Framkvæmdir við Vatnahjallaveg hófust fyrr í haust og eru komnar vel á veg. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að mótum á vegstæðinu og er það verk nú langt komið. Það er sem kunnugt er Félag vélsleðamanna í Eyjafirði sem haft hefur forgöngu um verkið og að undirbúningi hefur unnið nefnd á vegum félagins undir formennsku Hreiðars í Vín. Í gær mætti vaskur hópur manna fram í Vatnahjalla, með nefndina í fararbroddi, til að halda áfram að stika út fyrir vegstæðinu, sem gekk bæði fljótt og vel.
Hinn nýi Vatnahjallavegur verður glæsilegt mannvirki. Þegar hann verður fullbúinn standa vonir til að þarna verði greið leið upp á hálendið stjórn hluta úr vetrinum og ekki síst mun vegurinn koma sér vel þegar fer að vora og snjólínan færist ofar. Það er að sjálfsögðu vélsleðamaður sem sem unnið hefur verkið en þar er á ferð Trausti Halldórsson á gröfu frá Dóra Bald. Væntanlega ræðst það nokkuð af tíðarfari hversu mikið verður hægt að klára í haust en sem fyrr segir er ekki langt í að lokið verði við að móta vegstæðið upp á hælinn. Þá á eftir að laga veginn til með jarðýtu og setja á hann burðarlag.
Í vegasafni 4×4 skrifar Jóhann Björgvinsson um Vatnahjallaveg og segir meðal annars. “Um Vatnahjalla hefur legið vegur frá landnámi, vegurinn var varðaður 1882 af Fjallvegafélaginu. Vatnahjallavegur er fyrsti hluti Eyfirðingavegar, sem nær suður á Þingvelli. Um Vatnahjalla var lagður fyrsti bílvegurinn upp úr Eyjafirði, það var Ferðafélag Akureyrar sem stóð að þeirri vegalagningu á árunum 1939-1944 og þá varð fært úr Eyjafirði inn í Laugafell og þaðan á Sprengisandsleið. Veginum hefur ekki verið haldið við síðan 1957”
Lýsing Jóa á gömlu leiðinni er þannig: “Leiðin liggur fyrst upp úrrunna moldarsneiðinga, síðan upp Hafrárdalinn og upp á Vatnahjallann sjálfan. Á því svæði er mjög stórgrýtt. Þegar kemur suður fyrir Urðarvötn minnkar grjótið og syðsti hlutinn er um greiðfæra mela. Vegurinn er mjög torfær og er aðeins fær bílum á stórum hjólum með læsingar. Snjór liggur þarna langt fram eftir sumri. Af veginum er afleið út á Torfufell, þar sem Landsíminn var með aðstöðu. Einnig er afleið yfir að Grána. Fjallaskálinn Bergland stendur við leiðina austan við syðra Urðarvatnið.”
Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær.
- Nýi vegurinn er glæsilegt mannvirki eins og sjá má. Myndin er tekin u.þ.b. í miðri hlíðinni og sér niður Eyjafjörð.
- Mannskapurinn mættur á staðinn. Hér má m.a. sjá Jón Björns, Eirík Jónsson, Grétar Ingvarsson og Hreiðar í Vín, en þeir hafa setið í Vatnahjalla-nefndinni fyrir EY-LÍV.
- Byrjað að mæla og spekúlera.
- Búið er að móta nýja vegstæðið langleiðina upp hlíðina. Vinstra megin á myndinni sést í gamla vegstæðið.
- Hér á vegurinn að halda áfram.
- Mannskapurinn dreifður um alla hlíðina.
- Hreiðar og Eiríkur með mæligræjuna.






