Lynx Xtrim 800 Power TEK – Einn með öllu

Síðuhöfundur á Lynx inn á Glerárdal. Myndir Magnús V. Arnarsson.

Síðuhöfundur á Lynx inn á Glerárdal. Myndir Magnús V. Arnarsson.

Lynx vélsleðar frá Finnlandi hafa verið hér á markaði í nokkur ár og komið vel út. Þeir eru söluhæsta sleðategundin í Skandinavíu og raunar í allri Evrópu en markaðshlutdeild þeirra hérlendis hefur ekki verið mikil. Hluti skýringarinnar kann að vera óstöðugleiki í umboðmálum en hann ætti nú að heyra sögunni til. Fyrr á árinu tók Ellingsen við umboðinu fyrir Lynx, samhliða kaupum á Evró, og hefur komið af krafti inn á markaðinn í vetur.

Lynx er í eigu kanadísku Bombardier samsteypunnar, sem einnig framleiðir Ski-doo vélsleða. Margt í þessum tveimur sleðategundum er hið sama , t.d. vélarnar, en annað er frábrugðið. Lynx er þannig sjálfstætt merki og sleðarnir eru smíðaðir í Finnlandi, þótt einstaka undirtegundir komi raunar beint frá verksmiðjunum í Kanada. Framleiðslulínan er fjölbreytt, hönnuð fyrir aðstæður í Norður-Skandinavíu og því ætti Lynx að henta jafnvel betur fyrir íslenskar aðstæður en þeir Norður-Amerísku sleðategundir sem hér eru algengastar í dag. Vinnusleðalínan frá Lynx á sér t.d. ekki hliðstæðu hjá öðrum framleiðendum.

Sleði fyrir allar aðstæður

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt ýmsu fleiru.

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt ýmsu fleiru.

Sá sleði sem tekin var til reynsluaksturs að þessu sinni var einn af toppsleðunum í sportsleðalínunni frá Lynx og kallast Xtrim 800 Power TEK. Líkt og önnur ökutæki eru vélsleðar til í ýmsum útfærslum og hannaðir með mismundi notkun í huga. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Slíkir “blendingssleðar”, sem gjarnan eru einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina,hafa notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri og til ferðalaga. Lynx Xtrim 800 Power TEK er dæmi um sleða sem ætlað er þetta hlutverk.

Yfirdrifið vélarafl

Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu.

Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu.

Engum blöðum er um það að fletta að 800 Power TEK vélin er eitt af aðalsmerkjum þessa sleða. Hún er sögð skila 140 hestöflum og þau virðast vel útilátin því aflið er yfirdrifið. Þetta er háþróuð vél sem komin er góð reynsla á, tveggja strokka með blöndungum og svokölluðum Reed-ventlum. Beltið á Xtrim er 144×15 tommur með 38 mm spyrnum. Það virðist henta sleðanum vel og skilaði honum vel áfram í bröttum brekkum þótt færið væri laust. Hann virðist því vel geta staðið undir nafni sem fjallasleði.

Hvað teljast góðir akurseiginleikar vélsleða verður alltaf að einhverju leyti háðir mati ökumannsins. Aksturseiginleikar Xtrim ættu þó að falla flestum í geð og skiptir þá miklu að fjöðrunin er fyrsta flokks. Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu og greinir hann til dæmis frá hinum kanadíska bróður sínum. Fjöðrunin á Xtrim er mjög vel heppnuð, enda mikið í hana lagt, meðal annars gasdemparar allan hringinn. Einhverjum kann að finnast hún í stífari kantinum en þó ættu allir að geta fundið stillingu við hæfi. Þetta verður samt að teljast mjög góðalhliða fjöðrun, eins og markmiðið hlýtur vissulega að vera með sleðanum. Sleðinn stóð einnig fast í skíðin og stýrði vel. Sætið er vel lagað, hæfilega stíft og ekkert hægt að setja út á ásetu ökumanns.

Góður staðalbúnaður

144" tommu beltið hentar þessum sleða vel en prufusleðinn var reyndar ekki á "orginal" beltinu.

144″ tommu beltið hentar þessum sleða vel en prufusleðinn var reyndar ekki á “orginal” beltinu.

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt, hita í handföngum og bensíngjöf, þjófavörn, dráttarkrók, rafstarti og bakkgír. Bakkgírinn er hinn skemmtilegi snarvenda, rafeindabúnaður þar sem snúningsátt vélarinnar er snúið við og þetta þyngir því ekki sleðann svo neinu nemur. Aftan við sætið er geymsluhólf og þar fyrir aftan pallur með grind fyrir farangur. Geymsluhólfið er hægt að talka í burt og setja í staðinn aukasæti fyrir farþega og þar með er sleðinn orðinn tveggja manna. Útlit sleðans er stílhreint, samt e.t.v. ekki mjög spennandi, en ætti að standast vel tímans tönn.

Heildarmat

Laglegur sleði með öllum búnaði.

Laglegur sleði með öllum búnaði.

Erfitt er að benda á ákveðna galla á sleða sem þessum og veltur þar meira á persónubundnum þáttum en beinhörðum staðreyndum. Ekki verður betur séð en Xtrim 800 standi vel undir nafni sem alhliða brekku og ferðasleði. Fyrir lengri hálendisferðir er hér líka tvímælalaust einn álitlegasti kosturinn á markaðinum. Hann er sérlega vel búinn með góða aksturseiginleika og yfirdrifið afl. Uppgefið verð er fyrir 2007 árgerðina 1.510 þúsund kr. og má ekki hærra vera sé horft til keppinautanna, t.d. Reagate 800 frá Ski-doo og Crossfire 8 og M8 frá Arctic Cat. Alltaf verður þó að gæta þess að taka allan staðalbúnað með í dæmið og sem fyrr segir er Xtrim einn með öllu.

Jómfrúarferð um Vatnahjallaveg

Það var jómfrúarferð um Vatnahjallaveg í dag laugardag, og sendi Smári Sig. eftirfarandi pistil og myndir: “Formaðurinn var ansi beittur og hvatti menn til dáða þrátt fyrir mikið frost. Það er nú eða aldrei sagð´ann. Tekið var af við Hólsgerði og létt ferð inn að Hafrá. Þar tók þessi fíni sneiðingur við okkur og flutti okkur á augabragði upp hlíðina og upp á “hælinn”. Þar breiddi Hafrárdalurinn úr sér kaldur en bjartur og alhvítur. Frekar var nú rýrt uppi þar en ekki vandamál að bera sig um. Þegar komið var vestur fyrir Sankti-Pétur tók við hrímþoka en bjart uppi fyrir. Mikið frost og hrímþoka var alla leið í Bergland og inn í Laugafell. Hvítt yfir öllu en ansi rýrt á melunum. Þetta lofar góðu – við höfum séð það svartara á þessum tíma. En Vatnahjallavegurinn á eftir að sanna sig, það eitt er víst.”

