Grænn dagur í Ólafsfirði

Arctic Cat menn fóru sælir og sáttir heim úr fyrstu umferð Íslandsmótsins í snjókrossi sem framm fór í Ólafsfirði í dag. Þeir unnu sigur í öllum flokkum, Aðalbjörn Tryggvason í unglingaflokki, Ásgeir Frímannsson í sportflokki og Íslandsmeistarinn Helgi Reynir Árnason í meistaraflokki. Ekki skemmdi heldur fyrir stemmningu heimamanna að allir eiga þeir að meira eða minna leyti rætur sínar í Ólafsfirði.

Veður var mjög gott í Ólafsfirði í dag og öll umgjörð keppninnar til fyrirmyndar, bæði fyrir áhorfendur og keppendur, eins og venja er. Er leitun að mótorsportviðburði hérlendi sem er jafn vel skipulagður og snjókross mótaröðin. Aðstæður til aksturs voru reyndar erfiðar en hiti var nokkuð yfir frostmarki og því grófst brautin mikið. Urðu talsverð afföll bæði af sleðum og ökumönnum, sem setti mark sitt á keppnina þegar á leið.

Reynsluboltar í unglingaflokki

Gaman var að fylgjast með baráttunni í unglingaflokki og eru sumir ökumenn þar orðnir mjög flinkir, enda komnir með talsverða reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Baráttan stóð einkum á milli Aðalbjörns Tryggvasonar (Adda) og Sæþórs Sigursteinssonar, sem báða má flokka undir “reynslubolta” í faginu, og síðan nýliðans Baldvins, sem sýndi fantagóðan akstur á köflum. Í úrslitahítinu var það Addi sem fór með sigur af hólmi og þar á eftir komu Sæþór og svo Baldvin.

Ásgeir einráður

Sportflokkurinn var gríðarlega spennandi og margir keppendur. Heimamaðurinn Ásgeir Frímannsson sýndi frábæran akstur og sigraði í öllum hítum. Hann varð Íslandsmeistari í unglingaflokki sl. vor og verður greinilega ekki auðunninn í vetur. Annar keppandi úr unglingaflokki í fyrra, Jónas Stefánsson (Jonni), sýndi einnig snilldartakta. Nokkrir nýliðar mættu til leiks í sportflokkinn og sýndu flott tilþrif. Einn þeirra, Kári Jónsson, gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti í úrslitahítinu, á milli þeirra Ásgeirs og Jonna.

Íslandsmeistarinn seigur

Gríðarleg barátta var í meistaraflokknum, eins og við var að búast. Eyþór Hemmert Björnsson sýndi hvers hann er megnugur og vann fyrstu tvö hítin með svakalegum akstri. En í þriðja híti bilaði sleðinn og gekk ekki eðlilega en þrátt fyrir það tókst honum að vinna. Var hálf broslegt að fylgjast með honum landa sigri á fretandi sleðanum án þess að keppinautunum tækist að vinna á hann svo neinu næmi. En fyrir úrslitahítið var hann því nánast úr leik og dólaði bara með til að safna stigum. Því var allt galopið í startinu og allt útlit fyrir hörkubaráttu um sigurinn. Hún hlut því snöggan endi strax í fyrsta hring þegar Austfirðingarnir Steinþór og Fannar lentu í samstuði. Eftir það var leiðin greið til sigurs fyrir Íslandsmeistarann Helga Reynir en um annað sætið börðust Guðmundur Rafn (Galfýr) Jónsson og Reynir Stefánsson, eða Brói, sem mættur var á ný í slaginn eftir nokkurra ára hlé. En Ólafsfirðingurinn síkáti, eins og þulur mótsins nefndi Galfýrinn, landaði öðru sætinu að lokum.

Leave a comment