Víða gott sleðafæri en mætti vera samfelldara á köflum

Í gær, 2. nóvember, fóru fjórir harðsnúnir kappar á sleðum upp úr Eyjafirði og inn í Laugafell. Er þetta eftir því sem næst verður komist fyrsta sleðaferð vetrarins inn á hálendið.

Fram Eyjafjarðardal

Það voru þeir Hreiðar í Vín, Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs, Smári Sig. og síðuhöfundur sem lögðu af stað frá Vín um kl. hálf eitt á laugardaginn. Veðrið var eins og það getur best orðið, logn, sólskin og hiti um frostmark. Ekið var með sleðana á kerrum sem leið liggur fram Eyjafjarðardal og skammt framan við Vatnahjallann voru fákarnir teknir niður. Leiðin fram dalinn sóttist vel. Snjó hafði skafið í niðurgrafinn veginn og víða hægt að spretta úr spori. Þó hafði ekki skafið það mikið að hliðhalli væri til vandræða og þurfti hvergi að grípa til skóflunnar, sem þó var höfð ofarlega til vonar og vara.

Þræðingar er upp kom

Þegar upp á hálendið var komið blasti dýrðin við og mikil hamingja hjá flokknum. Ekki var það þó svo gott að hægt væri að aka beint af augum heldur varð að þræða lægðir og veginn þar sem það var hægt. Þóttust sumir hafa orðið varir við að hafa steytt á steini undir snjónum en það fékkst þó ekki staðfest. Satt best að segja voru menn ekki nema rétt hæfilega bjartsýnir að fært væri í Laugafell enda virtist mun meiri snjór að sjá austur á bóginn. Það leið þó ekki löng stund áður en rennt var í hlað í Laugafelli við mikinn fögnuð. Var nú sest inn í Hjörvarsskála og drukkið miðdegiskaffi ásamt því að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Allt virtist í góðu standi þar efra og eftir dágott stopp var ákveðið að renna í Landakot.

Heldur var nú færið rýrt á köflum og víða grjót undir en þó sóttist ferðin vel. Skrifað var í gestabók og síðan haldið áleiðis að botni Eyjafjarðardals. Var nokkuð farið að bregða birtu enda kostaði nokkrar þræðingar að finna færa leið síðasta spölinn að slóðinni frá því fyrr um daginn. Það hafðist þó allt að lokum og var þá leiðin greið niður dalinn í bílana. Var komið þangað um kl. 18:30 og góð ferð á enda. Var mikil tilhlökkun í hópnum að gorta af ferðalaginu við félagana. Niðurstaða ferðarinnar í stuttu máli var sú að víða væri gott sleðafæri en mætti þó vera samfelldara á köflum. Texti: HA – Myndir: Smári Sig.

Vor- vorferð og vornætursiglingar

Eitt fagurt vorkvöld nú á dögunum ákváðu nokkrir sprækir sleðamenn að bregða sér í bað í Laugafelli og koma heim aftur um kvöldið. Auglýst var brottför kl 17:00 frá Akureyri og var meirihlutinn mættur á tíma, enda með grun um að farið yrði af stað á auglýstum tíma. Það stóð líka heima, þó enn vantaði formanninn. Í Kaldbaksdalnum voru teknar nokkrar brekkur til prufu meðan beðið var, færið blautt en nægur snjór. Það eru ár og dagar síðan “Dalurinn” hefur verið svona góður um mánaðamótin maí-júní.

Í þriggja stafa tölu

Ekki varð það lakara þegar upp var komið. Sól skein í heiði, færið flott, nægur snjór og menn misstu hraðamælinn fljótt í þriggja stafa tölu. Engin bönd héldu og formaðurinn varð að sjá um sig sjálfur. En Guðmundur vinur hans ákvað þó að bíða því hann “ratar ekkert formaðurinn”.

Mikið vatn í mótor

Strikið var tekið eftir eyranu, GPS algerlega óþarfur og ekki áð fyrr en komið var í Bergland. En þá vantaði aftan á hópinn. Eftir stundarbið var ákveðið að fara til baka og sjá hverju sætti. “Ætli einhver Kötturinn hafi geyspað golunni,”? var sagt. Viti menn í fyrsta og eina pollinum sem komið var að sást kappakstursdrengurinn á kafi og einn gamlinginn að drag´ann upp. Mótorinn fullur af vatni. Merkilegt hvað kemst mikið vatn í þessa 600 mótora. Þegar drengurinn var kominn á þurrt ríða formaðurinn og Guðmundur í hlað og fóru mikinn.

Sögg öxulskipti

Eftir stundar stopp þótti tími til að fara lengra. Snjórinn minkaði, vatnið óx og melarnir urðu fleiri. En engin vandamál á ferðinni – ekki enn. Tekin stefna á 200-300 metra langann fjörð, menn stilla hver á sitt prógram og sigla fjörðinn endilangann eða fóru eitthvert fjallabak með tilheyrandi stökkum. Allir komast yfir, en hvað, bara rétt upp á bakkann. Demo sleðaútgáfan hefur enn stoppast með brotinn driföxul, enda passar það búið er að aka um 300 km á þessum öxli. Lengur endist þeir ekki. Kappakstursmeistarinn sendur norður fjall og í bæinn til að sækja nýjan öxul. Honum er naumt skammtaður tíminn til fararinnar svo gott var að byrja að rífa strax. Það vakti furðu hve fumlaust menn gengu til verka við rifrildið. Rétt eins og menn hefðu gert þetta áður. Ekkert vafðist fyrir mönnum og allar “mutteringar” og boltar losaðir.

