Frábært færi í Laugafell

Síðastliðinn mánudag, 5. desember, fóru félagarnir Steini Pje, Geir Baldurs og Gunnar Knutsen í Laugafell í hreint frábæru veðri og færð. Farið var af Öxnadalsheiði suður Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall. Nægur snjór var í dalnum og færið suður fjallið sjaldan verið betra. Magurt var í kring um Laugafell og rjúpur þar í góðum málum. Sérstakt var síðan að koma heim og aka inn í svarta þoku á Moldhaugahálsi. Meðfylgjandi eru myndir sem Gunnar Knutsen tók.

Öryggi og ábyrgð – upplýsingarit um akstur vélsleða

LIVwebSlysavarnafélagið Landsbjörg og Landsamband íslenskra vélsleðamanna hafa nú í sameiningu gefið út bæklinginn Öryggi og ábyrgð, upplýsingarit um akstur vélsleða. Þar er farið yfir helstu þætti hvað notkun vélsleða s.s. lög og reglur, aðsteðjandi hættur, ástæður vélsleðaslysa, hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir þessi slys, hlífðar og öryggisbúnað og almennar ferðareglur svo eitthvað sé nefnt.

Frá því síðla árs 2004 hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg átt í samstarfi við Rannsóknarnefnd umferðarslysa og Landssamband íslenskra vélsleðamanna um forvarnir í notkun vélsleða. Strax í upphafi þessa samstarfs varð ljóst, að umræða um notkun vélsleða og vélsleðaslys var lítil á meðal almennings og hvorki heilbrigðis né lögregluyfirvöld hafa haldið utan um þennan slysaflokk með skipulögðum hætti. Það sem af er þessu ári hefur verið unnið að nauðsynlegum breytingum hvað þetta varðar og hafa Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landsaband íslenskara vélsleðamanna og Rannsóknarnefnd umferðarslysa, unnið að því í sameiningu að opna umræðuna um þessi mál og þá ekki síst slysin sjálf, orsök og afleiðingar þeirra svo að draga megi lærdóm af þeim og nota þá vitneskju í forvarnarstarfi. Vélsleðaeign íslendinga eykst með ári hverju og slysunum fjölgar samhliða því. Til að auka öryggi vélsleðamanna hefur m.a. verið gert átak á meðal vélsleðamanna um að nota svokallaðar brynjur sem verja brjóstkassa og hrygg og geta dregið verulega úr áverkum ef slys/óhapp verður og hefur notkun þeirra aukist til muna það sem af er þessu ári. En brynjur og annar búnaður kemur ekki í veg fyrir slysin. Það verðum við að gera sjálf.

Leitast verður við að dreifa nýja bæklingnum sem víðast þannign að hann komist helst í hendur allra vélsleðamanna landsins. Bæklingnum var m.a. dreift á Vetrarsportsýningunni á Akureyri um síðustu helgi.

Bæklingurinn er einnig aðgengilegur á vef LÍV

Góð Vetrarsporthelgi að baki

Fín aðsókn var að Vetrarsportsýningunni á Akureyri um helgina og tókst hún vel í alla staði. Sýnendum fjölgaði á milli ára og boðið var upp á ýmsar nýjungar, meðal annars að hafa fyrirlestra um ýmislegt tengt útivist.

Þá tókst áshátíðin ekki síður vel en hún var haldin í Sjallanum á laugardagskvöldið. Húsið troðfullt og mikil stemmning. Fór menn þar á kostum hver um annan þveran. Má t.d. nefna formann skemmtinefndar, Hesjuvalla-Björn, Júlíus Júlíusson veislustjóra og Guðmund Hjálmarsson, sem flutti árlegan annál af snilld. Ekki má heldur gleyma Uss, suss, SUSSS-hópnum sem tróð upp með hvert snilldaratriðið á fætur öðru. Samkvæmt venju voru veittar viðurkenningar fyrir glæsilega sleða og bása. Fallegasti ferðasleðinn var valinn Ski-doo GTX 600, verklegasti sleði sýningarinnar var valinn Arctic Cat M7 og Toyota á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás.

Flottar myndir af Glerárdal

Magnús V. Arnarsson sendi flottar myndir sem teknar voru á Glerárdal um síðustu helgi. Það voru 6 félagar í Súlum, björgunarsveitinni sem voru þar á ferð og sjálfur var Maggi í jómfrúarferðinni á Polaris 800 Verical Escape sem hann festi nýverið kaup á. Magi skrifaði. “Færið gerist ekki betra, mikill snjór og mikið púður. Púðrið var það mikið að á nokkrum stöðum varð að beita skóflu á ákveðan gerð af sleðum! Gæta verður samt varúðar þar sem ekki eru allir steinar komnir á kaf. Eins eru bæði Lambaáin og Gleráin opinn. Farið var upp að Kerlingu og var hún tignarleg að sjá með þá ísbrynju sem var utan á henni. Ekki var færið síðra niður í Skjóldal. Með þennan snjó sem kominn er stefnir í góðan keyrsluvetur.”

Vel heppnaður landsfundur LÍV

Árlegur landsfundur Landssambands Íslenskra vélsleðamanna var haldinn á Hveravöllum í dag. Um 30 manns sóttu fundinn og var Ásbjörn Helgi Árnason endurkjörinn forseti sambandsins.

Störf fundarins voru með hefðbundnum hætti. Ásbjörn flutti skýrslu stjórnar þar sem hann fór yfir liðið starfsár og tæpti á helstu málum sem verið hafa á borði stjórnar. Jóhann Gunnar Jóhannsson gjaldkeri fór yfir peningamálin og voru reikningar samþykktir samhljóða. Þá fluttu formenn svæðafélaganna skýrslur sínar um starf félaganna, þ.e. Ríkarður Sigmundsson frá LÍV-Reykjavík, Sigurjón Jónsson frá Snæ-LÍV í Skagafirði og Björn Magnússon frá Ey-LÍV. Í kjöri til stjórnar og gaf Ásbjörn Helgi kost á sér til áframhaldandi setu. Kjósa þurfti um tvo aðalmenn í stjórn til tveggja ára en kjörtímabil Jóhanns Gunnars og Böðvars Finnbogasonar var útrunnið. Jóhann gaf kost á sér áfram og nýr í stjórn var kjörinn Sigurjón Jónsson úr Skagafirði.

Undir liðnum önnur mál bar ýmislegt á góma, svo sem öryggismál og innra skipulag sambandsins. Fram kom að í vinnslu er bæklingur um öryggismál sem LÍV gefur út í samvinnu við Landsbjörg og er stefnt á útgáfu á honum í næsta mánuði. Talsverðar umræður urðu um skipulag og lög sambandsins. Samþykkt var að beina því til formanna svæðafélaganna að þeir kanni hug félagsmanna sinna til skipunar nefndar er fari yfir og geri tillögu um breytingar á lögum sambandsins fyrir næsta landsfund að ári liðnu. Þá var nokkuð rætt um tengingu LÍV við keppnisgeirann en LÍV-Reykjavík steig skref í þá átt á liðnu starfsári. Lýstu þeir fundarmenn sem til máls tóku yfir ánægju með þessa þróun og verður væntanlega nánar tekið á þessum málum í umræðum um lagabreytingar. Að loknum fundi var síðan grillveisla í boði LÍV.

Þess má geta að einn fundarmanna mætti á Hveravelli á vélsleða og rak menn ekki minni til að slíkt hefði gerst áður. Þótti þetta ótvírætt merki um að í framundan væri mikill snjóavetur.

Sleða- og jeppaferðir helgarinnar

Loksins birti upp um helgina og þá var ekki að sökum að spyrja. Menn þustu á fjöll, bæði á jeppum og sleðum, til að kanna allan snjóinn sem komið hefur síðustu vikur.

Hreiðar í Vín, Jón Björnsson og Eiríkur Jónsson fóru á jeppum með sleða í kerrum inn Eyjafjarðardal á laugardag. Að sögn Eiríks var hægt að aka á jeppa inn að Brúsahvammi, þaðan er ófært fyrir alla bíla og því sleðarnir teknir niður. Það er þokkalegt sleðafæri innúr, aðeins stöku blettir auðir í lækjum. Vandræðalaust var að keyra inn í Laugarfell og komið var við í Landakoti á leiðinni heim. Snjórinn er að sögn Eiríks þéttur og þarf því ekki mikið undir sleðana.

Smári sig fór ásamt fleirum á jeppa upp Bárðardal og í Nýjadal og Gæsavötn og hafði sömu sögu að segja. Bara góður snjór er frá Mýri í Bárðardal allt inn að Kiðagilshnjúk. Þar minnkaði ögn og frekar lítið er við Sandbúðir. Í Gæsavötnum var snjórinn í góðu lagi en lítið sem ekkert í Nýjadal og Laugafelli. En hinsvegar er flottur snjór við Landakot og lofar undirlagið þar bara góðu. Eiríkur og Smári sendur nokkar myndir úr ferðunum.

Magnaður túr þvert yfir hálendið – og til baka

Fimm harðsvírðair sleðakappar úr Eyjafirði fóru um síðustu helgi magnaðan túr suður yfir hálendið og óku um svæðið að Fjallabaki í fylgd Benna og Rínu. Smári Sig. sendi ferðsögu.

Formaðurinn var beittari en nokkru sinni að drífa sína menn af stað á miðvikudag “ekkert væl bara drífa sig” Svo spenntur var´ann að hann mætti fyrstur á auglýstum brottfarartíma og beið eftir ferðafélögunum.

Á miðvikudagskvöld var blásið til brottferðar, nú átti að taka á því, fara suður á land sagð´ann. Kaldbaksdalurinn svona frekar rýr en í góðu lagi. Skítur á fjallinu eins og oft áður og fremur snjólétt er nálgaðist Laugafell.

Jósavin, Sigurgeir, Benni, Rína, Jón og Hreiðar. Smári tók myndina.

Jósavin, Sigurgeir, Benni, Rína, Jón og Hreiðar. Smári tók myndina.

Á fimmtudag haldið austur og suður um, þó vel vestan við Nýjadal og yfir Mjóhálsinn í Vonarskarð yfir Hágöngulón og stefnan tekin á Sveðjuhraun. Reyndist það alveg ófært og því farið til baka og upp Köldukvíslarjökulinn fyrir Hamarinn og suður yfir allt að Skaftárjökli og þaðan niður á Langasjó. Þar var nú færi maður, fullt rör þessa 20 km rennsléttu leið. Undir kvöld var komið í Glaðheima eftir að hafa reynt fyrir okkur í ýmsum giljum og krókum.

Á föstudag var auðvitað sama blíðan og fyrri daga, og þess vegna tekinn snemma dagurinn. Nú átti að koma sér á Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Talið var alveg bráðnauðsynlegt að koma við í Strútslaug og taka smá þrifabað. Okkur til furðu reyndist nú Mýrdalsjökull miklu mun stærri en landafræði þekking okkar sagði til um. Hægt var að keyra þar um allan daginn og alltaf sjá eitthvað nýtt, a.m.k .þegar Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi er bætt við. Gerðum okkur heimakoman á sólpallinum hjá Benna og Rínu og nutum veðurblíðunnar og útsýnisins til Vestmannaeyja, þótt húsráðendur væru að heiman. Á bakaleið var frábært útsýni yfir Goðaland, Þórsmörk og Tindfjöll svo eitthvað sé nefnt.
Um kvöldið komu svo Benni og Rína í Glaðheima því ráðlegt þótti að hafa þessa norðlinga undir eftirliti þarna að Fjallabaki.

