Einstakur nóvemberdagur á hálendinu

Í gær var farin ferð inn á hálendið í þeim tilgangi að taka handriðin af brúnni yfir Skjálfandafljót á Gæsavatnaleið en þetta er verkefni sem Gæsavatnafélagið hefur tekið að sér og annast á hverju hausti. Í leiðinni gafst kjörið tækifæri á að líta eftir snjóalögum.

Veðrið í gær var með því besta sem gerist á fjöllum. Birtan á þessumn árstíma er einnig ævintýri líkust og sannarlega ekki leiðinlegt að vera til á svona dögum. Farið var á 5 jeppum úr Eyjafirði árla morguns og sem leið liggur upp á Sprengisand um Bárðardal. Eftir að farið var frá Mýri var fremur snjólétt fyrst í stað en jókst eftir því sem ofar dró. Ekið var í Sandbúðir því sem næst eftir veginum og þaðan austur á bóginn fyrir norðan Fjórðungsvatnið. Krækt var suður fyrir hraunið og síðan beint á brúna yfir Skjálfandafljót. Á þessari leið eru snjóalög mjög efnileg, jafnfallinn snjór yfir öll sem myndi verða góður grunnur með hæfilegri hláku, bæði fyrir jeppa og sleða. Vel gekk að taka handriðin af brúnni og að því loknu var brennt í Gæsavötn. Þar var allt í góðu standi að því undanskildu að ekki hafði verið settur nægur frostlögur í klósettið sem skapaði viss vandamál þegar menn ætluðu að nýta sé þægindin. Eftir ýmsar útréttingar var ekið af stað heim á leið með viðkomu á Fjórðungsöldu. Gekk það fljótt og vel enda vanir menn á ferð.

Þá má þess geta að Jón Björns og Hreiðar í Vín brugðu sér inn á hálendið á sleða í gær. Fóru þeir upp Kerhólsöxl og brenndu inn í Landakot. Létu þeir vel af ferðinni og sögðu færið með því besta sem gerist. Heyrst hefur af fleiri Eyfirðingum sem stefna á ferðir og því virðist sem vertíðin sé sem óðum að komast í gang.

Heyrst hefur eftir ferðina…
…að það sé alltaf sól í Gæsavatnahreppi
…að Gæsavatnahreppur geti náð yfir svo stóran hluta af hálendinu sem hentar (Smára) hverju sinni
…að keppst verði um hver fær að sitja á víðförlasta stól á Íslandi sem nú er (loksins) í Gæsavtanaskála
…að framvegis muni menn athuga vel klósettið í Gæsavötnum áður en gert er stórt
…að ákveðinn blettur á lóð Gæsavatnaskála verði sérlega grænn næsta sumar
…að prufuökumaður Sleðasíðunnar sé farinn að leita fyrir sér hjá jeppaumboðunum

Meðfylgjandi myndir tóku Halldór Jónsson og Halldór Arinbjarnarson í ferðinni inn í Gæsavötn.

Samið um afnot sleða- og jeppamanna af endurvarpakerfi björgunarsveitanna í Eyjafirði

Á myndinni handsala þeir samninginn Grétar G. Ingvarsson formaður Eyjafjarðardeildar 4x4; Smári Sigurðsson frá svæðisstjórn björgunarsveita og Björn V. Magnússon, formaður EY-LÍV.

Á myndinni handsala þeir samninginn Grétar G. Ingvarsson formaður Eyjafjarðardeildar 4×4; Smári Sigurðsson frá svæðisstjórn björgunarsveita og Björn V. Magnússon, formaður EY-LÍV.

Á Vetrarsportsýningunni sl. laugardag var gengið frá samkomulagi á milli svæðisstjórnar björgunarsveita á Eyjafjarðarsvæðinu, EY-LÍV og Eyjafjarðardeildar 4×4 um að tvö síðarnefndu félögin fái aðgang að VHF endurvörpum björgunarsveitanna á svæðinu.

Smári Sigurðsson hjá svæðisstjórn björgunarsveita segir samkomulagið opna mjög allar boðleiðir fyrir vélsleða- og jeppamenn þar sem fjarskipta kerfi björgunarsveitanna er mjög öflugt. “Einnig er þetta til hagsbóta fyrir björgunarsveitir, getur hugsanlega sparað þeim sporin eða boð komast til þeirra fyrr en ella. Svo ekki sé minnst á að hægt er að ná sambandi við ferðamenn sem eru vítt og breitt ef þeir eru í nálægð við slysavettvang,” segir Smári.

Í samkomulæginu felast að fylgja þarf ákveðnum reglum, eins og að umræddar rásir eru ekki ætlaðar sem almennar spjallrásir heldur til að flytja skilaboð um vá eða hættu, breytta ferðaáætlun eða upplýsingaöflun vegna ferðalaga osfrv. Þá skal skv. Samkomulaginu unnið að því koma upp neyðartalstöðvum í skálum á svæðinu og síðast en ekki síst er kveðið á um að félögin að fræði félaga sína um fjarskipti, um góða umgengi í orði og verki og um þau réttindi og þær skyldur sem á mönnum hvílir.

Samkomulagið tekur sem fyrr segir til Eyjafjarðarsvæðisins en Smári segist allt eins reikna með að það verði víðtækara þegar fram í sækir. “Ef tilraunin gengur vel hér þá fylgja væntanlega fleiri í kjölfarið,” segir Smári.

Vel heppnuð Vetrarsport-helgi

Fjölmenni var samkvæmt venju á Vetrarsport hátíðinni á Akureyri um helgina. Árshátíðin klikkaði ekki heldur frekar en vanalega og heppnaðist helgin því frábærlega í alla staði.

Viðurkenningar

Sú hefð hefur skapast að veita viðurkenningar fyrir fallega sleða og bása og var ekki brugðið út af því nú. Fallegasti ferðasleðinn var valinn Yamaha RS Venture, sem nú kemur með nýju 3ja strokka fjórgengisvélinni. Verklegasti sleði sýningarinnar var valinn hinn nýi Polaris RMK 900 á 166 tommu belti og viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás fékk Siggi Bald í Motul.

Fullt af nýjum sleðum

Flest umboðin lögðu mikið í sýninguna og eiga heiður skilinn. Voru dæmi um að menn væru að taka sleða með flugi til að ná þeim í tæka tíð. Hjá Arctic Cat vakti nýi M7 sleðinn skiljanlega mesta athygli og margir sem erfitt með að slíta sig frá honum. Hjá Yamaha var nýja RS-línan í aðalhlutverki, Ventue ferðasleðinn í tveimur útfærslum og einnig Rage á 136 tommu belti. Í Polaris-básnum biðu menn spenntir eftir að skoða bæði 900 Fusion og 900 RMK, báðir sérlega glæsilegir sleðar. Þá var keppnisgræjan hans Gumma Galfýrs mætt á svæðið og vakti óskipta athygli. Hjá Ski-doo var m.a. hægt að skoða hinn hrikalega nýja Summit með 1000 cc SDI vél og 16×162” tommu belti. Væntanlega fátt sem stoppar hann. Einnig var úrval MXZ og MXZ Renagade sleða, ásamt einum GSX ferðasleða.

Margt að sjá

Sýnendur voru talsvert fleiri en í fyrra og mikið líf í gangi. Haftæknibásinn fær alltaf mikla umferð og svo var einnig nú. Þórður í sjóbúðinni var með mikið úrval af vörum og gaman að hafa skotvopnadeildina með. Motulbásinn var veglegur að vanda og Ice-hobby var með gríðarlegt úrval af fjarstýrðu dóti og sýndi m.a. flug á fjarstýrðri þyrlu-inni í Höllinni! Halli í Kliptrom sá til þess að jeppadeildin fékk eitthvað fyrir sinn snúð og þannig má áfram telja. Óhætt er þó að segja að Shell hafi slegið einna mest í gegn að þessu sinni með kynningu á nýju bensínkari. Karið er í raun um 430 lítra lokaður eldsneytisgeymir og kemur útbúið með dælu sem síðan er hægt að tengja rafgeymi sleðans eða jeppans þegar dæla þarf á fjöllum. Það er ekki stærra eða þyngra en svo að það kemst auðveldlega inn í jeppakerru og margir í ferðageiranum renndu hýru auga til þessa búnaðar. Kjörið er fyrir 3-4 að taka sig saman um kaup á svona kari.

Vel lukkuð árshátíð

Árshátíðin var fjölmenn og mikið stuð á mannskapnum. Óskar Pétursson stórtenór stýrði samkomunni og sá til þess að engum leiddist. Af föstum atriðum sem allir bíða eftir er sleðaannáll G. Hjálmarssonar og fengu þar ýmsir nettar pillur samkvæmt venju og höfðu gaman af.

Stjórn og sýningarnefnd EY-LÍV er með ýmsar hugmyndir í gangi um hvernig þróa má sýninguna áfram og því er ljóst að framtíð þessarar síungu sýningar er björt.

Hvað á að kaupa?

Sleðafólk er þessa dagana á fullu að spá í hvaða sleða á að kaupa fyrir veturinn. Nú styttist líka óðum í stórsýninguna Vetrarsport 2005 á Akureyri og því er ekki úr vegi að líta aðeins á sleðaframboðið, bera saman verð og spá í bestu kaupin.

Hafa ber í huga…

Hér á eftir er rennt yfir það helsta sem er í boði frá sleðaumboðunum að þessu sinni. Strax ber að taka fram að ekki er um hávísindalegan samanburð að ræða heldur er þetta meira til gamans gert. Þá er verður að hafa í huga að þegar verið er að bera saman verð á milli tegunda er nauðsynlegt að bera einnig saman þann staðalbúnað sem fylgir, t.d. hvort rafstart og bakkgír fylgi, hvernig demparar, hvaða grófleiki af belti o.s.frv. Þá nota umboðsaðilar ýmist tommur eða metrakerfið sem mælieiningar á beltum. Hér er öllu breytt í tommur til að auðvelda samanburð en í einhverjum tilfellum getur verið um smávægilegar skekkjur að ræða. Þá geta verð hafa breyst frá því að þessir verðlistar voru birtir.

Stuttir sportsleðar – 700-1.000 cc

Stuttir kraftmiklir sleðar eru skemmtileg leiktæki og henta einnig vel í styttri ferðir. Þeir eiga sér því alltaf stóran hóp aðdáenda. Hér eru líka nýir og spennandi sleðar í boði. Fyrstan skal telja Mach Z frá Ski-doo sem kemur nú með 1.000 cc SDI vél. Ég viðurkenni fúslega að vera veikur fyrir stórum mótorum og set ekki fyrir mig þótt einhver kíló bætist við. En uppgefin þyngd á þessum sleða er þó ekki nema 236 kg. sem hlýtur að teljast vel ásættanlegt fyrir 165 hestafla tæki. Verðið er 1.448.000 kr. Nýi 900 Fusion sleðinn frá Polaris er einnig að mestu óskrifað blað enn sem komið er þar sem hann er glænýr. Hann er á fínu verði miðað við keppinautana, eða 1.249.000 kr. Enn einn nýliðinn er Lynx R-evo Rave 800 á 1.370.000 kr. sem einnig er spennandi kostur. R-evo er ekki kópía af REV-boddíinu frá Ski-doo, eins og sumir virðast halda, heldur sleði sem Lynx byggir á eigin forsendum þar sem hin rómaða fjöðrun fær að njóta sín.

Þekktari kandidatar í þessum flokki eru MXZ X frá Ski-doo (1.387 þús), F7 Sno Pro 700 frá Arctic Cat (1.299 þúsund) og RX-1 frá Yamaha. F7 er með minnstu vélina mælt í rúmsentimetrum en skilar ótrúlegu afli og hefur EFI framyfir alla hina. Einnig skartar hann nú ýmsum nýjungum í búnaði. RX-1 kemur verulega breyttur, m.a. með nýja afturfjöðrun sem nefnd hefur verið “besta afturfjöðrunin síðan M-10 búkkinn koma fram á sjónarsviðið” og sleðinn er einnig verulega léttari en í fyrra, eða 254 kg. Verðið er 1.437 þúsund fyrir sleða með rafstarti og bakkgír. Hafa ber í huga að RX-1 er í raun í sér klassa með fjórgengisvélinni.

Hvern þessara sleða myndi ég kaupa? Ég gæti sannarlega hugsað mér að eiga þá alla, enda blessunarlega laus við að trúa á eina tegund umfram aðra. Ok-margir vita að ég hef lengst af ekið á Polaris en ég er á engan hátt fastur við þá. Eftir reynsluakstur á RX-1 í fyrravetur hef ég verið mjög veikur fyrir honum, ég tala nú ekki um eftir nýjustu endurbætur. Nýi Lynxinn lítur sannarlega vel út en valið hjá mér stæði þó líkalega á milli Fusion eða Mach Z, þótt hvorugan hafi ég prófað. Fusion er á áberandi besta verðinu en Mach Z með stærstu vélina. En hér gildir eins og jafnan áður að sá á kvölina sem á völina (og þarf að borga brúsann). Enn á ný skal áréttað að hver og einn beri saman verð og staðalbúnað.