Í Laugafell

Upp úr miðnætti kom nýr öxull og sami kraftur í viðgerðarliðinu. Þeir gefa formúlu teaminu ekkert eftir. Heldur urðu melirnir fleiri og vatnið meira þegar sunnar dróg. Sem betur fer hafa menn farið þetta fyrr og og fundu brátt réttu lænurnar sem gáfu snjó alla leið í Laugafell. En þá var klukkan orðin 03:00 og tími til að snúa heim að nýju því sumir áttu að mæta til vinnu kl 08:00. Á þessum tímapunkti skiptu menn liði. Sumir fóru í koju og ætluðu að bíða morguns með brottför en hinn hópurinn var kominn í bæinn rétt um kl. 05:30, svona rétt náðu sturtu og morgunkaffinu fyrir vinnuna.

Missti af morgunbaðinu

Segir fátt af hinum sem sváfu eins og englar nema Guðmundur sem gat ekkert sofið fyrir einhverjum tilboðshugsunum. En svo mikið er víst að hann missti af morgunbaðinu og það þurfti að hrista hann um hálfellefu til að koma honum á lappir svo hann yrði ekki læstur inni í húsinu. Tekinn var útúrdúr á heimferðina með viðkomu í Landakoti. Þar er nægur snjór og hreint engin vandamál í gangi.

Texti: Smári Sig. Myndir: Smári Sig og Halldór Jóns

Viðburðarík vorferð á hvítasunnu 2002

Síðastliðin hvítasunnuhelgi bauð upp á hið ágætasta veður um allt land og því notuðu fjölmargir tækifærið og drifu sig á fjöll. Þeirra á meðal var hópur sleðamanna úr Eyjafirði sem átti einkar viðburðaríka helgi í stórgóðri ferð um Vatnajökul og víðar. Óvenju miklar bilanir settu mark sitt á ferðina en þær komu þó ekki í veg fyrir að hún væri kláruð með sóma að kvöldi hvítasunnudags, eins og að var stefnt í upphafi.

Snemma byrja vandræðin

Ferðin hófst um miðjan dag á fimmtudegi þegar Hreiðar formaður, Smári Sig., G. Hjámarsson og Júlli í Brynju lögðu upp af Öxnadalsheiði. Var ferðinni heitið í Gæsavötn en þangað ætlaði afgangurinn af hópnum einnig að koma seinna um kvöldið. Segir fátt af ferð þeirra félaga þar til þeir fara að nálgast Laugafell. Þá neitaði sleði íssalans úr Brynju að fara lengra enda hitinn á vélinni orðinn mun meiri en góðu hófi gegndi. Kom í ljós að kælivatnið var allt farið lönd og leið með tilheyrandi óæskilegum afleiðingum fyrir vélina. Var ljóst að sleðanum yrði ekki ekið lengra í þessari ferð. Hringdi nú Júlli heim í Fíu sína og sagði farir sínar ósléttar. Fía miskunaði sig yfir karlinn og féllst á að lána honum sinn sleða svo hann gæti haldið ferðinni áfram. Var í snarhasti safnað saman harðsnúnum flokki manna til að færa Júlla sleðann upp í Laugafell og draga þann úrbrædda heim.

Sauðburður í sveitinni

Segir nú af hinum hluta hópsins sem ætlaði í umrædda ferð. Þar var um að ræða Benna á Bílvirkja, feðgana af Vélsmiðjunni, Dórana minni og meiri, Sævar GPS-sala og Jósavin byggingafulltrúa. Uppgefin brottför úr bænum var kl. 8 um kvöldið og stóðst það all vel. Upp á Öxnadalsheiði var komið laust fyrir 9 og þá kom ljós að Jósavin yrði seinn fyrir. Hafði karl farið heim úr vinnunni snemma dags til að skrúfa í græjunni, enda hafði hún komið heim með brotinn driföxul úr síðustu ferð. Að auki var sauðburður byrjaður í sveitinni og voru bæði Grána og Móra að bera. Menn gerðu sig nú klára og biðu eftir karlinum. Var tíminn m.a. drepinn við að skoða nýtt litasjónvarp sem GPS-salinn hafði tekið með. Jósavin skilaði sér síðan auðvitað á endanum. Voru nú höfð snör handtök að drífa sig af stað upp Kaldbaksdalinn, enda verulega farið að líða á kvöldið og ljóst að ekki yrði háttum náð snemma í Gæsavötnum að þessu sinni. Raunar skipti það litlu málið því veðrið var hreint einstakt, eins og það getur best orðið á vorin.

Snúinn dempari og laust lok

Ekki höfðu menn ekið lengi þegar byggingafulltrúinn stoppaði. Í ljós kom að asinn á karli hafði verið svo mikill við að setja búkkann undir sleðann fyrr um daginn að dempari snéri vitlaust og rakst niður í beltið. Í Litlakoti var því stoppað, sleðanum velt á hliðina og losað upp á búkkanum þannig að hægt væri að koma demparanum í rétt horf. Stutt frá Laugafelli mættum við síðan þeim sem voru á heimleið með bilaða sleðann hans Júlla. Sögðu þeir hann bíða í Laugafelli ásamt tveimur öðrum og yrði samferða okkur austur í Gæsavötn.

Í Laugafelli var ekið beint að bensíntönkunum og allar holur fylltar. Enginn var þó Júlli á staðnum og kom í ljós að honum hafði leiðst biðin og lagt af stað í Gæsavötn. Var nú hælum slegið við rass og lagt af stað í miðnæturblíðunni. Sóttist ferðin all vel en þó sótti ofurfimman hjá Dóra í að losa tappann á kælivatnsboxinu og þar með losa af sér kælivatnið. Þessu mátti þó öllu redda og á fjórða tímanum var ekið í hlað á Gæsavötnum. Var þá ekkert að gera nema drífa sig í koju enda stutt til morguns, ekki síst þar sem menn vissu af Smára Sig. í húsinu.

