Haydays í 50 ár

Í júlí árið 1966 komu nokkrir vinir saman og lögðu fyrstu drög að stofnun vélsleðafélags sem þeir seinna gáfu nafnið Snow-Barons. Haustið eftir ákváðu þeir að reyna með sér í spyrnukepppni og þar með var hafin vegferð sem stendur enn þann dag í dag. Engum sögum fer af tímunum sem náðust, enda tækin í þá daga ansi frábrugðin sleðum nútúmans. En þetta uppátæki þróaðist í að verða stærsti viðburðurinn í sleðaheiminum ár hvert og „formlegt upphaf vetrarins“ eins og eru einkennisorð Haydays í dag.

Heimsókn á Haydays hefur lengi verið á óskalistanum og því var eiginlega ekki annað hægt en láta verða af því á 50 ára afmæli viðburðarins, haustið 2016. Svo heppilega vill til að einkasonurinn er einnig forfallinn sleðaáhugamaður, hvernig svo sem það hefur atvikast. Hann féllst því á að veita föður sínum félagsskap í ferðinni og það án þess að beita þyrfti fortölum sem heitir.

Sem fyrr segir byrjaði Haydays sem spyrnukeppni og hún leikur enn verulegt hlutverk, þótt í raun séu aðrir þættir sem miklu frekar draga fólk að og aðrar keppnisgreinar sem fá meira áhorf. Þróunin hefur orðið sú að í raun er orðin skyldumæting fyrir alla sem á annað borð vilja láta taka sig alvarlega í sleðaheiminum – sleðaframleiðendur, aukahlutafyrirtæki, fataframleiðendur, keppnisliðin o.fl. o.fl. Að auki er svo hið risastóra „Swap-meet“ þar sem hinir aðskiljanlegustu aðilar mæta með notaða hluti og nýja, jafnvel bara það sem kom fram í dagsljósið við síðustu tiltekt í bílskúrnum. Þarna ægir því öllu saman í bókstaflegri merkingu, þannig að úr verður viðburður sem á engan sinn líka.

Á hverju ári er síðan reynt að vera með sérstakan viðburð sem trekkir að og í ár var það risastökk goðsagnarinnar Levi Lavalle sem vippað sér án vandræða rúma 60 metra, enda á hann reyndar að baki ca. helmingri lengra stökk á vélsleða yfir höfnina í San Diego.

Að sjálfsögðu blómstra viðskiptin, bæði með notað og nýtt, og á tíðum hægt að gera ansi góð kaup samanborið við búðarverð á Íslandi. Fyrir Íslendinga er afar einfalt að heimsækja Haydays. Icelandair flýgur til Mineapolis og þaðan er innan við klukkutíma akstur á svæðið. Ágætt er að gista inni í Minneapolis, því þótt borgin verið seint talin sú skemmtilegasta í Bandaríkjunum þá er óvíða hagstæðara að versla.

Hér að neðan fylgja svo nokkrar myndir úr ferðinni.

Hvítasunnutúr í bongóblíðu

Vortúrar um hálendið er eitt af því sem heillar við sleðamennskuna og hvítasunnuhelgin 2016 var sannkallað hlaðborð lystisemda. Ekið var því sem næst úr bílskúrnum en lagt var upp frá Geldingsárréttinni í Vaðlaheiði á föstudagskvöldi, með Gæsavötn sem áfangastað. Farið var um Gönguskörð og svo sem leið liggur inn fjallið, með viðkomu í skálunum Landakoti og Sandbúðum. Þaðan austur á bóginn, yfir Skjálfandafljótsbrú og í Gæsavötn. Tók ferðin í heild sétta 3 tíma.

Laugardagsmorgun heilsaði með sól og blíðu. Planið var að kíkja í Dyngjufjöll og þaðan í Kverkfjöll en upp Trölladyngju sást að enn var ekki orðið vel bjart í Dyngjufjöllunum þannig að þeim var sleppt og farið beint austur fyrir framan Dyngjujökul. Lítilsháttar þræðingar voru á Flæðunum og smá krókur að finna snjóbrú á meginkvísl Jökulsár en þegar hún fannst var leiðin greið í Kverkfjallarana með kafsnjó. Stefnan var að sjálfsögðu á bað í Hveragili og reyndist baðvatnið vera í heitari kantinum. Þaðan var ekið upp á eystri hrygg Kverkfjalla, tekinn sveigur fyrir Kverkina, höfð viðkoma við skála Jöklarannsóknafélagsins og niður Löngufönn í Sigurðarskála. Til baka í Gæsavötn var farið um Dyngjujökul með viðkomu á Kistufelli. Um kvöldið var slegð upp veislu, enda gott dagsverk að baki.

Ekki var veðrið sem sunnudagurinn bauð upp á neitt síðra en daginn áður og eftir hefðbundin morgunverk og frágang var lagt í‘ann á jökul, áleiðis í Grímsvötn. Ferðin sóttist vel þótt færið væri í harðara lagi. Eftir viðkomu á Grímsfjalli var haldið niður Köldukvíslarjökul, áð í Vonarskarði og síðan haldið vestur yfir Tungnafellsjökul. Vestan hans var ferkar snjólétt yfir að líta en fyrir vana menn var létt að rata á réttu snjólænurnar vestur fyrir Fjórungsöldu. Gott stopp var tekið í Laugafelli og þar tekin ákvörðun um að setja smá krydd í heimferðina. Í stað þess að stefna niður austan Eyjafarðar og niður á Vaðlaheiði var brunað norður Nýjabæjarfjall og svokölluð „Dalvíkingaleið“, niður Glerárdal og endað á gömlu öskuhaugunum ofan Akureyrar. Að baki var góð 550 km ferð í frábæru veðri og færi.

Ferðafélagar voru þeir Hreiðar í Vín, Gunni Garðars, Ingólfur Finnsson, Úlfar Arason og Sigurgeir Steindórsson.

 

Vetrarsport 2015

Helgina 28.-29. nóvember verður sleðaveisla á Akureyri með hinni árlegu Vetrarsportsýningu og árshátíð sleðamanna. Sem kunnugt er þá var ákveðið í fyrra að halda þessa hátíð til skiptis sunnan og norðan heiða og sameina þannig sleðafólk af öllu landinu. Fyrir sunnlendinga eru ýmis tilboð á flugi og gistingu í samráði við LÍV Reykjavík. Miðar á árshátíðina verða seldir í Storm í Reykjavík og Motul á Akureyri. Athugið að nauðsynlegt er að tryggja sér miða áður en það verður uppselt.

Nánari dagskrá og upplýsingar á http://www.liv.is.

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn 2015 var óvenju seint á ferðinni og kom það ýmislegt til, einkum þó óvenju kalt vor og að helgar með virkilegum blíðviðrisdögum virtust einfaldlega ekki vera á boðstólnum. Einhverjir vildu reyndar meina að það vantaði bara meira bit í karlanna en á það var ekki hlustað. Loks var brottför ákveðin 17. júní, enda ekki seinna vænna. Ferðaáætlun á þessum ártíma er hefðbundin því ekki er mikið val um færar sleðaleiðir á hálendinu þegar svo langt er liðið á árið. Alla jafna er lagt upp af Öxnadalsheiði og stefnan tekinn austur á bóginn þvert yfir Sprengisand, áleiðis að Vatnajökli.

Fjallið alltaf jafnt „skemmtilegt“
Flokkurinn taldi aðeins fjóra að þessu sinni þegar ekið var inn Kaldbaksdalinn á Öxnadalsheiði síðdegis 17. júní. Hreiðar Hreiðarsson (eða Formaðurinn), Jón Trausti Björnsson og Úlfar Arason, auk undirritaðs. Nokkrar þræðingar voru neðst í dalnum en síðan var leiðin greið inn á Nýjabæjarfjall. Þar var eins og jökull yfir að líta, eða hefði a.m.k. verið með útsýni umfram þá 5 metra sem í boði voru. Aksturinn inn fjallið sóttist hins vegar ágætlega að því frátöldu að sleði Formannsins virtist ekki of spenntur fyrir ferðalaginu og gekk nokkuð köflótt. En áfram var haldið og heldur birti til þegar halla fór niður af Nýjabæjarfjallinu. Áfangastaðurinn var Laugafell og eins og hefðbundið er á vorin þá kostaði talsverða króka og þræðingar að finna færa leið síðustu kílómetrana.

Lífinu tekið með ró
Veðurspáin hafði gert ráð fyrir frekar þungbúnu veðri daginn eftir og þegar risið var úr rekkju kom í ljós að spáin hafði fyllilega gengið eftir. Vonir voru um að létta myndi til seinnipartinn og lífinu því tekið með ró, dvalið lengi í morgunmat, legið enn lengur í lauginni og sagðar mun fleiri sögur. En að lokum var ákveðið að síga af stað áleiðis austur í Gæsavötn og láta reyna á hvort þangað væri enn fært á sleða.

Babb í bátinn
Ekki höfðu menn lengi ekið þegar í ljós kom að eitthvað var bogið við einn sleðann og skoðun leiddi í ljós að fremri kúplingin var brotin í tvennt. Engar forsendur voru því fyrir því að hann gæti langt upp í ferð lengra inn á hálendið og nú sest á rökstóla um hvað til bragð ætti að taka. Einróma niðurstaða var að reyna að koma sleðanum aftur niður á Öxnadalsheiði, keyra í bæinn, sækja nýjan sleða og halda ferðinni áfram, eða hefja hana að nýju, eftir því hvernig á það er litið. Brotið var nú stillt af og kúplinsboltinn hertur eins og hægt var með „skiptilykilsræfli“ sem Formaðurinn lagði til. Síðan var snúið við en stoppað reglulega til að huga að herslunni.

Ein með öllu
Aftur var Nýjabæjarfjallið ekið í fullkomnu skyggnisleysi og ekki laust við að mannskapurinn væri nokkuð feginn að komast í bílana niður á Öxnadalsheiði. Voru nú höfð hröð handtök, sleðanum hent á kerru og brunað áleiðis til Akureyrar. Sleðaskiptin á hlaðinu hjá Jóni gengu hratt og vel og gáfu menn sér naumlega tíma til að fá sér pylsu og kók í Krókeyrarnesti (sem heitir víst Leirunesti eða eitthvað svoleiðis í dag) áður en brennt var aftur upp á heiði. En þetta mun vera ein af fáum hálendisferðum þar sem menn hafa fengið sér eina með öllu í miðjum túr.

