Með Skagfirðingum á föstudaginn langa

Þeir feðgar Steindór og Sigurgeir á Vélsmiðju Steindórs eyddu föstudeginum langa í ríki Skagfirðiga og sendi Steindór eftirfarandi ferðasögu: Við feðgar skuppum vestur í Skagafjörð á föstudaginn langa. Var skyggnið slæmt þegar lagt var af stað en þökk sé þrjóskunni að haldið var óhikað áfram. Var ákveðið að þar sem lagt hafði verið af stað skyldi allavega vera borðuð pylsa á Sauðárkróki. Sem betur fer því þegar komið var í bæinn iðaði allt af fólki og ekki leið á löngu þar til við vorum stoppaðir, boðnir velkomnir og spurðir frétta. Eftir pylsuátið var farið að rofa til og því ákveðið samkvæmt ráðleggingum þeirra sem til þekktu að drífa sig upp í Trölla. Þegar komið var þangað hittum við fyrir heila hjálparsveit sem var í æfingarferð fyrir komandi helgi. Þótti nú heldur betur ráðlegt að slást í för með þeim þar sem öryggið hlaut þá að vera í fyrirrúmi.  Var þetta hinn skemmtilegasti hópur sem lóðsaði okkur um allt svæðið með miklum sóma. Eru algjör forréttindi að finna fyrir svona fólk og einn af þeim þáttum sem gerir þetta sport svona skemmtilegt. Allir hafa yfir að ráða heimasvæðum þar sem er að finna ótrúlegar náttúruperlur sem ókunnugir hefðu annars þotið fram hjá. Vissulega var gamla kassamyndavélin með í för og smelltum við af nokkrum myndum því til staðfestingar. Þökkum við kærlega fyrir okkur og sjáumst á næstu bensínstöð.

Leave a comment