 

Sleði

Vél

Verð

Ski-doo Mach Z Adrenaline

1000 cc SDI

1.448.000

Yamaha RX-1 ER

1000 cc Fjórgengis

1.437.000

Ski-doo MXZ X

800 cc HO

1.387.000

Lynx R-evo

800 cc HO

1.370.000

Arctic Cat F7 Sno Pro

700 cc EFI

1.299.000

Polaris Fusion 50th

900 cc Clean Fire

1.268.000

Polaris Fusion F/O

900 cc  Clean Fire

1.249.000

**Athugið að bera saman verð og staðalbúnað.

Stuttir sportsleðar – 600 cc og minni

Sleðar í þessum flokki hafa e.t.v. ekki selst sérlega vel á Íslandi en hafa ýmsa kosti umfram sleða með stærri vélar. Þeir eru yfirleitt léttari og eyðslugrennri en skila engu að síður fullnægjandi afli fyrir flestar aðstæður. Hér ber þrjá sleða hæst, R-evo 600 SDI frá Lynx, GSX 600 frá Ski-doo og RS Vector ER frá Yamaha. Það er reyndar alltaf spurning hvernig á að flokka sleða og GSX er t.d. skilgreindur sem ferðasleði hjá umboðinu þótt á stuttu belti sé.

Á 1.290 þúsund er nýi Lynxinn sannarlega spennandi kostur og 600 SDI vélin hefur þegar sannað ágæti sitt. Frábær vél þar á ferðinni. Sama vél er í GSX frá Ski-doo og sá sleði kostar heldur minna, eða 1.233 þúsund. RS Vector kemur með nýrri þriggja strokka fjórgengisvél. Hann kostar 1.297 þúsund krónur og hefur lækkað um rúm 100 þúsund frá fyrsta verðlista sem gefinn var út.

En hvaða sleða myndi ég kaupa? Nú er úr vöndu að ráða enda væntanlega nokkuð ólíkir sleðar. Aflið er svipað, u.þ.b. 120 hestöfl, en R-evo og GXS eru um og 20 kg léttari en Vector og því líklega skemmtilegri leiktæki. Á móti kemur að ég er mjög spenntur að sjá hvernig nýja 120 hestafla fjórgengisvélin virkar. Lynxinn yrði samt fyrir valinu hjá mér sem stuttur sportsleði eins og ég hugsa þá skilgreiningu. Væri ég að hugsa um lengri ferðalög kæmu hinir tveir til greina en þá myndi ég hins vegar frekar velja mér sleða á lengra belti.

Sleði

Vél

Verð

Yamha RS Vector ER

973 cc fjórgengis

1.290.000

Lynx R-evo

600 cc HO SDI

1.290.000

Ski-doo GSX Limited

600 cc HO SDI

1.233.000

 

Millilangir (136-144 tommu belti)

Hér erum við komin í uppáhaldsflokkinn minn og nú er sannarlega úr nógu að velja. Byrjum á Ski-doo. Hér er val um Renagade-sleðana með 800 eða 600 vélar í nokkrum útfærslum. Eftir prófun á 600 SDI í fyrravetur get ég sannarlega mælt með þeim sleða. Frábær alhliða sleði með fínt afl. Hann kostar innan við 1.200 þúsund og einn af þeim sleðum sem ég væri spenntastur fyrir í dag. Sérstaða Renagade-línunnar flest í 16 tommu breiðu beltinu, þ.e. tommu breiðara en algengast er. Verðið er á bilinu 1.387-1.123 þúsund en fyrirfram myndi ég telja bestu kaupin í 600 HO SDI á 1.197 þúsund. Hann er 120 hestöfl og vissulega bætast 20 hestöfl við fari menn í 800 sleða. Velji menn 600 sleða munu þeir því án efa lenda í því að félaginn á 800 sleðanum fari brekkur sem þeir hafa ekki en þær verða samt ekki margar.

Á meðan Ski-doo veðjar á breiðara og styttra belti (16×136 tommur) fer Arctic Cat hina leiðina og býður mjórra belti en algengast er, þ.e. 13,5 tommu breidd. Millilanga deildin hjá þeim síðarnefndu kemur á 144 tommu löngu belti, bæði í F7 EXT (1.299 þúsund) og Sabercat 700 EXT (1.339 þúsund) útfærslu. Þetta eru spennandi sleðar enda ótrúlega spræk vél eins og fyrr er sagt. Um Sabercat og fleiri sleða í þessum flokki má segja að þá mætti einnig flokka sem ferðasleða.

Yamaha kemur sterkt inn í þennan flokk með nýju 3ja strokka fjórgengisvélina í sleða sem nefnist RS Rage. Verðið er 1.347 þúsund. Þá býðst RX-1 Warrior árg. 2004 á 1.273 þúsund. Frá Polaris er 800 og 600 Switchback í boði, auk 600 RMK. Þessir sleðar koma á 144 tommu belti og Switchback 800 kostar 1.209 þúsund, sem er mjög gott verð miðað við vélarstærð. Frá Lynx er einnig spennandi kostur í boði, 800 Adventure á 144” tommu belti og kostar 1.290 þúsund. Þetta er afar álitlegur sleði sem ég væri til í að skoða nánar.

Hvern myndi ég kaupa? Polaris Switchback er á einna besta verðinu miðað við vélarstærð, byggir á þrautreyndri hönnun og svínvirkar. Valið hjá mér myndi þó væntanlega standa á milli Ski-doo, Arctic Cat og Lynx þessum flokki. Lynx Adventure er með “hefðbundið” byggingarlag á meðan Renagade frá Ski-doo og Sabercat/F7 frá Arctic Cat koma með “nýja laginu” þar sem vélin er komin neðar og ásetan framar. Væntanlega myndi ég enda á 800 eða 600 Renegade, enda sá síðarnefndi í miklu áliti hjá mér eftir reynsluakstur sl. vetur, eins og fyrr er sagt. Úff, þetta er erfitt!

Sleði

Vél

Belti

Verð

Ski-doo MXZ Renegade X

800 ccHO RAVE

16″X136″x1,75″

1.387.000 kr.

Yamaha RS Rage

973 cc fjórgengis

15″x3465x1,25″ (32 mm)**

1.347.000 kr.

Arctic Cat Sabercat 700 EXT EFI

700 cc EFI

13,5″x144″x1″

1.339.000 kr.

Ski-doo MXZ Renegade X

600 ccHO SDI

16″x136″x1,75″

1.300.000 kr.

Arctic Cat F7 EXT EFI

700 cc EFI

13,5″x144″x1,25″

1.299.000 kr.

Lynx Adventure 800

800 cc HO

15″ x 144″x1,25″ (32mm)

1.290.000 kr.

Ski-doo MXZ Renegade

800ccHO RAVE

16″X136″x1,25″

1.282.000kr.

Polaris SWITCHBACK

800 Liberty

15″x144″x1,25″ (32 mm)

1.209.000 kr.

Ski-doo MXZ Renegade

600 ccHO SDI

16″x136″x1,25″

1.197.000 kr.

Ski-doo MXZ  Renegade

600 ccHO RAVE

16″x136″x1,25″

1.123.000 kr.

Polaris SWITCHBACK

600 cc Liberty

15″x144″x1,25″ (32 mm)

1.069.000 kr.

Polaris RMK 144

600 cc Liberty

15″x144″x1,25″ (32 mm)

1.049.000 kr.

 

Brekkubanar

Á toppnum í þessum flokki er hinn nýi Summit HM X. Hann er með stærstu vélina (1.000 cc), stærsta beltið (16×162 tommur) og hæsta verðmiðann (1.570 þúsund). Hann er því dýrasti sleðinn sem Íslendingum býðst að kaupa í vetur. Ekki síður spennandi eru nýju RMK 900 sleðarnir frá Polaris. Dýrasti sleðinn er á 166 tommu belti (1.498 þúsund) en sætti menn sig við “aðeins” 151 tommu er verðið komið ofan í 1.379 þúsund. Gaman verður að sjá nýju Polarislínuna í “action” og bíða margir spenntir. Verðið er líka hagstætt miðað við keppinautana, eins og reyndar á Polarislínunni í heild. King Cat 900 frá Arctic Cat hefur þegar sannað sig í þessum flokki og þar fá menn EFI í kaupbæti.

Nokkuð úrval er af sleðum í þessum flokki með 800 mótor og minni. Summit frá Ski-doo er á 144×16 tommu belti og kostar frá 1.233 þúsund og rúm 1.100 þúsund með 600 vél.. Þegar hefur verið sagt frá Polaris RMK/Switcback sem raunar mætti eins flokka hér og sama er með Adventure frá Lynx.. Yamaha býður fram RS Vector MM á 151 tommu belti með nýju 3ja strokka fjórgengisvélinni. Hann ætti að skila sér svipað og 600 sleðar keppinautanna og kostar 1.297 þúsund.

Ein stærstu tíðindin í þessum flokki er síðan nýja M-línan frá Arctic Cat. Þar er ekki boðin stærri vél en 700, sem sumir kunna að setja fyrir sig, en hún ætti nú að duga í flestum tilvikum og vel það. Þetta eru spennandi sleðar, sérlega léttbyggðir og sprækir með EFI. Nýja línan hefur fengið mjög góða dóma og M7 var kjörinn sleði ársins 2005 af Snow Goer tímaritinu. Val er um þrjár beltislengdir: 141 tomma á 1.279 þúsund, 153 tommur á á 1.309 þúsund og 162 tommur á 1.459 þúsund.

Hvern myndi ég kaupa? Ég get sagt ykkur að nú vandast valið fyrir alvöru. Ætti ég nóga peninga færi ég væntanlega í 1.000 Summit, 900 RMK á 166 tommu belti eða M7 á 162”. Einna spenntastur væri ég satt best að segja fyrir að prófa M7.

 

Sleði

Vél

Belti

Verð

Ski-doo Summit HM X

1000 cc SDI

16″X162″X2.25″

1.570.000 kr.

Polaris 900 RMK 166 F/O

900 cc Clean Fire

15″x166″x2,4″

1.498.000 kr.

Arctic Cat M7 162″

700 cc EFI

15″x162″2,25″

1.459.000 kr.

Polaris 900 RMK 159 F/O

900 cc Clean Fire

15″x404x2,4″

1.419.000 kr.

Polaris 900 RMK 151 50th

900 cc Clean Fire

15″x384x2,4″

1.399.000 kr.

Polaris 900 RMK 151 F/O

900 cc Clean Fire

15″x384x2,4″

1.379.000 kr.

Ski-doo Summit X

800 cc HO RAVE

16″x144″x2″

1.313.000 kr.

Arctic Cat M7 153″

700 cc EFI

15″x153″2,25″

1.309.000 kr.

Yamaha RS Vector MM

973 cc fjórgengis

15″x151″x2″

1.297.000 kr.

Arctic Cat M7 141″

700 cc EFI

15″x141″2,25″

1.279.000 kr.

Ski-doo Summit Adrenaline

800 cc HO RAVE

16″x144″x2″

1.233.000 kr.

Ski-doo Summit Adrenaline

600 cc HO RAVE

16″x144″x2″

1.104.000 kr.

 

Lúxus ferðasleðar

Ég þyrfti ekki að hugsa mig lengi um ef ég ætlaði að kaupa sleða í þessum flokki. Ég myndi smella mér á fjórgengissleða. Álitlegastur að mínu mati er hinn nýi Yamaha Venture á 144 eða 151 tommu belti og 3ja strokka, 120 hestafla fjórgengisvél. Ekki spurning. Verðið er reyndar 1.397 þúsund. Nýi Ski-doo GTX 800 er á svipuðu verði og með öflugri vél en tvígengis.

Annar álitlegur í fjórgengisflokknum er T660 Turbo Touring frá Arctic Cat (110 hestöfl). Aðrir sleðar í ferðageiranum höfða síður til mín, fínir sleðar að vísu og sumir kunnuglegir frá fyrri árum.

 

Sleði

Vél

Belti

Verð

Lynx Sport Touring V-1000

1000cc 4-gengis

15″x144″x1,25″

1.490.000 kr.

Yamaha RS Venture TF

973 cc fjórgengis

15″x151″x1,25″

1.397.000 kr.

Ski-doo GTX Limited

800 cc HO RAVE

15″x136″x0,9″

1.392.000 kr.

Yamaha RS Venture

973 cc fjórgengis

15″x144″x1,25″

1.379.000 kr.

Arctic Cat Sabercat 700 EXT EFI

700 cc EFI

13,5″x144″x1″

1.339.000 kr.

Ski-doo GTX Limited

600 cc HO SDI

15″x136″x0,9″

1.306.000 kr.

Polaris 800 EDGE TOURING

800 cc Liberty

15″x136″x1″

1.299.000 kr.

Lynx Sport Touring 600

600 cc HO SDI

15″x144″x1,25″

1.290.000 kr.

Ski-doo Legend GTSport V-2

1000 cc 4-gengis

15″x136″x0,9″

1.239.000 kr.

Ski-doo GTX Sport

600 ccHO SDI

15″x136″x0,9″

1.196.000 kr.

Polaris 600 EDGE TOURING

800 cc Liberty

15″x136″x1″

1.078.000 kr.

 

Að lokum

Hér hafa alls ekki verið nefndir allir sleðar sem boðnir eru á íslenska markaðinum, hvað þá allir sem framleiðendurnir bjóða. Hjá Lynx er t.d. hægt að fá áhugaverða sleða í minni kantinum og einnig sannkallaða vinnuþjarka. Sama er hjá öðrum umboðum. Eina ráðið er að sökkva sér ofan í bæklinga og verðlista og skoða síðan hvað er til í veskinu. Benda má á að Evró, og Gísli Jónsson hf. eru með ágætis upplýsingar á heimasíðum sínum. Látum þetta duga í bili.