Vatnahjallavegur kominn vel á veg

Framkvæmdir við Vatnahjallaveg hófust fyrr í haust og eru komnar vel á veg. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að mótum á vegstæðinu og er það verk nú langt komið. Það er sem kunnugt er Félag vélsleðamanna í Eyjafirði sem haft hefur forgöngu um verkið og að undirbúningi hefur unnið nefnd á vegum félagins undir formennsku Hreiðars í Vín. Í gær mætti vaskur hópur manna fram í Vatnahjalla, með nefndina í fararbroddi, til að halda áfram að stika út fyrir vegstæðinu, sem gekk bæði fljótt og vel.

Hinn nýi Vatnahjallavegur verður glæsilegt mannvirki. Þegar hann verður fullbúinn standa vonir til að þarna verði greið leið upp á hálendið stjórn hluta úr vetrinum og ekki síst mun vegurinn koma sér vel þegar fer að vora og snjólínan færist ofar. Það er að sjálfsögðu vélsleðamaður sem sem unnið hefur verkið en þar er á ferð Trausti Halldórsson á gröfu frá Dóra Bald. Væntanlega ræðst það nokkuð af tíðarfari hversu mikið verður hægt að klára í haust en sem fyrr segir er ekki langt í að lokið verði við að móta vegstæðið upp á hælinn. Þá á eftir að laga veginn til með jarðýtu og setja á hann burðarlag.

Í vegasafni 4×4 skrifar Jóhann Björgvinsson um Vatnahjallaveg og segir meðal annars. “Um Vatnahjalla hefur legið vegur frá landnámi, vegurinn var varðaður 1882 af Fjallvegafélaginu. Vatnahjallavegur er fyrsti hluti Eyfirðingavegar, sem nær suður á Þingvelli. Um Vatnahjalla var lagður fyrsti bílvegurinn upp úr Eyjafirði, það var Ferðafélag Akureyrar sem stóð að þeirri vegalagningu á árunum 1939-1944 og þá varð fært úr Eyjafirði inn í Laugafell og þaðan á Sprengisandsleið. Veginum hefur ekki verið haldið við síðan 1957”

Lýsing Jóa á gömlu leiðinni er þannig: “Leiðin liggur fyrst upp úrrunna moldarsneiðinga, síðan upp Hafrárdalinn og upp á Vatnahjallann sjálfan. Á því svæði er mjög stórgrýtt. Þegar kemur suður fyrir Urðarvötn minnkar grjótið og syðsti hlutinn er um greiðfæra mela. Vegurinn er mjög torfær og er aðeins fær bílum á stórum hjólum með læsingar. Snjór liggur þarna langt fram eftir sumri. Af veginum er afleið út á Torfufell, þar sem Landsíminn var með aðstöðu. Einnig er afleið yfir að Grána. Fjallaskálinn Bergland stendur við leiðina austan við syðra Urðarvatnið.”

Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær.

Margt spennandi í 2007 árgerðinni

Um helgina má e.t.v. segja að vélsleðavertíðin hefjist með formlegum hætti með stórsýningunni Vetrarsport 2006-2007 í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þar verður hægt að skoða á einum stað allt það nýjasta í vélsleðaheiminum og er svo sannarlega af mörgu að taka. Hér á eftir verður rennt yfir helstu nýjunar hjá hverjum framleiðanda og til að enginn móðgist þá eru sleðarnir teknir í stafrófsröð.

F1000_314pixBiðin á enda hjá Arctic Cat

Mikil spenna var byggð upp í tengslum við kynningu á 2007 árgerðinni af Arctic Cat. Búist var við miklum breytingum enda má e.t.v. segja að mörgum hafi fundist tími til kominn. Því fer þó fjarri að einhver stöðnun hafi ríkt hjá Arctic Cat, samanber t.d. hina vel heppnuðu Crossfire og M-fjallasleða, en því er ekki að neita að lítið hefur gerst í vélamálum undanfarin ár. Á því verður sannarlega breyting með 2007 árgerðinni.

Verst geymda leyndarmálið

Fljótlega upp úr síðustu áramótum fóru reyndar að leka út um væntanlega sleða, t.d. nýjan fjórgengissleða sem nefnist Jaguar. Var hann verið kallaður verst varðveitta “leyndarmál” seinni ára í sleðaheiminum því myndir og upplýsingar um hann voru á ferli á Internetinu í margar vikur áður en opinber kynning fór fram. Hver og einn verður síðan að meta hvort Arctic Cat nær að standa undir væntingum en a.m.k. liggur fyrir að um 80% frameiðslulínunnar er ný.

CF8_314pixTæplega 33 þúsund stillingarmöguleikar!

Fyrst ber að nefna nýtt byggingarlag sem Arctic Cat nefnir “Twin Spar”. Útlitið er frábrugðið því sem áður hefur komið frá Arctic Cat en burðarvirkinu svipar nokkuð til REV-útfærslunnar hjá Ski-doo. Helsta aðalsmerki þessa nýja byggingarlags er styrkur og einfaldleiki. Þá má heldur ekki gleyma nýja bakkgírnum sem rafeindabúnaður sér um að stjórna og ný útfærsla af kælikerfi. Sumt er kunnuglegt úr herbúðum Arctic Cat, t.d. hið bráðsnjalla “diamond-drif”, framfjöðrunin er afbrigði af hinni vel þekktu AWS og afturfjöðrunin kemur beint úr keppnisdeildinni. Þá er aftur horfið til “hefðbundinnar” 15 tommu beltisbreiddar.

Jafnframt eiga allir að geta fundið akstursstillingu við hæfi. Þannig er nokkrum sleðagerðum hægt að færa stýrislegginn fram og aftur, svipað og þekkist hjá Polaris, nema hér eru stillingarnar 11 talsins. Þá er hægt að velta stýrinu um 85 gráður fram og til baka og á sumum er líka hægt að stilla rúðuna. Eins og þetta sé ekki nóg þá er bæði hægt að færa sætið fram og aftur og hækka það og lækka. Tölfræðingar hafa reiknað út að alls séu 32.725 stillingarmöguleikar í boði (að því gefnu að hægt sé að breyta halla stýrisins með einnar gráðu millibili). Þess ber þó að geta að það er mismunandi eftir sleðagerðum hvort allir þessir stillimöguleikar eru í boði.

