Kawasaki Invader

Kawazaki Invader austan við Hofsjökul á leið á Landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum.

Kawazaki Invader austan við Hofsjökul á leið á Landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum 1987.

Þegar forsvarsmenn Kawasaki kynntu fyrstu sleðalínu sína árið 1978 var markið sett hátt. Framleiða átti heimsins besta sleða, hvorki meira né minna. Raunar átti innrás Kawasaki á vélsleðamarkaðinn sér nokkurn aðdraganda. Í kringum 1970 sá Kawasaki Arctic Cat fyrir vélum og árið 1976 keyptu þeir SnoJet og settu á markað sleða undir nafninu Kawasaki SnoJet. Tveimur árum síðar höfðu liðsmenn Kawasaki síðan viðað að sér nægjanlegri þekkingu til að hefja eigin framleiðslu.

Kawasaki lýsti því yfir leynt og ljóst að þeir ætluðu að framleiða sleða sem tæki öðrum sleðum fram á öllum sviðum. Þeir myndu framleiða hraðskreiðasta sleðann, þann sem væri best að keyra og þann fallegasta. Flaggskip flotans í upphafi var Invader og því eðlilegt að spyrja hvort hann hafi staðið undir þessum markmiðum? Þetta var vissulega góður sleði á sínum tíma, að mörgu leyti á undan sinni samtíð en þó varla bestur á öllum sviðum. Til að framleiða hraðskreiðasta sleðann töldu tæknimenn Kawasaki að hann þyrfti að ná 100 mílna hraða á klukkustund. Invaderinn var vissulega hraðskreiður af 440 sleða að vera en stóð þó tæpast undir þessu markmiði. Til þess þurfti fleiri hestöfl en þau 71 sem hann var jafnan talinn.

Sem fyrr segir var hann að ýmsu leyti á undan sinni samtíð. Hann var t.d. vatnskældur og með sjálfvirka olíublöndun, sem ekki var algengt að sameina í sleðum á 8. áratugnum. Til að tempra hitastigið reyndist nauðsynlegt að koma fyrir í honum vatnskassa, nokkuð sem tæknimenn Kawasaki voru ekki hrifnir af en neyddust til að gera til að vélin bræddi ekki úr sér. Sleðinn var vel búinn, með tvöföldu sæti, hraðamæli, snúningshraðamæli og hitamæli en það síðastnefnda hefur ekki enn ratað í alla sleða. Til að ná fram heimsins bestu aksturseiginleikum var talið nauðsynlegt að hafa þyngdarpunktinn sem lægstan og í reynslueintökum af sleðanum lá vélin á hliðinni. Þessu fylgdu þó önnur vandamál sem ekki tókst að leysa og því kom sleðinn á markað með upprétta vél. Hún sat á sérstökum gúmmípúðum til að draga úr víbringi út í boddíið, lausn sem tæknimenn Kawasaki fengu mikið hrós fyrir á sínum tíma.

Þegar markmiðið var að framleiða sleða með heimsins bestu aksturseiginleikum gæti manni dottið í hug að hann hefði verið útbúinn með byltingarkenndu fjöðrunarkerfi. Þessu var þó ekki að heilsa. Þvert á móti var notast við hefðbundnar blaðfjaðrir að framan og fremur ómerkilega snúna gorma í búkkanum. Sleðinn var lágur að framan og stýrði sérlega vel en óslétt land fór ekki vel í hann. Raunar var afturfjöðrunin sennilega veikasti punktur hans. Útlit sleðans var hins vegar í góðu lagi. Húddið var sérlega rennilegt og rúsínan í pylsuendanum var aðalljósið sem féll ofan í húddið en small upp þegar átti að nota það, svipað og á fínustu sportbílum. Frábær markaðssetning sleðans er enn í minnum höfð þar vestra og seldist hann upp strax á fyrsta ári.

