Skilar Nytro Yamaha á toppinn?

nytro

Síðuhöfundur bara nokkuð sáttur 🙂

Yamaha Nytro er óumdeilanlega einn áhugaverðasti nýi sleðinn sem fram kom með 2008 árgerðinni. Ljóst er að Yamaha lagði mikið á sig þannig að vel mætti takast til og miklar væntingar voru strax bundnar við gripinn. Söluaðili Yamaha á Norðurlandi, Brúin-Haftækni, bauð Sleðasíðunni á dögunum tvo Nytro sleða til reynsluaksturs, stuttan sleða í 40 ára afmælisútgáfunni og langan MTX a 153” belti. Hér kemur niðurstaðan.

Ég hafði áður lýst því yfir hér á síðunni að Nytro væri draumasleðinn minn á þessari vertíð og því ljóst að ég hafði þannig miklar væntingar til gripsins áður en ég hafði svo mikið sem sest upp á hann. En stendur hann undir væntingum? Við skulum sjá til.

Vélin

Vélin í Nytro er 3 strokka fjórgengis, 1050 cc og gefin upp 130 hestöfl. Ólíkt því sem oft er með uppgefnar hestaflatölur þá hafa próf óháðra aðila sýnt að hún skilar sennilega nær 140 hestöflum. Enda virkar hún mjög spræk. Það er sama hvort þú ert að taka af stað úr kyrrstöðu eða vilt bæta við hraðann, sleðinn svarar samstundis. Í fáum orðum sagt þá er þetta einfaldlega frábærlega skemmtileg vél og hentar sleðanum vel. “Barely Legal” eða “Fast and Furious” eru orðasambönd sem notuð hafa verið til að lýsa kraftinum og viðbragðinu í Nytro og má segja að það sé nærri lagi.

Vel heppnað byggingarlag

Byggingarlag Nytro er það sem á ensku kallast “rider forward”. Ski-doo kynnti þessa hugmyndafræði með REV og allir sem fylgjast með í sleðaheiminum vita hver afleiðingin var. Ski-doo hefur trónað á toppnum sem mest selda tegundin síðustu ár. “Rider forward” merkir að áseta ökumanns er færð framar og sætið hækkað. Mér líkaði vel við mig “um borð” í Nytro. Sætið er vel lagað og hæfilega mjúkt, stigbrettin breið og góð og það fer vel um mann hvort heldur er standandi eða sitjandi. En byggingarlagið gerir það líka að verkum að þú hefur ekkert skjól af vélarhlífinni eða rúðunni, sem er reyndar nánast engin. Hlífar yfir handföngum koma vissulega að gagni til að skýla höndunum en ég ráðlegg mönnum samt að klæða sig vel á þessum sleða. Sérstaklega næðir um neðri hluta líkamans þannig að góðar buxur eru skilyrði. Afstaðan á milli sætisins og stýrisins er mjög vel heppnuð og auðvelt að standa upp og setjast til skiptis, eftir þörfum. Þetta er atriði sem mér finnst skipta verulega máli við meðhöndlun sleða, ekki síst ef aðstæður eru þannig að maður þarf að leggja sig fram við aksturinn eins og í giljum og brekkum. Þarna hefur Yamaha hitt á góða uppsetningu.

Hvað útlitið varðar skiptast menn nokkuð í tvo hópa, enda um hreint smekksatriði að ræða. Mér finnst Nytro einn sá flottasti á markaðinum.

Fjöðrun

Mér hefur stundum fundist skorta á fjöðrunina hjá Yamaha en ljóst er að nú hafa þeir tekið sig verulega á. “Mono shock” búkkinn sem kynntur var í stuttum Apex fyrir nokkru sló þegar í gegn en í Nytro er notast við aðra útfærslu, “Dual Shock” með tveimur dempurum. Þessi fjöðrun virðist henta sleðanum einkar vel. Að framan en þriðja kynslóð A-arma fjöðrunarinnar frá Yamaha. Saman vinna þær mjög vel og ég verð að segja að fjöðrunin er sá þáttur sem kom mér mest á óvart. Færið upp á Vaðlaheiði þar sem prófunin fór fram var mjög gróft á köflum en það virtist hreinlega ekki hægt að misbjóða sleðanum. Eftir því sem hraðar var ekið og ójöfnurnar meiri, þeim mun betur fór sleðinn með mann. Sérstaklega kom stutti sleðinn mér hér á óvart þar sem ég hef almennt séð verðir hrifnari af lengri sleðum. En sá langi er einnig góður. Fjöðrun þeirra er reyndar ólík. Stutti sleðinn er t.d. með stillanlega Fox-loftdempara að framan á meðan sá lengri er með hefðbundna olíudempara og gorma. Þá er minna skíðabil á lengri sleðanum.

