Þá hefur Ski-doo kynnt sleðalínu sína fyrir árið 2004. Álit manna á henni ræðst væntanlega af því hvort þeim líkar við REV-boddíið eða ekki. Það er nefnilega ljóst að Ski-doo er að veðja á að REV-inn sé framtíðin og 2004-línan tekur mið af því.
Vissulega geturðu enn fengið Ski-doo í „hefðbundinni” útfærslu en meginþunginn í framleiðslunni er á REV í hinum ýmsu útfærslum. Þessi áhersla þarf raunar ekki að koma neinum á óvart því fáir sleðar hafa slegið jafn eftirminnilega í gegn og REV og salan á 2003 módelinu fór jafnvel fram úr björtustu vonum Ski-doo manna sjálfra. Ef litið er í fljótheitum yfir línuna hjá Ski-doo virðist hún eiga það sameiginlegt með 2004 árgerðinni frá hinum framleiðendunum sem kynnt hafa sína sleða að það eru engar stórar nýjungar á ferðinni. Fyrst og fremst er um að ræða frekari þróun, útfærslur og endurbætur á því sem kynnt var í 2003 árgerðinni. Ski-doo kemur að vísu með eina nýja vél en það er 600 með SDI-innspýtingu. En lítum nánar á einstaka sleða.
MX Z
Öll MX Z línan kemur í REV útfærslu. Á toppnum tróna “X” og “Renagade X” sem bera öll einkenni keppnissleðans frábæra. Báðir eru með hinn stórsniðuga elektróníska bakkgír sem raunar má finna í mörgum sleðum frá Ski-doo. X er á 15x121x1″ belti en Renagade X á 15x136x1.25 belti og með nýja gerð af sæti sem hannað er fyrir mountain-sleðana. Í vélbúnaði er val um 800 vél með DPM, hina nýju 600 SDI, eða 600 H.O.
Af öðrum útfærslum af MX Z má nefna Adrenaline, sem ætlaður er fyrir kröfuhörðustu ökumennina, með öflugum HPG-VR dempurum og Trail MX Z, sem er aðeins “mildari” útgáfa.
REV í ferðaútgáfu
GSX nefnist ný sleðalína frá Ski-doo. Hún byggir á REV-boddínu en er smíðuð fyrir þá sem vilja stunda lengri akstur. Þetta er í stuttu máli REV í ferðalagaútfærslu, hlaðinn ýmsum aukabúnaði til að gera aksturinn sem þægilegastann. Sem fyrr eru ýmsar vélar í boði en væntanlega verður 800 vélin vinsælust.
Legend
Eins manns ferðasleðarnir frá Ski-doo hafa gengið undir nafninu Legend undanfarin ár en nú er þetta nafn einnig látið ná yfir tveggja manna ferðasleðana. Nafnið Grand Touring heyrir því sögunni til. Legend kemur í “hefðbundna” boddíinu og er ekki að sjá miklar breytingar á milli ára. Vélarstærðir eru 600, 700 og 800, að ógleymdum fjórgengissleðanum.
Summit
Ski-doo var fyrsti framleiðandinn til að smíða sérstakan fjalla- eða klifursleða. Þetta var Summit 580 árgerð 1994 og muna eflaust margir eftir einum fyrsta sleðanum af þessari gerð hérlendis sem Vilhelm Ágústsson keypti. Árið 2004 markar því viss tímamót þar sem Summit á 10 ára afmæli. Raunar eru nokkrar vikur síðan Ski-doo afhjúpaði Summit 2004 en hann byggir að sjálfsögðu á REV. Það sérstaka við þessa sleða er að þeir koma á 16″ breiðu belti í stað hins hefðbundna 15″ beltis sem algengast er. Í þessari útfærslu segir Ski-doo að 144″ langa beltið gefi sama flot og 151″ langt belti hjá öðrum. Einnig býður Ski-doo Summitinn með 151″ og 159″ beltislengd. Allt er gert til að hafa sleðana sem léttasta enda hefur það tekist bærilega. Nýtt og léttara sæti lítur m.a. dagsins ljós og raf-bakkgírinn er staðalbúnaður. Án efa frábærir sleðar í brekkurnar.
- MX Z Adrenalin 800. Það stoppar fátt svona tæki.
- Þetta er vorútgáfa, MX Z Renegade X á 136″ belti.
- REV fjöðrunin er gríðarlega góð.
- Hér er Renegade X með 600 vél.
- Laglegur Summit.
- GSX er hægt að fá með þeaari viðbót á sætið til að gera hann tveggja manna.





