Sleðamenn vissu að nú eru síðustu forvöð að ganga frá sínum málum á hálendinu áður en snjóar hellast yfir, því vitað er að mikill snjór og góður er í vændum. Smári Sig. sendi eftirfarandi sögu og myndir frá ferð helgarinnar.
Nýtt orkuver
Byrjað var á að fara í Laugafell þar sem rafvirkinn dró úr pússi sínu nýja stjórnstöð fyrir raforkuverið. Nú gætu menn fylgst með spennunni á rafgeyminum þá daga sem þeir verða þar veðurtepptri. Eins var heitavatninu komið á gamla Ferðafélagsskálann en þar var vatnslaust og skítkalt í húsinu. Þeir alhörðustu tóku golfsettið út og slógu sín allra síðustu högg að þessu sinni áður en vetur leggst að.
Handriðin tekin
Á Fjórðungsöldu þurfti að stoppa og hirða upp gamlar leifar eftir síðust ferð. Áfram brunað, ekki áð fyrr en komið var að Skjálfandabrú og vegriðin tekin niður að vanda. Einfaldlega til að snjórinn sem er að koma geti lagst með öllum sínum þunga á brúnna. Í Gæsavötnum var tekið til hendinni að venju og allt gert klárt eins og kostur er.
Enginn heima
Á heimleiðinni á sunnudag var víða farið svona rétt til að athuga hvort þetta væri ekki allt á sínum stað. Tungnafellsjökull mátaður og tryggt að allt væri þar klárt og tilbúið fyrir meiri snjó – ekki veitti af. Hrafninn vinur okkar úr Nýjadal mætti á svæðið, fylgdi okkur hvert fótmál og heimtaði mat. Brunað var því næst í Sandbúðir og gerðu menn fastlega ráð fyrir að Guðmundur bóndi væri þar mættur en hann er búinn að vera á leiðinni þangað frá því um miðjan september. Nú hlyti karl að vera mættur. En viti menn, sama eyðibýlið og oft áður. Ekki nokkur sála og ekki verið þar lifandi maður svo vikum skifti. Straujað var í Galtaból og þaðan í Landakot svona rétt til að taka stöðuna. Í Landakoti töldu kunnugir að komið væri nýtt pústurrör á húsið, svo nú skal kynda duglega þar í vetur. Greinilega vel undirbúnir.
- Haukur í speglinum.
- Hreiðar og Bjarki koma fyrir nýju orkuveri í Hjörvarsskála.
- Leyst úr vatnsvandræðum í skála FFA.
- Holukeppni í Golfi. Sigeugeir mundar kylfuna.
- Á Fjórðungsöldu.
- Vaskur flokkur að taka handriðin af Skjálfandafljótsbrú.
- Kvöldmatur í Gæsavötnum.
- Á Tungnafellsjölki.
- Á Tungnafellsjökli, Háhyrna.
- Hrafninn kemur í heimsókn, heimtar mat sinn og engar refjar.
- Formaðurinn ræðir við hrafninn.
- Enginn heima í Sandbúðum.
- Allt ísað.
- Hreiðar formaður í kaffi.
- Landakot, allt klárt fyrir veturinn.














