Vatnahjallavegur kominn vel á veg

Framkvæmdir við Vatnahjallaveg hófust fyrr í haust og eru komnar vel á veg. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að mótum á vegstæðinu og er það verk nú langt komið. Það er sem kunnugt er Félag vélsleðamanna í Eyjafirði sem haft hefur forgöngu um verkið og að undirbúningi hefur unnið nefnd á vegum félagins undir formennsku Hreiðars í Vín. Í gær mætti vaskur hópur manna fram í Vatnahjalla, með nefndina í fararbroddi, til að halda áfram að stika út fyrir vegstæðinu, sem gekk bæði fljótt og vel.

Hinn nýi Vatnahjallavegur verður glæsilegt mannvirki. Þegar hann verður fullbúinn standa vonir til að þarna verði greið leið upp á hálendið stjórn hluta úr vetrinum og ekki síst mun vegurinn koma sér vel þegar fer að vora og snjólínan færist ofar. Það er að sjálfsögðu vélsleðamaður sem sem unnið hefur verkið en þar er á ferð Trausti Halldórsson á gröfu frá Dóra Bald. Væntanlega ræðst það nokkuð af tíðarfari hversu mikið verður hægt að klára í haust en sem fyrr segir er ekki langt í að lokið verði við að móta vegstæðið upp á hælinn. Þá á eftir að laga veginn til með jarðýtu og setja á hann burðarlag.

Í vegasafni 4×4 skrifar Jóhann Björgvinsson um Vatnahjallaveg og segir meðal annars. “Um Vatnahjalla hefur legið vegur frá landnámi, vegurinn var varðaður 1882 af Fjallvegafélaginu. Vatnahjallavegur er fyrsti hluti Eyfirðingavegar, sem nær suður á Þingvelli. Um Vatnahjalla var lagður fyrsti bílvegurinn upp úr Eyjafirði, það var Ferðafélag Akureyrar sem stóð að þeirri vegalagningu á árunum 1939-1944 og þá varð fært úr Eyjafirði inn í Laugafell og þaðan á Sprengisandsleið. Veginum hefur ekki verið haldið við síðan 1957”

Lýsing Jóa á gömlu leiðinni er þannig: “Leiðin liggur fyrst upp úrrunna moldarsneiðinga, síðan upp Hafrárdalinn og upp á Vatnahjallann sjálfan. Á því svæði er mjög stórgrýtt. Þegar kemur suður fyrir Urðarvötn minnkar grjótið og syðsti hlutinn er um greiðfæra mela. Vegurinn er mjög torfær og er aðeins fær bílum á stórum hjólum með læsingar. Snjór liggur þarna langt fram eftir sumri. Af veginum er afleið út á Torfufell, þar sem Landsíminn var með aðstöðu. Einnig er afleið yfir að Grána. Fjallaskálinn Bergland stendur við leiðina austan við syðra Urðarvatnið.”

Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær.

Kverkfjöll og nágrenni

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála. Fv.: Sævar, Benedikt, Elín, Hreiðar, Halldór og Úlfar. Guðmundur Hjálmarsson tók myndina.

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála.

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og litlu sunnar og vestar á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu. Liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Ekki er vitað nákvæmlega hversu oft gosið hefur í Kverkfjöllum sökum þess að eldstöðin liggur undir jökli og hversu afskekkt þau eru. Þó eru ummerki um a.m.k. 20 gos frá landnámi sem líklegt er að eigi rætur sínar að rekja til Kverkfjalla.

Skiptast í tvennt

Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverkina sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverkina skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla afar stórir skriðjökulskildir, Dyngjujöklull að vestanverðu og Brúarjökull að austanverðu. Ná þeir allt frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli og falla aflíðandi norður á hásléttuna. Dyngjujökull hljóp fram á árunum 1999-2000 og er enn með öllu ófær.

Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5–6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.

Að komast í Kverkfjöll

Í Kverkfjallarana.

Í Kverkfjallarana.

Kverkfjallasvæðið var um aldir vel varið frá náttúrunnar hendi. Stafar það af því að undan skriðjöklunum beggja vegna falla miklar jöklulár, Kreppa undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Svæðið á milli þeirra nefnist Krepputunga. Fornar heimildir og munnmæli benda til mannaferða yfir Vatnajökul á miðöldum en jökullinn var þá langtum minni en síðar varð. Ekki er ólíklegt að leið Norðlendinga suður yfir jökul hafi legið upp austan Kverkfjalla. Fyrstur til að ganga á Kverkfjöll var þýski jarðfræðingurinn Trautz árið 1910.

