Haydays í 50 ár

Í júlí árið 1966 komu nokkrir vinir saman og lögðu fyrstu drög að stofnun vélsleðafélags sem þeir seinna gáfu nafnið Snow-Barons. Haustið eftir ákváðu þeir að reyna með sér í spyrnukepppni og þar með var hafin vegferð sem stendur enn þann dag í dag. Engum sögum fer af tímunum sem náðust, enda tækin í þá daga ansi frábrugðin sleðum nútúmans. En þetta uppátæki þróaðist í að verða stærsti viðburðurinn í sleðaheiminum ár hvert og „formlegt upphaf vetrarins“ eins og eru einkennisorð Haydays í dag.

Heimsókn á Haydays hefur lengi verið á óskalistanum og því var eiginlega ekki annað hægt en láta verða af því á 50 ára afmæli viðburðarins, haustið 2016. Svo heppilega vill til að einkasonurinn er einnig forfallinn sleðaáhugamaður, hvernig svo sem það hefur atvikast. Hann féllst því á að veita föður sínum félagsskap í ferðinni og það án þess að beita þyrfti fortölum sem heitir.

Sem fyrr segir byrjaði Haydays sem spyrnukeppni og hún leikur enn verulegt hlutverk, þótt í raun séu aðrir þættir sem miklu frekar draga fólk að og aðrar keppnisgreinar sem fá meira áhorf. Þróunin hefur orðið sú að í raun er orðin skyldumæting fyrir alla sem á annað borð vilja láta taka sig alvarlega í sleðaheiminum – sleðaframleiðendur, aukahlutafyrirtæki, fataframleiðendur, keppnisliðin o.fl. o.fl. Að auki er svo hið risastóra „Swap-meet“ þar sem hinir aðskiljanlegustu aðilar mæta með notaða hluti og nýja, jafnvel bara það sem kom fram í dagsljósið við síðustu tiltekt í bílskúrnum. Þarna ægir því öllu saman í bókstaflegri merkingu, þannig að úr verður viðburður sem á engan sinn líka.

Á hverju ári er síðan reynt að vera með sérstakan viðburð sem trekkir að og í ár var það risastökk goðsagnarinnar Levi Lavalle sem vippað sér án vandræða rúma 60 metra, enda á hann reyndar að baki ca. helmingri lengra stökk á vélsleða yfir höfnina í San Diego.

Að sjálfsögðu blómstra viðskiptin, bæði með notað og nýtt, og á tíðum hægt að gera ansi góð kaup samanborið við búðarverð á Íslandi. Fyrir Íslendinga er afar einfalt að heimsækja Haydays. Icelandair flýgur til Mineapolis og þaðan er innan við klukkutíma akstur á svæðið. Ágætt er að gista inni í Minneapolis, því þótt borgin verið seint talin sú skemmtilegasta í Bandaríkjunum þá er óvíða hagstæðara að versla.

Hér að neðan fylgja svo nokkrar myndir úr ferðinni.

Leave a comment