Þrjár nýjar vélar

Arctic Cat kynnir þrjár nýjar og spennandi vélar sem eru hannaðar og smíðaðar í samvinnu við Suzuki en samstarf fyrirtækjanna nær áratugi aftur í tímann. Fyrst er að nefna tvær tvígengisvélar, 800 og 1.000 rúmsentimetra. Báðar eru með beinni innspítingu og skilar minni vélin 144 hestöflum en sú stærri 168. Ljóst er að aðdáendur Arctic Cat hafa beðið spenntir eftir þessum stóru vélum. Líkt og í öllum nýtísku vélsleðavélum er rafeindatæknin nýtt til að hámarka afköst en jafnframt draga sem mest úr eyðslu og mengun.

jaguar_lFjórgengis með EFI

Þriðja nýja vélin er tveggja strokka Suzuki fjórgengisvél með 1.056 sentimetra rúmtak sem skilar 123 hestöflum. Þessi vél er boðin í sleða með nýja byggingarlagið og nefnist hann Jaguar Z1. Það sést því strax að sleðanum er einkum stefnt gegn Vector línunni frá Yamaha. Vélin er búin beinni innsprautun (EFI) og er sögð bæði sparneytin og umhverfisvæn. Arctic Cat var á sínum tíma fyrsti sleðaframleiðendinn til að bjóða fjórgengisvél í vélsleða en þessi nýja er mun öflugri og stórt stökk fram á við tæknilega. Með túrbínu ætti einnig að vera hægt að auka aflið verulega. Sleðinn er sagður vega 261,5 kg sem gerir Jaguarinn 5 kg þyngri en FST frá Polaris og 14 kg þyngri en Vector ER árgerð 2007 frá Yamaha.

Eitthvað fyrir alla

Að lokum er vert að gefa stutt yfirlit yfir framleiðslulínunna og byrja á stuttu sportsleðunum, eða F-línunni. Hér eru mestu breytingarnar því nýja byggingarlagið tekur alveg yfir þennan flokk. Kastljósið beinist einkum að sleðum með nýju vélunum, sem fá undirheitin F8 og F1000, auk Jaguar. F5 og F6 sem eru áfram í boði en koma í nýja byggingarlaginu. Nokkar undirgerðir eru í boði með mismunandi búnaði, m.a. í fjöðrun o.fl.
Hinir geysivinsælu Crossfire og M-sleðar koma lítið breyttir hið ytra en undir húddinu hefur mikið gerst því þar verður val um nýju 800 og 1.000 rúmsentímetra vélarnar. Væntanlega munu margir slíkir sjást á íslenskum fjöllum í vetur.

Lynx_xtrim_800Sigursælir Lynx vélsleðar

Hinir finnskættuðu Lynx vélsleðar hafa enn sem komið er ekki náð verulegri útbreiðslu hérlendis þrátt fyrir að hafa verið á markaði nokkur ár. Má segja að það sé miður þar sem sleðarnir ættu ekki að henta Íslendingum síður en frændum okkar í Skandinavíu. Þar er Lynx meðal vinsælustu tegunda, jafnt við leik og störf, ásamt því að eiga að baki einstæðan feril í vélsleðakeppnum.

Nýtt umboð

Umboðsmálum Lynx hérlendis hefur e.t.v. ekki alltaf verið sinnt sem skyldi á síðustu árum, sem gæti að hluta skýrt fremur litla sölu. Nú hefur hins vegar ræst úr í þessum efnum. Lynxumboðið er komið í hendur Ellingsen sem sl. vor opnaði stórverslun með allt til útivistar og ferðalaga. Rekstrarstjóri Evró/Ellingsen er sleðamönnum að góðu kunnur, en það er Halldór Jóhannesson sem til fjölda ára hefur starfað við innflutning og sölu á Polaris.

Sérstaða í fjöðrunarmálum

Lynx_adventure_600SDILynx er í eigu Bombardier-samsteypunnar sem einnig framleiðir Ski-doo vélsleða. Þessar tvær sleðagerðir deila því ýsum þáttum, meðal annars vélum, en annað er frábrugðið. Lynx hefur til að mynda markað sér sérstöðu í fjöðrunarmálum, sem heillar marga. Svo virðist þó sem Bombardier stefni að aukinni samhæfingu vélsleðagerðanna tveggja. Þannig hefur framleiðsla Ski-doo og Lynx verið alveg aðskilin fram til þessa, önnur gerðin framleidd í Kandada en hin í Finnlandi. Með 2007 árgerðinni bregður hins vegar svo við að sumar undirgerður Lynx koma fullbúnar frá í verksmiðjunni í Kanada.

Nýr keppnissleði

Lynx hefur sem fyrr segir átt einstaklega góðu gengi að fagna í vélsleðakeppnum í Evrópu og státar t.d. bæði af Norðurlanda- og Evrópumeistaratitlum á þessu ári. Því kemur ekki á óvart að eitt stærsta trompið næsta vetur verður nýr keppnissleði með 600 rúmsentimetra vél. Hann er að grunni til byggður á hinum sigursæla 440 keppnissleða og er án efa magnað tæki, hvort heldur er í keppnisbrautinni eða upp til fjalla. Einnig er kynnt ný afturfjöðrun sem fáanleg verður í öllum stuttu sleðunum. Væntanlega verður Lynx áberandi í keppnum vetrarins hér heima þar sem sterkir ökumenn undir merkjum Team Lexi munu reyna sig á finnska kettinum.

Vélarnar í Lynx eru eins og áður er sagt þær sömu og í Ski-doo, m.a. 800 HO og 600 með SDI-innsprautun. Sérlega áhugaverður er millilangi sleðinn X-Trail á 144 tommu belti sem væntanlega er mjög fjölhæfur og hentar vel við íslenskar aðstæður. Er hann boðinn bæði með 800 og 600 rúmsentímetra vélum. Ferða- og vinnusleðalínan er einnig allrar athygli verð, enda hefur þó nokkuð af slíkum sleðum selst hérlendis á síðustu árum.

DragonRMKPolaris safnar vopnum sínum

Í sem fæstum orðum eru stærstu tíðindin hjá Polaris tvær nýjar HO tvígengisvélar með Cleanfire-innsprautun, 600 og 700 rúmsentímetrar. Stærri vélin skilar 140 hestöflum og er jafnframt stærsta vélin frá Polaris því 900 vélin er horfin af sjónarsviðinu, í bili a.m.k. Almennt er Polaris að einfalda framleiðslulínuna með færri en skýrari valkostum. RMK-línan vekur mikla athygli því allra leiða hefur verið leitað til að létta sleðan sem mest.

Engin 900 vél!

