Haydays í 50 ár

Í júlí árið 1966 komu nokkrir vinir saman og lögðu fyrstu drög að stofnun vélsleðafélags sem þeir seinna gáfu nafnið Snow-Barons. Haustið eftir ákváðu þeir að reyna með sér í spyrnukepppni og þar með var hafin vegferð sem stendur enn þann dag í dag. Engum sögum fer af tímunum sem náðust, enda tækin í þá daga ansi frábrugðin sleðum nútúmans. En þetta uppátæki þróaðist í að verða stærsti viðburðurinn í sleðaheiminum ár hvert og „formlegt upphaf vetrarins“ eins og eru einkennisorð Haydays í dag.

Heimsókn á Haydays hefur lengi verið á óskalistanum og því var eiginlega ekki annað hægt en láta verða af því á 50 ára afmæli viðburðarins, haustið 2016. Svo heppilega vill til að einkasonurinn er einnig forfallinn sleðaáhugamaður, hvernig svo sem það hefur atvikast. Hann féllst því á að veita föður sínum félagsskap í ferðinni og það án þess að beita þyrfti fortölum sem heitir.

Sem fyrr segir byrjaði Haydays sem spyrnukeppni og hún leikur enn verulegt hlutverk, þótt í raun séu aðrir þættir sem miklu frekar draga fólk að og aðrar keppnisgreinar sem fá meira áhorf. Þróunin hefur orðið sú að í raun er orðin skyldumæting fyrir alla sem á annað borð vilja láta taka sig alvarlega í sleðaheiminum – sleðaframleiðendur, aukahlutafyrirtæki, fataframleiðendur, keppnisliðin o.fl. o.fl. Að auki er svo hið risastóra „Swap-meet“ þar sem hinir aðskiljanlegustu aðilar mæta með notaða hluti og nýja, jafnvel bara það sem kom fram í dagsljósið við síðustu tiltekt í bílskúrnum. Þarna ægir því öllu saman í bókstaflegri merkingu, þannig að úr verður viðburður sem á engan sinn líka.

Á hverju ári er síðan reynt að vera með sérstakan viðburð sem trekkir að og í ár var það risastökk goðsagnarinnar Levi Lavalle sem vippað sér án vandræða rúma 60 metra, enda á hann reyndar að baki ca. helmingri lengra stökk á vélsleða yfir höfnina í San Diego.

Að sjálfsögðu blómstra viðskiptin, bæði með notað og nýtt, og á tíðum hægt að gera ansi góð kaup samanborið við búðarverð á Íslandi. Fyrir Íslendinga er afar einfalt að heimsækja Haydays. Icelandair flýgur til Mineapolis og þaðan er innan við klukkutíma akstur á svæðið. Ágætt er að gista inni í Minneapolis, því þótt borgin verið seint talin sú skemmtilegasta í Bandaríkjunum þá er óvíða hagstæðara að versla.

Hér að neðan fylgja svo nokkrar myndir úr ferðinni.

Hvítasunnutúr í bongóblíðu

Vortúrar um hálendið er eitt af því sem heillar við sleðamennskuna og hvítasunnuhelgin 2016 var sannkallað hlaðborð lystisemda. Ekið var því sem næst úr bílskúrnum en lagt var upp frá Geldingsárréttinni í Vaðlaheiði á föstudagskvöldi, með Gæsavötn sem áfangastað. Farið var um Gönguskörð og svo sem leið liggur inn fjallið, með viðkomu í skálunum Landakoti og Sandbúðum. Þaðan austur á bóginn, yfir Skjálfandafljótsbrú og í Gæsavötn. Tók ferðin í heild sétta 3 tíma.

Laugardagsmorgun heilsaði með sól og blíðu. Planið var að kíkja í Dyngjufjöll og þaðan í Kverkfjöll en upp Trölladyngju sást að enn var ekki orðið vel bjart í Dyngjufjöllunum þannig að þeim var sleppt og farið beint austur fyrir framan Dyngjujökul. Lítilsháttar þræðingar voru á Flæðunum og smá krókur að finna snjóbrú á meginkvísl Jökulsár en þegar hún fannst var leiðin greið í Kverkfjallarana með kafsnjó. Stefnan var að sjálfsögðu á bað í Hveragili og reyndist baðvatnið vera í heitari kantinum. Þaðan var ekið upp á eystri hrygg Kverkfjalla, tekinn sveigur fyrir Kverkina, höfð viðkoma við skála Jöklarannsóknafélagsins og niður Löngufönn í Sigurðarskála. Til baka í Gæsavötn var farið um Dyngjujökul með viðkomu á Kistufelli. Um kvöldið var slegð upp veislu, enda gott dagsverk að baki.

Ekki var veðrið sem sunnudagurinn bauð upp á neitt síðra en daginn áður og eftir hefðbundin morgunverk og frágang var lagt í‘ann á jökul, áleiðis í Grímsvötn. Ferðin sóttist vel þótt færið væri í harðara lagi. Eftir viðkomu á Grímsfjalli var haldið niður Köldukvíslarjökul, áð í Vonarskarði og síðan haldið vestur yfir Tungnafellsjökul. Vestan hans var ferkar snjólétt yfir að líta en fyrir vana menn var létt að rata á réttu snjólænurnar vestur fyrir Fjórungsöldu. Gott stopp var tekið í Laugafelli og þar tekin ákvörðun um að setja smá krydd í heimferðina. Í stað þess að stefna niður austan Eyjafarðar og niður á Vaðlaheiði var brunað norður Nýjabæjarfjall og svokölluð „Dalvíkingaleið“, niður Glerárdal og endað á gömlu öskuhaugunum ofan Akureyrar. Að baki var góð 550 km ferð í frábæru veðri og færi.

Ferðafélagar voru þeir Hreiðar í Vín, Gunni Garðars, Ingólfur Finnsson, Úlfar Arason og Sigurgeir Steindórsson.

 

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn 2015 var óvenju seint á ferðinni og kom það ýmislegt til, einkum þó óvenju kalt vor og að helgar með virkilegum blíðviðrisdögum virtust einfaldlega ekki vera á boðstólnum. Einhverjir vildu reyndar meina að það vantaði bara meira bit í karlanna en á það var ekki hlustað. Loks var brottför ákveðin 17. júní, enda ekki seinna vænna. Ferðaáætlun á þessum ártíma er hefðbundin því ekki er mikið val um færar sleðaleiðir á hálendinu þegar svo langt er liðið á árið. Alla jafna er lagt upp af Öxnadalsheiði og stefnan tekinn austur á bóginn þvert yfir Sprengisand, áleiðis að Vatnajökli.

Fjallið alltaf jafnt „skemmtilegt“
Flokkurinn taldi aðeins fjóra að þessu sinni þegar ekið var inn Kaldbaksdalinn á Öxnadalsheiði síðdegis 17. júní. Hreiðar Hreiðarsson (eða Formaðurinn), Jón Trausti Björnsson og Úlfar Arason, auk undirritaðs. Nokkrar þræðingar voru neðst í dalnum en síðan var leiðin greið inn á Nýjabæjarfjall. Þar var eins og jökull yfir að líta, eða hefði a.m.k. verið með útsýni umfram þá 5 metra sem í boði voru. Aksturinn inn fjallið sóttist hins vegar ágætlega að því frátöldu að sleði Formannsins virtist ekki of spenntur fyrir ferðalaginu og gekk nokkuð köflótt. En áfram var haldið og heldur birti til þegar halla fór niður af Nýjabæjarfjallinu. Áfangastaðurinn var Laugafell og eins og hefðbundið er á vorin þá kostaði talsverða króka og þræðingar að finna færa leið síðustu kílómetrana.

Lífinu tekið með ró
Veðurspáin hafði gert ráð fyrir frekar þungbúnu veðri daginn eftir og þegar risið var úr rekkju kom í ljós að spáin hafði fyllilega gengið eftir. Vonir voru um að létta myndi til seinnipartinn og lífinu því tekið með ró, dvalið lengi í morgunmat, legið enn lengur í lauginni og sagðar mun fleiri sögur. En að lokum var ákveðið að síga af stað áleiðis austur í Gæsavötn og láta reyna á hvort þangað væri enn fært á sleða.

Babb í bátinn
Ekki höfðu menn lengi ekið þegar í ljós kom að eitthvað var bogið við einn sleðann og skoðun leiddi í ljós að fremri kúplingin var brotin í tvennt. Engar forsendur voru því fyrir því að hann gæti langt upp í ferð lengra inn á hálendið og nú sest á rökstóla um hvað til bragð ætti að taka. Einróma niðurstaða var að reyna að koma sleðanum aftur niður á Öxnadalsheiði, keyra í bæinn, sækja nýjan sleða og halda ferðinni áfram, eða hefja hana að nýju, eftir því hvernig á það er litið. Brotið var nú stillt af og kúplinsboltinn hertur eins og hægt var með „skiptilykilsræfli“ sem Formaðurinn lagði til. Síðan var snúið við en stoppað reglulega til að huga að herslunni.

Ein með öllu
Aftur var Nýjabæjarfjallið ekið í fullkomnu skyggnisleysi og ekki laust við að mannskapurinn væri nokkuð feginn að komast í bílana niður á Öxnadalsheiði. Voru nú höfð hröð handtök, sleðanum hent á kerru og brunað áleiðis til Akureyrar. Sleðaskiptin á hlaðinu hjá Jóni gengu hratt og vel og gáfu menn sér naumlega tíma til að fá sér pylsu og kók í Krókeyrarnesti (sem heitir víst Leirunesti eða eitthvað svoleiðis í dag) áður en brennt var aftur upp á heiði. En þetta mun vera ein af fáum hálendisferðum þar sem menn hafa fengið sér eina með öllu í miðjum túr.

Ekki skánar Fjallið
Og enn var mannskapurinn staddur á Öxnadalsheiði, sléttum sólarhring eftir að lagt var af stað hið fyrra sinni. Framundan var Nýjabæjarfjallið og vonir um meiri birtu reyndust ekki á rökum reistar. Skyggnisleysið var jafnvel enn meira en áður og sami rigningarhraglandinn og verið hafði í hin tvö skiptin. Planið var að paufast austur í Gæsavötn, með viðkomu í Laugafelli til að taka bensín, en hvorki veður né skyggni gerðu slíka ferð aðlaðandi þegar á reyndi. Langt var liðið á kvöld þegar rennt var í hlað í Laugafelli, í nánast ausandi rigningu. Var einróma ákvörðun að láta gott heita af vélsleðaakstri þennan daginn og hefja frekar eldamennsku. Snarað var upp sverum steikum með meðlæti og fljótlega skriðið í poka.

Sjö sólir á lofti
Kvenréttindadagurinn 19. júní heilsaði með allt öðru veðri en kvöldið áður. Brostið var á með brakandi blíðu, sjö sólir á lofti og ljóst að nú væri góður dagur framundan. Jón rak því mannskapinn á fætur með fyrra fallinu en að sjálfsögðu gáfu menn sér þó tíma til að skreppa aðeins í laugina.

Bjart framundan
Fátt er skemmtilegra en að þeysa um hálendið að vori til í sól og blíðu og nú voru sannarlega þannig aðstæður. Stefnan var fyrst tekin á Sandbúðir, norðan Fjórðungsöldu, þaðan sem fá má ágætis útsýni um leiðina áfram austur. Þaðan þótt sýnt að taka þyrfti sveig suður á bóginn og því farið suður fyrir hraunið, í hæðirnar norður af Tungnafellsjökli og þaðan áleiðis aftur norður að brúnni yfir Skjálfandafljót. Frá henni var ekki lengi gert að renna í Gæsavötn, enda höfðu menn aldrei séð svo góðan vorsnjó austan Fljóts. Karlar voru því bara nokkuð sperrtir að vera komnir í Gæsavötn á sleða 19. júní og sannfærðu hvern annan um að það hefði aldrei áður verið gert.

Klippt á snjóinn
Eftir gott kaffistopp var ákveðið að halda áfram austur og freista þess að kíkja á Holuhraun hið nýja. Flottur snjór var fyrir framan jökul og magnað færi. Stefnt var á Kistufell og síðan yfir Urðarhálsinn, með viðkomu hjá jarðfallinu magnaða sem þar er. En fyrir austan Urðarháls var hins vegar klippt á snjóinn, autt alveg frá jökulsporði og svo langt norður sem augað eygði. Því var ljóst að lengra yrði ekki farið á sleða með þessari stefnu. Var nú dólað til baka að skálanum við Kistufell, þaðan upp á Kistufellið og til baka í Gæsavötn, alltaf í sömu rjómablíðunni.

Í blautara lagi
Á pallinum í Gæsavötnum létu menn líða úr sér góða stund en síðan var nefi snúið heim á leið. Nú var farið suður fyrir Fjórðungsöldu og þaðan stefnt norður, yfir upptök Bergvatnskvíslar. Er ekki ofsögum sagt að færið hafi verið í blautara lagi og bókstaflega allt miðhálendið að fara á flot. En eftir því sem landið hækkaði til norðurs jókst snjórinn og höfð var viðkoma í skálunum Landakoti og Berglandi, svona rétt til að ferð okkar væri skrásett sem víðast. Nú var líka allt annar bragur á Nýjabæjarfjallinu en í hinum þremur ferðunum og fyrr en varði blasti Kaldbaksdalurinn við. Eitthvað hafði snjóinn tekið upp í hlýindunum þá um daginn þannig að sýna varð nokkra harðfylgni við að komast alla leið í bílana. Að baki varð viðburðarík ferð sem sannaði enn á ný að með hæfilegu magni af þrjósku og útsjónarsemi þá uppskera menn að lokum 🙂

Myndir tóku Halldór og Úlfar.

