
Summitinn var prófaður í botn og meira að segja botninn var skoðaður (að vísu ekki alveg viljandi).
Mynd Smári Sig.
Ég var á leiðinni upp á Öxnadalsheiði og ferðinni var heitið inn á hálendið. Í kerrunni var einn öflugasti sleði sem enn hefur verið smíðaður, Ski-doo Summit Highmark 1.000, með öflugustu vélina og stærsta beltið sem boðið er í fjöldaframleiddum sleða í dag. Umboðsaðilinn Gísli Jónsson hf. hafði boðið fram sleðann til reynsluaksturs við íslenskar aðstæður og sá Brimborg á Akureyri um að afhenda græjuna. Til þess að ökumaðurinn rataði nú örugglega á fjöll og heim aftur hafði Haftækni lagt til nýtt Garmin map 172c GPS tæki. Já-því er ekki að neita að á svona dögum er óskaplega gaman að vera til.
Ný vél frá grunni
Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda var tveggja strokka 1.000 SDI vélin smíðuð ný frá grunni, þ.e. þetta er ekki bara “útboruð” 800. Markmiðin sem Ski-doo setti voru að smíða aflmikla vél sem þó væri áreiðanleg og stæðist mengunarreglugerðir sem taka gildi í Bandaríkjunum á næsta ári. Ekki verður betur séð en þetta hafi gengið eftir. Um aflið þarf a.m.k. enginn að efast sem prófað hefur gripinn. Vélin er gefin upp 165 hestöfl og þar sem hvor sílendur um sig er tæplega 9 sentimetar í þvermál og 8,2 sentímetar á hæð er ástæðulaust að draga þá tölu í efa. Sílendurnir eru steyptir í eina blokk og ýmsum aðferðum beitt til að draga úr víbringi. Vélin malar líka ljúflega þrátt fyrir stærðina.
SDI innsprautunin

Summit 1000 er óneitanlega vígalegur sleði og einn sá verklegasti á markaðinum.
Eldsneytiskerfið í sleðanum er hin svokallaða SDI-innsprautun sem Ski-doo hefur hlotið mikið lof fyrir. SDI stendur fyrir Semi-Direct-Injection sem þá mætti þýða “hálf-bein-innsprautun” (er það ekki skásprautun?). Nafngiftin kemur til af því að bensínblöndunni er hvorki sprautað inn í sveifarhúsið (eins og algengast er á tvígengisvélum sem kallaðar eru EFI) né inn í sílendurinn (eins og í fjórgengisvélum) heldur í milligöngin í sveifarhúsinu. Í “hefðbundinni” tvígengisvél gegna milligöngin því hlutverki að flytja bensínblönduna úr sveifarhúsinu upp fyrir stimpilinn inn í sílendurinn. Um leið þrýstir nýja blandan brenndu gasinu sem fyrir er út í pústið. Gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er að bæði tapast talsvert af nýju blöndunni út í pústið og einnig verður nokkuð af brennda gasinu eftir. Þetta veldur því að eldsneytið nýtist tiltölulega illa og afköst vélarinnar verða minni en ef hægt væri að nýta alla bensínblönduna sem fæst með hverju slagi vélarinnar. Með því að sprauta beint inn í milligöngin á hárréttum tíma nær Ski-doo að nýta bensínblönduna talsvert betur en í hefðbundinni tvígengisvél og þarf þannig minna eldsneyti til að ná sama afli, m.ö.o. minni eyðsla og minni mengun. Með þessu móti nær Ski-doo að láta þess aflmiklu vél standast væntanlegar mengunarreglugerðir. Tveir spíssar sprauta inn í hvor milligöng. Þeir eru mis stórir og virkar sá minni á lágum snúningi en þegar ræsa á alla hestana sem leynast undir húddinu þá bætist hinn við. Rafeindatæknin hefur gerbreytt virkni vélsleðavéla á tiltölulega fáum árum og eins og við er að búast er það tvölvustýring sem sér til þess að SDI vélin vinni eins og til er ætlast. RAVE-pústventlarnir eru m.a. rafeindastýrðir og stjórnast opnun og lokun þeirra af þáttum eins og samspili á stöðu bensíngjafar, snúningsahraða vélarinnar og fleiru. Þetta hjálpar til við að auka afköst og draga úr mengun. Skiljanlega þarf öflugt kælikerfi til að ráða við svo aflmikla vél og vatnsdælan í 1.000 vélinni afkastar líka 10 lítrum á mínútu. Vatnið kemur inn neðst í sveifarhúsinu og ferðast síðan upp eftir vélinn. Kælikerfið er einn lykilþáttur þess að þriðja markmið Ski-doo með vélinni fái staðist þ.e. áreiðanleikinn.
