Kverkfjöll og nágrenni

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála. Fv.: Sævar, Benedikt, Elín, Hreiðar, Halldór og Úlfar. Guðmundur Hjálmarsson tók myndina.

Stoltur hópur stillir sér upp til myndatöku á mæni Sigurðarskála.

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og litlu sunnar og vestar á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu. Liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Ekki er vitað nákvæmlega hversu oft gosið hefur í Kverkfjöllum sökum þess að eldstöðin liggur undir jökli og hversu afskekkt þau eru. Þó eru ummerki um a.m.k. 20 gos frá landnámi sem líklegt er að eigi rætur sínar að rekja til Kverkfjalla.

Skiptast í tvennt

Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverkina sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverkina skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla afar stórir skriðjökulskildir, Dyngjujöklull að vestanverðu og Brúarjökull að austanverðu. Ná þeir allt frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli og falla aflíðandi norður á hásléttuna. Dyngjujökull hljóp fram á árunum 1999-2000 og er enn með öllu ófær.

Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5–6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.

Að komast í Kverkfjöll

Í Kverkfjallarana.

Í Kverkfjallarana.

Kverkfjallasvæðið var um aldir vel varið frá náttúrunnar hendi. Stafar það af því að undan skriðjöklunum beggja vegna falla miklar jöklulár, Kreppa undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Svæðið á milli þeirra nefnist Krepputunga. Fornar heimildir og munnmæli benda til mannaferða yfir Vatnajökul á miðöldum en jökullinn var þá langtum minni en síðar varð. Ekki er ólíklegt að leið Norðlendinga suður yfir jökul hafi legið upp austan Kverkfjalla. Fyrstur til að ganga á Kverkfjöll var þýski jarðfræðingurinn Trautz árið 1910.

Sumarið 1970 var Kreppa brúuð suðvestur af Arnardal og rudd akslóð inn Krepputungu um Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð að Kverkfjöllum. Vestan úr Ódáðahrauni liggur svonefnd Austurleið [F910] yfir brú sem byggð var yfir Jökulsá á Fjöllum rétt sunnan Upptyppinga árið 1986. Út frá henni liggur Kverkfjallaleið [F902] suður til Kverkfjalla. Austurleið heldur áfram austur yfir Krepputungu en við Kreppuháls greinist frá henni Hvannalindavegur [F903] suður í Hvannalindir.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Ekið upp á Vatnajökul áleiðs frá Sigurðarskála í Kverkfjöllum, upp sjálfa Kverkina. Þessi leið hefur verið algerlega ófær undanfarin ár.

Vetrarferðir opnuðu fólki alveg nýja sýn á Kverkfjöll, eins og raunar allt hálendið. Þegar snjór er nægur er auðvelt að aka á sleðum og bílum framan við skriðjöklana, Dyngjujökul og Brúarjökul, og inn í Krepputungu, en einnig er algengt að koma í Kverkfjöll ofan frá, þ.e. af Vatnajökli. Þá er jafnan ekið niður svonefnda Löngufönn en athuga verður að sú leið getur stundum verið algerlega ófær út af jökulsprungum. Einnig hefur verið ekið um sjálfa Kverkina en hún er algeralega ófær öllum ökutækjum um þessar mundir. Sé komið niður Brúarjökul þarf að komast yfir Kverkfjallaranann eða krækja austur fyrir hann.

Sigurðarskáli

Sumarið 1971 reistu Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðar og Húsavíkur skála í Kverkfjöllum, Sigurðarskála. Stendur hann vestan undir svonefndu Virkisfelli og er kenndur við Sigurð Egilsson, forgöngumann í ferðamálum á Húsavík. Tjaldsvæði er rétt við skálann. Á seinni árum hefur verið byggt við Sigurðarskála og tekur hann nú um 85 manns í svefnpokagistingu. Skálinn er opinn allt árið og þar er gæsla yfir sumartímann.

Jarðhiti í Kverkfjöllum

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Hreiðar baðar sig í Hveragili og á greinilega í vandræðum með að skorða sig í læknum.

Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum vestari. Tengist það misgengi með sigstalli til vesturs. Hverasvæðið er um 3 km á lengd og allt að 1 km á breidd og liggur í 1600 -1700 m hæð yfir sjó. Efst og syðst er Hveradalur, aðskilinn með Þrengslum frá Hveraskál [Neðri-Hveradal], sem er víð geil mót norðvestri að Dyngjujökli. Norðan í skarðinu er Gámur, einn öflugasti gufuhver landsins. Austan við Hveradal er skáli Jöklarannsoknarfélags Íslands í um 1750 metra hæð.

Gönguleið í Hveradal liggur frá Kverkjökli, skáhallt upp svonednda Löngufönn og áfram með brúnum upp í skála Jöklarannsóknafélagsins. Í slíka ferð þarf að ætla sér allan daginn fram og til baka. Ekki er ráðlegt að ganga þessa leið nema að vera í góðu formi og hafa allan varann á því að hætturnar á leiðinni eru margar. En þessi fjallganga er ógleymanleg!

Innst í Hveradal er allstórt lón, oft ísi lagt en tæmist stundum. Annað lón eða stöðuvatn er í ketilsigi rétt austur af skála Jöklarannsóknafélagsins. Er sigið um 600 m breitt og 100 m djúpt. Það myndaðist árið 1959 í eins konar sprengigosi í tengslum við jarðhita. Þá eru og hitur ofarlega í Skarphéðinstindi og víðar í Kverkfjöllum eystri.

Hveragil

Austan Kverkfjalla er jarðhita að finna í Hveragili á um tveggja km löngum kafla og eru þar víða 40 til 60 gráðu heitar laugar. Í gilinu eru fallegar kalkútfellingar og bólstraberg. Í ánni sem kemur undan Kverkjökli er vottur af jarðhitavatni sem veldur því að íshellir myndast yfir farveginum. Jarðhiti er undir skriðjöklinum og afrennsli er til hellisárinnar frá ketilssiginu í öskjunni efra.

(Helsta heimild: Vefur Umhverfisstofnunar)

Nýr Ski-doo slær í gegn á fyrsta WSA-mótinu

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Curt Peterson sýndi frábæra takta á nýjum Ski-doo á föstudaginn og sló öllum við í keppni um laus sæti á X-games.

Fjörið í snjókrossinu vestan hafs er byrjað og fyrsta keppnin á vegum WSA var haldin nú um helgina í Duluth í Minnesota. Stærstu tíðindin hljóta að teljast afhjúpun á nýjum keppnis Ski-doo, Formula XP-S, sem sló þegar í gegn. Ekki liggja enn fyrir miklar upplýsingar um þetta nýja tæki en ljóst er að það svínvirkar með nýrri gerð af framfjöðrun og vægast sagt flottu útliti.

Á föstudaginn var keppt um átta laus sæti á X-games og þar stóð uppi sem öruggur sigurvegari Curt Peterson á einum hinna nýju Ski-doo sleða. Hann bar m.a. sigurorð af mönnum eins og Carl Kuster, Kurtis Crapo, Earl Reimer, Matt Judnick, Todd Wolff, Tomi Ahmasalo og Michael Island en þessir tryggðu sér allir sæti á X-games. Samtals voru það sjö ökumenn á Ski-Doo, fimm á Polaris og tveir á Arctic Cat sem kepptu í úrslitahíti um laus sæti á X-games.

Meistarar með misgóða takta

Á laugardaginn var keppt í undanriðlum í Pro Open og Pro Stock og þá mættu allir “stóru” karlarnir til leiks. Margir sýndu góða takta en enginn þó eins og Polarisökumaðurinn og Íslandsvinurinn Noel Kohanski sem sigraði á alþjóðlega mótinu í Ólafsfirði sl. vor. Hann var greinilega enn heitur frá því í Ólafsfirði og fór nær ósigraður í gegnum daginn. Annar Polarisökumaður, Levi Lavallee, sigraði í Semi-Pro Open en þar lauk keppni á laugardaginn.

Sumar stórstörnurnar áttu erfitt uppdráttar á köflum. T.d. átti Blair Morgan, sem nú mætti til leiks á Ski-doo, í basli með kúplinguna og Tucker Hibbert átti einnig í basli með nýja Sno Proinn. Cris Vincent, sem nú keppir fyrir Yamaha, náði öðru sæti í einu híti og sýndi að nýi Yamminn er til alls vís. Toni Haikonen (nú á Arctic Cat), Earl Reimer og Carl Schubitzke “enduðu” allir daginn mis mikið meiddir.