Ekki skánar Fjallið
Og enn var mannskapurinn staddur á Öxnadalsheiði, sléttum sólarhring eftir að lagt var af stað hið fyrra sinni. Framundan var Nýjabæjarfjallið og vonir um meiri birtu reyndust ekki á rökum reistar. Skyggnisleysið var jafnvel enn meira en áður og sami rigningarhraglandinn og verið hafði í hin tvö skiptin. Planið var að paufast austur í Gæsavötn, með viðkomu í Laugafelli til að taka bensín, en hvorki veður né skyggni gerðu slíka ferð aðlaðandi þegar á reyndi. Langt var liðið á kvöld þegar rennt var í hlað í Laugafelli, í nánast ausandi rigningu. Var einróma ákvörðun að láta gott heita af vélsleðaakstri þennan daginn og hefja frekar eldamennsku. Snarað var upp sverum steikum með meðlæti og fljótlega skriðið í poka.

Sjö sólir á lofti
Kvenréttindadagurinn 19. júní heilsaði með allt öðru veðri en kvöldið áður. Brostið var á með brakandi blíðu, sjö sólir á lofti og ljóst að nú væri góður dagur framundan. Jón rak því mannskapinn á fætur með fyrra fallinu en að sjálfsögðu gáfu menn sér þó tíma til að skreppa aðeins í laugina.

Bjart framundan
Fátt er skemmtilegra en að þeysa um hálendið að vori til í sól og blíðu og nú voru sannarlega þannig aðstæður. Stefnan var fyrst tekin á Sandbúðir, norðan Fjórðungsöldu, þaðan sem fá má ágætis útsýni um leiðina áfram austur. Þaðan þótt sýnt að taka þyrfti sveig suður á bóginn og því farið suður fyrir hraunið, í hæðirnar norður af Tungnafellsjökli og þaðan áleiðis aftur norður að brúnni yfir Skjálfandafljót. Frá henni var ekki lengi gert að renna í Gæsavötn, enda höfðu menn aldrei séð svo góðan vorsnjó austan Fljóts. Karlar voru því bara nokkuð sperrtir að vera komnir í Gæsavötn á sleða 19. júní og sannfærðu hvern annan um að það hefði aldrei áður verið gert.

Klippt á snjóinn
Eftir gott kaffistopp var ákveðið að halda áfram austur og freista þess að kíkja á Holuhraun hið nýja. Flottur snjór var fyrir framan jökul og magnað færi. Stefnt var á Kistufell og síðan yfir Urðarhálsinn, með viðkomu hjá jarðfallinu magnaða sem þar er. En fyrir austan Urðarháls var hins vegar klippt á snjóinn, autt alveg frá jökulsporði og svo langt norður sem augað eygði. Því var ljóst að lengra yrði ekki farið á sleða með þessari stefnu. Var nú dólað til baka að skálanum við Kistufell, þaðan upp á Kistufellið og til baka í Gæsavötn, alltaf í sömu rjómablíðunni.

Í blautara lagi
Á pallinum í Gæsavötnum létu menn líða úr sér góða stund en síðan var nefi snúið heim á leið. Nú var farið suður fyrir Fjórðungsöldu og þaðan stefnt norður, yfir upptök Bergvatnskvíslar. Er ekki ofsögum sagt að færið hafi verið í blautara lagi og bókstaflega allt miðhálendið að fara á flot. En eftir því sem landið hækkaði til norðurs jókst snjórinn og höfð var viðkoma í skálunum Landakoti og Berglandi, svona rétt til að ferð okkar væri skrásett sem víðast. Nú var líka allt annar bragur á Nýjabæjarfjallinu en í hinum þremur ferðunum og fyrr en varði blasti Kaldbaksdalurinn við. Eitthvað hafði snjóinn tekið upp í hlýindunum þá um daginn þannig að sýna varð nokkra harðfylgni við að komast alla leið í bílana. Að baki varð viðburðarík ferð sem sannaði enn á ný að með hæfilegu magni af þrjósku og útsjónarsemi þá uppskera menn að lokum 🙂

Myndir tóku Halldór og Úlfar.

(S)könnunarferð um hálendið

(S)könnunarferð um hálendið

Kom að því að karlar drifu sig inn á hálendið á þessum vetri, enda ekki seinna vænna þegar júní nálgast óðum. Farin var hefðbundin leið af Öxnadalsheiði, um Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall í Laugafell. Þar var staðan tekin, lögbundinn kaffitími og spáð í framhaldið. Nokkrar íkjur myndu felast í því að segja að sjö sólir hefðu verið á lofti en þó sæmilega bjart með köflum og stefnan var tekin á birtuna suður með Hofsjökli. Aðeins var að byrja að verða vorlegt umhverfis Laugafell og talsvert af krapablám sem menn reyndu sig við, flestir með nokkuð góðum árangri. Stefnt var á Klakk austan Hofsjökuls og þræddir dalir og gil við hann, dágóða stund. Ekki þótti vert að fara lengra suður, enda menn komnir á vatnaskil. Þarna kemur nefnilega Jökulhvísl undan Klakksjökli og eru þetta systu upptök Hérðasvatna. Droparnir eiga því nokkuð langa leið fyrir höndum til sjávar í Skagafirði. Hinu megin í hæðunum, nokkur hundruð metrum sunnar, kemur hins vegar Háölduhvísl undan jöklinum og sameinast síðar Þjórsá. Til baka var farið um Laugafell, nú bara tekin stuttur stans enda farið að dimma nokkuð í lofti. Megnið af leiðinni niður á Öxnadalsheiði var misþétt snjókoma og klálega engin merki um vor á þeim slóðum. Kaldbaksdalurinn sléttfullur af snjó að heita mátti og mun betri en í meðalári. Hann verður því fær lengi enn ef ekki brestur á með asahláku. Sem sagt góður renningur um hálendið, þar sem allt reyndist vera á sínum stað. Ferðafélagar: Úlfar, Sigurgeir, Smári Sig. og Valgeir Hugi.

Vorferð EY-LÍV 2015

Vorferð EY-LÍV 2015

Fín þátttaka var í vorferð EY-LÍV sem farin var í dag í ágætu veðri og vorfæri. Lagt var upp frá Grenivík, ekið inn Grenjárdalinn og Trölladalinn, yfir á Leirdalsheiði og svo yfir fjöllin að Heiðarhúsum á Flateyjardal. Sama leið til baka með mismunandi mörgum stoppum í giljum og brekkum. Sem sagt fínn dagur í góðum félagsskap.

Soppum þjófinn! – Sleðinn er fundinn :)

gunnu_gYamaha Nytro turbo sleðanum hans Gunna Garðars var stolið um helgina úr læstri girðingu við Óseyri á Akureyri. Klippt var gat á öryggisgirðingu til að ná sleðanum út. Sleðinn er auðþekkjanlegur, með turbínu, breyttum klöfum að fram og vönduðum dempurum með forðabúri. Sá eini sinnar tegundar á landinu. Tökum höndum saman og látum lögreglu vita ef við verðum einhvers vör.

Lengri útgáfa af ferð til USA

Hér kemur lengra vídeó frá sleðaferð okkar félaga til Bandaríkjanna í byrjun mars. Ferðafélagar voru þeir Steindór Sigurgeirsson, Smári Sigurðsson, Magnús V. Arnarsson, Sigurgeir Steindórsson, Jón Ingi Sveinsson, Gunnar Garðasson, Úlfar Arason, Elías Höksuldsson, Ingólfur Gíslason, Vilhjálmur Kjartanson og Hreiðar Hreiðarsson. Ferðasöguna má lesa hér neðar á síðunni.

Stutt klippa frá fyrsta degi í USA

Veðurfarið þessa dagana er ekki beinlínis vinsamlegt sleðafólki. En þó er ástæðulaust að leggjast í eymd og volæði. Enn er nóg eftir af vetrinum og getur átt eftir að snjóa heilan helling. En á meðan rifjar maður bara upp lífa daga í USA í byrjun mánaðarins. Hér kemur smá klippa úr GoPro frá fyrsta degi.

Ungmennafélagið í útrás til USA

Ungmennafélagið í útrás til USA

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Sleðaferð til USA er eitthvað sem flesta dreymir um og veturinn 2014 var bundið fastmælum af nokkrum meðlimum Ungmennafélagsins að láta verða af ferð þangað árið eftir. Fylgt var í grófum dráttum sama plani og hluti hópsins notaði tveimur árum fyrr, þ.e. fljúga til Denver í Colorado, aka þaðan nánast þvert yfir Wyoming ríki í bæinn Jackson. Þar var gist þá daga sem sleðast var en ekið á hverjum morgni upp í fjöllin að Togwotee Mountain Lodge þar sem fenginn var leiðsögumaður til að fylgja okkur um skógarstíga og fjallasali.

Alls voru 12 kallar skráðir og bókaðir í ferðina. Brottför var ákveðin 1. mars 2015 en sumir bara gátu ekki haldið í sér af spenningi og drifu sig daginn áður. Aðrir voru mættir í Leifsstöð tímanlega fyrir flugið út til Denver. Þangað var komið tveimur til þremur bíómyndum síðar og þrír bílaleigubílar biðu okkar á flugvellinum. Ákveðið hafði verið að skipta leggnum til Jackson í tvennt. Gisting hafði verið bókuð í bænum Laramie, sem seint verður reyndar talinn til merkustu bæjarfélaga í USA og þótt víðar væri leitað.

Slæmt að missa menn

Satðgóður morgunmatur í Laramie

Staðgóður morgunmatur í Laramie

Fljótlega eftir brottför af flugvellinum misstum við tengslin við bílinn með Árskógsstrendingunum þremur, þar sem GPS-inn þeirra var ekki alveg að gera sig. Fyrir „all nokkra“ tilviljun náði hópurinn samt að sameinast nokkru síðar á pizzastað á leiðinni. Til Laramie var komið um 3 tímum eftir brottför af flugvellinum í Denver og ekki laust við að þreyta væri komin í mannskapinn. Þá var líka orðið langt liðið á nóttina á Íslandi og allir enn stilltir inn á íslenska tímann.

Fararstjóri á náttfötunum

Ákveðið var að leggja tímanlega af stað og morgunmatur ákveðin um 7 leytið. Íslenski tíminn reyndist hins vegar enn sitja í mannskapnum og flestir byrjaðir að velta sér í rúmunum upp úr kl. 2 um nóttina. Undantekning var fararstjórinn en óstaðfestar fregnir herma að þurft hafi að bera hann í náttfötunum út í bíl.

Trukkaleiðin

usa14Eftir staðgóðan morgunverð að amerískum sið hófst aksturinn langi til Jackson. Skítaveður var á leiðinni lengi framan af og fátt til að gleðja augað. Trukkaumferðin virtist  endalaus og stikkprufur leiddu í ljós að við mættum u.þ.b. 20 stykkjum á hverjum 5 mínútum. Um 3 tíma tekur að aka legginn frá Laramie til Rock Springs, þar sem beygt er norður í fjöllin til Jackson, og er lesendum látið eftir að reikna trukkafjöldann á leiðinni.