Sumarið 1970 var Kreppa brúuð suðvestur af Arnardal og rudd akslóð inn Krepputungu um Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð að Kverkfjöllum. Vestan úr Ódáðahrauni liggur svonefnd Austurleið [F910] yfir brú sem byggð var yfir Jökulsá á Fjöllum rétt sunnan Upptyppinga árið 1986. Út frá henni liggur Kverkfjallaleið [F902] suður til Kverkfjalla. Austurleið heldur áfram austur yfir Krepputungu en við Kreppuháls greinist frá henni Hvannalindavegur [F903] suður í Hvannalindir.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Vetrarferðir opnuðu fólki alveg nýja sýn á Kverkfjöll, eins og raunar allt hálendið. Þegar snjór er nægur er auðvelt að aka á sleðum og bílum framan við skriðjöklana, Dyngjujökul og Brúarjökul, og inn í Krepputungu, en einnig er algengt að koma í Kverkfjöll ofan frá, þ.e. af Vatnajökli. Þá er jafnan ekið niður svonefnda Löngufönn en athuga verður að sú leið getur stundum verið algerlega ófær út af jökulsprungum. Einnig hefur verið ekið um sjálfa Kverkina en hún er algeralega ófær öllum ökutækjum um þessar mundir. Sé komið niður Brúarjökul þarf að komast yfir Kverkfjallaranann eða krækja austur fyrir hann.

Sigurðarskáli

Sumarið 1971 reistu Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðar og Húsavíkur skála í Kverkfjöllum, Sigurðarskála. Stendur hann vestan undir svonefndu Virkisfelli og er kenndur við Sigurð Egilsson, forgöngumann í ferðamálum á Húsavík. Tjaldsvæði er rétt við skálann. Á seinni árum hefur verið byggt við Sigurðarskála og tekur hann nú um 85 manns í svefnpokagistingu. Skálinn er opinn allt árið og þar er gæsla yfir sumartímann.

Jarðhiti í Kverkfjöllum

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum vestari. Tengist það misgengi með sigstalli til vesturs. Hverasvæðið er um 3 km á lengd og allt að 1 km á breidd og liggur í 1600 -1700 m hæð yfir sjó. Efst og syðst er Hveradalur, aðskilinn með Þrengslum frá Hveraskál [Neðri-Hveradal], sem er víð geil mót norðvestri að Dyngjujökli. Norðan í skarðinu er Gámur, einn öflugasti gufuhver landsins. Austan við Hveradal er skáli Jöklarannsoknarfélags Íslands í um 1750 metra hæð.

Gönguleið í Hveradal liggur frá Kverkjökli, skáhallt upp svonednda Löngufönn og áfram með brúnum upp í skála Jöklarannsóknafélagsins. Í slíka ferð þarf að ætla sér allan daginn fram og til baka. Ekki er ráðlegt að ganga þessa leið nema að vera í góðu formi og hafa allan varann á því að hætturnar á leiðinni eru margar. En þessi fjallganga er ógleymanleg!

Innst í Hveradal er allstórt lón, oft ísi lagt en tæmist stundum. Annað lón eða stöðuvatn er í ketilsigi rétt austur af skála Jöklarannsóknafélagsins. Er sigið um 600 m breitt og 100 m djúpt. Það myndaðist árið 1959 í eins konar sprengigosi í tengslum við jarðhita. Þá eru og hitur ofarlega í Skarphéðinstindi og víðar í Kverkfjöllum eystri.

Hveragil

Austan Kverkfjalla er jarðhita að finna í Hveragili á um tveggja km löngum kafla og eru þar víða 40 til 60 gráðu heitar laugar. Í gilinu eru fallegar kalkútfellingar og bólstraberg. Í ánni sem kemur undan Kverkjökli er vottur af jarðhitavatni sem veldur því að íshellir myndast yfir farveginum. Jarðhiti er undir skriðjöklinum og afrennsli er til hellisárinnar frá ketilssiginu í öskjunni efra.

(Helsta heimild: Vefur Umhverfisstofnunar)

Laugin í Laugafelli endurbyggð haustið 2000

Hópur vaskra vélsleðamanna úr Eyjafirði tók sig til haustið 2000 og endurbyggði laugina í Laugafelli. Verkið tók tvær helgar og má með sanni segja að ásýnd laugarinnar hafi tekið stakkaskiptum.