Vortúr í Snæfell 2001

Vortúrarnir eru skemmtilegasti hluti sleðamennskunnar og meðfylgjandi myndir voru teknar í ferð sem farin var laust eftir miðjan maí á síðasta vori.

Ekið var af Öxnadalsheiði á miðvikudagskvöldi inn í Laugafell og gist þar fyrstu nóttina. Daginn eftir var haldið áleiðis austur á bóginn en ekið skemmra en ætlað var sökum bilana sem hrjáðu hópinn. M.a. þurfti einn að fá nýjan sleða sendann að heimann. Á föstudagsmorgni var vaknað í mikilli blíðu og þá ekið norðan Dyngjujökuls í Kverkfjöll og baðað í Hveragili. Þar snéru tveir úr hópnum heim á leið en aðrir óku áfram austur í Snæfell.

Laugardagurinn var notaður í skoðunarferðir um nágrennið í frábæru veðri. M.a. var ekið niður í Víðidal, litið niður í Geithellnadal og síðan brunað upp á Vesturdalsjökul, sem gengur út úr Vatnajökli. Farið var upp á Goðahnjúka og síðan snúið við niður Eyjabakkajökul, litið á íshellinn og ekið áfram um Eyjabakka að Laugarfelli til að fara í bað. Að því loknu var stefnt til baka í Snæfellsskála og brunað upp á Snæfellið áður en gengið var til kvöldmatar.

Á sunnudagsmorgni var skítaveður og var því brottför frestað fram á kvöld. Um 10 leytið um kvöldið var síðan lagt af stað heim og stóð á endum að síðuhöfundur rétt náði að komast á fund á Akureyri kl. 8 á mánudagsmorgni.

 

Landaleitarmenn hinir seinni

Landaleitarmenn nefndist flokkur vaskra manna sem Þingeyingar gerðu út árið 1880 til að kanna svæðið umhverfis Ódáðahraun. Í þeirri ferð fundust m.a. Gæsavötn, kofarústirnar í Hvannalindum og fleiri merkir staðir. Sl. miðvikudag voru „Landaleitarmenn hinir seinni“ á ferð.

Tilgangur fararinnar nú var að kanna hvort finna mætti styttri akfæra leið í Gæsavötn en þá sem nú er notuð, þ.e. fyrir þá sem koma að norðan. Sem kunnugt er þarf nú að aka Sprengisandsleið suður að Tómasarhaga áður en beygt er norðaustur með Tungnafellsjökli áleiðis í Gæsavötn. Til fararinnar völdust fjórir vaskir menn úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og var gengin sem næst bein lína frá vaðinu yfir Langadrag á Gæsavatnaleið norðvestur að vegamótum Sprengisandsleiðar og Dragaleiðar, þ.e. þar sem ytri afleggjarinn í Laugafell tengist Sprengisandsleið. Samtals eru þetta um 25 km sem lagðir voru að baki á sex og hálfri klukkustund. Of snemmt er að fullyrða nokkuð um árangur ferðarinnar “en verið er að flokka og vinna þau gögn sem safnað var”, eins og sagt er á máli fagmanna. Einmuna veðurblíða var á hálendinu þennan dag og bærðist ekki hár á höfði. Meðfylgjandi myndir tók Smári Sig. af ferðafélögum sínum.

Nokkuð blautur vortúr 2001

Nú er tími vortúranna upp runninn enda aldrei skemmtilegra að fara á sleða en einmitt á þessum árstíma. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferð sem farin var helgina 12.-13. maí sl. Ekið var af Öxnadalsheiði inn í Laugafell til gistingar á föstudagskvöldi. Þaðan í Gæsavötn daginn eftir og áfram upp í Grímsvötn. Hluti hópsins fór aftur í Laugafell til að gista en afgangurinn tók lífinu með meiri ró, gisti í Gæasvötnum um nóttina og ók síðan niður á Öxnadalsheiði daginn eftir með viðkomu í lauginni í Laugafelli, að sjálfsögðu. Flestir ferðalangar voru af Eyjafjarðarsvæðinu en tveir, þeir Sigurjón Pétursson og Ólafur Sigurgeirsson, lögðu á sig bílferð frá sv-horninu upp á Öxnadslsheiði til að slást í för. Veðrið var með eindæmum gott en færið að sama skapi blautt þannig að nokkuð var um að menn festu sig í krapa. Smári Sig. og Sigurjón Pétursson tóku meðfylgjandi myndir.

Vel heppnuð ferð hjá EY-LÍV

Þeir sem mættu í ferð á vegum EY-LÍV sl. laugardag áttu svo sannarlega góðan dag í góðu veðri. Ekið var frá Garði í Dalsmynni, upp á Kinnarfjöll og norður þau en koma átti við í Náttfaravíkum. Til þess var ekið niður Austurdal og síðan Kotadal sem tekur við af honum. Litið var yfir í Naustavík og síðan ekið noður með víkunum áður en farið var vestur yfir fjöllin, yfir í Flateyjardal og þar út að Brettingsstöðum. Þaðan var Flateyjardalur ekinn til baka að Garði. Í ferðina mættu 20 manns og fór allt vel fram undir öruggri stjórn þeirra Sólvangsbræðra, Ingvars og Bergsveins Jónssona og Arnórs Erlingssonar á Þverá. Landslag á þessum slóðum er ægifagurt auk þess sem svæðið hefur að  geyma merkar heimildir um lífsbaráttu þjóðarinnar á öldum áður. Meðfylgjandi myndir tóku síðuhöfundur og Rúnar Arason í ferðinni.

Gist í Grágæsadal

Um síðustu helgi fór hópur Eyfirðinga í góða ferð um austanvert hálendið. Ekið var frá Öxnadalsheiði, um Gæsavötn og Kistufell austur í Grágæsadal þar sem gist var tvær nætur. Ferðast var niður með Jökulsá á Dal, Hafrahvammagljúfur skoðuð og litið við í Laugarvalladal. Einnig var farið um Kverkfjallarana, baðað í Hveragili og fleira til gamans gert. Meðfylgjandi myndir tók Eiríkur Jónsson í ferðinni.

Nýtt finnskt tryllitæki

tilbakkaÍ vikunni var Guðni Hermannsson í Straumrás staddur á vélasýningu í Hannover í Þýskalandi og rakst þá á frumgerð af nýjum vélsleða sem á rætur að rekja til Finnlands, nánar tiltekið til risafyrirtækisins Finnpower.

Finnpower er er aðallega í framleiðslu á allskyns pressum, fræsurum og þessháttar og er eigandi fyrirtækisins multimilljóner. Guðni hafði tal af kynningarfulltrúa Finnpower á sýningunni og sagði sá að þessi hugmynd að smíði á nýjum vélsleða væri í fullum gangi. Það sem vekur mesta athygli er fjöðrunin sem eru loftpúðar með innbyggðum dempurum og alla demparana er hægt eð stilla með takka á stýrinu. Upplýsingar um vélbúnað var ekki hægt að fá að svo komnu máli og var húddið að sögn Guðna vandlega skrúfað aftur. Nafnið á sleðanum er „Finnpower Tilbakka“, sem á Íslensku mun útleggjast “Haltu þig fyrir aftan.“ En látum myndirnar tala sínu máli.

Páskaferð 2001

Að morgni miðvikudagsins 11. apríl 2001 lagði vaskur hópur manna af stað úr Eyjafirði áleiðis austur í Mývatnssveit. Þarna voru á ferð sjö harðsnúnir vélsleðakappar sem ætluðu að eyða næstu dögum á fjöllum. Dagarnir fyrir og um páska eru meðal þeirra sem veðurfræðingar varast að spá einhverju afgerandi um veðrið en þó leit út fyrir að það gæti orðið sæmilegt næstu daga. Gróf ferðaáætlun var að fara á sleðunum frá Skútustöðum í Mývatnssveit og aka suður í Kverkfjöll þaðan sem gera átti út. Auk þessara sjö var von á tveimur sunnlenskum höfðingjum sem lögðu á svipuðum tíma upp frá Vatnsfelli og ætluðu að hitta hópinn í Sigurðarskála í Kverkfjöllum.

