Til þeirra sem málið varðar!
Eins og flestir vita koma jeppa og sleðamenn eldsneyti sínu fyrir á völdum stöðum á hálendinu. Sjálfsagt er þetta allt bannað en við gerum þetta samt okkur til þæginda.
Þessum birgðastöðvum fjölgar stöðugt a.m.k. hér á norðanverðu hálendinu. Í Gæsavötnum er kominn tími til að gera eitthvað róttækt í málinu. Þar má telja í stuttum göngutúr 19 “birgðastöðvar”. Sumar eru vel faldar og þarf mikla útsjónarsemi til að finna þær. Það merkir að eigendurnir hafa unnið heimavinnuna sína og gengið þannig frá að ekki er til ama.
Því miður eru enn nokkrir aðilar sem eiga þarna fiskikör eða önnur ílát sem blasa við ferðafólki í svörtu hrauninu. Þegar farið er að stafla fiskikörum í tvær hæðir er auðvelt fyrir sjóndapra að sjá þau í margra mílna fjarlægð þar sem bakgrunnurinn er svartur. Hvað þá þegar fjórar 200 ltr tunnur eru látnar standa á fjölförnu, göngutúrasvæði staðarins.
Í Gæsavötnum eru allar gistinætur bókaðar fram í miðjan september og umferð “gömlu Gæsavatnaleiðar” er mjög mikil. Það eru því nokkur hundruð ef ekki þúsund manns sem fara um svæðið og skoða “birgða” dýrðina.
Það eru því eindregin tilmæli Gæsavatnafélagsins að menn taki þetta til sín sem eiga og gangi betur um.
Frelsið sem við höfum er vandmeðfarið, það getur verið dýrt að misnota það
Fjalla – kveðjur
Frá Gæsavatnafélaginu
Smári Sigurðsson



