Kom að því að karlar drifu sig inn á hálendið á þessum vetri, enda ekki seinna vænna þegar júní nálgast óðum. Farin var hefðbundin leið af Öxnadalsheiði, um Kaldbaksdal og Nýjabæjarfjall í Laugafell. Þar var staðan tekin, lögbundinn kaffitími og spáð í framhaldið. Nokkrar íkjur myndu felast í því að segja að sjö sólir hefðu verið á lofti en þó sæmilega bjart með köflum og stefnan var tekin á birtuna suður með Hofsjökli. Aðeins var að byrja að verða vorlegt umhverfis Laugafell og talsvert af krapablám sem menn reyndu sig við, flestir með nokkuð góðum árangri. Stefnt var á Klakk austan Hofsjökuls og þræddir dalir og gil við hann, dágóða stund. Ekki þótti vert að fara lengra suður, enda menn komnir á vatnaskil. Þarna kemur nefnilega Jökulhvísl undan Klakksjökli og eru þetta systu upptök Hérðasvatna. Droparnir eiga því nokkuð langa leið fyrir höndum til sjávar í Skagafirði. Hinu megin í hæðunum, nokkur hundruð metrum sunnar, kemur hins vegar Háölduhvísl undan jöklinum og sameinast síðar Þjórsá. Til baka var farið um Laugafell, nú bara tekin stuttur stans enda farið að dimma nokkuð í lofti. Megnið af leiðinni niður á Öxnadalsheiði var misþétt snjókoma og klálega engin merki um vor á þeim slóðum. Kaldbaksdalurinn sléttfullur af snjó að heita mátti og mun betri en í meðalári. Hann verður því fær lengi enn ef ekki brestur á með asahláku. Sem sagt góður renningur um hálendið, þar sem allt reyndist vera á sínum stað. Ferðafélagar: Úlfar, Sigurgeir, Smári Sig. og Valgeir Hugi.
- Rétt sunnan Berglands á inneftirleið.
- Komnir í Laugafell.
- Kaffi og spjall í Hjörvarsskála í LAugafelli.
- Alltaf sól í Laugafelli 🙂
- Tankað í Laugafelli.
- Við Klakk austan Hofsjökuls.
- Lagleg röð.