Framkvæmdir fólust í stórum dráttum í því að múrverk innan í lauginni var brotið burt en veggirnir þess í stað hlaðnir upp með náttúrulegum hellum. Í það dugði ekki minna en tveir vörubílsfarmar af grjóti. Þá var hleðslan í ytra byrðinu öll endurgerð og laugarbarmurinn þökulagður. Einnig voru gerðar endurbætur á skansinum í enda laugarinnar þar sem heita vatnið rennur inn og menn sitja gjarnan. Baðaðstaðan er því bæði fegurri og betri en áður.
(Myndir: Halldór og Smári Sig.)

Laugafell

Sér yfir Laugafell.

Sér yfir Laugafell.

Laugafell (879 m y.s.) og Laugafellshnjúkur (997 m y.s.) nefnast tvö fjöll úr móbergi, norðaustur af Hofsjökli. Sjást þau víða að, einkum hnjúkurinn sem er yngri og hærri og endar auk þess í toppi. Milli þeirra fellur Hnjúkskvísl en Laugakvísl norðan við fellið. Í ás norðvestur frá Laugafelli eru laugarnar sem það er kennt við. Þar hafa risið nokkur hús og þegar talað er um að fara í Laugafell er vísað til þeirra. Á myndinni hér til hliðar sér yfir staðinn með Laugafellshnjúkinn í baksýn. Lengst til hægri er sæluhús sem Ferðafélag Akureyrar reisti á árunum 1948-1950. Því er vel við haldið og hinn besti gististaður. Næst er Hjörvarsskáli í eigu hóps vélsleðamanna og þá snyrtihús Ferðafélags Akureyrar sem var í byggingu þegar þessi mynd er tekin. Þar er afar góð aðstaða, líkast til sú besta sem finnst á fjöllum. Lengst til vinstri er bústaður landvarðarins en Ferðafélagið er með gæslu á svæðinu á sumrin.

Aðdráttarafl Laugafells felst í heita vatninu sem þar sprettur upp en öll hús á svæðinu er hituð upp með því. Heitustu uppspretturnar eru tæplega 50ºC. Aðalbaðlaugin er á milli húsanna fyrir miðri mynd, í hvarfi við grasbakka. Þar er alger draumur að skríða í ylinn eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Haustið 2000 tók vaskur hópur sleðamanna sig til og endurbyggði laugina. Má lesa nánar um það hér.

Norðvestur frá sæluhúsunum er dálítil þró í móhelluklöpp sem heitt vatn sprettur upp í. Þróin er um tveir metrar á lengd og svo víð að meðalmaður getur legið í henni og flýtur þá yfir hann. Þjóðsögn er um það að Þórunn á Grund novemberm1.jpg (59840 bytes) hafi dvalist með fólki sínu við Laugafell á meðan svartidauði gekk yfir og hafi hún látið klappa laugarkerið í klöppina. Sá galli er á þessari sögu að Þórunn fæddist fullri öld eftir að svartidauði geisaði. (Þess ber þó að gæta að mikil sóttarplága geisaði á landinu árið 1493.) Hins vegar bendir hún til þess að Grundarmenn hafi talið sér land inn að jökli. Önnur sögn nefnir þessa húsfreyju Þórunni ríku á Möðruvöllum en naumast munu vera til heimildir um hana. Meðfram laugunum og lækjum sem frá þeim renna eru valllendisbrekkur með ýmsu túngresi, þótt í um og yfir 700 m hæð sé.

Nóvembermorgun í Laugafelli

Nóvembermorgun í Laugafelli

Við Laugafell hafa fundist leifar fornra mannvirkja á bakka Laugakvíslar. Herma forn munnmæli að áðurnefnd Þórunn ríka hafi haft þar selstöðu en dvalist þó með allt fólk sitt þar meðan svartidauði gekk. Gamlir Eyfirðingar kölluðu tóttaleifar þessar Þórutóttarbrot og hafa lítilsháttar mannvistarleifar fundist þar en þar er jarðhitinn einna mestur á þessu svæði. Full þörf væri á að kanna minjar þessar til hlítar og friðlýsa þær.

Suðaustur frá Laugafelli er allstór flá, Fellshalaflá, og er það syðsti hestahagi áður en lagt er á Sprengisand að norðan. Í Laugafell er alltaf gaman að koma en þar er aðstaða öll hin besta fyrir ferðamenn, með góðu tjaldstæði og skemmtilegu umhverfi. Ekki þykir heldur af verri endanum af dýfa sér í bað eftir góðan göngutúr um nágrennið. Stutt er frá Laugafelli í aðra áhugaverða staði og má til dæmis nefna vötnin norðan við Hofsjökul þar sem upplagt er að skella sér í silungsveiði.