Lagt í’ann

Langt var upp frá Skútustöðum upp úr hádegi og stefnan tekin suður á milli Bláfjalls og Sellandafjalls, sem blasa við sunnan Mývatnssveitar. Veður og færi voru eins og best gerist og sóttist ferðin vel. Ákveðið var að leggja smá lykkju á leiðina og fara að Ketildyngju, gosdyngju í Ódáðahrauni austur af Bláfjalli. Þar er mikill jarðhiti og á þessi staður sér merka sögu. Ketildyngja hét fyrrum Fremrinámur og þarna eru miklar brennisteinsnámur frá fyrri tíð. Var brennisteinninn fluttur á hestum til Húsavíkur og þaðan með skipi til Danmerkur. Þótti brennisteinn úr Fremrinámum sérlega góður og hreinn. Aðalnámurnar eru austan við gíginn Ketil í toppi dyngunnar og í sjálfum gígnum. Geysimikil hraun hafa runnið frá Ketildyngju og eru þau í ýmsum kvíslum. Mesta hraunið rann til norðvesturs, yfir mikinn hluta Mývatnsveitar, niður allan Laxárdal og Láxárgljúfur og breiddist yfir allan Aðaldal norður að Skjálfandaflóa. Er það a.m.k. 70 km langt og 330 ferkílómetrar. Talið er að það sé um 3.500 ára gamalt. (Sjá Landið þitt Ísland, bls. 218 og 241.)

Frá Ketildyngju var stefnan tekin á Hvammsfjöll, en þau rísa hæst í um 890 m yfir sjó suður af Kerlingardyngju. Með fjöllunum er oftast eina færa sleðaleiðin suður í gegnum Ódáðahraun að Dyngjufjöllum. Nú var farið á milli fjallanna í átt að Kollóttudyngju. Áð var við skálann Bræðrafell sem stendur suðaustan við dyngjuna og þaðan haldið að skálanum Dreka við Dyngjufjöll. Báðir þessir skálar eru í eigu Ferðafélags Akureyrar. Alltaf var sama blíðan og nægur snjór um allt. Nú var bara eftir síðasti leggurinn úr Dreka í Sigurðarskála við Kverkfjöll og fyrr en varði var hópurinn kominn á áfangastað.

Snjómokstur og saltfiskur

Eins og fram hefur komið er nú óvenju mikill snjór á Kverkfjallasvæðinu og var skálinn nánast á kafi. Tók nú við mikill snjómokstur. Byrjað var á að moka frá dyrum og gluggum og síðan ofan á gasgeymsluna. Reyndust það vera fullar tvær mannhæðir. Þá var gríðarlegt verk að moka upp kamarinn. Meðan á þessu stóð renndu Sunnlendingarnir tveir í hlað og flokkurinn því orðinn fullskipaður. Kapp var lagt að byrja sem fyrst að kynda upp en Sigurðarskáli er stórt hús og því tekur talsverðan tíma að ná upp góðum hita. Nú leið að kvöldi og ekki seinna vænna að fara að skella saltfiskinum í pottinn en á matseðlinum þetta fyrsta kvöld var salfiskur með kartöflum, rúgbrauði og hamsatólg. Tóku menn hraustlega til matar síns enda svangir eftir langan akstur og mikinn mokstur. Var ekki laust við að svefninn tæki snemma að sækja að sumum.

Baðað og baðað

Þegar vaknað var á fimmtudagsmorgun var hið besta veður en nokkuð dimmt yfir. Því var lítið skyggni til að keyra og var lífinu tekið með ró fram eftir morgni. Um hádegi tók að birta til og var þá rennt upp að jöklinum þar sem heit áin rennur undan honum. Var í snarhasti útbúin hin ágætasta baðaðstaða sem flestir nýttu sér og luku miklu lofsorði á. Ákveðið var að freista þess að komast austur fyrir Kverkfjallaranann, í Hveragil, en þar rennur heit á sem afskaplega gott er að baða sig í. Ferðin þangað gekk ekki átakalaust og kostaði marga króka en hafðist þó á endanum. Var þá ekkert því til fyrirstöðu að skella sér aftur í bað, enda fullir þrír tímar frá því að síðast var baðað. Að því loknu var rennt aftur heim í skála og fannst nú mun betri leið. Enn höfðu engir ferðamenn bæst við í skálann en vitað var að þangað stefndi talsverður hópur fólks sem von var á seinna um kvöldið. Matseðillinn hljóðaði upp á svínakjöt með sósu, kartöflum, rauðkáli og grænum baunum sem gerð voru góð skil. Seint um kvöldið og um nóttina fór að fjölga í skálanum en þá mættu á staðinn hópar af jeppafólki og nokkrir vélsleðar. Nú var einnig farið að hlýna í veðri og komin slagveðursrigning.

200 km lagðir að baki

Föstudagurinn langi rann upp bjartur og fagur og var hann tekinn snemma. Ekið var í Hvannalindir sem eru í Krepputungu, geiranum á milli Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Í Hvannalindum eru uppsprettur og lækir sem koma undan hrauninu. Einnig er þarna nokkur gróður. Árið 1880 fundust í Hvannalindum útilegumannakofar sem eignaðir eru Fjalla-Eyvindi. Í sömu ferð gengu menn þarna fram á hrossabein og er sá fundur talinn vera kveikjan að sögunni Heimþrá eftir Þorgils gjallanda en Þorgils var meðal þeirra sem voru í umræddum leiðangri 1880. Úr Hvannalindum var ekið áfram yfir Kreppu og í Grágæsadal. Þar er fallegur fjallaskáli en í dalnum er lón eða vatn sem Kverká fellur í skömmu áður en hún sameinast Kreppu. Áfram var haldið austur á bóginn áleiðis í Snæfell, yfir Kringisá og Jökulsá á Dal, komið við í sæluhúsi við Sauðá og ekið upp á Sauðahnjúka sem ná yfir 1.000 m hæð yfir sjó. Sóttist ferðin einkar vel enda færið enn mjög gott þótt það hefði þyngst. Í Snæfellsskála voru aðeins tveir menn á jafn mörgum jeppum en von var á fleira fólki seinna um daginn. Ekið var norður og austur fyrir Snæfell, að skálunum við Laugarfell. Þar var ákveðið að líta á íshellinn í Eyjabakkajökli og lá nú leiðin um hina frægu Eyjabakka austan Snæfells. Íshellirinn brást ekki vonum manna og var glæsilegur að venju. Var m.a. kveikt á neyðarblysi inn hellinum til að magna enn stemmninguna. Frá íshellinum var stefnan aftur tekin á Kverkfjöll, ekið yfir sporð Brúarjökuls og komið við í Hveragili til að fara í bað. Er komið var í Sigurðarskála voru um 200 km að baki frá morgninum og ekkert að vanbúnaði að hefja undirbúning fyrir kvöldmáltíðina, sem átti að vera sú síðasta í ferðinni. Nú hljóðaði matseðilinn upp á pönnusteiktar nautalundir með hinu ýmsa meðlæti og þóttust menn aldrei hafa bragðað annan eins mat, enda yfirstjórn matseldarinnar í höndum formannsins. Eftir margar smásögur var lagst til svefns en heldur var þó nóttin ónæðissamari en æskilegt getur talist.

Heimför frestað

Morguninn eftir lá fyrir að leggja af stað til baka niður í Mývatnssveit. Sunnlendingarnir ákváðu að slást í för og aka síðan suður yfir hálendið. Veður var þokkalegt fyrst í stað og gekk ferðin í Dreka ágætlega. Þar fór veðrið að versna og við Bræðrafell var komið leiðindaveður. Eftir um 3 km akstur frá Bræðrafelli var ákveðið að snúa við í skálann, enda orðið mjög blint að keyra og hættur sem geta víða leynst. Ekki er í kot vísað í Bræðrafelli auk þess sem svo vel hittist á að Bræðrafellsjarlinn sjálfur, Jakob Kárason, var með í för. Lífinu var tekið með ró fram eftir kvöldi og var hugmyndin að nota náttmyrkrið til að keyra heim. Þá nýtast ljósin af sleðunum, sem þau gera ekki þegar ekið er í blindu að degi til. Veðrið versnaði hins vegar þegar á kvöldið leið og því sæst á að fresta heimkomu um einn dag og gista í Bræðrafelli. Áttu menn þar góðan nætursvefn og vöknuðu í blíðuveðri daginn eftir, að morgni páskadags. Var nú hælum slegið við rass og ekið greitt niður í Mývatnssveit. Fóru tveir á undan til að ná í bensín þar sem ljóst var að mjög hafði gengið á bensínbirgðirnar daginn áður meðan menn þurftu að læðast áfram í leiðindaveðri.

