Hvítasunnutúr í bongóblíðu

Vortúrar um hálendið er eitt af því sem heillar við sleðamennskuna og hvítasunnuhelgin 2016 var sannkallað hlaðborð lystisemda. Ekið var því sem næst úr bílskúrnum en lagt var upp frá Geldingsárréttinni í Vaðlaheiði á föstudagskvöldi, með Gæsavötn sem áfangastað. Farið var um Gönguskörð og svo sem leið liggur inn fjallið, með viðkomu í skálunum Landakoti og Sandbúðum. Þaðan austur á bóginn, yfir Skjálfandafljótsbrú og í Gæsavötn. Tók ferðin í heild sétta 3 tíma.

Laugardagsmorgun heilsaði með sól og blíðu. Planið var að kíkja í Dyngjufjöll og þaðan í Kverkfjöll en upp Trölladyngju sást að enn var ekki orðið vel bjart í Dyngjufjöllunum þannig að þeim var sleppt og farið beint austur fyrir framan Dyngjujökul. Lítilsháttar þræðingar voru á Flæðunum og smá krókur að finna snjóbrú á meginkvísl Jökulsár en þegar hún fannst var leiðin greið í Kverkfjallarana með kafsnjó. Stefnan var að sjálfsögðu á bað í Hveragili og reyndist baðvatnið vera í heitari kantinum. Þaðan var ekið upp á eystri hrygg Kverkfjalla, tekinn sveigur fyrir Kverkina, höfð viðkoma við skála Jöklarannsóknafélagsins og niður Löngufönn í Sigurðarskála. Til baka í Gæsavötn var farið um Dyngjujökul með viðkomu á Kistufelli. Um kvöldið var slegð upp veislu, enda gott dagsverk að baki.

Ekki var veðrið sem sunnudagurinn bauð upp á neitt síðra en daginn áður og eftir hefðbundin morgunverk og frágang var lagt í‘ann á jökul, áleiðis í Grímsvötn. Ferðin sóttist vel þótt færið væri í harðara lagi. Eftir viðkomu á Grímsfjalli var haldið niður Köldukvíslarjökul, áð í Vonarskarði og síðan haldið vestur yfir Tungnafellsjökul. Vestan hans var ferkar snjólétt yfir að líta en fyrir vana menn var létt að rata á réttu snjólænurnar vestur fyrir Fjórungsöldu. Gott stopp var tekið í Laugafelli og þar tekin ákvörðun um að setja smá krydd í heimferðina. Í stað þess að stefna niður austan Eyjafarðar og niður á Vaðlaheiði var brunað norður Nýjabæjarfjall og svokölluð „Dalvíkingaleið“, niður Glerárdal og endað á gömlu öskuhaugunum ofan Akureyrar. Að baki var góð 550 km ferð í frábæru veðri og færi.

Ferðafélagar voru þeir Hreiðar í Vín, Gunni Garðars, Ingólfur Finnsson, Úlfar Arason og Sigurgeir Steindórsson.

 

Leave a comment