Vetrarsport 2015

Helgina 28.-29. nóvember verður sleðaveisla á Akureyri með hinni árlegu Vetrarsportsýningu og árshátíð sleðamanna. Sem kunnugt er þá var ákveðið í fyrra að halda þessa hátíð til skiptis sunnan og norðan heiða og sameina þannig sleðafólk af öllu landinu. Fyrir sunnlendinga eru ýmis tilboð á flugi og gistingu í samráði við LÍV Reykjavík. Miðar á árshátíðina verða seldir í Storm í Reykjavík og Motul á Akureyri. Athugið að nauðsynlegt er að tryggja sér miða áður en það verður uppselt.

Nánari dagskrá og upplýsingar á http://www.liv.is.

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn Ein með öllu 2015

Vortúrinn 2015 var óvenju seint á ferðinni og kom það ýmislegt til, einkum þó óvenju kalt vor og að helgar með virkilegum blíðviðrisdögum virtust einfaldlega ekki vera á boðstólnum. Einhverjir vildu reyndar meina að það vantaði bara meira bit í karlanna en á það var ekki hlustað. Loks var brottför ákveðin 17. júní, enda ekki seinna vænna. Ferðaáætlun á þessum ártíma er hefðbundin því ekki er mikið val um færar sleðaleiðir á hálendinu þegar svo langt er liðið á árið. Alla jafna er lagt upp af Öxnadalsheiði og stefnan tekinn austur á bóginn þvert yfir Sprengisand, áleiðis að Vatnajökli.

Fjallið alltaf jafnt „skemmtilegt“
Flokkurinn taldi aðeins fjóra að þessu sinni þegar ekið var inn Kaldbaksdalinn á Öxnadalsheiði síðdegis 17. júní. Hreiðar Hreiðarsson (eða Formaðurinn), Jón Trausti Björnsson og Úlfar Arason, auk undirritaðs. Nokkrar þræðingar voru neðst í dalnum en síðan var leiðin greið inn á Nýjabæjarfjall. Þar var eins og jökull yfir að líta, eða hefði a.m.k. verið með útsýni umfram þá 5 metra sem í boði voru. Aksturinn inn fjallið sóttist hins vegar ágætlega að því frátöldu að sleði Formannsins virtist ekki of spenntur fyrir ferðalaginu og gekk nokkuð köflótt. En áfram var haldið og heldur birti til þegar halla fór niður af Nýjabæjarfjallinu. Áfangastaðurinn var Laugafell og eins og hefðbundið er á vorin þá kostaði talsverða króka og þræðingar að finna færa leið síðustu kílómetrana.

Lífinu tekið með ró
Veðurspáin hafði gert ráð fyrir frekar þungbúnu veðri daginn eftir og þegar risið var úr rekkju kom í ljós að spáin hafði fyllilega gengið eftir. Vonir voru um að létta myndi til seinnipartinn og lífinu því tekið með ró, dvalið lengi í morgunmat, legið enn lengur í lauginni og sagðar mun fleiri sögur. En að lokum var ákveðið að síga af stað áleiðis austur í Gæsavötn og láta reyna á hvort þangað væri enn fært á sleða.

Babb í bátinn
Ekki höfðu menn lengi ekið þegar í ljós kom að eitthvað var bogið við einn sleðann og skoðun leiddi í ljós að fremri kúplingin var brotin í tvennt. Engar forsendur voru því fyrir því að hann gæti langt upp í ferð lengra inn á hálendið og nú sest á rökstóla um hvað til bragð ætti að taka. Einróma niðurstaða var að reyna að koma sleðanum aftur niður á Öxnadalsheiði, keyra í bæinn, sækja nýjan sleða og halda ferðinni áfram, eða hefja hana að nýju, eftir því hvernig á það er litið. Brotið var nú stillt af og kúplinsboltinn hertur eins og hægt var með „skiptilykilsræfli“ sem Formaðurinn lagði til. Síðan var snúið við en stoppað reglulega til að huga að herslunni.

Ein með öllu
Aftur var Nýjabæjarfjallið ekið í fullkomnu skyggnisleysi og ekki laust við að mannskapurinn væri nokkuð feginn að komast í bílana niður á Öxnadalsheiði. Voru nú höfð hröð handtök, sleðanum hent á kerru og brunað áleiðis til Akureyrar. Sleðaskiptin á hlaðinu hjá Jóni gengu hratt og vel og gáfu menn sér naumlega tíma til að fá sér pylsu og kók í Krókeyrarnesti (sem heitir víst Leirunesti eða eitthvað svoleiðis í dag) áður en brennt var aftur upp á heiði. En þetta mun vera ein af fáum hálendisferðum þar sem menn hafa fengið sér eina með öllu í miðjum túr.

