Alfreð Schiöth fór ásamt fleirum í ferð um Kinnarfjöll þann 4. maí sl. Kinnarfjöllin eru skemmtilegt svæði og margt að sjá. Sendi Alfreð ferðasögum og myndir.
Hinrik, Helgi og Alfreð tóku létta morgunsveiflu í Kinnarfjöllum þann 4. maí sl. Farið úr Dalsmynni suður Hólsdal og austur Finnsstaðadal niður á Þröskuld, síðan norður í Gönguskarð og ekið vestur skarðið og síðan upp Uxaskarð. Úr Uxaskarði var farið um Austurdal og Kotadal og langleiðina niður á Kotamýrar. Þar var færi rýrt og snúið við og farið Kotaskarð og áð í hlíðinni ofan við Björg í Kaldakinn í sól og hita. Ægifagurt útsýni; Skjálfandi og fljótið, Grímsey, Lundey, Mánáreyjar, Tjörnes, Grísatungufjöll, Lambafjöll, Gæsafjöll, Mývatnssveit og nærsveitir. Þá var rennt upp í Skessuskál og suður með Nípá og þaðan niður Uxaskarð og þrætt norður Flateyjardal og áð á móts við Heiðarhús við Ytri-Jökulsá. Þar sem nokkuð var gengið á bensínforða og loft að þykkna var snúið við og farið yfir Gönguskarðsá á snjóbrú og þrætt inn Hólsdal og yfir Hólsá og skemmstu leið til byggða.











