídeó.

Ski-doo og Lynx frumsýnir norðan heiða

skidoo_15Ellingsen frumsýnir 2015 árgerðina af Ski-doo og Lynx í verslun sinni á Akureyri næstkomandi föstudag, 14. nóvember kl. 16-20. Sleðafólk er að sjálfsögðu hvatt til að fjölmenna og eiga saman skemmtilega stund. Stærstu tíðindin hjá Ski-doo þetta árið er að sjálfsögðu nýi T3-pakkinn fyrir Summit þar sem í boði er svakalegasta belti sem sést hefur til þessa, 174×16 tommur með 3 tommu spyrnum. Já við erum að tala um belti sem er nærri fjórir og hálfur metri á lengd! Einnig mun vera komin endurbætt framfjöðrun og eitthvað meira sem gaman verður að fræðast um. Nú Lynx er einnig allrar athygli verður og hefur komið vel út hérlendis. Þar m.a. t.d. nefna BoonDocker 800 fjallasleðann og í vinnusleðum slá fáir Lynx við. Spennandi dagur framundan hjá sleðafólki norðan heiða á föstudaginn.

Nýjar gamlar sögur enn að bætast við

Djúpt á RMK.

Djúpt á RMK.

Enn eru að bætast við ferðasögur og myndir og myndir af gömlu síðunni, eftir því sem tekst að grafa upp meira af botni glatkistunnar 😉 Síðustu daga hafa t.d. bæst við ferðasögur með myndum frá Smára Sig., mest frá árinu 2007, sem sannarlega er þess virði að rifja upp. Hér má t.d. benda á skemmtilega sögu frá síðustu dögum maí 2007 þar sem botlaust púður var í Kverkfjöllum. Í byrjun mánaðarins fóru Smári og félagar hins vegar í baráttuferð 1. maí, eins og lög gera ráð fyrir. Mikil hitabylgja hafði gengið yfir landið skömmu áður, sem fékk nafnið hitavelluhelgin mikla, en þá var rennt m.a. í Laugafell. Seint í mars náðist góður púðurdagur á Glerárdal og í Gæsavötn var farið í byrjun mánaðarins.

Hér hefur bara fátt eitt verið nefnt af gömlu efni sem gaman getur verið að skoða en í efnisflokkunum hér hægra megin á síðunni er efnið m.a. flokkað niður eftir árum.

EY-LÍV niðurgreiðir árshátíðamiða

livlogoDagana 28.-29. nóvember verður sýning í umsjón LÍV-Reykjavík og árshátíð á laugardagskvöldinu. Ákveðið hefur verið að halda þessa viðburði til skiptis sunnan og norðan heiða, þ.e. annað árið fyrir sunnan og hitt fyrir norðan.

Sýningin verður í húsi rétt við IKEA en árshátíðin í Turninum við Smáralind. EY-LÍV niðurgreiðir miðann á árshátíðina fyrir félagsmenn og kostar hann 5000 kr. Til að verða sér út um miða þarfa að:

1. Fyrst að skrá sig á hátíðina á eyliv.postur@gmail.com og gefa þar upp bæði nafn og kt. (aðeins fyrir EY-LÍV meðlimi)
2. Síðan millifæra kr. 5000 á reikning EY-LÍV: 565-26-20115 og kt:500196-3789
3. Hægt er svo að nálgast miðann hjá Tryggva sími 896-0114 gegn framvísun greiðslu.

Hótel Smári í Kópavogi, sem er við hliðina á Turninum, er með afsláttarkjör á gistingu eða kr. 11.900 nóttin fyrir herbergi. Bent skal á að ekki er ótakmörkuð gisting svo best er að bóka sem fyrst.

Sleðaferð í fjörður 18. febrúar 2014

Líklega er best að byrja aðlögun að því að setja inn nýtt efni með stuttu vídeói frá skemmtilegri ferð í Fjörður á afmælisdaginn minn fyrr á þessu ári. Eftir marga vikna dimmviðri birti loks til og menn stukku af stað til að nota allan snjóinn sem var kominn. Farin var hefðbundin leið  upp Grenivíkurfjallið, um Grenjárdal, Trölladal og Þverdal, þaðan sem farið er yfir haftið yfir í Þverárdal/Kussungsstaðadal. Ágætur snjór var niður Bakkadal og Hólsdal en úr honum var farið um Ytri-Skálina upp á brún Blæjudals. Ekkert var því til fyrristöðu að skella sér niður í Blæjudalinn og upp á Hnjáfjallið þar sem horft er yfir Keflavíkina. Ekki var þó farið niður í hann að þessu sinni heldur sama leið til baka með slaufu um Afvikið. Allt með hefðbundnum hætti sem sé en færi veður og félagsskapur með því besta sem gerist.