
Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.
Sleðaferð til USA er eitthvað sem flesta dreymir um og veturinn 2014 var bundið fastmælum af nokkrum meðlimum Ungmennafélagsins að láta verða af ferð þangað árið eftir. Fylgt var í grófum dráttum sama plani og hluti hópsins notaði tveimur árum fyrr, þ.e. fljúga til Denver í Colorado, aka þaðan nánast þvert yfir Wyoming ríki í bæinn Jackson. Þar var gist þá daga sem sleðast var en ekið á hverjum morgni upp í fjöllin að Togwotee Mountain Lodge þar sem fenginn var leiðsögumaður til að fylgja okkur um skógarstíga og fjallasali.
Alls voru 12 kallar skráðir og bókaðir í ferðina. Brottför var ákveðin 1. mars 2015 en sumir bara gátu ekki haldið í sér af spenningi og drifu sig daginn áður. Aðrir voru mættir í Leifsstöð tímanlega fyrir flugið út til Denver. Þangað var komið tveimur til þremur bíómyndum síðar og þrír bílaleigubílar biðu okkar á flugvellinum. Ákveðið hafði verið að skipta leggnum til Jackson í tvennt. Gisting hafði verið bókuð í bænum Laramie, sem seint verður reyndar talinn til merkustu bæjarfélaga í USA og þótt víðar væri leitað.
Slæmt að missa menn

Staðgóður morgunmatur í Laramie
Fljótlega eftir brottför af flugvellinum misstum við tengslin við bílinn með Árskógsstrendingunum þremur, þar sem GPS-inn þeirra var ekki alveg að gera sig. Fyrir „all nokkra“ tilviljun náði hópurinn samt að sameinast nokkru síðar á pizzastað á leiðinni. Til Laramie var komið um 3 tímum eftir brottför af flugvellinum í Denver og ekki laust við að þreyta væri komin í mannskapinn. Þá var líka orðið langt liðið á nóttina á Íslandi og allir enn stilltir inn á íslenska tímann.
Fararstjóri á náttfötunum
Ákveðið var að leggja tímanlega af stað og morgunmatur ákveðin um 7 leytið. Íslenski tíminn reyndist hins vegar enn sitja í mannskapnum og flestir byrjaðir að velta sér í rúmunum upp úr kl. 2 um nóttina. Undantekning var fararstjórinn en óstaðfestar fregnir herma að þurft hafi að bera hann í náttfötunum út í bíl.
Trukkaleiðin
Eftir staðgóðan morgunverð að amerískum sið hófst aksturinn langi til Jackson. Skítaveður var á leiðinni lengi framan af og fátt til að gleðja augað. Trukkaumferðin virtist endalaus og stikkprufur leiddu í ljós að við mættum u.þ.b. 20 stykkjum á hverjum 5 mínútum. Um 3 tíma tekur að aka legginn frá Laramie til Rock Springs, þar sem beygt er norður í fjöllin til Jackson, og er lesendum látið eftir að reikna trukkafjöldann á leiðinni.
Heimtur í Jackson
Síðasti spölurinn til Jackson var skemmtilegur og þegar þangað var komið var byrjað á að heimsækja leiguna Jackson Hole Adventure Rentals þar sem við áttum pantaða sleða, 6 stk. 800 Pro RMK og 6 stk. 800 Summit XM. Þar varð reyndar smá ströggl, sem leystist þó allt á endanum. Tekin var snögg ferð upp í Togwotee en í sleðabúðinni þar áttu flestir í hópnum slatta af dóti sem búið var að panta fyrirfram. Um kvöldið heimti hópurinn þá tvo óþolinmóðu sem lagt höfðu af stað degi á undan og um kvöldið var farið svert út að borða á „Kúrekabarnum“ í miðbænum. Gaman var að sjá skíðabekkuna svaðalegu beint upp frá bænum þar sem hin árlega brekkuklifurkeppni Jackson Hole World Championship Snowmobile Hill Climb er haldin. Hún fer einmitt fram í 40. sinn síðar í mánuðinum.
Íslensk stórhríð – næstum því

