Keflavík og Látur í janúar

Eflaust hefðu ábúendum í Keflavík og á Látrum þótt þægindi af því að ráða yfir vélsleðum á árum áður, enda með afskekktustu byggðu bólum. Reyndar er ekki algengt að sleðamenn sæki þessa staði heim um miðjan janúar en Smári Sig. og Sigurgeir Steindórs tóku samt fína ferð þangað um liðna helgi. Farin var hefðbundin leið frá Grenivík um Trölladal, Þverdal, Bakkadal og um Syðriskálina ofaní Keflavíkurdalsbotn. Þaðan um Uxaskarð og Fossdal í Látur á Látraströnd.

Ýmsar sögur eru til um búskap í Keflavík og þau harðindi sem ábúendur þar máttu þola og þekktust án efa sagan af hinni 11 ára Margréti sem á 18. öld hírðist þar ein vikum saman eftir að annað heimilisfólk var látið (sjá einnig hér). Á Látrum voru hins vegar mikil umsvif á köflum, þótt staðurinn sé afskekktur í dag.

Meðfylgjandi myndir tóku Smári og Sigurgeir í ferðinni á laugardaginn og Smári græjaði einnig stutt vídeó.

Leave a comment