Heimtur í Jackson

Síðasti spölurinn til Jackson var skemmtilegur og þegar þangað var komið var byrjað á að heimsækja leiguna Jackson Hole Adventure Rentals þar sem við áttum pantaða  sleða, 6 stk. 800 Pro RMK og 6 stk. 800 Summit XM. Þar varð reyndar smá ströggl, sem leystist þó allt á endanum. Tekin var snögg ferð upp í Togwotee en í sleðabúðinni þar áttu flestir í hópnum slatta af dóti sem búið var að panta fyrirfram. Um kvöldið heimti hópurinn þá tvo óþolinmóðu sem lagt höfðu af stað degi á undan og um kvöldið var farið svert út að borða á „Kúrekabarnum“ í miðbænum. Gaman var að sjá skíðabekkuna svaðalegu beint upp frá bænum þar sem hin árlega brekkuklifurkeppni Jackson Hole World Championship Snowmobile Hill Climb er haldin. Hún fer einmitt fram í 40. sinn síðar í mánuðinum.

Íslensk stórhríð – næstum því

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

„Ef þið væruð heima myndi ykkur ekki detta í hug að fara á sleða í þessu veðri,“ var úrskurður formannsins þegar mætt var í morgunmat daginn eftir. Og víst var að það moksnjóaði og gekk satt best að segja á með nokkuð snörpum vindhviðum. En menn töldu sig hafa séð það svartara og helspenntir lögðu þeir af stað með sleðana í eftirdragi upp í Togwotee. Þar tók leiðsögumaðurinn okkar, Brent, á móti okkur. Sá reyndist enginn nýgræðingur í faginu og var fljótur að finna góð leiksvæði. Þennan fyrsta dag gekk á með dimmum éljum en birti fallega upp á milli. Talsvert hafði snjóað og því nægur púðursnjór til að leika sér í – og festa sig. Karlarnir voru því alsælir þegar haldið var heim á leið seinnipartinn, eða a.m.k. þeir sem ekki höfðu dælt díselolíu á sleðana sína og/eða urðu ekki bensínlausir á hraðbrautinni niður til Jackson 😉

Afmælisdrengurinn heiðraður

Frekar var nú svalt að rölta í morgunmatinn yfir til hennar “Bubbu” morguninn eftir. En menn báru sig engu að síður mannalega. Afmælissöngurinn var sunginn fyrir Smára, afmælisbarn dagsins, og í “kaupfélaginu” var fjárfest í dýrindis afmælisblöðru. Síðan var stefnan tekin upp til Togwotee þar sem Brent tók aftur á móti okkur.

Um fjöll og dali

Djúpt á Ingólfi.

Djúpt á Ingólfi.

Prógrammið var með líkum hætti og daginn áður. Segja má að stígakerfið sé þrennskonar. Í fyrsta lagi leiðir sem troðnar eru og sléttaðar daglega. Þær liggja eftir skógarvegum sem bera bílaumferð á sumrin og eftir þeim var hægt vera vera snöggur á milli staða. Þessar leiðir eru hundruðir kílómetra og gjaldið fyrir að sjá um þær er innifalið í sleðaleigunni. Í öðru lagi eru skógarstígar sem ekki eru troðnir eða sléttaðir og voru satt best að segja afar ósléttir og leiðinlegir yfirferðar. Loks eru þröngar leiðir sem hlykkjast inn á milli trjánna, mest spilaðar af fingrum fram og víðast þarf að fara fetið. En á milli voru síðan rjóður og skógarsvæði þar sem hægt var að leika sér í púðrinu, alveg þar til hver fermeter var fullnýttur. Þá var farið á næsta svæði.

Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og 10 sólir á lofti. Í lok fjórða dags var svo sleðunum skilað aftur á leiguna í Jackson. Tjón sem leigan gerði mál út af voru í algeru lágmarki, eitt forðabúr fyrir bremsu og einn stuðari, sem reyndar var varla hægt að sjá nokkuð á.

Hvað er málið með þessa Polarisa?

Lagt faglega.

Lagt faglega.

Morguninn eftir var stefnan tekin áleiðis til Denver, þar sem flestir áttu bókað flug heim daginn eftir. Ferðin sóttist vel, þótt smá vonbrigði hafi verið að rétt var búið að loka Polarisbúðinni í Rock Springs þegar rennt var í hlað. Reyndar skildu Ski-doo og Yamaha eigendur í ferðinni ekki alveg þessa stöðugu ásókn í að kaupa eitthvað dót í Polaris. Töldu sína sleða fullsmíðaða og ekki þörf á að fjárfesta í sérstökum stimplasettum, hjáveitubúnaði eða öðrum þeim varahlutum sem rötuðu í töskur ferðafélaga þeirra.

Hvar er mollið?

Síðasta morguninn var stefnan að skanna eins og eitt moll áður en mæta þyrfti á flugvöllinn. Ófaglærðir kynnu að halda að lítið mál væri að finna moll í Ameríku en annað kom á daginn. Upphófst nú æsileg leit sem barst víða um Denver-svæðið. Loks fengum við að því er virtist traustar upplýsingar sem stimplaðar voru inn í GPS-tækið á einum bílnum. Þegar á staðinn var komið blasti við ein ræfilsleg fatabúð. Nánari eftirgrenslan leiddi í ljós að mollið hafði verið rifið fyrir mörgum árum. En þarna fengum við þó leiðbeiningar á enn einn staðinn og fannst slatti af fínum búðum. Flestir smelltu sér á nokkrar Levi’s gallabuxur, þ.e. allir nema Ingólfur. Hann fékk sér DIESEL.

Heima á ný

Flugið heim var álíka spennandi og aðrar flugferðir og allir fegnir að lenda í Keflavík að morgni mánudags. Þá áttu flestir í hópnum reyndar eftir að koma sér norður yfir heiðar og þegar þangað kom voru um tveir sólarhringar liðnir frá því að lagt var upp frá Jackson. Að baki var ógleymanleg ferð með góðum félögum.

Nokkrar fleiri myndir frá ferðinni

Keflavík og Látur í janúar

Keflavík og Látur í janúar

Eflaust hefðu ábúendum í Keflavík og á Látrum þótt þægindi af því að ráða yfir vélsleðum á árum áður, enda með afskekktustu byggðu bólum. Reyndar er ekki algengt að sleðamenn sæki þessa staði heim um miðjan janúar en Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs tóku samt fína ferð þangað um liðna helgi. Farin var hefðbundin leið frá Grenivík um Trölladal, Þverdal, Bakkadal og um Syðriskálina ofaní Keflavíkurdalsbotn. Þaðan um Uxaskarð og Fossdal í Látur á Látraströnd.

Ýmsar sögur eru til um búskap í Keflavík og þau harðindi sem ábúendur þar máttu þola og þekktust án efa sagan af hinni 11 ára Margréti sem á 18. öld hírðist þar ein vikum saman eftir að annað heimilisfólk var látið (sjá einnig hér). Á Látrum voru hins vegar mikil umsvif á köflum, þótt staðurinn sé afskekktur í dag.

Meðfylgjandi myndir tóku Smári og Sigurgeir í ferðinni á laugardaginn og Smári græjaði einnig stutt vídeó.

Fjölsótt boð hjá Cobolt

Sleðamenn fjölmenntu á opið hús hjá Cobolt á Akureyri síðastliðið föstudagskvöld. Gauti Möller og félagar hafa líka mörgum sleðamanninnum þjónað í gegnum árin, bæði með viðgerðir og sölu á hinu ýmsasta sleðadóti og viðskiptavinahópurinn því stór. M.a. var hægt að berja augum nokkra glænýja sleða af ýmsum tegundum, s.s. Polaris Axys Switchback, Ski-doo í T3-útfærslu og túrbínuvæddan Yamaha Viper. Án efa hafa verið rifjaðar upp fjölmargar sögur, bæði gamlar og nýjar og ekki annað að sjá en menn skemmtu sér konunglega. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvöldinu.

Breytt áætlun

Breytt áætlun

Þegar breyta þarf út frá áður ákveðnum áætlunum, kemur sér vel að þvermóðska mun fyrst og fremst vera eitthvað sem tekur að hrjá fólk þegar það eldist. Þannig vafðist ekki fyrir flokknum að breyta ferðaplönum þegar í ljós kom að veðrið var ekki alveg með okkur í liði í dag.

Laugafell, eða hvað?

Áætlun dagsins hljóðaði upp á léttan hálendisrenning, kíkja í Laugafell og jafnvel eitthvað meira. Einhverjir sögðust meira að segja hafa frétt af eldgosi austur á landi sem gaman væri að kíkja á en þangað er víst alveg bannað að fara nema í lögreglufylgd þannig að ekki kom það til greina.

Þeir fyrstu voru vaknaðir og búnir að smyrja nestið fljótlega upp úr kl. 7 en þegar tók að birta af degi kom í ljós að útsýnið inn á hálendi var ekki svo kræsilegt. Skítasunnanþræsingur og snjóstrókurinn stóð fleiri hundruð metra til norðurs af öllum fjöllum. Þótt vissulega væri freistandi að lofa gömlum þráa að taka sig upp og bogna hvergi, var samt ljóst að ferðaveðrið inn til landsins væri lítið spennandi. Því varð úr að kíkja austur fyrir Vaðlaheiði og láta ráðast hvað yrði úr deginum.

Ljúft í Fnjóskadalnum

Ofsagt væri að halda því fram að veður og færi upp á Vaðlaheiði hefði lofað góðu en þegar kom niður í Fnjóskadal var allt mun skaplegra. Yfir Fnjóská var farið á brúnni til móts við Systragil og stefnan tekin á Lundsskóg. Þar er bakarinn, sem var með í för, stoltur sumarhúsaeigandi. Hann hafði hins vegar ekki verið viðbúinn breyttum ferðaplönum, engill lykill með í för, og því verður ferð í heita pottinn að bíða betri tíma.

Skógarstígar þræddir

Greiðlega gekk að þræða skógarstíga og veginn suður í gegnum Lundsskóg og Þórðarstaðaskóg, með smá útúrdúrum. Fyrri samlokan var tekin fyrir sunnan Þórðarstaði og síðan farið að huga að heimferð. Smá upplausn kom í flokkinn á tímabili þegar hluti hans reyndi að fela sig bakvið fjárhúsin á Þórðarstöðum, í óljósum tilgangi. Komið var við hjá gömlum félaga, Billa bakara, sem leyfði sér að vera ekki á svæðinu. Til baka var ekið vestan Fnjóskár og sama leið vestur yfir heiði. Þannig má með sanni segja að vel hafi ræst úr deginum og voru menn á einu máli um að þetta hefði verið hin besta æfing.