Í Selinu á Skútustöðum fékk hópurinn sér hádegismat og þeir Sveinn og Leif keyptu bensín enda áttu þeir eftir að aka suður yfir hálendið að Vatnsfelli. Hinir sjö settust upp í bílana og óku inn í Eyjafjörð. Að baki var einkar vel heppnuð og eftirminnileg ferð. Yngva Ragnari í Selinu/Hótel Mývatn eru færðar bestu þakkir fyrir veitta aðstoð og einkar góða þjónustu á öllum sviðum.

Ferðasaga Bárðargötuleiðangurs

Bárðargötuferðalangar komu til byggða í gærkvöld eftir geysilega vel heppnaða ferð. Smári Sig. sendi ágrip af ferðasögunni svona rétt til að við hin getum fundið reykinn af réttunum.

Hófum ferðina við Lundarbrekku í Bárðardal. Þar var boðið upp á kaffi og harmonikkuspil að þjóðlegum sið. Fórum síðan upp í Réttartorfu og gistum þar.

Snemma morguns var ræst og boðið skyr og slátur í morgunmat. Í frábæru veðri og færi héldum við austan „Fljóts“ allt að Marteinsflæðu. Þar var tekið bað í Hitulaug áður en haldið var vestur yfir Fljótið að nýju. Fyrsta legg lauk síðan við Skjálfandafljótsbrú. Skotist var í Gæsavötn grillað, sofnað snemma og ræst fyrir kl. 07,00 og boðin egg og beikon í morgunverð.

Leggur 2 hófst fyrir kl 9,00 þar sem sá fyrsti endaði, enn og aftur í sól og blíðu. Haldið var í Vonarskarð og litið á gufubaðsaðstæður í Snapadal. Síðan haldið að Hamrinum í Vatnajökli. Ekki var áð fyrr en komist var inn að lóninu rétt undir Hamarsveggnum og margar myndir þrykktust á prent. Þá fikruðu menn sig áfram suður á bóginn með mörgum stoppum og mörgum myndum. Komið var að Jökulheimum undir kvöldmat og ekki seinna vænna en að drífa hangikjötið á borð og gera góð skil. Snemma var farið að sofa og enn fyrr á fætur. Hafragrautur á línuna með slátri.

Leggur 3 lá frá Jökulheimum upp á Tungnaárfjöll og yfir þau, niður norðan við Langasjó og yfir Skaftá. Sama sólarblíðan og ekki hreyfðist hár á höfði. Margt að sjá og skoða og margar myndir fuku. Haldið var austan Fögrufjalla allt að Hverfisfljóti og suður með Eldhrauni. Þessu fylgdu margir útúrdúrar á nálæg fjöll. Hvert sem litið var var hrikaleg fegurð og mikilfengleg sýn; Lakasvæðið, Sveinstindur, Hágöngur, Geirvörtur og Þórðarhyrna. Ekki skemmir að sjá Öræfajökul og Snæbreið sem bakgrunn við sjóndeildarhring. Að Núpi mætti flokkurinn á sama tíma og sólin skartaði kvöldgeislum sínum yfir Fljótsthverfið. Gist var á Geirlandi við Kirkjubæjarklaustur og þar galdraði kokkur ferðarinnar fram enn eina veisluna. Allir voru komnir í koju fyrir kl 22,00. Var þá formlegum leiðangri í spor Gnúpa-Bárðar lokið.

Að venju var ræst kl 7,00 morguninn eftir og haldið til fjalla í logni og glampandi sól. Farið var upp að Síðujökli og sem leið liggur að Geirvörtum og Hágöngum og þaðan yfir að Pálsfjalli. Þaðan upp á Háubungu og í Grímsvötn. Haldið var vestur fyrir vötnin, norður fyrir Skaftárkatlana og niður Köldukvíslarjökul með viðkomu á toppi Hamarsins. Í Gæsavötnum var síðan haldið uppteknum hætti með sameiginlegri kvöldmáltíð.
Á lokadegi ferðarinnar var eins og áður, logn sól og blíða. Þá var tekin stefnan á Tungnafellsjökul og stoppað á „Nafla heimsins“ eða á Háhyrnu og litið á dýrðina sem við blasti. Ekið var niður Hagajökulinn og vestur yfir Sandinn, upp Þjórsárjökulinn og upp að Hásteinum. Þaðan yfir á Miklafellið, þar sem stutt var í Laugafellsbað. Um kvöldmatartímann var lagt norður á bóginn. Skotist norður að Hraunárdal, farið niður Kerhólsöxlina og komið í bæinn eftir 860 km skreppitúr.

Mikill snjór um austanvert hálendið

Þrátt fyrir að víða sé kvartað undan snjóleysi á það alls ekki við um alla landshluta. Á norðanverðu hálendinu er víðast góður snjór, einkum þegar austar dregur. Hópur eyfirskra sleðamanna var þar á ferð í síðustu viku og dvaldi m.a. í Kverkfjöllum. Þar er óvenju mikill snjór og var lausamjöllin slík að erfitt var að komast um á sleða. Veðurblíðan sl. fimmtudag var líka engu lík og svo sannarlega þess virði að vera á fjöllum.

Kawasaki Invader

Kawazaki Invader austan við Hofsjökul á leið á Landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum.

Kawazaki Invader austan við Hofsjökul á leið á Landsmót LÍV í Kerlingarfjöllum 1987.

Þegar forsvarsmenn Kawasaki kynntu fyrstu sleðalínu sína árið 1978 var markið sett hátt. Framleiða átti heimsins besta sleða, hvorki meira né minna. Raunar átti innrás Kawasaki á vélsleðamarkaðinn sér nokkurn aðdraganda. Í kringum 1970 sá Kawasaki Arctic Cat fyrir vélum og árið 1976 keyptu þeir SnoJet og settu á markað sleða undir nafninu Kawasaki SnoJet. Tveimur árum síðar höfðu liðsmenn Kawasaki síðan viðað að sér nægjanlegri þekkingu til að hefja eigin framleiðslu.

Kawasaki lýsti því yfir leynt og ljóst að þeir ætluðu að framleiða sleða sem tæki öðrum sleðum fram á öllum sviðum. Þeir myndu framleiða hraðskreiðasta sleðann, þann sem væri best að keyra og þann fallegasta. Flaggskip flotans í upphafi var Invader og því eðlilegt að spyrja hvort hann hafi staðið undir þessum markmiðum? Þetta var vissulega góður sleði á sínum tíma, að mörgu leyti á undan sinni samtíð en þó varla bestur á öllum sviðum. Til að framleiða hraðskreiðasta sleðann töldu tæknimenn Kawasaki að hann þyrfti að ná 100 mílna hraða á klukkustund. Invaderinn var vissulega hraðskreiður af 440 sleða að vera en stóð þó tæpast undir þessu markmiði. Til þess þurfti fleiri hestöfl en þau 71 sem hann var jafnan talinn.

Sem fyrr segir var hann að ýmsu leyti á undan sinni samtíð. Hann var t.d. vatnskældur og með sjálfvirka olíublöndun, sem ekki var algengt að sameina í sleðum á 8. áratugnum. Til að tempra hitastigið reyndist nauðsynlegt að koma fyrir í honum vatnskassa, nokkuð sem tæknimenn Kawasaki voru ekki hrifnir af en neyddust til að gera til að vélin bræddi ekki úr sér. Sleðinn var vel búinn, með tvöföldu sæti, hraðamæli, snúningshraðamæli og hitamæli en það síðastnefnda hefur ekki enn ratað í alla sleða. Til að ná fram heimsins bestu aksturseiginleikum var talið nauðsynlegt að hafa þyngdarpunktinn sem lægstan og í reynslueintökum af sleðanum lá vélin á hliðinni. Þessu fylgdu þó önnur vandamál sem ekki tókst að leysa og því kom sleðinn á markað með upprétta vél. Hún sat á sérstökum gúmmípúðum til að draga úr víbringi út í boddíið, lausn sem tæknimenn Kawasaki fengu mikið hrós fyrir á sínum tíma.