Á Hnjúkinn

Föstudagsmorgun rann upp bjartur og fagur. Fóru menn sér að engu óðslega í morgunblíðunni. Sinntu morgunverkum af kostgæfni og snæddu nýorpin gæsaregg. Um 11 leytið var síðan lagt af stað upp á jökul og stefnt á Hvannadalshnjúk. Færið á jöklinum var lengst af gott og allt lék í lyndi. Tekinn var sveigur upp að Grímsvötnum en þó ekki farið ofan í vötnin þar sem Hnjúkurinn var hreinn og tælandi í fjarska. Heldur varð færið ósléttara þegar komið var upp úr Hermannaskarði og norðan í Snæbreiðinni, nánast upp við topp, vildi nýi 900 kötturinn ekki fara lengra. Driföxulinn kominn í tvennt og allt stopp. Nú voru góð ráð dýr. Að vísu hafði varaöxull verið tekinn með að heiman en var skilinn eftir í Gæsavötnum Þangað voru 100 km en þó ljóst að eina leiðin til að halda för áfram væri að sækja öxulinn. Því lögðu tveir af stað til baka í Gæsavötn á meðan afgangurinn af hópnum gekk á Hvannadalshnjúk. Útsýnið af toppnum sveik engan og mikill fögnuður að vera staddir á hæsta tindi landsins, enda sumir ekki komið þar áður.

Þyrlumenn í golfi

Eftir að hafa virt landið fyrir sér um stund var haldið aftur niður. Þá gerðist nokkuð einkennilegt. Eins og upp úr þurru birtist herþyrla og eftir að hafa sveimað um stund umhverfis Hnjúkinn settist hún efst á Snæbreiðina. Biðu menn ekki boðana, ræstu sleða sína og brunuðu á staðinn. Var helst haldið að þyrlumenn ágirntust 900 græjuna sem eins og fyrr segir hafði verið skilin eftir upp undir toppi. Sá ótti reyndist ástæðulaus því í ljós kom að þarna voru á ferð varnarliðsmenn af Keflavíkurflugvelli, komnir í þeim tilgangi að spila golf. Eftir að hafa slegið nokkrar kúlur út á jökulinn svifu þeir á braut og voru horfnir jafn skyndilega og þeir komu.

Sleðaviðgerð og húsbygging í 2.000 m hæð

Var nú tekið til við að rífa 900 sleðann og bíða eftir þeim sem fóru að sækja öxulinn. Styttu menn sér m.a. stundir við að grafa snjóhús all mikið. Verkið sóttist reyndar seinna en ella þar sem bæði formaður bygginganefndar Eyjafjarðar og byggingafulltrúinn voru með í för. Sérstaklega var byggingafulltrúinn erfiður. Sagði engar samþykkrar teikningar af snjóhúsinu liggja fyrir, vatn til brunavarna væri ekki til staðar eins og reglugerð kvæði á um, óvíst væri um burðarþol og hlutverk hússins væri óskilgreint. Heimtaði hann stöðugar úttektir á byggingartíma sem töfðu verkið nokkuð. Í þann mun sem öxullinn renndi í hlað var húsið þó orðið það stórt að þar gátu sex menn setið með góðu móti í skjóli fyrir nöprum austanvindinum. Eftir að varahlutir voru komnir á staðinn kepptust menn sem mest þeir máttu við að gera við og kom sér sannarlega vel að hafa bifvélavirkja með í för.

Óvæntur næturstaður

Nokkuð var nú farið að líða á kvöldið og enn óvíst með næturstað. Ýmsir möguleikar voru ræddir en ljóst þótti að til að geta ekið af krafti næstu tvo daga þyrfi að komast í bensín, annað hvort á Skálafellsjökli eða láta ferja það áleiðis í Snæfell. Það var þá jafnframt líklegasti næturstaðurinn þótt þangað væri langt að aka. Stutt var í nýjan skála Jöklarannsóknarfélagsins í Esjufjöllum en hann var bókaður um kvöldið. Smári vissi að þar var m.a. um að ræða Villa sem var á Hveravöllum og var hringt í hann til að tryggja að heitt væri á könnunni þegar við ækjum um Esjufjöllin. Þá kom í ljós að Villi og félagar höfðu orðið seinir fyrir og voru enn staddir á þjóðvegi 1 einhvers staðar á Suðurlnadi. Því var ljóst að þeir myndu ekki ná í skálann um kvöldið og við gátum því hlaupið í skarðið. Kættust menn nú verulega enda dagurinn þegar orðinn langur og flestir lítið sofnir frá nóttinni áður. Sprett var úr spori niður í Esjufjöll og þar rennt í hlað hjá hinum nýja og glæsilega skála. Svo skemmtilega vildi til að hluti hópsins hafði verið þarna á ferð réttum fjórum árum áður, ekki löngu áður en gamli skálinn fauk. Nú var slegið upp veislu með skinku, brúnuðum kartöflum og ýmsu góðgæti og upp úr því sofnuðu flestir fljótlega.

