Eins og fram hefur komið fékk Sleðasíðan um síðustu helgi til prófunar nýjan sleða, Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI H.O. Þetta er sleði sem kynntur var í byrjun janúar sl. og telst því vera 2005 árgerð. Hér er skellt saman í einn pakka nýju belti (136×16 tommur) og hinni háþróuðu 600 SDI vél. Hver er svo útkoman? Þið getið fræðst nánar um það hér að neðan. Myndirnar tóku auk undirritaðs þeir Sigurgeir Steindórsson, Smári Sigurðsson og Sævar Sigurðsson.
Óslitin sigurganga
Þann 9. desember 2001 birtist hér á Sleðasíðunni frétt sem byrjaði á þessa leið: “Fjörið í snjókrossinu vestanhafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn.” Þótt flestir hafi eflaust á þessum tímapunkti gert sér grein fyrir að tilkoma hins nýja sleða væru mikil tíðindi, hefur líkast til fáa órað fyrir hversu hve miklar breytingar voru í raun framundan. Ski-doo var hér að hefja mikla sigurgöngu sem staðið hefur óslitið síðan. Á það bæði við um keppnisbrautina og sölu á almennum markaði, þar sem þeir tróna nú í toppsætinu sem söluhæsti framleiðandinn.
REV-byggingarlagið tekur völdin
Með þessum byltingarkennda keppnissleða var Ski-doo að leggja grunnin að sleðum sem gengið hafa undir samheitinu REV og íslenskir orðspekingar tóku snemma upp á að nefna “refinn”. Því fer þó fjarri að um einn sleða sé að ræða heldur er REV-skammstöfunin samheiti yfir þetta nýja byggingarlag sem síðan hefur verið að ná til sífellt stærri hluta af framleiðslulínu Ski-doo. Fyrstu sleðarnir fyrir almennan markað voru kynntir rúmu ári eftir að keppnissleðinn var afhjúpaður, þ.e. frá og með 2003 árgerðinni. Nú er þetta byggingarlag að kalla má allsráðandi hjá Ski-doo.
Hver var breytingin?
REV-skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið höfðu ráðandi í vélsleðum. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðann til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hafði fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sæti því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita standa ökumenn meira og minna alla keppnina og hönnun REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr 20-30 cm framar en áður tíðkaðist og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum.
Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin var færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” Ski-doo af eldri gerð. Í REV á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum. Það er heila málið. Loks tókst með REV-boddíinu að létta sleðann verulega.
Leitin að hinum fullkomna sleða
Sem fyrr segir hefur REV-byggingarlagið verið að taka yfir alla framleiðslulínu Ski-doo og í byrjun janúar sl. var fyrsti sleðinn af 2005 árgerð kynntur, MX Z Renegade með 600 SDI vél og 136×16 tommu belti. Þetta er sá sleði sem er til prófunar að þessu sinni. En eftir hverju er Ski-doo að sækjast með þessum nýja sleða? Við skulum strax átta okkur á því að vélsleði er ekki bara vélsleði heldur eru þeir jafn fjölbreyttir og útfærslurnar eru margar. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. mjög við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vélarstærðin er annað atriði. Stærri vél þýðir meira afl en líka oft meiri eyðslu og fleiri kíló.
Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Gallinn við slíkar málamiðlanir getur verið sá að þá standi menn upp með sleða sem stendur sig ekki vel á neinu sviði. Hins vegar hafa svona “blendingssleðar”, sem gjarnan er einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina, notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri.
