Innréttingaferð í Gæsavötn

Um helgina var farin vinnuferð í Gæsavötn í þeim tilgangi að setja upp nýja eldhúsinnréttingu. Einstök veðurblíða var allan tímann og kom í ljós að snjóalög á hálendinu eru mun betri en flestir í byggð virðast telja.

Það var alls 14 manna hópur úr Eyjafirði og frá Húsavík sem stefndi inn í Gæsavötn á föstudagskvöldið. Húsvíkingar, þ.e. Ingi Sveinbjörns., Ingunn og Helga dóttir þeirra, voru fyrri til að leggja af stað og voru búin að koma góðum hita í skálann þegar Eyfirðingar mættu um miðnættið á 5 bílum. Þar voru á ferð Benni á Bílvirkja, Hreiðar í Vín, Jón Björns., Jósavin, Ingólfur bakari, Sigurgeir Steindórs., Steindór sonur hans, Halldór Jóns., Þorgerður og Smári Sig. auk síðuhöfundar. Ekið var upp Eyjafjarðardal og þegar upp var komið tekin stefna í Galtaból, síðan í Sandbúðir, þaðan norðan við Fjórðungsöldu með stefnu á Jökulfallið og loks á brúna yfir Skjálfandafljót. Færið var frábært fyrir jeppa en þegar komið var upp á brún Eyjafjarðardals var nægur snjór til að aka nánast beint af augum, rennislétt og mjúkt.

Innréttingasmíð og útsýnisferð

Sem fyrr segir var erindið að setja upp nýja eldhúsinnréttingu, nánar tiltekið nýja neðri skápa ásamt eldavél. Eftir morgunkaffi var hafist handa við að taka gömlu innréttinguna niður og undirbúa uppsetningu á þeirri nýju. Fljótlega kom í ljós að 28 vinnufúsar hendur var algert offramboð miðað við umfang verkefnisins. Þeir sem ekki komust að styttu sér helst stundir við að hnýta í smiðina og setja út á verkið. Því þótti snemma ljóst að það myndi vinnast mun betur ef fækkað yrði á staðnum. Um hádegisbil lagði meginþorri hópsins upp í útsýnisferð, enda veðurblíðan hreint einstök, en þeir sem helst kunnu til verka við smíðar urðu eftir til að koma innréttingunni fyrir. Ekið var upp á Gæsahnjúk og þaðan tekin stefnan á Trölladyngju. Vandræðalaust var að komast á toppinn og tók þá við smá leikaraskapur í gígnum. Að því loknu var ekið til baka í Gæsavötn og var þá innréttingasmíði nærri lokið. Hluti hópsins fór heim um kvöldið en afgangurinn sló upp stórveislu.

Heim á leið í vetrarblíðu

Í morgun, sunnudag, var enn vaknað í einmuna blíðu, heiðskíru veðri með 8 siga frosti og logni. Eftir þrif á skálanum var ekið vestur yfir Skjálfandafljót, að Fjórðunungsöldu og upp á hana. Síðan niður að Sandbúðum og tekið kaffistopp, Nú skildu leiðir. Húsvíkingar stefndu til byggða niður Bárðardal en þeir sem eftir voru af Eyfirðingum renndu í bað í Laugafell og síðan heim um Eyjafjarðardal.

Þéttur og góður snjór

Sem fyrr segir er frábært jeppafæri á þeim hluta hálendisins sem ekið var um. Víðast er nægur snjór þannig að hægt er að aka beint af augum og færið einstaklega slétt og mjúkt. Sleðafæri er einnig ágætt á köflum, þ.e. á svæðinu upp af Eyjafirði og austur fyrir Sandbúðir. Þar fyrir austan er heldur þynnri snjór. Almennt má segja að snjóalög lofi mjög góðu fyrir veturinn. Sá snjór sem er kominn er mjög þéttur og góður og því ákjósanlegt undirlag. Þannig eru öll skilyrði fyrir hendi til þess að þetta verði með allra bestu ferðavetrum á fjöllum. texti: Halldór A. Myndir: Halldór A og Halldór Jóns.

Leave a comment