Svínvirkar

Veginn og metinn.
Þeir sem prófa þennan sleða hljóta a.m.k. að geta sammælst um að hann muni aldrei skorta tvennt, afl og drifkraft. Vélin einfaldlega svínvirkar á öllum snúningi og virðist endalaust geta bætt við. Samt er virkar hún ólík flestum öðrum svona stórum vélum sem ég hef reynslu af að því leyti að hún er mun notendavænni, ef svo má segja. Þ.e. auðvelt er að láta hana taka mjúklega á ef svo ber undir, t.d. ef taka þarf af stað við erfiðar aðstæður og hún virkar vel á lágsnúningi. Einu sinni kom fyrir að hún virtist fá of mikið bensín og þurfti smá stund til að jafna sig. Raunar virkaði sleðinn helst til “feitur” en á það ber að líta að hann var enn á tilkeyrsluprógrammi. Það hefur einnig áhrif á eyðsluna en þó virtist sleðinn vera með þeim eyðslugrennstu sem voru til samanburðar í ferðinni. Eftir nokkurn reynsluakstur niðri á Öxnadalsheiði og ferð upp í Laugafell fóru á hann rúmir 18 lítrar af bensíni. Því er engin ástæða til að draga í ef staðhæfingar framleiðenda um litla eyðslu, enda hafa þær verið staðfestar í prófunum vestan hafs.
RT boddýið

Einhvern veginn svona er útsýni ökumanns.
Þótt sleðinn líti í fljótu bragði svipað út og REV þá var smíðað alveg nýtt boddý fyrir sleða með 1.000 vélinni og það kallar Ski-doo RT. RT-boddýið byggir raunar á sömu grundvallarlögmálum og REV, þ.e. að færa ökumanninn framar og koma sem mestu af þunganum fyrir nálægt driföxlinum. Það segir sig sjálft að þegar 165 hestafla vél er farin að snúa 162 tommu löngu belti með 2,25 tommu spyrnum þá þarf að styrkja ýmsa hluti. Þannig var smíðuð ný kúpling til að þola átökin og reimin er bæði sverari og lengri en í REV. Drifkeðjan er lengri en í 800 sleðunum sem stafar af því að driföxulinn er færður neðar til að fá minni horn frá öxli að belti. Þetta á að auka hæfni sleðans í klifri. Einnig er öxullinn aftar til að fá pláss fyrir beltið sem er með 2.25 tommu spyrnur sem fyrr segir. Á heildina litið líkaði mér vel við RT-boddíið. Sætið er mjög gott, hæfilega stíft og vel lagað. Rúðan virkar hálgert pjátur þegar tekið er á henni en veitir þó dágott skjól og ber ekki á neinum víbringi á akstri. Til lengri ferðalaga væri þó til bóta að hafa veigameiri rúðu. Menn verða seint á eitt sáttir með útlitið, sem svipar mjög til REV, sem fyrr er sagt. Til að byrja með þótti mér REV afskaplega ljótir sleðar en ég hef algerlega skipt um skoðun. Ég myndi þó ekki segja að RT væri fallegri sleði en REV nema síður sé. Á mig virkar sleðinn dálítið bólginn og þyngslalegur. Uppgefin þurrvikt er 240 