Loksins komust við í bað

Enn var sama blíðan þegar vaknað var á laugardagsmorgninum og borðuðu sumir morgunmatinn léttklæddir á dyrahellunni. Esjuföll eru einstakur staður, ekki síst á vordegi sem þessum, og nutu menn svo sannarlega útsýnisins. Síðan var lagt af stað áleiðis á Skálafellsjökul. Á leiðinni mættum við m.a. miklum flokki Ski-doo sleða sem hélt til á Skálafellsjökli um hlelgina í ferð á vegum umboðsins. Niður undir hótelinu var mikið um að vera en þar var þá verið að taka upp auglýsingamynd fyrir nýja Hummerinn. Var ekki laust við að sveitamenn úr Eyjafirði væru nokkuð kjálkasíðir út af öllu tilstandinu sem virtist þurfa í kringum þetta. Nú var tankað og spáð í næsta legg ferðarinnar. Var ákveðið að taka stefnuna á Kverkfjöll og miða við að gista í Sigurðarskála. Litlu mátti reyndar muna að við misstum einn mann, en sá var orðinn einkar áhugasamur um allar þær freistingar sem Skálafellsjökull hefur upp á að bjóða. Hann náðist þó með fyrir rest. Nú var sú staða raunar komin upp að flokkurinn skiptist í tvennt. Þrír tóku strikið heim á leið þar sem tveir ætluðu að vera komnir heim um kvöldið og einn að sameinast konu sinni í Laugafelli.

Afgangurinn stefndi hins vegar í bað í Hveragili og var nú ekið greitt, enda jökulinn eggsléttur. Heiti lækurinn brást ekki vonum manna og ómuðu ánægjustunurnar um allt Hvreagil þegar menn skriðu ofan í. Eftir þetta þrifabað var síðan þrædd leið í gegnum Kverkfjallaranann og í Sigurðarskála. Nú hófst undirbúningur mikillar grillveislu sem endaði, eins og að var stefnt, með miklu áti. Eftir matinn fengu menn sér ýmist göngutúr eða tóku lífinu með ró heima í skála. Var snemma gengið til náða og sofið vel.

Enn brotinn öxull

Ekki breyttist veðrið og að morgni hvítasunnudags var enn vaknað í glaðasólskini. Eftir að hafa tekið saman og gengið frá skálanum var fyrst ekið að íshellinum og síðan rennt upp Löngufönn, sem gekk áfallalaust. Nokkur strekkingur var uppi á brún jökulsins en þó litu menn á Hverasvæðið og tóku síðan stefnuna inn á jökul. Planið var að fara á Bárðarbungu og þaðan niður Köldukvíslarjökul ofan í Vonarskarð. Var greitt ekið og lítið stoppað fyrr en upp á Bárðarbungu. Kom þá í ljós að heldur hafði fækkað í flokknum. Eftir snögga talningu komust menn að því að það vantaði Benna og Dóra Jóns. Loks kom Benni og bar þær fréttir að ofurfimman væri með brotinn driföxul inn á miðjum jökli. Nú var engum varaöxlum til að dreifa og sleðinn ekki hæfur til dráttar. Í Gæsavötnum voru hins vegar tvær kerrur og nú þeystu tveir þangað til að sækja þær en hinir óku aftur til baka til að veita Dóra félagsskap og undirbúa flutning til byggða.

440 hestöfl dugðu vel

Þegar kerran var komin á staðinn var dregin upp járnsög og rekkverkið sagað ofan af henni. Síðan var skíðunum snúið við á sleðanum þannig að bogni endinn vísaði aftur og hann síðan settur afturábak með beltið upp á kerruna. Þannig var hann dreginn niður í Gæsavötn. Þar var byrjað að rífa en fljótlega kom í ljós að meira var skemmt en bara driföxullinn og því sýnt að ekki yrði gert við gripinn á fjöllum. Því var ákveðið að prófa að draga sleðann áfram niður á Öxnadalsheiði, þótt færið væri orðið ansi blautt og snjórinn mjög farinn að minnka. Fyrst var kerran hengd aftan í 700 Venturuna hjá Smára og hann síðan bundinn aftan í 900 köttinn hans Sigurgeirs og 1000 köttinn hjá Guðmundi. Þannig var búið að beita um 440 hestöflum fyrir kerruna, enda sóttist ferðin vel. Ekið var í Sandbúðir, þaðan beint í Bergland og sem leið lá niður á Öxnadalsheiði. Þar endaði ferðin formlega og stóð á endum að um korteri eftir að komið var í bílana lagðist þokan yfir en annars hafði ekki dregið ský fyrir sólu allan túrinn. Myndir og texti: Halldór Arinbjarnarson.

Blautt en gott mót í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjallamótið um liðna helgi verður mörgum minnistætt. Sem kunnugt er var ansi blautt á fjöllum þessa daga og setti það mark sitt á ferðalagið. Elín H. Gísladóttir, stjórnarmaður í EY-LÍV, sendi eftirfarandi ferðasögu og myndir.

Ævintýrið hóft fyrir alvöru á föstudagskvöldið. Ekið var frá Laugafelli í Ingólfsskála og var veðrið og skyggnið frábært. Í samfloti voru 25 sleðar og voru þar Akureyringar, Húsvíkingar og Austfirðingar á ferð saman. Frá Ingólfsskála var stefnan tekin beint á Kerlingarfjöll enda farið að dimma. Farið var yfir jaðar Hofsjökuls og var færið á jöklinum var dálítið úfið og hart.

Í myrkri og krapa

Þegar komið var niður af jöklinum stutt frá Kerlingarfjallaskála var komið myrkur og þar lentum við í miklu krapi og bleytu. Sátu allt upp í 8 sleðar fastir í krapanum samtímis. Sumir komust klakklaust yfir aðrir misstu sleðana niður nokkrum sinnum. Í stuttu máli má segja að fyrstu menn komu í Kerlingarfjallaskála um kl. hálfeitt en þeir síðustu ekki fyrr en um hálf sex um morguninn. Var þá ekki bara búið að koma okkar hópi í hús heldur einnig hópi af Sunnlendingum sem einnig var í brasi í krapinu. Að vísu voru nokkrir sleðar skildir eftir í krapinu og ákveðið að sækja næsta dag. Á laugardagskvöldið var svo heljar veisla.