Heyrst hefur…

  • …að sparifötin hans Sigurgeirs séu að verða verulega slitin
  • …að formaðurinn hafi engu gleymt
  • …að díselolía henti vel á 800 Polaris
  • …að mikið nesti hafi komið heim óétið
  • …að flokkurinn verði bara meðfærilegri með hverju árinu sem líður
Glerárdalur á öðrum degi jóla

Glerárdalur á öðrum degi jóla

Birtustundir á þessum árstíma eru hvorki langar né margar og því nauðsynlegt að grípa þá glugga sem gefast. Eftir snjókomu liðina vikna þarf ekki að fara langt til að komast á sleða og Glerárdalurinn lofaði góðu þegar birta tók af degi.

Skörð í flokknum

Fimm karlar mættir helspenntir upp við hitaveituskúr um það bil sem ratljóst var orðið. Fremstur í flokki var auðvitað Ingólfur bakari á glænýrri kanadískri græju sem beinlínis lýsti af í skammdegishúminu. Aðrir urðu að láta sér gömlu tuggurnar duga. Varla var þó hægt að telja flokkinn fullskipaðann þar sem nokkra fastameðlimi vantaði. Afsakanir voru mis góðar, einn vantaði t.d. starfhæf lungu en annar var á leiðinni í bíltúr. Þanning var nú það.

Hafði öllu gleymt – eða hvað…?

Smári þóttist hafa öllu gleymt frá fyrra vetri, sagist mundi keyra bæði hægt og varlega, en gamlir taktir virtust þó rifjast upp furðu fljótt. Gunni Garðars sigldi lygnan sjó á sínum túrbóvædda Nytro en sá reyndar félögunum fyrir smá líkamsrækt inn á milli. Unglingurinn lét ekki sitt eftir liggja þótt bæði beltistommur og vélarkúbik væru undir meðaltali ferðarinnar. Vildi meina að þetta ylti hvort sem er mest á karlinum sem héldi um stýrið og gjöfina.

Lofar bara góðu

Snjóalög voru nokkuð misjöfn, eins og við var að búast eftir hvassviðrin sem hafa geysað. Heilt yfir lofa þó dalurinn og nærsveitir bara góðu. Farið var upp Lambárdal og yfir öxlina niður Lamba, með viðkomu í ýmsum brekkum og giljum. Neðri leiðin til baka niður á Súlumýrar og góður dagur að baki.

Best og flottast í sleðaheiminum

Sýningin Vetrarlíf var haldin um liðna helgi í Garðabæ og þótti takast með ágætum. Góð aðsókn var á laugardeginum en óveður á sunnudeginum hefur að líkindum eitthvað dregið úr umferð. Samkvæmt venju voru sleðaumboðin og tengd fyrirtæki í forgrunni og sýndu öll það nýjasta og flottasta sem í boði er. Ekki veit ég hvort valdir voru áhugaverðustu sleðarnir og flottustu básarnir, eins og jafnan þegar sýningin hefur verið á Akureyri, en ég tek það þá bara að mér hér og nú.

Áhugaverðasti nýi sleðinn

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Ég held að fáir geti andmælt því að nýja Axys-línan frá Polaris er helsta nýjungin í ár, enda vel við hæfi á 60 ára afmæli tegundarinnar. Hér er komið algerlega nýtt boddý með nýrri 800 vél og nýrri afturfjöðrun. Aksturseiginleikarnir eiga að vera í sérflokki og nýja 800 vélin umtalsvert snarpari en forverinn. Sleðinn er boðinn með tveimur beltislengdum, hefðbundinn stuttur sem 120“ og 137“ Switchback. Þótt afturfjöðrunin líti svipað út og Pro-ride fjöðrunin sem hún leysir af hólmi þá er hönnunin engu að síður ný. Meðal nýrra fídusa í vélinni eru þriggja þrepa rafstýrðir pústventlar, rafdrifin olíudæla sem m.a. þýðir að inngjöfin er umtalsvert léttari, sveifarásinn hefur verið léttur o.fl. Útlitið er skemmtilegt með LED-framljósi og flottu mælaborði. Virkilega spennandi græja sem fróðlegt verður að sjá hvernig reynist og þá einnig hvort fjallasleðarnir fá eitthvað af þessu nýja góðgæti 2016.

Annar verðugur kandídat er nýi Viper sleðinn frá Yamaha. Samstarf Arctic Cat og Yamaha virðist hafa skilað góðum árangri og hefur sleðinn hlotið fyrirtaks dóma. Reyndar þurfti að innkalla sleðana og gera endurbætur vegna bensínleka, en úr því er væntanlega búið að bæta. Ég fékk kost á að reynsluaka frumgerð af sleðanumn síðastliðið vor og get vitnað um að hann lofaði virkilega góðu og er klárlega lang meðfærilegasti 4-gengis sleði sem í boði er. Þá skemmir ekki fyrir að hann er á frábæru verði hérlendis –eða svona að svo miklu leyti sem hægt er að taka um að nýir vélsleðar hérlendis séu á frábæru verði – hmm.

Verklegasti sleðinn

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Hér er e.t.v. meiri samkeppni um titilinn en ég held þó að hann falli í skaut Ski-doo með nýju T-3 útfærsluna. Hér er kominn svaðalegasti fjöldaframleiddi sleði sem í boði er, með 174x16x3“ belti. Einnig er Ski-doo að kynna breytingar á framfjöðrun í ár sem skila á betri aksturseiginleikum.

Þegar rætt er um verklega sleða verður að minnast á 900 Pro-Lite sleðana frá Black Dimond, sem Motul flytur inn. En þeir verða þó líklega frekar að flokkast sem sérsmíði, þótt vissulega séu þeir framleiddir í talsverðu magni. En auðvitað er svo sérsmíðaði spyrnusleði þeirra Hafnarfeðga, sem var í Yamaha-básnum, einn í flokki.

Flottasti básinn

Motul-básinn var virkilega  flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Motul-básinn var virkilega flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Af stærri sýnendum þótti mér bás Motul-manna frá Akureyri algerlega ber af. Virkilega flott upp settur og höfðu norðanmenn ekki talið eftir sér að koma með nánast hálfa búðina með sér. Mikið vöruúrval þeirra lyfti sýningunni upp. Vel gert!

Af sýnendum með minni bása var Garmin búðin eins og jafnan með fínan bás og þá var básinn hjá Landsbjörg einnig mjög smekklegur og vel fram settur með hliðsjón af þeim skilaboðum sem félagið er að koma á framfæri.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Aðrar merkar nýjungar

Ég hef í þessum pistli lítið minnst á Arctic Cat og Lynx, sem merkir þó engan veginn að þeir séu ekki með áhugaverða sleða í ár. Þvert á móti. Mér skilst t.d. að Arctic Cat sé að bjóða 73 módel í ár þannig að sannarlega ættu allir að geta fundið sleða við hæfi. Maður heyrir líka bara góðar sögur af þjónustu umboðsins, sem hefur sitt að segja. Væri ég síðan sjálfur að velja mér nýjan sleða hygg ég að ofarlega, ef ekki efst, á óskalistanum væri Boondocker frá Lynx. Svaðalega flottur og líklega meiri alhliða sleði en flestir keppinautarnir í púðursleða-flokknum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sýningunni.

Vetrarlíf í Garðabæ um helgina

vetrarlif14Sem kunnugt er var ákveðið að halda sýningu og árshátíð til skiptis sunnan og norðan heiða, þ.e. annað árið fyrir sunnan og hitt fyrir norðan. Nú er komið að LÍV-Reykjavík að spreyta sig og sýningin Vetrarlíf verður haldin um komandi helgi,  29.-30. nóvember, og árshátíð á laugardagskvöldinu. Sýningin er í Kauptúni í Garðabæ, á móti IKEA. Opið verður kl 10-17:30 á laugardag og 11-17 á sunnudag.

Án efa verður öllu tjaldað til. Sleðaumboðin verða að sjálfsögðu öll á staðnum og einnig fullt af öðrum fyrirtækjum sem tengjast sleðamennsku almennu vetrarsporti.

Nýja Team 23 myndin

Strákarnir í Team 23 eru búnir að setja nýja sleðamyndbandið sitt á netið. Góður rómur var gerður að myndinni þegar hún var frumsýnd á föstudagskvöldið enda mörg flott atriði sem náðst hafa á mynd. Sem sagt fín frumraun og næsta mynd verður enn betri, lofa strákarnir 🙂

Margt um manninn í Motul

Fjölmargir lögðu leið sína í Motul á Akureyri á föstudagskvöldið þar sem var opið hús og ýmislegt til gamans gert. Óstaðfestar fregnir herma að svo vel hafi nýju FXR-gallarnir selst um kvöldið að Birkir og félagar hafi þurft að hringja í ofboði út og panta meira til að eiga örugglega nóg fyrir jólin 😉

Einn af hápunktum kvöldsins var þegar strákarnir í Team-23 sýndu nýja sleðamynd, þar sem þeir höfðu klippt saman ýmis skemmtileg skot frá liðnum vetri. Fékk myndin góð viðbrögð og að auki var lofað enn betri mynd að ári. Virkilega gaman að sjá hvað unga deildin er að koma sterk inn í sportið, full af áhuga, en búðin bókstaflega fylltist þegar leið að sýningu myndarinnar.

Hér að neðan eru nokkar myndir sem teknar voru í gærkvöld.

Opið hjá Motul á föstudagskvöldið – Nýja sleðamyndin frumsýnd

motulopidSleðafólk norðan heiða ætti að gera sér ferð í verslun Motul á Akureyri á föstudagskvöldið. Frá kl. 18 verður kynning á nýjustu sleðafötunum frá FXR og Tobe, enda ekki seinna vænna að fara að galla sig upp fyrir veturinn.

Kl. 20 er svo komið að frumsýningu á nýrri íslenskri sleðamynd sem strákarnir í Team 23 genginu hafa snarað saman og hefur að geyma myndbrot frá afrekum þeirra síðasta vetur. Virkilega flott framtak hjá þessum áhugasömu köppum.

Nú ef að líkum lætur má einnig berja augum hjá þeim Motul mönnum eitthvað af splunkunýjum Arctic Cat sleðum og jafnvel kynna sér Pro-Lite ofurgræjurnar frá Black Diamond, sem Motul er með umboð fyrir.

Sleðast með Chris Brown

Undanfarna vetur hefur færst í vöxt að sleðamenn bregði sér bæjarleið í Ameríkuhrepp til að takast á við púðrið góða og æfa sig í smá skógarferðum. Flestir hafa lagt leið sína til norðvestur fjallaríkjanna: Wyoming, Idaho og Colorado, en þar upp í fjöllunum eru mörg frábær sleðasvæði. Wyoming hefur verið vinsæll áfangastaður margra enda t.d. svæðið suðvestan Yellowstone þjóðgarðsins sannkallað ævintýraland. Hópar héðan hafa einnig farið til goðsagnarinnar Bret Rasmussen sem gerir út frá Idaho og einhverjir heimsótt annan ekki minna frægan í Colorado, Chris Burant.