(S)könnunarferð um hálendið

(S)könnunarferð um hálendið

Kom að því að karlar drifu sig inn á hálendið á þessum vetri, enda ekki seinna vænna þegar júní nálgast óðum. Farin var hefðbundin leið af Öxnadalsheiði, um Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall í Laugafell. Þar var staðan tekin, lögbundinn kaffitími og spáð í framhaldið. Nokkrar íkjur myndu felast í því að segja að sjö sólir hefðu verið á lofti en þó sæmilega bjart með köflum og stefnan var tekin á birtuna suður með Hofsjökli. Aðeins var að byrja að verða vorlegt umhverfis Laugafell og talsvert af krapablám sem menn reyndu sig við, flestir með nokkuð góðum árangri. Stefnt var á Klakk austan Hofsjökuls og þræddir dalir og gil við hann, dágóða stund. Ekki þótti vert að fara lengra suður, enda menn komnir á vatnaskil. Þarna kemur nefnilega Jökulhvísl undan Klakksjökli og eru þetta systu upptök Hérðasvatna. Droparnir eiga því nokkuð langa leið fyrir höndum til sjávar í Skagafirði. Hinu megin í hæðunum, nokkur hundruð metrum sunnar, kemur hins vegar Háölduhvísl undan jöklinum og sameinast síðar Þjórsá. Til baka var farið um Laugafell, nú bara tekin stuttur stans enda farið að dimma nokkuð í lofti. Megnið af leiðinni niður á Öxnadalsheiði var misþétt snjókoma og klálega engin merki um vor á þeim slóðum. Kaldbaksdalurinn sléttfullur af snjó að heita mátti og mun betri en í meðalári. Hann verður því fær lengi enn ef ekki brestur á með asahláku. Sem sagt góður renningur um hálendið, þar sem allt reyndist vera á sínum stað. Ferðafélagar: Úlfar, Sigurgeir, Smári Sig. og Valgeir Hugi.

Vorferð EY-LÍV 2015

Vorferð EY-LÍV 2015

Fín þátttaka var í vorferð EY-LÍV sem farin var í dag í ágætu veðri og vorfæri. Lagt var upp frá Grenivík, ekið inn Grenjárdalinn og Trölladalinn, yfir á Leirdalsheiði og svo yfir fjöllin að Heiðarhúsum á Flateyjardal. Sama leið til baka með mismunandi mörgum stoppum í giljum og brekkum. Sem sagt fínn dagur í góðum félagsskap.

Stutt klippa frá fyrsta degi í USA

Veðurfarið þessa dagana er ekki beinlínis vinsamlegt sleðafólki. En þó er ástæðulaust að leggjast í eymd og volæði. Enn er nóg eftir af vetrinum og getur átt eftir að snjóa heilan helling. En á meðan rifjar maður bara upp lífa daga í USA í byrjun mánaðarins. Hér kemur smá klippa úr GoPro frá fyrsta degi.

Ungmennafélagið í útrás til USA

Ungmennafélagið í útrás til USA

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Sleðaferð til USA er eitthvað sem flesta dreymir um og veturinn 2014 var bundið fastmælum af nokkrum meðlimum Ungmennafélagsins að láta verða af ferð þangað árið eftir. Fylgt var í grófum dráttum sama plani og hluti hópsins notaði tveimur árum fyrr, þ.e. fljúga til Denver í Colorado, aka þaðan nánast þvert yfir Wyoming ríki í bæinn Jackson. Þar var gist þá daga sem sleðast var en ekið á hverjum morgni upp í fjöllin að Togwotee Mountain Lodge þar sem fenginn var leiðsögumaður til að fylgja okkur um skógarstíga og fjallasali.

Alls voru 12 kallar skráðir og bókaðir í ferðina. Brottför var ákveðin 1. mars 2015 en sumir bara gátu ekki haldið í sér af spenningi og drifu sig daginn áður. Aðrir voru mættir í Leifsstöð tímanlega fyrir flugið út til Denver. Þangað var komið tveimur til þremur bíómyndum síðar og þrír bílaleigubílar biðu okkar á flugvellinum. Ákveðið hafði verið að skipta leggnum til Jackson í tvennt. Gisting hafði verið bókuð í bænum Laramie, sem seint verður reyndar talinn til merkustu bæjarfélaga í USA og þótt víðar væri leitað.

Slæmt að missa menn

Satðgóður morgunmatur í Laramie

Staðgóður morgunmatur í Laramie

Fljótlega eftir brottför af flugvellinum misstum við tengslin við bílinn með Árskógsstrendingunum þremur, þar sem GPS-inn þeirra var ekki alveg að gera sig. Fyrir „all nokkra“ tilviljun náði hópurinn samt að sameinast nokkru síðar á pizzastað á leiðinni. Til Laramie var komið um 3 tímum eftir brottför af flugvellinum í Denver og ekki laust við að þreyta væri komin í mannskapinn. Þá var líka orðið langt liðið á nóttina á Íslandi og allir enn stilltir inn á íslenska tímann.

Fararstjóri á náttfötunum

Ákveðið var að leggja tímanlega af stað og morgunmatur ákveðin um 7 leytið. Íslenski tíminn reyndist hins vegar enn sitja í mannskapnum og flestir byrjaðir að velta sér í rúmunum upp úr kl. 2 um nóttina. Undantekning var fararstjórinn en óstaðfestar fregnir herma að þurft hafi að bera hann í náttfötunum út í bíl.

Trukkaleiðin

usa14Eftir staðgóðan morgunverð að amerískum sið hófst aksturinn langi til Jackson. Skítaveður var á leiðinni lengi framan af og fátt til að gleðja augað. Trukkaumferðin virtist  endalaus og stikkprufur leiddu í ljós að við mættum u.þ.b. 20 stykkjum á hverjum 5 mínútum. Um 3 tíma tekur að aka legginn frá Laramie til Rock Springs, þar sem beygt er norður í fjöllin til Jackson, og er lesendum látið eftir að reikna trukkafjöldann á leiðinni.

Heimtur í Jackson

Síðasti spölurinn til Jackson var skemmtilegur og þegar þangað var komið var byrjað á að heimsækja leiguna Jackson Hole Adventure Rentals þar sem við áttum pantaða  sleða, 6 stk. 800 Pro RMK og 6 stk. 800 Summit XM. Þar varð reyndar smá ströggl, sem leystist þó allt á endanum. Tekin var snögg ferð upp í Togwotee en í sleðabúðinni þar áttu flestir í hópnum slatta af dóti sem búið var að panta fyrirfram. Um kvöldið heimti hópurinn þá tvo óþolinmóðu sem lagt höfðu af stað degi á undan og um kvöldið var farið svert út að borða á „Kúrekabarnum“ í miðbænum. Gaman var að sjá skíðabekkuna svaðalegu beint upp frá bænum þar sem hin árlega brekkuklifurkeppni Jackson Hole World Championship Snowmobile Hill Climb er haldin. Hún fer einmitt fram í 40. sinn síðar í mánuðinum.

Íslensk stórhríð – næstum því

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

„Ef þið væruð heima myndi ykkur ekki detta í hug að fara á sleða í þessu veðri,“ var úrskurður formannsins þegar mætt var í morgunmat daginn eftir. Og víst var að það moksnjóaði og gekk satt best að segja á með nokkuð snörpum vindhviðum. En menn töldu sig hafa séð það svartara og helspenntir lögðu þeir af stað með sleðana í eftirdragi upp í Togwotee. Þar tók leiðsögumaðurinn okkar, Brent, á móti okkur. Sá reyndist enginn nýgræðingur í faginu og var fljótur að finna góð leiksvæði. Þennan fyrsta dag gekk á með dimmum éljum en birti fallega upp á milli. Talsvert hafði snjóað og því nægur púðursnjór til að leika sér í – og festa sig. Karlarnir voru því alsælir þegar haldið var heim á leið seinnipartinn, eða a.m.k. þeir sem ekki höfðu dælt díselolíu á sleðana sína og/eða urðu ekki bensínlausir á hraðbrautinni niður til Jackson 😉

Afmælisdrengurinn heiðraður

Frekar var nú svalt að rölta í morgunmatinn yfir til hennar “Bubbu” morguninn eftir. En menn báru sig engu að síður mannalega. Afmælissöngurinn var sunginn fyrir Smára, afmælisbarn dagsins, og í “kaupfélaginu” var fjárfest í dýrindis afmælisblöðru. Síðan var stefnan tekin upp til Togwotee þar sem Brent tók aftur á móti okkur.

Um fjöll og dali

Djúpt á Ingólfi.

Djúpt á Ingólfi.

Prógrammið var með líkum hætti og daginn áður. Segja má að stígakerfið sé þrennskonar. Í fyrsta lagi leiðir sem troðnar eru og sléttaðar daglega. Þær liggja eftir skógarvegum sem bera bílaumferð á sumrin og eftir þeim var hægt vera vera snöggur á milli staða. Þessar leiðir eru hundruðir kílómetra og gjaldið fyrir að sjá um þær er innifalið í sleðaleigunni. Í öðru lagi eru skógarstígar sem ekki eru troðnir eða sléttaðir og voru satt best að segja afar ósléttir og leiðinlegir yfirferðar. Loks eru þröngar leiðir sem hlykkjast inn á milli trjánna, mest spilaðar af fingrum fram og víðast þarf að fara fetið. En á milli voru síðan rjóður og skógarsvæði þar sem hægt var að leika sér í púðrinu, alveg þar til hver fermeter var fullnýttur. Þá var farið á næsta svæði.

Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og 10 sólir á lofti. Í lok fjórða dags var svo sleðunum skilað aftur á leiguna í Jackson. Tjón sem leigan gerði mál út af voru í algeru lágmarki, eitt forðabúr fyrir bremsu og einn stuðari, sem reyndar var varla hægt að sjá nokkuð á.

Hvað er málið með þessa Polarisa?

Lagt faglega.

Lagt faglega.

Morguninn eftir var stefnan tekin áleiðis til Denver, þar sem flestir áttu bókað flug heim daginn eftir. Ferðin sóttist vel, þótt smá vonbrigði hafi verið að rétt var búið að loka Polarisbúðinni í Rock Springs þegar rennt var í hlað. Reyndar skildu Ski-doo og Yamaha eigendur í ferðinni ekki alveg þessa stöðugu ásókn í að kaupa eitthvað dót í Polaris. Töldu sína sleða fullsmíðaða og ekki þörf á að fjárfesta í sérstökum stimplasettum, hjáveitubúnaði eða öðrum þeim varahlutum sem rötuðu í töskur ferðafélaga þeirra.

Hvar er mollið?

Síðasta morguninn var stefnan að skanna eins og eitt moll áður en mæta þyrfti á flugvöllinn. Ófaglærðir kynnu að halda að lítið mál væri að finna moll í Ameríku en annað kom á daginn. Upphófst nú æsileg leit sem barst víða um Denver-svæðið. Loks fengum við að því er virtist traustar upplýsingar sem stimplaðar voru inn í GPS-tækið á einum bílnum. Þegar á staðinn var komið blasti við ein ræfilsleg fatabúð. Nánari eftirgrenslan leiddi í ljós að mollið hafði verið rifið fyrir mörgum árum. En þarna fengum við þó leiðbeiningar á enn einn staðinn og fannst slatti af fínum búðum. Flestir smelltu sér á nokkrar Levi’s gallabuxur, þ.e. allir nema Ingólfur. Hann fékk sér DIESEL.

Heima á ný

Flugið heim var álíka spennandi og aðrar flugferðir og allir fegnir að lenda í Keflavík að morgni mánudags. Þá áttu flestir í hópnum reyndar eftir að koma sér norður yfir heiðar og þegar þangað kom voru um tveir sólarhringar liðnir frá því að lagt var upp frá Jackson. Að baki var ógleymanleg ferð með góðum félögum.

Nokkrar fleiri myndir frá ferðinni

Keflavík og Látur í janúar

Keflavík og Látur í janúar

Eflaust hefðu ábúendum í Keflavík og á Látrum þótt þægindi af því að ráða yfir vélsleðum á árum áður, enda með afskekktustu byggðu bólum. Reyndar er ekki algengt að sleðamenn sæki þessa staði heim um miðjan janúar en Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs tóku samt fína ferð þangað um liðna helgi. Farin var hefðbundin leið frá Grenivík um Trölladal, Þverdal, Bakkadal og um Syðriskálina ofaní Keflavíkurdalsbotn. Þaðan um Uxaskarð og Fossdal í Látur á Látraströnd.

Ýmsar sögur eru til um búskap í Keflavík og þau harðindi sem ábúendur þar máttu þola og þekktust án efa sagan af hinni 11 ára Margréti sem á 18. öld hírðist þar ein vikum saman eftir að annað heimilisfólk var látið (sjá einnig hér). Á Látrum voru hins vegar mikil umsvif á köflum, þótt staðurinn sé afskekktur í dag.