Laugardagurinn sem fyrri dagar sól og 17. Nú tóku Benni og Rína stjórnina og sprautað allskonar brekkur og gil svo við norðlingarnir vorum fljótir að tapa áttum. Það var ekki fyrr en skálinn í Landmannalaugum kom í ljós að við vissum hvar í heiminum við vorum.
Þaðan var svo farið í allskonar krákustígum upp í Hrafntinnusker. Satt best að segja held ég að ekki nokkrum lifandi manni hafi dottið í hug að þessar leiðir sem þau fundu væru færar, en alltaf fundust nýir skaflar og ný gil. Frá “Skerinu” var farið á Torfajökul og þaðan í fjöllin austan við Hólmsárbotna sem ég man vara ekki hvað heita………. Eftir hreint frábæran dag var enn á ný haldið í Glaðheima og gist……….

Sunnudagur sem og þeir fyrri, bara sól og tóm hamingja, En öll ævintýri taka enda og nú var góðgerðar fólk okkar kvatt og heim skal haldið.
Eftir rúmlega 830 km túr án óhappa eða bilana held ég að orkan hafi
verið farin að dvína eitthvað. En stutt í að menn vilja ólmir í næstu
ferð…..

Heyrst hefur að ferðalokum

-Að Sigurgeir hafi loks náð að klár tilkeyrsluna “Kettinum”
-Jósavin hafi gleymt að spyrja Tryggva um veðurspána áður en lagt var í´ann
-Að Jón noti bara annað kertið vegna sparaksturskeppninnar
-Að formaðurinn vilji lengja RMK´inn eftir að hann sá líterinn hans Benna.
-Að Smári hafi bara lifað á “skáta” þurrmat allan túrinn…

Salíbuna með Sólvangsbræðrum

Guðni í Straumrás sendi eftirfarandi frásögn og myndir úr ferð um Kinnarfjöll á sumardaginn fyrsta.

Þeir Sólvangsbræður Ingvar og Bergsveinn og Jón Ingi á Fornhólum gáfu mér aldeilis frábæra sumargjöf en það var sannkölluð salíbuna um Kinnarfjöll á sumardaginn fyrsta. Þar tókst okkur ásamt þeim bræðrum Óla og Hilla frá Akureyri og Ingvari í Böðvarsnesi að finna alveg ótrúlegt magn af snjó , en sökum þess að þessi snjór er, eða var að mestu fyrir ofan 500 metra hæðarlínuna þurftum við að beita nokkurri lagni að komast nógu hátt en eins og flestir vita þá kalla Fnjóskdælir alls ekki hvað sem er ömmu sína og leiddu þeir félagar okkur hratt og örugglega upp og niður um þetta svæði enda á heimavelli.

Heyrst hefur:

  • Að þeir sem fara í rússibanaferð á Flateyjardal með Sólvangsbræðrum komi örmagna heim.
  • Að Bergsveinn Í Sólvangi hafi sömu skoðun og skáldið: hvergi bratt , bara mismunandi flatt.
  • Að Ingvar í Sólvangi segi : ef það er ekki í Arctic Cat eða Massey Ferguson þá þarf ekki að nota það.
  • Að þeir bræður ætli að fá sér húsbíl og ferðast um Ítalíu þegar þeir fá leið á vélsleðum.-
  • Að gott er að hafa með sér tyggjó þegar ferðast er með Sólvangsbræðrum því vegna óvæntra og skyndilegra hæðarbreytinga eru hellur fyrir eyrum algengur fylgifiskur.
  • Að í Nýjuspakmælabókinni eftir Smá-sög-Sig.standi á blaðsíðu níu: Rólegan æsing! Það kemur aldrei svo sumar að ekki fylgi vetur fljótlega í kjölfarið!
  • Að Sleðasíðan sé laus við Guðna í Straumrás , allavega til hausts

“Svona fullorðins” -Reynslualstur á Ski-doo Summit Highmark 1.000

Summitinn var prófaður í botn og meira að segja botninn var skoðaður (að vísu ekki alveg viljandi). Mynd Smári Sig.

Summitinn var prófaður í botn og meira að segja botninn var skoðaður (að vísu ekki alveg viljandi).
Mynd Smári Sig.

Ég var á leiðinni upp á Öxnadalsheiði og ferðinni var heitið inn á hálendið. Í kerrunni var einn öflugasti sleði sem enn hefur verið smíðaður, Ski-doo Summit Highmark 1.000, með öflugustu vélina og stærsta beltið sem boðið er í fjöldaframleiddum sleða í dag. Umboðsaðilinn Gísli Jónsson hf. hafði boðið fram sleðann til reynsluaksturs við íslenskar aðstæður og sá Brimborg á Akureyri um að afhenda græjuna. Til þess að ökumaðurinn rataði nú örugglega á fjöll og heim aftur hafði Haftækni lagt til nýtt Garmin map 172c GPS tæki. Já-því er ekki að neita að á svona dögum er óskaplega gaman að vera til.

Ný vél frá grunni

Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda var tveggja strokka 1.000 SDI vélin smíðuð ný frá grunni, þ.e. þetta er ekki bara “útboruð” 800. Markmiðin sem Ski-doo setti voru að smíða aflmikla vél sem þó væri áreiðanleg og stæðist mengunarreglugerðir sem taka gildi í Bandaríkjunum á næsta ári. Ekki verður betur séð en þetta hafi gengið eftir. Um aflið þarf a.m.k. enginn að efast sem prófað hefur gripinn. Vélin er gefin upp 165 hestöfl og þar sem hvor sílendur um sig er tæplega 9 sentimetar í þvermál og 8,2 sentímetar á hæð er ástæðulaust að draga þá tölu í efa. Sílendurnir eru steyptir í eina blokk og ýmsum aðferðum beitt til að draga úr víbringi. Vélin malar líka ljúflega þrátt fyrir stærðina.

SDI innsprautunin

Summit 1000 er óneitanlega vígalegur sleði og einn sá verklegasti á  markaðinum.

Summit 1000 er óneitanlega vígalegur sleði og einn sá verklegasti á markaðinum.

Eldsneytiskerfið í sleðanum er hin svokallaða SDI-innsprautun sem Ski-doo hefur hlotið mikið lof fyrir. SDI stendur fyrir Semi-Direct-Injection sem þá mætti þýða “hálf-bein-innsprautun” (er það ekki skásprautun?). Nafngiftin kemur til af því að bensínblöndunni er hvorki sprautað inn í sveifarhúsið (eins og algengast er á tvígengisvélum sem kallaðar eru EFI) né inn í sílendurinn (eins og í fjórgengisvélum) heldur í milligöngin í sveifarhúsinu. Í “hefðbundinni” tvígengisvél gegna milligöngin því hlutverki að flytja bensínblönduna úr sveifarhúsinu upp fyrir stimpilinn inn í sílendurinn. Um leið þrýstir nýja blandan brenndu gasinu sem fyrir er út í pústið. Gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er að bæði tapast talsvert af nýju blöndunni út í pústið og einnig verður nokkuð af brennda gasinu eftir. Þetta veldur því að eldsneytið nýtist tiltölulega illa og afköst vélarinnar verða minni en ef hægt væri að nýta alla bensínblönduna sem fæst með hverju slagi vélarinnar. Með því að sprauta beint inn í milligöngin á hárréttum tíma nær Ski-doo að nýta bensínblönduna talsvert betur en í hefðbundinni tvígengisvél og þarf þannig minna eldsneyti til að ná sama afli, m.ö.o. minni eyðsla og minni mengun. Með þessu móti nær Ski-doo að láta þess aflmiklu vél standast væntanlegar mengunarreglugerðir. Tveir spíssar sprauta inn í hvor milligöng. Þeir eru mis stórir og virkar sá minni á lágum snúningi en þegar ræsa á alla hestana sem leynast undir húddinu þá bætist hinn við. Rafeindatæknin hefur gerbreytt virkni vélsleðavéla á tiltölulega fáum árum og eins og við er að búast er það tvölvustýring sem sér til þess að SDI vélin vinni eins og til er ætlast. RAVE-pústventlarnir eru m.a. rafeindastýrðir og stjórnast opnun og lokun þeirra af þáttum eins og samspili á stöðu bensíngjafar, snúningsahraða vélarinnar og fleiru. Þetta hjálpar til við að auka afköst og draga úr mengun. Skiljanlega þarf öflugt kælikerfi til að ráða við svo aflmikla vél og vatnsdælan í 1.000 vélinni afkastar líka 10 lítrum á mínútu. Vatnið kemur inn neðst í sveifarhúsinu og ferðast síðan upp eftir vélinn. Kælikerfið er einn lykilþáttur þess að þriðja markmið Ski-doo með vélinni fái staðist þ.e. áreiðanleikinn.

Svínvirkar

Veginn og metinn.

Veginn og metinn.

Þeir sem prófa þennan sleða hljóta a.m.k. að geta sammælst um að hann muni aldrei skorta tvennt, afl og drifkraft. Vélin einfaldlega svínvirkar á öllum snúningi og virðist endalaust geta bætt við. Samt er virkar hún ólík flestum öðrum svona stórum vélum sem ég hef reynslu af að því leyti að hún er mun notendavænni, ef svo má segja. Þ.e. auðvelt er að láta hana taka mjúklega á ef svo ber undir, t.d. ef taka þarf af stað við erfiðar aðstæður og hún virkar vel á lágsnúningi. Einu sinni kom fyrir að hún virtist fá of mikið bensín og þurfti smá stund til að jafna sig. Raunar virkaði sleðinn helst til “feitur” en á það ber að líta að hann var enn á tilkeyrsluprógrammi. Það hefur einnig áhrif á eyðsluna en þó virtist sleðinn vera með þeim eyðslugrennstu sem voru til samanburðar í ferðinni. Eftir nokkurn reynsluakstur niðri á Öxnadalsheiði og ferð upp í Laugafell fóru á hann rúmir 18 lítrar af bensíni. Því er engin ástæða til að draga í ef staðhæfingar framleiðenda um litla eyðslu, enda hafa þær verið staðfestar í prófunum vestan hafs.

RT boddýið

Einhvern veginn svona er útsýni ökumanns.

Einhvern veginn svona er útsýni ökumanns.