Þegar markmiðið var að framleiða sleða með heimsins bestu aksturseiginleikum gæti manni dottið í hug að hann hefði verið útbúinn með byltingarkenndu fjöðrunarkerfi. Þessu var þó ekki að heilsa. Þvert á móti var notast við hefðbundnar blaðfjaðrir að framan og fremur ómerkilega snúna gorma í búkkanum. Sleðinn var lágur að framan og stýrði sérlega vel en óslétt land fór ekki vel í hann. Raunar var afturfjöðrunin sennilega veikasti punktur hans. Útlit sleðans var hins vegar í góðu lagi. Húddið var sérlega rennilegt og rúsínan í pylsuendanum var aðalljósið sem féll ofan í húddið en small upp þegar átti að nota það, svipað og á fínustu sportbílum. Frábær markaðssetning sleðans er enn í minnum höfð þar vestra og seldist hann upp strax á fyrsta ári.

Á Langjökli á landsmóti LÍV í Kerliungafjöllum 1987.

Á Langjökli á landsmóti LÍV í Kerlingarfjöllum 1987.

Þó svo Kawasaki sé japanskt merki voru sleðarnir alfarið bandarísk hönnun og smíði. Höfuðstöðvar rannsókna- og þróunarstarfs voru í Shakopee í Minesota og þar var ekkert til sparað. M.a. var þar var reynsluakstursbraut með fullkomnum búnaði til snjóframleiðslu og var brautin eftirmynd hinnar frægu Eagle River keppnisbrautar. Sjálf framleiðslan fór hins vegar fram í Nebraska.

Invaderinn var framleiddur náast óbreyttur frá 1978 til 1981, sem var síðasta framleiðsluár hans. Nýjasta árgerðin er þó með rauðum strípum í stað blárra. Árið 1982 tók LTD við sem flaggskip Kawasaki en náði sér aldrei verulega á flug.

Þó svo að Kawaski hafi ekki náð því markmiði að framleiða heimsins bestu sleða á öllum sviðum náðu þeir engu að síður góðum árangri og sleðarnir seldust vel. Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Kawasaki lokaði vélsleðadeild sinni þann 12. mars 1982. Ástæðan er mönnum enn þann dag í dag hulin ráðgáta. Brotthvarf þessara ágætu sleða er því einn af leyndardómum vélsleðasögunnar.

Fyrsti sleðinn sem ég eignaðist var einmitt forláta Kawasaki Invader 440 árg 1981 og eru myndirnar sem fylgja af honum. Ekki þekki ég neitt til bakgrunns hans en var sagt að Kennedybræður hefðu flutt inn nokkra svona sleða og þetta væri einn af þeim. Sleðinn var í minni eigu veturinn 1986-1987 og var mikið notaður í bæði styttri og lengri ferðir. Hann fór síðan út í Ólafsfjörð og mun vera þar enn og í fullu fjöri.

 

Laugin í Laugafelli endurbyggð haustið 2000

Hópur vaskra vélsleðamanna úr Eyjafirði tók sig til haustið 2000 og endurbyggði laugina í Laugafelli. Verkið tók tvær helgar og má með sanni segja að ásýnd laugarinnar hafi tekið stakkaskiptum.

Framkvæmdir fólust í stórum dráttum í því að múrverk innan í lauginni var brotið burt en veggirnir þess í stað hlaðnir upp með náttúrulegum hellum. Í það dugði ekki minna en tveir vörubílsfarmar af grjóti. Þá var hleðslan í ytra byrðinu öll endurgerð og laugarbarmurinn þökulagður. Einnig voru gerðar endurbætur á skansinum í enda laugarinnar þar sem heita vatnið rennur inn og menn sitja gjarnan. Baðaðstaðan er því bæði fegurri og betri en áður.
(Myndir: Halldór og Smári Sig.)

Jólaferð 2000 í jólablíðu

Á milli jóla og nýárs 2000 var farin fín sleðaferð upp úr Eyjafirði, inn í Laugafell, um Vonarskarð og víðar. Meðfylgjandi myndir tók Birgir Rafn á Haftækni og sem sjá má var mikil blíða.

Saga af þrautseigju, áræðni og dug – vortúr árið 2000

Það voraði snemma árið 2000. Snjólalög höfðu aldrei verið mikil þennan vetur og þegar kom fram í miðjan maí sáust varla fannir nema í allra, allra hæstu fjöllum. Bændur höfðu fyrir nokkru borið á tún sín og horfðu með velþóknun á nýgræðinginn æða upp úr jörðinni. Sleðamenn voru allir löngu búnir að afskrifa veturinn og höfðu komið fákum sínum í sumarhagana. Eða hvað? Við nánari athugun kom í ljós að til voru þeir menn sem neituðu að gefast upp fyrir sumrinu. Þeir skyldu í eina sleðaferð enn áður en búkkar yrðu smurðir og bensíntankar tæmdir fyrir sumarið. Þetta er sagan af þeim. Saga af þrautseigju, áræðni og dug, en þó fyrst og fremst af hæfilegri þrjósku.

Formaðurinn hringdi í menn til skiptist og brýndi þá til dáða. „Ja, Smári er alveg flugbeittur að drífa sig,“ sagði hann við Úlla áður en hann hringdi í Smára og sagði nákvæmlega það sama við hann. Nema nú var það Úlli sem var alveg flugbeittur að drífa sig og það strax. Þannig tókst honum að safna í harðsnúinn flokk sem samanstóð af mönnum sem kalla ekki allt ömmu sína (enda flestir á þeim aldri að þær góðu konur eru löngu farnar á annan og betri stað). „Já en er nokkur snjór strákar mínir,“ sögðu úrtöluraddirnar en menn létu það ekki á sig fá heldur efldust allir.

Mætt var upp á Öxnadalsheiði laust eftir miðjan dag á föstudegi og voru þar komnir formaðurinn Hreiðar, Smári, Úlli og Dórarnir Jónsson og Arinbjarnarson. Ekki var sérlega björgulegt að líta upp Kaldbaksdalinn og ljóst að eitthvað yrði að bíta saman jöxlum til að ljúka þessu verkefni. Sigurgeir hafði mætt til að hvetja menn til dáða en sjálfur komst hann ekki með af ófyrirsjáanlegum orsökum. „Þið verðið komir heim um kvöldmat,“ hljóðaði dómur þess sem átti að hvetja en ekki létu ferðalangar það á sig fá. Ljóst var að dalurinn væri ófær að austanverðu og því þurfti að byrja á að ferja sleðana yfir ána á stærstu jeppunum. Þar var svo tekið niður og menn fóru að tygja sig til brottfarar. Var ekki laust við að glott læddist fram á einstaka varir yfir því verkefni sem framundan var. Kom raunar í ljós að sumir höfðu ekki haft meiri trú á verkefninu en það að þeir voru varla með bensín og nesti til dagsins.

Síðan var lagt í´ann. Fyrirhugað var að þræða inn dalinn að vestanverðu og reyna að læðast á milli þúfnanna. Þegar nær dró kom hins vegar í ljós að það vantaði alveg snjóinn sem átti að vera á milli þeirra. Nú voru góð ráð dýr. Undirritaður var að reyna að snúa við en þar sem sleðinn var þunglestaður af bensíni og kosti til helgarinnar lét tækið illa að stjórn og stefndi til fjalls, beint upp öxlina vestan við dalinn. Og viti menn. Upp fóru bæði ökumaður og sleði og síðan fylgdu aðrir í kjölfarið. Meira að segja fimman hans Dóra en þó ekki fyrr en eigandinn hafði hótað henni öllu illu. Þegar upp var komið var leiðin greið inn Nýjabæjarfjall og var ekið í ágætum snjó í Bergland. Eftir það fór heldur að þynnast en þó ekki meira en svo að vandræðalítið var að þræða í Laugafell. Raunar þraut snjóinn nokkurn spöl frá húsinu en þar sem Haraldur Örn var þessa dagana að ganga á Norðurpólinn einn síns liðs þótti mönnum ekkert tiltökumál að rölta þennan spöl í skálann. Var síðan farið í laugina, etið, sagðar sögur og á endanum lagst til svefns.

