Þegar forsvarsmenn Kawasaki kynntu fyrstu sleðalínu sína árið 1978 var markið sett hátt. Framleiða átti heimsins besta sleða, hvorki meira né minna. Raunar átti innrás Kawasaki á vélsleðamarkaðinn sér nokkurn aðdraganda. Í kringum 1970 sá Kawasaki Arctic Cat fyrir vélum og árið 1976 keyptu þeir SnoJet og settu á markað sleða undir nafninu Kawasaki SnoJet. Tveimur árum síðar höfðu liðsmenn Kawasaki síðan viðað að sér nægjanlegri þekkingu til að hefja eigin framleiðslu.
Kawasaki lýsti því yfir leynt og ljóst að þeir ætluðu að framleiða sleða sem tæki öðrum sleðum fram á öllum sviðum. Þeir myndu framleiða hraðskreiðasta sleðann, þann sem væri best að keyra og þann fallegasta. Flaggskip flotans í upphafi var Invader og því eðlilegt að spyrja hvort hann hafi staðið undir þessum markmiðum? Þetta var vissulega góður sleði á sínum tíma, að mörgu leyti á undan sinni samtíð en þó varla bestur á öllum sviðum. Til að framleiða hraðskreiðasta sleðann töldu tæknimenn Kawasaki að hann þyrfti að ná 100 mílna hraða á klukkustund. Invaderinn var vissulega hraðskreiður af 440 sleða að vera en stóð þó tæpast undir þessu markmiði. Til þess þurfti fleiri hestöfl en þau 71 sem hann var jafnan talinn.
Sem fyrr segir var hann að ýmsu leyti á undan sinni samtíð. Hann var t.d. vatnskældur og með sjálfvirka olíublöndun, sem ekki var algengt að sameina í sleðum á 8. áratugnum. Til að tempra hitastigið reyndist nauðsynlegt að koma fyrir í honum vatnskassa, nokkuð sem tæknimenn Kawasaki voru ekki hrifnir af en neyddust til að gera til að vélin bræddi ekki úr sér. Sleðinn var vel búinn, með tvöföldu sæti, hraðamæli, snúningshraðamæli og hitamæli en það síðastnefnda hefur ekki enn ratað í alla sleða. Til að ná fram heimsins bestu aksturseiginleikum var talið nauðsynlegt að hafa þyngdarpunktinn sem lægstan og í reynslueintökum af sleðanum lá vélin á hliðinni. Þessu fylgdu þó önnur vandamál sem ekki tókst að leysa og því kom sleðinn á markað með upprétta vél. Hún sat á sérstökum gúmmípúðum til að draga úr víbringi út í boddíið, lausn sem tæknimenn Kawasaki fengu mikið hrós fyrir á sínum tíma.
Þegar markmiðið var að framleiða sleða með heimsins bestu aksturseiginleikum gæti manni dottið í hug að hann hefði verið útbúinn með byltingarkenndu fjöðrunarkerfi. Þessu var þó ekki að heilsa. Þvert á móti var notast við hefðbundnar blaðfjaðrir að framan og fremur ómerkilega snúna gorma í búkkanum. Sleðinn var lágur að framan og stýrði sérlega vel en óslétt land fór ekki vel í hann. Raunar var afturfjöðrunin sennilega veikasti punktur hans. Útlit sleðans var hins vegar í góðu lagi. Húddið var sérlega rennilegt og rúsínan í pylsuendanum var aðalljósið sem féll ofan í húddið en small upp þegar átti að nota það, svipað og á fínustu sportbílum. Frábær markaðssetning sleðans er enn í minnum höfð þar vestra og seldist hann upp strax á fyrsta ári.
Þó svo Kawasaki sé japanskt merki voru sleðarnir alfarið bandarísk hönnun og smíði. Höfuðstöðvar rannsókna- og þróunarstarfs voru í Shakopee í Minesota og þar var ekkert til sparað. M.a. var þar var reynsluakstursbraut með fullkomnum búnaði til snjóframleiðslu og var brautin eftirmynd hinnar frægu Eagle River keppnisbrautar. Sjálf framleiðslan fór hins vegar fram í Nebraska.
Invaderinn var framleiddur náast óbreyttur frá 1978 til 1981, sem var síðasta framleiðsluár hans. Nýjasta árgerðin er þó með rauðum strípum í stað blárra. Árið 1982 tók LTD við sem flaggskip Kawasaki en náði sér aldrei verulega á flug.
Þó svo að Kawaski hafi ekki náð því markmiði að framleiða heimsins bestu sleða á öllum sviðum náðu þeir engu að síður góðum árangri og sleðarnir seldust vel. Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Kawasaki lokaði vélsleðadeild sinni þann 12. mars 1982. Ástæðan er mönnum enn þann dag í dag hulin ráðgáta. Brotthvarf þessara ágætu sleða er því einn af leyndardómum vélsleðasögunnar.
Fyrsti sleðinn sem ég eignaðist var einmitt forláta Kawasaki Invader 440 árg 1981 og eru myndirnar sem fylgja af honum. Ekki þekki ég neitt til bakgrunns hans en var sagt að Kennedybræður hefðu flutt inn nokkra svona sleða og þetta væri einn af þeim. Sleðinn var í minni eigu veturinn 1986-1987 og var mikið notaður í bæði styttri og lengri ferðir. Hann fór síðan út í Ólafsfjörð og mun vera þar enn og í fullu fjöri.