Varla hægt að mæla með sleðafærinu

Síðastliðinn miðvikudag renndu þeir Hreiðar í Vín, Sigurgeir Steindórs., Eiríkur Jóns. og Smári Sig. á sleðum inn í Laugafell. Farið var á bílum fram Eyjafjarðardal og tekið af fram undir Brúsahvammi. Ferðin gekk vandræðalaust en ekki sögðust þeir félagar geta mælt með sleðafærinu. Reyndar ráða þeir mönnum frekar frá því að fara þessa leið fyrr en meiri snjór er kominn. Veðrið á miðvikudaginn var eins og það gerist best og tók Sigurgeir meðfylgjandi myndir í ferðinni.

Vortúr um Vatnajökul 2004

Hópur sleðajaxla úr Eyjafirði og Austurlandi fór magnaða vorferð á Vatnajökul dagana 20.-23. maí sl. Að norðan komu auk síðuhöfundar þeir Smári Sig., Hreiðar í Vín og Sigurgeir Steindórs en að Austfirðingar voru þeir Björn Sveinsson og Ásbjörn Helgi Árnason.

Sleðavertíðinni er ekki lokið

Er sumarið komið? Allavega er sleðavertíðinni ekki lokið því í gær, sunnudag, fóru Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs í fínan skreppitúr um Hlíðarfjall og inn á Nýjabæjarfjall.

Þar var færið hreint magnað, nýr snjór yfir öllu og rennislétt. Reyndar var allstaðar nýsnævi í 1000 metra hæð. Aðal markmiðið var þó að skreppa á Vaskárjökul og kanna snjóalög eftir veturinn. Á Vaskárjökli hafa menn verið að safna saman braki úr breskri flugvél sem þar fórst á stríðsárunum. Búið er að safna töluverðu magni og koma í net sem væntanlega verður tekið niður með þyrlu í sumar. Það eru félagar í Súlum björgunarsveit sem hafa verið að vinna í þessu verkefni undan farin ár en það var sem kunnugt er Hörður Geirsson sem fann þessa vél eftir að hafa leitað hennar í áratug eða svo.

Heyrst hefur í sleðaumræðunni að:
Því lengri því betri……….

Samanburður á umsögnum prufuökumanna

Nýr í flotann

Nýr í flotann

Stærsti vélsleðavefmiðilinn í Bandaríkjunum, maximumsled.com, var að birta niðurstöður úr reynsluakstri á Ski-doo MX Z Renegade 600 HO SDI árg. 2005. Líkt og dyggum lesendum Sleðasíðunnar ætti að vera fullkunnugt um, þá er meira en mánuður liðinn frá því að Sleðasíðan tók þennan sama sleða í reynsluakstur og birti niðurstöðurnar. Má því segja að við höfum náð að skjóta stóra bróður í Bandaríkjunum ref fyrir rass og íslenskir lesendur fengu fyrstir allra að fræðast um þennan áhugaverða sleða.(Já, það er allt í lagi að monta sig smá annað slagið.)

Ritstuldur í gangi?

En áhugavert er einnig að bera saman umsagnir sérfræðinga maximumsled.com og hins skelegga prufuökumanns Sleðasíðunnar. Læðist jafnvel að manni sá grunur að hinir bandarísku starfsbræður hafi lært sitthvað af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þegar ritsmíðar eru annars vegar.

Við skulum nú til gamans bera saman hvað menn höfðu að segja og munið að umsögn Sleðasíðunnar birtist rúmum mánuði á undan umsögn maximumsled.com.

Vélin

Sleðinn stýrir frábærlega. Takið eftir förununum eftir skíðið sem er með tveimur meiðum.

Sleðinn stýrir frábærlega. Takið eftir förununum eftir skíðið sem er með tveimur meiðum.

Sleðasíðan:
“Hvað skal segja um 600 SDI vélina? Ég var búinn að lesa að hún væri öflugasta 600 vélin á markaðinum – en hugsaði nú samt – þetta er nú bara 600. Eftir fyrsta hringinn var fyrsta hugsunin hins vegar þessi: “Þeir hljóta að hafa misst í hann 800 vél í misgripum.” Þvílík vél! Hún svarar um leið og er komið við gjöfina og sleðinn hreinlega stekkur af stað.”

Maximumsled.com:
“Á meðan við höfðum sleðann til reynsluaksturs urðum við ítrekað að fara og gá á miðann á húddinu því við hefðum getað svarið að þar undir væri eitthvað stærra en 600. Þú átt ekki í neinum erfiðleikum með að skella þessar græju í 100 mílurnar þar sem aðstæðurnar bjóða upp á hraðakstur.”

Sleðasíðan:
“Með aflinu er þó ekki nema hálf sagan sögð og varla það. Það á eftir að skrifa um sparneytnina og tæknina. Með SDI innsprautuninni var Ski-doo að koma fram með öfluga tvígengisvél sem mætti auknum kröfum um eyðslu og mengun en án þess að henni fylgdi sú auka þyngd sem er í fjórgengisvélum……Þessi 600 vél er tæknilega þróaðasta vélin frá Bombardier og þegar umtöluð fyrir litla eyðslu, bæði á bensíni og olíu.”

Maximumsled.com:
“Þessi tæknilega þróaða Rotax 2-TEC 600 SDI vél er smíðuð með það í huga að sparneytni og mengun sé sambærileg við margar fjórgengisvélar en án þess að bæta við þeirri þyngd sem þeim fylgir. Hönnun þessarar vélar er ekkert annað en hrein snilld.”

Aksturseiginleikar

REV-byggingarlagið markaði tímamót í smíði vélsleða.

REV-byggingarlagið markaði tímamót í smíði vélsleða.

Sleðasíðan:
“Ég hafði aldrei keyrt REV-sleða þegar ég settist upp á þennan og eitt af því sem mér hafði verið tjáð var að menn þyrftu nánast að læra að aka vélsleða upp á nýtt. REV-hegðaði sér svo ólíkt öðrum sleðum. Ég komst fljótlega að því að þetta á ekki við rök að styðjast. Vissulega eru hreyfingarnar aðrar en ég hef vanist en mér fannst ég orðin ágætlega hagvanur eftir tiltölulega stutta stund. Hluti af því er að aksturseiginleikarnir eru einfaldlega það góðir að þér fer strax að líka vel við sleðann. Við skulum byrja á framendanum. A-arma fjöðrunin að framan er 9,5 tommur. Hún skilar hlutverki sínu með sóma og dugar að benda á úrslit úr snjókrosskeppnum því til sönnunar. Sleðinn stýrir frábærlega og kemur þar væntanlega bæði til byggingarlag hans og skíðin, sem mér líkaði mjög vel við. Hvort skíði er með tveimur samsíða meiðum og þau svínvirka. Lykilatriði er einnig lögunin á skíðinu sjálfu, þ.e. svæðinu á milli meiðanna…..Bæði að aftan og framan er sleðinn með hina háþróuðu tvívirku HPG gasdempara.”

Maximumsled.com:
“Aksturseiginleikar og meðhöndlun Renegade 600 skipa þessum sleða í flokk með bestu aksturssleðum sem smíðaðir hafa verið. Það er aðdáunarvert hvernig samspil R.A.S. framfjöðrunarinnar og SC-3 afturfjöðrunarinnar, ásamt HPG dempurum allan hringinn, nær að slétta út allar ójöfnur á akstri og í beygjum er því líkast sem sleðinn renni á járnbrautarteinum. Jafnvægið og þyngdardreifingin er með slíkum hætti að á krókóttum leiðum skilurðu aðra sleða með hefðbundnara byggingalag eftir í snjódrífunni. Við þessar aðstæður er Renegade sannarlega fyrsti kosturinn hjá mér.”

Fjölhæfni

Sleðinn kemur standard með ágætri grind.

Sleðinn kemur standard með ágætri grind.

Sleðasíðan:
“Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Gallinn við slíkar málamiðlanir getur verið sá að þá standi menn upp með sleða sem stendur sig ekki vel á neinu sviði. Hins vegar hafa svona “blendingssleðar”, sem gjarnan er einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina, notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri. Hinn nýi MX Z Renegade er skýrt dæmi um svona sleða. Forsvarsmenn Ski-doo fullyrða að hér sé engin málamiðlun á ferðinni en hvað sem því líður er a.m.k. ljóst er að með smíði hans hefur verið stigið skrefi lengra í að búa til þennan alhliða sleða sem svo marga dreymir um. Í þessu skrefi felst m.a. að breikka beltið um eina tommu, úr 15 tommum í 16. Þannig er hægt að hafa það styttra en á “hefðbundnum” fjallasleðum, ná samt sama gripfleti og floti en með sleða sem er liprari í snúningum og þægilegri í akstri. Þannig er gripflötur Renegade 600 með 136×16 tommu belti sá sami og á 144×15 tommu beltum keppinautanna”

Maximumsled.com:
“Það er fjölhæfnin sem er sterkasta hlið þessa sleða. Hann getur tekist með sóma á við allar þær aðstæður sem þú býður honum uppá. Þar liggur helsta aðdráttarafl hans. Hann er einfaldlega einn besti alhliðasleði sem við höfum prófað….Sú staðreynd að þessi sleði var sérstaklega smíðaður til að ráða við margskonar aðstæður gerir hann einkar eftirtektarverðan og þetta eru mjög skynsamleg kaup, sama hvers konar ökumaður þú ert….Beltið sameinar flotgetu fjallasleðana og aksturseiginleika 136″ sleðana og þannig verður til seði sem er fá engan sinn líka.”

Sleðasíðan:
“Þótt ekki hafi reynt á akstur í púðri benti frammistaðan í brekkunum til þess að 800 og 900 fjallasleðarnir megi heldur betur vara sig.”

Maximumsled.com:
“Þótt Renegade sé tæknilega séð ekki fjallasleði þurfa menn ekki að hræðast að takast á við brekkurnar á honum.”

Búnaður

Flottur!

Flottur!

Sleðasíðan:
Hinn nýi Renegade er vel búinn sleði og fátt sem hægt er að sakna. Aftan við sætið er ágætt lokað geymsluhólf fyrir ýmsa smáhluti og jafnvel nesti til dagsins. Síðan kemur hann með ágætri farangursgrind sem er tilbúinn til að taka við auknum farangri. Hægt er að fá auka eldsneytisbrúsa sem ætlað er sérstakt pláss aftan við sætið og nær raunar innundir það.

Maximumsled.com:
Renegade er útbúinn með grind aftan við sætið sem gerir það að verkum að geymsluplássið er mun miera en á stuttum sleðum og einnig er rúm fyrir auka eldsneytisbrúsa. Til að auka enn á hæfnina í púðurakstri og hliðarhalla kemur sleðinn með fjalla-ól á stýrinu.

Almenn umsögn

Sleðinn vakti verðskuldaða athygli á snocrossmótini í Ólafsfirði.

Sleðinn vakti verðskuldaða athygli á snocrossmótini í Ólafsfirði.

Sleðasíðan:
“Ljóst er að Ski-doo ætlar Renegade sleðunum, og ekki síst þessum nýja 600 SDI, stórt og mikilvægt hlutverk. Vélin á að sameina kosti fjór- og tvígengisvéla, þ.e. vera létt og öflug en eyða og menga lítið. Sleðanum er ætlað að sameina kosti fjallasleða og “trail”-sleða án þess að um neina málamiðlun sé að ræða, “no-compromise sled” eins og þeir Ski-doo menn segja. Þessi tveggja daga kynni af sleðanum benda til að sú kunni einmitt að vera raunin, að tekist hafi að sameina í einum sleða marga eftirsóknarverða eiginleika.”

Maximumsled.com:
“Þegar á heildina er litið er varla hægt að finna nógu jákvæð orð til að lýsa þessum nýja sleða. Renegade hefur verið öflugur sleði en þær breytingar sem gerðar eru með 2005 árgerðinni, ásamt hinni ótúlegu 600 SDI vél, ná raunverulega að draga fram fjölhæfi og getu sleðans við hinar ýmsu ólíku aðstæður. Hann höfðar til margs konar ökumanna án þess að nokkru sé fórnað. Þegar þig vantar einn sleða sem þú getur gert allt á þá er Renegade 600 SDI hin fullkomna málamiðlun.”

Kverkfjallaferð í sumarbyrjun

Nú er tími vortúrana að renna upp og þótt snjóalög á hálendinu sé í minnsta lagi er ljóst að enn er vel hægt að fara góða túra. Þannig fór hópur Eyfirðinga fína ferð í austur í Kverkfjöll um helgina og sendi Smári Sig. eftirfarandi ferðasögu.

Svona eiga vortúrar að byrja!

Eins og vænta má var túrinn afar góður og skemmtilegur. Veðrið í upphafi ferðarinnar á föstudag var reyndar ekki neitt til að hrópa fyrir, ausandi slagveðurs rigning. En svona eiga vortúrar að byrja var sagt. Heldur stytti upp er á kvöldið leið og var komin besta blíða er innar dró. Áttu menn góða næturhvíld í Laugafelli.