Laugardagsmorgunn rann upp, bjartur og fagur. Fyrsta morgunverkið var að fara í laugina, enda menn ekki farið í bað síðan kvöldið áður. Að loknum morgunmat var farið að huga að bensínmálum og kom í ljós að fremur snjólétt var orðið umhverfis tankana. En ekki létu menn það á sig fá. Ekið var sem leið liggur í Sandbúðir og þaðan var stefnan tekin á Fjórðungsöldu. Upp á henni virtu menn fyrir sér útsýnið til allra átta og vorkenndu þeim sem sátu eftir heima að missa af dýrðinni. Ekki var annað að sjá ofan af Fjórðungsöldu en að sæmilega fært væri að Tungnafellsjökli og var því stefnan tekin á hann. Þó kom á daginn að leiðin var torsóttari en sýndist í fyrstu og var mikið um snúninga og þræðingar, eins og þessi MapSource-mynd sem tekin er úr GPS-tæki undirritaðs, sýnir glögglega,. Var flokkurinn sannarlega feginn að komast að jöklinum og þótti ástæða til að setjast niður og fá sér kaffi.

Ekið var upp á jökul í sömu veðurblíðunni sem fyrr og farið mikinn. Fljótlega opnaðist stórfenglegt útsýnið yfir Vonarskarð og Bárðarbungu og var ljóst að mönnum væru allir vegir færir að komast á Vatnajökul. Slíkt var þó ekki inn á ferðaáætlun enda leyfði tími og bensín vart svo langa ferð. Ekið var niður í Vonarskarð, inn í Snapadal og að hverasvæðinu. Þaðan var stefnan tekin aftur til baka en nú til vesturs sunnan við Jökuldal. Reyndist greið leið áfram vestur yfir Sprengisand og nánast engar þræðingar. Komið var aftur í Laugafell undir kvöld og þar var slappað af og hafður náttstaður.

Heimferð var daginn eftir og var hún tíðindalítil. Þó náði Smári að sökkva sér á einum stað sem vissulega lyfti ferðinni upp á enn hærra plan, sem þó var allhátt fyrir. Ekin var sama leið niður á Öxnadalsheiði og voru menn hæfilega skelkaðir á leið niður öxlina til baka. Var ljóst að snjórinn á Öxnadalsheiði hafði ekkert aukist meðan við vorum í ferðinni. Að baki var einstaklega góð og eftirminnileg ferð, ekki síst fyrir þær sakir hvað allir spáðu illa fyrir henni. En hér sannaðist einu sinni sem oftar að hæfilegt magn af þrjósku er ekki löstur á neinum manni. HA (Myndir: Smári Sig. og HA)

Botnrannsóknir á Nýjabæjarfjalli -eftirminnileg sleðaferð vorið 1993

Undirritaður hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa margar skemmtilegar sleðaferðir. Ein af þeim eftirminnilegri er tvímælalaust ferð sem farin var vorið 1993. Kemur þar margt til. Árstíminn var óvenjulegur, veðrið hreint frábært og einnig gerðust óvæntir atburðir sem nánar verður vikið að síðar.

Í sleðaferð um mitt sumar?

„Hvað eruð þið að gera í vélsleðaferð um mitt sumar,“ voru viðbrögð margra þeirra sem fréttu af vélsleðaferð sem fyrirhuguð var um miðjan júní 1993, nánar tiltekið daga 11.-13. júní. Að hluta til eru spurningar sem þessar skiljanlegar því á þessum árstíma er fólk með hugann við flest annað en vetrarferðir. Flestir hafa þegar lokið vorverkunum, eru búnir að slá garðinn a.m.k. einu sinni og eru í óða önn að búa sig undir sumarfríið til að ná sem mestu út úr hinu stutta íslenska sumri. En uppi á hálendinu er snjórinn mun lengur að fara en í byggð og á vorin, þegar frosthörkur vetrarins eru að baki og nóttin björt, er einmitt besti tíminn til að fara í vélsleðaferð.

Undirbúnigur fyrir umrædda ferð var ekki langur og ekki ljóst fyrr en á síðustu stundu hversu margir færu með. Ferðaáætlun var ekki heldur fullmótuð og átti að ráðast af snjóalögum og veðri. Vatnajökull var þó það sem stefnt var á. Ákveðið var að safnast saman á Öxnadalsheiði upp úr hádegi föstudagionn 11. júní og freista þess að komast upp á hálendið. Það var síðan um þrjúleytið sem 9 manna hópur á jafn mörgum sleðum lagði af stað frá bílunum, áleiðis upp Kaldbaksdalinn. Ferðalangar voru úr Eyjafirði og einn hafði lagt á sig akstur frá Reykjavík til að taka þátt í leiðangrinum. Vitað var um tvo til viðbótar sem orðið höfðu seinir fyrir og voru skammt á eftir auk þess sem aðrir fjórir ætluðu að leggja af stað seinna um daginn.

Fallegt vorveður og nægur snjór á Nýjabæjarfjalli.

Þegar komið var upp á Nýjabæjarfjallið var nægur snjór og gott færi. Öðru hverju var stoppað til að njóta útsýnisins og veðurblíðunnar. Fyrsti áfangastaðurinn var Laugafell þar sem hópurinn átti bensín. Þegar nær dró Laugafelli minnkaði snjórinn og því tók nokkurn tíma að finna færa leið. Á endanum komst allur hópurinn að skálunum og þar bættust við þeir tveir sem orðið höfðu seinir fyrir og hópurinn því stækkað í 11.

Ákveðið var að taka stefnuna á Gæsavatnaskála og hafa þar næturdvöl. Ekki voru þó allir jafn bjartsýnir á að þangað væri færst sökum snjóleysis enda kostaði það nokkrar krókaleiðir að komast fyrstu kílómetrana. Snjórinn jókst hins vegar eftir því sem austar dró og fljótlega voru allar þræðingar að baki. Ekki var mikið af krapablám, sumum til mikilla vinbrigða.

Spenningur við Bergvatnskvíslina

Fyrsti farartálminn sem mætti ferðalöngum var Bergvatnskvíslin skammt vestan Sprengisandsleiðar. Hún var opin þar sem komið var að henni og auk þess straumþung. Ekki virtust betri staðir til að fara yfir ofar eða neðar og því var ákveðið að leggja til atlögu. Var ekki laust við að nokkur spenningur ríkti í hópnum. Hlynur á Akri byrjaði á að skjótast yfir og gekk áfallalaust enda lausbeislaður á léttum sleða. Smári Sig. kom næstur á sínum WideTrac og var auk þess með kerru. Starumurinn hrifasaði sleðann undan ökumanni sem þó nái að hanga á honum öðru megin. Ferðin var rétt næg til þess að báðir komust yfir á hinn bakkann og ökumaðurinn blotnaði rétt hæfilega. Eftir þetta komu menn einn af öðrum og gengu gusurnar í allar áttir.

Áfram var haldið og þegar verið var að krækja fyrir Fjórðungsvatnið ók undirritaður sleða sínum í lækjarfarveg og braut öxul í búkkanum. Enginn varaöxull var með í för en viðgerðin sem framkvæmd var á staðnum er með þeim glæsilegri sem gerð hefur verið á fjöllum. Aðlaverkfærið var vasahnífur Sigurgeirs á Vélsmiðju Steindórs og hafði sá að geyma hin ólíklegustu verkfæri. Þar með tókst að bjarga ferðinni fyrir undirritaðann. Í Gæsavatnaskála var komið um miðnætti eftir að stðór hluti hópsinms hafði fest sleða sína í krapa við Fjórðungsvatnið. Þá var hafist handa við að sjóða og snæða saltkjöt en síðan lagst til svefns. Seinna um nóttina bættust við þeir 4 sem síðastir höfðu lagt af stað.

Um Vatnajökul þveran og endilangan

Risið var árla úr rekkju, eða um kl. 6 (enda hafði sumum ekki komið dúr á auga eftir saltkjötsátið um nóttina), og haldið af stað um kl. 8. Stefnan var tekin upp á Vatnajökul og inn í Grímsvötn. Veðrið hafði verið gott daginn áður en nú sannaðist hið forkveðna að lengi getur gott batnað. Þá var færið á jöklinum einnig sérlega gott. Hluti hópsins tafðist við viðgerð á einum sleðanum en þegar allir voru komnir upp á Grímsfjall var ákveðið að taka stefnuna á Skálafellsjökul og taka bensín við skála Jöklaferða. Sóttist ferðin þangað vel. Skálinn sjálfur er í 840 metra hæð yfir sjó og raunar það hótel á Íslandi sem hæst stendur.