Aksturseiginleikar

Smári tekur Nytro til kostanna.

Smári tekur Nytro til kostanna.

Um aksturseiginleikana almennt má annars segja að mér fundust báðir sleðarnir koma vel út. Þeir eru ólíkir en báðir góðir, hvor á sínu sviði, enda ætlað ólíkt hlutverk. Sá styttri fjaðrar betur og stýrir betur á meðan sá langi hefur algera yfirburði í brekkum og lausasnjó, eins og gefur að skilja. Þar munar um beltið, 121” langt með 1,25” tommu spyrnum á þeim stutta á meðan sá langi er 153”x2,25”. Báðir sækja í að lyfta innra skíðinu í beygjum þannig að maður þarf aðeins að hafa varan á sér. En MTX útfærslan er fyrsti langi sleðann sem mér hefur fundist nánast eins og stuttur sportsleði í akstri. Hann virkar ótrúlega lipur og kvikur í öllum hreyfingum. Um báða sleðana má segja að þeir eru feykilega skemmtilegir aksturssleðar með sportlega eiginlega sem beinlínis kalla á að láta taka duglega á. Þetta er ekki sleði “sem keyrir sig sjálfur” í jákvæðri merkingu. Hann lofar þér alveg að hafa aðeins fyrir hlutunum en þó fyrst og fremst að hafa gaman af akstrinum. Uppgefin þyngd á styttri sleðanum er 225 kg en 237 á þeim lengri. Fjórgengisvél er í eðli sínu þyngri en tvígengis – fram hjá því verður ekki komist. Þetta er atriði sem sumir virðast líta á sem frágangssök í ljósi þess að þróunin hefur almennt verið í þá átt að létta sleða sem allra mest. Hins vegar virkar sleðinn mjög meðfærilegur í allri meðhöndlun þannig að í almennri notkun virðast aukakílóin ekki koma að sök.

Það sem má betur fara

En er þetta þá bara tóm hamingja? Auðvitað er það jafnan svo að hægt er að finna eitthvað sem má betur fara. Þótt mér finnist Nytroinn flottur þá verður að segjast að það er galli hvað ökumaðurinn er óvarinn. Það blæs ansi hressilega um þig á akstri. Fyrir mig, sem vil geta notað sleðann til lengri ferðalaga, þá þarf gera einhverjar úrbætur. Það er ekki pláss fyrir eina samloku í farangur, hvað þá meira. Með pústið beint aftur úr sætinu þá kemurðu ekki fyrir farangri þar nema gera einhverjar breytingar en það er eitthvað sem íslenskir hugvitsmenn, nú eða “Mr. Yamaha” sjálfur, eiga eftir að finna góða lausn á. Ég myndi einnig þiggja stærri bensíntank. Tankurinn tekur 7,4 gallon eða sem næst 28 lítra. Þú átt að geta komist um 15 mílur á galloninu, segja þeir í USA, sem þýðir eyðslu uppá 15,7 lítra á hundrað km. Samkvæmt því kemstu 179 km á tanknum. Flestir sleðar í dag eru með um 40 l bensíntank þannig að tankurinn á Nytro er 30% minni. Jafnvel þótt fjórgengis sé sparneytnari en tvígengis þá er samt hætt við að þú verðir fyrr með tóman tank en félaginn á tvígengissleðanum, a.m.k. ef miðað er við uppgefna eyðslu á nýjustu tvígengisvélum.

Niðurstaða

Stóð Nytroinn undir væntingum? Já, og gott betur. Ég þóttist nokkuð vita hvernig lengri sleðinn myndi virka en sá stutti kom mér á óvart, sérstaklega fjöðrunin. Persónulega myndi ég samt velja þann lengri þar sem hann myndi henta minni sleðamennsku betur. Hann skilar sér mun betur áfram í lausum snjó og brekkum og með breytingum, þannig að hægt sé að koma fyrir farangri, er hann afbragðs ferðasleði, sennilega einn sá besti sem hægt er að fá. Nytro er líkast til best heppnaði fjórgengissleðinn sem fram hefur komið til þessa. Honum er ætlað burðarhlutverk í sleðaframleiðslu Yamaha og hefur þegar á fyrsta ári sýnt að hann er til alls líklegur. Það skyldi þó ekki vera að hann myndi skila Yamaha á topp sölulistans að nýju, líkt og Phazar gerði fyrir um 20 árum síðan?

Leave a comment