Góð heimferð

Ræs var snemma á sunnudag, etin morgunmatur, pakkað, þrifið og lestað. Veðrið var úrhellis kraparigining þegar lagt var af stað. Nú sást hvar vatnið svo hægt var að krækja framhjá stærstu krapapyttunum. Strax eftir að komið var upp í Hofsjökulinn fór veðrið að skána og var sólin mætt áður en kom að Ingólfsskála. Fengum við frábært veður það sem eftir var leiðarinnar. Komið var niður á Öxnadalsheiði kl 17.30 um kvöldið eftir mikið fjallaævintýri sem lengi verður munað.

Kerlingarfjallaferð 1987

Nú þegar fólk er sem óðast að búa sig á mót í Kerlingarfjöllum er ekki úr vegi að rifja upp fyrstu fjallaferð síðuhöfundar en hún var einmitt á landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum veturinn 1987. Á þeim 15 árum sem síðan eru liðin hefur ýmislegt gerst í sleðamálum og útbúnaði fjallafara. T.d. er hætt er við að Kawaski Inwader sem undirritaður ók stoltur í þá daga þætti varla samkeppnisfær í dag.

8 tíma í Laugafell

Lagt var upp frá Þormóðsstöðum áleiðið í Laugafell. Var þá nokkuð áliðið dags og veðrið ekkert sérstakt. Hópurinn var nokkuð stór, væntanlega um 15 sleðar. Í Þormóðsstaðadal mætti mönnum mikill lausasnjór og gekk á með miklu brasi. Tók ferðin upp í Laugafell eina 8 klukkutíma og höfðu þá margir svitadropar fallið. Menn höfðu sameinast um kaup á einu lórantæki og með hjálp þess var ekið beint á skálann, sem þóttu nánast galdrar.
Um morguninn var þungt yfir en þó úrkomulaust. Ekið var austur með Hofsjöklií nokkrum renningi en veðrið skánaði er sunnar dró. Er komið var í Kerlingafjöll var komið hið besta veður. Daginn eftir var m.a. farið á Langjökul í mikilli blíðu og síðan heim daginn þar á eftir. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni en hægt er að smella á þær til að sjá þær stærri.

Lögguferð 2002

Smári Sig. sendi eftirfarandi ferðasögu en hann og Hreiðar í Vín fóru í síðustu viku árlega sleðaferð með hópi lögreglumanna frá Akureyri.

Það var vel stemmdur hópur sem lagði upp Þormóðsstaðadal. Heldur dróst nú brottför þar sem undirritaður var bara “hálfklár ” þegar leggja átti af stað. Skórnir stóðu enn tilbúnir í bílskúrnum heima. Ferðaáætlun var að fara í Gæsavötn og gista þar. Þegar upp var komið var frekar hryssingslegt veður en formaðurinn (Hreiðar) teymdi hópinn af röggsemi. Í Landakoti tóku löggurnar meira bensín til fararinnar. Geir “Trukkdriver” mátti draga eina 150 lítra á þotuna og varð ekki meint af. Skotið var á fundi og planinu breytt, ákveðið að fara í Laugafell þar sem útlit var fyrir enn hvassari suðaustanátt í Gæsavötnum. Menn voru bara kátir með þennan kaldaskít, “bara hressandi,” sagði Steini Pjé.

Langur dagur

Eftir morgunbaðið og um áttaleytið var kominn tími til að halda austureftir. Menn hressir í bragði (þó svo Óli hafi nánast ekkert sofið frekar en venjulega) enda skein sól í heiði. Stoppað var augnablik í Sandbúðum og svo haldið austur í Gæsavötn þar sem tankað var, þotan skilin eftir og tekið smá kaffitár. Ákveðið var að prófa nýja leið austur, fara alveg upp að jökli og meðfram honum allt að Kistufelli. Færið reyndist frábært og veðrið ekki lakara. Frá Kistufelli var ekið með jökulstálinu í rennisléttu nýsnævi. Losnaði þá um bensingjöfina hjá flestum en aðrir vorkendu sleðanum að snúast svona hratt og héldu sig á “löglegum” hraða, þrátt fyrir heimildir um annað. Menn höfðu aldrei keyrt jafnt langt á svona sléttum grundum, eða eina 40 km. Eftir stutt kaffistopp í Sigurðarskála var kominn tími til að fara með liðið í helgidóminn. Baða átti línuna í Hveragili. Farið var upp skriðjökulinn og gilin þrædd austur yfir Kverkfjöllin. Heitilækurinn tók hlýlega á móti okkur eftir frábærann sprett. Eftir þrifabað var glímt við nokkrar brekkur og þær auðvitað sigraðar. Því næst var haldið niður með Kverkárnesi allt niður í Hvannalindir og í Grágæsadal. Þar fór brytinn í búninginn og galdraði fram kvöldmat og tilheyrandi að hætti Steina Pjé. Kvöldvakan var stutt – nokkrar smásögur og fyrri frægðarverk. Langur dagur var að baki og bensínfingurinn aumur.