kg, sem hlýtur að teljast all vel sloppið miðað við 1.000 vél og svona rosalegt belti en samt fékk ég á tilfinninguna að ég væri með ansi þungan sleða í höndunum, eins og nánar verður vikið að síðar. Aftan við sætið er ágætis geymsluhólf fyrir smáhluti eða nestið til dagsins og þar fyrir aftan laaaaaaangur pallur þar sem hægt er að koma fyrir miklum farangri. Stigbrettin eru breið og veita öryggistilfinningu. Stýrið er hátt og mjög þægilegt, hvort heldur setið eða staðið er á sleðanum. Þó er á því sá galli að sé setið á sleðanum þá skyggir það algerlega á mælaborðið. Raunar er ofrausn að tala um mælaborð á þessum sleða því í honum er bara einn mælir sem sýnir snúningshraða. Í litlum glugga neðst í honum birtast upplýsingar um ekna kílómetra þegar sleðinn er í kyrrstöðu en þegar ekið er af stað fer talan að sýna á hvaða hraða er ekið. Þessi gluggi mætti að ósekju vera talsvert stærri þar sem erfitt er að fylgjast með honum á akstri. Ég reyndi að bera hraðamæli sleðans saman við GPS-tækið og fékk út að mælir sleðans sýndi að jafnaði 4-5 km hærri tölu. Eiginlegur bensínmælir er ekki á sleðanum en þess í stað er tankurinn glær og hægt að fylgjast með stöðunni í honum vinstra megin á sleðanum. Sleðinn er einnig vel búinn að því leyti að rafstart og bakkgír er staðalbúnaður, þ.e. hin frábæra snarvenda sem mér finnst að ætti að vera í öllum tvígengissleðum.
Framúrskarandi fjöðrun
Fjöðrun sleðans er mjög að mínu skapi og einn þeirra þátta sem mér líkaði hvað best við (fyrir utan aflið). Framfjöðrunin er sambærileg við REV og kallast RAS. Hún er þróuð í snjókrossinu og þarf ekki að fjölyrða um árangur Ski-doo á þeim vettvangi á síðustu árum. Að aftan er hin frábæra SC-fjöðrun frá Ski-doo sem sömu leiðis á rætur sínar í snjókrossinu. Bæði að aftan og framan er sleðinn með tvívirka HPG gasdempara sem svínvirka. Á árum áður var fjöðrunin helsti veikleiki Ski-doo en á því hefur orðið gerbreyting á síðustu árum og nú er hún óumdeilanlega meðal þeirra allra bestu. Beltið – já hvað getur maður sagt um svona belti? Það er 162 tommur að lengd og 16 tommur á breidd, þ.e. tommu breiðara en algengast er í sleðum, þannig að þarna ertu að fá það belti sem er með mesta flatarmálinu á óbreyttum sleða í dag. Spyrnurnar eru 2,25 tommur eða 63,5 mm (!!) og nokkuð stífar. Þetta belti er því að gefa gríðarlegan drifkraft og flot. Óneitanlega hvín nokkuð í því þegar greitt er ekið en það er óhjákvæmilegur fylgikvilli langra og grófra belta.
Nokkuð stirður í snúningum

Það er nóg pláss fyrir farangur á þessum sleða.
