Jómfrúarferð um Vatnahjallaveg

Það var jómfrúarferð um Vatnahjallaveg í dag laugardag, og sendi Smári Sig. eftirfarandi pistil og myndir: “Formaðurinn var ansi beittur og hvatti menn til dáða þrátt fyrir mikið frost. Það er nú eða aldrei sagð´ann. Tekið var af við Hólsgerði og létt ferð inn að Hafrá. Þar tók þessi fíni sneiðingur við okkur og flutti okkur á augabragði upp hlíðina og upp á “hælinn”. Þar breiddi Hafrárdalurinn úr sér kaldur en bjartur og alhvítur. Frekar var nú rýrt uppi þar en ekki vandamál að bera sig um. Þegar komið var vestur fyrir Sankti-Pétur tók við hrímþoka en bjart uppi fyrir. Mikið frost og hrímþoka var alla leið í Bergland og inn í Laugafell. Hvítt yfir öllu en ansi rýrt á melunum. Þetta lofar góðu – við höfum séð það svartara á þessum tíma. En Vatnahjallavegurinn á eftir að sanna sig, það eitt er víst.”

Leave a comment