Meðfylgjandi myndir tóku Smári og Sigurgeir í ferðinni á laugardaginn og Smári græjaði einnig stutt vídeó.

Breytt áætlun

Breytt áætlun

Þegar breyta þarf út frá áður ákveðnum áætlunum, kemur sér vel að þvermóðska mun fyrst og fremst vera eitthvað sem tekur að hrjá fólk þegar það eldist. Þannig vafðist ekki fyrir flokknum að breyta ferðaplönum þegar í ljós kom að veðrið var ekki alveg með okkur í liði í dag.

Laugafell, eða hvað?

Áætlun dagsins hljóðaði upp á léttan hálendisrenning, kíkja í Laugafell og jafnvel eitthvað meira. Einhverjir sögðust meira að segja hafa frétt af eldgosi austur á landi sem gaman væri að kíkja á en þangað er víst alveg bannað að fara nema í lögreglufylgd þannig að ekki kom það til greina.

Þeir fyrstu voru vaknaðir og búnir að smyrja nestið fljótlega upp úr kl. 7 en þegar tók að birta af degi kom í ljós að útsýnið inn á hálendi var ekki svo kræsilegt. Skítasunnanþræsingur og snjóstrókurinn stóð fleiri hundruð metra til norðurs af öllum fjöllum. Þótt vissulega væri freistandi að lofa gömlum þráa að taka sig upp og bogna hvergi, var samt ljóst að ferðaveðrið inn til landsins væri lítið spennandi. Því varð úr að kíkja austur fyrir Vaðlaheiði og láta ráðast hvað yrði úr deginum.

Ljúft í Fnjóskadalnum

Ofsagt væri að halda því fram að veður og færi upp á Vaðlaheiði hefði lofað góðu en þegar kom niður í Fnjóskadal var allt mun skaplegra. Yfir Fnjóská var farið á brúnni til móts við Systragil og stefnan tekin á Lundsskóg. Þar er bakarinn, sem var með í för, stoltur sumarhúsaeigandi. Hann hafði hins vegar ekki verið viðbúinn breyttum ferðaplönum, engill lykill með í för, og því verður ferð í heita pottinn að bíða betri tíma.

Skógarstígar þræddir

Greiðlega gekk að þræða skógarstíga og veginn suður í gegnum Lundsskóg og Þórðarstaðaskóg, með smá útúrdúrum. Fyrri samlokan var tekin fyrir sunnan Þórðarstaði og síðan farið að huga að heimferð. Smá upplausn kom í flokkinn á tímabili þegar hluti hans reyndi að fela sig bakvið fjárhúsin á Þórðarstöðum, í óljósum tilgangi. Komið var við hjá gömlum félaga, Billa bakara, sem leyfði sér að vera ekki á svæðinu. Til baka var ekið vestan Fnjóskár og sama leið vestur yfir heiði. Þannig má með sanni segja að vel hafi ræst úr deginum og voru menn á einu máli um að þetta hefði verið hin besta æfing.

Heyrst hefur…

  • …að sparifötin hans Sigurgeirs séu að verða verulega slitin
  • …að formaðurinn hafi engu gleymt
  • …að díselolía henti vel á 800 Polaris
  • …að mikið nesti hafi komið heim óétið
  • …að flokkurinn verði bara meðfærilegri með hverju árinu sem líður
Glerárdalur á öðrum degi jóla

Glerárdalur á öðrum degi jóla

Birtustundir á þessum árstíma eru hvorki langar né margar og því nauðsynlegt að grípa þá glugga sem gefast. Eftir snjókomu liðina vikna þarf ekki að fara langt til að komast á sleða og Glerárdalurinn lofaði góðu þegar birta tók af degi.

Skörð í flokknum

Fimm karlar mættir helspenntir upp við hitaveituskúr um það bil sem ratljóst var orðið. Fremstur í flokki var auðvitað Ingólfur bakari á glænýrri kanadískri græju sem beinlínis lýsti af í skammdegishúminu. Aðrir urðu að láta sér gömlu tuggurnar duga. Varla var þó hægt að telja flokkinn fullskipaðann þar sem nokkra fastameðlimi vantaði. Afsakanir voru mis góðar, einn vantaði t.d. starfhæf lungu en annar var á leiðinni í bíltúr. Þanning var nú það.

Hafði öllu gleymt – eða hvað…?

Smári þóttist hafa öllu gleymt frá fyrra vetri, sagist mundi keyra bæði hægt og varlega, en gamlir taktir virtust þó rifjast upp furðu fljótt. Gunni Garðars sigldi lygnan sjó á sínum túrbóvædda Nytro en sá reyndar félögunum fyrir smá líkamsrækt inn á milli. Unglingurinn lét ekki sitt eftir liggja þótt bæði beltistommur og vélarkúbik væru undir meðaltali ferðarinnar. Vildi meina að þetta ylti hvort sem er mest á karlinum sem héldi um stýrið og gjöfina.

Lofar bara góðu

Snjóalög voru nokkuð misjöfn, eins og við var að búast eftir hvassviðrin sem hafa geysað. Heilt yfir lofa þó dalurinn og nærsveitir bara góðu. Farið var upp Lambárdal og yfir öxlina niður Lamba, með viðkomu í ýmsum brekkum og giljum. Neðri leiðin til baka niður á Súlumýrar og góður dagur að baki.

Sleðast með Chris Brown

Undanfarna vetur hefur færst í vöxt að sleðamenn bregði sér bæjarleið í Ameríkuhrepp til að takast á við púðrið góða og æfa sig í smá skógarferðum. Flestir hafa lagt leið sína til norðvestur fjallaríkjanna: Wyoming, Idaho og Colorado, en þar upp í fjöllunum eru mörg frábær sleðasvæði. Wyoming hefur verið vinsæll áfangastaður margra enda t.d. svæðið suðvestan Yellowstone þjóðgarðsins sannkallað ævintýraland. Hópar héðan hafa einnig farið til goðsagnarinnar Bret Rasmussen sem gerir út frá Idaho og einhverjir heimsótt annan ekki minna frægan í Colorado, Chris Burant.

Þeir sem mættu á síðasta félagsfund EY-LÍV fengu skemmtilega sögu og sáu myndband frá ferð fjögurra sleðajaxla frá Akureyri til Whiser í Kanada. Það sem gerir svæðið ekki síst áhugavert fyrir Íslendinga auðvelt aðgengi með beinu flugi Icelandair til Vancouver og oft er hægt að sleðast í frábærum snjó í minni hæð en suður í fjallaríkjum Bandaríkjanna. Hins vegar er úrkomusamara svona nálægt Kyrrahafinu og því e.t.v. meira happdrætti að hitta á bjarta daga.

Þeir félgagar, Örn Traustason, Stefán Traustason, Steindór Jónsson og Arnar Þór Sigursteinsson, heimsóttu í Whisler enn eina sleðagoðsögnina, Chris Brown. Með honum sleðuðust kapparnir í tvo daga í vægast sagt svakalegu púðri. Má segja að sjón sé sögu ríkari 🙂 Fyrst koma nokkrar myndir og þá vídeó.

Ægifagurt á sumardaginn fyrsta

Sumardaginn fyrsta fóru Alfreð Schiöth  og Hinrik úr Öxnadalnum og um Hraunsvatn suður Vatnsdal og yfir á Hörgárdalsheiði, Hjaltadalsheiði og vestur á Kleifar. Síðan til baka og norður um Jökulfjall yfir á Barkárjökul og Tungnahryggsjökul með nokkrum hliðarsporum. Akradalur, Hjaltadalur og Kolbeinsdalur voru rýrir og bíða betri tíma. Bjart og fallegt veður, ægifagurt og mikil fjallasýn, kveðja, Alfreð.

 

Tröllaskagi á páskadag

Á Páskadag fóru Alfreð, Þórir, Tjörvi og Teitur Schiöth úr Ólafsfirði yfir í Héðinsfjörð. Áfram í Siglufjörð og yfir Kálfaskarð og í Nesdal og út að Reyðará við Siglunes. Veður og færi ágætt, gaman að berja gagnamunnann í Héðinsfirði augum og spjalla við aðra vélsleðamenn á slóðinni. Magnað að skoða Nesdalinn og Siglunes og ekki ónýtt að horfa inn í Hvanndalabjörgin af hlaðinu á Reyðará og yfir í Gjögur. Kveðja, Alfreð.

Með Skagfirðingum á föstudaginn langa

Þeir feðgar Steindór og Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs eyddu föstudeginum langa í ríki Skagfirðiga og sendi Steindór eftirfarandi ferðasögu: Við feðgar skuppum vestur í Skagafjörð á föstudaginn langa. Var skyggnið slæmt þegar lagt var af stað en þökk sé þrjóskunni að haldið var óhikað áfram. Var ákveðið að þar sem lagt hafði verið af stað skyldi allavega vera borðuð pylsa á Sauðárkróki. Sem betur fer því þegar komið var í bæinn iðaði allt af fólki og ekki leið á löngu þar til við vorum stoppaðir, boðnir velkomnir og spurðir frétta. Eftir pylsuátið var farið að rofa til og því ákveðið samkvæmt ráðleggingum þeirra sem til þekktu að drífa sig upp í Trölla. Þegar komið var þangað hittum við fyrir heila hjálparsveit sem var í æfingarferð fyrir komandi helgi. Þótti nú heldur betur ráðlegt að slást í för með þeim þar sem öryggið hlaut þá að vera í fyrirrúmi.  Var þetta hinn skemmtilegasti hópur sem lóðsaði okkur um allt svæðið með miklum sóma. Eru algjör forréttindi að finna fyrir svona fólk og einn af þeim þáttum sem gerir þetta sport svona skemmtilegt. Allir hafa yfir að ráða heimasvæðum þar sem er að finna ótrúlegar náttúruperlur sem ókunnugir hefðu annars þotið fram hjá. Vissulega var gamla kassamyndavélin með í för og smelltum við af nokkrum myndum því til staðfestingar. Þökkum við kærlega fyrir okkur og sjáumst á næstu bensínstöð.

Kaldbakur og Fjörður á páskadag

Halldór Jóns og Sigrún brugðu sér á Kaldbak og í Fjörður á Páskadag og sendi Halldór eftirfarandi: “Sól og blíða heilsaði útivistarfólki á páskadag. Stefnan var tekin út á Grenivík og ákveðið að njóta útsýnisins á Kaldbak og halda síðan út í Fjörður. Tekið var af á neðsta bílaplaninu. Nógur snjór var alls staðar og færi skemmtilegt. Mikill fjöldi lagði leið sína á Kaldbak og nutu allir veðurblíðunnar og frábærs útsýnis til allra átta. Síðan var haldið í Þorgeirsfjörð og stoppað á Þönglabakka og nestinu gerð góð skil. Á leiðinni yfir í Hvalvatnsfjörð var frábært útsýni til allra átta; m.a. Grímseyjar, Flateyjar á Skjálfanda og yfir á Tjörnes. Til baka var farið suður Hvalvatnsfjörðinn og endað á bílaplaninu ofan Grenivíkur eftir vel heppnaðan dag.”

Púðurferð á Glerárdal

Þá er snjórinn kominn fyrir norðan og þótt ekki hafi viðrað vel til sleðaferða þá voru samt þó nokkrir sem drifu sig í dag. Smári Sig., Sigurgeir og Maggi Arnars. fóru inn á Glerárdal og sendi Smári eftirfarandi: “Mikið óþol var komið í menn eftir alla þessa snjókomu. Orðnir hálfgerðir sófariddarar, bara talað og skoðaðar gamlar myndir. En nú átti að drífa sig. Smurt nesti á laugardag en ekkert skyggni í boði. Á sunnudag átti að fara sama hvernig viðraði. Lagt af stað undir hádegi og keyrt úr skúrnum og inná dal. Nestið yrði ekki tekið upp fyrr en í Lamba. Og auðvitað komumst við þangað enda kaffiþyrstir, en skyggnið var ekkert, hrikalegt púður og oftsinnis mikill mokstur. Það eru því nokkur býsna stór bæli á dalnum sem ekki er gott að fara ofaní. Þetta lofar hins vegar góðu þegar birtir á ný………..”

Snjóalög könnuð og haustverk kláruð

Í gær var fallegt veður og sumir drifu sig til fjalla. Smári Sig. Sendi eftirfarandi. “Skutumst á fjöll svona til að klára verkefnin fyrir veturinn, þ.e. að taka vegriðin af brúnni yfir Skjálfandafljót. Í för voru Smári Sig., Maggi Arnars. og Sigurgeir. Lítill sem enginn snjór var á Eyjafjarðardal en þegar upp var komið var bara flottur grunnur kominn og þegar við vorum komnir inn fyrir afleggjarann í Landakot var hægt að taka stefnuna beint á Sandbúðir. Grjóthart undirlag en aðeins nýsnævi í driftum hér og þar, alveg magnað jeppafæri í flottu veðri en köldu. Austan Sandbúða minnkar sjórinn aldeilis, nánast orðið snjólaust við Skjálfandafljót og rétt svona grátt í rót inn við Gæsavötn.”