Strikið tekið austur

Ræst var tímanlega á laugardag og fyllt á koppa og kyrnur. Veðrið lofaði góðu og því ekki til setunnar boðið. Strikið var tekið ausur um því nú átti að reyna við Kverkfjöll. Á Fjórðungsöldu var skimað eftir leið yfir á Tungnafellsjökul. Það reyndist auðvelt og besta leiðin var að fara upp syðsta jökulfallið.

Er komið var austur fyrir Vonarskarð þurfti að þræða töluvert. Valið var að fara upp að Bárðartindi, þræða sig þaðan yfir á Rjúpnabrekkujökul og koma niður hjá Gæsahnjúk. Auðvelt og frábært færi var að renna austur með jökli. En austan við Kistufell þurfti upp á jökul aftur. Eins og menn muna hljóp jökullinn fram fyrir nokkrum árum en hann er nú orðinn ótrúleg sléttur og fínn. Það var því leikur einn að komast austur undir Jökulsá. Þá þurfti léttar æfingar til að komast heim að skála.

Komið að heitum skála

Þegar komið var í Sigurðarskála var kveikt á eldavélinni, þ.e. stóru olíuvélinni í eldhúsinu. Það hafði verið hópur í húsinu á undan okkur sem sennilega hefur verið svona hugulsamur og hlíft okkur við að kveikja upp……….? Frábært færi og mikið nýsnævi var á leið okkar í kvöldbaðið í Hveragili. Hreint út sagt frábært að sleðast um fjöllin þar og ekki var lækurinn verri.

Vindur á jökli

Á sunnudag var loksins ræst á réttum og tíma.. Fara átti upp á jökul um Kverkina eða Löngufönn, en þar var hreint út sagt brjálað veður. Mikill vindur og skafrenningur. Því var tekin stefnan á Dyngjujökul og strikið tekið beint á Kistufell og komið niður af jöklinum vestan við Fellið. Á leið okkar þvert yfir Rjúpnabrekkujökulinn var svo sterkur vindurinn ofan “Bungunni” að erfitt var að tolla á réttum kili. Það var ekki fyrr en í Snapadal að leyfi fékkst til að borða fyrri samlokuna, enda kominn löglegur morgunkaffi tími.

Heyrst hefur:

  • Að G.Hjálmarsson hafi ekki þorað í túrinn, þrátt fyrir yfirlýsingarnar í sjónvarpinu
  • Að Sigurgeir hafi verið í minnihluta.
  • Að Smára hafi loks orðið að ósk sinni með fótaferðartíma
  • Að Bjarki þurfi að fylla vasana til að þyngja sig svo hann fjúki ekki af baki
  • Að formaðurinn hefur aldrei áður átt svona góðan sleða.
  • Að Jón vilji bæta við einum cylinder.

Myndasyrpa frá Team Spy

Jón Gunnar sendi smá myndasyrpu sem inniheldur myndir út nokkrum ferðum vetrarins hjá Team Spy genginu.

Héðinsfjörður og Hvanndalir

Finnur Steingrímsson í Ólafsfirði sendi tvær skemmtilegar myndir sem teknar voru í sleðaferð á annan dag páska, önnur í Héðinsfirði og hin ofan við Hvanndali. Mjög snjólétt orðið í Héðinsfirði og eina leiðin að nálgast neyðarskýlið er að fara yfir Loftskörð eða Rauðskörð.

fs2Fóru þeir félagar yfir Loftskörð í þetta sinn. Ekki hefur verið fært niður í Hvanndali í allan vetur þar sem hengja er á brúninni sem fara þarf yfir úr Víkurdalnum.

 

Kaldbakur og Fjörður á annan í páskum

Halldór Jónsson sendi eftirfarandi: “Sendi hér nokkrar myndir úr ágætri ferð okkar feðga (Halldór, Jón Torfi og Guðlaugur Már) auk eins félaga (Mikael) á annan í páskum á Kaldbak og út í Fjörður. Það var erfitt að komast í snjóinn en nægur snjór á svæðinu og gott færi.”

Páskaferð í Laugafell

12. apríl 2004:

Þrátt fyrir að páskaveðrið á Norðurlandi hefði vel mátt fera betra fóru menn þó talsvert á sleða, eiknum í dagsskreppur á Tröllaskaga og Fjörður/Flateyjardal. Smári Sig, Hreiðar í Vín, Jón Björns, Eiríkur Jónsson og Sigurgeir Steindórs skruppu “af skyldurækni” í páskaferð í Laugafell og gistu. Sendi Smári pistil og myndir frá ferðinni.

Það hlaut að koma að því að formaðurinn blési til brottfarar. Lét þess reyndar getið að Jón hefði ákveðið brottför. Veður á laugardag var svo sem ekkert spennandi því var beðið til myrkurs með brottför. Ögn hafði snjóað og færið bara fínt. Tilgangur ferðarinnar var eingögnu að ná inn kílómetrum á teljarann. Gist var í Laugafelli en á páskadagsmorgun var komin sunnan átt og hláka svo ekki fær nýsnævið að staldra lengi við. Rétt þótti að mynda þann fáséða atburð þennan veturinn að hópur manna var að taka bensin úr formannstanknum. Enda varð að tanka og mæla hvað hver tók.

Heyrst hefur:

  • Að einn hafi tekið aðeins meira bensín en hinir enda fyllti hann ekki alveg áður lagt var af stað.
  • Að Guðmundur Hjálmarsson fari ekkert á sleða vegna þess að nýji sleðinn er bara ekkert góður.
  • Að nestið (skyrið) hafi farið alveg í mask á leiðinni vegna þess að sleðinn er svo langur og sætið svo hart….

Á Tröllaskaga

Síðastliðinn laugardag fór Alfreð Schöith góða bunu um Skeggjabrekkudal, Héðinsfjörð, Hólsdal og Skútudal í Siglufirði. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem hann tók í ferðinni.

Reynsluakstur á MX Z Renegade 600 SDI H.O.

Eins og fram hefur komið fékk Sleðasíðan um síðustu helgi til prófunar nýjan sleða, Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI H.O. Þetta er sleði sem kynntur var í byrjun janúar sl. og telst því vera 2005 árgerð. Hér er skellt saman í einn pakka nýju belti (136×16 tommur) og hinni háþróuðu 600 SDI vél. Hver er svo útkoman? Þið getið fræðst nánar um það hér að neðan. Myndirnar tóku auk undirritaðs þeir Sigurgeir Steindórsson, Smári Sigurðsson og Sævar Sigurðsson.

Óslitin sigurganga

Þann 9. desember 2001 birtist hér á Sleðasíðunni frétt sem byrjaði á þessa leið: “Fjörið í snjókrossinu vestanhafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn.” Þótt flestir hafi eflaust á þessum tímapunkti gert sér grein fyrir að tilkoma hins nýja sleða væru mikil tíðindi, hefur líkast til fáa órað fyrir hversu hve miklar breytingar voru í raun framundan. Ski-doo var hér að hefja mikla sigurgöngu sem staðið hefur óslitið síðan. Á það bæði við um keppnisbrautina og sölu á almennum markaði, þar sem þeir tróna nú í toppsætinu sem söluhæsti framleiðandinn.

REV-byggingarlagið tekur völdin

Með þessum byltingarkennda keppnissleða var Ski-doo að leggja grunnin að sleðum sem gengið hafa undir samheitinu REV og íslenskir orðspekingar tóku snemma upp á að nefna “refinn”. Því fer þó fjarri að um einn sleða sé að ræða heldur er REV-skammstöfunin samheiti yfir þetta nýja byggingarlag sem síðan hefur verið að ná til sífellt stærri hluta af framleiðslulínu Ski-doo. Fyrstu sleðarnir fyrir almennan markað voru kynntir rúmu ári eftir að keppnissleðinn var afhjúpaður, þ.e. frá og með 2003 árgerðinni. Nú er þetta byggingarlag að kalla má allsráðandi hjá Ski-doo.

Hver var breytingin?

REV-skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið höfðu ráðandi í vélsleðum. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðann til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hafði fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sæti því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita standa ökumenn meira og minna alla keppnina og hönnun REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr 20-30 cm framar en áður tíðkaðist og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum.

Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin var færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” Ski-doo af eldri gerð. Í REV á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum. Það er heila málið. Loks tókst með REV-boddíinu að létta sleðann verulega.

Leitin að hinum fullkomna sleða

Sem fyrr segir hefur REV-byggingarlagið verið að taka yfir alla framleiðslulínu Ski-doo og í byrjun janúar sl. var fyrsti sleðinn af 2005 árgerð kynntur, MX Z Renegade með 600 SDI vél og 136×16 tommu belti. Þetta er sá sleði sem er til prófunar að þessu sinni. En eftir hverju er Ski-doo að sækjast með þessum nýja sleða? Við skulum strax átta okkur á því að vélsleði er ekki bara vélsleði heldur eru þeir jafn fjölbreyttir og útfærslurnar eru margar. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. mjög við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vélarstærðin er annað atriði. Stærri vél þýðir meira afl en líka oft meiri eyðslu og fleiri kíló.

Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Gallinn við slíkar málamiðlanir getur verið sá að þá standi menn upp með sleða sem stendur sig ekki vel á neinu sviði. Hins vegar hafa svona “blendingssleðar”, sem gjarnan er einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina, notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri.

Engin málamiðlun

Hinn nýi MX Z Renegade er skýrt dæmi um svona sleða. Forsvarsmenn Ski-doo fullyrða að hér sé engin málamiðlun á ferðinni en hvað sem því líður er a.m.k. ljóst er að með smíði hans hefur verið stigið skrefi lengra í að búa til þennan alhliða sleða sem svo marga dreymir um. Í þessu skrefi felst m.a. að breikka beltið um eina tommu, úr 15 tommum í 16. Þannig er hægt að hafa það styttra en á “hefðbundnum” fjallasleðum, ná samt sama gripfleti og floti en með sleða sem er liprari í snúningum og þægilegri í akstri. Þannig er gripflötur Renegade 600 með 136×16 tommu belti sá sami og á 144×15 tommu beltum keppinautanna. Val er um tvær gerðir af spyrnum, þ.e. 44,5 mm (1,75”) eða 31,8 mm (1,25”) og var prófunarsleðinn á fínna beltinu. Þetta nýja belti virðist koma vel út. Að vísu gafst ekki kostur á að reyna sleðann í púðursnjó þannig að ekki reyndi fyrir alvöru á flotið en spyrnan var mjög góð. Þá var sleðinn áberandi lipur í snúningum þannig að allt virðist benda til að markmið Ski-doo varðandi beltisgerðina hafi náðst.

Annað meginmarkmið var að smíða sleða með öflugri en þó sparneytinni vél. Þarna virðist Ski-doo svo sannarlega hafa hitt í mark því 600 SDI vélin er hreinasta undur, eins og nánar verður komið að síðar.

Vel búinn sleði

Hinn nýi Renegade er vel búinn sleði og fátt sem hægt er að sakna. Aftan við sætið er ágætt lokað geymsluhólf fyrir ýmsa smáhluti og jafnvel nesti til dagsins. Síðan kemur hann með ágætri farangursgrind sem er tilbúinn til að taka við auknum farangri. Hægt er að fá auka eldsneytisbrúsa sem ætlað er sérstakt pláss aftan við sætið og nær raunar innundir það. Hiti í handföngum og bensíngjöf er að sjálfsögðu staðalbúnaður og sama er að segja um hinn frábæra snarvendu bakkgír. Ég er einn af þeim sem sjaldan hef saknað rafstarts og því pirraði mig ekkert að slíkt skuli ekki koma sem staðalbúnaður í þessum sleða. Það þarf heldur ekki að toga nema tvisvar í spottann þótt sleðinn sé alveg kaldur og þar kemur SDI innsprautunin til sögunnar. Fyrst er togað einu sinni til að skynjararnir fái að vinna sitt verk og síðan aftur. Þá dettur sleðinn í gang og malar ljúflega.

Menn skiptast nokkuð í tvö horn varðandi útlit REV-sleðana. Sjálfur myndi ég seint telja þá í hópi fallegustu sleða en hef þó orðið sáttari við þá með tímanum. Hvað sem um útlitið má segja er hins vegar ekki hægt að deila um að hönnunin er snjöll og vel hugsuð. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að opna hliðarnar alveg úr fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Þessi sleði er með meðalhárri rúðu sem mér finnst passa honum vel. Ég hef séð menn kvarta undan því að rúðan á REV þyrfti að skýla ökumanninum betur. Ég sé enga ástæðu til að setja út á þetta atriði því þótt rúðan sé mjó fannst mér hún veita dágott skjól. Á það ber að líta að einstök veðurblíða var þá daga sem sleðinn var prófaður og því var ekki spáð svo mjög í þetta atriði. Smíði og frágangur á sleðanum virtist í fínu lagi og enga “lausa enda” að sjá í þeim efnum.

Þvílík vél!

Hvað skal segja um 600 SDI vélina? Ég var búinn að lesa að hún væri öflugasta 600 vélin á markaðinum – en hugsaði nú samt – þetta er nú bara 600. Eftir fyrsta hringinn var fyrsta hugsunin hins vegar þessi: “Þeir hljóta að hafa misst í hann 800 vél í misgripum.” Þvílík vél! Hún svarar um leið og er komið við gjöfina og sleðinn hreinlega stekkur af stað. Sjálfsagt myndu flestar 800 og 900 vélar hafa betur á endanum en aflið í þessari er yfirdrifið við flestar aðstæður. Í reynsluakstrinum var m.a. spyrnt upp brekkur samhliða 800 RMK og 900 Mountaincat og máttu þeir hafa sig alla við.