Á Langjökli á landsmóti LÍV í Kerliungafjöllum 1987.

Á Langjökli á landsmóti LÍV í Kerlingarfjöllum 1987.

Þó svo Kawasaki sé japanskt merki voru sleðarnir alfarið bandarísk hönnun og smíði. Höfuðstöðvar rannsókna- og þróunarstarfs voru í Shakopee í Minesota og þar var ekkert til sparað. M.a. var þar var reynsluakstursbraut með fullkomnum búnaði til snjóframleiðslu og var brautin eftirmynd hinnar frægu Eagle River keppnisbrautar. Sjálf framleiðslan fór hins vegar fram í Nebraska.

Invaderinn var framleiddur náast óbreyttur frá 1978 til 1981, sem var síðasta framleiðsluár hans. Nýjasta árgerðin er þó með rauðum strípum í stað blárra. Árið 1982 tók LTD við sem flaggskip Kawasaki en náði sér aldrei verulega á flug.

Þó svo að Kawaski hafi ekki náð því markmiði að framleiða heimsins bestu sleða á öllum sviðum náðu þeir engu að síður góðum árangri og sleðarnir seldust vel. Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Kawasaki lokaði vélsleðadeild sinni þann 12. mars 1982. Ástæðan er mönnum enn þann dag í dag hulin ráðgáta. Brotthvarf þessara ágætu sleða er því einn af leyndardómum vélsleðasögunnar.

Fyrsti sleðinn sem ég eignaðist var einmitt forláta Kawasaki Invader 440 árg 1981 og eru myndirnar sem fylgja af honum. Ekki þekki ég neitt til bakgrunns hans en var sagt að Kennedybræður hefðu flutt inn nokkra svona sleða og þetta væri einn af þeim. Sleðinn var í minni eigu veturinn 1986-1987 og var mikið notaður í bæði styttri og lengri ferðir. Hann fór síðan út í Ólafsfjörð og mun vera þar enn og í fullu fjöri.

 

Harley-Davidson

harley

Þetta er líkast til mynd af síðustu árgerðinni. Í framfjöðrunina er komin einföld fjöðun og dempari. Takið eftir tvískiptum meiðanum og innfelldu, tvöföldu framljósinu.

Áttundi áratugurinn var mikil gósentíð fyrir sleðamenn og þá höfðu þeir úr mun fleiri tegundum að velja en nú er. Þar á meðal voru sleðar frá Harley-Davidson. Þó nokkrir slíkir komu til Íslands og eflaust má enn finna ágætis eintök í skúrum hingað og þangað um landið.

Harley-Davidson fyrirtækið á sér langa sögu og er auðvitað þekktast í seinni tíð fyrir framleiðslu á mótorhjólum. Líkt og með mótorhjólin var Harley-Davidson vélsleðunum aldrei ætlað að vera í hópi þeirra hraðskreiðustu eða kraftmestu. Stefnt var á að framleiða sleða sem fyrst og fremst væru traustir og lausir við bilanir. Aðeins voru tvær gerðir í boði og eini munurinn lá í vélarstærðinni. Þó svo að sleðarnir hafi tekið talsverðum breytingum frá tæknilegu sjónarmiði þau fimm ár sem þeir voru framleiddir var útlitið alla tíð hið sama. Hljómar þetta e.t.v. kunnuglega?