Ef til vill má segja að það sem ekki er í boði hjá Polaris hafi til að byrja með hlotið meiri athygli en það sem er í boði, þ.e. sú ákvörðun að bjóða ekki sleða með stærri vél en 700 rúmsentímetrar. Þetta hefur væntanlega orðið mörgun aðdáendum Polaris nokkurt áfall en er þegar grannt er skoðað skynsamleg ákvörðun, enda hafa t.d. viðbrögð blaðamanna sem skrifa í vefmiðla í Bandaríkjunum verið mjög jákvæð. Svo virðist sem Polaris hafi ekki náð að fullu að samhæfa 900 vélina og IQ byggingarlagið eða grindina. Sérstaklega reyndist erfitt að leysa vandamál með víbring o.fl. þannig að Polaris ákvað að vera ekki að bjóða þessa vél fyrr en allir væru sáttir. Ljóst er að þetta hefur verið erfiður biti að kyngja fyrir Polaris, sem á móti á hrós skilið fyrir hugrekkið. Hins vegar er einnig ljóst að ekki er um framtíðarákvörun að ræða heldur má eiga von á stórri sleggju frá Polaris fyrr en síðar.

FSTIQÁherslan á 600

Nýju 600 og 700 rúmsentímetra vélarnar deila ýmsum þáttum. Báðar eru t.d. með tvo spíssa í hvorn strokk og “hefðbundnar” að gerð að því leyti að loft og bensín er tekið inn aftan á vélinni og pústið fer út að framan. Polaris býður einnig áfram 600 HO vél með blöndungum en nýja vélin á að vera heldur öflugri og einnig eyðslugrennri. Báðar 600 vélarnar byggja á sama grunni og 440 rúmsentimetra vélin og þær eru því léttari og minni um sig en 700 rúmsentímetra vélin. Athygli vekur að megináhersla Polaris virðist vera á 600 vélina því 700 vélin verður að sögn framleidd í takmörkuðu upplagi.

Ekki verður skilið við vélamálin hjá Polaris án þess að minnast á fjórgengisvélina. Um er að ræða tveggja strokka, 750 rúmsentímetra vél með túrbínu. Hún var kynnt í fyrra en kemur nú í endurbættri útgáfu og á að skila 140 hestöflum. Þannig er hún öflugri en vélarnar í Yamaha Vector og Arctic Cat Jaguar Z1 en vantar nokkuð á að ná Yamaha Apex. Hún er boðin í ýmsum slerðagerðum sem þá eru auðkenndir með skammstöfuninni FST.

Fisléttir fjallasleðar

Polaris leggur sem fyrr mikið upp úr RMK-fjallasleðalínunni og þar verða talsverðar breytingar á milli árgerða. Áfram er haldið á þeirri braut að létta sleðana og nú fjúka rúm 7 kíló frá því í fyrra. Sleðinn með 700 vélinni á 155 tommu belti er með uppgefna vikt upp á tæp 120 kg og samsvarandi 600 sleði er gefin upp 117 kg. Allur “óþarfi” er á bak og burt en í staðinn er val um ýmsan aukabúnað fyrir þá sem vilja meira en grunngerðina. Reynt er að finna ný og léttari efni og jafnframt leitast viðað hafa sleðann sem efnisminnstan. Þannig eru stigbrettin götóttari en svissneskur ostur og ný gerð af belti er einnig opnari en áður hefur sést. Nú er stillanlega stýrið ekki lengur í boði á RMK-línunni. Beltislengdir eru upp í 155 tommur og raunar 166 ef menn eru tilbúnir að panta nógu snemma.

Fusion látinn fjúka

Polaris CruiserSé litið á aðrar sleðagerðir vekur athygli að Fusion nafnið hefur verið lagt á hilluna. Þess í stað bera stuttu sportsleðarnir nafnið IQ og eru auk þess auðkenndir með vélarstærðinni. Þeir koma nú allir með sama byggingarlagi og RMK. Mest spennandi finnst mörgum án efa 700 sleðinn með aukanafnið Dragon.

Í millilöngu deildinni er Polaris með Switchback á 144 tommu belti. Val er um FST fjórgengis eða 600 tvígengisvélar. FST fjórgengissleðin er 268 kg og 140 hestöfl en 600 tvígengissleðinn 224 kg og 125 hestöfl. Sé litið til fjórgengissleða keppinautanna þá er stuttur Jaguar Z1 gefinn upp 123 hestöfl og 261,5 kg en Yamaha RS Rage á 136 tommu belti 256 kg og um 120 hestöfl.

Úrvalið af ferðasleðum er þó nokkuð. Beltislengd er yfirleitt 136 tommur og val um ýmsar vélar með mesta áherslu á 600 HO og FST fjórgengis. Þá er ánægjulegt að sjá að gamli Wide Track lifir áfram góðu lífi og er eini Polarissleðinn sem enn er með Fuji vél, hina sögufrægu Indy 500.

Jákvætt skref

Sem fyrr er sagt hafa viðbrögð blaðamanna og reynsluökumanna vestan hafs verið jákvæð. Hefur verið bent á að Polaris sé nú að einbeita sér að því sem gerði þá að stærasta framleiðandanum fyrir nokkrum árum. Það er að framleiða sleða með framúrskarandi akstureiginleika, með höfuðáherslu á gæði og áreiðanleika fremur en fjölda undirgerða. Þótt í vissum skilningi megi segja að Polaris sé að taka skref aftur á bak, hafa menn fremur kosið að líta á það sem svo verið sé að safna lengri atrennu fyrir atlöguna að tindinum.

Ski-doo1Ski-doo áfram á sömu braut

E.t.v. má segja að Ski-doo gæti notast við slagorðið “gerum gott betra” fyrir 2007 árgerðina. Ski-doo er sem fyrr á fullri ferð að þróa sleða sína en ekki er margar nýjar gerðir af sleðum kynntar til sögunnar. Nýjungarnar og endurbæturnar eru engu að síður þó nokkrar á milli ára.

Ski-doo veðjar áfram á tvígengistæknina og hefur náð góðum árangri, bæði með svokallaða SDI-innsprautun og með endurbótum á blöndugsvélum. Rafeindatæknin hefur gerbreytt virkni vélsleðavéla á tiltölulega fáum árum og er hún nýtt með ýmsum hætti til að auka afl og bæta eldsneytisnýtingu. Markmið Ski-doo er að þróa tvígengisvélar sem eru sambærilegar í eyðslu og mengun og fjórgengisvélar en nýta áfram kosti tvígengsivélanna sem eru einfaldari léttbyggðari en fjórgengisvélar. Reyndar er nú kynnt ný fjórgengsivél, 65 hestafla V-800, ættuð úr fjórhjóladeildinni og boðin í ferða- og vinnusleðum.

