Undanfarin hafa verið veittar viðurkenningar fyrir áhugaverða sleða og bása á Vetrarsportsýningunni. Svo er einnig í ár þótt með örlítið breyttu sniði sé. Síðustu ár hefur verið tilkynnt um valið á árshátíðinni á laugardagskvöldið en í ár var ákveðið að lofa sýningunni að líða áður en valið væri gert opinbert.
Varðandi val á sleðum sýningarinnar hefur verið stuðst við þá vinnureglu að horfa eingöngu til óbreyttra sleða eins og þeir koma frá verksmiðjunni, m.ö.o. að velja ekki sleða sem er búið að setja í aukabúnað til að auka afl og þá heldur ekki sleða með aukabúnaði til ferðalaga. Einnig hefur helst verið horft til nýrra módela af sleðum, þ.e. sleða sem eru að koma nýir á markað.
Líkt og undanfarin ár eru viðurkenningarnar þrjár.
1. Athyglisverðasti nýi sleðinn:
Fyrir valinu að þessu sinni varð Ski-doo MX Z. Í rökstuðningi dómnefndar segir að hér sé einn mest seldi sleði síðustu ára kominn nýr frá grunni. Nýtt boddí þar sem eru stigin áður óþekkt skref við hönnun og smíði á vélsleðum með léttleikan er í fyrirrúmi. Þá má benda á að hann var nýlega valinn sleði ársins hjá tveimur af stærstu útgefendum sleðatímarita í Bandaríkjunum, Snow-Goer og American Snowmobiler.
2. Verklegasti sleðinn:
Fyrir valinu að þessu sinni varð hinn nýi Polaris Dragon 800 RMK. Í rökstuðningi fyrir valinu segir að hér sé kominn nýr sleði frá Polaris með nýjum mótor sem miklar vonir séu bundnar við. Sannarlega einn öflugasti fjöldaframleiddi sleðinn á markaðinum og hefur verið að fá mjög góða dóma hjá reynsluökumönnum erlendis.
3. Viðurkenning fyrir vel útfærðan sýningarbás:
Aldrei verið jafn erfitt að gera upp á milli sýnenda og nú enda virðist þeir stöðugt tilbúnir að leggja meira í sýninguna. Niðurstaðan er glæsilegasta Vetrarsportsýning frá upphafi. Dómnefnd komst að lokum að þeirri niðurstöðu að viðurkenningin í ár skyldi koma í hlut K2 Mótorsport / Ellingsen. Bás þeirra var stór og fjölbreyttur, vel upp settur með miklu vöruúrvali.
Til gamans fylgja hér með niðurstöður úr vali síðustu ára.
Í fyrra (nóvember 2006):
M1000 frá Arctic Cat viðurkenningu sem verklegasti sleði sýningarinnar, Yamaha Phazer fékk viðurkenningu sem athyglisverðasti nýi sleðinn og Icehobby fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðan sýningarbás.
Í hittifyrra (nóvember 2005):
Fallegasti ferðasleðinn var valinn Ski-doo GTX 600, verklegasti sleði sýningarinnar var valinn Arctic Cat M7 og Toyota á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás.
Árið þar áður (nóvember 2004):
Fallegasti ferðasleðinn var valinn Yamaha RS Venture, verklegasti sleði sýningarinnar var valinn Polaris RMK 900 166” og viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás fékk Siggi Bald í Motul.
Árið þar áður (nóvember 2003):
Yamaha Venture var valinn fallegasti ferðasleði sýningarinnar, Arctic Cat King Cat 900 var valinn verklegasti sleðinn, Toyota á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir vel útfærðan sýningarbás.