Tvær gerðir
Fyrsti sleðinn sem rúllaði út af framleiðslulínunni var 398 cc eðalvagn. Árið var 1970 og þær raddir heyrðust jafnvel að útlitið væri allt að því nýtískulegt. Enda var það svo að miðað við sleða þess tíma var Harley-inn í fínu lagi. Hann þótti góður í akstri, var útbúinn ýmsum þægindum sem þá þekktust vart í sleða og reyndist vel. Harley-Davidson sló því hvergi slöku við og kynnti annan sleða til sögunnar ári seinna, reyndar nákvæmlega eins og þann fyrr nema með 440 cc vél. Þá var hann svartur á litinn en 398 sleðinn var hvítur. Stærri sleðinn var talinn 35 hestöfl og sá minni 32.
Í markaðssetningunni var frá upphafi lögð áhersla á farsæla sögu Harley-Davidson, sem nær allt aftur til ársins 1903, til þess að sýna að hér væri traust framleiðsla á ferðinni. Vélarnar smíðaði fyrirtækið sjálft, sem og reyndar flest annað í sleðanum. T.d. var fremri kúplingin einstök að því leyti að hún var lokuð og voru viktar og rúllur í olíubaði. Kúplinginn átti líka að endast jafn lengi og sleðinn, ef ekki lengur.

Vel búinn
Harley-inn var engin léttavara enda smíðaður að stórum hluta úr gæðastáli. Hjólabúkki var staðalbúnaður en hægt að fá búkka með meiðum án aukakostnaðar. Sá var reyndar sérstakur þar sem meiðarnir voru tvískiptir og gátu fremri og aftari hlutinn að einhverju leyti fjarðrað hvor fyrir sig. Í sleðunum má finna ýmislegt sem komið er frá mótorhjólunum, t.d. var dempari á stýrisarminum og handfangið fyrir bremsuna var greinilega ættað úr mótorhjóladeildinni. Það var talsvert stærra en bensíngjöfin, líkt og nú tíðkast, en fram að því notuðu flestir framleiðendur samskonar bensíngjöf og bremsuhandfang. Af öðrum búnaði má nefna 18 tommu breitt belti sem gerði sleðann ágætlega stöðugan, stillanlegt stýri, litað gler í framrúðu, tvöfalt aðalljós sem fellt var inn í húddið o.fl. Einnig var hægt að fá rafstarft, snúningshraðamæli, sígarettukveikjara og krómpakka.

Sleðarnir héldust að mestu óbreyttir þar til 1974 árgerðin kom á markað. Hlesta umkvötunarefnið hafði verið að þeir þóttu helst til svifaseinir en í stað þess að fjölga hestöflum fór Harley þá leið að létta sleðana um c.a. 25 kg. Stálinu var t.d. skipt út fyrir ál og plast. Ýmsar fleiri breytingar fylgdu svo sem nýjar mótorfestingar, stærri bensíntankur og aukin hljóðeinangrun. Einnig var fjögurra blaða framfjöðruninni skipt út og í staðin kom eitt blað og dempari. Þá var sætið endurhannað og kom nú lagskipt. Neðst var svamplag, síðan kom krossviðsplata og loks annað svamplag. Hlutverk krossviðsins var að dreifa högginu um allt sætið í stað þess að það kæmi allt á þann punkt þar sem ökumaðurinn sat.Útlit sleðans var hins vegar óbreytt.

Framleiðslu hætt
Það að létta sleðann hafði hins vegar í för með sér vandamál því nú hvíldi minni þungi á skíðunum þannig að hann stýrðist verr. Þetta vandamál var leyst í næstu árgerð, 1975, sem raunar var síðasta framleiðsluár Harley-Davidson vélsleða. Búkkafestingar voru færðar aftur og allir voru ánægðir. Í þessari síðustu árgerð var aflið einnig aukið lítillega, úr 32 í 34 hestöfl í minni sleðanum og úr 35 í 37 í þeim stærri. Eftir að tæknimenn Harley höfði gert þessar breytingar kom síðan skyndilega skipun frá höfuðstöðvunum að framleiðslunni skyldi hætt. Það vakti nokkra athygli að Harley-Davidson, OMC og Mercury tilkynntu nær samtíimis að sleðaframleiðslu yrði hætt. Sterkur orðrómur var á kreiki um að fyrirtækin hefðu sammælst um þessa ákvörðun en enginn veit hins vegar, ef satt er, hver tilgangur þess var.