Þótt sleðinn líti í fljótu bragði svipað út og REV þá var smíðað alveg nýtt boddý fyrir sleða með 1.000 vélinni og það kallar Ski-doo RT. RT-boddýið byggir raunar á sömu grundvallarlögmálum og REV, þ.e. að færa ökumanninn framar og koma sem mestu af þunganum fyrir nálægt driföxlinum. Það segir sig sjálft að þegar 165 hestafla vél er farin að snúa 162 tommu löngu belti með 2,25 tommu spyrnum þá þarf að styrkja ýmsa hluti. Þannig var smíðuð ný kúpling til að þola átökin og reimin er bæði sverari og lengri en í REV. Drifkeðjan er lengri en í 800 sleðunum sem stafar af því að driföxulinn er færður neðar til að fá minni horn frá öxli að belti. Þetta á að auka hæfni sleðans í klifri. Einnig er öxullinn aftar til að fá pláss fyrir beltið sem er með 2.25 tommu spyrnur sem fyrr segir. Á heildina litið líkaði mér vel við RT-boddíið. Sætið er mjög gott, hæfilega stíft og vel lagað. Rúðan virkar hálgert pjátur þegar tekið er á henni en veitir þó dágott skjól og ber ekki á neinum víbringi á akstri. Til lengri ferðalaga væri þó til bóta að hafa veigameiri rúðu. Menn verða seint á eitt sáttir með útlitið, sem svipar mjög til REV, sem fyrr er sagt. Til að byrja með þótti mér REV afskaplega ljótir sleðar en ég hef algerlega skipt um skoðun. Ég myndi þó ekki segja að RT væri fallegri sleði en REV nema síður sé. Á mig virkar sleðinn dálítið bólginn og þyngslalegur. Uppgefin þurrvikt er 240 kg, sem hlýtur að teljast all vel sloppið miðað við 1.000 vél og svona rosalegt belti en samt fékk ég á tilfinninguna að ég væri með ansi þungan sleða í höndunum, eins og nánar verður vikið að síðar. Aftan við sætið er ágætis geymsluhólf fyrir smáhluti eða nestið til dagsins og þar fyrir aftan laaaaaaangur pallur þar sem hægt er að koma fyrir miklum farangri. Stigbrettin eru breið og veita öryggistilfinningu. Stýrið er hátt og mjög þægilegt, hvort heldur setið eða staðið er á sleðanum. Þó er á því sá galli að sé setið á sleðanum þá skyggir það algerlega á mælaborðið. Raunar er ofrausn að tala um mælaborð á þessum sleða því í honum er bara einn mælir sem sýnir snúningshraða. Í litlum glugga neðst í honum birtast upplýsingar um ekna kílómetra þegar sleðinn er í kyrrstöðu en þegar ekið er af stað fer talan að sýna á hvaða hraða er ekið. Þessi gluggi mætti að ósekju vera talsvert stærri þar sem erfitt er að fylgjast með honum á akstri. Ég reyndi að bera hraðamæli sleðans saman við GPS-tækið og fékk út að mælir sleðans sýndi að jafnaði 4-5 km hærri tölu. Eiginlegur bensínmælir er ekki á sleðanum en þess í stað er tankurinn glær og hægt að fylgjast með stöðunni í honum vinstra megin á sleðanum. Sleðinn er einnig vel búinn að því leyti að rafstart og bakkgír er staðalbúnaður, þ.e. hin frábæra snarvenda sem mér finnst að ætti að vera í öllum tvígengissleðum.

Framúrskarandi fjöðrun

Fjöðrun sleðans er mjög að mínu skapi og einn þeirra þátta sem mér líkaði hvað best við (fyrir utan aflið). Framfjöðrunin er sambærileg við REV og kallast RAS. Hún er þróuð í snjókrossinu og þarf ekki að fjölyrða um árangur Ski-doo á þeim vettvangi á síðustu árum. Að aftan er hin frábæra SC-fjöðrun frá Ski-doo sem sömu leiðis á rætur sínar í snjókrossinu. Bæði að aftan og framan er sleðinn með tvívirka HPG gasdempara sem svínvirka. Á árum áður var fjöðrunin helsti veikleiki Ski-doo en á því hefur orðið gerbreyting á síðustu árum og nú er hún óumdeilanlega meðal þeirra allra bestu. Beltið – já hvað getur maður sagt um svona belti? Það er 162 tommur að lengd og 16 tommur á breidd, þ.e. tommu breiðara en algengast er í sleðum, þannig að þarna ertu að fá það belti sem er með mesta flatarmálinu á óbreyttum sleða í dag. Spyrnurnar eru 2,25 tommur eða 63,5 mm (!!) og nokkuð stífar. Þetta belti er því að gefa gríðarlegan drifkraft og flot. Óneitanlega hvín nokkuð í því þegar greitt er ekið en það er óhjákvæmilegur fylgikvilli langra og grófra belta.

Nokkuð stirður í snúningum

Það er nóg pláss fyrir farangur á þessum sleða.

Það er nóg pláss fyrir farangur á þessum sleða.

Skíðin eru af hefðbundinni gerð en alltaf finnst mér nú svona “innskeifir” fjallasleðar jafn asnalegir, þ.e. skíðan eru breiðari að innanverðu til auðvelda akstur í hliðarhalla. Skíðabilið er stillanlegt, 40-42,4 cm. Sleðinn stýrir vel á þessum skíðum en hann er þó of þungur í stýri fyrir minn smekk. Það mætti væntanlega laga með því að hleypa búkkanum aðeins niður að framan þannig að hann standi ekki eins fast í skíðin. Hér erum við samt komin að því atriði sem mér sýnist að sé veikasta hlið þessa sleða. Það er ekkert undan aksturseiginleikunum að kvarta í almennum akstri og fjöðrunin svínvirkar en þetta þungur sleði á svona svakalegu belti verður aldrei mjög lipur í snúningum Það liggur í hlutarins eðli. Þú spólar hann t.d. ekki svo auðveldlega til að aftan nema færið sé þeim mun lausara. Miðað við þetta stóra belti er sleðinn þó mun viðráðanlegri en margir aðrir stórir sleðar sem ég hef prófað en til að aka þessum sleða í hliðarhalla svo vel sé þarf samt fullvaxinn ökumann og hann af beittari gerðinni. Menn þurfa að geta beitt sleðanum af ákveðni og vera tilbúnir að nota alla krafta sína. Vissulega er gaman að takast á við sleðann en getur orðið þreytandi til lengdar. Ég þurfti líka óvenju langan tíma til að venjast sleðanum. Hann hefur sérstakan “karakter” ef svo má segja og það tekur tíma að þora að beita honum af þeirri ákveðni sem nauðsynleg er. Við getum sagt að þetta sé “svona fullorðins” eins og segir í auglýsingunni. Það eru þó örugglega flestir aðrir fjallasleðar liprari í meðhöndlun enda skilgreinir Ski-doo sleðann sem “Hill-climb performance” á meðan 600 og 800 Summit í REV-boddýi eru skilgreindir sem “Deep snow performance”. Það segir okkur ýmislegt.

Fyrir hverja?

Það var stórskemmtilegt og ógleymanleg reynsla að fá tækifæri til að reyna þennan sleða sem sannarlega er stór í sniðum, nánast öfgakenndur, á flestum sviðum. Hér er engin meðalmennska í gangi. En myndi ég vilja eiga hann? Nei-væri ég að velja sleða fyrir sjálfan mig þá yrði mildari sleði fyrir valinu. Það dugar í raun að horfa til þess að þessi er einn sá dýrasti á markaðinum og hægt að færa rök fyrir því að maður fái “meira fyrir peningana” í t.d. 800 sleða. Ef maður veltir fyrir sér hverjum svona sleði gæti hentað þá koma einkum tveir möguleikar upp í hugann, þ.e. ferðasleði eða klifursleði. Þeir sem stunda lengri ferðalög hafa í talsverðu mæli leitað í langa fjallasleða þar sem saman fer langt belti og mikill burður. Summit 1.000 er í mínum huga kjörinn ferðasleði. Hann er aflmikill en þó eyðslugrannur, með mikinn burð og frábæra fjöðrun. Án fyrirhafnar er hægt að koma fyrir á þessum sleða öllum sínum búnaði og það án þess að akstureiginleikarnir skerðist svo neinu nemur. Ég setti t.d. á hann tvo 20 lítra bensínbrúsa, strappaði þá einfaldlega aftarlega á stigbrettin þar sem þeir þvældust ekki fyrir, en samt var góður þriðjungur af beltinu fyrir aftan þá. Faranguspallurinn fyrir aftan sætið er allur yfir beltinu og þar má koma fyrir tösku af stærri gerðinni – langsum! Hinn möguleikinn er það hlutverk sem sleðinn er smíðaður til, þ.e. hann er smíðaður sem ofur-fjallasleði sem getur klifrað endalaust. Hafi menn þannig metnað og hugrekki til að eiga alltaf hæstu slóðina í brekkunni þá er símanúmerið hjá Gísla Jónssyni hf. 587-6644. -HA

Tækniupplýsingar:

Vél:

Gerð: Rotax 2-TEC 1000 H.O. SDI Sílendrar: 2 Rúmtak 997 cc Eldsneytiskerfi: SDI innsprautun Bensíntankur: 40 ltr. Olíutankur: 3,7 ltr.

Fjöðrun:

Framfjöðrun: A-arma R.A.S. Afturfjöðrun: SC-162 Demparar: HPG gasdemparar

Helstu stærðir:

Skíðabil: 40-42,5”/1025-1080 mm Beltislengd: 162”/4115 mm Beltisbreidd: 16” / 406 mm Spyrnur: 2,25”/63,5 mm Uppgefin þurrvigt: 240 kg Framljós: 2×60 w Stýri: RT með “mountain”-handfangi Rafstart: Staðalbúnaður Bakkgír: Snarvenda staðalbúnaður Farangursgrind: Staðalbúnaður

Eftirminnileg afmælishelgi LÍV

Um síðustu helgi var afmælisfundur Landssambands íslenskra vélsleðamanna haldinn í Nýjadal. Þrátt fyrir að veðurguðirnir væru sleðamönnum afar óhliðhollir var engu að síður nokkuð á fjórða tug manna sem lagði á sig erfiða ferð inn á hálendið til að minnast stofnunar sambandsins fyrir 21 ári.

Raunar virðist veðrið jafnan leggja sig fram við að vera í aðalhlutverki þegar stórviðburðir á vegum LÍV eru annars vegar. Sambandið var stofnað í Nýjadal þann 9. apríl 1984 og varð það athæfi landsfrægt á sínum tíma. Hið versta veður brast á og lenntu margir í hrakningum af þeim sökum. Þegar síðan átti að fagna 20 ára afmælinu í fyrravetur urðu menn að hætta við vegna snjóleysis! Stjórn LÍV var einhuga um að gefast ekki upp og halda fast við að minnast stofnunarinnar. Í vetur hittist líka svo vel á að stofndaginn bar upp á laugardag og því kjörið að stefna sleðamönnum saman um þessa helgi.

Undanfararnir

Fyrstu menn lögðu af stað um miðjan dag sl. fimmtudag og þar voru á ferð Ásbjörn Helgi og Jóhann Gunnar stjórnarmenn í LÍV við þriðja mann. Vildu þeir mæta tímanlega á staðinn þar sem langan tíma tekur að ná upp hita í húsunum í Nýjadal. Ferðin var ekki tíðindalaus því nokkuð austan við Laugafell ók forsetinn á stein með þeim afleiðingum að “Kóngurinn” varð óökufær. Þeir gáfust þó ekki upp heldur tvímenntu áfram á Gand Touringnum hans Jóka. Komið var nokkuð fram á nótt er þeir náðu í Nýjadal og voru þá höfð snör handtök við að kveikja upp og moka út mesta snjónum. Var síðan lagst til svefns í eldhúsinu en nokkuð mun mönnum hafa verið kalt á tánum er leið á nóttina.

Um morguninn brunuðu þeir félagar síðan aftur til baka og var nú “Kóngurinn” bundinn öfugur aftan á Jóka. Þannig var ekið í Laugafell og beðið eftir varahlutum sem símað hafði verið eftir til byggða.

