Haydays í 50 ár

Í júlí árið 1966 komu nokkrir vinir saman og lögðu fyrstu drög að stofnun vélsleðafélags sem þeir seinna gáfu nafnið Snow-Barons. Haustið eftir ákváðu þeir að reyna með sér í spyrnukepppni og þar með var hafin vegferð sem stendur enn þann dag í dag. Engum sögum fer af tímunum sem náðust, enda tækin í þá daga ansi frábrugðin sleðum nútúmans. En þetta uppátæki þróaðist í að verða stærsti viðburðurinn í sleðaheiminum ár hvert og „formlegt upphaf vetrarins“ eins og eru einkennisorð Haydays í dag.

Heimsókn á Haydays hefur lengi verið á óskalistanum og því var eiginlega ekki annað hægt en láta verða af því á 50 ára afmæli viðburðarins, haustið 2016. Svo heppilega vill til að einkasonurinn er einnig forfallinn sleðaáhugamaður, hvernig svo sem það hefur atvikast. Hann féllst því á að veita föður sínum félagsskap í ferðinni og það án þess að beita þyrfti fortölum sem heitir.

Sem fyrr segir byrjaði Haydays sem spyrnukeppni og hún leikur enn verulegt hlutverk, þótt í raun séu aðrir þættir sem miklu frekar draga fólk að og aðrar keppnisgreinar sem fá meira áhorf. Þróunin hefur orðið sú að í raun er orðin skyldumæting fyrir alla sem á annað borð vilja láta taka sig alvarlega í sleðaheiminum – sleðaframleiðendur, aukahlutafyrirtæki, fataframleiðendur, keppnisliðin o.fl. o.fl. Að auki er svo hið risastóra „Swap-meet“ þar sem hinir aðskiljanlegustu aðilar mæta með notaða hluti og nýja, jafnvel bara það sem kom fram í dagsljósið við síðustu tiltekt í bílskúrnum. Þarna ægir því öllu saman í bókstaflegri merkingu, þannig að úr verður viðburður sem á engan sinn líka.

Á hverju ári er síðan reynt að vera með sérstakan viðburð sem trekkir að og í ár var það risastökk goðsagnarinnar Levi Lavalle sem vippað sér án vandræða rúma 60 metra, enda á hann reyndar að baki ca. helmingri lengra stökk á vélsleða yfir höfnina í San Diego.

Að sjálfsögðu blómstra viðskiptin, bæði með notað og nýtt, og á tíðum hægt að gera ansi góð kaup samanborið við búðarverð á Íslandi. Fyrir Íslendinga er afar einfalt að heimsækja Haydays. Icelandair flýgur til Mineapolis og þaðan er innan við klukkutíma akstur á svæðið. Ágætt er að gista inni í Minneapolis, því þótt borgin verið seint talin sú skemmtilegasta í Bandaríkjunum þá er óvíða hagstæðara að versla.

Hér að neðan fylgja svo nokkrar myndir úr ferðinni.

Grænn dagur í Ólafsfirði

Arctic Cat menn fóru sælir og sáttir heim úr fyrstu umferð Íslandsmótsins í snjókrossi sem framm fór í Ólafsfirði í dag. Þeir unnu sigur í öllum flokkum, Aðalbjörn Tryggvason í unglingaflokki, Ásgeir Frímannsson í sportflokki og Íslandsmeistarinn Helgi Reynir Árnason í meistaraflokki. Ekki skemmdi heldur fyrir stemmningu heimamanna að allir eiga þeir að meira eða minna leyti rætur sínar í Ólafsfirði.

Veður var mjög gott í Ólafsfirði í dag og öll umgjörð keppninnar til fyrirmyndar, bæði fyrir áhorfendur og keppendur, eins og venja er. Er leitun að mótorsportviðburði hérlendi sem er jafn vel skipulagður og snjókross mótaröðin. Aðstæður til aksturs voru reyndar erfiðar en hiti var nokkuð yfir frostmarki og því grófst brautin mikið. Urðu talsverð afföll bæði af sleðum og ökumönnum, sem setti mark sitt á keppnina þegar á leið.

