Undirritaður hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa margar skemmtilegar sleðaferðir. Ein af þeim eftirminnilegri er tvímælalaust ferð sem farin var vorið 1993. Kemur þar margt til. Árstíminn var óvenjulegur, veðrið hreint frábært og einnig gerðust óvæntir atburðir sem nánar verður vikið að síðar.
Í sleðaferð um mitt sumar?
„Hvað eruð þið að gera í vélsleðaferð um mitt sumar,“ voru viðbrögð margra þeirra sem fréttu af vélsleðaferð sem fyrirhuguð var um miðjan júní 1993, nánar tiltekið daga 11.-13. júní. Að hluta til eru spurningar sem þessar skiljanlegar því á þessum árstíma er fólk með hugann við flest annað en vetrarferðir. Flestir hafa þegar lokið vorverkunum, eru búnir að slá garðinn a.m.k. einu sinni og eru í óða önn að búa sig undir sumarfríið til að ná sem mestu út úr hinu stutta íslenska sumri. En uppi á hálendinu er snjórinn mun lengur að fara en í byggð og á vorin, þegar frosthörkur vetrarins eru að baki og nóttin björt, er einmitt besti tíminn til að fara í vélsleðaferð.
Undirbúnigur fyrir umrædda ferð var ekki langur og ekki ljóst fyrr en á síðustu stundu hversu margir færu með. Ferðaáætlun var ekki heldur fullmótuð og átti að ráðast af snjóalögum og veðri. Vatnajökull var þó það sem stefnt var á. Ákveðið var að safnast saman á Öxnadalsheiði upp úr hádegi föstudagionn 11. júní og freista þess að komast upp á hálendið. Það var síðan um þrjúleytið sem 9 manna hópur á jafn mörgum sleðum lagði af stað frá bílunum, áleiðis upp Kaldbaksdalinn. Ferðalangar voru úr Eyjafirði og einn hafði lagt á sig akstur frá Reykjavík til að taka þátt í leiðangrinum. Vitað var um tvo til viðbótar sem orðið höfðu seinir fyrir og voru skammt á eftir auk þess sem aðrir fjórir ætluðu að leggja af stað seinna um daginn.
Fallegt vorveður og nægur snjór á Nýjabæjarfjalli.
Þegar komið var upp á Nýjabæjarfjallið var nægur snjór og gott færi. Öðru hverju var stoppað til að njóta útsýnisins og veðurblíðunnar. Fyrsti áfangastaðurinn var Laugafell þar sem hópurinn átti bensín. Þegar nær dró Laugafelli minnkaði snjórinn og því tók nokkurn tíma að finna færa leið. Á endanum komst allur hópurinn að skálunum og þar bættust við þeir tveir sem orðið höfðu seinir fyrir og hópurinn því stækkað í 11.
Ákveðið var að taka stefnuna á Gæsavatnaskála og hafa þar næturdvöl. Ekki voru þó allir jafn bjartsýnir á að þangað væri færst sökum snjóleysis enda kostaði það nokkrar krókaleiðir að komast fyrstu kílómetrana. Snjórinn jókst hins vegar eftir því sem austar dró og fljótlega voru allar þræðingar að baki. Ekki var mikið af krapablám, sumum til mikilla vinbrigða.
Spenningur við Bergvatnskvíslina
Fyrsti farartálminn sem mætti ferðalöngum var Bergvatnskvíslin skammt vestan Sprengisandsleiðar. Hún var opin þar sem komið var að henni og auk þess straumþung. Ekki virtust betri staðir til að fara yfir ofar eða neðar og því var ákveðið að leggja til atlögu. Var ekki laust við að nokkur spenningur ríkti í hópnum. Hlynur á Akri byrjaði á að skjótast yfir og gekk áfallalaust enda lausbeislaður á léttum sleða. Smári Sig. kom næstur á sínum WideTrac og var auk þess með kerru. Starumurinn hrifasaði sleðann undan ökumanni sem þó nái að hanga á honum öðru megin. Ferðin var rétt næg til þess að báðir komust yfir á hinn bakkann og ökumaðurinn blotnaði rétt hæfilega. Eftir þetta komu menn einn af öðrum og gengu gusurnar í allar áttir.
Áfram var haldið og þegar verið var að krækja fyrir Fjórðungsvatnið ók undirritaður sleða sínum í lækjarfarveg og braut öxul í búkkanum. Enginn varaöxull var með í för en viðgerðin sem framkvæmd var á staðnum er með þeim glæsilegri sem gerð hefur verið á fjöllum. Aðlaverkfærið var vasahnífur Sigurgeirs á Vélsmiðju Steindórs og hafði sá að geyma hin ólíklegustu verkfæri. Þar með tókst að bjarga ferðinni fyrir undirritaðann. Í Gæsavatnaskála var komið um miðnætti eftir að stðór hluti hópsinms hafði fest sleða sína í krapa við Fjórðungsvatnið. Þá var hafist handa við að sjóða og snæða saltkjöt en síðan lagst til svefns. Seinna um nóttina bættust við þeir 4 sem síðastir höfðu lagt af stað.
Um Vatnajökul þveran og endilangan
Risið var árla úr rekkju, eða um kl. 6 (enda hafði sumum ekki komið dúr á auga eftir saltkjötsátið um nóttina), og haldið af stað um kl. 8. Stefnan var tekin upp á Vatnajökul og inn í Grímsvötn. Veðrið hafði verið gott daginn áður en nú sannaðist hið forkveðna að lengi getur gott batnað. Þá var færið á jöklinum einnig sérlega gott. Hluti hópsins tafðist við viðgerð á einum sleðanum en þegar allir voru komnir upp á Grímsfjall var ákveðið að taka stefnuna á Skálafellsjökul og taka bensín við skála Jöklaferða. Sóttist ferðin þangað vel. Skálinn sjálfur er í 840 metra hæð yfir sjó og raunar það hótel á Íslandi sem hæst stendur.