Með aflinu er þó ekki nema hálf sagan sögð og varla það. Það á eftir að skrifa um sparneytnina og tæknina. Með SDI innsprautuninni var Ski-doo að koma fram með öfluga tvígengisvél sem mætti auknum kröfum um eyðslu og mengun en án þess að henni fylgdi sú auka þyngd sem er í fjórgengisvélum. Tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Meðal búnaðar er svokallaður “Knock sensor” en það er skynjari sem eykur bensínmagnið inn á vélina ef hætta er á að hún sé að ofhitna, t.d. ef bensínið er lélegt.

Þessi 600 vél er tæknilega þróaðasta vélin frá Bombardier og þegar umtöluð fyrir litla eyðslu, bæði á bensíni og olíu. Eyðsla sleðans var ekki mæld í reynsluakstrinum enda hefði það haft takmarkað gild þar sem sleðinn var enn á fyrsta tanki. En miðað við prófanir erlendis stenst það sem framleiðandinn segir um vélina.Hún stenst þegar væntanlegar mengunarreglugerðir sem taka gildi í Bandaríkjunum að tveimur árum liðnum og þar er Ski-doo því í góðum málum. Þegar þannig fer saman kraftmesta 600 vélin og sú eyðslugrennsta, ja þá er erfitt að sjá að hægt sé að gera betur.

Aksturseiginleikar

Ég hafði aldrei keyrt REV-sleða þegar ég settist upp á þennan og eitt af því sem mér hafði verið tjáð var að menn þyrftu nánast að læra að aka vélsleða upp á nýtt. REV-hegðaði sér svo ólíkt öðrum sleðum. Ég komst fljótlega að því að þetta á ekki við rök að styðjast. Vissulega eru hreyfingarnar aðrar en ég hef vanist en mér fannst ég orðin ágætlega hagvanur eftir tiltölulega stutta stund. Hluti af því er að aksturseiginleikarnir eru einfaldlega það góðir að þér fer strax að líka vel við sleðann.

Við skulum byrja á framendanum. A-arma fjöðrunin að framan er 9,5 tommur. Hún skilar hlutverki sínu með sóma og dugar að benda á úrslit úr snjókrosskeppnum því til sönnunar. Sleðinn stýrir frábærlega og kemur þar væntanlega bæði til byggingarlag hans og skíðin, sem mér líkaði mjög vel við. Hvort skíði er með tveimur samsíða meiðum og þau svínvirka. Lykilatriði er einnig lögunin á skíðinu sjálfu, þ.e. svæðinu á milli meiðanna. Raunar má undrum sæta hversu stutt er síðan sleðaframleiðendur fóru af alvöru að spá í endurbætur á skíðum í ljósi þess að þetta er snertiflötur sleðans við snjóinn og hefur úrslitaáhrif varðandi aksturinn. Þessi sleði virðist standa býsna fast í skíðin en þó var hann ágætlega léttur í stýri.

Afturfjöðrunin hefur þróast vel hjá Ski-doo undanfarin ár, ekki síst í snjókrosskeppnunum, og nefnist þessi útgáfa SC-10 III. Hún skilar 13 tommu fjöðrun og auðvelt er að stilla hana þannig að hún henti mismunandi þungum ökumönnum, nú eða þá mis mikilli farangurshleðslu ef því er að skipta.

Bæði að aftan og framan er sleðinn með hina háþróuðu tvívirku HPG gasdempara. Þeir eru þannig gerðir að u.þ.b. þriðjungs vegalengd frá hvorum enda eru göt eða framhjáhlaup. Þannig fæst mýkri og þægilegri fjöðrun þegar demparinn er að virka á miðsvæðinu, þ.e. á meðan ójöfnurnar eru ekki mjög miklar, en þegar harðnar á dalnum og álagið á demparann eykst stífnar fjöðrunin þannig að sleðinn slær síður saman. Þannig vill Ski-doo meina að hægt sé að fá eiginleika tveggja mismunandi dempara í einum.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hina breyttu ásetu á REV. Sumir hafa t.d. algerlega hafnað þeirri hugmynd að geta ekki rétt alveg úr hnjánum. Eflaust er einstaklingsbundið hvernig mönnum líkar REV-ásetan en mér líkaði hún vel þegar á heildina er litið. Á löngum akstri getur verið þreytandi að sitja stöðugt með bogin hné en á móti kemur að auðvelt er að standa upp og rétta úr sér þannig. Mestan tíma tók að venjast því að geta ekki fært sig enn framar á sleðann þegar ekið var í hliðarhalla. Maður hefur vanist því að geta lagst fram með stýrinu en hér er hins vegar búið að færa stýrið framar þannig að því er ekki að heilsa. Þetta er því eingöngu huglægt atriði en ekki raunverulegt vandamál því þú ert jú bara framar á sleðanum. Raunar eru tvær stillingar á stýrinu og var það stillt í þá fremri. Stigbrettin eru einnig mjög góð og veita öryggistilfinningu.

Niður brattar brekkur

Um helgina gafst kostur á að reyna sleðann við ýmsar aðstæður en þó vantaði púðursnjóinn. Því reyndi ekki fyrir alvöru á samanburð við löngu sleðana, sem þó hefði sannarlega verið gaman. Færið var eiginlega of gott því yfirdrifið aflið í 600 vélinni skilaði ökumanninum á alla þá tinda sem hann þorði að reyna við. Mér fannst sleðinn góður í hliðarhalla en gat ekki prófað nógu vel hvernig er að skáskera brekkur á þessu breiðara belti, hvort það er hugsanlega erfiðara. Það var fyrst og fremst eitt atriði sem olli nokkrum vonbrigðum en það eru bremsueiginleikar niður brattar brekkur. Auðvelt er að láta sleðann halda vel á móti á meðan brattinn er hæfilegur en í bröttustu brekkunum var hraðinn á niðurleiðinni áberandi meiri en á samanburðarsleðunum, RMK á 144 tommu belti og Mountaincat á 151 tommu belti. Þetta kann að stafa af því að þyngdarpunkturinn sé framar á REV-sleðunum og þ.a.l. hvíli tiltölulega lítil þyngd á beltinu þegar ekið er niður mikinn bratta.

Fyrir hverja?

Ljóst er að Ski-doo ætlar Renegade sleðunum, og ekki síst þessum nýja 600 SDI, stórt og mikilvægt hlutverk. Vélin á að sameina kosti fjór- og tvígengisvéla, þ.e. vera létt og öflug en eyða og menga lítið. Sleðanum er ætlað að sameina kosti fjallasleða og “trail”-sleða án þess að um neina málamiðlun sé að ræða, “no-compromise sled” eins og þeir Ski-doo menn segja. Þessi tveggja daga kynni af sleðanum benda til að sú kunni einmitt að vera raunin, að tekist hafi að sameina í einum sleða marga eftirsóknarverða eiginleika. Þótt ekki hafi reynt á akstur í púðri benti frammistaðan í brekkunum til þess að 800 og 900 fjallasleðarnir megi heldur betur vara sig. Um aksturseiginleikana verður ekki deilt. Þeir eru frábærir. Sleðinn er eyðslugrannur og þannig útbúinn að hann hentar vel til lengri hálendisferða. Ég hef gripið í talsvert marga sleða um ævina og Ski-doo MX Z Renegade 600 SDI HO er einn af þeim eftirtektarverðustu. Þetta er sleði með skemmtilegan “karakter” og það voru sannarlega þung spor að skila honum aftur.

Plúsar:
Þróuð og aflmikil vél
Fjöðrun
Stýring

Mínusar:
Bremsueiginleikar niður brattar brekkur
Að þurfa að skila sleðanum aftur

Frábær helgi vestan og austan Eyjafjarðar

Nýliðin helgi stendur eftir í minningunni sem ein af betri sleðahelgum sem undirritaður man eftir. Kemur þar margt til. Veðrið var frábært, sleðafærið sömu leiðis, tækifæri gafst til að ferðast um flottustu sleðaleiðir beggja vegna Eyjafjarðar, snjókrossmótið í Ólafsfirði brást ekki frekar en við var að búast og síðast en ekki síst var Sleðasíðan með til afnota glænýjan Ski-doo MX Z Renegate 600 SDI H.O. Reynsluakstrinum sem slíkum verða gerð ítarleg skil hér á síðunni seinna í vikunni en að þessu sinni farið fljótt yfir sögu í ferðum helgarinnar.

Léttur hringur um Tröllaskaga

Á laugardeginum tóku margir daginn snemma og stormuðu út í Ólafsfjörð til að taka eina bunu áður en keppnin byrjaði. Má segja að Tröllaskaginn hafi iðað af sleðum allan daginn. Óku menn vítt um, m.a. til Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Voru þeir þannig búnir með góðan dagsskammt strax upp úr hádegi. Síðuhöfundur lét sér nægja að mæta skömmu áður en snjókrossmótið hófst og fylgdist með tilþrifunum þar. Að keppni lokinn var síðan tekinn léttur hringur í góðra vina hópi, svona rétt til að venjast nýja sleðanum.

Nú var komið að Fjörðum

Sunnudagurinn lofaði ekki síður góðu og nú var stefnan tekin út með Eyjafirði að austan. Ferðafélagar voru þeir Sigurgeir á 900 Mountain Cat og Smári Sig á RMK 800. Á Grenivík var stefnan tekin upp í fjall eftir hinum magnaða vegi sem Bjössi í Kaldbaksferðum hafði forgöngu um að gera. Er ljóst að hann er mikil bót fyrir sleðamenn þegar jafn snjólítið er á láglendi og nú. Á planinu stóð yfir viðgerð á gömlum XLT. Þótti síðuhöfundi það allmerkileg sjón, enda átti hann slíkan sleða árum saman og þurfti aldrei að hreyfa skrúfu. Þótt freistandi væri að hafa viðdvöl og fylgjast með framvindu viðgerðarinnar var brunað af stað inn Grenjárdal og áfram út Trölladal. Færið og veðrið var eins og það gerist allra best og var nú rennt í fjallaskörðin eitt af öðru. Ekki var linnt látum fyrr en staðið var á brún Keflavíkurdals. Var síðan snúið til baka og kaffistopp tekið í sólskininu á hlaðinu í Þönglabakka. Þar er ansi snjólaust í kring en þó alveg vandræðalaust að aka. Að kaffi loknu var ekið yfir í Hvalavatnsfjörð. Þar er einnig mjög snjólétt og nenntu menn ekki að vera í þræðingum þegar nægur er snjórinn hærra uppi. Var því nefinu snúið til fjalls á ný og enn fleiri brekkur sigraðar, áður en komið var aftur í bílana fyrir ofan Grenivík. Frábær dagur að baki. – Halldór

Heyrst hefur…
…að þeir sem óku með Smára og Sigurgeir fyrir hádegi á laugardaginn hafi ekki treyst sér aftur seinnipartinn
…að 600 sé alveg nóg

Myndirnar tóku síðuhöfundur, Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs.

Dagur hinna löngu belta

Margir voru á ferli í Ólafsfirði og nágrenni í gær til að nota allan nýja snjóinn áður en hann færi aftur. Þeirra á meðal var Smári Sig. sem hafði vaðið fyrir neðan sig og fór í félagsskap tveggja fílefldra lögreglumanna, þeirra Hemma og Jobba. Sendi hann meðfylgjandi ferðasögu og myndir.

Púður, púður, púður

Við ætluðum að taka af á Dalvík og keyra þaðan á sleðum yfir í Ólafsfjörð. Á Dalvík var hins vegar enginn snjór svo ekið var á bílunum til Ólafsfjarðar. Þar hafði snjóað síðustu daga og allt hvítt. Brunað var af stað upp Syðriárdalinn og hvílíkt færi. Púður, púður, púður svo aka þurfti “full rör”. Greinilega margir á ferð og slóðir um allt. Eftir mikinn svita og hita komumst við upp úr dalnum og horfðum niður í Héðinsfjörð. Þá höfðu Jósavin og Robbi bæst í hópinn.

Og allir komu þeir aftur… (upp)

Eftir drykklanga kaffi- og vökvapásu var strikið tekið niður í Héðinsfjörð. Ekki fóru allir niður í dalbotn….sem betur fer því það sem eftir lifði dags fór í að koma hersingunni upp aftur. Er leið á daginn fjölgaði verulega á staðnum því margir fóru yfir til Siglufjarðar og voru á bakaleið aftur í Ólafsfjörð. Því var margmenni og margar ráðleggingar til þeirra sem ekki komust upp. Margir misbeittir ökumenn reyndu við aðra sleða enn sína eigin með þó misjöfnum árangri. Allir fóru upp að lokum , reyndar sumir í snæri. Talið er að sjaldan hafi menn misst eins mikinn vökva og þennan dag.

Vel nýttur dagur á Mývatnsmóti

Hin árlega vélsleðakeppni í Mývatnssveit var sem kunnugt er haldin um síðustu helgi. Sumir nýttu laugardaginn betur en aðrir. Þannig fóru Smári Sig., Benni á Bílvirkja, Sigurgeir og tveir upprennandi kappakstursdrengir, þeir Valur og Ævar, af stað árla morguns, tóku létta sleðaferð áður en keppni hófst og aðra að henni lokinni. Smári sendi eftirfarandi ferðasögu og Sigurgeir lagði til myndir.