Sendiboðarnir

Næstir eru kynntir til sögunnar sendiboðar þeir sem valist höfðu til að færa forsetanum varahluti til að lífga “Kónginn” við. Voru það þeir sálufélagar Siggi Bald. og Mummi Lár. og höfðu uppi stór orð um að ekki yrði mikið mál að skjótast þennan spotta. Lögðu þeir af stað af Öxnadalsheiði um kl. fjögur á föstudaginn en komust all nokkru skemur en áætlun gerði ráð fyrir. Raunar börðust þeir áfram í tvo tíma en komust þó ekki nema rétt fram í miðjan Kaldbaksdal, enda færi og skyggni með því versta sem gerist. Voru þeir að koma til baka örþreyttir eftir óteljandi festur um kl. sex, rétt í sama mund og aðal hópurinn var að mæta upp á heiði.

Flokkurinn ógurlegi

Undirritaður var með síðustu mönnum til að mæta upp á Öxnadalsheiði, klukkan langt gengin sjö. Má þá segja að hálfgert upplausnarástand hafi verið ríkjandi og vildu ýmsir snúa heim aftur ekki seinna en strax. Veðrið var vissulega frekar fúlt en þó var verra að skyggni til aksturs var u.þ.b. ekkert og færið erfitt, mikill blautur og þungur snjór. Líkt og fyrir 21 ári var það “barnsfaðir” LÍV, Steini Pje. sem hvatti menn óspart til dáða og hélt uppi móralnum, staðráðinn í að leggja sem fyrst af stað. Hreiðar formaður, Jón Björns. og Úlli höfðu farið þrír af stað til að kanna aðstæður í dalnum, sem Siggi og Munni höfðu ekki fagrar lýsingar á, en á meðan biðu aðrir átekta. Var nokkuð spáð í hverning þeim þremenningum myndi reiða af en þeir sem þekktu umrædda menn vissu sem var að þeir myndi ekki snúa við fyrr en þeir væru komnir upp úr dalnum og inn á Nýjabæjarfjall.

Það stóð líka heima og eftir um tvo tíma komu þeir félagar til baka, frekar góðir með sig, búnir að leggja slóð inn allan dal. Fóru menn nú að ferðbúast en í ljósi slæmrar veðurspár verð niðurstaðan sú að meirihlutinn ákvað að bíða átekta fram á morgun og taka þá ákvörðun um framhaldið. Átta manns lögðu hins vegar af stað á sleðum og gekk ferðin að óskum, enda farið að dimma þannig að mun auðveldara var að aka. Ferðin inn í Laugafell var tíðindalítil að því undanskyldu að Eiríkur Jóns. tók skykki úr drifhúsinu eftir að hafa gert helst til ágengur við jarðfastan stein. Var gripið til þess ráðs að troða tusku í gatið, hella húsið fullt af olíu og aka síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Í Laugafelli biðu undanfararnir spenntir eftir varahlutunum og þótt komið væri fram á nótt drifu þeir sig í gallana og hófu að gera við, á meðan aðrir lögðust til svefns. Óku þremenningarnir síðan í Nýjadal um nóttina, eftir að “Kóngurinn” hafði öðlast fyrri reisn.

Dag skal að kveldi lofa…

Morguninn í Laugafelli var tekinn rólega eins og vera ber, enda ekki ástæða til óðagots í blíðviðrinu. Farið var í laugina, borðað vel og reynt að afla frétta úr byggð. Kom í ljós að all stór flokkur stefndi upp á Öxnadalsheiði. Varð að ráði að Hreiðar og Smári óku til baka noður Nýjabæjarfjall á móti hópnum, Eiríkur varð eftir í Laugafelli og beið eftir viðgerðarefni í drifhúsið á meðan afgangurinn átti tíðindalitla en góða ferð í Nýjadal. Er leið á daginn bættist þar við harðsnúinn flokkur Skagfirðinga sem farið hafði frá Hveravöllum og um Ingólfsskála. Létu þeir frekar illa af sleðafæri norðan Höfsjökuls.

Af ferð þeirra Smára og Hreiðars er það hins vegar að segja að þeir óku norður allt Nýjabæjarfjall og niður í Kaldbaksdal til móts við hóp Eyfirðinga og Skagfirðinga sem þá var lagður af stað af Öxnadalsheiði. Þar var staðan sú að ýmsum gekk verr að kljást við púðrið í brekkunum en öðrum og nutu þeir aðstoðar hinna reyndari við að komast leiðar sinnar. Inn á Nýjabæjarfjalli var síðan leiðinda veður og gekk á ýmsu við að koma öllum hópnum inneftir. Tók það reyndar megnið af deginum og það voru þeyttir en ánægðir menn sem óku í hlað í Nýjadal að áliðnu kvöldi.

Heiðusfélagarnir

Eftir að menn höfðu nært sig og náð andanum stóð stjórn LÍV fyrir stuttum hátíðarfundi. Þar voru fjórir af frumkvöðlunum að stofnun LÍV sæmdir nafnbótinni “heiðursfélagi LÍV”, þeir fyrstu í sögu sambandsins. Þetta voru þeir Villi Ágústar., Steini Pje., Tómas Búi og Sveinn í Kálfsskinni. Voru þrír þeir síðasttöldu mættir í Nýjadal til að taka við viðurkenningum sínum en Villi átti ekki heimangengt að þessu sinni. Þeir félagar þökkuðu að sjálfsögðu heiðurinn og launuðu fyrir sig með nokkrum góðum sögum.
Á sunnudagsmorgni var risið snemma úr rekkju og áttu menn ánægjulega heimferð eftir því sem best er vitað. Verður ekki annað sagt en að þetta afmælismót LÍV hafi tekist vel og verður án ef lengi í minnum haft, ekki síst hjá þeim sem voru þarna að stíga sín fyrstu skref í sleðamennsku. –HA

Fleyg umæli sem féllu um helgina:
(Athugið að góð saga má aldrei líða fyrir sannleikann)

  • “Skyggnnið í þessu dalrassgati er mínus núll.” –Mummi Lár eftir glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Þetta veður ekkert mál því ég þekki dalinn út og inn. Pabbi hefur svo oft labbað hann.” Siggi Bald. FYRIR glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Ósköp hljóta þessir menn að eiga bágt.” – Hreiðar þegar hann sá Ski-doo flotann sem Skagfirðingar óku.
  • “Það er botlaus krapi, allt á kafi í púðri og maður sér ekki neitt.” – G. Hjálmarsson að lýsa aðstæðum á Öxnadalsheiði á föstudagskvöldið
  • “Ég skellti “Kónginum” bara á krókinn og strappaði hann fastan.” – Jóki að lýsa flutningi á sleða forsetnas.
  • “Ég hafði nú hálf gaman af því að sjá Bjössa tak´ana langsum.” – Sveinn í Kálfsskinni eftir að Hesjuvalla-Björn hafði fest sig í sprungu.

Arctic Cat 2006

Crossfire er sérlega áhugaverður sleði.

Crossfire er sérlega áhugaverður sleði.

Arctic Cat hefur nú afhjúpað alla 2006 línuna og hafa þá allir bandarísku framleiðendurnir lagt spilin á borðið. Aðeins Lynx á eftir að sýna á hverju þeir luma. Því ættu menn fyrir alvöru að geta farið að velta fyrir sér hvað á að kaupa fyrir næsta vetur.

Arctic Cat er ekki með neinar stórar flugeldasýningar að þessu sinni heldur einbeitir sér að ýmsum þáttum sem gera eiga Kattarfjölskylduna enn meira aðlaðandi fyrir væntanlega kaupendur. Þegar var búið að kynna nýja Crossfire sleðann og eru meira að segja fyrstu eintökin komin hingað til lands. Annað sem hæst ber eru endurbættar 500 og 600 EFI vélar. Litið er á nýju 600 vélina (600 EFI II) sem fyrsta skref Arctic Cat í að mæta strangari reglum um mengum sem væntanlegar eru. Hitaskynjarar í pústinu eru notaðir til að hafa blöndu lotfs og bensíns eins veika og mögulegt er (án þess þó að steikja vélina) sem bæði skilar auknu afli og minni eyðslu.

Arctic Cat kynnir nú einnig ýmsan búnað sem gera á notkun ferðasleðana enn þægilegri. Fyrst má nefna upphitað sæti á LE Touring. Svona fyrirfram efast ég reyndar um gildi þessa búnaðar hérlendis og spurning hvort þetta veldur ekki fyrst og fremst því að menn sitja stöðugt á bautu sæti. Svona búnaður hefur sést áður og ekki slegið í gegn.

Annar og sýnu áhugaverðari búnaður í LE Touring er innbyggt talstöðvakerfi með 15 rásum, Cat Comm. Það á að draga 2 mílur og hefur að sögn einhverja möguleika á samhæfingu við önnur talstöðvakrefi. Í boði er hjálmur með innbyggðum hátalara og míkrafóni fyrir þetta kerfi og spurning er hvort hægt væri að nýta hjálminn með VHF talstöðvunum sem margir sleðamenn hérlendis hafa verið að kaupa. En kíkjum þá aðeins á framleiðslulínuna.

Stuttir sportsleðar

ZR 900 lifir enn góðu lífi en kemur nú með EFI í stað blöndunga. Val er um standard eða Sno-pro útgáfu sem öflugri dempurum og grófara belti. Firecat koma á nýju belti frá Camoplast og eru fáanlegir 700 með og án EFI, 600 EFI II og 500 með blöndungum. Allir annað hvort boðnir í standard eða Sno-pro útgáfu. F6 og F7 verða nú fáanlegir með bakkgír og fá þá aftur hefðbundin drifbúnað með keðjuhúsi.

Millilangir

Nýi Crossfire sleðinn hefur þegar verið kynntur hér á vefnum og litlu við það að bæta. Þetta er án efa afar skemmtilegur alhliða sleði sem byggður er á M-7 fjallasleðanum en með Firecat framfjöðrun. Í boði eru 600 EFI eða 700 EFI vélar og beltið er 15x136x1.25 tommu Camoplast Rip Saw.

M-línan

M-línan eða fjallasleðarnir koma að mestu óbreyttir frá 2005 árgerðinni enda hafa viðtökurnar og dómarnir verið með þeim hætti að vandséð er hvað hægt væri að bæta. Nýir demparar líta þó dagsins ljós og aðrar útfærslur af beltislengdum. Öll beltin eru 15 tommu breið frá Camoplast með 2,25 tommu spyrnum (nema í M5) en val er um Attack (stífara) eða Callenger (mýkra) í mismunandi lengdum. Það er vert að gefa einfaldlega smá yfirlit:
M7: 153 eða 162 tommu Attack-belti eða 141, 153 eða 162 tommu Challenger-belti.
M6: 153 tommu Attack eða 141 eða 153 tommu Challenger.
M5: Hinn nýi M5 EFI kemur á 15x141x1.6 tommu Attack-belti.

Ferðasleðar

Sabercat í ýmsum úrfærslum og T660 ST fjórgengissleðinn eru allir boðnir áfram í 2006 árgerðinni. Eini sleðinn sem enn ber hina kunnuglega EXT skammstöfun er græja sem ég hygg að margir gætu verið spenntir fyrir. Þetta er Sabercat 700 EFI sem skartar 13.5×144 tommu belti meðan aðrir Arctic Cat sleðar í þessum flokki eru boðnir á 128 tommu löngu belti. Áður hefur verið farið yfir nýjungar í Touring LE sleðunum, svo sem upphitað sæti og talstöðvakerfið.