Þeir sem mættu á síðasta félagsfund EY-LÍV fengu skemmtilega sögu og sáu myndband frá ferð fjögurra sleðajaxla frá Akureyri til Whiser í Kanada. Það sem gerir svæðið ekki síst áhugavert fyrir Íslendinga auðvelt aðgengi með beinu flugi Icelandair til Vancouver og oft er hægt að sleðast í frábærum snjó í minni hæð en suður í fjallaríkjum Bandaríkjanna. Hins vegar er úrkomusamara svona nálægt Kyrrahafinu og því e.t.v. meira happdrætti að hitta á bjarta daga.

Þeir félgagar, Örn Traustason, Stefán Traustason, Steindór Jónsson og Arnar Þór Sigursteinsson, heimsóttu í Whisler enn eina sleðagoðsögnina, Chris Brown. Með honum sleðuðust kapparnir í tvo daga í vægast sagt svakalegu púðri. Má segja að sjón sé sögu ríkari 🙂 Fyrst koma nokkrar myndir og þá vídeó.

Ski-doo og Lynx frumsýnir norðan heiða

skidoo_15Ellingsen frumsýnir 2015 árgerðina af Ski-doo og Lynx í verslun sinni á Akureyri næstkomandi föstudag, 14. nóvember kl. 16-20. Sleðafólk er að sjálfsögðu hvatt til að fjölmenna og eiga saman skemmtilega stund. Stærstu tíðindin hjá Ski-doo þetta árið er að sjálfsögðu nýi T3-pakkinn fyrir Summit þar sem í boði er svakalegasta belti sem sést hefur til þessa, 174×16 tommur með 3 tommu spyrnum. Já við erum að tala um belti sem er nærri fjórir og hálfur metri á lengd! Einnig mun vera komin endurbætt framfjöðrun og eitthvað meira sem gaman verður að fræðast um. Nú Lynx er einnig allrar athygli verður og hefur komið vel út hérlendis. Þar m.a. t.d. nefna BoonDocker 800 fjallasleðann og í vinnusleðum slá fáir Lynx við. Spennandi dagur framundan hjá sleðafólki norðan heiða á föstudaginn.

Nýjar gamlar sögur enn að bætast við

Djúpt á RMK.

Djúpt á RMK.

Enn eru að bætast við ferðasögur og myndir og myndir af gömlu síðunni, eftir því sem tekst að grafa upp meira af botni glatkistunnar 😉 Síðustu daga hafa t.d. bæst við ferðasögur með myndum frá Smára Sig., mest frá árinu 2007, sem sannarlega er þess virði að rifja upp. Hér má t.d. benda á skemmtilega sögu frá síðustu dögum maí 2007 þar sem botlaust púður var í Kverkfjöllum. Í byrjun mánaðarins fóru Smári og félagar hins vegar í baráttuferð 1. maí, eins og lög gera ráð fyrir. Mikil hitabylgja hafði gengið yfir landið skömmu áður, sem fékk nafnið hitavelluhelgin mikla, en þá var rennt m.a. í Laugafell. Seint í mars náðist góður púðurdagur á Glerárdal og í Gæsavötn var farið í byrjun mánaðarins.

Hér hefur bara fátt eitt verið nefnt af gömlu efni sem gaman getur verið að skoða en í efnisflokkunum hér hægra megin á síðunni er efnið m.a. flokkað niður eftir árum.

EY-LÍV niðurgreiðir árshátíðamiða

livlogoDagana 28.-29. nóvember verður sýning í umsjón LÍV-Reykjavík og árshátíð á laugardagskvöldinu. Ákveðið hefur verið að halda þessa viðburði til skiptis sunnan og norðan heiða, þ.e. annað árið fyrir sunnan og hitt fyrir norðan.

Sýningin verður í húsi rétt við IKEA en árshátíðin í Turninum við Smáralind. EY-LÍV niðurgreiðir miðann á árshátíðina fyrir félagsmenn og kostar hann 5000 kr. Til að verða sér út um miða þarfa að:

1. Fyrst að skrá sig á hátíðina á eyliv.postur@gmail.com og gefa þar upp bæði nafn og kt. (aðeins fyrir EY-LÍV meðlimi)
2. Síðan millifæra kr. 5000 á reikning EY-LÍV: 565-26-20115 og kt:500196-3789
3. Hægt er svo að nálgast miðann hjá Tryggva sími 896-0114 gegn framvísun greiðslu.

Hótel Smári í Kópavogi, sem er við hliðina á Turninum, er með afsláttarkjör á gistingu eða kr. 11.900 nóttin fyrir herbergi. Bent skal á að ekki er ótakmörkuð gisting svo best er að bóka sem fyrst.

Sleðaferð í fjörður 18. febrúar 2014

Líklega er best að byrja aðlögun að því að setja inn nýtt efni með stuttu vídeói frá skemmtilegri ferð í Fjörður á afmælisdaginn minn fyrr á þessu ári. Eftir marga vikna dimmviðri birti loks til og menn stukku af stað til að nota allan snjóinn sem var kominn. Farin var hefðbundin leið  upp Grenivíkurfjallið, um Grenjárdal, Trölladal og Þverdal, þaðan sem farið er yfir haftið yfir í Þverárdal/Kussungsstaðadal. Ágætur snjór var niður Bakkadal og Hólsdal en úr honum var farið um Ytri-Skálina upp á brún Blæjudals. Ekkert var því til fyrristöðu að skella sér niður í Blæjudalinn og upp á Hnjáfjallið þar sem horft er yfir Keflavíkina. Ekki var þó farið niður í hann að þessu sinni heldur sama leið til baka með slaufu um Afvikið. Allt með hefðbundnum hætti sem sé en færi veður og félagsskapur með því besta sem gerist.

Ægifagurt á sumardaginn fyrsta

Sumardaginn fyrsta fóru Alfreð Schiöth  og Hinrik úr Öxnadalnum og um Hraunsvatn suður Vatnsdal og yfir á Hörgárdalsheiði, Hjaltadalsheiði og vestur á Kleifar. Síðan til baka og norður um Jökulfjall yfir á Barkárjökul og Tungnahryggsjökul með nokkrum hliðarsporum. Akradalur, Hjaltadalur og Kolbeinsdalur voru rýrir og bíða betri tíma. Bjart og fallegt veður, ægifagurt og mikil fjallasýn, kveðja, Alfreð.

 

Tröllaskagi á páskadag

Á Páskadag fóru Alfreð, Þórir, Tjörvi og Teitur Schiöth úr Ólafsfirði yfir í Héðinsfjörð. Áfram í Siglufjörð og yfir Kálfaskarð og í Nesdal og út að Reyðará við Siglunes. Veður og færi ágætt, gaman að berja gagnamunnann í Héðinsfirði augum og spjalla við aðra vélsleðamenn á slóðinni. Magnað að skoða Nesdalinn og Siglunes og ekki ónýtt að horfa inn í Hvanndalabjörgin af hlaðinu á Reyðará og yfir í Gjögur. Kveðja, Alfreð.

Með Skagfirðingum á föstudaginn langa

Þeir feðgar Steindór og Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs eyddu föstudeginum langa í ríki Skagfirðiga og sendi Steindór eftirfarandi ferðasögu: Við feðgar skuppum vestur í Skagafjörð á föstudaginn langa. Var skyggnið slæmt þegar lagt var af stað en þökk sé þrjóskunni að haldið var óhikað áfram. Var ákveðið að þar sem lagt hafði verið af stað skyldi allavega vera borðuð pylsa á Sauðárkróki. Sem betur fer því þegar komið var í bæinn iðaði allt af fólki og ekki leið á löngu þar til við vorum stoppaðir, boðnir velkomnir og spurðir frétta. Eftir pylsuátið var farið að rofa til og því ákveðið samkvæmt ráðleggingum þeirra sem til þekktu að drífa sig upp í Trölla. Þegar komið var þangað hittum við fyrir heila hjálparsveit sem var í æfingarferð fyrir komandi helgi. Þótti nú heldur betur ráðlegt að slást í för með þeim þar sem öryggið hlaut þá að vera í fyrirrúmi.  Var þetta hinn skemmtilegasti hópur sem lóðsaði okkur um allt svæðið með miklum sóma. Eru algjör forréttindi að finna fyrir svona fólk og einn af þeim þáttum sem gerir þetta sport svona skemmtilegt. Allir hafa yfir að ráða heimasvæðum þar sem er að finna ótrúlegar náttúruperlur sem ókunnugir hefðu annars þotið fram hjá. Vissulega var gamla kassamyndavélin með í för og smelltum við af nokkrum myndum því til staðfestingar. Þökkum við kærlega fyrir okkur og sjáumst á næstu bensínstöð.

Kaldbakur og Fjörður á páskadag

Halldór Jóns og Sigrún brugðu sér á Kaldbak og í Fjörður á Páskadag og sendi Halldór eftirfarandi: “Sól og blíða heilsaði útivistarfólki á páskadag. Stefnan var tekin út á Grenivík og ákveðið að njóta útsýnisins á Kaldbak og halda síðan út í Fjörður. Tekið var af á neðsta bílaplaninu. Nógur snjór var alls staðar og færi skemmtilegt. Mikill fjöldi lagði leið sína á Kaldbak og nutu allir veðurblíðunnar og frábærs útsýnis til allra átta. Síðan var haldið í Þorgeirsfjörð og stoppað á Þönglabakka og nestinu gerð góð skil. Á leiðinni yfir í Hvalvatnsfjörð var frábært útsýni til allra átta; m.a. Grímseyjar, Flateyjar á Skjálfanda og yfir á Tjörnes. Til baka var farið suður Hvalvatnsfjörðinn og endað á bílaplaninu ofan Grenivíkur eftir vel heppnaðan dag.”

Skilar Nytro Yamaha á toppinn?

nytro

Síðuhöfundur bara nokkuð sáttur 🙂

Yamaha Nytro er óumdeilanlega einn áhugaverðasti nýi sleðinn sem fram kom með 2008 árgerðinni. Ljóst er að Yamaha lagði mikið á sig þannig að vel mætti takast til og miklar væntingar voru strax bundnar við gripinn. Söluaðili Yamaha á Norðurlandi, Brúin-Haftækni, bauð Sleðasíðunni á dögunum tvo Nytro sleða til reynsluaksturs, stuttan sleða í 40 ára afmælisútgáfunni og langan MTX a 153” belti. Hér kemur niðurstaðan.

Ég hafði áður lýst því yfir hér á síðunni að Nytro væri draumasleðinn minn á þessari vertíð og því ljóst að ég hafði þannig miklar væntingar til gripsins áður en ég hafði svo mikið sem sest upp á hann. En stendur hann undir væntingum? Við skulum sjá til.