Mættir í Togwotee og bjart framundan.
„Ef þið væruð heima myndi ykkur ekki detta í hug að fara á sleða í þessu veðri,“ var úrskurður formannsins þegar mætt var í morgunmat daginn eftir. Og víst var að það moksnjóaði og gekk satt best að segja á með nokkuð snörpum vindhviðum. En menn töldu sig hafa séð það svartara og helspenntir lögðu þeir af stað með sleðana í eftirdragi upp í Togwotee. Þar tók leiðsögumaðurinn okkar, Brent, á móti okkur. Sá reyndist enginn nýgræðingur í faginu og var fljótur að finna góð leiksvæði. Þennan fyrsta dag gekk á með dimmum éljum en birti fallega upp á milli. Talsvert hafði snjóað og því nægur púðursnjór til að leika sér í – og festa sig. Karlarnir voru því alsælir þegar haldið var heim á leið seinnipartinn, eða a.m.k. þeir sem ekki höfðu dælt díselolíu á sleðana sína og/eða urðu ekki bensínlausir á hraðbrautinni niður til Jackson 😉
Afmælisdrengurinn heiðraður
Frekar var nú svalt að rölta í morgunmatinn yfir til hennar “Bubbu” morguninn eftir. En menn báru sig engu að síður mannalega. Afmælissöngurinn var sunginn fyrir Smára, afmælisbarn dagsins, og í “kaupfélaginu” var fjárfest í dýrindis afmælisblöðru. Síðan var stefnan tekin upp til Togwotee þar sem Brent tók aftur á móti okkur.
Um fjöll og dali

Djúpt á Ingólfi.
Prógrammið var með líkum hætti og daginn áður. Segja má að stígakerfið sé þrennskonar. Í fyrsta lagi leiðir sem troðnar eru og sléttaðar daglega. Þær liggja eftir skógarvegum sem bera bílaumferð á sumrin og eftir þeim var hægt vera vera snöggur á milli staða. Þessar leiðir eru hundruðir kílómetra og gjaldið fyrir að sjá um þær er innifalið í sleðaleigunni. Í öðru lagi eru skógarstígar sem ekki eru troðnir eða sléttaðir og voru satt best að segja afar ósléttir og leiðinlegir yfirferðar. Loks eru þröngar leiðir sem hlykkjast inn á milli trjánna, mest spilaðar af fingrum fram og víðast þarf að fara fetið. En á milli voru síðan rjóður og skógarsvæði þar sem hægt var að leika sér í púðrinu, alveg þar til hver fermeter var fullnýttur. Þá var farið á næsta svæði.
Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og 10 sólir á lofti. Í lok fjórða dags var svo sleðunum skilað aftur á leiguna í Jackson. Tjón sem leigan gerði mál út af voru í algeru lágmarki, eitt forðabúr fyrir bremsu og einn stuðari, sem reyndar var varla hægt að sjá nokkuð á.
Hvað er málið með þessa Polarisa?

Lagt faglega.
Morguninn eftir var stefnan tekin áleiðis til Denver, þar sem flestir áttu bókað flug heim daginn eftir. Ferðin sóttist vel, þótt smá vonbrigði hafi verið að rétt var búið að loka Polarisbúðinni í Rock Springs þegar rennt var í hlað. Reyndar skildu Ski-doo og Yamaha eigendur í ferðinni ekki alveg þessa stöðugu ásókn í að kaupa eitthvað dót í Polaris. Töldu sína sleða fullsmíðaða og ekki þörf á að fjárfesta í sérstökum stimplasettum, hjáveitubúnaði eða öðrum þeim varahlutum sem rötuðu í töskur ferðafélaga þeirra.
Hvar er mollið?
Síðasta morguninn var stefnan að skanna eins og eitt moll áður en mæta þyrfti á flugvöllinn. Ófaglærðir kynnu að halda að lítið mál væri að finna moll í Ameríku en annað kom á daginn. Upphófst nú æsileg leit sem barst víða um Denver-svæðið. Loks fengum við að því er virtist traustar upplýsingar sem stimplaðar voru inn í GPS-tækið á einum bílnum. Þegar á staðinn var komið blasti við ein ræfilsleg fatabúð. Nánari eftirgrenslan leiddi í ljós að mollið hafði verið rifið fyrir mörgum árum. En þarna fengum við þó leiðbeiningar á enn einn staðinn og fannst slatti af fínum búðum. Flestir smelltu sér á nokkrar Levi’s gallabuxur, þ.e. allir nema Ingólfur. Hann fékk sér DIESEL.
Heima á ný
Flugið heim var álíka spennandi og aðrar flugferðir og allir fegnir að lenda í Keflavík að morgni mánudags. Þá áttu flestir í hópnum reyndar eftir að koma sér norður yfir heiðar og þegar þangað kom voru um tveir sólarhringar liðnir frá því að lagt var upp frá Jackson. Að baki var ógleymanleg ferð með góðum félögum.
Nokkrar fleiri myndir frá ferðinni