Auðvitað mættum við snemma til hátíðarinnar í Mývatnssveit á laugardag en alla leiðina austur var hvergi snjó að sjá. Það var ekki fyrr en í Kröflu sem einhvern skafl var að finna. Hann var auðvitað nýttur og byrjuðum við á að taka eina bunu norður eftir að Gæsafjöllunum og þaðan stefnt á Þeistareykjaskála. Færið í harðara lagi og þurfti að hafa “ribburnar” niðri. Þeir sem ekki höfðu slíkan búnað hlýnuðu heldur mikið. Ekki var hægt að komast í skálann þar sem snjórinn var akkúrat enginn þar í kring. Á baka leið í Kröflu var farið að Víti og upp á Hábunguna.

Þá var kominn tími til að renna á mótssvæðið og fylgjast með keppnisdrengjunum sýna listir sínar. Allt það dæmi virtist ganga stórslysalaust fyrir sig og held það sé bara gott að ekki var búið að finna þetta upp hér á árum áður. Gömlu mennirnir fóru nefnilega í brautina þegar allir aðrir voru farnir. Sannast sagna var betra að fara hægt og rólega svo ekki hlytist tjón af.

Eftir keppnisatganginn töldu Ingi í Bílaver og Pétur hótelhaldari að það þyrfti að sýna okkur nokkra nýja staði og brunuðu af stað með okkur í halarófu ásamt nokkrum austan mönnum. Greinilegt að tímaskortur var í uppsiglingu því ekið var eins og “búðingarnir” komust. Fyrst reynt við skálann við Eilífsvötn og síðan að skála all sérstökum sem heitir Híði. Greinilegt var að þeir kumpánar Ingi og Pétur voru ekki í sinni fyrstu ferð á þessum slóðum. En til baka að bílunum komum við aftur og alveg á met tíma.

Sagt var…
…að Smári Sig hafi ekki þorað að taka neitt nesti með sér í túrinn, eftir aðganginn í síðustu ferð
…að Sigurgeir ætli ekki að setja nýja GPS inn á sleðann fyrr en búið er að smíða þjófheldar festingar
…að Benni hafi ekki mátt fara á eldhúsbílnum austur
…að kappakstursdrengirnir á hafi ekki komist eins hratt og “gömlukarlarnir

Könnunarferð á hálendið

Margir brugðu sér á sleða á blíðunni sl. laugardag. Síðuhöfundur fór ásamt fleirum í könnunarferð inn á hálendið og reyndust bæði færi og snjóalög betri en gert var ráð fyrir í kjölfar hlýindanna undanfarið.

Fínt á Fjallinu

Farið var upp af Öxnadalsheiði og verður að segjast eins og er að Kaldbaksdalurinn er afskaplega lélegur neðantil. Snjólög eru líkari því sem eru í maí-júní í eðlilegu árferði. Þó var vandræðalaust að þræða sig fyrsta spottann og þegar kom ofar í dalinn var nægur snjór. Upp á Nýjabæjarfjalli er allt á kafi og kom skemmtilega á óvart að þó nokkuð nýsnævi var ofan á harðfenninu. Færið var hreint út sagt frábært. Brunað var inn í Laugafell með viðkomu í Litlakoti og þar tekin kaffipása. Þó nokkur snjór er í kringum Laugafell og engar þræðingar. Ýmis mál voru krufin til mergjar í kaffitímanum, m.a. tófuveiðar, snjóalög o.fl. Sýndist þar sitt hverjum.

Fínn hringur

Frá Laugafelli var ekið áleiðis að Galtabóli og þaðan í Landakot, alltaf í sama góða færinu. Frá Landakoti var stefnan tekin áleiðis í Bergland, með viðkomu á brún Eyjafjarðardals. Áð var í Berglandi og síðan tekin örugg stefna norður í Litlakot. Þar bættust Siggi Bald og Mummi Lár í hópinn og voru að koma úr fínni ferð á Bárðarbungu. Var nú greið leið til baka norður Nýjabæjarfjall og í bílana.

Tapað nesti

Ferðin var án allra stórtíðinda. Þó lenti síðuhöfundur í þeirri óskemmtilegu reynslu að flutningsaðili sem fenginn var til að geyma nesti hans reyndist ekki vandanum vaxinn. Losnaði lokið á kaffibrúsanum og drjúgur hluti innihaldsins helltist niður, sem betur fer bara í pokann hans Smára. Hafa í framhaldinu vaknað áleitnar spurningar um fjöðrunina á RMK. Meðfylgjandi myndir tóku Smári Sig og Halldór Jónsson í ferðinni.

Frábær ferð á vegum EY-LÍV í Fjörður og Flateyjardal

Eins og fram hefur komið var áformað að fara dagsferð í Laugafell á vegum EY-LÍV sl. laugardag. Þegar til kom þótti ráðlegra að breyta áætlun og var stefnt út á Grenivík þar sem Guðni Hermannsson (í Straumrás) tók við hópnum og leiddi um heimalendur sínar. Áttu menn þarna hreint frábæran dag. Guðni sendi bráðskemmtilega frásögn um ferðina og Alfreð Schiöth lagði til myndir.

Legið undir yfirbreiðslu á Lynx

Við hittumst við Shell á Akureyri því ferðin átti að vera, ef gæfi veður og færi, Öxnadalsheiði- Laugafell og heim aftur, en hitt til vara. Eftir að hafa legið um stund undir yfirbreiðslunni á Lynxinum ákvað Björn formaður að vegna ótryggs veðurs inná hálendinu, væri bezt að stefna hópnum í Fjörður / Flateyjardal (þar er að sjálfsögðu alltaf bezta veðrið og leiðsögn í lagi).

Lagt af stað

Farið var upp frá Grenivík á 29 sleðum en einhverjir hljóta að hafa verpt á leiðinni því að í Þönglabakka voru þeir orðnir 35. Fórum við sem leið lá upp á Grenivíkurfjall út Grenjárdal og norður á Þröskuld. Á þessum kafla tóku nokkrir úr hópnum eldsnögga bunu á Kaldbak og voru snöggir að því. Héldum síðan út Trölladal og fórum síðan inn Þverdal og yfir illræmd skörð sem reynst hafa mörgum sleðamanninum erfiður farartálmi og ýmsir þurft að snúa frá. En í þetta sinn gekk allt eins og í sögu þrátt fyrir nokkurt svell í brekkunni og eilitlar hjartsláttartruflanir örfárra ferðafélaga.

Aldrei skal ég ganga

Eftir smá stopp þarna á brúninni( nokkrir báðu um nestispásu en fengu ekki) var haldið sem leið lá yfir í Hóls- og Bakkadal og þar norður um með stefnu á hið gamla höfuðból og prestssetur Þönglabakka. Þegar komið var útá láglendið kom í ljós að mestallur snjór var horfinn og hafði fararstjórinn töluvert mikið fyrir því að þræða skorninga vítt og breitt um hið heimsfræga tún Þönglabakkastaðar, (en það nefnilega er túnið sem kötturinn fótbraut sig á hérna um árið) því eins og sönnum sleðamönnum sæmir dugir ekki að ganga þegar hægt er að keyra. Gátum við að lokum eftir nokkra fyrirhöfn lagt sleðunum hérumbil alveg við húsvegginn.

Sást til Noregs?

Eftir langa og langþráða nestispásu og frægðarsögustund héldum við áfram suður og yfir höfðann og var býsna hlykkjótt leiðin kringum þúfnastykki og framhjá grjóti og drullu en allt hafðist það nú samt. Ókum síðan suður hlíðina ofan við Tindriðastaði, Kussungstaði og Þverá og tókum næst hús á Gili. Þar var áð um stund, enda ýmsir orðnir svangir aftur. Frá Gili fórum við suður Tungur og yfir Hávörður og austur um Leirdal skammt norðan við Gljúfurárvað og þaðan beint á ská yfir í Heiðarhús á Flateyjardalsheiði. Þar var enn sest að snæðingi um stund. Síðan hélt hluti hópsins heim á leið um Bakkaheiði til Grenivíkur en aðrir fóru upp í skarðið ofan við Náttfaravíkina. Þar var útsýn víð og fagurt um að litast. Taldi einn ferðafélagi sig sjá alveg til Noregs en flestir voru nú á því að um Húsavík væri að ræða.

 

Gist í Svartárkoti

Laugardaginn 14. febrúar sl. fóru sjö ferðafélagar á sex sleðum af stað frá Stöng í Mývatnssveit áleiðis í skála Ferðafélags Akureyrar, Bræðrafell sem stendur austan við Kollóttudyngju. Jakob Kárason er skálavörður þessa skála og vart mun finnast skáli á fjöllum sem betur er útbúin en þessi skáli þótt hann sé ekki stór. Steini Pje sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Á fimmtudegi var hringt í Skútustaði og þá var sagt gott sleðafæri og hægt að komast suður með Bláfjalli og var það ætlun hópsins að fara þaðan. Þegar Mývatssveitin blasti við var ljóst að mikinn snjó hafði tekið upp og ekki fært að fara þá leið. Því var ekið að Stöng og haldið þaðan. Ferðafélagarnir hafa áður eldað grátt silfur við Kráku sem er bergvatnsá sem kemur undan hrauninu sunnan Sellandafjalls og sjaldnast hægt að komast yfir hana á snjó. Því urðum við að aka suður fyrir upptök Kráku og þaðan til norðurs í átt að Sellandafjalli, austur að Bláfjalli og þaðan til austurs. Ef ég man rétt er sagt að tröllkerling, Kráka sem bjó í Sellandafjalli hafi reiðst er smalastrákur sem hún hafði rænt og haft hjá sér í hellinum strauk frá henni, og þá tekið upp hrísvönd og dregið niður rás þá er áin nú rennur í og sagt að áin mundi alltaf verða til bölvunnar. Þetta var því verulegur krókur fyrir okkur ferðafélaganna og er við komum að Hvammsfjöllum var orðið myrkur og ógerlegt að þræða gegn um hraunið. Auk þess voru viðsjárverðar bleytur og ein slík nægði fyrir skálavörðinn til að festa fákinn sinn. Því var snúið frá og hringt í Svartárkot og pöntuð gisting en hjónin í Svartárkoti hafa komið upp góðum bústað og frábært var að gista hjá þeim.

Sunnudagsmorguninn heilsaði með góðu veðri og fylgdi Tryggvi bóndi okkur norður fyrir Grjótá, en nægur snjór var milli Svartárkots og Stangar ef farið er nægilega vestarlega. Að sjá var nægur snjór í Dyngjuföllum og frá Svartárkoti er frábært að fara dagferð um það svæði. Vil því benda á þessa góðu gistingu. Þeir sem ferðina fóru voru, greinarhöfundur Steini Pje, Gunnar Helgason, Vilhelm Ágústsson, Jakob Kárason, Kristján Grant, Hólmar (tengdasonur Stjána) og sonarsonur Steina, Ísak Már 11 frá Hjalla í Reykjadal.

Arctic Cat kynnir 2005 árgerðina

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Nýja M-línan er stærsta nýjungin frá Arctic Cat fyrir næsta tímabil.

Eins og við var að búast er ýmislegt áhugavert að finna í 2005 línunni frá Arctic Cat sem kynnt var í gær. Mesta athygli vekur að sjálfsögðu nýja fjallasleðalínan, sem nú heitir einfaldlega M, en það er líka ýmislegt annað spennandi að gerast.

Segja má að framleiðslulínan hafi verið einfölduð nokkuð frá því í fyrra og sleðum fækkað. Þannig heyrir 800 mótorinn sögunni til, þar á meðal Pantera EFI ferðasleðinn sem einhverjir munu eflaust sakana. Áhugavert er að sjá nýja ACT drifbúnaðinn koma í fleiri sleða, nýja gerð af FOX framdempara þar sem loftþrýstingur kemur í stað gorms og hljóðeinangrun hefur verið aukin þannig að minni hávaði berst frá vélinni. Er Arctic Cat mér vitanlega eini framleiðandinn sem sett hefur upp sérstaka rannsóknarstofu þar sem skipulega er unnið í því að draga sem mest úr hávaða frá vélsleðum.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Firecat kemur með ýmsum endurbótum. Góður sleði gerður enn betr.

Sportsleðar
Firecat sleðarnir hafa sannarlega slegið í gegn hjá Arctic Cat. Þar fer saman létt boddý, góð fjöðrun og frábærar vélar. Endurbætur á næsta ári miða að því að koma fram með enn léttari og öflugri sleða. Nýja ACT-drifið, nýja hljóðeinangrunin, nýtt sæti og nýr afturöxull með þremur búkkahjólum í stað tveggja áður eru meðal endurbóta. Í vélarsalnum er allt að mestu óbreytt, enda af hverju að breyta því sem er frábært. Áhugaverðastar eru 600 EFI og 700 með blöndungum eða EFI. Sögusagnir um nýjan 800 mótor í Firecat boddýinu áttu því miður ekki við rök að styðjast. Hægt er að fá bæði 128 og 144 tommu löng belti en þau eru sem kunnugt er 13,5 tommu breið eða heldur mjórri en hjá flestum öðrum. ZR 900 og ZR 900 EFI koma báðir að mestu óbreyttir. Vélin skilar um 150 hestöflum og boddíið er hið sama og í fyrra, enda passar þessi vél ekki í Firecat-boddíið.

