Haydays í 50 ár

Í júlí árið 1966 komu nokkrir vinir saman og lögðu fyrstu drög að stofnun vélsleðafélags sem þeir seinna gáfu nafnið Snow-Barons. Haustið eftir ákváðu þeir að reyna með sér í spyrnukepppni og þar með var hafin vegferð sem stendur enn þann dag í dag. Engum sögum fer af tímunum sem náðust, enda tækin í þá daga ansi frábrugðin sleðum nútúmans. En þetta uppátæki þróaðist í að verða stærsti viðburðurinn í sleðaheiminum ár hvert og „formlegt upphaf vetrarins“ eins og eru einkennisorð Haydays í dag.

Heimsókn á Haydays hefur lengi verið á óskalistanum og því var eiginlega ekki annað hægt en láta verða af því á 50 ára afmæli viðburðarins, haustið 2016. Svo heppilega vill til að einkasonurinn er einnig forfallinn sleðaáhugamaður, hvernig svo sem það hefur atvikast. Hann féllst því á að veita föður sínum félagsskap í ferðinni og það án þess að beita þyrfti fortölum sem heitir.

Sem fyrr segir byrjaði Haydays sem spyrnukeppni og hún leikur enn verulegt hlutverk, þótt í raun séu aðrir þættir sem miklu frekar draga fólk að og aðrar keppnisgreinar sem fá meira áhorf. Þróunin hefur orðið sú að í raun er orðin skyldumæting fyrir alla sem á annað borð vilja láta taka sig alvarlega í sleðaheiminum – sleðaframleiðendur, aukahlutafyrirtæki, fataframleiðendur, keppnisliðin o.fl. o.fl. Að auki er svo hið risastóra „Swap-meet“ þar sem hinir aðskiljanlegustu aðilar mæta með notaða hluti og nýja, jafnvel bara það sem kom fram í dagsljósið við síðustu tiltekt í bílskúrnum. Þarna ægir því öllu saman í bókstaflegri merkingu, þannig að úr verður viðburður sem á engan sinn líka.

Á hverju ári er síðan reynt að vera með sérstakan viðburð sem trekkir að og í ár var það risastökk goðsagnarinnar Levi Lavalle sem vippað sér án vandræða rúma 60 metra, enda á hann reyndar að baki ca. helmingri lengra stökk á vélsleða yfir höfnina í San Diego.

Að sjálfsögðu blómstra viðskiptin, bæði með notað og nýtt, og á tíðum hægt að gera ansi góð kaup samanborið við búðarverð á Íslandi. Fyrir Íslendinga er afar einfalt að heimsækja Haydays. Icelandair flýgur til Mineapolis og þaðan er innan við klukkutíma akstur á svæðið. Ágætt er að gista inni í Minneapolis, því þótt borgin verið seint talin sú skemmtilegasta í Bandaríkjunum þá er óvíða hagstæðara að versla.

Hér að neðan fylgja svo nokkrar myndir úr ferðinni.

Hvítasunnutúr í bongóblíðu

Vortúrar um hálendið er eitt af því sem heillar við sleðamennskuna og hvítasunnuhelgin 2016 var sannkallað hlaðborð lystisemda. Ekið var því sem næst úr bílskúrnum en lagt var upp frá Geldingsárréttinni í Vaðlaheiði á föstudagskvöldi, með Gæsavötn sem áfangastað. Farið var um Gönguskörð og svo sem leið liggur inn fjallið, með viðkomu í skálunum Landakoti og Sandbúðum. Þaðan austur á bóginn, yfir Skjálfandafljótsbrú og í Gæsavötn. Tók ferðin í heild sétta 3 tíma.

Laugardagsmorgun heilsaði með sól og blíðu. Planið var að kíkja í Dyngjufjöll og þaðan í Kverkfjöll en upp Trölladyngju sást að enn var ekki orðið vel bjart í Dyngjufjöllunum þannig að þeim var sleppt og farið beint austur fyrir framan Dyngjujökul. Lítilsháttar þræðingar voru á Flæðunum og smá krókur að finna snjóbrú á meginkvísl Jökulsár en þegar hún fannst var leiðin greið í Kverkfjallarana með kafsnjó. Stefnan var að sjálfsögðu á bað í Hveragili og reyndist baðvatnið vera í heitari kantinum. Þaðan var ekið upp á eystri hrygg Kverkfjalla, tekinn sveigur fyrir Kverkina, höfð viðkoma við skála Jöklarannsóknafélagsins og niður Löngufönn í Sigurðarskála. Til baka í Gæsavötn var farið um Dyngjujökul með viðkomu á Kistufelli. Um kvöldið var slegð upp veislu, enda gott dagsverk að baki.

Ekki var veðrið sem sunnudagurinn bauð upp á neitt síðra en daginn áður og eftir hefðbundin morgunverk og frágang var lagt í‘ann á jökul, áleiðis í Grímsvötn. Ferðin sóttist vel þótt færið væri í harðara lagi. Eftir viðkomu á Grímsfjalli var haldið niður Köldukvíslarjökul, áð í Vonarskarði og síðan haldið vestur yfir Tungnafellsjökul. Vestan hans var ferkar snjólétt yfir að líta en fyrir vana menn var létt að rata á réttu snjólænurnar vestur fyrir Fjórungsöldu. Gott stopp var tekið í Laugafelli og þar tekin ákvörðun um að setja smá krydd í heimferðina. Í stað þess að stefna niður austan Eyjafarðar og niður á Vaðlaheiði var brunað norður Nýjabæjarfjall og svokölluð „Dalvíkingaleið“, niður Glerárdal og endað á gömlu öskuhaugunum ofan Akureyrar. Að baki var góð 550 km ferð í frábæru veðri og færi.

Ferðafélagar voru þeir Hreiðar í Vín, Gunni Garðars, Ingólfur Finnsson, Úlfar Arason og Sigurgeir Steindórsson.