REV-byltingin heldur áfram

Þetta er fimmta árið sem REV-byggingarlagið er á markaði og tekur sem fyrr til meginhluta framleiðslulínunnar. Ski-doo hitti sannarlega í mark með þessu nýja byggingarlagi á sínum tíma og hafa aðrir framleiðendur meira og minna tekið upp svipaða hugsun. Í stuttu máli var setu ökumannsins breytt og hún færð 20-30 cm framar en áður tíðkaðist. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fengust einnig með því að færa vélina aftar og neðar. Markmiðið var að koma sem mestu af þunga sleðans fyrir sem næst driföxlinum. REV-skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting og má með sanni segja að það hafi reynst réttnefni.

SDI-innsprautunin

Ski-doo2Vert er að líta aðeins á SDI-innsprautuna sem Ski-doo hefur hlotið mikið lof fyrir. SDI stendur fyrir Semi-Direct-Injection sem þá mætti þýða “hálf-bein-innsprautun”. Nafngiftin kemur til af því að bensínblöndunni er hvorki sprautað inn í sveifarhúsið (eins og algengast er á tvígengisvélum sem kallaðar eru EFI) né inn í sílendurinn (eins og í fjórgengisvélum) heldur í milligöngin í sveifarhúsinu. Í “hefðbundinni” tvígengisvél gegna milligöngin því hlutverki að flytja bensínblönduna úr sveifarhúsinu upp fyrir stimpilinn inn í sílendurinn. Um leið þrýstir nýja blandan brenndu gasinu sem fyrir er út í pústið. Vinnsluhringur vélarinnar er bara tvö slög í stað fjögurra í fjórgengisvél og þaðan er nafnið komið. Gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er að bæði tapast talsvert af nýju blöndunni út í pústið og einnig verður nokkuð af brennda gasinu eftir. Þetta veldur því að eldsneytið nýtist tiltölulega illa og afköst vélarinnar verða minni en ef hægt væri að nýta alla bensínblönduna sem fæst með hverju slagi vélarinnar. Með því að sprauta beint inn í milligöngin á hárréttum tíma nær Ski-doo að nýta bensínblönduna talsvert betur en í hefðbundinni tvígengisvél og þarf þannig minna eldsneyti til að ná sama afli, m.ö.o. minni eyðsla og minni mengun. Tveir spíssar sprauta inn í hvor milligöng. Þeir eru mis stórir og virkar sá minni á lágum snúningi en þegar ræsa á alla hestana sem leynast undir húddinu þá bætist hinn við.

Mikið úrval

Ski-doo3Ski-doo mikið úrval af sleðum. Vinsælustu vélarstærðirnar eru 600 og 1.000 rúmsentimetra vélar með SDI-innsprautun og 800 rúmsentimetra blöndungsvélar. Kynnir Ski-doo tvær nýjar útfærslur af þeirri vél í 2007 árgerðinni.

Stuttu sportsleðarnir nefnast MX Z og eru boðnir í mörgum útfærslum með 600 og 800 rúmsentimetar vélum, auk Mac Z sem er með 1.000 rúmsentimetra vélinni. Það sem skilur á milli undirgerða er ýmis búnaður, svo sem fjöðrun o.fl. Millilöngu sleðanir, sem heita Renegate, koma á stærra belti, þ.e. 136×16 tommum og eru sem fyrr boðnir með 600, 800 og 1.000 rúmsentimetra vélum. Mestu breytingarnar eru á fjallasleðunum, þar sem nýju 800 vélarnar eru boðnar, auk 600 og 1.000 SDI. Tekist hefur að létta sleðana um 7 kg á milli árgerða. Hér eru ótaldir sport og vinnusleðarnir en þar er einnig úr mögu að velja, að ógleymdum Freestile leiksleðanum. Því má segja að það sé vandlátur seðamaður sem ekki getur fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Ski-doo.

Yamaha – senuþjófur ársins

phazer1Yamaha hefur í gegnum árin kynnt ýmsar djarfar nýjungar í vélsleðaheiminum og óhikað fetað aðrar slóðir en keppinautarnir. Þannig hefur það til að mynda verið síðustu fjögur árin og með 2007 árgerðinni er haldið áfram á sömu braut. Hulunni var svipt af algerlega nýjum sleða sem að ýmsu leyti er hannaður út frá öðrum forsendum en menn hafa þekkt hingað til. Markmið Yamaha með þessu djarfa skrefi eru þó engu að síður kristaltær, þ.e. að ná nýjum sleðamönnum inn í sportið og stækka þannig markhópinn.

Yamaha hefur skapað sér sérstöðu á síðustu árum með því að einbeita sér að þróun aflmikilla fjórgengisvéla og hefur þar spilað út hverju trompinu á fætur öðru. Nýjasta afurðin ber þó gamalkunnugt nafn, Phazer. E.t.v. er vert að byrja á að hverfa allt aftur til ársins 1984. Þá þótti mörgum Yamaha taka mikla áhættu með kynningu á byltingarkenndum sleða með þetta sama nafn. Hann var léttur og lipur og leit út eins og hann hefði fallið til jarðar úr geimskipi. Hann seldist hins vegar eins og heitar lummur og hefur því verið haldið fram að hann hafi selst í fleiri eintökum en nokkur annar vélsleði. Hann var líka í framleiðslu fram til ársins 2001 og kom Yamaha um tíma í toppsætið sem stærsta vélsleðaframleiðanda í heimi.

Er sagan að endurtaka sig?

Nú rúmum 20 árum seinna velta menn því fyrir sér hvort Yamaha hyggist endurtaka leikinn. Nýi Phazer sleðinn er a.m.k. hannaður með sömu atriði í huga og sá gamli, þ.e. með léttleika og lipurð að leiðarljósi, og svo sannarlega skartar hann útliti sem er öðruvísi en áður hefur sést á vélsleða. Einn blaðamaður orðaði það sem svo að hönnuðirnir hefðu tekið vélina og notað afganginn af sleðanum til að pakka henni í lofttæmdar umbúðir.

phazer_venture_liteHinn nýi Phazer

Eins og við er að búast er hinn nýi Phazer búinn fjórgengisvél. Hún er tveggja strokka, 500 rúmsentímetrar, með beinni innspýtingu og skilar 80 hestöflum. Í raun er um að ræða samskonar vél og í YZF 250 mótorhjólinu, bara tvær slíkar vélar skeyttar saman í eina blokk. Líkingin við mótorhjólið nær reyndar lengra en bara til vélarinnar því allt byggingarlag sleðans gengur lengra í átt til samruna torfæruhjóls og vélsleða en áður hefur sést. Utan um vélina var hannað nýtt byggingarlag sem Yamaha kallar FX og eru vélarhlutar og drifbúnaður að nokkru leyti einnig notaðir í burðarvirkið til að spara þyngd. Áseta ökumanns er mjög framarlega, sætið hátt og mjótt, ekki ósvipað og á krosshjóli, og stýrið breitt. Framfjöðrunin er A-arma og afturfjöðrunin er hin frábæra Pro-Action frá Yamaha með 16 tommu fjöðrunarsvið. Uppgefin þyngd grunngerðar sleðans er 206 kg, sem hlýtur að teljast vel sloppið með fjórgengisvél. Til samanburðar er F5 frá Arctic Cat gefinn upp 203 kg og MX 500 frá Ski-doo 213 kg, en þeir eru báðir með tvígengisvél.