Engin málamiðlun
Hinn nýi MX Z Renegade er skýrt dæmi um svona sleða. Forsvarsmenn Ski-doo fullyrða að hér sé engin málamiðlun á ferðinni en hvað sem því líður er a.m.k. ljóst er að með smíði hans hefur verið stigið skrefi lengra í að búa til þennan alhliða sleða sem svo marga dreymir um. Í þessu skrefi felst m.a. að breikka beltið um eina tommu, úr 15 tommum í 16. Þannig er hægt að hafa það styttra en á “hefðbundnum” fjallasleðum, ná samt sama gripfleti og floti en með sleða sem er liprari í snúningum og þægilegri í akstri. Þannig er gripflötur Renegade 600 með 136×16 tommu belti sá sami og á 144×15 tommu beltum keppinautanna. Val er um tvær gerðir af spyrnum, þ.e. 44,5 mm (1,75”) eða 31,8 mm (1,25”) og var prófunarsleðinn á fínna beltinu. Þetta nýja belti virðist koma vel út. Að vísu gafst ekki kostur á að reyna sleðann í púðursnjó þannig að ekki reyndi fyrir alvöru á flotið en spyrnan var mjög góð. Þá var sleðinn áberandi lipur í snúningum þannig að allt virðist benda til að markmið Ski-doo varðandi beltisgerðina hafi náðst.
Annað meginmarkmið var að smíða sleða með öflugri en þó sparneytinni vél. Þarna virðist Ski-doo svo sannarlega hafa hitt í mark því 600 SDI vélin er hreinasta undur, eins og nánar verður komið að síðar.
Vel búinn sleði
Hinn nýi Renegade er vel búinn sleði og fátt sem hægt er að sakna. Aftan við sætið er ágætt lokað geymsluhólf fyrir ýmsa smáhluti og jafnvel nesti til dagsins. Síðan kemur hann með ágætri farangursgrind sem er tilbúinn til að taka við auknum farangri. Hægt er að fá auka eldsneytisbrúsa sem ætlað er sérstakt pláss aftan við sætið og nær raunar innundir það. Hiti í handföngum og bensíngjöf er að sjálfsögðu staðalbúnaður og sama er að segja um hinn frábæra snarvendu bakkgír. Ég er einn af þeim sem sjaldan hef saknað rafstarts og því pirraði mig ekkert að slíkt skuli ekki koma sem staðalbúnaður í þessum sleða. Það þarf heldur ekki að toga nema tvisvar í spottann þótt sleðinn sé alveg kaldur og þar kemur SDI innsprautunin til sögunnar. Fyrst er togað einu sinni til að skynjararnir fái að vinna sitt verk og síðan aftur. Þá dettur sleðinn í gang og malar ljúflega.
Menn skiptast nokkuð í tvö horn varðandi útlit REV-sleðana. Sjálfur myndi ég seint telja þá í hópi fallegustu sleða en hef þó orðið sáttari við þá með tímanum. Hvað sem um útlitið má segja er hins vegar ekki hægt að deila um að hönnunin er snjöll og vel hugsuð. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að opna hliðarnar alveg úr fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Þessi sleði er með meðalhárri rúðu sem mér finnst passa honum vel. Ég hef séð menn kvarta undan því að rúðan á REV þyrfti að skýla ökumanninum betur. Ég sé enga ástæðu til að setja út á þetta atriði því þótt rúðan sé mjó fannst mér hún veita dágott skjól. Á það ber að líta að einstök veðurblíða var þá daga sem sleðinn var prófaður og því var ekki spáð svo mjög í þetta atriði. Smíði og frágangur á sleðanum virtist í fínu lagi og enga “lausa enda” að sjá í þeim efnum.
Þvílík vél!
Hvað skal segja um 600 SDI vélina? Ég var búinn að lesa að hún væri öflugasta 600 vélin á markaðinum – en hugsaði nú samt – þetta er nú bara 600. Eftir fyrsta hringinn var fyrsta hugsunin hins vegar þessi: “Þeir hljóta að hafa misst í hann 800 vél í misgripum.” Þvílík vél! Hún svarar um leið og er komið við gjöfina og sleðinn hreinlega stekkur af stað. Sjálfsagt myndu flestar 800 og 900 vélar hafa betur á endanum en aflið í þessari er yfirdrifið við flestar aðstæður. Í reynsluakstrinum var m.a. spyrnt upp brekkur samhliða 800 RMK og 900 Mountaincat og máttu þeir hafa sig alla við.