Ákveðið var að hafa næturstað í Sigurðarskála í Kverkfjöllum en þegar aka átti af stað kom í ljós að tveir af sleðunum neituðu alfarið að fara lengra og hefur sennilega líkað félagsskapurinn á Skálafellsjökli vel. Þá varð því að skilja eftir en ökumenn og farangur fluttur á aðra sleða. Síðan var ekið yfir jökulinn í Kverkfjöll og niður að Sigurðarskála. Þangað var komið klukkan að ganga 11 eftir nokkuð brölt síðasta spottann. Að lokinni máltíð var lagst til hvílu og víst að margir urðu því fegnir enda löng dagleið að baki.

Heim á leið

Morguninn eftir var Sigurðarskáli kvaddur og byrjað á að skoða sig um í Kverkfjöllum. Víst er að ægifegurð staðarins lætur engan ósnortinn og sá sem þar stendur skilur vel setninguna „land elds og ísa,“ sem gjarnan er notuð um Ísland. Þarna má sjá endalaust samspil og átök jökulsins og jarðhitans sem engan endi tekur og má ekki á milli sjá hvor hefur betur.

Frá Kverkfjöllum var stefnan tekin á Gæsavötn að nýju, bensíni hellt á sleðana og síðan haldið áfram í Laugafell. Að sjálfsögðu er ómissandi að fara í laugina og síðan létu menn sólina þurrka sig. Að lokinni mikilli kvöldmáltíð var lagt af stað niður á Öxnadalsheiði. Var ekki laust við að fararskjótar væru orðnir nokkuð heimfúsir og því ekið greitt.

Botnrannsóknir á Nýjabæjarfjalli

„Hvern sjálfan andsk… var ég að gera,“ var það fyrsta sem flaug í gegnum huga söguritara er hann horfði á eftir sleða sínum hverfa ofan í krapabá skammt sunnan Urðarvatna. Alla jafna er lítið mál að sigla sleðum á vatni en nú fór eitthvað úrskeiðis. Vatnið var tæplega einn og hálfur metri að dýpt og langt til lands. Nú voru góð ráð dýr en eftir að hafa atast í vatninu góða stund, nær dauða en lífi af kulda, fékkst undirritaður til að koma í land og var snarlega færður í þurr föt. Annar sleði hafði sokkið skammt frá en þó nær landi.

Hófust nú björgunaraðgerðir sem hefðu verið óhugsandi nema vegna þess að tvennar vöðlur voru með í för. Að tæpum 4 tímum liðnum voru sleðarnir komnir á land og voru nú teknir í tog. Af 15 sleðum sem lögðu af stað voru því aðeins 11 eftir gangfærir. Aldrei stendur á mönnum í tilfellum sem þessum að fórna sleða sínum til að draga félagann. Slíkt er einfaldlega talið sjálfsagt mál þrátt fyrir að það hafi mikið óhagræði í för með sér fyrir þann sem dregur.

Eftir stutt kaffistopp í Berglandi var haldið af stað norður Nýjabæjarfjall og sóttist ferðin fremur seint. Að lokum komst hópurinn þó í bílana þótt ekki hafi gengið átakalaust að komast síðasta spölinn niður Kaldbaksdalinn. Þeir ökumenn sem drógu hlífðu tækjum sínum hvergi og gekk þetta allt betur en margir þorðu að vona. Um kl. 5 á mánudagsmorgni voru síðan flestir komnir heim til sín og ekki seinna vænna að fá sér smá blund þar sem vinnudagur var framundan.

Í ferðinni voru um 650 km lagðir að baki á þremur dögum. Allan tímann lék veðrið við ferðalangana og var ekki laust við að menn væru nokkuð skellóttir í andliti fyrstu dagana á eftir. Ferðafélagar voru: Úlfar Arason, Rúnar Arason, Hreiðar Hreiðarsson, Smári Sigurðsson, Úlfar Hreiðarsson, Sigurgeir Steindórsson, Kjartan Snorrason, Jón Björnsson, Tryggvi Aðalbjörnsson, Gunnar Sveinbjörnsson, Grétar Ingvarsson, Bolli Ragnarsson, Jóhann Oddgeirsson og Hlynur Þórsson. Texti og myndir: HA

(Þessi saga birtist upphaflega í dagblaðinu Degi 17. júlí 1993 og er birt hér lítið breytt)

Laugafell

Sér yfir Laugafell.

Sér yfir Laugafell.

Laugafell (879 m y.s.) og Laugafellshnjúkur (997 m y.s.) nefnast tvö fjöll úr móbergi, norðaustur af Hofsjökli. Sjást þau víða að, einkum hnjúkurinn sem er yngri og hærri og endar auk þess í toppi. Milli þeirra fellur Hnjúkskvísl en Laugakvísl norðan við fellið. Í ás norðvestur frá Laugafelli eru laugarnar sem það er kennt við. Þar hafa risið nokkur hús og þegar talað er um að fara í Laugafell er vísað til þeirra. Á myndinni hér til hliðar sér yfir staðinn með Laugafellshnjúkinn í baksýn. Lengst til hægri er sæluhús sem Ferðafélag Akureyrar reisti á árunum 1948-1950. Því er vel við haldið og hinn besti gististaður. Næst er Hjörvarsskáli í eigu hóps vélsleðamanna og þá snyrtihús Ferðafélags Akureyrar sem var í byggingu þegar þessi mynd er tekin. Þar er afar góð aðstaða, líkast til sú besta sem finnst á fjöllum. Lengst til vinstri er bústaður landvarðarins en Ferðafélagið er með gæslu á svæðinu á sumrin.

Aðdráttarafl Laugafells felst í heita vatninu sem þar sprettur upp en öll hús á svæðinu er hituð upp með því. Heitustu uppspretturnar eru tæplega 50ºC. Aðalbaðlaugin er á milli húsanna fyrir miðri mynd, í hvarfi við grasbakka. Þar er alger draumur að skríða í ylinn eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Haustið 2000 tók vaskur hópur sleðamanna sig til og endurbyggði laugina. Má lesa nánar um það hér.

Norðvestur frá sæluhúsunum er dálítil þró í móhelluklöpp sem heitt vatn sprettur upp í. Þróin er um tveir metrar á lengd og svo víð að meðalmaður getur legið í henni og flýtur þá yfir hann. Þjóðsögn er um það að Þórunn á Grund novemberm1.jpg (59840 bytes) hafi dvalist með fólki sínu við Laugafell á meðan svartidauði gekk yfir og hafi hún látið klappa laugarkerið í klöppina. Sá galli er á þessari sögu að Þórunn fæddist fullri öld eftir að svartidauði geisaði. (Þess ber þó að gæta að mikil sóttarplága geisaði á landinu árið 1493.) Hins vegar bendir hún til þess að Grundarmenn hafi talið sér land inn að jökli. Önnur sögn nefnir þessa húsfreyju Þórunni ríku á Möðruvöllum en naumast munu vera til heimildir um hana. Meðfram laugunum og lækjum sem frá þeim renna eru valllendisbrekkur með ýmsu túngresi, þótt í um og yfir 700 m hæð sé.

Nóvembermorgun í Laugafelli

Nóvembermorgun í Laugafelli

Við Laugafell hafa fundist leifar fornra mannvirkja á bakka Laugakvíslar. Herma forn munnmæli að áðurnefnd Þórunn ríka hafi haft þar selstöðu en dvalist þó með allt fólk sitt þar meðan svartidauði gekk. Gamlir Eyfirðingar kölluðu tóttaleifar þessar Þórutóttarbrot og hafa lítilsháttar mannvistarleifar fundist þar en þar er jarðhitinn einna mestur á þessu svæði. Full þörf væri á að kanna minjar þessar til hlítar og friðlýsa þær.