Fimm gerðir

Sleðinn er boðinn í 5 útfærslum auk grunngerðar má fyrst nefna Phazer FX sem búinn er öflugri dempurum. Þá kemur Phazer GT sem hugsaður er til að veita meiri þægindi í löngum akstri, m.a. með háa rúðu og aðra gerð af dempurum. Þessir sleðar eru allir á sama belti, 121x14x1 tommur. Þá er boðinn sleði í “Mountain” útfærslu, Phazer Mountain Lite, á 144 tommu löngu belti með 2 tommu spyrnum og loks ferðalseði sem nefnist Venture Lite. Sá er á 15 tommu breiðu belti með tvöfalt sæti og farangursgrind. Allir þessir sleðar að grunngerðinni frátaldri koma með nýja gerð af bakkgír frá Yamaha þar sem aðeins þarf að ýta á takka til að skipta, áþekkt því sem menn þekkja hjá Polaris, Ski-doo og Lynx.

Hver verða viðbrögðin?

Fróðlegt verður að sjá hvernig markaðurinn bregst við þessu útspili. Sleðanum er sem fyrr segir ætlað að vinna nýja markaði, draga nýliða inn í sportið og þá sem ekki hafa heillast af “hefðbundnum vélsleðum” enda hafa sleðaframleiðendur vaxandi áhyggjur af hækkandi meðalaldri sleðamanna. Þetta er þó sannarlega enginn unglingasleði heldur smíðaður fyrir fullorðna. Hestöflin eru vissulega talsvert færri en í algengustu sleðum í dag en spurningin er hvort áherslan á léttleika og skemmtanagildi nái að vega þar upp á móti. Það mun tíminn einn leiða í ljós.

attack_gtFleira áhugavert

Þótt nýi Phazer sleðinn steli nokkuð senunni þegar 2007 línan er skoðuð eru einnig fleiri áhugaverðar nýjungar frá Yamaha. Í fyrra kom fram á sjónarmiðið nýr sleði, Apex, búinn 150 hestafla vél með beinni innspýtingu. Hann hefur fengið frábæra dóma og var m.a. valinn sleði ársins hjá Snow-Goer tímaritinu. Hann kemur í fleiri útfærslum 2007, m.a. nýr millilangur sleði á 136 tommu belti og tvær nýjar gerðir í “Mountain” útfærslu. Sama má segja um RS-Vector línuna. Þeir sleðar eru um 120 hestöfl og fá einnig ýmsar minniháttar endurbætur á næsta ári. Alls býður Yamaha yfir 20 sleðagerðir á næsta ári og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Sleðavertíðin að byrja fyrir alvöru

Það birti upp um helgina og þá er ekki að sökum að spyrja. Menn drifu sig á sleða og létu ekki 20 stiga gadd stöðva sig. Hér að neðan eru flottar myndir Smára Sig úr ferð hans, Magga Arnars og fleiri á Glerárdal. Sem sjá má er nægur snjór og mikið fjör.

Fjölmenni við frumsýningu á Arctic Cat 2007

B&L bauð til frumsýningargleði á 2007 árgerðinni af Arctic Cat síðastliðinn föstudag. Fjölemmi mætti til að líta á gripina, ásamt því að nota tækifærið til að spá og spjalla um veturinn framundan. Ekki var annað að sjá en viðstöddum litist vel á það sem fyrir augu bar, enda margt nýtt að sjá. Að sjálfsögu voru allir spenntir að sjá nýu F-línuna, ásamt því að kíkja ofan í húddið og skoða nýju 800 og 1.000 cc vélarnar. Mikil sala hefur verið í Arctic Cat í haust og mun reyndar stór hluti þeirrar sendingar sem B&L fær þegar vera seldur og sumat típur jafnvel uppseldar. Meðfylgjandi myndir voru teknar á föstudagskvöldið.

Vetrarkoma undirbúin!

Olía sett á taknkinn þannig að öllum verði hlýtt í vetur.

Olía sett á tankinn þannig að öllum verði hlýtt í vetur.

Líkt og Norðlendingar hafa orðið varir við þá styttist mjög í veturinn og því vert að fara að huga að haustverkum, svo sem að koma bensínbirgðum á fjöll, fylla á olíutanka fyrir kyndinguna o.s.frv. Meðfylgjandi mynd sendi Smári Sig. sem fór ásamt fleirum um síðustu helgi í Laugafell og Gæsavötn. Sem sjá má var orðið vetrarlegt um að litast í Gæsavötnum.

Í Kinnarfjöllum 4. maí

Alfreð Schiöth fór ásamt fleirum í ferð um Kinnarfjöll þann 4. maí sl. Kinnarfjöllin eru skemmtilegt svæði og margt að sjá. Sendi Alfreð ferðasögum og myndir.

Hinrik, Helgi og Alfreð tóku létta morgunsveiflu í Kinnarfjöllum þann 4. maí sl. Farið úr Dalsmynni suður Hólsdal og austur Finnsstaðadal niður á Þröskuld, síðan norður í Gönguskarð og ekið vestur skarðið og síðan upp Uxaskarð. Úr Uxaskarði var farið um Austurdal og Kotadal og langleiðina niður á Kotamýrar. Þar var færi rýrt og snúið við og farið Kotaskarð og áð í hlíðinni ofan við Björg í Kaldakinn í sól og hita. Ægifagurt útsýni; Skjálfandi og fljótið, Grímsey, Lundey, Mánáreyjar, Tjörnes, Grísatungufjöll, Lambafjöll, Gæsafjöll, Mývatnssveit og nærsveitir. Þá var rennt upp í Skessuskál og suður með Nípá og þaðan niður Uxaskarð og þrætt norður Flateyjardal og áð á móts við Heiðarhús við Ytri-Jökulsá. Þar sem nokkuð var gengið á bensínforða og loft að þykkna var snúið við og farið yfir Gönguskarðsá á snjóbrú og þrætt inn Hólsdal og yfir Hólsá og skemmstu leið til byggða.

 

Góð ferð í Fnjóskadal

Síðastliðinn sunnudag gerðu Alfreð Schiöth og Hinrik á Rútsstöðum ágætis ferð og sendi Alfreð ferðasögu og myndir.