Áfram skein sólin

Næsti dagur heilsaði eins og sá fyrri með sól, logni og hita. Sumir þurftu að ganga á fund “páfans” og leystu sín mál en aðrir lögðu ekki í skriftir, sögðust ekki þurfa þess. Japanski búðingurinn steikti meiðana á fyrstu metrunum en hresstist fljótt eftir smá kælingu. Aðrir víxluðu kertum, settu aftur gömlu ónýtu kertin í og allt lék í lindi. Farið var niður í Krepputungur, sem eru byrjaðar að blána og skoðað ættartal goðanna við Jökulsá á Fjöllum. Þaðan var farið í Dreka og lagfærður opinn, skemmdur gluggi. Kíkt var í Víti og farið suður Öskjuna, yfir Dyngjuskarð, niður hjá Kattbeking, yfir Trölladyngju og í Gæsavötn. Þar var þotan tekin með, heldur léttari enn fyrr. Brennt var í Laugarfell og nú fyrst fór veður að breytast, eða öllu heldur birtan, því komin var snjóblinda. Þegar vestar kom mætti okkur þoka en samt var hlýtt í veðri. Í Laugafelli var tekið enn eitt þrifabaðið, með svo miklum tilþrifum að Dunni nánst skar af sér fótinn. Var þetta skráð sem vinnuslys. Eftir baðið og plástrun, nýbakað brauð og kaffi, var haldin sama leið til baka niður í snjóléttan Þormóðsstaðadalinn og enn í sömu þokunni. Þar beið yfirvaldið sinna manna og flutti í bæinn.

Eyfirskir sleðamenn latir um páskana

Eyfirskir sleðamenn voru ekki duglegir að ferðast um páskana og hefur síðuhöfundur aðeins haft spurnir af einum sex manna hópi sem fór í alvöru fjallaferð. Lagt var upp um miðjan dag á skírdegi og haldið í Gæsavötn þar sem gist var fyrstu nóttina í góðu yfirlæti. Þaðan var ekið daginn eftir áleiðis í Sigurðarskála. Talsverðar þræðingar eru um hraunið frá Gæsavötnum um Dyngjuháls og Urðarháls en fyrir framan Dyngjujökul er nokkuð góður snjór. Frá Sigurðarskála var ekið í Hvannalindir og þaðan í Grágæsadal. Þar hugðust menn búa um sig en þá birtist flokkur jeppamanna sem var með skálann bókaðan. Sleðamenn slógu því hælum við rass og óku vestur í Kistufell til að gista. Daginn eftir, á laugardegi, var síðan haldið heim á leið með viðkomu í Laugafelli. Mikið snjóaði á laudardaginn og var ekið niður Þormóðsstaðadal í gríðarlegum lausasnjó. Að sögn Sigurgeirs á Vélsmiðju Steindórs, sem fór í þessa ágætu ferð, eru snjóalög víðast sæmileg þótt menn hafi vissulega upplifað bjartari tíma í þeim efnum. Nýi 900 kötturinn virkaði fínt og er eigandinn alsæll með gripinnn. Nokkuð var um jeppamenn á fjöllum um páskahelgina en þeir félagar urðu ekki varir við að neinir aðrir sleðamenn hefðu hætt sér úr byggð. Er vonandi að menn fari nú að hysja upp um sig buxurnar, eða réttara sagt sleðagallann, og drífa sig á fjöll. Nú eru tveir bestu mánuðir ársins framundan og um að gera að nota þá vel.

 

 

Frábært veður á hálendinu í gær

Fjölmargir drifu sig á fjöll í gær í frábæru veðri. Sævar í Haftækni sendi eftirfarandi sögu og myndir af ferð félaga úr Ungmennafélaginu sem fóru í Laugafell og víðar.

Veðurspáin var frábær, hörkufrost og léttskýjað. Brottför úr “Vínardalnum” var einum og hálfum tíma eftir útgefinn brottfarartíma og telst það “normal”. Leiðangursmenn voru Hreiðar, Jósavin, Eiríkur, G.Hjálmars. Sigurgeir, Jón Björns og Sævar Sig.

Þumbast var fram Sölvadalinn með sleðana á kerrum en hæpið er það borgi sig. Betra er að taka af neðar og keyra fram dalinn. Kerhólsöxlin (Kerhólskambur segja heimamenn) var eins og best verður á kosið. Þó er grjót uppúr efst en samt allt í lagi. Uppi á fjallinu er snjórinn harður og rifinn og í heildina talið er lítill snjór miðað við meðalið. Ekið var í slóð þeirra Landakotsjarla sem voru að moka frá húsinu þegar við komum að. Frostið svo mikið að það var bara mokað frá efri hlera. Áfram var haldið og voru þræðingur þegar nálgaðist Laugafell, eins og að vori, en þó var nýfallinn snjór þegar komið var heimundir.

Í Hjörvarsskála var hressing og nýja eldhúsinnréttingin fékk lof og last eins og gengur. Að loknu kakói var tankað og þurfti G.Hjálmars áfallahjálp eftir að hafa séð hvað nýi Þönderinn eyddi (50% meira en Jamminn). Sennilega er það bara nýja 28″ Garmin tækið með Íslandskortinu sem er svona eyðslufrekt. Skyndilega birtist Björn Hesjuvellingur með fjöldan allan af hestöflum prýddum fjallaförum sem voru á leið í Laugafell. Var þarna haft stutt stopp, spé og spaug en allir voru að njóta náttúrunnar. Eftir orkulestun ókum við suður á bóginn í “höstu” færi og var stoppað á Fjórðungsöldu. Þar sást til allra enda á hálendinu í heiðríkjunni. Frostið líklega á þriðja tuginn en það var létt yfir mönnum. Svona áttu dagarnir að vera. Því næst var ekið í Sandbúðir. Þar sem Greifinn af Sandbúðum var með í för var boðið upp á KEA Saxbauta úr dós, sem allir reyndar afþökkuðu. Ákveðið var að gista ekki á hálendinu í þessari ferð. Því var ekið sem leið lá í Galtaból og þaðan í Landakot. Þar var enginn maður, jarlarnir farnir heim, enda var sólin sest og hrímþoka lögst yfir. Smá hressing var tekin fyrir lokasprettinn og nokkrar stórhríðarsögur rifjaðar upp.