Baráttuferð 1. maí

Smári Sig., Haukur Stefáns., Maggi Arnars. og Birgir fóru þann 1. maí frá Hlíðarfjalli, um Glerárdal og Skjóldal, þaðan sem brúnirnar voru þræddar inn á Nýjabæjarfjall. Ekki var látið staðar numið fyrr en í Laugafelli. Þetta er mögnuð leið en aðeins fær í góðu veðri, eins og sannarlega var þennan dag. Myndirnar tók Smári í ferðinni.

Hitavelluhelgin mikla

Það var meginlandsloftslag norðan heiða um helgina og margir á sleða í geggjaðri blíðu. Smári Sig. var á ferðinni bæði laugardag og sunnudag og tók meðfylgjandi myndir.

Botnlaust púður í Kverkfjöllum

Þótt veðrið upp á síðkastið hafi ekki verið öllum að skapi er ljóst að sleðamenn geta bara verið kátir með ástandið til fjalla. Smári Sig. og fleiri fóru af Vaðlaheiði í Laugafell og þaðan í Nýjadal, um Mjóháls í Snapadal, Rjúpnabrekkujökul, Kistufell, Dyngjujökul og í Kverkfjöll, þar sem í heiti lækurinn í Hveradal var notaður. Nógur snjór var á svæðinu og botnlaust púður í Kverkfjöllum. Smári sendi ferðasögu og myndir.

Við áttum hreint alveg magnaðan túr um Hvítasunnuna. Farið var um Vaðlaheiði suður um Gönguskarð þar var nýsnævið sem bjargaði því sem bjargað varð. Sunnan við Gönguskarð er bara eins og jökull, alla vega suður fyrir Skjónufell og í Landakot. Rennislétt og hægt að láta fákana sýna hvað í þeim býr.

Eftir að hafa tankað í Laugafelli bættust þrír félagar okkar úr Súlum í hópinn og var stefnan tekin austur á bóginn. Töluverðir þræðingar voru til að byrja með en austan við Háöldur fór snjórinn að aukast og þegar komið var austur fyrir Bergvatnskvísl var stefnt lengra suður á bóginn, yfir Vegamótavatn og síðan upp Jökuldalsána og í Nýjadal. Þar er nægur snjór. Eftir eina samloku og kaffi var stefnan tekin suður fyrir Jökuldalinn, upp Mjóhálsinn og niður í Snapadal í Vonarskarði. Feikna skemmtilega leið. Nægur snjór var í Vonarskarði og þar, eins og víða annarstaðar, nýsnævið sem bjargaði túrnum. Úr Vonarskarði lá leiðin upp að rótum Bárðarbungu og svo þvert yfir Rjúpnabrekkujökulinn, yfir á Dyngjujökul og svo niður ágætar snjólænur niður í Gæsavötn.

Á mánudag var dagur tekinn í “fyrra fallinu”. Straujað austur með jökuljaðri allt í Kistufell og tekin einn útsýnishringur upp á topp. Þá lá leiðin í Kverkfjöll þar sem púðrið tók völdin. Þar var a.m.k ekki jeppafæri nema fyrir mjög þolinmóða bílstjóra. Eftir hefðbundnar myndatökur og töluverðar festur var áveðið að skella sér í bað í heita læknum. Sporuðum við niður Löngufönn að hluta og stungum okkur síðan milli kletta niður í Kverkina og þvert austur yfir hana. Eins og venjulega er það “rússibana” leið í lækinn. En nú bar svo við að lækurinn var vart baðfær sökum hita. Ógjörningur var að liggja þar og hvíla lúin bein, heldur þurfti spígsporað á bakkanum og sólin látin baka kroppinn, enda veður til þess.

Þá vara eftir að koma sér upp á jökul aftur. Við reyndum við Kverkina en sérum frá. Þar liggur svo mikið nýsnævi að ógjörningur er að sjá hvar og hvernig sprungurnar liggja. Því var farið yfir jökulsporðinn og beint upp Löngufönn, þar sem menn hitunuðu mis mikið og festu sig mis oft. Þar fór baðið fyrir lítið. Þegar upp var komið var kominn tími að huga að heimferð. Var það að mestu leyti sama leið nema hvað farið var yfir Tungnafellsjökulinn við Stakfellið, niður nyrðri Hagajökul og fylgt árfarvegi Hagakvíslar vestur að Fjórðungakvísl þar sem við komum inn á gömlu slóðina okkar. Á Vaðlaheiði vorum við komnir rétt að ganga tíu.

Púður á Glerárdal

Þeir sem drifu sig á sleða um og eftir helgina náðu margir fínu púðri. Þannig var staðan t.d. á Glerárdal ofan Akureyrar og á þessum myndum Smára Sig. má sjá að það hefur verið gaman að vera til.

 

Margir á sleða um helgina

Mikil umferð sleðamanna var víða um land um helgina. Í Kerlingarfjöllum var sleðamót á vegum EY-LÍV og þangað fóru hópar bæði að norðan og sunnan. Á sunnudaginn var gríðarlega fallegt veður í Eyjafirði og tugir ef ekki hundruð sleðamanna tóku stefnuna út í Kaldbak og Fjörður. Smári Sig. og fleiri renndu um helgina í Gæsavörn og víðar og eru myndir úr þeirri ferð hér að neðan.

Snjóalög á norðanverðu hálendinu

Sér niður Eyjafjörð.

Sér niður Eyjafjörð.

Jeppamenn úr Eyjafirði drifu sig á fjöll um helgina, enda ekki flókið að brenna upp nýja Vatnahjallaveginn. Smári Sig. sendi ferðasögu.

Fórum á laugardagsmorgun upp nýja Vatnahjallaveginn upp í Hafrárdal. Þar er lítill snjór en vandalaust að finna lænur og bruna upp að vörðunni við Sankti Pétur. Það er bara gott jeppafæri í Bergland og reyndar alveg í Laugafell.

Eitthvað hefur gengið á í leysingunum á dögunum því klakar og hröngl voru langt upp á bakkana við vaðið á Bergvatnskvíslinni og ekki gjörningur að fara þar yfir. Vandalaust að sprautast yfir í Gæsavötn og færið fyrir jeppa gott.

Á heimleið var farið um Sandbúðir og Galtaból í Laugafell. Þá var tekinn hringur í Landakot, Bergland svona rétt til að athuga með skálana. Nægur snjór er í Galdtabóli og Landakoti og greinilegt að þar hefur ekki hlánað neitt að ráði á dögunum. Byrjað var að snjóa á sunnudagsmorgninum austan við Sandbúðir svo eitthvað bætir á þessa vikuna. Það hafur oft verið svartara á þessum árstíma.

Jómfrúarferð um Vatnahjallaveg

Það var jómfrúarferð um Vatnahjallaveg í dag laugardag, og sendi Smári Sig. eftirfarandi pistil og myndir: “Formaðurinn var ansi beittur og hvatti menn til dáða þrátt fyrir mikið frost. Það er nú eða aldrei sagð´ann. Tekið var af við Hólsgerði og létt ferð inn að Hafrá. Þar tók þessi fíni sneiðingur við okkur og flutti okkur á augabragði upp hlíðina og upp á “hælinn”. Þar breiddi Hafrárdalurinn úr sér kaldur en bjartur og alhvítur. Frekar var nú rýrt uppi þar en ekki vandamál að bera sig um. Þegar komið var vestur fyrir Sankti-Pétur tók við hrímþoka en bjart uppi fyrir. Mikið frost og hrímþoka var alla leið í Bergland og inn í Laugafell. Hvítt yfir öllu en ansi rýrt á melunum. Þetta lofar góðu – við höfum séð það svartara á þessum tíma. En Vatnahjallavegurinn á eftir að sanna sig, það eitt er víst.”

Sleðavertíðin að byrja fyrir alvöru

Það birti upp um helgina og þá er ekki að sökum að spyrja. Menn drifu sig á sleða og létu ekki 20 stiga gadd stöðva sig. Hér að neðan eru flottar myndir Smára Sig úr ferð hans, Magga Arnars og fleiri á Glerárdal. Sem sjá má er nægur snjór og mikið fjör.

Í Kinnarfjöllum 4. maí

Alfreð Schiöth fór ásamt fleirum í ferð um Kinnarfjöll þann 4. maí sl. Kinnarfjöllin eru skemmtilegt svæði og margt að sjá. Sendi Alfreð ferðasögum og myndir.

Hinrik, Helgi og Alfreð tóku létta morgunsveiflu í Kinnarfjöllum þann 4. maí sl. Farið úr Dalsmynni suður Hólsdal og austur Finnsstaðadal niður á Þröskuld, síðan norður í Gönguskarð og ekið vestur skarðið og síðan upp Uxaskarð. Úr Uxaskarði var farið um Austurdal og Kotadal og langleiðina niður á Kotamýrar. Þar var færi rýrt og snúið við og farið Kotaskarð og áð í hlíðinni ofan við Björg í Kaldakinn í sól og hita. Ægifagurt útsýni; Skjálfandi og fljótið, Grímsey, Lundey, Mánáreyjar, Tjörnes, Grísatungufjöll, Lambafjöll, Gæsafjöll, Mývatnssveit og nærsveitir. Þá var rennt upp í Skessuskál og suður með Nípá og þaðan niður Uxaskarð og þrætt norður Flateyjardal og áð á móts við Heiðarhús við Ytri-Jökulsá. Þar sem nokkuð var gengið á bensínforða og loft að þykkna var snúið við og farið yfir Gönguskarðsá á snjóbrú og þrætt inn Hólsdal og yfir Hólsá og skemmstu leið til byggða.

 

Góð ferð í Fnjóskadal

Síðastliðinn sunnudag gerðu Alfreð Schiöth og Hinrik á Rútsstöðum ágætis ferð og sendi Alfreð ferðasögu og myndir.

Við ókum af Vikurskarði og suður Vaðlaheiði og austur í Vaglaskóg; suður Lundsskóg og ekið léttan gegnum Þórðarstaðaskóg og síðan í Sörlastaði og inn í mynni Timburvalladals. Þar skaust minkur upp úr læk og var hinn gæfasti og var gert vel við hann í mat og drykk.

Síðan ekin sama leið til baka með nokkrum hliðarsporum. Austan í Vaðlaheiði og norður í Víkurskarði mátti víða finna lausasnjó og dyngjur og góðar aðstæður til sleðaæfinga, sem reyndar enduðu með nokkrum festum hvað mig varðar. Ánægjulegt að fá snjó á ný.

Fagurt er í Fjörðum

Alfreð Schiöth sendi myndir og smá ferðasögu: “Síðastliðinn sunnudag var mikil umferð vélsleðamanna á Kaldbak og í Fjörðum í frábæru veðri. Ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til með vegagerð upp í Grenivíkurfjall. Um tíma var aðgengi á vegi teppt vegna óhapps þar sem kviknaði í jeppabifreið og brann hún til kaldra kola. Færið var víða nokkuð rifið og hryggjað og einnig að finna púður og gaman. Rýrt færi þegar nálgaðist Þönglabakka. Í Heiðarhúsum voru fyrir Fnjóskdælir sem voru að koma úr vestari Hvanndal þar sem þeir fundu tvær kindur. Þar er varasamt að ferðast nema með góðri staðþekkingu og við góð skilyrði. Þvældist með Helga, Binna, Ebba og Hinna og álpaðist til að leiða hópinn í hálfgerða sjálfheldu í gili í Leirdal. Eftir nokkra snúninga og baráttu við púðursnjó og hliðarhalla komust þó allir leiðar sinnar og skiluðu sér til byggða. Afar vel heppnaður dagur.”

Góð dagsferð hjá EY-LÍV í Mývatnssveit

Hópurinn við Jökulsárgljúfur.

Hópurinn við Jökulsárgljúfur.

Laugardaginn 28. janúar 2006 stóð Ey-lív fyrir dagsferð í Mývatnssveit og nágrenni. Jón Skjöldur Karlsson snaraði í snatri saman stuttri ferðasögu og einnig tók hann fullt af myndum sem komnar eru á netið.

Það voru um 30 sleðar sem lögðu af stað frá Kröflu undir dyggri fararstjórn heimamanna í fínu veður og ágætu færi. Snjóalög voru ágæt til að byrja með en smá þræðingur var til að komast niður á Eilífssvatn. Þaðan var strikið tekið að Dettifossi þarf sem tekin var góð pása. Nokkur sunnan strekkingur var og við Dettifoss og fljótlega kom smá rigning, en þó ekki það mikil að hún væri til vandræða. Frá Dettifossi var þrusað á fullri ferð norður á Þeistareykjabungu í ágætum snjó. Þar var útsýnið kannað norður í Kelduhverfi. Næst var stoppað við Litla Víti og svo var haldið í vestur að skálanum við Þeistareyki. Þar fór nú snjórinn verulega að minnka. Eftir stutt kaffistopp var haldið áfram norður með Bæjarfjalli og að Gæsafjöllum.