Með aflinu er þó ekki nema hálf sagan sögð og varla það. Það á eftir að skrifa um sparneytnina og tæknina. Með SDI innsprautuninni var Ski-doo að koma fram með öfluga tvígengisvél sem mætti auknum kröfum um eyðslu og mengun en án þess að henni fylgdi sú auka þyngd sem er í fjórgengisvélum. Tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Meðal búnaðar er svokallaður “Knock sensor” en það er skynjari sem eykur bensínmagnið inn á vélina ef hætta er á að hún sé að ofhitna, t.d. ef bensínið er lélegt.
Þessi 600 vél er tæknilega þróaðasta vélin frá Bombardier og þegar umtöluð fyrir litla eyðslu, bæði á bensíni og olíu. Eyðsla sleðans var ekki mæld í reynsluakstrinum enda hefði það haft takmarkað gild þar sem sleðinn var enn á fyrsta tanki. En miðað við prófanir erlendis stenst það sem framleiðandinn segir um vélina.Hún stenst þegar væntanlegar mengunarreglugerðir sem taka gildi í Bandaríkjunum að tveimur árum liðnum og þar er Ski-doo því í góðum málum. Þegar þannig fer saman kraftmesta 600 vélin og sú eyðslugrennsta, ja þá er erfitt að sjá að hægt sé að gera betur.
Aksturseiginleikar
Ég hafði aldrei keyrt REV-sleða þegar ég settist upp á þennan og eitt af því sem mér hafði verið tjáð var að menn þyrftu nánast að læra að aka vélsleða upp á nýtt. REV-hegðaði sér svo ólíkt öðrum sleðum. Ég komst fljótlega að því að þetta á ekki við rök að styðjast. Vissulega eru hreyfingarnar aðrar en ég hef vanist en mér fannst ég orðin ágætlega hagvanur eftir tiltölulega stutta stund. Hluti af því er að aksturseiginleikarnir eru einfaldlega það góðir að þér fer strax að líka vel við sleðann.
Við skulum byrja á framendanum. A-arma fjöðrunin að framan er 9,5 tommur. Hún skilar hlutverki sínu með sóma og dugar að benda á úrslit úr snjókrosskeppnum því til sönnunar. Sleðinn stýrir frábærlega og kemur þar væntanlega bæði til byggingarlag hans og skíðin, sem mér líkaði mjög vel við. Hvort skíði er með tveimur samsíða meiðum og þau svínvirka. Lykilatriði er einnig lögunin á skíðinu sjálfu, þ.e. svæðinu á milli meiðanna. Raunar má undrum sæta hversu stutt er síðan sleðaframleiðendur fóru af alvöru að spá í endurbætur á skíðum í ljósi þess að þetta er snertiflötur sleðans við snjóinn og hefur úrslitaáhrif varðandi aksturinn. Þessi sleði virðist standa býsna fast í skíðin en þó var hann ágætlega léttur í stýri.
Afturfjöðrunin hefur þróast vel hjá Ski-doo undanfarin ár, ekki síst í snjókrosskeppnunum, og nefnist þessi útgáfa SC-10 III. Hún skilar 13 tommu fjöðrun og auðvelt er að stilla hana þannig að hún henti mismunandi þungum ökumönnum, nú eða þá mis mikilli farangurshleðslu ef því er að skipta.
Bæði að aftan og framan er sleðinn með hina háþróuðu tvívirku HPG gasdempara. Þeir eru þannig gerðir að u.þ.b. þriðjungs vegalengd frá hvorum enda eru göt eða framhjáhlaup. Þannig fæst mýkri og þægilegri fjöðrun þegar demparinn er að virka á miðsvæðinu, þ.e. á meðan ójöfnurnar eru ekki mjög miklar, en þegar harðnar á dalnum og álagið á demparann eykst stífnar fjöðrunin þannig að sleðinn slær síður saman. Þannig vill Ski-doo meina að hægt sé að fá eiginleika tveggja mismunandi dempara í einum.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hina breyttu ásetu á REV. Sumir hafa t.d. algerlega hafnað þeirri hugmynd að geta ekki rétt alveg úr hnjánum. Eflaust er einstaklingsbundið hvernig mönnum líkar REV-ásetan en mér líkaði hún vel þegar á heildina er litið. Á löngum akstri getur verið þreytandi að sitja stöðugt með bogin hné en á móti kemur að auðvelt er að standa upp og rétta úr sér þannig. Mestan tíma tók að venjast því að geta ekki fært sig enn framar á sleðann þegar ekið var í hliðarhalla. Maður hefur vanist því að geta lagst fram með stýrinu en hér er hins vegar búið að færa stýrið framar þannig að því er ekki að heilsa. Þetta er því eingöngu huglægt atriði en ekki raunverulegt vandamál því þú ert jú bara framar á sleðanum. Raunar eru tvær stillingar á stýrinu og var það stillt í þá fremri. Stigbrettin eru einnig mjög góð og veita öryggistilfinningu.