Ekki skánar Fjallið
Og enn var mannskapurinn staddur á Öxnadalsheiði, sléttum sólarhring eftir að lagt var af stað hið fyrra sinni. Framundan var Nýjabæjarfjallið og vonir um meiri birtu reyndust ekki á rökum reistar. Skyggnisleysið var jafnvel enn meira en áður og sami rigningarhraglandinn og verið hafði í hin tvö skiptin. Planið var að paufast austur í Gæsavötn, með viðkomu í Laugafelli til að taka bensín, en hvorki veður né skyggni gerðu slíka ferð aðlaðandi þegar á reyndi. Langt var liðið á kvöld þegar rennt var í hlað í Laugafelli, í nánast ausandi rigningu. Var einróma ákvörðun að láta gott heita af vélsleðaakstri þennan daginn og hefja frekar eldamennsku. Snarað var upp sverum steikum með meðlæti og fljótlega skriðið í poka.

Sjö sólir á lofti
Kvenréttindadagurinn 19. júní heilsaði með allt öðru veðri en kvöldið áður. Brostið var á með brakandi blíðu, sjö sólir á lofti og ljóst að nú væri góður dagur framundan. Jón rak því mannskapinn á fætur með fyrra fallinu en að sjálfsögðu gáfu menn sér þó tíma til að skreppa aðeins í laugina.

Bjart framundan
Fátt er skemmtilegra en að þeysa um hálendið að vori til í sól og blíðu og nú voru sannarlega þannig aðstæður. Stefnan var fyrst tekin á Sandbúðir, norðan Fjórðungsöldu, þaðan sem fá má ágætis útsýni um leiðina áfram austur. Þaðan þótt sýnt að taka þyrfti sveig suður á bóginn og því farið suður fyrir hraunið, í hæðirnar norður af Tungnafellsjökli og þaðan áleiðis aftur norður að brúnni yfir Skjálfandafljót. Frá henni var ekki lengi gert að renna í Gæsavötn, enda höfðu menn aldrei séð svo góðan vorsnjó austan Fljóts. Karlar voru því bara nokkuð sperrtir að vera komnir í Gæsavötn á sleða 19. júní og sannfærðu hvern annan um að það hefði aldrei áður verið gert.

Klippt á snjóinn
Eftir gott kaffistopp var ákveðið að halda áfram austur og freista þess að kíkja á Holuhraun hið nýja. Flottur snjór var fyrir framan jökul og magnað færi. Stefnt var á Kistufell og síðan yfir Urðarhálsinn, með viðkomu hjá jarðfallinu magnaða sem þar er. En fyrir austan Urðarháls var hins vegar klippt á snjóinn, autt alveg frá jökulsporði og svo langt norður sem augað eygði. Því var ljóst að lengra yrði ekki farið á sleða með þessari stefnu. Var nú dólað til baka að skálanum við Kistufell, þaðan upp á Kistufellið og til baka í Gæsavötn, alltaf í sömu rjómablíðunni.

Í blautara lagi
Á pallinum í Gæsavötnum létu menn líða úr sér góða stund en síðan var nefi snúið heim á leið. Nú var farið suður fyrir Fjórðungsöldu og þaðan stefnt norður, yfir upptök Bergvatnskvíslar. Er ekki ofsögum sagt að færið hafi verið í blautara lagi og bókstaflega allt miðhálendið að fara á flot. En eftir því sem landið hækkaði til norðurs jókst snjórinn og höfð var viðkoma í skálunum Landakoti og Berglandi, svona rétt til að ferð okkar væri skrásett sem víðast. Nú var líka allt annar bragur á Nýjabæjarfjallinu en í hinum þremur ferðunum og fyrr en varði blasti Kaldbaksdalurinn við. Eitthvað hafði snjóinn tekið upp í hlýindunum þá um daginn þannig að sýna varð nokkra harðfylgni við að komast alla leið í bílana. Að baki varð viðburðarík ferð sem sannaði enn á ný að með hæfilegu magni af þrjósku og útsjónarsemi þá uppskera menn að lokum 🙂

Myndir tóku Halldór og Úlfar.