Nýja M-línan
Nýja M-fjallasleðalínan er ný útfærsla á Firecat boddíinu. Sleðarnir eru allt að 15 kg léttari en gamla Mountaincat boddíið-M1. Sleðanir koma á 15 tommu breiðu belti, í stað 13,5 tommu á Firecat. Loftintakið er á öðrum stað en á Firecat, eða rétt við framsljósið. Þetta hefur einnig í för með sér aðeins aðra hönnun á framstykkinu og þannig er t.d. hægt að fjarlægja hliðarnar á framskúffunni til að hafa t.d. betra aðgengi að kúplingum. Vélarnar eru þær sömu og í Firecat, eða 500, 600 og 700, og eru sleðarnir auðkenndir með M5, M6 og M7 í samræmi við það. M5 kemur með 141×1.6 tommu belti, M6 með annað hvort 141×2,25 eða 153×2.25 og M7 er hægt að fá með 141, 153 eða 162×2,25 tommu beltum. Þá má ekki gleyma King Cat 900 EFI sem kemur áfram í M1 boddíinu og á 162 tommu belti. Eins og jafnan áður er hægt að fá ýmsar sérútgáfur ef menn panta sleðana nógu snemma.

Sabercat

Sabercat

Sabercat
Sabercat er í raun Firecat í aðeins “mildari” útgáfu sem hentar betur til trail-aksturs og ferðalaga. Hann fær sömu endurbætur og Firecat og er mjög áhugaverður sleði. Sömu vélar eru í boði og í Firecat, sem og beltislengdir. Þessi sleði er hins vegar með ýmsan aukabúnað til að gera aksturinn enn þægilegri.

Ferðasleðar
Það er helst í ferðageiranum sem Arctic Cat er ekki að breyta miklu þetta árið. Nú heyrir Pantera 800 EFI sögunni til en áherslan er á T660 Turbo ST fjórgengissleðann. Hann er sannarlega meðal áhugaverðustu valkostanna í fjórgengisflórunni og vert að gefa honum auga. Með 2005 árgerðinni fær sleðinn ýmislegt af þeim útbúnaði sem áður var á ZR-sleðunum og er því enn betur búinn en áður. Fagurrauður liturinn og krómað gler ætti líka að tryggja næga athygli hvar sem er. Einnig er ferðasleði með 600 EFI tvígengisvél í boði.

Reynsluakstur á RX-1

Um síðustu helgi fékk Sleðasíðan afhentan Yamaha RX-1 frá Toyota á Akureyri til reynsluaksturs. Sleðinn var prófaður við ýmsar aðstæður í þrjá daga og nú liggur niðurstaðan fyrir.

Sprengja síðasta árs
Þegar sleðaframleiðendur voru fyrir réttum tveimur árum að keppast við að kynna 2003 árgerðina litu ýmsir áhugaverðir sleðar dagsins ljós. Við skulum muna að þetta var árið sem Ski-doo kom með REV á almennan markað og Arctic Cat með Firect, hvoru tveggja sleða sem hlotið hafa verðskuldaða athygli og lof. Einnig kynnti Arctic Cat tveggja strokka 900 vélina á þessum tíma. Enginn þessara sleða varð þó þess heiðurs aðnjótandi að hljóta nafnbótina “Sleði ársins” hjá hinu virta tímariti Snow Goer. Sá titill var þegar frátekinn fyrir eina mestu sprengju sem komið hefur inn á vélsleðamarkaðinn hin síðari ár, RX-1 frá Yamaha.

Sleði fyrir íslenskar aðstæður?
Með RX-1 gerði Yamha það sem ýmsir höfðu spáð að myndi ekki verða raunveruleiki fyrr en eftir mörg ár. Þeir komu fram með fullskapaðan fjórgengissleða, sambærilegan að afli við öflugustu tvígengissleða og innan þeirra þyngdarmarka sem hljóta að teljast vel ásættanleg. Með því er þó á engan hátt verið að draga úr þeirri staðreynd að RX-1 er þungur sleði í samanburði við þá tveggja strokka tvígengislínu sem verið hefur nær allsráðandi hjá öðrum sleðaframleiðendum síðustu ár. En er RX-1 sleði fyrir íslenskar aðstæður? Eða er þetta einfaldlega nökkvaþungt skrímsli með vonlausa aksturseiginleika? Fyrir milligöngu Toyota á Akureyri, umboðsaðila Yamaha, var ákveðið að Sleðasíðan tæki RX-1 til reynsluaksturs og freistaði þess að dæma hvers konar sleði væri hér á ferðinni.

Byrjað var á stuttum sleða á 121 tommu belti. Undirritaður hafði sleðann til afnota um síðustu helgi og verður sú reynsla tíunduð hér á eftir. Á föstudaginn og laugardaginn var tíminn notaður til að fara stutta spretti og en á sunnudaginn var farið upp á Vaðlaheiði til að fá reynslu af notkun sleðans í lengri akstri. Næst er röðin síðan komin að RX-1 á 151 tommu belti og verður fróðlegt að fá samanburðinn þegar þar að kemur. Meðfylgjandi myndir tóku greinarhöfundur og Sævar Sigurðsson.

Einstök vél
Kynning Yamaha á RX-1 kom nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti því ótrúlega lítið hafði lekið út um áformin. Það sem Yamhaha gerði var að taka vélina úr hinu vinsæla R1 mótorhjóli og laga hana að notkun í sleða. Þetta er fjögurra strokka 998 cc línuvél með fimm ventlum á hverjum strokk og fjórir 37 mm blöndungar sjá um að fæða græjuna þannig að öll 145+ hestöflin fái notið sín. Eitt af þeim vandamálum sem menn sáu fyrir sér var að vélsleðakúpling myndi aldrei virka á þeim snúningshraða sem litlar en kraftmiklar fjórgengisvélar þurfa. Þetta leysir Yamaha snilldarlega með einföldum niðurgírunarbúnaði. Útkoman er einstök vél, gríðarlega aflmikil en mun sparneytnari en sambærilegar tvígengisvélar. Yamhaha gefur upp allt að 30% minni eyðslu en sambærileg tvígengisvél og prófanir Maximumsled.com hafa staðfest þær tölur. Bara hljóðið eitt ætti að duga til þess að hrífa hvern þann með sér sem á heyrir. Gangur vélarinnar er líka ansi mikið öðruvísi en í stóru tvígengissleggjunum. Engin nístandi víbringur, aðeins lágvært suð sem breytist í hávært urr þegar komið er við gjöfina.

Þessi stóra vél gerir það að verkum að RX-1 er engin léttavara. Hins vegar finnst ótrúlega lítið fyrir þyngdinni í öllum venjulegum akstri. Vélinni er komið fyrir eins neðarlega og hægt er og leitast við að sem mest af þyngdinni sem styst frá driföxlinum og ökumanninum. Í hefðbundnum “trail”-akstri virkar RX-1 ekkert þyngri en “hefðbundnir” stuttir sleðar, nema síður sé. Það er fyrst og fremst þegar þú festir þig að öll 300 kílóin verða að veruleika. Hins vegar er vélarorkan af þeirri stærðargráðu að festur eru eitthvað sem ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af. Þá má minna á að sleðinn hefur verið léttur verulega frá fyrstu árgerðinni og mun þannig léttast um heil 15 kg á næsta ári.

Áseta
Eitt af því sem mér finnst skipta miklu máli við vélsleða er hvernig mér finnst að sitja á honum og hvernig afstaðan á milli sætis og stýris kemur út. Það er alveg sama hvort menn hugsa notkun sleðans fyrir styttri eða lengri ferðir, góð áseta er lykilatriði, ásamt því að þægilegt sé að standa þegar það á við. Í þeim efnum er erfitt að búa til einn sleða sem hentar öllum. Ég verð að setja að fyrir minn smekk er ásetan á RX-1 í hæsta gæðaflokki. Sætið er hæfilega stíft og vel lagað og útsýni á mælana mjög gott. Stýrið sjálft mætti þó að skaðlausu vera bæði hærra og jafnvel breiðara. Með hærra stýri væri auðveldara að ráða við sleðann í hliðarhalla og skáskera brekkur. Það kostar þó nokkur átök að rífa sleðann upp á annað skíðið og örugglega betra að ökumaðurinn sé sæmilega vel á sig kominn.

Aksturseiginleikar
Ég verð að viðurkenna að ég hafði vissar efasemdir um RX-1 áður en ég fékk hann til prófunar. Ég þóttist vita að vélin væri frábær en hafði áhyggjur af aksturseiginleikunum út af þyngdinni. Þú ert hins vegar ekki búinn að nota svona sleða lengi þegar slíkar efasemdir eru foknar út í veður og vind. Það sem kom mér mest á óvart er hversu léttur og meðfærilegur sleðinn í raun virkar. Hann beygir vel og lætur að flestu leyti vel að stjórn. Helsti gallinn er að þú verður að hafa varann á þér í kröppum beygjum. Innra skíðið vill fara á loft og jafnvel ber á að sleðinn skriki út undan sér. Þarna kemur þyngdin án efa til sögunnar en þetta kann að vera hægt að leysa með því að stilla fjöðrunina betur. T.d. má hugsa sér að láta sleðann standa betur í skíðin en þá verður að hafa í huga að hann þyngist væntanlega í stýri að sama skapi og einnig er spurning hver áhrifin verða á afturfjöðrunina.

Ég gerði reyndar engar sérstakat tilraunir með mismunandi uppsetningu á fjöðrun.Heilt yfir fannst mér sleðinn vel upp settur og hef raunar alla tíð verið ágætlega sáttur við Pro Action afturfjöðrunina frá Yamaha. Hún hefur reyndar ekki þróast mikið í gegnum árin en eins og fram hefur komið verða verulegar breytingar á henni frá og með 2005 árgerðinni. Þetta er ágætlega burðarmikil fjöðrun, stendur sig mjög vel á meðan ekki er mjög óslétt færi, en á virkilegum karga eru aðrar útfærslur betri. Galli við þá Yamaha sleða sem ég hef haft kynni af hefur verið óþarflega mikið slit á meiðum og ekki er ég frá því að RX-1 geti verið sama marki brenndur. A.m.k. þóttist ég nokkrum sinnum finna smá plastlykt ef færið var hart. Engin hitavandamál voru hins vegar með vélina þótt inn á milli kæmu kaflar með lítilli kælingu.

Nýtur sín vel í hraðakstri
Best nýtur RX-1 sín venjulegum “trail”-akstri. Þannig er líka sennilega bróðurparturinn af öllum akstri sleðamanna. Og hraðinn er ekki vandamál. Eftir því sem hraðar var ekið, eftir því naut sleðinn sín betur. Upp á Vaðlaheiði gafst kostur á að gefa duglega í. Færið var talsvert rifið á köflum en það var svo sannarlega ekki vandamál. Þótt mælirinn sýndi vel yfir 100 km hraða haggaðist maður ekki á sætinu. Framfjöðrunin stóð sig frábærlega og ég fullyrði að ég hef engan sleða keyrt sem lætur jafn vel af stjórn á mikilli ferð. Við þessar aðstæður fannst mér sleðinn njóta sín hvað best og skapaði tilfinningu sem ég hef ekki áður notið á 30 ára sleðaferli. Ég viðurkenni fúslega að vera frekar huglaus þegar kemur að hraðakstri á vélsleða en á RX-1 fannst mér allir vegir vera færir.

Hliðarhalli – brekkur – púður
Vert er að hafa á hreinu að RX-1 er ekki besti púðursleðinn eða fjallaklifrarinn á markaðinum, enda ekki ætlað að vera það. Þetta á auðvitað ekki síst við um stutta sleðann sem prófaður var að þessu sinni. Mín upplifun af sleðanum er hins vegar sú að hann sé vel meðfærilegur í hliðarhalla og á meðan hann hefur spyrnu klifrar hann endalaust upp brekkur. Stutta beltið hentar ekki í púðursnjó, frekar en hjá öðrum stuttum sleðum, en mér fannst hann samt ótrúlega duglegur. Gríðarlega spennandi ferð upp Geldingsárgilið í Vaðlaheiði, í miklum lausasnjó, var einn af hápunktum helgarinnar en fékk snöggan og sorglegan endi þegar ökumaðurinn fipaðist eitt augnablik í þröngum skorningi. Þá var gott að skóflan var með í för.

Útlit og frágangur
Útlit er eitthvað sem menn verða aldrei sammála um. Einnig getur smekkur manns breyst. Mér fannst t.d. Firecat til að byrja með einhver ljótasti sleði sem ég hafði séð. Nú, tveimur árum seinna, finnst mér hann einhver sá fallegasti á markaðinum. Mér hefur hins vegar frá upphafi þótt RX-1 hreint ótrúlega flottur og það álit dofnaði ekki við að prófa gripinn. Það er helst að manni finnist hlutföllin í stutta sleðanum svolítið skrítin. Að framendinn beri það sem fyrir aftan er hálfgerðu ofurliði. En hér ræður smekkur hvers og eins. Rúðan er ágætlega heppnuð en mætti þó fyrir minn smekk vera aðeins breiðari. Mér fannst gusta heldur mikið um hendurnar. Sleðinn er til í nokkrum litasamsetningum en sá sem undirritaður hafði til afnota var svartur. Yfireitt finnst mér það svona frekar óspennandi útfærsla en fer þessum sleða hins vegar ágætlega. Sigbrettin líkaði mér ágætlega við, þótt svona 1 tommu breikkun myndi ekki skemma fyrir.