Niður brattar brekkur
Um helgina gafst kostur á að reyna sleðann við ýmsar aðstæður en þó vantaði púðursnjóinn. Því reyndi ekki fyrir alvöru á samanburð við löngu sleðana, sem þó hefði sannarlega verið gaman. Færið var eiginlega of gott því yfirdrifið aflið í 600 vélinni skilaði ökumanninum á alla þá tinda sem hann þorði að reyna við. Mér fannst sleðinn góður í hliðarhalla en gat ekki prófað nógu vel hvernig er að skáskera brekkur á þessu breiðara belti, hvort það er hugsanlega erfiðara. Það var fyrst og fremst eitt atriði sem olli nokkrum vonbrigðum en það eru bremsueiginleikar niður brattar brekkur. Auðvelt er að láta sleðann halda vel á móti á meðan brattinn er hæfilegur en í bröttustu brekkunum var hraðinn á niðurleiðinni áberandi meiri en á samanburðarsleðunum, RMK á 144 tommu belti og Mountaincat á 151 tommu belti. Þetta kann að stafa af því að þyngdarpunkturinn sé framar á REV-sleðunum og þ.a.l. hvíli tiltölulega lítil þyngd á beltinu þegar ekið er niður mikinn bratta.
Fyrir hverja?
Ljóst er að Ski-doo ætlar Renegade sleðunum, og ekki síst þessum nýja 600 SDI, stórt og mikilvægt hlutverk. Vélin á að sameina kosti fjór- og tvígengisvéla, þ.e. vera létt og öflug en eyða og menga lítið. Sleðanum er ætlað að sameina kosti fjallasleða og “trail”-sleða án þess að um neina málamiðlun sé að ræða, “no-compromise sled” eins og þeir Ski-doo menn segja. Þessi tveggja daga kynni af sleðanum benda til að sú kunni einmitt að vera raunin, að tekist hafi að sameina í einum sleða marga eftirsóknarverða eiginleika. Þótt ekki hafi reynt á akstur í púðri benti frammistaðan í brekkunum til þess að 800 og 900 fjallasleðarnir megi heldur betur vara sig. Um aksturseiginleikana verður ekki deilt. Þeir eru frábærir. Sleðinn er eyðslugrannur og þannig útbúinn að hann hentar vel til lengri hálendisferða. Ég hef gripið í talsvert marga sleða um ævina og Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI HO er einn af þeim eftirtektarverðustu. Þetta er sleði með skemmtilegan “karakter” og það voru sannarlega þung spor að skila honum aftur.
Plúsar:
Þróuð og aflmikil vél
Fjöðrun
Stýring
Mínusar:
Bremsueiginleikar niður brattar brekkur
Að þurfa að skila sleðanum aftur
-
-
Flottur!
-
-
Beltið er 16 tommu breitt og gefur sama flot og 144 tommu lagt belti í hefðbundinni 15 tommu breidd.
-
-
Frábær framfjöðrun.
-
-
Hér sjást einnig vel förin eftir tvöföldu meiðana.
-
-
REV-byggingarlagið markaði tímamót í smíði vélsleða.
-
-
Valgeir Hugi 7 ára var aðstoðar-prufuökumaður annan daginn.
-
-
Sleðinn kemur standard með ágætri grind.
-
-
Sleðinn vakti verðskuldaða athygli á snocrossmótini í Ólafsfirði.
-
-
Sleðinn stýrir frábærlega. Takið eftir förununum eftir skíðið sem er með tveimur meiðum.
-
-
Síðuhöfundur alsæll.
-
-
Segir allt sem segja þarf.