Í gær, 2. nóvember, fóru fjórir harðsnúnir kappar á sleðum upp úr Eyjafirði og inn í Laugafell. Er þetta eftir því sem næst verður komist fyrsta sleðaferð vetrarins inn á hálendið.
Fram Eyjafjarðardal
Það voru þeir Hreiðar í Vín, Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs, Smári Sig. og síðuhöfundur sem lögðu af stað frá Vín um kl. hálf eitt á laugardaginn. Veðrið var eins og það getur best orðið, logn, sólskin og hiti um frostmark. Ekið var með sleðana á kerrum sem leið liggur fram Eyjafjarðardal og skammt framan við Vatnahjallann voru fákarnir teknir niður. Leiðin fram dalinn sóttist vel. Snjó hafði skafið í niðurgrafinn veginn og víða hægt að spretta úr spori. Þó hafði ekki skafið það mikið að hliðhalli væri til vandræða og þurfti hvergi að grípa til skóflunnar, sem þó var höfð ofarlega til vonar og vara.
Þræðingar er upp kom
Þegar upp á hálendið var komið blasti dýrðin við og mikil hamingja hjá flokknum. Ekki var það þó svo gott að hægt væri að aka beint af augum heldur varð að þræða lægðir og veginn þar sem það var hægt. Þóttust sumir hafa orðið varir við að hafa steytt á steini undir snjónum en það fékkst þó ekki staðfest. Satt best að segja voru menn ekki nema rétt hæfilega bjartsýnir að fært væri í Laugafell enda virtist mun meiri snjór að sjá austur á bóginn. Það leið þó ekki löng stund áður en rennt var í hlað í Laugafelli við mikinn fögnuð. Var nú sest inn í Hjörvarsskála og drukkið miðdegiskaffi ásamt því að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Allt virtist í góðu standi þar efra og eftir dágott stopp var ákveðið að renna í Landakot.
Heldur var nú færið rýrt á köflum og víða grjót undir en þó sóttist ferðin vel. Skrifað var í gestabók og síðan haldið áleiðis að botni Eyjafjarðardals. Var nokkuð farið að bregða birtu enda kostaði nokkrar þræðingar að finna færa leið síðasta spölinn að slóðinni frá því fyrr um daginn. Það hafðist þó allt að lokum og var þá leiðin greið niður dalinn í bílana. Var komið þangað um kl. 18:30 og góð ferð á enda. Var mikil tilhlökkun í hópnum að gorta af ferðalaginu við félagana. Niðurstaða ferðarinnar í stuttu máli var sú að víða væri gott sleðafæri en mætti þó vera samfelldara á köflum. Texti: HA – Myndir: Smári Sig.
- Kmnir fram á “Dal” og bjart framundan. Sigurgeir og Hreiðar.
- Menn búast til brottfarar. Síðuhöfundur íklæddur þessum fallega sjóstakk.
- Formaðurinn mætti með Arctic Cat kerru. Alvarlegt mál.
- Fram í dalbotni. Allt gott og engin vandamál í gangi.
- Hreiðar, Halldór og Sigurgeir leggja á ráðin fyrir næsta áfanga.
- Komnir upp á fjall. Vaðandi snjór um allt og tóm hamingja.
- Komnir í Laugafell. Fremur snjólaust að sjá vestureftir.
- Sleðaröð í Laugafelli.
- Búist til brottfarar úr Laugafelli. Hjörvarsskáli í baksýn.
- Í Landakoti og aðeins farið að bregða birtu.
- Skrifað í gestabókina í Landakoti, að sjálfsögðu út á sólpalli enda allt of gott veður til að vera inni.










