Best og flottast í sleðaheiminum

Sýningin Vetrarlíf var haldin um liðna helgi í Garðabæ og þótti takast með ágætum. Góð aðsókn var á laugardeginum en óveður á sunnudeginum hefur að líkindum eitthvað dregið úr umferð. Samkvæmt venju voru sleðaumboðin og tengd fyrirtæki í forgrunni og sýndu öll það nýjasta og flottasta sem í boði er. Ekki veit ég hvort valdir voru áhugaverðustu sleðarnir og flottustu básarnir, eins og jafnan þegar sýningin hefur verið á Akureyri, en ég tek það þá bara að mér hér og nú.

Áhugaverðasti nýi sleðinn

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Spánýr Polaris Axys í Switchback útfærslu.

Ég held að fáir geti andmælt því að nýja Axys-línan frá Polaris er helsta nýjungin í ár, enda vel við hæfi á 60 ára afmæli tegundarinnar. Hér er komið algerlega nýtt boddý með nýrri 800 vél og nýrri afturfjöðrun. Aksturseiginleikarnir eiga að vera í sérflokki og nýja 800 vélin umtalsvert snarpari en forverinn. Sleðinn er boðinn með tveimur beltislengdum, hefðbundinn stuttur sem 120“ og 137“ Switchback. Þótt afturfjöðrunin líti svipað út og Pro-ride fjöðrunin sem hún leysir af hólmi þá er hönnunin engu að síður ný. Meðal nýrra fídusa í vélinni eru þriggja þrepa rafstýrðir pústventlar, rafdrifin olíudæla sem m.a. þýðir að inngjöfin er umtalsvert léttari, sveifarásinn hefur verið léttur o.fl. Útlitið er skemmtilegt með LED-framljósi og flottu mælaborði. Virkilega spennandi græja sem fróðlegt verður að sjá hvernig reynist og þá einnig hvort fjallasleðarnir fá eitthvað af þessu nýja góðgæti 2016.

Annar verðugur kandídat er nýi Viper sleðinn frá Yamaha. Samstarf Arctic Cat og Yamaha virðist hafa skilað góðum árangri og hefur sleðinn hlotið fyrirtaks dóma. Reyndar þurfti að innkalla sleðana og gera endurbætur vegna bensínleka, en úr því er væntanlega búið að bæta. Ég fékk kost á að reynsluaka frumgerð af sleðanumn síðastliðið vor og get vitnað um að hann lofaði virkilega góðu og er klárlega lang meðfærilegasti 4-gengis sleði sem í boði er. Þá skemmir ekki fyrir að hann er á frábæru verði hérlendis –eða svona að svo miklu leyti sem hægt er að taka um að nýir vélsleðar hérlendis séu á frábæru verði – hmm.

Verklegasti sleðinn

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Þessi Pro-Lite er ekki nema fyrir sæmlega hugaða ökumenn!

Hér er e.t.v. meiri samkeppni um titilinn en ég held þó að hann falli í skaut Ski-doo með nýju T-3 útfærsluna. Hér er kominn svaðalegasti fjöldaframleiddi sleði sem í boði er, með 174x16x3“ belti. Einnig er Ski-doo að kynna breytingar á framfjöðrun í ár sem skila á betri aksturseiginleikum.

Þegar rætt er um verklega sleða verður að minnast á 900 Pro-Lite sleðana frá Black Dimond, sem Motul flytur inn. En þeir verða þó líklega frekar að flokkast sem sérsmíði, þótt vissulega séu þeir framleiddir í talsverðu magni. En auðvitað er svo sérsmíðaði spyrnusleði þeirra Hafnarfeðga, sem var í Yamaha-básnum, einn í flokki.

Flottasti básinn

Motul-básinn var virkilega  flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Motul-básinn var virkilega flottur og metnaður í gangi á þeim bænum.

Af stærri sýnendum þótti mér bás Motul-manna frá Akureyri algerlega ber af. Virkilega flott upp settur og höfðu norðanmenn ekki talið eftir sér að koma með nánast hálfa búðina með sér. Mikið vöruúrval þeirra lyfti sýningunni upp. Vel gert!

Af sýnendum með minni bása var Garmin búðin eins og jafnan með fínan bás og þá var básinn hjá Landsbjörg einnig mjög smekklegur og vel fram settur með hliðsjón af þeim skilaboðum sem félagið er að koma á framfæri.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Þessi stutti 800 RR frá Arctric Cat er vafalaust geggjað leiktæki.

Aðrar merkar nýjungar

Ég hef í þessum pistli lítið minnst á Arctic Cat og Lynx, sem merkir þó engan veginn að þeir séu ekki með áhugaverða sleða í ár. Þvert á móti. Mér skilst t.d. að Arctic Cat sé að bjóða 73 módel í ár þannig að sannarlega ættu allir að geta fundið sleða við hæfi. Maður heyrir líka bara góðar sögur af þjónustu umboðsins, sem hefur sitt að segja. Væri ég síðan sjálfur að velja mér nýjan sleða hygg ég að ofarlega, ef ekki efst, á óskalistanum væri Boondocker frá Lynx. Svaðalega flottur og líklega meiri alhliða sleði en flestir keppinautarnir í púðursleða-flokknum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sýningunni.

Leave a comment