Óttarlega var nú snjórinn rýr og fengu menn aðeins að reyna sig í þúfuakstri en í sárabót fór sólin að skína. Smá töf varð þegar kraftmikill Arctic cat lét ekki alveg að stjórn að lenti á steini og sleða og ökumaður tóku smá flugferð. Hjálmurinn og brynjan sönnuðu gildi sitt og varð ökumann ekki meint af. Það tókst að hefta sleðann saman og kláraði hann túrinn. En svo fengu menn umbun fyrir torfærið þegar farið var upp þröngt gil syðst á Gæsafjöllum og uppá þau þar sem var bara fínt útsýni. Þaðan létu menn sig austur af Gæsafjöllum niður nokkuð bratta brekkur og svo var tekinn sveigur norður fyrir Leirhnjúkshraun og svo suður í Kröflu þar sem Team Motul var að við snocross æfingar og gátu menn horft á tilþrifin áður en sleðar voru lestaðir á kerrur. Stór hluti af hópnum endaði svo í Jarðböðunum góðu þar sem sagðar voru sögur áður en menn héldu heim á leið. Góður dagur í fínum félagsskap. – Jón Skjöldur Karlsson

Úttekt á snjóalögum til fjalla og jökla

Um helgina var síðuhöfundur þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í flotta jeppaferð um norðanvert hálendið og Vatnajökul. Var farið allt vítt yfir og gafst því kjörið tækifæri til að taka út snjóalög, auk þess sem smellt var af nokkrum myndum.

Farið var var þremur jeppum og fékk undirritaður að fljóta með Smára Sig. á hans 44” Land Cruser. Aðrir í för voru Gísli Óla. á ofur Hy-lux og Maggi Arnars í jómfrúar-fjallaferðinni á glæsilegum Land Cruser 90 (þ.e. fyrsta ferð Magga eftir að hann keypti bílinn en báðir hafa auðvitað farið oft á fjöll hvor í sínu lagi).

Byrjað á Laugafelli

Lagt var af stað á föstudagskvöldi og stefnt í Laugafell um Bárðardal. Þegar byggð sleppir í Bárðardal er lítið um snjólaög að segja. Fyrir utan svellbunka og nokkra hjarnskafla var fátt sem minnti á vetur. Þetta hefur þó væntanlega lagast síðasta sólarhring. Þegar land tekur að hækka eykst snjórinn jafnt og þétt og við Galtaból er fínn snjór. Ágætt jeppa- og sleðafæri virtist raunar vera um allt hálendið upp af Eyjafirði og í Laugafell.

Gæsavötn

Um morguninn var vaknað í flottu veðri í Laugafelli og meðal hefðbundinna morgunverka var að sjálfsögðu ferð í laugina. Ákveðið var að aka áleiðis í Gæsavötn og farin svokölluð forsetaleið áleiðis að Fjórðungsöldu. Þarna hefði verið vandræðalaust að aka um á sleða þótt sennilega teljist snjóalög vera í lélegu meðallagi. Farið var yfir Bergvatnskvísl á vaðinu og virtist þar vera traustur ís. Þaðan var stefnan tekin norður í Sandbúðir þar sem bjartsýnustu menn vonuðust eftir því að staðarhaldari biði með heitt á könnunni. Það brást hins vegar eins og oftast áður. Frá Sandbúðum var stefnan tekin austur á bóginn að Skjálfandafljótsbrú og sveigt suður fyrir hraunið. Veður var fremur hryssingslegt og snjólaög léleg á þessari leið. Austan Skjálfandafljóts og að Gæsavötnum hefði t.d. varla verið hægt að komast á sleða á laugardaginn með góðu móti.

Um kl. 4 var rennt í hlað á Gæsavötnum og þar sem veðrið var ekkert sérstakt til aksturs var ákveðið að taka bara lífinu með ró. Kvöldmaturin var tekinn með fyrra fallinu, sverar grillsteikur með brúnuðum kartöflum að hætti hússins og hefði maturinn dugað í 20-30 manna veislu. Það voru því saddir menn sem gengu snemma til náða.

Þungt færi á jökli

Á sunnudagsmorgni var vaknað í frábæru veðri, björtu og köldu. Þótti tíðindum sæta að tókst að halda Smára í koju þar til klukkan var langt gengin níu. Eftir frágang í skálanum var stefnan tekin inn á jökul upp frá Gæsavötnum. Var gaman að fylgjast með sólinni koma upp og byrja að skína á fjöllin eitt af öðru. Þrátt fyrir brattar brekkur og laust færi gekk all vel að komast inn á jökul og sannaði skriðgírinn hjá Smára þar ágæti sitt í fyrsta en ekki síðasta sinn í ferðinni.
Eftir að hafa sprautast inn Dyngjujökulinn dágóða stund í allgóðu færi var ákveðið að taka hring um Bárðarbungu og niður Köldukvíslarjökul. Sóttist ferðin vel framan af en þegar komið var upp undir 1.700 metra hæð fór að kárna gamanið og færið að þyngjast svo um munaði. Máttu menn sætta sig við að mjakast áfram í lægsta gír klukkutímum saman. Hörð skel var ofaná en skraufþurrt púður undir sem reyndis jeppunum afar erfitt. Fyrst þegar fór að halla aftur niður Köldukvíslarjökulinn fór ferðahraðinn aftur að aukast. Kalt var á jöklinum (-18gráður), sólskin en nokkur skafrenningur. Höfðu menn á orði að gott væri að dreifa snjónum aðeins betur því mikill snjór virtist vera kominn á jökulinn þótt lítið væri á hálendinu umhverfis hann.

Upp Gjóstuklifið

Farið var að dimma þegar komið var ofan í Vonarskarð og var ákveðið að reyna að komast Gjóstuklifið. Eins og þeir vita sem til þekkja er það bæði brött og löng brekka sem fara þarf til að komast norður úr Vonarskarði, eða krækja að öðrum kosti fyrir klifið og eiga á hættu brölt yfir ótryggar ár og læki, sem ekki þótti freistandi í myrkrinu. Í Gjóstklifinu sannaði skriðgírinn hjá Smári sig enn frekar og upp komust allir eftir nokkrar tilfæringar. Var nú leiðin greið að kalla norður úr skarðinu þaðan sem stefnan var tekin á Sandbúðir og áleiðis niður í Bárðardal. Heim í Eyjafjörð var komið um miðnættið eftir langan en skemmtilegan dag og viðburðarríka helgi. -HA

Frábært færi í Laugafell

Síðastliðinn mánudag, 5. desember, fóru félagarnir Steini Pje, Geir Baldurs og Gunnar Knutsen í Laugafell í hreint frábæru veðri og færð. Farið var af Öxnadalsheiði suður Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall. Nægur snjór var í dalnum og færið suður fjallið sjaldan verið betra. Magurt var í kring um Laugafell og rjúpur þar í góðum málum. Sérstakt var síðan að koma heim og aka inn í svarta þoku á Moldhaugahálsi. Meðfylgjandi eru myndir sem Gunnar Knutsen tók.

Sleða- og jeppaferðir helgarinnar

Loksins birti upp um helgina og þá var ekki að sökum að spyrja. Menn þustu á fjöll, bæði á jeppum og sleðum, til að kanna allan snjóinn sem komið hefur síðustu vikur.

Hreiðar í Vín, Jón Björnsson og Eiríkur Jónsson fóru á jeppum með sleða í kerrum inn Eyjafjarðardal á laugardag. Að sögn Eiríks var hægt að aka á jeppa inn að Brúsahvammi, þaðan er ófært fyrir alla bíla og því sleðarnir teknir niður. Það er þokkalegt sleðafæri innúr, aðeins stöku blettir auðir í lækjum. Vandræðalaust var að keyra inn í Laugarfell og komið var við í Landakoti á leiðinni heim. Snjórinn er að sögn Eiríks þéttur og þarf því ekki mikið undir sleðana.

Smári sig fór ásamt fleirum á jeppa upp Bárðardal og í Nýjadal og Gæsavötn og hafði sömu sögu að segja. Bara góður snjór er frá Mýri í Bárðardal allt inn að Kiðagilshnjúk. Þar minnkaði ögn og frekar lítið er við Sandbúðir. Í Gæsavötnum var snjórinn í góðu lagi en lítið sem ekkert í Nýjadal og Laugafelli. En hinsvegar er flottur snjór við Landakot og lofar undirlagið þar bara góðu. Eiríkur og Smári sendur nokkar myndir úr ferðunum.

Magnaður túr þvert yfir hálendið – og til baka

Fimm harðsvírðair sleðakappar úr Eyjafirði fóru um síðustu helgi magnaðan túr suður yfir hálendið og óku um svæðið að Fjallabaki í fylgd Benna og Rínu. Smári Sig. sendi ferðsögu.

Formaðurinn var beittari en nokkru sinni að drífa sína menn af stað á miðvikudag “ekkert væl bara drífa sig” Svo spenntur var´ann að hann mætti fyrstur á auglýstum brottfarartíma og beið eftir ferðafélögunum.

Á miðvikudagskvöld var blásið til brottferðar, nú átti að taka á því, fara suður á land sagð´ann. Kaldbaksdalurinn svona frekar rýr en í góðu lagi. Skítur á fjallinu eins og oft áður og fremur snjólétt er nálgaðist Laugafell.

Jósavin, Sigurgeir, Benni, Rína, Jón og Hreiðar. Smári tók myndina.

Jósavin, Sigurgeir, Benni, Rína, Jón og Hreiðar. Smári tók myndina.

Á fimmtudag haldið austur og suður um, þó vel vestan við Nýjadal og yfir Mjóhálsinn í Vonarskarð yfir Hágöngulón og stefnan tekin á Sveðjuhraun. Reyndist það alveg ófært og því farið til baka og upp Köldukvíslarjökulinn fyrir Hamarinn og suður yfir allt að Skaftárjökli og þaðan niður á Langasjó. Þar var nú færi maður, fullt rör þessa 20 km rennsléttu leið. Undir kvöld var komið í Glaðheima eftir að hafa reynt fyrir okkur í ýmsum giljum og krókum.

Á föstudag var auðvitað sama blíðan og fyrri daga, og þess vegna tekinn snemma dagurinn. Nú átti að koma sér á Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Talið var alveg bráðnauðsynlegt að koma við í Strútslaug og taka smá þrifabað. Okkur til furðu reyndist nú Mýrdalsjökull miklu mun stærri en landafræði þekking okkar sagði til um. Hægt var að keyra þar um allan daginn og alltaf sjá eitthvað nýtt, a.m.k .þegar Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi er bætt við. Gerðum okkur heimakoman á sólpallinum hjá Benna og Rínu og nutum veðurblíðunnar og útsýnisins til Vestmannaeyja, þótt húsráðendur væru að heiman. Á bakaleið var frábært útsýni yfir Goðaland, Þórsmörk og Tindfjöll svo eitthvað sé nefnt.
Um kvöldið komu svo Benni og Rína í Glaðheima því ráðlegt þótti að hafa þessa norðlinga undir eftirliti þarna að Fjallabaki.

Laugardagurinn sem fyrri dagar sól og 17. Nú tóku Benni og Rína stjórnina og sprautað allskonar brekkur og gil svo við norðlingarnir vorum fljótir að tapa áttum. Það var ekki fyrr en skálinn í Landmannalaugum kom í ljós að við vissum hvar í heiminum við vorum.
Þaðan var svo farið í allskonar krákustígum upp í Hrafntinnusker. Satt best að segja held ég að ekki nokkrum lifandi manni hafi dottið í hug að þessar leiðir sem þau fundu væru færar, en alltaf fundust nýir skaflar og ný gil. Frá “Skerinu” var farið á Torfajökul og þaðan í fjöllin austan við Hólmsárbotna sem ég man vara ekki hvað heita………. Eftir hreint frábæran dag var enn á ný haldið í Glaðheima og gist……….

Sunnudagur sem og þeir fyrri, bara sól og tóm hamingja, En öll ævintýri taka enda og nú var góðgerðar fólk okkar kvatt og heim skal haldið.
Eftir rúmlega 830 km túr án óhappa eða bilana held ég að orkan hafi
verið farin að dvína eitthvað. En stutt í að menn vilja ólmir í næstu
ferð…..

Heyrst hefur að ferðalokum

-Að Sigurgeir hafi loks náð að klár tilkeyrsluna “Kettinum”
-Jósavin hafi gleymt að spyrja Tryggva um veðurspána áður en lagt var í´ann
-Að Jón noti bara annað kertið vegna sparaksturskeppninnar
-Að formaðurinn vilji lengja RMK´inn eftir að hann sá líterinn hans Benna.
-Að Smári hafi bara lifað á “skáta” þurrmat allan túrinn…

Salíbuna með Sólvangsbræðrum

Guðni í Straumrás sendi eftirfarandi frásögn og myndir úr ferð um Kinnarfjöll á sumardaginn fyrsta.

Þeir Sólvangsbræður Ingvar og Bergsveinn og Jón Ingi á Fornhólum gáfu mér aldeilis frábæra sumargjöf en það var sannkölluð salíbuna um Kinnarfjöll á sumardaginn fyrsta. Þar tókst okkur ásamt þeim bræðrum Óla og Hilla frá Akureyri og Ingvari í Böðvarsnesi að finna alveg ótrúlegt magn af snjó , en sökum þess að þessi snjór er, eða var að mestu fyrir ofan 500 metra hæðarlínuna þurftum við að beita nokkurri lagni að komast nógu hátt en eins og flestir vita þá kalla Fnjóskdælir alls ekki hvað sem er ömmu sína og leiddu þeir félagar okkur hratt og örugglega upp og niður um þetta svæði enda á heimavelli.