Ákveðið var að hafa næturstað í Sigurðarskála í Kverkfjöllum en þegar aka átti af stað kom í ljós að tveir af sleðunum neituðu alfarið að fara lengra og hefur sennilega líkað félagsskapurinn á Skálafellsjökli vel. Þá varð því að skilja eftir en ökumenn og farangur fluttur á aðra sleða. Síðan var ekið yfir jökulinn í Kverkfjöll og niður að Sigurðarskála. Þangað var komið klukkan að ganga 11 eftir nokkuð brölt síðasta spottann. Að lokinni máltíð var lagst til hvílu og víst að margir urðu því fegnir enda löng dagleið að baki.
Heim á leið
Morguninn eftir var Sigurðarskáli kvaddur og byrjað á að skoða sig um í Kverkfjöllum. Víst er að ægifegurð staðarins lætur engan ósnortinn og sá sem þar stendur skilur vel setninguna „land elds og ísa,“ sem gjarnan er notuð um Ísland. Þarna má sjá endalaust samspil og átök jökulsins og jarðhitans sem engan endi tekur og má ekki á milli sjá hvor hefur betur.
Frá Kverkfjöllum var stefnan tekin á Gæsavötn að nýju, bensíni hellt á sleðana og síðan haldið áfram í Laugafell. Að sjálfsögðu er ómissandi að fara í laugina og síðan létu menn sólina þurrka sig. Að lokinni mikilli kvöldmáltíð var lagt af stað niður á Öxnadalsheiði. Var ekki laust við að fararskjótar væru orðnir nokkuð heimfúsir og því ekið greitt.
Botnrannsóknir á Nýjabæjarfjalli
„Hvern sjálfan andsk… var ég að gera,“ var það fyrsta sem flaug í gegnum huga söguritara er hann horfði á eftir sleða sínum hverfa ofan í krapabá skammt sunnan Urðarvatna. Alla jafna er lítið mál að sigla sleðum á vatni en nú fór eitthvað úrskeiðis. Vatnið var tæplega einn og hálfur metri að dýpt og langt til lands. Nú voru góð ráð dýr en eftir að hafa atast í vatninu góða stund, nær dauða en lífi af kulda, fékkst undirritaður til að koma í land og var snarlega færður í þurr föt. Annar sleði hafði sokkið skammt frá en þó nær landi.
Hófust nú björgunaraðgerðir sem hefðu verið óhugsandi nema vegna þess að tvennar vöðlur voru með í för. Að tæpum 4 tímum liðnum voru sleðarnir komnir á land og voru nú teknir í tog. Af 15 sleðum sem lögðu af stað voru því aðeins 11 eftir gangfærir. Aldrei stendur á mönnum í tilfellum sem þessum að fórna sleða sínum til að draga félagann. Slíkt er einfaldlega talið sjálfsagt mál þrátt fyrir að það hafi mikið óhagræði í för með sér fyrir þann sem dregur.
Eftir stutt kaffistopp í Berglandi var haldið af stað norður Nýjabæjarfjall og sóttist ferðin fremur seint. Að lokum komst hópurinn þó í bílana þótt ekki hafi gengið átakalaust að komast síðasta spölinn niður Kaldbaksdalinn. Þeir ökumenn sem drógu hlífðu tækjum sínum hvergi og gekk þetta allt betur en margir þorðu að vona. Um kl. 5 á mánudagsmorgni voru síðan flestir komnir heim til sín og ekki seinna vænna að fá sér smá blund þar sem vinnudagur var framundan.
Í ferðinni voru um 650 km lagðir að baki á þremur dögum. Allan tímann lék veðrið við ferðalangana og var ekki laust við að menn væru nokkuð skellóttir í andliti fyrstu dagana á eftir. Ferðafélagar voru: Úlfar Arason, Rúnar Arason, Hreiðar Hreiðarsson, Smári Sigurðsson, Úlfar Hreiðarsson, Sigurgeir Steindórsson, Kjartan Snorrason, Jón Björnsson, Tryggvi Aðalbjörnsson, Gunnar Sveinbjörnsson, Grétar Ingvarsson, Bolli Ragnarsson, Jóhann Oddgeirsson og Hlynur Þórsson. Texti og myndir: HA
(Þessi saga birtist upphaflega í dagblaðinu Degi 17. júlí 1993 og er birt hér lítið breytt)
-
-
Fallegt sumarveður og nægur snjór á Nýjabæjarfjalli.
-
-
Jóhann Oddgeirsson tekur Bergvantskvíslina með trompi.
-
-
Smári Sig. fer í þurr föt eftir smá bað í Bergvatnskvíslinni.
-
-
Slappað af í veðurblíðu við skála Jöklarannsóknafélagsins á Grímsfjalli.
-
-
Bolli Ragnarsson á leið til sleðaviðgerða á Grímsfjalli – vopnaður sög og myndarlegri stiku.
-
-
Á Skálafellsjökli, skammt fyrir ofan bækistöðvar Jöklaferða
-
-
Hverasvæðið við Hverkfjöll á sér ekki hliðstæðu og er ógleymanlegt að koma þar í svona fallegu veðri.
-
-
Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.
-
-
Við Laugafell á heimleið.