Vélin

Vélin í Nytro er 3 strokka fjórgengis, 1050 cc og gefin upp 130 hestöfl. Ólíkt því sem oft er með uppgefnar hestaflatölur þá hafa próf óháðra aðila sýnt að hún skilar sennilega nær 140 hestöflum. Enda virkar hún mjög spræk. Það er sama hvort þú ert að taka af stað úr kyrrstöðu eða vilt bæta við hraðann, sleðinn svarar samstundis. Í fáum orðum sagt þá er þetta einfaldlega frábærlega skemmtileg vél og hentar sleðanum vel. “Barely Legal” eða “Fast and Furious” eru orðasambönd sem notuð hafa verið til að lýsa kraftinum og viðbragðinu í Nytro og má segja að það sé nærri lagi.

Vel heppnað byggingarlag

Byggingarlag Nytro er það sem á ensku kallast “rider forward”. Ski-doo kynnti þessa hugmyndafræði með REV og allir sem fylgjast með í sleðaheiminum vita hver afleiðingin var. Ski-doo hefur trónað á toppnum sem mest selda tegundin síðustu ár. “Rider forward” merkir að áseta ökumanns er færð framar og sætið hækkað. Mér líkaði vel við mig “um borð” í Nytro. Sætið er vel lagað og hæfilega mjúkt, stigbrettin breið og góð og það fer vel um mann hvort heldur er standandi eða sitjandi. En byggingarlagið gerir það líka að verkum að þú hefur ekkert skjól af vélarhlífinni eða rúðunni, sem er reyndar nánast engin. Hlífar yfir handföngum koma vissulega að gagni til að skýla höndunum en ég ráðlegg mönnum samt að klæða sig vel á þessum sleða. Sérstaklega næðir um neðri hluta líkamans þannig að góðar buxur eru skilyrði. Afstaðan á milli sætisins og stýrisins er mjög vel heppnuð og auðvelt að standa upp og setjast til skiptis, eftir þörfum. Þetta er atriði sem mér finnst skipta verulega máli við meðhöndlun sleða, ekki síst ef aðstæður eru þannig að maður þarf að leggja sig fram við aksturinn eins og í giljum og brekkum. Þarna hefur Yamaha hitt á góða uppsetningu.

Hvað útlitið varðar skiptast menn nokkuð í tvo hópa, enda um hreint smekksatriði að ræða. Mér finnst Nytro einn sá flottasti á markaðinum.

Fjöðrun

Mér hefur stundum fundist skorta á fjöðrunina hjá Yamaha en ljóst er að nú hafa þeir tekið sig verulega á. “Mono shock” búkkinn sem kynntur var í stuttum Apex fyrir nokkru sló þegar í gegn en í Nytro er notast við aðra útfærslu, “Dual Shock” með tveimur dempurum. Þessi fjöðrun virðist henta sleðanum einkar vel. Að framan en þriðja kynslóð A-arma fjöðrunarinnar frá Yamaha. Saman vinna þær mjög vel og ég verð að segja að fjöðrunin er sá þáttur sem kom mér mest á óvart. Færið upp á Vaðlaheiði þar sem prófunin fór fram var mjög gróft á köflum en það virtist hreinlega ekki hægt að misbjóða sleðanum. Eftir því sem hraðar var ekið og ójöfnurnar meiri, þeim mun betur fór sleðinn með mann. Sérstaklega kom stutti sleðinn mér hér á óvart þar sem ég hef almennt séð verðir hrifnari af lengri sleðum. En sá langi er einnig góður. Fjöðrun þeirra er reyndar ólík. Stutti sleðinn er t.d. með stillanlega Fox-loftdempara að framan á meðan sá lengri er með hefðbundna olíudempara og gorma. Þá er minna skíðabil á lengri sleðanum.

Aksturseiginleikar

Smári tekur Nytro til kostanna.

Smári tekur Nytro til kostanna.

Um aksturseiginleikana almennt má annars segja að mér fundust báðir sleðarnir koma vel út. Þeir eru ólíkir en báðir góðir, hvor á sínu sviði, enda ætlað ólíkt hlutverk. Sá styttri fjaðrar betur og stýrir betur á meðan sá langi hefur algera yfirburði í brekkum og lausasnjó, eins og gefur að skilja. Þar munar um beltið, 121” langt með 1,25” tommu spyrnum á þeim stutta á meðan sá langi er 153”x2,25”. Báðir sækja í að lyfta innra skíðinu í beygjum þannig að maður þarf aðeins að hafa varan á sér. En MTX útfærslan er fyrsti langi sleðann sem mér hefur fundist nánast eins og stuttur sportsleði í akstri. Hann virkar ótrúlega lipur og kvikur í öllum hreyfingum. Um báða sleðana má segja að þeir eru feykilega skemmtilegir aksturssleðar með sportlega eiginlega sem beinlínis kalla á að láta taka duglega á. Þetta er ekki sleði “sem keyrir sig sjálfur” í jákvæðri merkingu. Hann lofar þér alveg að hafa aðeins fyrir hlutunum en þó fyrst og fremst að hafa gaman af akstrinum. Uppgefin þyngd á styttri sleðanum er 225 kg en 237 á þeim lengri. Fjórgengisvél er í eðli sínu þyngri en tvígengis – fram hjá því verður ekki komist. Þetta er atriði sem sumir virðast líta á sem frágangssök í ljósi þess að þróunin hefur almennt verið í þá átt að létta sleða sem allra mest. Hins vegar virkar sleðinn mjög meðfærilegur í allri meðhöndlun þannig að í almennri notkun virðast aukakílóin ekki koma að sök.

Það sem má betur fara

En er þetta þá bara tóm hamingja? Auðvitað er það jafnan svo að hægt er að finna eitthvað sem má betur fara. Þótt mér finnist Nytroinn flottur þá verður að segjast að það er galli hvað ökumaðurinn er óvarinn. Það blæs ansi hressilega um þig á akstri. Fyrir mig, sem vil geta notað sleðann til lengri ferðalaga, þá þarf gera einhverjar úrbætur. Það er ekki pláss fyrir eina samloku í farangur, hvað þá meira. Með pústið beint aftur úr sætinu þá kemurðu ekki fyrir farangri þar nema gera einhverjar breytingar en það er eitthvað sem íslenskir hugvitsmenn, nú eða “Mr. Yamaha” sjálfur, eiga eftir að finna góða lausn á. Ég myndi einnig þiggja stærri bensíntank. Tankurinn tekur 7,4 gallon eða sem næst 28 lítra. Þú átt að geta komist um 15 mílur á galloninu, segja þeir í USA, sem þýðir eyðslu uppá 15,7 lítra á hundrað km. Samkvæmt því kemstu 179 km á tanknum. Flestir sleðar í dag eru með um 40 l bensíntank þannig að tankurinn á Nytro er 30% minni. Jafnvel þótt fjórgengis sé sparneytnari en tvígengis þá er samt hætt við að þú verðir fyrr með tóman tank en félaginn á tvígengissleðanum, a.m.k. ef miðað er við uppgefna eyðslu á nýjustu tvígengisvélum.

Niðurstaða

Stóð Nytroinn undir væntingum? Já, og gott betur. Ég þóttist nokkuð vita hvernig lengri sleðinn myndi virka en sá stutti kom mér á óvart, sérstaklega fjöðrunin. Persónulega myndi ég samt velja þann lengri þar sem hann myndi henta minni sleðamennsku betur. Hann skilar sér mun betur áfram í lausum snjó og brekkum og með breytingum, þannig að hægt sé að koma fyrir farangri, er hann afbragðs ferðasleði, sennilega einn sá besti sem hægt er að fá. Nytro er líkast til best heppnaði fjórgengissleðinn sem fram hefur komið til þessa. Honum er ætlað burðarhlutverk í sleðaframleiðslu Yamaha og hefur þegar á fyrsta ári sýnt að hann er til alls líklegur. Það skyldi þó ekki vera að hann myndi skila Yamaha á topp sölulistans að nýju, líkt og Phazar gerði fyrir um 20 árum síðan?

Púðurferð á Glerárdal

Þá er snjórinn kominn fyrir norðan og þótt ekki hafi viðrað vel til sleðaferða þá voru samt þó nokkrir sem drifu sig í dag. Smári Sig., Sigurgeir og Maggi Arnars. fóru inn á Glerárdal og sendi Smári eftirfarandi: “Mikið óþol var komið í menn eftir alla þessa snjókomu. Orðnir hálfgerðir sófariddarar, bara talað og skoðaðar gamlar myndir. En nú átti að drífa sig. Smurt nesti á laugardag en ekkert skyggni í boði. Á sunnudag átti að fara sama hvernig viðraði. Lagt af stað undir hádegi og keyrt úr skúrnum og inná dal. Nestið yrði ekki tekið upp fyrr en í Lamba. Og auðvitað komumst við þangað enda kaffiþyrstir, en skyggnið var ekkert, hrikalegt púður og oftsinnis mikill mokstur. Það eru því nokkur býsna stór bæli á dalnum sem ekki er gott að fara ofaní. Þetta lofar hins vegar góðu þegar birtir á ný………..”

Landhelgisgæslan fær snjóflóðaleitarbúnað frá Landsbjörg

IMG_9983Í gær hélt Slysavarnarfélagið Landsbjörg (SL) upp á að 80 ár eru liðin frá því að Slysavarnarfélag Íslands var stofnað. Afmælishátíðin var haldin í Listasafni Reykjavíkur að viðstöddu miklu fjölmenni; fyrirmennum og björgunarsveitarfólki víða af landinu! Af þessu tilefni afhenti SL Landhelgisgæslunni búnað til leitar að fólki í snjóflóðum í tvær þyrlur. Þetta er búnaður frá Barryvox af gerðinni VS 2000 Pro Ext. Búnaðurinn er að vísu ekki kominn til landsins ennþá en ráð er fyrir gert að hann verði kominn í tvær þyrlur síðari hluta febrúar. Með þennan búnað eiga viðbragðsaðilar að vera mun fljótari en áður hefur verið að leita að og staðsetja fórnarlömb snjóflóða, sem eru með snjóflóðaýla. Þetta eru afar góðar frettir fyrir sleðamenn en leggur þeim að sjálfsögðu einnig þær skyldur á herðar að fara aldrei á sleða án ýla. Á myndinni eru Smári Sigurðsson, varaformaður Landsbjargar, og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, með gjafabréfið.  Ljósm. Árni Jónsson.

Nánar á vef hjá Landsbjörg

Viðurkenningar á Vetrarsport

Undanfarin hafa verið veittar viðurkenningar fyrir áhugaverða sleða og bása á Vetrarsportsýningunni. Svo er einnig í ár þótt með örlítið breyttu sniði sé. Síðustu ár hefur verið tilkynnt um valið á árshátíðinni á laugardagskvöldið en í ár var ákveðið að lofa sýningunni að líða áður en valið væri gert opinbert.