Suðaustur frá Laugafelli er allstór flá, Fellshalaflá, og er það syðsti hestahagi áður en lagt er á Sprengisand að norðan. Í Laugafell er alltaf gaman að koma en þar er aðstaða öll hin besta fyrir ferðamenn, með góðu tjaldstæði og skemmtilegu umhverfi. Ekki þykir heldur af verri endanum af dýfa sér í bað eftir góðan göngutúr um nágrennið. Stutt er frá Laugafelli í aðra áhugaverða staði og má til dæmis nefna vötnin norðan við Hofsjökul þar sem upplagt er að skella sér í silungsveiði.

Vorferð 1987

Vorið 1987 fór hópur Eyfirðinga afar skemmtilega vorferð inn á hálendið. Hafa slíkar ferðir síðan verið árlegur viðburður í þessum hóp ef mögulegt hefur verið að koma þeim við. Ferðasagan var í grófum dráttum þannig að lagt var upp af Öxnadalsheiði og ekið í Laugafell til gistingar fyrsta kvöldið. Daginn eftir var byrjað á að fara túr á Hofsjökul áður en stefnan var tekin á Nýjadal. Þar var fyrir hópur Eyfirðinga sem kom að sunnan og ætlaði með hópnum norðuraf. Gist var í Nýjadal og ekið daginn eftir upp Köldukvíslarjökul og upp á Bárðarbungu. Þaðan var stefnan tekin í Grímsvötn og síðan aftur til baka í Nýjadal. Úr Nýjadal var farið í Laugafell til að gista og þaðan niður á Öxnadalsheiði. Veðurblíða var með eindæmum annan tímann enda ekki laust við að sleðar eyddu nokkru meira en ráð var fyrir gert. Myndir HA

 

 

Myndir frá Vetrarsport 2001

Eiríkur Jónsson tók þessar myndir á sýningunni Vetrarsport 2001 sem að þessu sinni var haldin í KA-heimilinu. Hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær í stærri útgáfu.

Sýningin þótti takast vel í alla staði.

Sýningin þótti takast vel í alla staði.

Ef þið smellið á myndina til að fá hana stærri má m.a. greina Sólvangsbræður og Guðna Hermanns neðarlega til hægri. Hvað skyldu þeir hafa verið að gera í Arctic Cat básnum?

Ef þið smellið á myndina til að fá hana stærri má m.a. greina Sólvangsbræður og Guðna Hermanns neðarlega til hægri. Hvað skyldu þeir hafa verið að gera í Arctic Cat básnum?

Þétt skipað í salinn. Takið eftir sýniningartjaldinu í bás Haftækni en það vakti mikla athygli.

Þétt skipað í salinn. Takið eftir sýniningartjaldinu í bás Haftækni en það vakti mikla athygli.

Harley-Davidson

harley

Þetta er líkast til mynd af síðustu árgerðinni. Í framfjöðrunina er komin einföld fjöðun og dempari. Takið eftir tvískiptum meiðanum og innfelldu, tvöföldu framljósinu.

Áttundi áratugurinn var mikil gósentíð fyrir sleðamenn og þá höfðu þeir úr mun fleiri tegundum að velja en nú er. Þar á meðal voru sleðar frá Harley-Davidson. Þó nokkrir slíkir komu til Íslands og eflaust má enn finna ágætis eintök í skúrum hingað og þangað um landið.

Harley-Davidson fyrirtækið á sér langa sögu og er auðvitað þekktast í seinni tíð fyrir framleiðslu á mótorhjólum. Líkt og með mótorhjólin var Harley-Davidson vélsleðunum aldrei ætlað að vera í hópi þeirra hraðskreiðustu eða kraftmestu. Stefnt var á að framleiða sleða sem fyrst og fremst væru traustir og lausir við bilanir. Aðeins voru tvær gerðir í boði og eini munurinn lá í vélarstærðinni. Þó svo að sleðarnir hafi tekið talsverðum breytingum frá tæknilegu sjónarmiði þau fimm ár sem þeir voru framleiddir var útlitið alla tíð hið sama. Hljómar þetta e.t.v. kunnuglega?

Tvær gerðir
Fyrsti sleðinn sem rúllaði út af framleiðslulínunni var 398 cc eðalvagn. Árið var 1970 og þær raddir heyrðust jafnvel að útlitið væri allt að því nýtískulegt. Enda var það svo að miðað við sleða þess tíma var Harley-inn í fínu lagi. Hann þótti góður í akstri, var útbúinn ýmsum þægindum sem þá þekktust vart í sleða og reyndist vel. Harley-Davidson sló því hvergi slöku við og kynnti annan sleða til sögunnar ári seinna, reyndar nákvæmlega eins og þann fyrr nema með 440 cc vél. Þá var hann svartur á litinn en 398 sleðinn var hvítur. Stærri sleðinn var talinn 35 hestöfl og sá minni 32.
Í markaðssetningunni var frá upphafi lögð áhersla á farsæla sögu Harley-Davidson, sem nær allt aftur til ársins 1903, til þess að sýna að hér væri traust framleiðsla á ferðinni. Vélarnar smíðaði fyrirtækið sjálft, sem og reyndar flest annað í sleðanum. T.d. var fremri kúplingin einstök að því leyti að hún var lokuð og voru viktar og rúllur í olíubaði. Kúplinginn átti líka að endast jafn lengi og sleðinn, ef ekki lengur.

Vel búinn
Harley-inn var engin léttavara enda smíðaður að stórum hluta úr gæðastáli. Hjólabúkki var staðalbúnaður en hægt að fá búkka með meiðum án aukakostnaðar. Sá var reyndar sérstakur þar sem meiðarnir voru tvískiptir og gátu fremri og aftari hlutinn að einhverju leyti fjarðrað hvor fyrir sig. Í sleðunum má finna ýmislegt sem komið er frá mótorhjólunum, t.d. var dempari á stýrisarminum og handfangið fyrir bremsuna var greinilega ættað úr mótorhjóladeildinni. Það var talsvert stærra en bensíngjöfin, líkt og nú tíðkast, en fram að því notuðu flestir framleiðendur samskonar bensíngjöf og bremsuhandfang. Af öðrum búnaði má nefna 18 tommu breitt belti sem gerði sleðann ágætlega stöðugan, stillanlegt stýri, litað gler í framrúðu, tvöfalt aðalljós sem fellt var inn í húddið o.fl. Einnig var hægt að fá rafstarft, snúningshraðamæli, sígarettukveikjara og krómpakka.

Sleðarnir héldust að mestu óbreyttir þar til 1974 árgerðin kom á markað. Hlesta umkvötunarefnið hafði verið að þeir þóttu helst til svifaseinir en í stað þess að fjölga hestöflum fór Harley þá leið að létta sleðana um c.a. 25 kg. Stálinu var t.d. skipt út fyrir ál og plast. Ýmsar fleiri breytingar fylgdu svo sem nýjar mótorfestingar, stærri bensíntankur og aukin hljóðeinangrun. Einnig var fjögurra blaða framfjöðruninni skipt út og í staðin kom eitt blað og dempari. Þá var sætið endurhannað og kom nú lagskipt. Neðst var svamplag, síðan kom krossviðsplata og loks annað svamplag. Hlutverk krossviðsins var að dreifa högginu um allt sætið í stað þess að það kæmi allt á þann punkt þar sem ökumaðurinn sat.Útlit sleðans var hins vegar óbreytt.

Framleiðslu hætt
Það að létta sleðann hafði hins vegar í för með sér vandamál því nú hvíldi minni þungi á skíðunum þannig að hann stýrðist verr. Þetta vandamál var leyst í næstu árgerð, 1975, sem raunar var síðasta framleiðsluár Harley-Davidson vélsleða. Búkkafestingar voru færðar aftur og allir voru ánægðir. Í þessari síðustu árgerð var aflið einnig aukið lítillega, úr 32 í 34 hestöfl í minni sleðanum og úr 35 í 37 í þeim stærri. Eftir að tæknimenn Harley höfði gert þessar breytingar kom síðan skyndilega skipun frá höfuðstöðvunum að framleiðslunni skyldi hætt. Það vakti nokkra athygli að Harley-Davidson, OMC og Mercury tilkynntu nær samtíimis að sleðaframleiðslu yrði hætt. Sterkur orðrómur var á kreiki um að fyrirtækin hefðu sammælst um þessa ákvörðun en enginn veit hins vegar, ef satt er, hver tilgangur þess var.