Laugardaginn 28. janúar 2006 stóð Ey-lív fyrir dagsferð í Mývatnssveit og nágrenni. Jón Skjöldur Karlsson snaraði í snatri saman stuttri ferðasögu og einnig tók hann fullt af myndum sem komnar eru á netið.
Það voru um 30 sleðar sem lögðu af stað frá Kröflu undir dyggri fararstjórn heimamanna í fínu veður og ágætu færi. Snjóalög voru ágæt til að byrja með en smá þræðingur var til að komast niður á Eilífssvatn. Þaðan var strikið tekið að Dettifossi þarf sem tekin var góð pása. Nokkur sunnan strekkingur var og við Dettifoss og fljótlega kom smá rigning, en þó ekki það mikil að hún væri til vandræða. Frá Dettifossi var þrusað á fullri ferð norður á Þeistareykjabungu í ágætum snjó. Þar var útsýnið kannað norður í Kelduhverfi. Næst var stoppað við Litla Víti og svo var haldið í vestur að skálanum við Þeistareyki. Þar fór nú snjórinn verulega að minnka. Eftir stutt kaffistopp var haldið áfram norður með Bæjarfjalli og að Gæsafjöllum.
Óttarlega var nú snjórinn rýr og fengu menn aðeins að reyna sig í þúfuakstri en í sárabót fór sólin að skína. Smá töf varð þegar kraftmikill Arctic cat lét ekki alveg að stjórn að lenti á steini og sleða og ökumaður tóku smá flugferð. Hjálmurinn og brynjan sönnuðu gildi sitt og varð ökumann ekki meint af. Það tókst að hefta sleðann saman og kláraði hann túrinn. En svo fengu menn umbun fyrir torfærið þegar farið var upp þröngt gil syðst á Gæsafjöllum og uppá þau þar sem var bara fínt útsýni. Þaðan létu menn sig austur af Gæsafjöllum niður nokkuð bratta brekkur og svo var tekinn sveigur norður fyrir Leirhnjúkshraun og svo suður í Kröflu þar sem Team Motul var að við snocross æfingar og gátu menn horft á tilþrifin áður en sleðar voru lestaðir á kerrur. Stór hluti af hópnum endaði svo í Jarðböðunum góðu þar sem sagðar voru sögur áður en menn héldu heim á leið. Góður dagur í fínum félagsskap. – Jón Skjöldur Karlsson