Varðandi val á sleðum sýningarinnar hefur verið stuðst við þá vinnureglu að horfa eingöngu til óbreyttra sleða eins og þeir koma frá verksmiðjunni, m.ö.o. að velja ekki sleða sem er búið að setja í aukabúnað til að auka afl og þá heldur ekki sleða með aukabúnaði til ferðalaga. Einnig hefur helst verið horft til nýrra módela af sleðum, þ.e. sleða sem eru að koma nýir á markað.

Líkt og undanfarin ár eru viðurkenningarnar þrjár.

vetrarsport07 0841. Athyglisverðasti nýi sleðinn:
Fyrir valinu að þessu sinni varð Ski-doo MX Z. Í rökstuðningi dómnefndar segir að hér sé einn mest seldi sleði síðustu ára kominn nýr frá grunni. Nýtt boddí þar sem eru stigin áður óþekkt skref við hönnun og smíði á vélsleðum með léttleikan er í fyrirrúmi. Þá má benda á að hann var nýlega valinn sleði ársins hjá tveimur af stærstu útgefendum sleðatímarita í Bandaríkjunum, Snow-Goer og American Snowmobiler.
vetrarsport07 0482. Verklegasti sleðinn:
Fyrir valinu að þessu sinni varð hinn nýi Polaris Dragon 800 RMK. Í rökstuðningi fyrir valinu segir að hér sé kominn nýr sleði frá Polaris með nýjum mótor sem miklar vonir séu bundnar við. Sannarlega einn öflugasti fjöldaframleiddi sleðinn á markaðinum og hefur verið að fá mjög góða dóma hjá reynsluökumönnum erlendis.
3. Viðurkenning fyrir vel útfærðan sýningarbás:
vetrarsport07 056Aldrei verið jafn erfitt að gera upp á milli sýnenda og nú enda virðist þeir stöðugt tilbúnir að leggja meira í sýninguna. Niðurstaðan er glæsilegasta Vetrarsportsýning frá upphafi. Dómnefnd komst að lokum að þeirri niðurstöðu að viðurkenningin í ár skyldi koma í hlut K2 Mótorsport / Ellingsen. Bás þeirra var stór og fjölbreyttur, vel upp settur með miklu vöruúrvali.
Til gamans fylgja hér með niðurstöður úr vali síðustu ára.

Í fyrra (nóvember 2006):
M1000 frá Arctic Cat viðurkenningu sem verklegasti sleði sýningarinnar, Yamaha Phazer fékk viðurkenningu sem athyglisverðasti nýi sleðinn og Icehobby fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðan sýningarbás.

Í hittifyrra (nóvember 2005):
Fallegasti ferðasleðinn var valinn Ski-doo GTX 600, verklegasti sleði sýningarinnar var valinn Arctic Cat M7 og Toyota á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás.

Árið þar áður (nóvember 2004):
Fallegasti ferðasleðinn var valinn Yamaha RS Venture, verklegasti sleði sýningarinnar var valinn Polaris RMK 900 166” og viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás fékk Siggi Bald í Motul.

Árið þar áður (nóvember 2003):
Yamaha Venture var valinn fallegasti ferðasleði sýningarinnar, Arctic Cat King Cat 900 var valinn verklegasti sleðinn, Toyota á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás.

Myndir frá Vetrarsport

Vetrarsportið um helgina tókst vel í alla staði og var sýnignin sennilega sú glæsilegasta frá upphafi. Var gaman að sjá hvað margir sýnendur lögðu metnað í sýningarbása sína og var heildaryfirbragð sýningarinnar stórglæsilegt. Fjölbreytnin var líka í fyrirrúmi þótt sleðarnir séu alltaf í forgrunni. Árshátíðin í Sjallanum tókst ekki síður vel. Margir munu hafa saknað þess að ekki var tilkynnt um val á sleðum og bás sýningarinnar en þeim til huggunar þá fór slíkt val fram á vegum sýningarstjórnar eins og verið hefur og mun verða tilkynnt um úrslit á morgun, mánudag. Aðstoðarljósmyndari var Alída Milla Möller Gautadóttir, 6. ára, sem m.a. myndaði allt bleikt sem hún sá.

 

Snjóalög könnuð og haustverk kláruð

Í gær var fallegt veður og sumir drifu sig til fjalla. Smári Sig. Sendi eftirfarandi. “Skutumst á fjöll svona til að klára verkefnin fyrir veturinn, þ.e. að taka vegriðin af brúnni yfir Skjálfandafljót. Í för voru Smári Sig., Maggi Arnars. og Sigurgeir. Lítill sem enginn snjór var á Eyjafjarðardal en þegar upp var komið var bara flottur grunnur kominn og þegar við vorum komnir inn fyrir afleggjarann í Landakot var hægt að taka stefnuna beint á Sandbúðir. Grjóthart undirlag en aðeins nýsnævi í driftum hér og þar, alveg magnað jeppafæri í flottu veðri en köldu. Austan Sandbúða minnkar sjórinn aldeilis, nánast orðið snjólaust við Skjálfandafljót og rétt svona grátt í rót inn við Gæsavötn.”

Glaðir og grænir hjá Icehobby

Icehobby kynnti 2008 árgerðina af Arctic Cat í gærkvöld. Eins og við var að búast létu viðbrögðin ekki á sér standa og fjölmenntu Eyfirðingar og nærsveitamenn til að líta á gripina. Þá hefur græni drykkurinn góði væntanlega ekki dregið úr aðsókninni. Ekki var annað að sjá en mannskapurinn semmti sér vel, enda varla annað hægt þegar menn eru að skoða nýja dótið í fyrsta sinn.

Margt um manninn hjá Motormax á Akureyri

Fjölmenni var við kynningu hjá Motormax á Akureyri í gærkvöld þar sem sjá mátti það nýjasta frá Yamaha og Ski-doo. Mest spennan var að sjálfsögðu í kringum nýja Nytro-sleðann frá Yamaha og nýju Ski-doo línuna, en til sýnis voru bæði Summit og 600 MXZ. Greinilegt er að sleðamenn kunna vel að meta að fá tækifæri til að hittast og spjalla á meðan beðið er eftir því að vertíðin hefjist af alvöru. Motormax hefur komið sér vel fyrir í húsnæði við Njarðarnes 4 þar sem þeir Hóla Palli og Hörri muni ráða ríkjum í vetur.

 

Sleðamessa og sýningar um síðustu helgi

Um liðna helgi var ýmislegt á dagskránni hjá sleðamönnum. Þannig voru sýningar bæði á Arctic Cat og hjá Mótormax, þar sem sjá mátti það nýjasta frá Ski-doo og Yamaha. Í Garðabæ var síðan haldin árleg sleðamenna Landsbjargar. Á sleðamessum hittast sleðaflokkar björgunarsveitanna með það að markmiði að auka þekkingu sína og stilla saman strengina. Auk fróðlegra fyrirlestra var að þessu sinni á dagskránni meðal annars kynning á hnéspelkum, en það er öryggisbúnaður sem sleðamenn eru farnir að gefa meiri gaum. Lexi kynnti sleðaskólann og ýmislegt fleira var gert. Maggi Arnars tók nokkrar myndir, bæði á sleðamessunni og sýningu hjá Mótormax.

Rjúpnabrekkujökull hopar um 26 m

Rjupnabrekka07_2Um helgina var farin ein ferð í Gæsavötn með bensín. Nokkur undanfarin ár hefur Smári Sig. einnig séð um að mæla sporð Rjúpnabrekkujökuls og fóru þeir í það verk á sunnudaginn í frábæru veðri. “Þetta verður alltaf lengri lengri og lengri göngutúr enda hopar jökullinn á hverju ári. Nú hafði hann hopað um 26 m frá í fyrra,” skrifar Smári. Á myndinni má sjá hvað jökullinn hefur hopað frá því í fyrra.

Baráttuferð 1. maí

Smári Sig., Haukur Stefáns., Maggi Arnars. og Birgir fóru þann 1. maí frá Hlíðarfjalli, um Glerárdal og Skjóldal, þaðan sem brúnirnar voru þræddar inn á Nýjabæjarfjall. Ekki var látið staðar numið fyrr en í Laugafelli. Þetta er mögnuð leið en aðeins fær í góðu veðri, eins og sannarlega var þennan dag. Myndirnar tók Smári í ferðinni.

Hitavelluhelgin mikla

Það var meginlandsloftslag norðan heiða um helgina og margir á sleða í geggjaðri blíðu. Smári Sig. var á ferðinni bæði laugardag og sunnudag og tók meðfylgjandi myndir.

Botnlaust púður í Kverkfjöllum

Þótt veðrið upp á síðkastið hafi ekki verið öllum að skapi er ljóst að sleðamenn geta bara verið kátir með ástandið til fjalla. Smári Sig. og fleiri fóru af Vaðlaheiði í Laugafell og þaðan í Nýjadal, um Mjóháls í Snapadal, Rjúpnabrekkujökul, Kistufell, Dyngjujökul og í Kverkfjöll, þar sem í heiti lækurinn í Hveradal var notaður. Nógur snjór var á svæðinu og botnlaust púður í Kverkfjöllum. Smári sendi ferðasögu og myndir.

Við áttum hreint alveg magnaðan túr um Hvítasunnuna. Farið var um Vaðlaheiði suður um Gönguskarð þar var nýsnævið sem bjargaði því sem bjargað varð. Sunnan við Gönguskarð er bara eins og jökull, alla vega suður fyrir Skjónufell og í Landakot. Rennislétt og hægt að láta fákana sýna hvað í þeim býr.

Eftir að hafa tankað í Laugafelli bættust þrír félagar okkar úr Súlum í hópinn og var stefnan tekin austur á bóginn. Töluverðir þræðingar voru til að byrja með en austan við Háöldur fór snjórinn að aukast og þegar komið var austur fyrir Bergvatnskvísl var stefnt lengra suður á bóginn, yfir Vegamótavatn og síðan upp Jökuldalsána og í Nýjadal. Þar er nægur snjór. Eftir eina samloku og kaffi var stefnan tekin suður fyrir Jökuldalinn, upp Mjóhálsinn og niður í Snapadal í Vonarskarði. Feikna skemmtilega leið. Nægur snjór var í Vonarskarði og þar, eins og víða annarstaðar, nýsnævið sem bjargaði túrnum. Úr Vonarskarði lá leiðin upp að rótum Bárðarbungu og svo þvert yfir Rjúpnabrekkujökulinn, yfir á Dyngjujökul og svo niður ágætar snjólænur niður í Gæsavötn.