Við ókum af Vikurskarði og suður Vaðlaheiði og austur í Vaglaskóg; suður Lundsskóg og ekið léttan gegnum Þórðarstaðaskóg og síðan í Sörlastaði og inn í mynni Timburvalladals. Þar skaust minkur upp úr læk og var hinn gæfasti og var gert vel við hann í mat og drykk.

Síðan ekin sama leið til baka með nokkrum hliðarsporum. Austan í Vaðlaheiði og norður í Víkurskarði mátti víða finna lausasnjó og dyngjur og góðar aðstæður til sleðaæfinga, sem reyndar enduðu með nokkrum festum hvað mig varðar. Ánægjulegt að fá snjó á ný.

Fagurt er í Fjörðum

Alfreð Schiöth sendi myndir og smá ferðasögu: “Síðastliðinn sunnudag var mikil umferð vélsleðamanna á Kaldbak og í Fjörðum í frábæru veðri. Ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til með vegagerð upp í Grenivíkurfjall. Um tíma var aðgengi á vegi teppt vegna óhapps þar sem kviknaði í jeppabifreið og brann hún til kaldra kola. Færið var víða nokkuð rifið og hryggjað og einnig að finna púður og gaman. Rýrt færi þegar nálgaðist Þönglabakka. Í Heiðarhúsum voru fyrir Fnjóskdælir sem voru að koma úr vestari Hvanndal þar sem þeir fundu tvær kindur. Þar er varasamt að ferðast nema með góðri staðþekkingu og við góð skilyrði. Þvældist með Helga, Binna, Ebba og Hinna og álpaðist til að leiða hópinn í hálfgerða sjálfheldu í gili í Leirdal. Eftir nokkra snúninga og baráttu við púðursnjó og hliðarhalla komust þó allir leiðar sinnar og skiluðu sér til byggða. Afar vel heppnaður dagur.”

Grænn dagur í Ólafsfirði

Arctic Cat menn fóru sælir og sáttir heim úr fyrstu umferð Íslandsmótsins í snjókrossi sem framm fór í Ólafsfirði í dag. Þeir unnu sigur í öllum flokkum, Aðalbjörn Tryggvason í unglingaflokki, Ásgeir Frímannsson í sportflokki og Íslandsmeistarinn Helgi Reynir Árnason í meistaraflokki. Ekki skemmdi heldur fyrir stemmningu heimamanna að allir eiga þeir að meira eða minna leyti rætur sínar í Ólafsfirði.

Veður var mjög gott í Ólafsfirði í dag og öll umgjörð keppninnar til fyrirmyndar, bæði fyrir áhorfendur og keppendur, eins og venja er. Er leitun að mótorsportviðburði hérlendi sem er jafn vel skipulagður og snjókross mótaröðin. Aðstæður til aksturs voru reyndar erfiðar en hiti var nokkuð yfir frostmarki og því grófst brautin mikið. Urðu talsverð afföll bæði af sleðum og ökumönnum, sem setti mark sitt á keppnina þegar á leið.

Reynsluboltar í unglingaflokki

Gaman var að fylgjast með baráttunni í unglingaflokki og eru sumir ökumenn þar orðnir mjög flinkir, enda komnir með talsverða reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Baráttan stóð einkum á milli Aðalbjörns Tryggvasonar (Adda) og Sæþórs Sigursteinssonar, sem báða má flokka undir “reynslubolta” í faginu, og síðan nýliðans Baldvins, sem sýndi fantagóðan akstur á köflum. Í úrslitahítinu var það Addi sem fór með sigur af hólmi og þar á eftir komu Sæþór og svo Baldvin.

Ásgeir einráður

Sportflokkurinn var gríðarlega spennandi og margir keppendur. Heimamaðurinn Ásgeir Frímannsson sýndi frábæran akstur og sigraði í öllum hítum. Hann varð Íslandsmeistari í unglingaflokki sl. vor og verður greinilega ekki auðunninn í vetur. Annar keppandi úr unglingaflokki í fyrra, Jónas Stefánsson (Jonni), sýndi einnig snilldartakta. Nokkrir nýliðar mættu til leiks í sportflokkinn og sýndu flott tilþrif. Einn þeirra, Kári Jónsson, gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti í úrslitahítinu, á milli þeirra Ásgeirs og Jonna.

Íslandsmeistarinn seigur

Gríðarleg barátta var í meistaraflokknum, eins og við var að búast. Eyþór Hemmert Björnsson sýndi hvers hann er megnugur og vann fyrstu tvö hítin með svakalegum akstri. En í þriðja híti bilaði sleðinn og gekk ekki eðlilega en þrátt fyrir það tókst honum að vinna. Var hálf broslegt að fylgjast með honum landa sigri á fretandi sleðanum án þess að keppinautunum tækist að vinna á hann svo neinu næmi. En fyrir úrslitahítið var hann því nánast úr leik og dólaði bara með til að safna stigum. Því var allt galopið í startinu og allt útlit fyrir hörkubaráttu um sigurinn. Hún hlut því snöggan endi strax í fyrsta hring þegar Austfirðingarnir Steinþór og Fannar lentu í samstuði. Eftir það var leiðin greið til sigurs fyrir Íslandsmeistarann Helga Reynir en um annað sætið börðust Guðmundur Rafn (Galfýr) Jónsson og Reynir Stefánsson, eða Brói, sem mættur var á ný í slaginn eftir nokkurra ára hlé. En Ólafsfirðingurinn síkáti, eins og þulur mótsins nefndi Galfýrinn, landaði öðru sætinu að lokum.

Góð dagsferð hjá EY-LÍV í Mývatnssveit

Hópurinn við Jökulsárgljúfur.

Hópurinn við Jökulsárgljúfur.

Laugardaginn 28. janúar 2006 stóð Ey-lív fyrir dagsferð í Mývatnssveit og nágrenni. Jón Skjöldur Karlsson snaraði í snatri saman stuttri ferðasögu og einnig tók hann fullt af myndum sem komnar eru á netið.

Það voru um 30 sleðar sem lögðu af stað frá Kröflu undir dyggri fararstjórn heimamanna í fínu veður og ágætu færi. Snjóalög voru ágæt til að byrja með en smá þræðingur var til að komast niður á Eilífssvatn. Þaðan var strikið tekið að Dettifossi þarf sem tekin var góð pása. Nokkur sunnan strekkingur var og við Dettifoss og fljótlega kom smá rigning, en þó ekki það mikil að hún væri til vandræða. Frá Dettifossi var þrusað á fullri ferð norður á Þeistareykjabungu í ágætum snjó. Þar var útsýnið kannað norður í Kelduhverfi. Næst var stoppað við Litla Víti og svo var haldið í vestur að skálanum við Þeistareyki. Þar fór nú snjórinn verulega að minnka. Eftir stutt kaffistopp var haldið áfram norður með Bæjarfjalli og að Gæsafjöllum.