Formaðurinn ákvað að fara Þormóðsstaðadal í stað þess að fara sömu leið og við komum upp. “Bara að gá.” Ekið var sem leið lá, allt í rútum og engin vandræði, enda sumir hér búnir að fara þetta yfir þúsund sinnum. Þegar við komum niður í daldrögin mýktist færið og varð frábært, silkifæri “saggði” formaðurinn með norðlenskasta hreim sem til er. Þó voru göt á ánni og þurfti að beita ökuleikni. G. Hjámars sagði að Jósavin þyrfti að borða meira til að geta beitt Panterunni í hliðarhalla. Ekin var hámarksferð fyrir minn smekk, og var það frábært. Komum niður að Þormóðsstaði þar sem allt er í myrkri og kulda og fannst mönnum þetta dapurlegt hvernig byggðin er að fara. Loks var keyrt niður dalinn og að bílunum. Ferð lokið.

Ein bilun kom upp í ferðinni. Búkkahjól datt undan hjá Hreiðari. Sigurgeir greip það upp á ferðinni, Jósavin átti bolta, Eíríkur átti rétta lykilinn og hjólið sett undir. Af þessu varð þriggja mínútna töf. Þetta var frábær ferð, stutt, erfið en góð.

Ski-doo kynnir nýja vél

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Nýja 800 SDI-vélin frá Ski-doo

Ski-doo hefur nú kynnt alla 2003 línuna fyrir blaðamönnum vestanhafs. Þegar hefur mikið verið fjallað um að nýu REV-sleðana en það er ýmislegt annað forvitnilegt að gerast. Það á einkum við um vélamálin og það jafnvel þó að ekki sé kynnt til sögunnar fjórgengisvél sem er samkeppnisfær í afli við RX-1 frá Yamaha.

Hæst ber nýja 800 tvígengisvél sem nefnist SDI (Semi-direct injection) og er eldsneytiskerfi hennar öðruvísi úr garði gert en tíðkast hefur í vélsleðavélum. Nýjungin felst í því að tveir spíssar á hvorum strokki úða réttri blöndu af bensíni og olíu inn í strokkinn. Allt byggir þetta á tölvustýringu, sem segja má að sé hjarta vélarinnar. Tölvustýringin er stöðugt mötuð á upplýsingum frá skynjurum sem taka m.a. mið af hitastigi, loftþrýstingi, inngjöf og snúningshraða vélarinnar. Ásamt því að stjórna innspýtingunni sér tölvustýringin m.a. um að stilla kveikjutímann og pústventlana þannig að úr verður einn heildarpakki. Þessi nýja vél á að menga 50% minna en forverinn, vera 25% sparneytnari og skila fleiri hestöflum. Þetta eru álitlegar tölur og fyllilega sambærilegar við það sem RX-1 fjórgengisvélin frá Yamaha á að gera. Þá verða bæði 800 og 600 Ski-doo vélarnar boðnar í svokallaðri H.O. (High Output) útfærslu, sem skila enn meira afli en “standard”.

Umbyltur MX – Ski-doo kynnir REV

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Nýr MX Z REV árg. 2003 á flugi.

Í vetur hefur verið skammt stórra högga á milli í vélsleðaheiminum. Í nokkur undanfarin ár hafa í raun fáar grundvallarbreytingar orðið í smíði vélsleða þótt vissulega sé einhver þróun alltaf í gangi en það sem gerst hefur í vetur er hins vegar mun stærra í sniðum en menn hafa átt að venjast. Fram á sjónarsviðið hafa komið nýir sleðar sem svo sannarlega hafa hrist upp í því sem fyrir var. Fyrst kom Arctcic Cat með nýjan Sno Pro, þá Ski-doo með nýjan keppnissleða og loks Yamaha með nýjan fjórgengissleða. Senn mun liggja fyrir hvað verður boðið upp á í 2003 árgerðinni og eins og við var búist kemur m.a. Ski-doo með nýjan MX Z sem byggður er á áðurnefndum keppnissleða.

REV

Við skulum líta aðeins á þennan nýja MX sem fullu nafni mun heita MX X REV en síðasta skammstöfunin stendur fyrir “revolution” eða bylting. Það er vissulega réttnefni því hér er kominn sleði mjög frábrugðinn forverum sínum. En í hverju felst byltingin? Ekki er hún a.m.k. í vélarmálum því sleðinn verður annars vegar boðinn með núverandi tveggja strokka 800 vél og hins vegar 600 tveggja strokka vél, sem reyndar er ný af nálinni en þó byggð á eldri vélum. Hún á að skila talsvert meira afli en núverandi 600 vél, eða allt að 125 hestöflum.

 Nýtt byggingarlag

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Hér sést afturhluti sleðans vel og nýstárlegt sætið.

Byltingin felst fyrst og fremst í því hvernig sleðinn er byggður en þar er notast við önnur lögmál en verið hafa ráðandi í vélsleðum til þessa. Í raun þarf ekki annað en að líta á sleðinn til að átta sig á þessu. Lykilatriði er að setu ökumannsins hefur verið breytt og hún færð framar. Byggingarlag sleða hefur fram að þessu tekið mið af því að ökumaðurinn sitji því sem næst yfir aftari öxlinum í búkkanum með handleggi og fætur teygða fram. Eins og þeir sem fylgjast með snjókrossi vita þá hefur mjög færst í vöxt að ökumenn standi nánast alla keppnina og hönnun nýja REV-sleðans tekur mið af þessu. Ökumaðurinn situr um 15 cm framar en tíðkast hefur og einnig uppréttari. Þannig eru fæturnir beygðir því sem næst í 90 gráður um hnén þegar setið er og gert ráð fyrir að ökumaðurinn standi talsvert við aksturinn. Raunar er ekki flókið að sjá hvaðan þessi hugsun er komin en þetta eru sömu lögmál og gilda á krosshjólum. Æskilegri þyngdardreifing og betri aksturseiginlekar fást einnig með því að vélin hefur verið færð rúmum 6 cm aftar og 3 cm neðar en í “venjulegum” MX. Nú á 80% af þunganum að vera innan við 30 cm frá driföxlinum.

