Í nokkur ár hélt ég úti vef á slóðinni halldor.nett.is og kallaði Sleðasíðu HA. Á henni birtist ýmislegt vélsleðatengt efni, bæði frá mér og öðrum. Breyttar aðstæður höguðu því svo að síðunni var lokað og hættu uppfærslur á henni í kringum 2008. Stór hluti af efninu er þó enn til þótt han sé ekki aðgengilegur á Netinu.
Margir hafa komið að máli við mig og hvatt mig til að endurvekja síðuna, enda er talsvert heimildagildi falið í efninu sem þar var, svo ekki sé minnst á skemmtanagildið. Því miður er þó lagt í frá allt efnið af gömlu síðunni aðgengilegt, enda misverðmætt eins og gengur. Myndir voru til að mynda oft vistaðar í myndabönkum sem nú eru lokaðir o.s.frv. Sú útgáfa af síðunni sem hér birtist er því langt í frá afrit af gömlu síðunni.
Að nota síðuna
Síðan er byggð upp með öðrum hætti en áður. Efni er merkt inn í efnisflokka, sem sjá má á valmyndinni hægra megin. Efni er alla jafna bæði merkt árinu sem það birtist upphaflega og síðan tilteknum efnisflokki eða efnisflokkum og er þannig aðgengilegt eftir fleiri en einni leið. Nákvæmar dagsetningar á því þegar efnið birtist upphaflega á vefnum, geta verið á reiki hvað elstu færslurnar varðar, þar sem efni á gömlu síðunni var ekki alltaf dagsett. Ártalið á þó að vera rétt.
Athugið að þegar atriði í efnisflokki eru orðin fleiri en 50 þá fara þau á fleiri síður og þarf þ.á að smella á “Older posts“.
Ábendingar um efni, leiðréttingar og annað, skal senda á halldorarin ( hjá) gmail.com
Njótið vel!
Halldór Arinbjarnarson
Hyrnu
601 Akureyri