Á mánudag var dagur tekinn í “fyrra fallinu”. Straujað austur með jökuljaðri allt í Kistufell og tekin einn útsýnishringur upp á topp. Þá lá leiðin í Kverkfjöll þar sem púðrið tók völdin. Þar var a.m.k ekki jeppafæri nema fyrir mjög þolinmóða bílstjóra. Eftir hefðbundnar myndatökur og töluverðar festur var áveðið að skella sér í bað í heita læknum. Sporuðum við niður Löngufönn að hluta og stungum okkur síðan milli kletta niður í Kverkina og þvert austur yfir hana. Eins og venjulega er það “rússibana” leið í lækinn. En nú bar svo við að lækurinn var vart baðfær sökum hita. Ógjörningur var að liggja þar og hvíla lúin bein, heldur þurfti spígsporað á bakkanum og sólin látin baka kroppinn, enda veður til þess.

Þá vara eftir að koma sér upp á jökul aftur. Við reyndum við Kverkina en sérum frá. Þar liggur svo mikið nýsnævi að ógjörningur er að sjá hvar og hvernig sprungurnar liggja. Því var farið yfir jökulsporðinn og beint upp Löngufönn, þar sem menn hitunuðu mis mikið og festu sig mis oft. Þar fór baðið fyrir lítið. Þegar upp var komið var kominn tími að huga að heimferð. Var það að mestu leyti sama leið nema hvað farið var yfir Tungnafellsjökulinn við Stakfellið, niður nyrðri Hagajökul og fylgt árfarvegi Hagakvíslar vestur að Fjórðungakvísl þar sem við komum inn á gömlu slóðina okkar. Á Vaðlaheiði vorum við komnir rétt að ganga tíu.

Púður á Glerárdal

Þeir sem drifu sig á sleða um og eftir helgina náðu margir fínu púðri. Þannig var staðan t.d. á Glerárdal ofan Akureyrar og á þessum myndum Smára Sig. má sjá að það hefur verið gaman að vera til.

 

Margir á sleða um helgina

Mikil umferð sleðamanna var víða um land um helgina. Í Kerlingarfjöllum var sleðamót á vegum EY-LÍV og þangað fóru hópar bæði að norðan og sunnan. Á sunnudaginn var gríðarlega fallegt veður í Eyjafirði og tugir ef ekki hundruð sleðamanna tóku stefnuna út í Kaldbak og Fjörður. Smári Sig. og fleiri renndu um helgina í Gæsavörn og víðar og eru myndir úr þeirri ferð hér að neðan.

Ýlurnar sönnuðu gildi sitt

Snjóflóðaýlur eru ómissandi öryggistæki allra vélsleðamanna og sönnuðu gildi sitt í dag þegar vélsleðamaður lennti í snjóflóði í Hlíðarfjalli. Félagar mannsins, en þeir voru 9 saman, höfðu fundið hann, grafið upp og hafið lífgunartilraunir á aðeins nokkrum mínútum. Maðurinn sem lenti í snjóflóðinu er á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Meðfylgjandi myndir voru teknar á staðnum í dag.

 

Snjóalög á norðanverðu hálendinu

Sér niður Eyjafjörð.

Sér niður Eyjafjörð.

Jeppamenn úr Eyjafirði drifu sig á fjöll um helgina, enda ekki flókið að brenna upp nýja Vatnahjallaveginn. Smári Sig. sendi ferðasögu.

Fórum á laugardagsmorgun upp nýja Vatnahjallaveginn upp í Hafrárdal. Þar er lítill snjór en vandalaust að finna lænur og bruna upp að vörðunni við Sankti Pétur. Það er bara gott jeppafæri í Bergland og reyndar alveg í Laugafell.

Eitthvað hefur gengið á í leysingunum á dögunum því klakar og hröngl voru langt upp á bakkana við vaðið á Bergvatnskvíslinni og ekki gjörningur að fara þar yfir. Vandalaust að sprautast yfir í Gæsavötn og færið fyrir jeppa gott.

Á heimleið var farið um Sandbúðir og Galtaból í Laugafell. Þá var tekinn hringur í Landakot, Bergland svona rétt til að athuga með skálana. Nægur snjór er í Galdtabóli og Landakoti og greinilegt að þar hefur ekki hlánað neitt að ráði á dögunum. Byrjað var að snjóa á sunnudagsmorgninum austan við Sandbúðir svo eitthvað bætir á þessa vikuna. Það hafur oft verið svartara á þessum árstíma.

Lynx Xtrim 800 Power TEK – Einn með öllu

Síðuhöfundur á Lynx inn á Glerárdal. Myndir Magnús V. Arnarsson.

Síðuhöfundur á Lynx inn á Glerárdal. Myndir Magnús V. Arnarsson.

Lynx vélsleðar frá Finnlandi hafa verið hér á markaði í nokkur ár og komið vel út. Þeir eru söluhæsta sleðategundin í Skandinavíu og raunar í allri Evrópu en markaðshlutdeild þeirra hérlendis hefur ekki verið mikil. Hluti skýringarinnar kann að vera óstöðugleiki í umboðmálum en hann ætti nú að heyra sögunni til. Fyrr á árinu tók Ellingsen við umboðinu fyrir Lynx, samhliða kaupum á Evró, og hefur komið af krafti inn á markaðinn í vetur.

Lynx er í eigu kanadísku Bombardier samsteypunnar, sem einnig framleiðir Ski-doo vélsleða. Margt í þessum tveimur sleðategundum er hið sama , t.d. vélarnar, en annað er frábrugðið. Lynx er þannig sjálfstætt merki og sleðarnir eru smíðaðir í Finnlandi, þótt einstaka undirtegundir komi raunar beint frá verksmiðjunum í Kanada. Framleiðslulínan er fjölbreytt, hönnuð fyrir aðstæður í Norður-Skandinavíu og því ætti Lynx að henta jafnvel betur fyrir íslenskar aðstæður en þeir Norður-Amerísku sleðategundir sem hér eru algengastar í dag. Vinnusleðalínan frá Lynx á sér t.d. ekki hliðstæðu hjá öðrum framleiðendum.

Sleði fyrir allar aðstæður

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt ýmsu fleiru.

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt ýmsu fleiru.

Sá sleði sem tekin var til reynsluaksturs að þessu sinni var einn af toppsleðunum í sportsleðalínunni frá Lynx og kallast Xtrim 800 Power TEK. Líkt og önnur ökutæki eru vélsleðar til í ýmsum útfærslum og hannaðir með mismundi notkun í huga. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Slíkir “blendingssleðar”, sem gjarnan eru einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina,hafa notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri og til ferðalaga. Lynx Xtrim 800 Power TEK er dæmi um sleða sem ætlað er þetta hlutverk.

Yfirdrifið vélarafl

Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu.

Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu.

Engum blöðum er um það að fletta að 800 Power TEK vélin er eitt af aðalsmerkjum þessa sleða. Hún er sögð skila 140 hestöflum og þau virðast vel útilátin því aflið er yfirdrifið. Þetta er háþróuð vél sem komin er góð reynsla á, tveggja strokka með blöndungum og svokölluðum Reed-ventlum. Beltið á Xtrim er 144×15 tommur með 38 mm spyrnum. Það virðist henta sleðanum vel og skilaði honum vel áfram í bröttum brekkum þótt færið væri laust. Hann virðist því vel geta staðið undir nafni sem fjallasleði.

Hvað teljast góðir akurseiginleikar vélsleða verður alltaf að einhverju leyti háðir mati ökumannsins. Aksturseiginleikar Xtrim ættu þó að falla flestum í geð og skiptir þá miklu að fjöðrunin er fyrsta flokks. Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu og greinir hann til dæmis frá hinum kanadíska bróður sínum. Fjöðrunin á Xtrim er mjög vel heppnuð, enda mikið í hana lagt, meðal annars gasdemparar allan hringinn. Einhverjum kann að finnast hún í stífari kantinum en þó ættu allir að geta fundið stillingu við hæfi. Þetta verður samt að teljast mjög góðalhliða fjöðrun, eins og markmiðið hlýtur vissulega að vera með sleðanum. Sleðinn stóð einnig fast í skíðin og stýrði vel. Sætið er vel lagað, hæfilega stíft og ekkert hægt að setja út á ásetu ökumanns.

Góður staðalbúnaður

144" tommu beltið hentar þessum sleða vel en prufusleðinn var reyndar ekki á "orginal" beltinu.

144″ tommu beltið hentar þessum sleða vel en prufusleðinn var reyndar ekki á “orginal” beltinu.

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt, hita í handföngum og bensíngjöf, þjófavörn, dráttarkrók, rafstarti og bakkgír. Bakkgírinn er hinn skemmtilegi snarvenda, rafeindabúnaður þar sem snúningsátt vélarinnar er snúið við og þetta þyngir því ekki sleðann svo neinu nemur. Aftan við sætið er geymsluhólf og þar fyrir aftan pallur með grind fyrir farangur. Geymsluhólfið er hægt að talka í burt og setja í staðinn aukasæti fyrir farþega og þar með er sleðinn orðinn tveggja manna. Útlit sleðans er stílhreint, samt e.t.v. ekki mjög spennandi, en ætti að standast vel tímans tönn.

Heildarmat

Laglegur sleði með öllum búnaði.

Laglegur sleði með öllum búnaði.

Erfitt er að benda á ákveðna galla á sleða sem þessum og veltur þar meira á persónubundnum þáttum en beinhörðum staðreyndum. Ekki verður betur séð en Xtrim 800 standi vel undir nafni sem alhliða brekku og ferðasleði. Fyrir lengri hálendisferðir er hér líka tvímælalaust einn álitlegasti kosturinn á markaðinum. Hann er sérlega vel búinn með góða aksturseiginleika og yfirdrifið afl. Uppgefið verð er fyrir 2007 árgerðina 1.510 þúsund kr. og má ekki hærra vera sé horft til keppinautanna, t.d. Reagate 800 frá Ski-doo og Crossfire 8 og M8 frá Arctic Cat. Alltaf verður þó að gæta þess að taka allan staðalbúnað með í dæmið og sem fyrr segir er Xtrim einn með öllu.

Jómfrúarferð um Vatnahjallaveg

Það var jómfrúarferð um Vatnahjallaveg í dag laugardag, og sendi Smári Sig. eftirfarandi pistil og myndir: “Formaðurinn var ansi beittur og hvatti menn til dáða þrátt fyrir mikið frost. Það er nú eða aldrei sagð´ann. Tekið var af við Hólsgerði og létt ferð inn að Hafrá. Þar tók þessi fíni sneiðingur við okkur og flutti okkur á augabragði upp hlíðina og upp á “hælinn”. Þar breiddi Hafrárdalurinn úr sér kaldur en bjartur og alhvítur. Frekar var nú rýrt uppi þar en ekki vandamál að bera sig um. Þegar komið var vestur fyrir Sankti-Pétur tók við hrímþoka en bjart uppi fyrir. Mikið frost og hrímþoka var alla leið í Bergland og inn í Laugafell. Hvítt yfir öllu en ansi rýrt á melunum. Þetta lofar góðu – við höfum séð það svartara á þessum tíma. En Vatnahjallavegurinn á eftir að sanna sig, það eitt er víst.”