Nýr framendi

Framendinn á sleðanum er einnig nýr þar sem A-arma fjöðrunin hlýtur að vekja athygli. Ef marka má úrslit úr snjókrosskeppnum vetrarins er þetta fjöðrun sem svínvirkar. Sjálft húddið er í raun aðeins lítið lok en með því að fella hliðarnar alveg niður fæst einstaklega gott aðgengi að öllum vélarhlutum, kúplingum, drifhúsi o.s.frv sem auðveldar viðhald og alla umgengni. Það var einmitt meðal þeirra markmiða sem hönnuðirnir lögðu upp með. Fjöðrunin að aftan er byggð á búkkanum úr 2002 árgerðinni af MX með nokkrum endurbótum sem aukið hafa slaglengdina í 14,5 tommur. Að öllu samanlögðu á sleðinn að vega um 227 kg með 800 vélinni sem hlýtur að teljast allgott. Ljóst er að hér er komið leiktæki með frábæra aksturseiginleika og undarlegt ef eftirspurnin næsta haust verður ekki í samræmi við það, ekki síst þar sem verðið á að vera mjög samkeppnisfært. Með nýrri aflmikilli fjórgengisvél, sem sögur segja að Ski-doo muni spila út innan tíðar, verður MX Z REV líka enn áhugaverðari kostur, þ.e. ef…

MXREV.4

Hér sést útsýni ökumanns.

MXREV.1

Hér sést hvernig hægt er að taka hliðarnar úr framendanum til að auðvelda aðgengi.

MXREV.2

Sjálft húddið er bara lítið lok.

MXREV.3

Fjöðrunin.

Sprengjan er fallin – fyrsti “alvöru” fjórgengissleðinn

2003rx1Ljóst má vera að Yamaha hefur hrist duglega upp í vélsleðaheiminum með nýja RX-1 sleðanum. Í raun er hér kominn fyrsti alvöru fjórgengissleðinn sem er samanburðarhæfur við öflugustu tvígenissleða. Vélin er 998 cc, vatnskæld fjögurra strokka línuvél sem byggð er á hinni vinsælu R1 mótorhjólavél og skilar frá sér 145-150 hestöflum. Yamaha-menn kalla vélina Genesis Extreme. Hún er með tveimur yfirliggjandi knastásum, fimm ventlum á sílender (samtals 20 ventar!) og 37 mm blöndungum

Snúningshraði vélarinnar er allt að 10.200 snúningar á mínútu (rpm), sem er of mikið fyrir hefðbundnar vélsleðakúplingar. Snúningshraðinn er því gíraður niður framan við fremri kúplingu þannig að hann verður um 8.000 rpm að hámarki. Vélinni er hallað aftur um 30 gráður til að koma henni betur fyrir og snúa blöndungarnir fram. Pústið snýr því aftur, er leitt undir sætið og kemur út sitt hvoru megin við það að aftanverðu. Vélin er einnig neðar og aftar en t.d. í SRX-sleðanum og þyngdarpunkturinn því betri. Forsvarsmenn Yamaha fullyrða að nýja vélin sé 30% sparneytnari en en 800 cc tvígengisvél og togi 65% meira.

Nýr frá grunni

En það er ekki bara vélin sem er ný. Þetta er algerlega nýr sleði, að búkkanum frátöldum. Grindin er af nýrri gerð þar sem saman fer styrkur og léttleiki. Framfjöðrunin hefur ekki áður sést hjá Yamaha en svipar óneitanlega til A-arma fjöðrunarinnar sem Arctic Cat hefur þróað með góðum árangri. Að framan á sleðinn að fjaðra um 9 tommur en 11,5 að aftan. Þar er notuð reynd fjöðrun frá Yamaha, sama og í SX Viper, hin svokallaða Pro Action. Eins og vera ber er RX-1 vel búinn að öllu leyti, með stafrænu mælaborði og ýmsu fleiru.

Þrjár útfærslur

Sleðinn kemur í þremur útfærslum sem auk grunngerðarinnar RX-1 eru RX-1 ER (með bakkgír) og Mountain RX-1 á 151×2 tommu belti, hærra stýri, mountain-aturfjöðrun en eins að öðru leyti. Einnig býður Yamaha þrjár gerðir til viðbótar sem fást munu í takmarkaðann tíma (“vortípur”). Verðið er e.t.v. lægra en margir hefðu búist við, eða frá 8.850 dollurum. Til samanburðar kostar Ventura 700 8.399 dollara og SX Viper 7.499 dollara.

En hvað með aðra sleða?

Skiljanlega falla aðrir sleðar frá Yamaha af 2003 árgerðinni nokkuð í skuggann af þessari sprengju sem nú hefur verið varpað inn á vélsleðamarkaðinn en fleiri athyglisverðir sleðar finnast í framleiðlulínunni fyrir 2003. SX Viper hefur fengið nokkrar minniháttar endurbætur, m.a. nýtt belti og sætisáklæði. Þetta er mest seldi nýi sleðinn af 2002 árgerðinni og hefur komið mjög vel út vestanhafs. Þá kemur Viper nú í mountain-útgáfu á 144×2 tommu belti. Venture ferðasleðarnir standa áfram fyrir sínu og eru nánast óbreyttir frá 2002 módelinu.