Lynx vélsleðar frá Finnlandi hafa verið hér á markaði í nokkur ár og komið vel út. Þeir eru söluhæsta sleðategundin í Skandinavíu og raunar í allri Evrópu en markaðshlutdeild þeirra hérlendis hefur ekki verið mikil. Hluti skýringarinnar kann að vera óstöðugleiki í umboðmálum en hann ætti nú að heyra sögunni til. Fyrr á árinu tók Ellingsen við umboðinu fyrir Lynx, samhliða kaupum á Evró, og hefur komið af krafti inn á markaðinn í vetur.
Lynx er í eigu kanadísku Bombardier samsteypunnar, sem einnig framleiðir Ski-doo vélsleða. Margt í þessum tveimur sleðategundum er hið sama , t.d. vélarnar, en annað er frábrugðið. Lynx er þannig sjálfstætt merki og sleðarnir eru smíðaðir í Finnlandi, þótt einstaka undirtegundir komi raunar beint frá verksmiðjunum í Kanada. Framleiðslulínan er fjölbreytt, hönnuð fyrir aðstæður í Norður-Skandinavíu og því ætti Lynx að henta jafnvel betur fyrir íslenskar aðstæður en þeir Norður-Amerísku sleðategundir sem hér eru algengastar í dag. Vinnusleðalínan frá Lynx á sér t.d. ekki hliðstæðu hjá öðrum framleiðendum.
Sleði fyrir allar aðstæður

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt ýmsu fleiru.
Sá sleði sem tekin var til reynsluaksturs að þessu sinni var einn af toppsleðunum í sportsleðalínunni frá Lynx og kallast Xtrim 800 Power TEK. Líkt og önnur ökutæki eru vélsleðar til í ýmsum útfærslum og hannaðir með mismundi notkun í huga. Sleði sem er mjög góður á einu sviði hentar alls ekki á öðru. Hér kemur lengdin á beltinu t.d. við sögu, ásamt ýmsum fleiri þáttum. Langir brekku- og púðursleðar eru góðir til síns brúks en standast ekki samanburð við styttri sleða í aksturseiginleikum eða fjöðrun. Vandamálið sem vélsleðakaupendur standa frammi fyrir, ekki síst hérlendis, er að vélsleðar eru dýr tæki og ekki á margra færi að eiga fleiri en einn sleða til að nota við ólíkar aðstæður. Þetta hafa sleðaframleiðendur leitast við að leysa með því að bjóða upp á alhliða sleða sem nýst geta á mörgum sviðum. Slíkir “blendingssleðar”, sem gjarnan eru einnig kallaðir millilangir með tilvísun í beltislengdina,hafa notið mikilla vinsælda sem endurspeglar þessa þörf sleðamanna fyrir sleða sem þeir geta t.d. notað í púðri og brekkuklifri en eru samt þægilegir í venjulegum akstri og til ferðalaga. Lynx Xtrim 800 Power TEK er dæmi um sleða sem ætlað er þetta hlutverk.
Yfirdrifið vélarafl
Engum blöðum er um það að fletta að 800 Power TEK vélin er eitt af aðalsmerkjum þessa sleða. Hún er sögð skila 140 hestöflum og þau virðast vel útilátin því aflið er yfirdrifið. Þetta er háþróuð vél sem komin er góð reynsla á, tveggja strokka með blöndungum og svokölluðum Reed-ventlum. Beltið á Xtrim er 144×15 tommur með 38 mm spyrnum. Það virðist henta sleðanum vel og skilaði honum vel áfram í bröttum brekkum þótt færið væri laust. Hann virðist því vel geta staðið undir nafni sem fjallasleði.
Hvað teljast góðir akurseiginleikar vélsleða verður alltaf að einhverju leyti háðir mati ökumannsins. Aksturseiginleikar Xtrim ættu þó að falla flestum í geð og skiptir þá miklu að fjöðrunin er fyrsta flokks. Fjöðrunarbúnaður hefur löngum veðrið eitt af því sem markað hefur Lynx ákveðna sérstöðu og greinir hann til dæmis frá hinum kanadíska bróður sínum. Fjöðrunin á Xtrim er mjög vel heppnuð, enda mikið í hana lagt, meðal annars gasdemparar allan hringinn. Einhverjum kann að finnast hún í stífari kantinum en þó ættu allir að geta fundið stillingu við hæfi. Þetta verður samt að teljast mjög góðalhliða fjöðrun, eins og markmiðið hlýtur vissulega að vera með sleðanum. Sleðinn stóð einnig fast í skíðin og stýrði vel. Sætið er vel lagað, hæfilega stíft og ekkert hægt að setja út á ásetu ökumanns.
Góður staðalbúnaður
Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir er staðalbúnaður, ásamt, hita í handföngum og bensíngjöf, þjófavörn, dráttarkrók, rafstarti og bakkgír. Bakkgírinn er hinn skemmtilegi snarvenda, rafeindabúnaður þar sem snúningsátt vélarinnar er snúið við og þetta þyngir því ekki sleðann svo neinu nemur. Aftan við sætið er geymsluhólf og þar fyrir aftan pallur með grind fyrir farangur. Geymsluhólfið er hægt að talka í burt og setja í staðinn aukasæti fyrir farþega og þar með er sleðinn orðinn tveggja manna. Útlit sleðans er stílhreint, samt e.t.v. ekki mjög spennandi, en ætti að standast vel tímans tönn.
Heildarmat
Erfitt er að benda á ákveðna galla á sleða sem þessum og veltur þar meira á persónubundnum þáttum en beinhörðum staðreyndum. Ekki verður betur séð en Xtrim 800 standi vel undir nafni sem alhliða brekku og ferðasleði. Fyrir lengri hálendisferðir er hér líka tvímælalaust einn álitlegasti kosturinn á markaðinum. Hann er sérlega vel búinn með góða aksturseiginleika og yfirdrifið afl. Uppgefið verð er fyrir 2007 árgerðina 1.510 þúsund kr. og má ekki hærra vera sé horft til keppinautanna, t.d. Reagate 800 frá Ski-doo og Crossfire 8 og M8 frá Arctic Cat. Alltaf verður þó að gæta þess að taka allan staðalbúnað með í dæmið og sem fyrr segir er Xtrim einn með öllu.