Að lokum

Sem sjá má er margt spennandi í boði hjá Arctic Cat fyrir næsta vetur. M-línan verður án efa áfram vinsæl hérlendis sem erlendis og fyrstu viðbrögð við Croccfire benda til að hann verði vinsæll hérlendis, en þegar eru nokkrir á leið til landsins eða þegar komnir. Þá er Sabercat 700 EFI EXE áfram með áhugaverðustu sleðum sem boðnir eru. Sjálfur ætti ég erfitt að gera upp hug minn en sem betur fer er enn nokkur tími til stefnu.

Göngutúrinn – 860 km jeppaferð vítt og breitt um Vatnajökul

Um síðustu helgi fór hópur jeppamanna í ferð inn á Vatnajökul. Hittu þeir á hreint einstakt veður og sendi Guðni í Straumrás ferðasögu úr túrnum sem vert er að lesa.

Fyrri sögustundir frá mér hafa fjallað um heimaslóðir í Grýtubakkahreppi en nú er allt annað hljóð í strokknum því um helgina 4-6 mars fór ég sem aðstoðarökumaður í jeppaferð vítt og breitt um Vatnajökul, aðstoðarökumaður er fínt orð (en afar sjaldan notað) yfir “kóara” eða “skófludýr” og stundum er “kóari” líka “hálfviti” en það gildir að vísu líka yfir suma bílstjóra.

Oddvitinn og hreppstjórinn

En semsagt, góður hópur fólks á fimm bílum lagði af stað frá Akureyri um kvöldmat á föstudag og var farin þjóðvegaleið í Gæsavötn og þar bættust í hópinn oddvitahjónin í Gæsavatnahreppi Ingi og Ingunn frá Húsavík , hreppstjórinn og frú voru þá þegar með í för. (Nærri má geta að enginn boraði í nefið í Gæsavötnum það kvöldið).

Bongóbongóbongó, longóblíða

Laugardagurinn heilsaði okkur með aldeilis frábæru veðri og ætla ég að klára sem snöggvast veður þátt þessarar ferðar með nýyrði sem ætti að skýra sig sjálft = bongóbongóbongó, longóblíða. Við fórum á jökul, nánast beint upp frá Gæsavötnum og fyrsti áfangastaður var Bárðarbunga, þar sem staðfestist enn einu sinni að Ísland er alls ekki svo lítið. Af Bárðarbungu var “straujið” tekið þvert yfir jökul, yfir á Snæbreið, (ps, gaman að vita hvort þessir menn strauja einhverntíma heima hjá sér). Af Snæbreið er aðeins snertispölur á Hvannadalshnjúkinn sjálfan og má nærri geta að bæði menn og konur vildu á toppinn. Þrátt fyrir harðfenni og svell, og þá staðreynd að klifurbúnaðurinn samanstóð einungis af einni ísexi, tveim göngustöfum og þrem teskeiðum var samt ákveðið að reyna uppgöngu, sú tilraun mistókst að þessu sinni en sannaði þó svo að óhyggjandi var, verkfræðingnum til nokkurs hugarléttis að það sem fer upp kemur stundum miklu hraðar niður aftur og er ekki frítt við að dálítil hjartsláttaróregla hafi tekið sig upp hjá nokkrum í hópnum. Á leið okkar frá Hvannadalshnjúk á Grímsfjall litum við ma. niður í Morsárdal og Gísli “ninefinger” Spielberg mátaði sig við Þumal.

Lífræn vekjaraklukka með í för

Olíubaðaðar, grillaðar lambaafturhásingar frá Grímsstöðum á Fjöllum, bragðast náttúrulega hvergi betur en á Grímsfjalli, enda tóku menn og konur vel til matar síns við miðnæturkvöldverð. Sunnudagurinn var tekinn snemma, enda lífræn vekjaraklukka í hópnum sem sefur aldrei svo stutt að hún vakni ekki fljótt aftur. Við drifum okkur niður í Grímsvötnin sjálf og litum á ylströnd sem myndaðist við síðasta gos, engan langaði þó í bað, ef sá svarti sjálfur á einhversstaðar heitan pott gæti þetta verið staðurinn. Á leið í Kverkfjöll ókum við þvert í gegnum það sem eftir er af Gjálp og eru þar að verða lítil ummerki um þær miklu hamfarir sem urðu þar haustið 1996. Þeim sem finnst ekkert varið í Ísland bendi ég á að heimsækja Kverkfjöll, fullyrði að sá sem hefur komið þar og horft í kringum sig verður aldrei samur aftur. Næsti áfangastaður var á Goðahnúkum. Reiknaður meðalhraði okkar á þessum 60 km spotta frá Kverkfjöllum þvert yfir Brúarjökul á Goðahnúka reyndist réttir 90 km pr klst. Þar er skáli, lítill og myglaður í eigu jöklarannsóknafélagsins, að sögn fróðra manna er þar minnsti snjór í manna minnum. Fórum þaðan niður Eyjabakkajökul og inn á þjóðveg við Snæfell, gegnum Kárahnjúka, niður Jökuldal og inná þjóðveg eitt. Stórkostlegri ferð um víðáttur Vatnajökuls var lokið um ellefuleytið á sunnudagskvöld.

860 kílómetrar að baki heiman og heim, eldsneyti á bílana rokkaði á bilinu 150-240 lítrar. Lesendur verða bara að giska á hvor eyddi minna, OfurFreyja hjá símamálastjóranum eða Sassjonginn hjá bakaranum. Þá lætur nærri að um 2.500 myndir hafi verið teknar í ferðinni.

-Guðni í Straumrás.

PS. Þótt ótrúlegt sé tóku margir ferðafélagar fætur sína svo til kostanna í þessarri ferð að sumir vilja nefna ferðalagið “Göngutúrinn” sem er náttúrulega alls ekki viðeigandi fyrir sanna jeppamenn.

Nú er mælirinn fullur!

147761389pkByZc_ph

Smári Sig. með þarfa brýningu til sleðamanna.

Sleðamennskan er skemmtilegt sport. Það er fátt sem býður upp á meira frelsi, fleiri möguleika til að njóta þess sem veturinn hefur uppá að bjóða. Frelsið sem við höfum er dýrmætt og vandmeðfarið. Svo vandmeðfarið að lítið þarf til að klúðra því.

Slys á vélsleðamönnum eru alltof algeng því nánast um hverja helgi má heyra í fjölmiðlum frásagnir um alvarleg slys tengd sleðamennskunni. Stærsti þátturinn í að fyrirbyggja slys liggur hjá ökumanninum sjálfum. Undirbúningur ferðar, þar sem tæki og tól eru höfð í góðu lagi, allur öryggisbúnaður yfirfarinn og menn hafa aflað sér kunnáttu varðandi notkun þeirra tækja og tóla sem þeir hafa, er sá grunnur sem leggja þarf upp með. Landssamband íslenskra vélsleðamanna og deildir þess hafa lagt mikið uppúr þessum öryggisþáttum. Hvatt menn óspart til að nýta allan þann öryggisbúnað sem tiltækur er, hvatt ferðalanga til að nota og læra á GPS tæki, nota hjálma, vera í brynjum, með snjóflóðaýli, stöng og skóflu. Margir hafa tileinkað sér þessi hjálpartæki og er það vel. Réttur öryggisbúnaður sem viðkomandi kann að nota ásamt stöðugri árvekni við aksturinn, þar sem heilbrigð skynsemi og reynsla eru notuð til að leggja mat á aðstæður, eru þeir þættir sem líklegastir eru til að fækka slysum og draga úr afleiðingum þeirra.

Áfengi og akstur vélsleða á enga samleið – aldrei

Einn er þó löstur á sportinu en það er notkun áfengis. Áfengið gerir engum neitt að fyrrabragði svo ekki er því sjálfu um að kenna. Vandamálið liggur hjá þeim sem eru að nota það, á rögnum stað á röngum forsendum. Áfengi og akstur vélsleða á enga samleið – aldrei. Samt er alltof algengt að vélsleðamenn taka með sér áfengi í ferðir. Sumir byrja að drekka í upphafi ferðalags og síðan er “mottó” að halda sverar matarveislur með tilheyrandi drykkjarföngum. Mörg dæmi eru um að mann fari eftir slíkar veislur út að keyra. Þessi háttur er hreint fáránlegur og er kominn tími til að menn þroskist og láti af þessum ósóma, sem auðvitað kemur óorði á alla sem í sportinu eru.

Er ekkert lát á?

Í mörg ár hafa sleðamenn reynt að vinna bug á þessum ósóma innan sinna raða með stöðugum áróðri. Samt er þetta enn að gerast. Nú berast t.d. sögur af drukknum sleðamönnum á akstri á einum fjölfarnasta stað á hálendinu fyrir skömmu. Haft var samband við lögreglu en hún er í byggð og getur lítið aðhafst. Þetta er því miður ekki einsdæmi.

Sýnum ábyrgð – tökum frumkvæði í umræðunni

Hvað er til ráða? Hingað til hafa sleðamenn heldur veigrað sér við að taka þessi mál til opinberrar umræðu. Rökin eru þau að nógu slæmt sé orðspor okkar fyrir þótt við séum ekki sjálfir að auka þar á með opinberri umræðu um ölvunarakstur innan okkar raða. Nú verður ekki lengur undan því vikist. Of stór hópur sleðamanna virðist ekki taka neinum rökum heldur blanda saman áfengi og akstri. Við getum ekki lengur horft upp á þennan ósóma, degið annað augað í pung, blikkað hinu og látið sem ekkert sé. Við verðum að taka frumkvæði í umræðunni áður en einhverjir aðrir gera það fyrir okkur.

Nú er kominn tími til að vélsleðamenn láti áfengið afskiptalaust í kringum sleðamennskuna, hvort heldur í akstri eða í skála á kvöldin þegar heimferð liggur fyrir næsta dag. Dæmin sanna að við eigum fullt í fangi með að koma heilir heim allgáðir, hvað þá undir áhrifum áfengis eða afleiðingum þess. – Smári Sigurðsson.

Ferð Eyfirðinga í Kerlingarfjöll

Björn Magnússon, formaður EY-LÍV, fór ásamt hópi Eyfirðinga á Kerlingarfjallamótið um síðustu helgi. Sendi hann stutta ferðasögu og fullt af fínum myndum.

Helgin var hreint út sagt frábær, veðrið með ólíkindum gott föstudag og laugardag, en svo kom þokuslæðingur sunnudag. Fórum af Öxnadalsheiði á föstudagsmorgun um Nýjabæjarfjall í Laugafell, þaðan uppá Hofsjökul við Miklafell og upp að Hásteinum. Tókum svo stefnuna niður af jöklinum skammt vestan við Setrið og þaðan í Kerlingarfjöllin. Laugardagurinn var nýttur í rólegheita skoðunarferð um Kerlingarfjöllin, vorum mest í nágrenni Hveradalsins enda nóg að sjá þar. Snilldar matur um kvöldið og smá sprell í ábæti. Heimferð á Sunnudag austur fyrir Hofsjökulinn í Laugafell í þokuslæðing og norður Nýjabæjarfjall í leiðinda norðan gjólu og litlu skyggni. Mögnuð helgi í góðum félagsskap.