Heyrst hefur:

  • Að þeir sem fara í rússibanaferð á Flateyjardal með Sólvangsbræðrum komi örmagna heim.
  • Að Bergsveinn Í Sólvangi hafi sömu skoðun og skáldið: hvergi bratt , bara mismunandi flatt.
  • Að Ingvar í Sólvangi segi : ef það er ekki í Arctic Cat eða Massey Ferguson þá þarf ekki að nota það.
  • Að þeir bræður ætli að fá sér húsbíl og ferðast um Ítalíu þegar þeir fá leið á vélsleðum.-
  • Að gott er að hafa með sér tyggjó þegar ferðast er með Sólvangsbræðrum því vegna óvæntra og skyndilegra hæðarbreytinga eru hellur fyrir eyrum algengur fylgifiskur.
  • Að í Nýjuspakmælabókinni eftir Smá-sög-Sig.standi á blaðsíðu níu: Rólegan æsing! Það kemur aldrei svo sumar að ekki fylgi vetur fljótlega í kjölfarið!
  • Að Sleðasíðan sé laus við Guðna í Straumrás , allavega til hausts

Eftirminnileg afmælishelgi LÍV

Um síðustu helgi var afmælisfundur Landssambands íslenskra vélsleðamanna haldinn í Nýjadal. Þrátt fyrir að veðurguðirnir væru sleðamönnum afar óhliðhollir var engu að síður nokkuð á fjórða tug manna sem lagði á sig erfiða ferð inn á hálendið til að minnast stofnunar sambandsins fyrir 21 ári.

Raunar virðist veðrið jafnan leggja sig fram við að vera í aðalhlutverki þegar stórviðburðir á vegum LÍV eru annars vegar. Sambandið var stofnað í Nýjadal þann 9. apríl 1984 og varð það athæfi landsfrægt á sínum tíma. Hið versta veður brast á og lenntu margir í hrakningum af þeim sökum. Þegar síðan átti að fagna 20 ára afmælinu í fyrravetur urðu menn að hætta við vegna snjóleysis! Stjórn LÍV var einhuga um að gefast ekki upp og halda fast við að minnast stofnunarinnar. Í vetur hittist líka svo vel á að stofndaginn bar upp á laugardag og því kjörið að stefna sleðamönnum saman um þessa helgi.

Undanfararnir

Fyrstu menn lögðu af stað um miðjan dag sl. fimmtudag og þar voru á ferð Ásbjörn Helgi og Jóhann Gunnar stjórnarmenn í LÍV við þriðja mann. Vildu þeir mæta tímanlega á staðinn þar sem langan tíma tekur að ná upp hita í húsunum í Nýjadal. Ferðin var ekki tíðindalaus því nokkuð austan við Laugafell ók forsetinn á stein með þeim afleiðingum að “Kóngurinn” varð óökufær. Þeir gáfust þó ekki upp heldur tvímenntu áfram á Gand Touringnum hans Jóka. Komið var nokkuð fram á nótt er þeir náðu í Nýjadal og voru þá höfð snör handtök við að kveikja upp og moka út mesta snjónum. Var síðan lagst til svefns í eldhúsinu en nokkuð mun mönnum hafa verið kalt á tánum er leið á nóttina.

Um morguninn brunuðu þeir félagar síðan aftur til baka og var nú “Kóngurinn” bundinn öfugur aftan á Jóka. Þannig var ekið í Laugafell og beðið eftir varahlutum sem símað hafði verið eftir til byggða.

Sendiboðarnir

Næstir eru kynntir til sögunnar sendiboðar þeir sem valist höfðu til að færa forsetanum varahluti til að lífga “Kónginn” við. Voru það þeir sálufélagar Siggi Bald. og Mummi Lár. og höfðu uppi stór orð um að ekki yrði mikið mál að skjótast þennan spotta. Lögðu þeir af stað af Öxnadalsheiði um kl. fjögur á föstudaginn en komust all nokkru skemur en áætlun gerði ráð fyrir. Raunar börðust þeir áfram í tvo tíma en komust þó ekki nema rétt fram í miðjan Kaldbaksdal, enda færi og skyggni með því versta sem gerist. Voru þeir að koma til baka örþreyttir eftir óteljandi festur um kl. sex, rétt í sama mund og aðal hópurinn var að mæta upp á heiði.

Flokkurinn ógurlegi

Undirritaður var með síðustu mönnum til að mæta upp á Öxnadalsheiði, klukkan langt gengin sjö. Má þá segja að hálfgert upplausnarástand hafi verið ríkjandi og vildu ýmsir snúa heim aftur ekki seinna en strax. Veðrið var vissulega frekar fúlt en þó var verra að skyggni til aksturs var u.þ.b. ekkert og færið erfitt, mikill blautur og þungur snjór. Líkt og fyrir 21 ári var það “barnsfaðir” LÍV, Steini Pje. sem hvatti menn óspart til dáða og hélt uppi móralnum, staðráðinn í að leggja sem fyrst af stað. Hreiðar formaður, Jón Björns. og Úlli höfðu farið þrír af stað til að kanna aðstæður í dalnum, sem Siggi og Munni höfðu ekki fagrar lýsingar á, en á meðan biðu aðrir átekta. Var nokkuð spáð í hverning þeim þremenningum myndi reiða af en þeir sem þekktu umrædda menn vissu sem var að þeir myndi ekki snúa við fyrr en þeir væru komnir upp úr dalnum og inn á Nýjabæjarfjall.

Það stóð líka heima og eftir um tvo tíma komu þeir félagar til baka, frekar góðir með sig, búnir að leggja slóð inn allan dal. Fóru menn nú að ferðbúast en í ljósi slæmrar veðurspár verð niðurstaðan sú að meirihlutinn ákvað að bíða átekta fram á morgun og taka þá ákvörðun um framhaldið. Átta manns lögðu hins vegar af stað á sleðum og gekk ferðin að óskum, enda farið að dimma þannig að mun auðveldara var að aka. Ferðin inn í Laugafell var tíðindalítil að því undanskyldu að Eiríkur Jóns. tók skykki úr drifhúsinu eftir að hafa gert helst til ágengur við jarðfastan stein. Var gripið til þess ráðs að troða tusku í gatið, hella húsið fullt af olíu og aka síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Í Laugafelli biðu undanfararnir spenntir eftir varahlutunum og þótt komið væri fram á nótt drifu þeir sig í gallana og hófu að gera við, á meðan aðrir lögðust til svefns. Óku þremenningarnir síðan í Nýjadal um nóttina, eftir að “Kóngurinn” hafði öðlast fyrri reisn.

Dag skal að kveldi lofa…

Morguninn í Laugafelli var tekinn rólega eins og vera ber, enda ekki ástæða til óðagots í blíðviðrinu. Farið var í laugina, borðað vel og reynt að afla frétta úr byggð. Kom í ljós að all stór flokkur stefndi upp á Öxnadalsheiði. Varð að ráði að Hreiðar og Smári óku til baka noður Nýjabæjarfjall á móti hópnum, Eiríkur varð eftir í Laugafelli og beið eftir viðgerðarefni í drifhúsið á meðan afgangurinn átti tíðindalitla en góða ferð í Nýjadal. Er leið á daginn bættist þar við harðsnúinn flokkur Skagfirðinga sem farið hafði frá Hveravöllum og um Ingólfsskála. Létu þeir frekar illa af sleðafæri norðan Höfsjökuls.

Af ferð þeirra Smára og Hreiðars er það hins vegar að segja að þeir óku norður allt Nýjabæjarfjall og niður í Kaldbaksdal til móts við hóp Eyfirðinga og Skagfirðinga sem þá var lagður af stað af Öxnadalsheiði. Þar var staðan sú að ýmsum gekk verr að kljást við púðrið í brekkunum en öðrum og nutu þeir aðstoðar hinna reyndari við að komast leiðar sinnar. Inn á Nýjabæjarfjalli var síðan leiðinda veður og gekk á ýmsu við að koma öllum hópnum inneftir. Tók það reyndar megnið af deginum og það voru þeyttir en ánægðir menn sem óku í hlað í Nýjadal að áliðnu kvöldi.

Heiðusfélagarnir

Eftir að menn höfðu nært sig og náð andanum stóð stjórn LÍV fyrir stuttum hátíðarfundi. Þar voru fjórir af frumkvöðlunum að stofnun LÍV sæmdir nafnbótinni “heiðursfélagi LÍV”, þeir fyrstu í sögu sambandsins. Þetta voru þeir Villi Ágústar., Steini Pje., Tómas Búi og Sveinn í Kálfsskinni. Voru þrír þeir síðasttöldu mættir í Nýjadal til að taka við viðurkenningum sínum en Villi átti ekki heimangengt að þessu sinni. Þeir félagar þökkuðu að sjálfsögðu heiðurinn og launuðu fyrir sig með nokkrum góðum sögum.
Á sunnudagsmorgni var risið snemma úr rekkju og áttu menn ánægjulega heimferð eftir því sem best er vitað. Verður ekki annað sagt en að þetta afmælismót LÍV hafi tekist vel og verður án ef lengi í minnum haft, ekki síst hjá þeim sem voru þarna að stíga sín fyrstu skref í sleðamennsku. –HA

Fleyg umæli sem féllu um helgina:
(Athugið að góð saga má aldrei líða fyrir sannleikann)

  • “Skyggnnið í þessu dalrassgati er mínus núll.” –Mummi Lár eftir glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Þetta veður ekkert mál því ég þekki dalinn út og inn. Pabbi hefur svo oft labbað hann.” Siggi Bald. FYRIR glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Ósköp hljóta þessir menn að eiga bágt.” – Hreiðar þegar hann sá Ski-doo flotann sem Skagfirðingar óku.
  • “Það er botlaus krapi, allt á kafi í púðri og maður sér ekki neitt.” – G. Hjálmarsson að lýsa aðstæðum á Öxnadalsheiði á föstudagskvöldið
  • “Ég skellti “Kónginum” bara á krókinn og strappaði hann fastan.” – Jóki að lýsa flutningi á sleða forsetnas.
  • “Ég hafði nú hálf gaman af því að sjá Bjössa tak´ana langsum.” – Sveinn í Kálfsskinni eftir að Hesjuvalla-Björn hafði fest sig í sprungu.

Göngutúrinn – 860 km jeppaferð vítt og breitt um Vatnajökul

Um síðustu helgi fór hópur jeppamanna í ferð inn á Vatnajökul. Hittu þeir á hreint einstakt veður og sendi Guðni í Straumrás ferðasögu úr túrnum sem vert er að lesa.

Fyrri sögustundir frá mér hafa fjallað um heimaslóðir í Grýtubakkahreppi en nú er allt annað hljóð í strokknum því um helgina 4-6 mars fór ég sem aðstoðarökumaður í jeppaferð vítt og breitt um Vatnajökul, aðstoðarökumaður er fínt orð (en afar sjaldan notað) yfir “kóara” eða “skófludýr” og stundum er “kóari” líka “hálfviti” en það gildir að vísu líka yfir suma bílstjóra.

Oddvitinn og hreppstjórinn

En semsagt, góður hópur fólks á fimm bílum lagði af stað frá Akureyri um kvöldmat á föstudag og var farin þjóðvegaleið í Gæsavötn og þar bættust í hópinn oddvitahjónin í Gæsavatnahreppi Ingi og Ingunn frá Húsavík , hreppstjórinn og frú voru þá þegar með í för. (Nærri má geta að enginn boraði í nefið í Gæsavötnum það kvöldið).

Bongóbongóbongó, longóblíða

Laugardagurinn heilsaði okkur með aldeilis frábæru veðri og ætla ég að klára sem snöggvast veður þátt þessarar ferðar með nýyrði sem ætti að skýra sig sjálft = bongóbongóbongó, longóblíða. Við fórum á jökul, nánast beint upp frá Gæsavötnum og fyrsti áfangastaður var Bárðarbunga, þar sem staðfestist enn einu sinni að Ísland er alls ekki svo lítið. Af Bárðarbungu var “straujið” tekið þvert yfir jökul, yfir á Snæbreið, (ps, gaman að vita hvort þessir menn strauja einhverntíma heima hjá sér). Af Snæbreið er aðeins snertispölur á Hvannadalshnjúkinn sjálfan og má nærri geta að bæði menn og konur vildu á toppinn. Þrátt fyrir harðfenni og svell, og þá staðreynd að klifurbúnaðurinn samanstóð einungis af einni ísexi, tveim göngustöfum og þrem teskeiðum var samt ákveðið að reyna uppgöngu, sú tilraun mistókst að þessu sinni en sannaði þó svo að óhyggjandi var, verkfræðingnum til nokkurs hugarléttis að það sem fer upp kemur stundum miklu hraðar niður aftur og er ekki frítt við að dálítil hjartsláttaróregla hafi tekið sig upp hjá nokkrum í hópnum. Á leið okkar frá Hvannadalshnjúk á Grímsfjall litum við ma. niður í Morsárdal og Gísli “ninefinger” Spielberg mátaði sig við Þumal.