Óttarlega var nú snjórinn rýr og fengu menn aðeins að reyna sig í þúfuakstri en í sárabót fór sólin að skína. Smá töf varð þegar kraftmikill Arctic cat lét ekki alveg að stjórn að lenti á steini og sleða og ökumaður tóku smá flugferð. Hjálmurinn og brynjan sönnuðu gildi sitt og varð ökumann ekki meint af. Það tókst að hefta sleðann saman og kláraði hann túrinn. En svo fengu menn umbun fyrir torfærið þegar farið var upp þröngt gil syðst á Gæsafjöllum og uppá þau þar sem var bara fínt útsýni. Þaðan létu menn sig austur af Gæsafjöllum niður nokkuð bratta brekkur og svo var tekinn sveigur norður fyrir Leirhnjúkshraun og svo suður í Kröflu þar sem Team Motul var að við snocross æfingar og gátu menn horft á tilþrifin áður en sleðar voru lestaðir á kerrur. Stór hluti af hópnum endaði svo í Jarðböðunum góðu þar sem sagðar voru sögur áður en menn héldu heim á leið. Góður dagur í fínum félagsskap. – Jón Skjöldur Karlsson

Úttekt á snjóalögum til fjalla og jökla

Um helgina var síðuhöfundur þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í flotta jeppaferð um norðanvert hálendið og Vatnajökul. Var farið allt vítt yfir og gafst því kjörið tækifæri til að taka út snjóalög, auk þess sem smellt var af nokkrum myndum.

Farið var var þremur jeppum og fékk undirritaður að fljóta með Smára Sig. á hans 44” Land Cruser. Aðrir í för voru Gísli Óla. á ofur Hy-lux og Maggi Arnars í jómfrúar-fjallaferðinni á glæsilegum Land Cruser 90 (þ.e. fyrsta ferð Magga eftir að hann keypti bílinn en báðir hafa auðvitað farið oft á fjöll hvor í sínu lagi).

Byrjað á Laugafelli

Lagt var af stað á föstudagskvöldi og stefnt í Laugafell um Bárðardal. Þegar byggð sleppir í Bárðardal er lítið um snjólaög að segja. Fyrir utan svellbunka og nokkra hjarnskafla var fátt sem minnti á vetur. Þetta hefur þó væntanlega lagast síðasta sólarhring. Þegar land tekur að hækka eykst snjórinn jafnt og þétt og við Galtaból er fínn snjór. Ágætt jeppa- og sleðafæri virtist raunar vera um allt hálendið upp af Eyjafirði og í Laugafell.

Gæsavötn

Um morguninn var vaknað í flottu veðri í Laugafelli og meðal hefðbundinna morgunverka var að sjálfsögðu ferð í laugina. Ákveðið var að aka áleiðis í Gæsavötn og farin svokölluð forsetaleið áleiðis að Fjórðungsöldu. Þarna hefði verið vandræðalaust að aka um á sleða þótt sennilega teljist snjóalög vera í lélegu meðallagi. Farið var yfir Bergvatnskvísl á vaðinu og virtist þar vera traustur ís. Þaðan var stefnan tekin norður í Sandbúðir þar sem bjartsýnustu menn vonuðust eftir því að staðarhaldari biði með heitt á könnunni. Það brást hins vegar eins og oftast áður. Frá Sandbúðum var stefnan tekin austur á bóginn að Skjálfandafljótsbrú og sveigt suður fyrir hraunið. Veður var fremur hryssingslegt og snjólaög léleg á þessari leið. Austan Skjálfandafljóts og að Gæsavötnum hefði t.d. varla verið hægt að komast á sleða á laugardaginn með góðu móti.

Um kl. 4 var rennt í hlað á Gæsavötnum og þar sem veðrið var ekkert sérstakt til aksturs var ákveðið að taka bara lífinu með ró. Kvöldmaturin var tekinn með fyrra fallinu, sverar grillsteikur með brúnuðum kartöflum að hætti hússins og hefði maturinn dugað í 20-30 manna veislu. Það voru því saddir menn sem gengu snemma til náða.

Þungt færi á jökli

Á sunnudagsmorgni var vaknað í frábæru veðri, björtu og köldu. Þótti tíðindum sæta að tókst að halda Smára í koju þar til klukkan var langt gengin níu. Eftir frágang í skálanum var stefnan tekin inn á jökul upp frá Gæsavötnum. Var gaman að fylgjast með sólinni koma upp og byrja að skína á fjöllin eitt af öðru. Þrátt fyrir brattar brekkur og laust færi gekk all vel að komast inn á jökul og sannaði skriðgírinn hjá Smára þar ágæti sitt í fyrsta en ekki síðasta sinn í ferðinni.
Eftir að hafa sprautast inn Dyngjujökulinn dágóða stund í allgóðu færi var ákveðið að taka hring um Bárðarbungu og niður Köldukvíslarjökul. Sóttist ferðin vel framan af en þegar komið var upp undir 1.700 metra hæð fór að kárna gamanið og færið að þyngjast svo um munaði. Máttu menn sætta sig við að mjakast áfram í lægsta gír klukkutímum saman. Hörð skel var ofaná en skraufþurrt púður undir sem reyndis jeppunum afar erfitt. Fyrst þegar fór að halla aftur niður Köldukvíslarjökulinn fór ferðahraðinn aftur að aukast. Kalt var á jöklinum (-18gráður), sólskin en nokkur skafrenningur. Höfðu menn á orði að gott væri að dreifa snjónum aðeins betur því mikill snjór virtist vera kominn á jökulinn þótt lítið væri á hálendinu umhverfis hann.

Upp Gjóstuklifið

Farið var að dimma þegar komið var ofan í Vonarskarð og var ákveðið að reyna að komast Gjóstuklifið. Eins og þeir vita sem til þekkja er það bæði brött og löng brekka sem fara þarf til að komast norður úr Vonarskarði, eða krækja að öðrum kosti fyrir klifið og eiga á hættu brölt yfir ótryggar ár og læki, sem ekki þótti freistandi í myrkrinu. Í Gjóstklifinu sannaði skriðgírinn hjá Smári sig enn frekar og upp komust allir eftir nokkrar tilfæringar. Var nú leiðin greið að kalla norður úr skarðinu þaðan sem stefnan var tekin á Sandbúðir og áleiðis niður í Bárðardal. Heim í Eyjafjörð var komið um miðnættið eftir langan en skemmtilegan dag og viðburðarríka helgi. -HA