Vélsleðaferð á Reykjaheiði

Alfreð Schiöth sendi ferðapistil og myndir frá síðustu helgi er hann var á ferð um Reykjaheiði í S.Þingeyjarsýslu. Þetta er tvímælalaust svæði sem sleðamenn ættu að vera duglegri að heimsækja. Gefum Alfreð orðið: Farin var fjölskylduferð frá Skarðahálsi í Reykjahverfi, sem leið liggur fram hjá Höskuldsvatni, Höfuðreiðarmúla, Sæluhúsmúla og þvælst um Grísatúngufjöll í frábæru veðri s.l. laugardag. Á sunnudag var leikurinn endurtekinn með skipti áhöfn og farið í Þeistareyki og síðan um Jónsnípuskarð í Árnahvamm og niður Geldingadal til byggða. Mjög gott veður framan af degi og þykknaði þegar leið á daginn. Færið var hart og ekki verra að vera á loftkældum sleðum.

Polaris kynnir 2006 línuna

rmk900

Úr nógu er að velja hjá Polaris.

Línur eru nú mjög farnar að skýrast með hvaða sleðar verða í boði fyrir næsta vetur og þær skýrðust enn frekar í dag þegar Polaris afhjúpaði 2006 línuna. Eins og vænta mátti er þar ýmislegt áhugavert á ferðinni og ólíklegt annað en að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Nóg er a.m.k. úrvalið.

Þrennt má segja að beri hæst hjá Polaris fyrir árið 2006. Þar af er tvennt sem e.t.v. þarf ekki að koma á óvart, þ.e. annars vegar fleiri vélar með Cleanfire-innsprautun og hins vegar að IQ-boddýið tekur nánast yfir alla framleiðslulínuna. Það þriðja er hins vegar óvæntara en það er kynning á 135 hestafla fjórgengisvél.

Vélamálin

Polaris kynnti 900 Cleanfire-vélina í 2005 módelinu og bauð hana bæði í Fusion og RMK. Nú hefur fjölgað um helming í Cleanfire-fjölskyldunni með kynningu á nýrri 700 vél, sem reydar er nær því að vera 800, þ.e. hún er 755 cc að rúmtaki. Innspítingin mun hafa verið endurhönnuð talsvert frá upprunalegu útgáfunni. Nú sjá tveir spíssar í hvorum sílendur um að fæða vélina og sprautar annar þeirra beint inn í sílendurinn þegar vélin er á lágsnúningi. Mér vitanlega eru þetta fyrstu tvígengis-vélsleðavélarnar sem sprauta beint inn í sílendurinn. Nýja 700 vélin á að skila 138 hestöflum sem hlýtur að teljast ansi gott og 900 vélin, sem einnig er með nýju innsprautunina, eitthvað nálægt 145.

700 Fusion

Önnur ný tvígengisvél er síðan 600 cc HO vél sem byggir á 440 keppnisvélinni frá því í ár. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að breyttar reglur í snjókrossinu gera ráð fyrir að stækka vélarnar í Stock-flokki úr 440 í 600 og því má búast við því að fleiri nýjar 600 vélar líti dagsins ljós. Þessi vél um um 120 hestöfl.

En þá að fjórgengisvélunum. Þar er um tvær útgáfur að ræða sem byggja á vél sem Polaris notar í sæþotur. Í standard útgáfu skilar vélin um 50 hestöflum en með því að bæta við hana túrbínu fjölgar hestöflunum um heilan helling, eða upp í 135. Þessum sleða er stefnt gegn 600 Turbo frá Arctic Cat og verður fróðlegt að sjá hvernig honum reiðir af.

Enn betra IQ-boddý

Því verður vart á móti mælt að Polaris hafi hitt í mark með IQ-boddýinu. Eins og vera ber eru ýmsar endurbætur kynntar fyrir árið 2006. Þær virðast þó allar vera minniháttar sem sýnir að frumgerðin hafi verið vel heppnuð. En án frekari málalenginga er nú vert að snúa sér að því að líta á einstakar sleðalínur.

Fusion:

Í fyrra var IQ-boddýið kynnt með Fusion. Þá með með nýju 900 vélinni en Fusion verður einnig fáanlegur með nýju Cleanfire 700 vélinni og 600 HO fyrir 2006. Þetta eru ekta sportsleðar á hefðbundnu 121 tommu belti.

Nýja Classic línan kemur öll í IQ-boddýinu en með RMK-útfærslunni. Vélar í boði eru nýja 700 Cleanfire og báðar fjórgengisvélarnar. Þessir sleðar koma með nýrri M-10 afturfjöðrun á 128 tommu löngu belti. Eins og vera ber er Classic vel búinn, m.a. með rafstarti og speglum.
Tveggja manna ferðasleðarnir koma í sömu útfærslu og Classic, með sömu vélum en á 136 tommu belti og M-10 búkka.

Millilangir:

Polaris kynnti 900 Switchback í IQ-boddýi sem miðsvetrarmódel ekki alls fyrir löngu. Nú liggur fyrir að sleðinn verður einnig boðinn með 600 HO vélinni og sem fjórgengis Turbo. Í Switchback er blanadað saman framenda af Fusion en afturenda af RMK með það fyrur augum að til verði alhliða sleði. Beltið er 144 tommur á lengd og er aftasti hluti meiðanna sveigður upp líkt og á RMK til að bæta aksturseiginleika í hörðu færi.

RMK:

Miklar vinsældir RMK sleðanna undanfarin ár eru engin tilviljun og Polaris ætlar þeim áfram stórt hlutverk. Nú verður IQ-boddýið allsráðandi og útfærslurnar eru eftirtaldar: 900 cc með 151, 159 og 166 tommu belti; 700 cc með 144, 151 og 159 tommu belti og 600 cc HO á 144 tommu belti.

Af þessari upptalningu má sjá að úr nógu verður að velja fyrir Polarismenn næsta haust. Því er um að gera að byrja velta hlutunum fyrir sér sem fyrst.

Nægur snjór til fjalla

Nokkuð hefur borið á þunglyndi meðal sleðamanna upp á síðkastið og svo virðist sem menn haldi að hvergi sé snjó að finna. Þetta er þó fjarri sanni því til fjalla er nægur snjór, eins og snnaðist í ferð sem farin var á jeppum um Barárðardal og upp í Laugafell um síðustu helgi.

Lagt var af stað seinnipart á föstudag á 5 jeppum, Ingólfur bakari, Ingi og Ingunn frá Húsavík, Haukur Stefáns, Gísli Óla. og Smári Sig. með Hreiðar og Halldór A. sem farþega. Neðantil er Sprengisandsleið alauð eða allt upp undir Fossgilsmosa. Þegar síðan land fer að hækka er nægur snjór og vandræðalaust að aka um allt á sleða. Fremur fúlt veður var á uppeftirleiðinni á föstudagskvöldið, hvasst og skafrenningur. Gat kom á eitt dekk og var það haft til sannindamerkis um hversu veðrið væri slæmt að Ingi fór í kuldagalla á meðan gert var við.

Laugardagurinn heilsaði hins vegar bjartur og fagur með flottasta veðri sem hægt er að fá á fjöllum. Tilgangur ferðarinnar var einkum að lagfæra útihurð á baðhúsinu í Laugafelli og einnig var tækifærið notað í ýmsar aðrar aðdyttingar á staðnum. Að því loknu var ákveðið að renna í Nýjadal en ekki var búið að aka langt þegar Landkrúserinn hans Hauks lagist niður öðru megin að aftan. “Brotinn gormur,” var samhljóða sjúkdómslýsing allra þeirra frægu jeppakalla sem þarna voru samankomnir og ekki annað til ráða fyrir Hauk en að læðast af stað heim. Smári fylgdi í humátt á eftir en aðrir tóku stærri slaufur um miðhálendið. Þegar komið var niður á Sprengisandsleið til móts við skálann í Kvíum var ákveðið að renna niður að skálanum. Þangað niður er brött leið og vandfarin. Allt gekk þó að óskum og er sannarlega gaman að koma þarna niður. Þegar síðan komið var aftur upp á veg brá svo við að bílinn hans Hauks stóð þar bísperrtur og engin merki um brotinn gorm. Heyrðist það síðast af þessu einkennilega máli að réðgert er að skrifa bréf til hr. Toyota sjálfs í Japan og fræða hann um þessa einstöku eiginleika 80 Krúsera, þ.e. að þeir geti læknað sig sjálfir.

Eftir ferðina hefur heyrst…

…að sleðajaxlarnir tveir sem ferðuðust með Smára séu enn aumir í höndunum eftir að ríghalda í sætisbrúnina
…að Landkrúser sé svo fullkominn bíll að hann geti sjálfur grætt saman brotna gorma
…að Haukur ætli ekki á fjöll aftur fyrr en 44 tommurnar eru komnar undir
…að Gísli sé lélegur Halldór
…að Ingi brosi því breiðar sem götin á dekkjum félaganna eru stærri

Gísli Óla. tók flottar myndir í ferðinni.

 

Ski-doo gerir gott betra

Ski-doo heldur áfram að gera góða hluti.

Ski-doo heldur áfram að gera góða hluti.

Þá hefur Ski-doo kynnt 2006 módelið fyrir blaðamönnum vestan hafs. E.t.v. má segja að Ski-doo gæti notast við slagorðið “gerum gott betra”, því þótt ekki séu margar nýjar gerðir af sleðum kynntar til sögunnar eru nýjungarnar engu að síður fjölmargar og taka meira og minna til allrar framleiðslulínunnar.

Þrjú boddý

Ski-doo framleiðir sleða í þremur megingerðum eða boddýium sem nefnast REV, RT og RF. Þetta fjórða árið sem REV-boddýið er á markaði og tekur sem fyrr til meginhluta framleiðslulínunnar. Í fyrra bættist síðan RT-boddýið við en það er hannað fyrir 1.000 SDI vélina og þau auknu átök á drifbúnað sem henni fylgja. Nýjasta boddýið er síðan RF. Það var kynnt fyrir nokkru á hinum nýja Freestyle sleða og verður einnig á Tundra vinnusleðanum, sem líkt og Freestyle er með eins strokks vél. En þá að nýjungunum.

Helstu nýjungar

Fyrst má nefna að sleðar í REV-boddýinu hafa verið lækkaðir um 1,5 tommur með það að markmiði að auka stöðugleika í akstri. Ný hönnun á dempara er einni tommu styttri en fjöðrunarsviðið er þó nánast óbreytt, eða styttist sem nemur 0,4 tommum.

Önnur meginbreyting liggur í nýjum tveggja kjala skíðum fyrir alla línuna. Ski-doo gerði dómssátt um að hætta að nota Precision skíðin en kynnir þess í stað skíði sem nefnast Pilot 5.7 og visa tölurnar í breidd og þynd skíðisins. Skíðið fyrir Summit brekkusleðana er síðan aðeins breiðara og þar með þyngra. Skíðið hefur einn meginkjöl og karbít og annan minni kjöl með karbít að utan sem virkar í beygjum.

Þriðja meginbreytingin tekur til afturfjöðrunarinnar en nú er hin frábæra SC 4 afturfjöðrun, sem á rætur sínar í snjórossinu, staðalbúnaður á nær öllum sleðum í Ski-doo línunni. Munurinn á milli sleðagerða (X, Adrenaline, Trail eða Renegade) liggur fyrst og fremst í mismunandi gerðum af dempurum.