(S)könnunarferð um hálendið

(S)könnunarferð um hálendið

Kom að því að karlar drifu sig inn á hálendið á þessum vetri, enda ekki seinna vænna þegar júní nálgast óðum. Farin var hefðbundin leið af Öxnadalsheiði, um Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall í Laugafell. Þar var staðan tekin, lögbundinn kaffitími og spáð í framhaldið. Nokkrar íkjur myndu felast í því að segja að sjö sólir hefðu verið á lofti en þó sæmilega bjart með köflum og stefnan var tekin á birtuna suður með Hofsjökli. Aðeins var að byrja að verða vorlegt umhverfis Laugafell og talsvert af krapablám sem menn reyndu sig við, flestir með nokkuð góðum árangri. Stefnt var á Klakk austan Hofsjökuls og þræddir dalir og gil við hann, dágóða stund. Ekki þótti vert að fara lengra suður, enda menn komnir á vatnaskil. Þarna kemur nefnilega Jökulhvísl undan Klakksjökli og eru þetta systu upptök Hérðasvatna. Droparnir eiga því nokkuð langa leið fyrir höndum til sjávar í Skagafirði. Hinu megin í hæðunum, nokkur hundruð metrum sunnar, kemur hins vegar Háölduhvísl undan jöklinum og sameinast síðar Þjórsá. Til baka var farið um Laugafell, nú bara tekin stuttur stans enda farið að dimma nokkuð í lofti. Megnið af leiðinni niður á Öxnadalsheiði var misþétt snjókoma og klálega engin merki um vor á þeim slóðum. Kaldbaksdalurinn sléttfullur af snjó að heita mátti og mun betri en í meðalári. Hann verður því fær lengi enn ef ekki brestur á með asahláku. Sem sagt góður renningur um hálendið, þar sem allt reyndist vera á sínum stað. Ferðafélagar: Úlfar, Sigurgeir, Smári Sig. og Valgeir Hugi.

Vorferð EY-LÍV 2015

Vorferð EY-LÍV 2015

Fín þátttaka var í vorferð EY-LÍV sem farin var í dag í ágætu veðri og vorfæri. Lagt var upp frá Grenivík, ekið inn Grenjárdalinn og Trölladalinn, yfir á Leirdalsheiði og svo yfir fjöllin að Heiðarhúsum á Flateyjardal. Sama leið til baka með mismunandi mörgum stoppum í giljum og brekkum. Sem sagt fínn dagur í góðum félagsskap.

Stutt klippa frá fyrsta degi í USA

Veðurfarið þessa dagana er ekki beinlínis vinsamlegt sleðafólki. En þó er ástæðulaust að leggjast í eymd og volæði. Enn er nóg eftir af vetrinum og getur átt eftir að snjóa heilan helling. En á meðan rifjar maður bara upp lífa daga í USA í byrjun mánaðarins. Hér kemur smá klippa úr GoPro frá fyrsta degi.

Ungmennafélagið í útrás til USA

Ungmennafélagið í útrás til USA

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Leiðin sem ekin var á bílum frá Denver til Jackson.

Sleðaferð til USA er eitthvað sem flesta dreymir um og veturinn 2014 var bundið fastmælum af nokkrum meðlimum Ungmennafélagsins að láta verða af ferð þangað árið eftir. Fylgt var í grófum dráttum sama plani og hluti hópsins notaði tveimur árum fyrr, þ.e. fljúga til Denver í Colorado, aka þaðan nánast þvert yfir Wyoming ríki í bæinn Jackson. Þar var gist þá daga sem sleðast var en ekið á hverjum morgni upp í fjöllin að Togwotee Mountain Lodge þar sem fenginn var leiðsögumaður til að fylgja okkur um skógarstíga og fjallasali.

Alls voru 12 kallar skráðir og bókaðir í ferðina. Brottför var ákveðin 1. mars 2015 en sumir bara gátu ekki haldið í sér af spenningi og drifu sig daginn áður. Aðrir voru mættir í Leifsstöð tímanlega fyrir flugið út til Denver. Þangað var komið tveimur til þremur bíómyndum síðar og þrír bílaleigubílar biðu okkar á flugvellinum. Ákveðið hafði verið að skipta leggnum til Jackson í tvennt. Gisting hafði verið bókuð í bænum Laramie, sem seint verður reyndar talinn til merkustu bæjarfélaga í USA og þótt víðar væri leitað.

Slæmt að missa menn

Satðgóður morgunmatur í Laramie

Staðgóður morgunmatur í Laramie

Fljótlega eftir brottför af flugvellinum misstum við tengslin við bílinn með Árskógsstrendingunum þremur, þar sem GPS-inn þeirra var ekki alveg að gera sig. Fyrir „all nokkra“ tilviljun náði hópurinn samt að sameinast nokkru síðar á pizzastað á leiðinni. Til Laramie var komið um 3 tímum eftir brottför af flugvellinum í Denver og ekki laust við að þreyta væri komin í mannskapinn. Þá var líka orðið langt liðið á nóttina á Íslandi og allir enn stilltir inn á íslenska tímann.