Reynsluboltar í unglingaflokki

Gaman var að fylgjast með baráttunni í unglingaflokki og eru sumir ökumenn þar orðnir mjög flinkir, enda komnir með talsverða reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Baráttan stóð einkum á milli Aðalbjörns Tryggvasonar (Adda) og Sæþórs Sigursteinssonar, sem báða má flokka undir “reynslubolta” í faginu, og síðan nýliðans Baldvins, sem sýndi fantagóðan akstur á köflum. Í úrslitahítinu var það Addi sem fór með sigur af hólmi og þar á eftir komu Sæþór og svo Baldvin.

Ásgeir einráður

Sportflokkurinn var gríðarlega spennandi og margir keppendur. Heimamaðurinn Ásgeir Frímannsson sýndi frábæran akstur og sigraði í öllum hítum. Hann varð Íslandsmeistari í unglingaflokki sl. vor og verður greinilega ekki auðunninn í vetur. Annar keppandi úr unglingaflokki í fyrra, Jónas Stefánsson (Jonni), sýndi einnig snilldartakta. Nokkrir nýliðar mættu til leiks í sportflokkinn og sýndu flott tilþrif. Einn þeirra, Kári Jónsson, gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti í úrslitahítinu, á milli þeirra Ásgeirs og Jonna.

Íslandsmeistarinn seigur

Gríðarleg barátta var í meistaraflokknum, eins og við var að búast. Eyþór Hemmert Björnsson sýndi hvers hann er megnugur og vann fyrstu tvö hítin með svakalegum akstri. En í þriðja híti bilaði sleðinn og gekk ekki eðlilega en þrátt fyrir það tókst honum að vinna. Var hálf broslegt að fylgjast með honum landa sigri á fretandi sleðanum án þess að keppinautunum tækist að vinna á hann svo neinu næmi. En fyrir úrslitahítið var hann því nánast úr leik og dólaði bara með til að safna stigum. Því var allt galopið í startinu og allt útlit fyrir hörkubaráttu um sigurinn. Hún hlut því snöggan endi strax í fyrsta hring þegar Austfirðingarnir Steinþór og Fannar lentu í samstuði. Eftir það var leiðin greið til sigurs fyrir Íslandsmeistarann Helga Reynir en um annað sætið börðust Guðmundur Rafn (Galfýr) Jónsson og Reynir Stefánsson, eða Brói, sem mættur var á ný í slaginn eftir nokkurra ára hlé. En Ólafsfirðingurinn síkáti, eins og þulur mótsins nefndi Galfýrinn, landaði öðru sætinu að lokum.

Nýr Ski-doo slær í gegn á fyrsta WSA-mótinu

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Fjörið í snjókrossinu vestan hafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn. Ekki liggja enn fyrir miklar upplýsingar um þetta nýja tæki en ljóst er að það svínvirkar með nýrri gerð af framfjöðrun og vægast sagt flottu útliti.

Á föstudaginn var keppt um átta laus sæti á X-games og þar stóð uppi sem öruggur sigurvegari Curt Peterson á einum hinna nýju Ski-doo sleða. Hann bar m.a. sigurorð af mönnum eins og Carl Kuster, Kurtis Crapo, Earl Reimer, Matt Judnick, Todd Wolff, Tomi Ahmasalo og Michael Island en þessir tryggðu sér allir sæti á X-games. Samtals voru það sjö ökumenn á Ski-Doo, fimm á Polaris og tveir á Arctic Cat sem kepptu í úrslitahíti um laus sæti á X-games.

Meistarar með misgóða takta

Á laugardaginn var keppt í undanriðlum í Pro Open og Pro Stock og þá mættu allir “stóru” karlarnir til leiks. Margir sýndu góða takta en enginn þó eins og Polarisökumaðurinn og Íslandsvinurinn Noel Kohanski sem sigraði á alþjóðlega mótinu í Ólafsfirði sl. vor. Hann var greinilega enn heitur frá því í Ólafsfirði og fór nær ósigraður í gegnum daginn. Annar Polarisökumaður, Levi Lavallee, sigraði í Semi-Pro Open en þar lauk keppni á laugardaginn.

Sumar stórstörnurnar áttu erfitt uppdráttar á köflum. T.d. átti Blair Morgan, sem nú mætti til leiks á Ski-doo, í basli með kúplinguna og Tucker Hibbert átti einnig í basli með nýja Sno Proinn. Cris Vincent, sem nú keppir fyrir Yamaha, náði öðru sæti í einu híti og sýndi að nýi Yamminn er til alls vís. Toni Haikonen (nú á Arctic Cat), Earl Reimer og Carl Schubitzke “enduðu” allir daginn mis mikið meiddir.