Lífræn vekjaraklukka með í för

Olíubaðaðar, grillaðar lambaafturhásingar frá Grímsstöðum á Fjöllum, bragðast náttúrulega hvergi betur en á Grímsfjalli, enda tóku menn og konur vel til matar síns við miðnæturkvöldverð. Sunnudagurinn var tekinn snemma, enda lífræn vekjaraklukka í hópnum sem sefur aldrei svo stutt að hún vakni ekki fljótt aftur. Við drifum okkur niður í Grímsvötnin sjálf og litum á ylströnd sem myndaðist við síðasta gos, engan langaði þó í bað, ef sá svarti sjálfur á einhversstaðar heitan pott gæti þetta verið staðurinn. Á leið í Kverkfjöll ókum við þvert í gegnum það sem eftir er af Gjálp og eru þar að verða lítil ummerki um þær miklu hamfarir sem urðu þar haustið 1996. Þeim sem finnst ekkert varið í Ísland bendi ég á að heimsækja Kverkfjöll, fullyrði að sá sem hefur komið þar og horft í kringum sig verður aldrei samur aftur. Næsti áfangastaður var á Goðahnúkum. Reiknaður meðalhraði okkar á þessum 60 km spotta frá Kverkfjöllum þvert yfir Brúarjökul á Goðahnúka reyndist réttir 90 km pr klst. Þar er skáli, lítill og myglaður í eigu jöklarannsóknafélagsins, að sögn fróðra manna er þar minnsti snjór í manna minnum. Fórum þaðan niður Eyjabakkajökul og inn á þjóðveg við Snæfell, gegnum Kárahnjúka, niður Jökuldal og inná þjóðveg eitt. Stórkostlegri ferð um víðáttur Vatnajökuls var lokið um ellefuleytið á sunnudagskvöld.

860 kílómetrar að baki heiman og heim, eldsneyti á bílana rokkaði á bilinu 150-240 lítrar. Lesendur verða bara að giska á hvor eyddi minna, OfurFreyja hjá símamálastjóranum eða Sassjonginn hjá bakaranum. Þá lætur nærri að um 2.500 myndir hafi verið teknar í ferðinni.

-Guðni í Straumrás.

PS. Þótt ótrúlegt sé tóku margir ferðafélagar fætur sína svo til kostanna í þessarri ferð að sumir vilja nefna ferðalagið “Göngutúrinn” sem er náttúrulega alls ekki viðeigandi fyrir sanna jeppamenn.

Ferð Eyfirðinga í Kerlingarfjöll

Björn Magnússon, formaður EY-LÍV, fór ásamt hópi Eyfirðinga á Kerlingarfjallamótið um síðustu helgi. Sendi hann stutta ferðasögu og fullt af fínum myndum.

Helgin var hreint út sagt frábær, veðrið með ólíkindum gott föstudag og laugardag, en svo kom þokuslæðingur sunnudag. Fórum af Öxnadalsheiði á föstudagsmorgun um Nýjabæjarfjall í Laugafell, þaðan uppá Hofsjökul við Miklafell og upp að Hásteinum. Tókum svo stefnuna niður af jöklinum skammt vestan við Setrið og þaðan í Kerlingarfjöllin. Laugardagurinn var nýttur í rólegheita skoðunarferð um Kerlingarfjöllin, vorum mest í nágrenni Hveradalsins enda nóg að sjá þar. Snilldar matur um kvöldið og smá sprell í ábæti. Heimferð á Sunnudag austur fyrir Hofsjökulinn í Laugafell í þokuslæðing og norður Nýjabæjarfjall í leiðinda norðan gjólu og litlu skyggni. Mögnuð helgi í góðum félagsskap.

Vélsleðaferð á Reykjaheiði

Alfreð Schiöth sendi ferðapistil og myndir frá síðustu helgi er hann var á ferð um Reykjaheiði í S.Þingeyjarsýslu. Þetta er tvímælalaust svæði sem sleðamenn ættu að vera duglegri að heimsækja. Gefum Alfreð orðið: Farin var fjölskylduferð frá Skarðahálsi í Reykjahverfi, sem leið liggur fram hjá Höskuldsvatni, Höfuðreiðarmúla, Sæluhúsmúla og þvælst um Grísatúngufjöll í frábæru veðri s.l. laugardag. Á sunnudag var leikurinn endurtekinn með skipti áhöfn og farið í Þeistareyki og síðan um Jónsnípuskarð í Árnahvamm og niður Geldingadal til byggða. Mjög gott veður framan af degi og þykknaði þegar leið á daginn. Færið var hart og ekki verra að vera á loftkældum sleðum.

Nægur snjór til fjalla

Nokkuð hefur borið á þunglyndi meðal sleðamanna upp á síðkastið og svo virðist sem menn haldi að hvergi sé snjó að finna. Þetta er þó fjarri sanni því til fjalla er nægur snjór, eins og snnaðist í ferð sem farin var á jeppum um Barárðardal og upp í Laugafell um síðustu helgi.

Lagt var af stað seinnipart á föstudag á 5 jeppum, Ingólfur bakari, Ingi og Ingunn frá Húsavík, Haukur Stefáns, Gísli Óla. og Smári Sig. með Hreiðar og Halldór A. sem farþega. Neðantil er Sprengisandsleið alauð eða allt upp undir Fossgilsmosa. Þegar síðan land fer að hækka er nægur snjór og vandræðalaust að aka um allt á sleða. Fremur fúlt veður var á uppeftirleiðinni á föstudagskvöldið, hvasst og skafrenningur. Gat kom á eitt dekk og var það haft til sannindamerkis um hversu veðrið væri slæmt að Ingi fór í kuldagalla á meðan gert var við.

Laugardagurinn heilsaði hins vegar bjartur og fagur með flottasta veðri sem hægt er að fá á fjöllum. Tilgangur ferðarinnar var einkum að lagfæra útihurð á baðhúsinu í Laugafelli og einnig var tækifærið notað í ýmsar aðrar aðdyttingar á staðnum. Að því loknu var ákveðið að renna í Nýjadal en ekki var búið að aka langt þegar Landkrúserinn hans Hauks lagist niður öðru megin að aftan. “Brotinn gormur,” var samhljóða sjúkdómslýsing allra þeirra frægu jeppakalla sem þarna voru samankomnir og ekki annað til ráða fyrir Hauk en að læðast af stað heim. Smári fylgdi í humátt á eftir en aðrir tóku stærri slaufur um miðhálendið. Þegar komið var niður á Sprengisandsleið til móts við skálann í Kvíum var ákveðið að renna niður að skálanum. Þangað niður er brött leið og vandfarin. Allt gekk þó að óskum og er sannarlega gaman að koma þarna niður. Þegar síðan komið var aftur upp á veg brá svo við að bílinn hans Hauks stóð þar bísperrtur og engin merki um brotinn gorm. Heyrðist það síðast af þessu einkennilega máli að réðgert er að skrifa bréf til hr. Toyota sjálfs í Japan og fræða hann um þessa einstöku eiginleika 80 Krúsera, þ.e. að þeir geti læknað sig sjálfir.

Eftir ferðina hefur heyrst…

…að sleðajaxlarnir tveir sem ferðuðust með Smára séu enn aumir í höndunum eftir að ríghalda í sætisbrúnina
…að Landkrúser sé svo fullkominn bíll að hann geti sjálfur grætt saman brotna gorma
…að Haukur ætli ekki á fjöll aftur fyrr en 44 tommurnar eru komnar undir
…að Gísli sé lélegur Halldór
…að Ingi brosi því breiðar sem götin á dekkjum félaganna eru stærri

Gísli Óla. tók flottar myndir í ferðinni.

 

Drangajökull með stefnu á Reykjarfjörð

15. febrúar 2005:

Þórarinn Sverrisson (Tóti Musso) sendi eftirfarandi ferasögu og mynd af ferð hans og Kristjáns Dalton sendibílstjóra um Strandir um síðustu helgi.

Við ákváðum að skella okkur á Strandirnar þar sem veðurspáin lofaði góðu fyrir laugardaginn 12.feb og með myndirnar hér á Sleðasíðunni frá för þeirra Strandamanna á þetta svæði fyrir skömmu átti ekkert að stoppa okkur.

Lögðum af stað á föstudagskvöldið og gistum á Gistiheimilinu hjá Hrólfi. Laugardagur rann upp fagur og var heiðskírt og útlitið gott. Á Steingrímsfjarðarheiði var samt smá mugga og gat veðrið farið á hvorn veginn sem var. Samt sást til sólar af og til. Við lögðum síðan af stað í snjóblindu og smá snjókomu. Hart færi var á Steingrímsfjarðar- og Ófeigsfjarðaheiði en betra færi tók við er við komum upp á Drangajökul. Við kíktum á Hrolleifsborg en sáum ekki niður í Reykjarfjörð. Ekki virtist skriðjökullinn vera frýnilegur og fórum því hefðbunda leið.

Er 5 km. voru eftir í laugina í Reykjarfirði var orðið snjólaust. Við reyndum að finna smá föl til að komast niður með ánni en himinn og haf skildi að. Ekkert bað í þetta skipti takk fyrir. Stoppuðum við því til að næra okkur og horfðum á þokubakkann læðast upp dalinn. Áður en við vissum af var komin þétt snjókoma og talsverður vindur. Allt hafðist þetta að samt lokum en það fór ekki að rofa til fyrr en við komum aftur niður á Steingrímsfjarðarheiði.

Vel hefur Drottinn vandað sig…

Guðni Hermanns tók léttan rennig um heimaslóðir í nágrenni Grenivíkur í liðinni viku. Hann sendi magnaða ferðalýsingu og er réttast að gefa honum orðið:

Hér eru nokkrar myndir teknar á ýmsum stöðum í Grýtubakkahreppi 27. janúar síðastliðinn. Í þessarri yfirreið ók ég skv. gps tækinu mínu 59,87 kílómetra á fjórum klukkutímum sléttum =15km klst.

Afi minn heitinn , Friðbjörn orti eitt sinn þessa vísu og veit ég að ég má fá hana lánaða.

Heimabyggðin heillar mig
hér er mold af gróða rík
vel hefur Drottinn vandað sig
við að skapa Grenivík.

Ég renndi út Hvammsheiði (Vesturheiði) út að Strjúgsgili (Strjúgur er fyrir þá fáu sem ekki vita “matur” þeas. kjötbein voru látin liggja í súr þar til þau urðu meyr og voru síðan étin með spónum, þeir sem áttu spóna eða skeiðar notuðu svoleiðis hinir notuðu náttúrulega guðsgafflana, Nú er ég með tillögu til þeirra frænda minna Bjössa og Himma í Harðfiskverkuninni Darra að þeir geri nú tilraunir með framleiðslu á Strjúg, ef vel tekst til er ég alveg viss um að Jóhannes undrakokkur vinur þeirra bætir þessum vafalaust sérkennilega rétti inn á þorrahlaðborð Múlakaffis fyrir næsta vetur. Ástæða þess að gil þetta heitir þessu matarmikla nafni Strjúgsgil er ekki ljós en kannski hefur ferðamaður sem átt hefur leið þarna um týnt nestinu sínu sem þá hefur náttúrulega verið súrsað beinasull.)

Þessi langloka er nú útúrdúr frá þessarri sleðaferð minni. Höldum nú áfram inn með Gljúfurá innfyrir Víðilæk og ofaní Brattáslautina, sem er að mínu mati einn fallegasti staður í Grýtubakkahreppi þar eru lygilega hávaxin birkitré og veðursælt með afbrigðum, þar var sel frá Bárðartjörn. Ofaní Brattáslautina fór ég í fyrsta sinn á SnoTric (já vélsleða)fyrir um þrjátíu árum, barátta mín við að komast upp brekkuna aftur er einhver hroðalegasta raun sem ég hef átt í á vélsleða. Úr Brattáslautinni lá leið mín norður yfir Sandfell upp Botnana uppá Grenivíkurfjall niður í Grenjárdal upp hjá Skógaröxl út og niður hjá Borgum ofan við Finnastaði og Hjalla, norður Torfdal og niður í Hringsdal og út að Jaðri, til að komast yfir Svíná þurfti nokkrar krókaleiðir aðeins upp í Svínárdal og síðan niður á Svínárnes, þaðan niður á sjávarbakka að Borgarhól og síðan út og upp til Steindyra , Steindyr bera nafn með rentu því þar þarf þó nokkrar krókaleiðir til að komast framhjá öllu stórgrýtinu sem þar er og hafa sig þar norðurfyrir en það tókst nú samt. Skammt er frá Steindyrum að Skeri og eru þar töluverðar rústir, ég hafði hugsað mér að komast alla leið í Grímsnes en sneri við í Ausugilinu, held ég að hæpið sé að fara öllu lengra á sleða. Ég fór svipaða leið til baka að vísu með viðkomu á Kaldbak. Við þetta var ég að gaufa í nærri fjóra klukkutíma og kom heim alveg himinsæll og glaður og ekki spilltu nú fyrir soðiðbrauðið og kleinurnar sem ég fékk hjá mömmu í lokin.