Yamaha hefur alla haft orð á sér fyrir vandaðan frágang og þar er RX-1 engin undantekning. Það er hrein unun að sjá hversu allt virðist vandað og vel hugsað. Digital mælaborðið er ótrúlega “kúl” ásamt því að virka vel. Hitastilling fyrir handföng og bensíngjöf er stiglaus og vel fyrir komið sitt hvoru megin á stýrinu. Takki til að hækka og lækka ljós er einnig vel staðsettur og ljósið sjálft er mjög gott. Hái geislinn lýsir vel framfyrir sleðann og ef ljósin eru lækkuð fæst mjórri og lægri geisli sem ætti að nýtast vel ef keyra þarf í vondu veðri.

Flott en pirrandi
Útfærsla á púströrunum er ótrúlega flott en á sama tíma dálítið pirrandi. Þegar þú t.d. setur sleðann í gang á morgnanna eftir að hann hefur staðið úti þá þarftu að lofa honum að ganga í smá stund. Þú vilt hins vegar nota tímann til að losa aðeins um sleðann, lyfta honum upp að aftan og láta hann detta niður til að losa um klaka í beltinu. Á RX-1 færðu hins vegar pústið beint í andlitið við þessa athöfn. Stærsti ókostur þessa fyrirkomulags með púströrin er hins vegar alger skortur á farangursrými. Þú getur ekki tekið með þér nesti til dagsins nema þá að fá þér tanktösku eða aðra lausa hirslu sem þú hengir utan á sleðann. Fyrir þá sem stunda langferðir skapa púströrin einnig vandamál upp á farangursgindur. Þetta munu þó íslenskir hugvitsmenn vera búnir að leysa og hefur undirritaður t.d. heyrt að Sigurjón Hannesson “Breikkarinn” hafi hannað útfærslu sem virki vel.

Fyrir hverja?
Ýmsar efasemdarraddir hafa heyrst um ágæti RX-1. Eftir að hafa sjálfur reynt hann get ég með góðri samvisku sagt að fæstar þær sögur eiga við rök að styðjast. Enda koma örugglega flestar sögurnar frá mönnum sem ekki hafa prófað gripinn. Það er einfaldlega mjög erfitt að finna neikvæða hluti til að segja um RX-1.

Í heildina líkaði mér frábærlega vel við sleðann þótt alltaf megi finna eitthvað til að setja útá. Það eru til sleðar sem standa sig mjög vel á tilteknu sviði og myndu þ.a.l. þar standa sig betur á því en RX-1. Hins vegar hef ég trú á að þessi sleði ætti að geta hentað mjög stórum hópi sleðamanna því hann er að gera marga hluti mjög vel. Nóg afl, góð áseta, góðir alhliða aksturseiginleikar og vönduð smíði er eitthvað sem ég held að margir séu að sækjast eftir. Flott útlit og 30% minni eyðsla en félaginn á tvígengissleðanum ætti heldur ekki að skemma fyrir. Fyrir þá sem stunda langferðir um hálendið er sleði sem þessi augljós kostur og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa valið þessa leið. Ég er hins vegar sannfærður um að þeim mun fjölga.

Að lokum
Eins og fram hefur komið hér á síðunni mun Yamaha leggja aukna áherslu á fjórgengistæknina á næsta tímabili og ætlar greinilega að veðja á hana. Á þessu hafa menn mismunandi skoðanir eins og gengur. Ég segi hins vegar: Frábært! Þó ekki nema fyrir það eitt að ekki séu allir framleiðendur að matreiða sama grautinn í svipuðum skálum. Yamaha sýndi okkur með RX-1 að fjórgengistæknin er og verður alvöru valkostur í sleðum. Fyrir að vilja, þora, geta og gera fær Yamaha mitt atkvæði.
Texti: Halldór Myndir: Halldór og Sævar Sig.

Plúsar:
Yfirdrifið vélarafl
Einstakt “sound”
Áseta
Stöðugleiki í akstri
Frágangur
Aðalljós

Mínusar:
Skortur á farngurshólfi
Lyftir skíðunum heldur mikið í beygjum
Stýrið mætti vera hærra

Yamaha kynnir 2005 árgerðina

RS Rage kemur með nýju þriggja stokka fjórgengisvélinni og á 136” belti.

RS Rage kemur með nýju þriggja stokka fjórgengisvélinni og á 136” belti.

Fimm nýir sleðar með nýrri fjórgengisvél og alls níu sleðar með fjórgengisvél, fimm útfærslur af nýrri afturfjöðrun og allt að 15 kg léttari RX-1. Þetta eru hápunktarnir í 2005 línunni af Yamaha sem kynnt var með stæl í gær.

Ljóst er að Yamaha er að veðja á fjórgengistæknina og hefur þar náð verulegu forskoti á aðra framleiðendur. Spurningin er hvað aðrir gera – ná þeir að þróa tvígengisvélar sem uppfylla væntanlegar mengunarreglugerðir eða hella þeir sér af krafti í fjórgengisslaginn. Það verður tíminn að leiða í ljós. Sem stendur er Yamaha í nokkurskonar sérdeild, úrvalsdeild mundu sumir segja – og með góðum rökum, á meðan aðrir hafa eflaust aðrar skoðanir á þeim bláu.

Yfirlit um það helsta

Sem fyrr segir koma fimm nýir sleðar sem allir skarta sömu vélinni, nýrri þriggja stokka fjórgengisvél. Að rúmtaki er hún svipuð og fjögurra strokka vélin í RX-1, eða 973 cc. Aflið er rétt um 120 hö eða svipað og hjá sleðum með 600 tvígengisvél. Þar er þessum sleða enda ætlað að keppa, á hinum stóra markaði fyrir 600 sleða í Bandaríkjunum og reiknar Yamaha með að ná dágóðri sneið af þeirri köku. Sleðarnir sem um ræðir nefnast RS Vector, RS Vector ER, RS Vector Mountain, RS Rage og RS Venture.

RX-1 er áfram í boði í sömu útfærslum, þ.e. stuttur RX-1, RX-1 ER, RX Warrior og RX-1 Mountain. Allir koma þó verulega endurbættir og léttari en í fyrra.

Aðeins fimm sleðar með tvígengisvél eru nú í framleiðslulínu Yamaha. Þar má helst nefna SXViper Mountain sem kemur á nýrri gerð af skíðum og nýrri afturfjöðrun. Þeir sleðar sem nú heyra sögunni til frá því í fyrra eru stuttur SXViper, Mountain Max 700 og Venture 700.

Snjólalögum misskipt á Eyjafjarðarsvæðinu

addi

Gríðarlegur fjöldi sleðamanna var á ferð um helgina í frábæru veðri. Smári Sig. ók grimmt báða dagana og sendi meðfylgjandi upplýsingar um snjóalög.

Laugardagur

Á laugardag fórum við inn úr Glerárdalnum í Skjóldal og inn á Nýjabæjarfjall. Þar var allstaðar nægur snjór og frábært færi. Kíktum ofan í Þverdal og Villingadal. Þar er akkúrart enginn snjór og dreg ég í efa að Villingadalurinn sé fær.

Sunnudagur

Hvert fóru allir?

Hvert fóru allir?

Á sunnudag var farið á Vaðlaheiði suður og niður í Gönguskörð. Á heiðinni var hreint frábært púður og allt á kafi í snjó. Gilið niður í Gönguskörð var ágætt en snjórinn minnkaði þegar komið var vestur úr Gönguskarðinu. Héldum þá inn Garðsárdal, sem var ágætur norðantil en innan við skálann Adda tók að minnka heldur. Runan uppúr var ansi snjólaus og áin opin í miðri brekku. Þegar upp í Almenningin var komið tók aftur við hreint frábært færi.

Laglegir RMK-ar.

Laglegir RMK-ar.

Það voru ýmsir sleðamenn sem tóku þátt í helgarfjörinu. Halldór Jóns var auðvitað að prófa nýju græjuna, Polaris 800 Switchback með ýmsum aukabúnaði, og var sáttur.

Hringferð um Fjörður

Í gær skruppu þeir frændur Guðni í Straumrás og Jói Eysteins á Eyrarlandi ca. 100 km hringferð um Fjörður (Grenivík-Kaldbakur-Gil-Þönglabakki-Kaldbakur-Grenivík) með ýmsum útúrdúrum.í algjörri “bongó-blíðu” eins og Guðni sagði. Færið er frekar hart fyrir neðan ca 300 metra en samt föl ofaná til kælingar. Annars alveg frábært. Mjög magurt er á láglendi fyrir utan Gil og í kringum Þönglabakka. Guðni sendi meðfylgjandi mynd en eins og athugulir lesendur munu eflaust taka eftir þá ók Jói á “réttu sortinni” í þessari ferð. Þ.e. réttu sortinni að mati Arctic Cat mannsins Guðna en Jói hefur fram til þessa fremur verið tengdur við Polaris.

Glerárdalurinn kannaður

Fjölmargir drifu sig á sleða um helgina, enda menn orðnir spenntir að skoða allan snjóinn sem bæst hefur við síðustu daga. Í Glerárdalnum ofan Akureyrar var mikil sleðaumferð og sendi Halldór Jónsson eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Polaris af ýmsum gerðum

Það varð nú ekki hjá því komist að skoða snjóalög í næsta nágrenni Akureyrar þegar smá hlé varð á snjókomunni og vel viðraði. Við skelltum okkur fimm félagar í sunnudagsskoðunarferð í gær, 18. janúar, á Glerárdalinn. Þeir sem fóru voru. Benedikt á Bílvirkja á Polaris Indy 600 Touring, Guðlaugur Már (strákurinn Gulli) á Polaris 440, Sigurgeir í Vélsmiðjunni á Polaris XC 600, Smári á nýju græjunni Polaris RMK 800 og undirritaður á Polaris Classic Touring ofurfimmunni sem reyndar er með 700 vél með meiru. Þetta var sem sagt töluverð blanda, bæði manna og sleða, þótt sleðategundin hafi bara verið Polaris.

Hæfilega langt og gróft

Veðrið var gott, sérstaklega framan af, en skyggni varð lélegt þegar kom fram á seinni hluta dagsins fyrir myrkur. Færið var hins vegar frábært; mikill púðursnjór en það verður nú að viðurkennast að erfitt var það stundum fyrir nokkra í hópnum. Það leyndi sér ekki að gott var að hafa hæfilega langt og gróft belti og ekki spillti fyrir að vélarstærðin væri í efri flokknum og hestöflin 130 til 150. Svo var auðvitað líka gott að þyngdin á sleða og manni væri hæfileg. Hæfilegt er auðvitað teygjanlegt og gildir ekki það sama um alla. Gott reyndist að hafa einn ungan og hraustan til að koma sumum sleðunum upp erfiðustu brekkurnar. Skrýtið hvað þeir láta betur að stjórn og komast meira hjá sumum; eða kannski er það bara ekkert skrýtið!

Fjallabak til baka

Þrömin reyndist flestum erfið svo fara varð “fjallabak” til baka. Ekki var það átakslaust en allt hafðist farsællega að lokum. Á heimleiðinni var stoppað við Lamba og seinna kaffið og kakóið drukkið og reynt að tæma nestisboxin. Tókst það hjá sumum en ekki öllum. Undirritaður mun því keppast við að tæma nestisboxið næstu daga þannig að það verði tilbúið fyrir nýja áfyllingu í vikulokin. Ekki er ólíklegt að fararskjótinn verði þá nýr Polaris, með 800 vél, 155 hestöfl, gróft 144″ belti og þyngd sleðans verði í neðri kantinum. Þá er eins gott að ökumaðurinn standi sig, því ekki verður sleðanum um kennt, ef strandað verður í miðri brekku á sama tíma og aðrir komast á toppinn. Það voru þreyttir en ánægðir ferðafélagar sem skiluðu sér heim aftur síðla dags.

Ófært á jökul upp frá Gæsavötnum

Smári Sig. fór ásamt fleirum á jeppa inn í Gæsavötn um helgina. Að hans sögn er lítill snjór þar í kring og ekki hægt að komast á jökul upp frá Gæsavötnum. Farið var upp Bárðardal og að sögn Smára var ansi gaman að keyra frá Fossgilsmosum í Laugafell, töluvert púður og þungt færi. Frá Laugafelli er ansi rýrt að sjá til vesturs. Færið frá Laugafelli var hart og austur fyrir Bergvatnskvíslina er bara fínn snjór. Mjög rifið og autt er að sjá norðan undir Tungnafellsjökli. Komið var við hjá gígnum Bokka, sem væntanlega er ekki mikill ferðamannastaður alla jafna, en vert er að sögn Smára að kíkja á hann á veturna þegar hægt er að komast að honum.

Sem fyrr er enginn snjór í Gæsavötnum nema rétt í kringum hurðina á skálanum. Sökum snjóleysis er ekki hægt að fara á jökul við Gæsavötn. Þar er ekki kominn nægur snjór í jökulgarðana og ruðningana sem yfirleitt fyllast að vetri. Eina ráðið er að fara upp hjá Kistufelli eða Köldukvíslarjökulinn. Smári og félagar fóru inn á jökul við Kistufell. Það var mjög fínt og færið á jöklinum flott – púður yfir öllu. Meðfylgjandi myndir tók Smári í ferðinni.