Þá eru það vélamálin

Sleðaframleiðendum hafa verið að keppast við að ná hertum viðmiðum um mengun sem væntanleg eru og er ljóst að þar er Ski-doo í góðum málum. Auk þess að fjórgengisvélin þeirra nái þessum markmiðum má segja það sama um 600 og 1.000 cc SDI-vélarnar og nú einnig 800 HO vélarnar. Hvað varðar blöndungsvélarnar þá nær Ski-doo þessu með búnaði sem þeir kalla PowerTEK sem auk þess að draga úr eyslu og mengun gefur betra viðbragð.
Loks nefna nýja gerð af aftari kúplingu sem kynnt var í Mach Z í fyrra. Hana má nú einnig fá í fleiri sleðum. Þá kemur REV með nýja rúðu sem á að veita betra skjól og bæta loftflæði.

Úrval af sleðum

Ski-doo býður úrval af sleðum og sumum kann að finnast erfitt að átta sig á öllum þessum fjölda. Málið er þó ekki jafn flókið og það kann að virðast í fyrstu. Sem fyrr segir eru boddýin þrjú, þ.e. RT, REV og RF og megingerðirnar eru síðan:

Mach Z: 1.000 cc vél og RT boddý.
MX Z: 550, 600, 800 eða 1.000 cc vél. REV boddý nema fyrir 1.000 cc vélina. Val um “hefðbundið” 121×15 tommu belti eða 136×16 tommu belti og nefnast sleðarnir þá Renegade.
Summit: 600, 800 eða 1.000 cc vél. REV boddý nema fyrir 1.000 cc vélina.
GSX: Eins manns ferðasleðar.
GTX: Tveggja manna ferðasleðar
Vinnu/Leiksleðar: Freestyle, Tundra; Skandic, Expedition o.fl.

Mach Z
Mach Z með 1.000 cc SDI vél er kraftmesti fjöldaframleiddi sleðinn á markaðinum og er gefinn upp 165 hestöfl. Hann verður nú boðinn í X-útfærslu sem þýðir m.a. öflugri dempara.

MX Z
Stærstu tíðindin í þessum flokki eru nýr millilangur sleði þ.e. Renegade á 136×16 tommu belti. Hann er nú boðinn með 1.000 cc SDI vélina í RT boddýinu. Val er um 1.25″ eða 1.75″ gróft belti og hægt að fá sleðann í X-útgáfu með sverari dempurum.

Summit
Summit fjallasleðinn fór í megrun og mætir 15 pundum léttari til leiks. Orkan er þó enn hin sama og val um 600, 800 eða 1.000 vél. Summit er á 16 tommu breiðu belti og ýmsar beltislendir eru í boði, allt upp í 162 tommur.

Að lokum

Eins og rakið er hér að framan er Ski-doo á fullri ferð að þróa sleða sína. Þeir veðja áfram á tvígengistæknina og hafa náð frábærum árangri, bæði með SDI-vélarnar og endurbótum á blöndugsvélum með því að hagnýta sér ýmsan rafeindabúnað. Stóra 1.000 cc vélin skapar þeim sérstöðu, þótt enn sé raunar ekki vitað á hverju Polaris og Arctic Cat luma í 2006 árgerðinni. Ski-doo hitti sannarlega í mark með REV-boddýinu á sínum tíma og getur státað af því að hafa leitt þær miklu breytingar sem gengið hafa yfir sleðaheimin síðustu 2-3 árin. Það forystuhlutverk munu “þeir gulu” ekki láta af hendi baráttulaust.

Drangajökull með stefnu á Reykjarfjörð

15. febrúar 2005:

Þórarinn Sverrisson (Tóti Musso) sendi eftirfarandi ferasögu og mynd af ferð hans og Kristjáns Dalton sendibílstjóra um Strandir um síðustu helgi.

Við ákváðum að skella okkur á Strandirnar þar sem veðurspáin lofaði góðu fyrir laugardaginn 12.feb og með myndirnar hér á Sleðasíðunni frá för þeirra Strandamanna á þetta svæði fyrir skömmu átti ekkert að stoppa okkur.

Lögðum af stað á föstudagskvöldið og gistum á Gistiheimilinu hjá Hrólfi. Laugardagur rann upp fagur og var heiðskírt og útlitið gott. Á Steingrímsfjarðarheiði var samt smá mugga og gat veðrið farið á hvorn veginn sem var. Samt sást til sólar af og til. Við lögðum síðan af stað í snjóblindu og smá snjókomu. Hart færi var á Steingrímsfjarðar- og Ófeigsfjarðaheiði en betra færi tók við er við komum upp á Drangajökul. Við kíktum á Hrolleifsborg en sáum ekki niður í Reykjarfjörð. Ekki virtist skriðjökullinn vera frýnilegur og fórum því hefðbunda leið.

Er 5 km. voru eftir í laugina í Reykjarfirði var orðið snjólaust. Við reyndum að finna smá föl til að komast niður með ánni en himinn og haf skildi að. Ekkert bað í þetta skipti takk fyrir. Stoppuðum við því til að næra okkur og horfðum á þokubakkann læðast upp dalinn. Áður en við vissum af var komin þétt snjókoma og talsverður vindur. Allt hafðist þetta að samt lokum en það fór ekki að rofa til fyrr en við komum aftur niður á Steingrímsfjarðarheiði.

Fullt rör hjá Yamaha 2006

Hinn nýi Apex.

Hinn nýi Apex.

Eins og jafnan áður er það Yamaha sem ríður á vaðið við að kynna 2006 árgerðina af sleðum en það var gert síðastliðinn mánudag. Þeir sem spáð hafa að Yamaha væri að draga sig út úr sleðabransanum ættu að hugsa sig um tvisvar. Ný vél, nýtt boddý, nýir sleðar. Hvað meira er hægt að biðja um? Hjá Yamaha er gjöfinni því haldið þétt við stýrið fyrir árið 2006 – já það er fullt rör og ekkert minna – í urrandi fjórgengistakti.

Sárt en…

Undirritaður verður þó að viðurkenna að ánægjan yfir öllum nýjungunum er að vissu leyti tregablandin. RX-1 hverfur nefnilega af sjónarsviðinu, sorglegt en engu að síður staðreynd. RX-1 var framleiddur í 3 ár og batnaði stöðugt ár frá ári. Kynning hans á sínum tíma markaði tímamót í vélsleðasögunni því hann var fyrsti alvöru fjórgengissleðinn með afl og akstureiginleika á við bestu tvígengissleða. Og enn eftir þessi 3 ár er hann í raun kógur í ríki sínu því jafnoki hans hefur ekki komið fram á sjónarsviðið – fyrr en núna.

Hámarkinu náð

Apex er það nafn sem Yamha valdi fyrir hinn nýja sleða. Nafnið mun merkja hátindur eða hámark og því ljóst að Yamaha ætlar honum stóra hluti. Apex skartar nýrri vél og nýju boddýi og er boðinn í fimm útgáfum, þótt einn sleðinn nefnist raunar Attak. Byrjum á grunngerðinni, Apex ER. Með því að skipta út RX-1 nafninu vill Yamaha væntanlega undirstrika að hér sé kominn algerlega nýr sleði, ekki bara endurbætt módel síðasta árs. Enda er Apex sannarlega nýr sleði með aðra eiginleika en forverinn.

Ný vél

EngineHjartað í Apex er ný fjögurra strokka fjórgengisvél með beinni innspýtingu. Það hlaut að koma að því að menn skelltu innspýtingu í fjórgengissleða og Yamha reið á vaðið eins og stundum áður. Vélin á að skila nokkrum helstöflum umfram RX-1 og er gefin upp 150 hestöfl. Innspýtingin á að skila betra viðbragði en blöndungsvél og gera sleðann þannig skemmtilegri. Flest í vélinni hefur verið endurhannað frá RX-1 og til viðbótar því að skila meira afli er hún nokkrum kílóum léttari.

Nýtt boddý

Þótt línurnar í útliti Apex séu í grófum dráttum þær sömu og lagaðr voru með RX-1 er ekki allt sem sýnist. Apex kemur í alveg nýju boddýi sem Yamaha kallar Delta Box II. Grunnhugmyndin með því er að færa ásetu ökumanns framar líkt og þróunin hefur verið í vélsleðum almennt (rider forward). Með því telja menn sig ná betri þyngdardreifingu auk þess sem auðveldara verði að höndla sleðann. Þessu má þó ekki rugla saman við snjókross þar sem byggingarlagið gerir ráð fyrir að ökumaðurinn standi lengst af. Hér er hugsunin sú að auðveldara verði að standa upp og setjast til skiptis og þannig mæta mismunandi aðstæðum, hliðarhalla, brekkum o.s.frv. Sætið og stýrið á Apex hafa verið færð fram um 15 cm sé miðað við RX-1 og stýrið einnig hækkað nokkuð.

Rider Forward

Þetta kallaði einnig á fleiri breytingar á boddýinu, svo sem ljósinu, rúðunni, og bensíntanknum. Lofthreinsarinn er nú í raun hluti af framstykkinu og sjálft húddið er aðeins tiltölulega lítið lok sem fjarlægt er til að komast að vélinni. Útlit og frágangur hefur löngum verið fyrsta flokks hjá Yamaha og virðist hvergi slakað á því í Apex. Hvert smáatriði er þaulhugsað og t.d. er útlit og frágangur á mælaborði Apex í algerum sérflokki – og þetta er jú sá hluti sleðans sem maður hefur fyrir framan sig þegar setið er á honum. Sennilega verða minnstu breytingarnar á fjöðruninni frá RX-1 í Apex ER. Afturfjöðrunin er sú sama, enda ein sú besta í bransanum, en framfjöðrunin hefur verið endurbætt þannig að sleðinn stýri betur og lyfti skíðunum síður í beygjum.

Fyrir þá kröfuhörðu

Auk grunngerðarinnar Apex ER eru í boði tvær aðrar gerðir til að mæta þörfum þeirra kröfuhörðustu, þeirra sem kerfjast þess að fjöðrunin geti tekið við meira álagi en gengur og gerist hjá hinum almenna sleðamanni. Annar nefnist Apex GT og verður aðeins framleiddur í takmörkuðu upplagi. Hann skartar m.a. hágæða Öhlins dempurum sem stilla má á fullri ferð með takka við stýrið. Loks er það síðan Apex RTX með Fox-loftdempurum fyrir þá allra villtustu.

Millilangur með 150 hestöfl

Þeir þrír sleðar sem hér hafa verið nefndir, þ.e. Apex ER, Apex GT og Apex RTX eru allir stuttir, þ.e. með hefðbundið 121 tommu belti. Fjórði sleðinn í nýja boddýinu og með nýju vélina nefnist hins vegar Attak og hann kemur á 136 tommu bleti. Hér er því kominn arftaki RX Warrior. Í Attak var smíðuð ný útgáfa af “mono-shock” afturfjöðruninni sem Yamaha kynnti í fyrra og hlaut mikið lof fyrir. Þessi sleði er aðeins lægra gíraður en Apex, til að mæta lengra belti, og er um 12 kg léttari en RX-Warrior. Með 150 hestöfl og 136 tommu belti ættu mönnum að vera flestir vegir, eða fjöll, færir.

Alvöru púðursleði sem hentar líka í ferðalögin

Apex MTNFimmti sleðinn sem byggir á sama grunni og hinir er Apex Mountain. Hér er kominn alvöru fjallasleði og beltið er ekkert smáræði, 162 tommur á lengd og 16 á breidd. Það er af nýrri gerð þar sem sumir fliparnir í beltinu eru mjúkir en aðrir harðir, auk þess sem þeir eru ekki allir jafn langir. Með þessu á beltið að henta betur í misjöfnu færi, þ.e. bæði í púðri og stífari snjó. Þyngd þessa sleða er sannarlega talsvert meiri en annarra fjallasleða, eða tæp 300 kg (596 lbs) á meðan t.d. Summit 1000 á 162×16 tommu belti er gefin upp 529 lbs. Ekki kæmi mér á óvart þótt margir hérlendis muni horfa spenntir til þessa sleða. Auk þess að skilja flesta eftir í brekkunum ætti hann að henta vel til ferðalaga. Pústinu er beint út til hliðanna og aftan við sætið er ágætis geymslurými fyrir farangur.