Magnaðar myndir af Hornströndum

Þrír fræknir kappar frá Bolungarvík; Reimar Vilmundarson frá Bolungarvík nyrðri, Sigurður Þ. Stefánsson (tengist Reykjarfirði nyrðri), og Einar Guðmundsson, lögðu upp í langþráða sleðaferð um Hornstrandir. Tekið var af á Steingrímsfjarðarheiði, fögur sýn blasti við þeim félögum, mikill snjór og allt hvítt eins og augað eygði. Við látum myndirnir tala sínu máli um fegurð Hornstranda að vetralagi.

Skroppið í Héðinsfjörð

Einmanna sleði við Vík í Héðinsfirði.

Einmanna sleði við Vík í Héðinsfirði.

Firecat Loftskörðun. Skaflinn þar er nú óvenju brattur.

Firecat Loftskörðun. Skaflinn þar er nú óvenju brattur.

Finnur Steingrímsson í Ólafsfirði skrapp í Héðinsfjörð í gær, eftir að farið var að skyggja. Sagðist hann hvorki hafa orðið var við kindur né Siglfirðinga en þeir lentu sem kunnugt er í hremmingum þar um helgina. Einn sleði hefur verið skilinn eftir við Vík. Finnur fór leiðina yfir Loftskörð og er seinni myndin tekin í skarðinu á heimleiðinni. Skaflinn þar er nú óvenju brattur að sögn Finns.

Púðrið í Þorvaldsdal kannað

17. janúar 2005:

Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs voru ásmat fleirum að kanna púðursnjóinn í Þorvaldsdal um helgina. Sendi Smári ferðasögu og myndir.

Við Sigurgeir “drulluðumst” loks á sleða á laugardaginn. Fínt veður um morguninn enda vaknað það snemma að ekki var nema myrkur að sjá út um eldhúsgluggann. En viljinn var beittur og ákveðið að fara í Ólafsfjörð og sannreyna allt púðrið sem þeir gortast af. Þegar þangað kom var bara hvítt myrkur yfir öllu. Við bara bognuðum, snérum við á planinu og héldum heim.

En fannst þetta frekar dapurt að koma aftur heim með allt nestið, svo ákveðið var að renna inn á Þorvaldsdal, þó ekki væri nema til að klára nestið. Viti menn þar var bara frábært veður og enn betra færi. Bara fínt færi fram fyrir Hestahraun en tvö verulega stór snjóflóð þar fyrir framan sem minna okkur á hætturnar. Þegar komið inn í Fögruhlíðina á Nautárdal fór nú púðrið að verða alvöru púður. Það varð að halda takkanum alveg frammi þó verið væri að keyra jafnsléttu. En svo bregðast krosstré sem önnur tré, því púðurbúðingur Sigurgeirs hreinlega var jarðaður í einni brekkunni. Taka varð fram stórar skóflur og moka mikið og lengi.

Á heimleið, miklu vökvatapi síðar, mættum við Hauki á Toyota með sinn flokk sem ætlaði aðeins að glíma við púðrið. Haukur taldi vert að mynda sinn hóp til að sanna ferð hans, þar sem sleðadrengirnir á Toyota voru farnir til Ameríku og myndu ekki trúa því að karlinn treysti sér í ferð án þeirra.

Flott jeppaferð um helgina

Nokkrir jeppamenn frá Akureyri og Húsvík fóru fínan túr inn á hálendið um helgina. Smári Sig sendi smá ferðasögu.

Á föstudagskvöld var farið upp Bárðardal og stefnt á Gæsavötn. Í upphafi ferðar var lítill snjór en þegar komið var inn að Kiðagilshnjúk var kominn flottur snjór og alveg skruggu færi alveg í Gæsavötn.

Á laugardagsmorgni var haldið austur með jökli (sleðaleiðina) í fínu færi allt austur fyrir Kistufell. Þá var rétt eins og klippt hefði verið á snjóinn og við Sigurðarskála er algerlega snjólaust. Þangað væri ekki hægt að komast á sleða, jafnvel með einbeittan vilja. Tíma tók að finna færa leið en Jökulsá á Fjöllum hafði breitt nokkuð úr sér og ísinn hélt ekki alsstaðar.

Á sunnudag var haldið niður með Jökulsá að vestan og kíkt á fossinn í Svartá og upptökin árinnar, sem er alltaf jafn magnað á að horfa. Þar var miklu betri og meiri snjór en upp við Kverkfjöll og gaman að vera til. Litið var við í Dreka og dáðst að nýja húsi Ferðafélags Akureyrar. Í Herðubreiðarlindum var lítill snjór eins og venjulega en þegar norðar dró fór snjórinn að aukast fyrir alvöru. Var orðið flott færi við Ferjuásinn og hægt að sprauta í allar áttir. Myndirnar tóku Gísli Óla. og Halldór Jóns.

Einstakur nóvemberdagur á hálendinu

Í gær var farin ferð inn á hálendið í þeim tilgangi að taka handriðin af brúnni yfir Skjálfandafljót á Gæsavatnaleið en þetta er verkefni sem Gæsavatnafélagið hefur tekið að sér og annast á hverju hausti. Í leiðinni gafst kjörið tækifæri á að líta eftir snjóalögum.

Veðrið í gær var með því besta sem gerist á fjöllum. Birtan á þessumn árstíma er einnig ævintýri líkust og sannarlega ekki leiðinlegt að vera til á svona dögum. Farið var á 5 jeppum úr Eyjafirði árla morguns og sem leið liggur upp á Sprengisand um Bárðardal. Eftir að farið var frá Mýri var fremur snjólétt fyrst í stað en jókst eftir því sem ofar dró. Ekið var í Sandbúðir því sem næst eftir veginum og þaðan austur á bóginn fyrir norðan Fjórðungsvatnið. Krækt var suður fyrir hraunið og síðan beint á brúna yfir Skjálfandafljót. Á þessari leið eru snjóalög mjög efnileg, jafnfallinn snjór yfir öll sem myndi verða góður grunnur með hæfilegri hláku, bæði fyrir jeppa og sleða. Vel gekk að taka handriðin af brúnni og að því loknu var brennt í Gæsavötn. Þar var allt í góðu standi að því undanskildu að ekki hafði verið settur nægur frostlögur í klósettið sem skapaði viss vandamál þegar menn ætluðu að nýta sé þægindin. Eftir ýmsar útréttingar var ekið af stað heim á leið með viðkomu á Fjórðungsöldu. Gekk það fljótt og vel enda vanir menn á ferð.

Þá má þess geta að Jón Björns og Hreiðar í Vín brugðu sér inn á hálendið á sleða í gær. Fóru þeir upp Kerhólsöxl og brenndu inn í Landakot. Létu þeir vel af ferðinni og sögðu færið með því besta sem gerist. Heyrst hefur af fleiri Eyfirðingum sem stefna á ferðir og því virðist sem vertíðin sé sem óðum að komast í gang.

Heyrst hefur eftir ferðina…
…að það sé alltaf sól í Gæsavatnahreppi
…að Gæsavatnahreppur geti náð yfir svo stóran hluta af hálendinu sem hentar (Smára) hverju sinni
…að keppst verði um hver fær að sitja á víðförlasta stól á Íslandi sem nú er (loksins) í Gæsavtanaskála
…að framvegis muni menn athuga vel klósettið í Gæsavötnum áður en gert er stórt
…að ákveðinn blettur á lóð Gæsavatnaskála verði sérlega grænn næsta sumar
…að prufuökumaður Sleðasíðunnar sé farinn að leita fyrir sér hjá jeppaumboðunum

Meðfylgjandi myndir tóku Halldór Jónsson og Halldór Arinbjarnarson í ferðinni inn í Gæsavötn.

Varla hægt að mæla með sleðafærinu

Síðastliðinn miðvikudag renndu þeir Hreiðar í Vín, Sigurgeir Steindórs., Eiríkur Jóns. og Smári Sig. á sleðum inn í Laugafell. Farið var á bílum fram Eyjafjarðardal og tekið af fram undir Brúsahvammi. Ferðin gekk vandræðalaust en ekki sögðust þeir félagar geta mælt með sleðafærinu. Reyndar ráða þeir mönnum frekar frá því að fara þessa leið fyrr en meiri snjór er kominn. Veðrið á miðvikudaginn var eins og það gerist best og tók Sigurgeir meðfylgjandi myndir í ferðinni.

Vortúr um Vatnajökul 2004

Hópur sleðajaxla úr Eyjafirði og Austurlandi fór magnaða vorferð á Vatnajökul dagana 20.-23. maí sl. Að norðan komu auk síðuhöfundar þeir Smári Sig., Hreiðar í Vín og Sigurgeir Steindórs en að Austfirðingar voru þeir Björn Sveinsson og Ásbjörn Helgi Árnason.

Sleðavertíðinni er ekki lokið

Er sumarið komið? Allavega er sleðavertíðinni ekki lokið því í gær, sunnudag, fóru Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs í fínan skreppitúr um Hlíðarfjall og inn á Nýjabæjarfjall.

Þar var færið hreint magnað, nýr snjór yfir öllu og rennislétt. Reyndar var allstaðar nýsnævi í 1000 metra hæð. Aðal markmiðið var þó að skreppa á Vaskárjökul og kanna snjóalög eftir veturinn. Á Vaskárjökli hafa menn verið að safna saman braki úr breskri flugvél sem þar fórst á stríðsárunum. Búið er að safna töluverðu magni og koma í net sem væntanlega verður tekið niður með þyrlu í sumar. Það eru félagar í Súlum björgunarsveit sem hafa verið að vinna í þessu verkefni undan farin ár en það var sem kunnugt er Hörður Geirsson sem fann þessa vél eftir að hafa leitað hennar í áratug eða svo.

Heyrst hefur í sleðaumræðunni að:
Því lengri því betri……….

Kverkfjallaferð í sumarbyrjun

Nú er tími vortúrana að renna upp og þótt snjóalög á hálendinu sé í minnsta lagi er ljóst að enn er vel hægt að fara góða túra. Þannig fór hópur Eyfirðinga fína ferð í austur í Kverkfjöll um helgina og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.

Svona eiga vortúrar að byrja!

Eins og vænta má var túrinn afar góður og skemmtilegur. Veðrið í upphafi ferðarinnar á föstudag var reyndar ekki neitt til að hrópa fyrir, ausandi slagveðurs rigning. En svona eiga vortúrar að byrja var sagt. Heldur stytti upp er á kvöldið leið og var komin besta blíða er innar dró. Áttu menn góða næturhvíld í Laugafelli.

Strikið tekið austur

Ræst var tímanlega á laugardag og fyllt á koppa og kyrnur. Veðrið lofaði góðu og því ekki til setunnar boðið. Strikið var tekið ausur um því nú átti að reyna við Kverkfjöll. Á Fjórðungsöldu var skimað eftir leið yfir á Tungnafellsjökul. Það reyndist auðvelt og besta leiðin var að fara upp syðsta jökulfallið.

Er komið var austur fyrir Vonarskarð þurfti að þræða töluvert. Valið var að fara upp að Bárðartindi, þræða sig þaðan yfir á Rjúpnabrekkujökul og koma niður hjá Gæsahnjúk. Auðvelt og frábært færi var að renna austur með jökli. En austan við Kistufell þurfti upp á jökul aftur. Eins og menn muna hljóp jökullinn fram fyrir nokkrum árum en hann er nú orðinn ótrúleg sléttur og fínn. Það var því leikur einn að komast austur undir Jökulsá. Þá þurfti léttar æfingar til að komast heim að skála.

Komið að heitum skála

Þegar komið var í Sigurðarskála var kveikt á eldavélinni, þ.e. stóru olíuvélinni í eldhúsinu. Það hafði verið hópur í húsinu á undan okkur sem sennilega hefur verið svona hugulsamur og hlíft okkur við að kveikja upp……….? Frábært færi og mikið nýsnævi var á leið okkar í kvöldbaðið í Hveragili. Hreint út sagt frábært að sleðast um fjöllin þar og ekki var lækurinn verri.

Vindur á jökli

Á sunnudag var loksins ræst á réttum og tíma.. Fara átti upp á jökul um Kverkina eða Löngufönn, en þar var hreint út sagt brjálað veður. Mikill vindur og skafrenningur. Því var tekin stefnan á Dyngjujökul og strikið tekið beint á Kistufell og komið niður af jöklinum vestan við Fellið. Á leið okkar þvert yfir Rjúpnabrekkujökulinn var svo sterkur vindurinn ofan “Bungunni” að erfitt var að tolla á réttum kili. Það var ekki fyrr en í Snapadal að leyfi fékkst til að borða fyrri samlokuna, enda kominn löglegur morgunkaffi tími.

Heyrst hefur:

  • Að G.Hjálmarsson hafi ekki þorað í túrinn, þrátt fyrir yfirlýsingarnar í sjónvarpinu
  • Að Sigurgeir hafi verið í minnihluta.
  • Að Smára hafi loks orðið að ósk sinni með fótaferðartíma
  • Að Bjarki þurfi að fylla vasana til að þyngja sig svo hann fjúki ekki af baki
  • Að formaðurinn hefur aldrei áður átt svona góðan sleða.
  • Að Jón vilji bæta við einum cylinder.