Fararstjóri á náttfötunum

Ákveðið var að leggja tímanlega af stað og morgunmatur ákveðin um 7 leytið. Íslenski tíminn reyndist hins vegar enn sitja í mannskapnum og flestir byrjaðir að velta sér í rúmunum upp úr kl. 2 um nóttina. Undantekning var fararstjórinn en óstaðfestar fregnir herma að þurft hafi að bera hann í náttfötunum út í bíl.

Trukkaleiðin

usa14Eftir staðgóðan morgunverð að amerískum sið hófst aksturinn langi til Jackson. Skítaveður var á leiðinni lengi framan af og fátt til að gleðja augað. Trukkaumferðin virtist  endalaus og stikkprufur leiddu í ljós að við mættum u.þ.b. 20 stykkjum á hverjum 5 mínútum. Um 3 tíma tekur að aka legginn frá Laramie til Rock Springs, þar sem beygt er norður í fjöllin til Jackson, og er lesendum látið eftir að reikna trukkafjöldann á leiðinni.

Heimtur í Jackson

Síðasti spölurinn til Jackson var skemmtilegur og þegar þangað var komið var byrjað á að heimsækja leiguna Jackson Hole Adventure Rentals þar sem við áttum pantaða  sleða, 6 stk. 800 Pro RMK og 6 stk. 800 Summit XM. Þar varð reyndar smá ströggl, sem leystist þó allt á endanum. Tekin var snögg ferð upp í Togwotee en í sleðabúðinni þar áttu flestir í hópnum slatta af dóti sem búið var að panta fyrirfram. Um kvöldið heimti hópurinn þá tvo óþolinmóðu sem lagt höfðu af stað degi á undan og um kvöldið var farið svert út að borða á „Kúrekabarnum“ í miðbænum. Gaman var að sjá skíðabekkuna svaðalegu beint upp frá bænum þar sem hin árlega brekkuklifurkeppni Jackson Hole World Championship Snowmobile Hill Climb er haldin. Hún fer einmitt fram í 40. sinn síðar í mánuðinum.

Íslensk stórhríð – næstum því

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

Mættir í Togwotee og bjart framundan.

„Ef þið væruð heima myndi ykkur ekki detta í hug að fara á sleða í þessu veðri,“ var úrskurður formannsins þegar mætt var í morgunmat daginn eftir. Og víst var að það moksnjóaði og gekk satt best að segja á með nokkuð snörpum vindhviðum. En menn töldu sig hafa séð það svartara og helspenntir lögðu þeir af stað með sleðana í eftirdragi upp í Togwotee. Þar tók leiðsögumaðurinn okkar, Brent, á móti okkur. Sá reyndist enginn nýgræðingur í faginu og var fljótur að finna góð leiksvæði. Þennan fyrsta dag gekk á með dimmum éljum en birti fallega upp á milli. Talsvert hafði snjóað og því nægur púðursnjór til að leika sér í – og festa sig. Karlarnir voru því alsælir þegar haldið var heim á leið seinnipartinn, eða a.m.k. þeir sem ekki höfðu dælt díselolíu á sleðana sína og/eða urðu ekki bensínlausir á hraðbrautinni niður til Jackson 😉

Afmælisdrengurinn heiðraður

Frekar var nú svalt að rölta í morgunmatinn yfir til hennar “Bubbu” morguninn eftir. En menn báru sig engu að síður mannalega. Afmælissöngurinn var sunginn fyrir Smára, afmælisbarn dagsins, og í “kaupfélaginu” var fjárfest í dýrindis afmælisblöðru. Síðan var stefnan tekin upp til Togwotee þar sem Brent tók aftur á móti okkur.

Um fjöll og dali

Djúpt á Ingólfi.

Djúpt á Ingólfi.

Prógrammið var með líkum hætti og daginn áður. Segja má að stígakerfið sé þrennskonar. Í fyrsta lagi leiðir sem troðnar eru og sléttaðar daglega. Þær liggja eftir skógarvegum sem bera bílaumferð á sumrin og eftir þeim var hægt vera vera snöggur á milli staða. Þessar leiðir eru hundruðir kílómetra og gjaldið fyrir að sjá um þær er innifalið í sleðaleigunni. Í öðru lagi eru skógarstígar sem ekki eru troðnir eða sléttaðir og voru satt best að segja afar ósléttir og leiðinlegir yfirferðar. Loks eru þröngar leiðir sem hlykkjast inn á milli trjánna, mest spilaðar af fingrum fram og víðast þarf að fara fetið. En á milli voru síðan rjóður og skógarsvæði þar sem hægt var að leika sér í púðrinu, alveg þar til hver fermeter var fullnýttur. Þá var farið á næsta svæði.