120 hestafla deildin

GYT-R shocksÍ fyrra kynnti Yamaha til sögunnar nýja 3ja stokka, 120 hestafla fjórgengisvél í nokkrum sleðum og heldur nú áfram á sömu braut. M.a. kemur sleði með þessari vél sem kallast Nytro ER og er smíðaður sem skemmtilegt leiktæki með góða aksturseiginleika og öfluga fjöðrun. RC Vector og RS Rage sleðarnir með 3ja strokka vélinni halda áfram og fá ýmsar endurbætur. Nýir sleðar í þessari línu eru Vector GT, sambærilegur við Apex GT að vélinni undanskildri, RS Vector með “mono-shock” afturfjöðruninni og RS Vector Mountain SE með 162×16 tommu beltinu. Sá millilangi, þ.e. RS Rage á 136 tommu belti, fær einnig “mono-shock” afturfjöðrunina og endurbætur sem létta hann nokkuð á milli ára. Lokst má nefna lúxus ferðasleðann Venture sem kemur óbreyttur í stórum dráttum, enda toppurinn í ferðasleðum að margra mati. Þess má síðan geta að sögusagnir eru á kreiki um endurkomu Yamaha í snjókrossið næsta vetur en það eru sögusagnir enn sem komið er.

Er Yamaha á réttri leið?

Enn á ný hlýtur sú spurning að vakna hvort Yamaha sé á réttri leið með því að veðja á fjórgengistæknina. Því verður ekki á móti mælt að henni fylgir aukin þyngd og það mun alltaf há þessum sleðum í samanburði við tvígengissleða. Síðan verður hver og einn að meta og gera upp við sig hvers konar sleði hentar honum. Þótt aukin þyngd sé sjaldnast kostur er vert að spyrja sig hversu oft þær aðstæður skapast að þyngdin skipti höfuðmáli. Hana verður einnig að vega á móti þeim kostum sem fylgja fjórgengisvél, svo sem meira tog, minni eyðsla, lengri ending og lægri bilanatíðni. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn að ég tek ofan fyrir Yamaha fyrir að fara þessa leið. Ekki endilega vegna þess að ég sé á leiðinni að fá mér fjórgengissleða heldur fyrir að þora að taka áhættuna og framkvæma það sem sleðamenn höfðu rætt um árum saman og flestir talið óhugsandi – að smíða alvöru fjórgengissleða sem ekki bara er sambærilegur við það besta í tvígengisheiminum heldur stendur framar á mörgum sviðum.

Vel hefur Drottinn vandað sig…

Guðni Hermanns tók léttan rennig um heimaslóðir í nágrenni Grenivíkur í liðinni viku. Hann sendi magnaða ferðalýsingu og er réttast að gefa honum orðið:

Hér eru nokkrar myndir teknar á ýmsum stöðum í Grýtubakkahreppi 27. janúar síðastliðinn. Í þessarri yfirreið ók ég skv. gps tækinu mínu 59,87 kílómetra á fjórum klukkutímum sléttum =15km klst.

Afi minn heitinn , Friðbjörn orti eitt sinn þessa vísu og veit ég að ég má fá hana lánaða.

Heimabyggðin heillar mig
hér er mold af gróða rík
vel hefur Drottinn vandað sig
við að skapa Grenivík.

Ég renndi út Hvammsheiði (Vesturheiði) út að Strjúgsgili (Strjúgur er fyrir þá fáu sem ekki vita “matur” þeas. kjötbein voru látin liggja í súr þar til þau urðu meyr og voru síðan étin með spónum, þeir sem áttu spóna eða skeiðar notuðu svoleiðis hinir notuðu náttúrulega guðsgafflana, Nú er ég með tillögu til þeirra frænda minna Bjössa og Himma í Harðfiskverkuninni Darra að þeir geri nú tilraunir með framleiðslu á Strjúg, ef vel tekst til er ég alveg viss um að Jóhannes undrakokkur vinur þeirra bætir þessum vafalaust sérkennilega rétti inn á þorrahlaðborð Múlakaffis fyrir næsta vetur. Ástæða þess að gil þetta heitir þessu matarmikla nafni Strjúgsgil er ekki ljós en kannski hefur ferðamaður sem átt hefur leið þarna um týnt nestinu sínu sem þá hefur náttúrulega verið súrsað beinasull.)

Þessi langloka er nú útúrdúr frá þessarri sleðaferð minni. Höldum nú áfram inn með Gljúfurá innfyrir Víðilæk og ofaní Brattáslautina, sem er að mínu mati einn fallegasti staður í Grýtubakkahreppi þar eru lygilega hávaxin birkitré og veðursælt með afbrigðum, þar var sel frá Bárðartjörn. Ofaní Brattáslautina fór ég í fyrsta sinn á SnoTric (já vélsleða)fyrir um þrjátíu árum, barátta mín við að komast upp brekkuna aftur er einhver hroðalegasta raun sem ég hef átt í á vélsleða. Úr Brattáslautinni lá leið mín norður yfir Sandfell upp Botnana uppá Grenivíkurfjall niður í Grenjárdal upp hjá Skógaröxl út og niður hjá Borgum ofan við Finnastaði og Hjalla, norður Torfdal og niður í Hringsdal og út að Jaðri, til að komast yfir Svíná þurfti nokkrar krókaleiðir aðeins upp í Svínárdal og síðan niður á Svínárnes, þaðan niður á sjávarbakka að Borgarhól og síðan út og upp til Steindyra , Steindyr bera nafn með rentu því þar þarf þó nokkrar krókaleiðir til að komast framhjá öllu stórgrýtinu sem þar er og hafa sig þar norðurfyrir en það tókst nú samt. Skammt er frá Steindyrum að Skeri og eru þar töluverðar rústir, ég hafði hugsað mér að komast alla leið í Grímsnes en sneri við í Ausugilinu, held ég að hæpið sé að fara öllu lengra á sleða. Ég fór svipaða leið til baka að vísu með viðkomu á Kaldbak. Við þetta var ég að gaufa í nærri fjóra klukkutíma og kom heim alveg himinsæll og glaður og ekki spilltu nú fyrir soðiðbrauðið og kleinurnar sem ég fékk hjá mömmu í lokin.

Magnaðar myndir af Hornströndum

Þrír fræknir kappar frá Bolungarvík; Reimar Vilmundarson frá Bolungarvík nyrðri, Sigurður Þ. Stefánsson (tengist Reykjarfirði nyrðri), og Einar Guðmundsson, lögðu upp í langþráða sleðaferð um Hornstrandir. Tekið var af á Steingrímsfjarðarheiði, fögur sýn blasti við þeim félögum, mikill snjór og allt hvítt eins og augað eygði. Við látum myndirnir tala sínu máli um fegurð Hornstranda að vetralagi.

Skroppið í Héðinsfjörð

Einmanna sleði við Vík í Héðinsfirði.

Einmanna sleði við Vík í Héðinsfirði.

Firecat Loftskörðun. Skaflinn þar er nú óvenju brattur.

Firecat Loftskörðun. Skaflinn þar er nú óvenju brattur.

Finnur Steingrímsson í Ólafsfirði skrapp í Héðinsfjörð í gær, eftir að farið var að skyggja. Sagðist hann hvorki hafa orðið var við kindur né Siglfirðinga en þeir lentu sem kunnugt er í hremmingum þar um helgina. Einn sleði hefur verið skilinn eftir við Vík. Finnur fór leiðina yfir Loftskörð og er seinni myndin tekin í skarðinu á heimleiðinni. Skaflinn þar er nú óvenju brattur að sögn Finns.

Púðrið í Þorvaldsdal kannað

17. janúar 2005:

Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs voru ásmat fleirum að kanna púðursnjóinn í Þorvaldsdal um helgina. Sendi Smári ferðasögu og myndir.

Við Sigurgeir “drulluðumst” loks á sleða á laugardaginn. Fínt veður um morguninn enda vaknað það snemma að ekki var nema myrkur að sjá út um eldhúsgluggann. En viljinn var beittur og ákveðið að fara í Ólafsfjörð og sannreyna allt púðrið sem þeir gortast af. Þegar þangað kom var bara hvítt myrkur yfir öllu. Við bara bognuðum, snérum við á planinu og héldum heim.

En fannst þetta frekar dapurt að koma aftur heim með allt nestið, svo ákveðið var að renna inn á Þorvaldsdal, þó ekki væri nema til að klára nestið. Viti menn þar var bara frábært veður og enn betra færi. Bara fínt færi fram fyrir Hestahraun en tvö verulega stór snjóflóð þar fyrir framan sem minna okkur á hætturnar. Þegar komið inn í Fögruhlíðina á Nautárdal fór nú púðrið að verða alvöru púður. Það varð að halda takkanum alveg frammi þó verið væri að keyra jafnsléttu. En svo bregðast krosstré sem önnur tré, því púðurbúðingur Sigurgeirs hreinlega var jarðaður í einni brekkunni. Taka varð fram stórar skóflur og moka mikið og lengi.

Á heimleið, miklu vökvatapi síðar, mættum við Hauki á Toyota með sinn flokk sem ætlaði aðeins að glíma við púðrið. Haukur taldi vert að mynda sinn hóp til að sanna ferð hans, þar sem sleðadrengirnir á Toyota voru farnir til Ameríku og myndu ekki trúa því að karlinn treysti sér í ferð án þeirra.

Flott jeppaferð um helgina

Nokkrir jeppamenn frá Akureyri og Húsvík fóru fínan túr inn á hálendið um helgina. Smári Sig sendi smá ferðasögu.

Á föstudagskvöld var farið upp Bárðardal og stefnt á Gæsavötn. Í upphafi ferðar var lítill snjór en þegar komið var inn að Kiðagilshnjúk var kominn flottur snjór og alveg skruggu færi alveg í Gæsavötn.

Á laugardagsmorgni var haldið austur með jökli (sleðaleiðina) í fínu færi allt austur fyrir Kistufell. Þá var rétt eins og klippt hefði verið á snjóinn og við Sigurðarskála er algerlega snjólaust. Þangað væri ekki hægt að komast á sleða, jafnvel með einbeittan vilja. Tíma tók að finna færa leið en Jökulsá á Fjöllum hafði breitt nokkuð úr sér og ísinn hélt ekki alsstaðar.

Á sunnudag var haldið niður með Jökulsá að vestan og kíkt á fossinn í Svartá og upptökin árinnar, sem er alltaf jafn magnað á að horfa. Þar var miklu betri og meiri snjór en upp við Kverkfjöll og gaman að vera til. Litið var við í Dreka og dáðst að nýja húsi Ferðafélags Akureyrar. Í Herðubreiðarlindum var lítill snjór eins og venjulega en þegar norðar dró fór snjórinn að aukast fyrir alvöru. Var orðið flott færi við Ferjuásinn og hægt að sprauta í allar áttir. Myndirnar tóku Gísli Óla. og Halldór Jóns.