Skíðin eru af hefðbundinni gerð en alltaf finnst mér nú svona “innskeifir” fjallasleðar jafn asnalegir, þ.e. skíðan eru breiðari að innanverðu til auðvelda akstur í hliðarhalla. Skíðabilið er stillanlegt, 40-42,4 cm. Sleðinn stýrir vel á þessum skíðum en hann er þó of þungur í stýri fyrir minn smekk. Það mætti væntanlega laga með því að hleypa búkkanum aðeins niður að framan þannig að hann standi ekki eins fast í skíðin. Hér erum við samt komin að því atriði sem mér sýnist að sé veikasta hlið þessa sleða. Það er ekkert undan aksturseiginleikunum að kvarta í almennum akstri og fjöðrunin svínvirkar en þetta þungur sleði á svona svakalegu belti verður aldrei mjög lipur í snúningum Það liggur í hlutarins eðli. Þú spólar hann t.d. ekki svo auðveldlega til að aftan nema færið sé þeim mun lausara. Miðað við þetta stóra belti er sleðinn þó mun viðráðanlegri en margir aðrir stórir sleðar sem ég hef prófað en til að aka þessum sleða í hliðarhalla svo vel sé þarf samt fullvaxinn ökumann og hann af beittari gerðinni. Menn þurfa að geta beitt sleðanum af ákveðni og vera tilbúnir að nota alla krafta sína. Vissulega er gaman að takast á við sleðann en getur orðið þreytandi til lengdar. Ég þurfti líka óvenju langan tíma til að venjast sleðanum. Hann hefur sérstakan “karakter” ef svo má segja og það tekur tíma að þora að beita honum af þeirri ákveðni sem nauðsynleg er. Við getum sagt að þetta sé “svona fullorðins” eins og segir í auglýsingunni. Það eru þó örugglega flestir aðrir fjallasleðar liprari í meðhöndlun enda skilgreinir Ski-doo sleðann sem “Hill-climb performance” á meðan 600 og 800 Summit í REV-boddýi eru skilgreindir sem “Deep snow performance”. Það segir okkur ýmislegt.
Fyrir hverja?
Það var stórskemmtilegt og ógleymanleg reynsla að fá tækifæri til að reyna þennan sleða sem sannarlega er stór í sniðum, nánast öfgakenndur, á flestum sviðum. Hér er engin meðalmennska í gangi. En myndi ég vilja eiga hann? Nei-væri ég að velja sleða fyrir sjálfan mig þá yrði mildari sleði fyrir valinu. Það dugar í raun að horfa til þess að þessi er einn sá dýrasti á markaðinum og hægt að færa rök fyrir því að maður fái “meira fyrir peningana” í t.d. 800 sleða. Ef maður veltir fyrir sér hverjum svona sleði gæti hentað þá koma einkum tveir möguleikar upp í hugann, þ.e. ferðasleði eða klifursleði. Þeir sem stunda lengri ferðalög hafa í talsverðu mæli leitað í langa fjallasleða þar sem saman fer langt belti og mikill burður. Summit 1.000 er í mínum huga kjörinn ferðasleði. Hann er aflmikill en þó eyðslugrannur, með mikinn burð og frábæra fjöðrun. Án fyrirhafnar er hægt að koma fyrir á þessum sleða öllum sínum búnaði og það án þess að akstureiginleikarnir skerðist svo neinu nemur. Ég setti t.d. á hann tvo 20 lítra bensínbrúsa, strappaði þá einfaldlega aftarlega á stigbrettin þar sem þeir þvældust ekki fyrir, en samt var góður þriðjungur af beltinu fyrir aftan þá. Faranguspallurinn fyrir aftan sætið er allur yfir beltinu og þar má koma fyrir tösku af stærri gerðinni – langsum! Hinn möguleikinn er það hlutverk sem sleðinn er smíðaður til, þ.e. hann er smíðaður sem ofur-fjallasleði sem getur klifrað endalaust. Hafi menn þannig metnað og hugrekki til að eiga alltaf hæstu slóðina í brekkunni þá er símanúmerið hjá Gísla Jónssyni hf. 587-6644. -HA
Tækniupplýsingar:
Vél:
Gerð: Rotax 2-TEC 1000 H.O. SDI Sílendrar: 2 Rúmtak 997 cc Eldsneytiskerfi: SDI innsprautun Bensíntankur: 40 ltr. Olíutankur: 3,7 ltr.
Fjöðrun:
Framfjöðrun: A-arma R.A.S. Afturfjöðrun: SC-162 Demparar: HPG gasdemparar
Helstu stærðir:
Skíðabil: 40-42,5”/1025-1080 mm Beltislengd: 162”/4115 mm Beltisbreidd: 16” / 406 mm Spyrnur: 2,25”/63,5 mm Uppgefin þurrvigt: 240 kg Framljós: 2×60 w Stýri: RT með “mountain”-handfangi Rafstart: Staðalbúnaður Bakkgír: Snarvenda staðalbúnaður Farangursgrind: Staðalbúnaður