Þegar breyta þarf út frá áður ákveðnum áætlunum, kemur sér vel að þvermóðska mun fyrst og fremst vera eitthvað sem tekur að hrjá fólk þegar það eldist. Þannig vafðist ekki fyrir flokknum að breyta ferðaplönum þegar í ljós kom að veðrið var ekki alveg með okkur í liði í dag.
Laugafell, eða hvað?
Áætlun dagsins hljóðaði upp á léttan hálendisrenning, kíkja í Laugafell og jafnvel eitthvað meira. Einhverjir sögðust meira að segja hafa frétt af eldgosi austur á landi sem gaman væri að kíkja á en þangað er víst alveg bannað að fara nema í lögreglufylgd þannig að ekki kom það til greina.
Þeir fyrstu voru vaknaðir og búnir að smyrja nestið fljótlega upp úr kl. 7 en þegar tók að birta af degi kom í ljós að útsýnið inn á hálendi var ekki svo kræsilegt. Skítasunnanþræsingur og snjóstrókurinn stóð fleiri hundruð metra til norðurs af öllum fjöllum. Þótt vissulega væri freistandi að lofa gömlum þráa að taka sig upp og bogna hvergi, var samt ljóst að ferðaveðrið inn til landsins væri lítið spennandi. Því varð úr að kíkja austur fyrir Vaðlaheiði og láta ráðast hvað yrði úr deginum.
Ljúft í Fnjóskadalnum
Ofsagt væri að halda því fram að veður og færi upp á Vaðlaheiði hefði lofað góðu en þegar kom niður í Fnjóskadal var allt mun skaplegra. Yfir Fnjóská var farið á brúnni til móts við Systragil og stefnan tekin á Lundsskóg. Þar er bakarinn, sem var með í för, stoltur sumarhúsaeigandi. Hann hafði hins vegar ekki verið viðbúinn breyttum ferðaplönum, engill lykill með í för, og því verður ferð í heita pottinn að bíða betri tíma.
Skógarstígar þræddir
Greiðlega gekk að þræða skógarstíga og veginn suður í gegnum Lundsskóg og Þórðarstaðaskóg, með smá útúrdúrum. Fyrri samlokan var tekin fyrir sunnan Þórðarstaði og síðan farið að huga að heimferð. Smá upplausn kom í flokkinn á tímabili þegar hluti hans reyndi að fela sig bakvið fjárhúsin á Þórðarstöðum, í óljósum tilgangi. Komið var við hjá gömlum félaga, Billa bakara, sem leyfði sér að vera ekki á svæðinu. Til baka var ekið vestan Fnjóskár og sama leið vestur yfir heiði. Þannig má með sanni segja að vel hafi ræst úr deginum og voru menn á einu máli um að þetta hefði verið hin besta æfing.
Heyrst hefur…
- …að sparifötin hans Sigurgeirs séu að verða verulega slitin
- …að formaðurinn hafi engu gleymt
- …að díselolía henti vel á 800 Polaris
- …að mikið nesti hafi komið heim óétið
- …að flokkurinn verði bara meðfærilegri með hverju árinu sem líður
- Vð Systragil í Fnjóskadal og vissara að hafa allar vegvísanir á hreinu. Myndir: Smári
- Karlarnir kátir.
- Fyrri samlokan í gili sunnan við Þórðarstaði.
- Smásögur.
- Kíkt við í búsaðnum hjá Billa bakara en enginn heima.
- Páll á Hótel KEA og Bjarni í Mat & Mörk kíktu líka við.