Þannig liðu dagarnir hver af öðrum og 10 sólir á lofti. Í lok fjórða dags var svo sleðunum skilað aftur á leiguna í Jackson. Tjón sem leigan gerði mál út af voru í algeru lágmarki, eitt forðabúr fyrir bremsu og einn stuðari, sem reyndar var varla hægt að sjá nokkuð á.

Hvað er málið með þessa Polarisa?

Lagt faglega.

Lagt faglega.

Morguninn eftir var stefnan tekin áleiðis til Denver, þar sem flestir áttu bókað flug heim daginn eftir. Ferðin sóttist vel, þótt smá vonbrigði hafi verið að rétt var búið að loka Polarisbúðinni í Rock Springs þegar rennt var í hlað. Reyndar skildu Ski-doo og Yamaha eigendur í ferðinni ekki alveg þessa stöðugu ásókn í að kaupa eitthvað dót í Polaris. Töldu sína sleða fullsmíðaða og ekki þörf á að fjárfesta í sérstökum stimplasettum, hjáveitubúnaði eða öðrum þeim varahlutum sem rötuðu í töskur ferðafélaga þeirra.

Hvar er mollið?

Síðasta morguninn var stefnan að skanna eins og eitt moll áður en mæta þyrfti á flugvöllinn. Ófaglærðir kynnu að halda að lítið mál væri að finna moll í Ameríku en annað kom á daginn. Upphófst nú æsileg leit sem barst víða um Denver-svæðið. Loks fengum við að því er virtist traustar upplýsingar sem stimplaðar voru inn í GPS-tækið á einum bílnum. Þegar á staðinn var komið blasti við ein ræfilsleg fatabúð. Nánari eftirgrenslan leiddi í ljós að mollið hafði verið rifið fyrir mörgum árum. En þarna fengum við þó leiðbeiningar á enn einn staðinn og fannst slatti af fínum búðum. Flestir smelltu sér á nokkrar Levi’s gallabuxur, þ.e. allir nema Ingólfur. Hann fékk sér DIESEL.

Heima á ný

Flugið heim var álíka spennandi og aðrar flugferðir og allir fegnir að lenda í Keflavík að morgni mánudags. Þá áttu flestir í hópnum reyndar eftir að koma sér norður yfir heiðar og þegar þangað kom voru um tveir sólarhringar liðnir frá því að lagt var upp frá Jackson. Að baki var ógleymanleg ferð með góðum félögum.

Nokkrar fleiri myndir frá ferðinni

Keflavík og Látur í janúar

Keflavík og Látur í janúar

Eflaust hefðu ábúendum í Keflavík og á Látrum þótt þægindi af því að ráða yfir vélsleðum á árum áður, enda með afskekktustu byggðu bólum. Reyndar er ekki algengt að sleðamenn sæki þessa staði heim um miðjan janúar en Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs tóku samt fína ferð þangað um liðna helgi. Farin var hefðbundin leið frá Grenivík um Trölladal, Þverdal, Bakkadal og um Syðriskálina ofaní Keflavíkurdalsbotn. Þaðan um Uxaskarð og Fossdal í Látur á Látraströnd.

Ýmsar sögur eru til um búskap í Keflavík og þau harðindi sem ábúendur þar máttu þola og þekktust án efa sagan af hinni 11 ára Margréti sem á 18. öld hírðist þar ein vikum saman eftir að annað heimilisfólk var látið (sjá einnig hér). Á Látrum voru hins vegar mikil umsvif á köflum, þótt staðurinn sé afskekktur í dag.

Meðfylgjandi myndir tóku Smári og Sigurgeir í ferðinni á laugardaginn og Smári græjaði einnig stutt vídeó.

Fjölsótt boð hjá Cobolt

Sleðamenn fjölmenntu á opið hús hjá Cobolt á Akureyri síðastliðið föstudagskvöld. Gauti Möller og félagar hafa líka mörgum sleðamanninnum þjónað í gegnum árin, bæði með viðgerðir og sölu á hinu ýmsasta sleðadóti og viðskiptavinahópurinn því stór. M.a. var hægt að berja augum nokkra glænýja sleða af ýmsum tegundum, s.s. Polaris Axys Switchback, Ski-doo í T3-útfærslu og túrbínuvæddan Yamaha Viper. Án efa hafa verið rifjaðar upp fjölmargar sögur, bæði gamlar og nýjar og ekki annað að sjá en menn skemmtu sér konunglega. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvöldinu.