Um helgina var síðuhöfundur þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í flotta jeppaferð um norðanvert hálendið og Vatnajökul. Var farið allt vítt yfir og gafst því kjörið tækifæri til að taka út snjóalög, auk þess sem smellt var af nokkrum myndum.
Farið var var þremur jeppum og fékk undirritaður að fljóta með Smára Sig. á hans 44” Land Cruser. Aðrir í för voru Gísli Óla. á ofur Hy-lux og Maggi Arnars í jómfrúar-fjallaferðinni á glæsilegum Land Cruser 90 (þ.e. fyrsta ferð Magga eftir að hann keypti bílinn en báðir hafa auðvitað farið oft á fjöll hvor í sínu lagi).
Byrjað á Laugafelli
Lagt var af stað á föstudagskvöldi og stefnt í Laugafell um Bárðardal. Þegar byggð sleppir í Bárðardal er lítið um snjólaög að segja. Fyrir utan svellbunka og nokkra hjarnskafla var fátt sem minnti á vetur. Þetta hefur þó væntanlega lagast síðasta sólarhring. Þegar land tekur að hækka eykst snjórinn jafnt og þétt og við Galtaból er fínn snjór. Ágætt jeppa- og sleðafæri virtist raunar vera um allt hálendið upp af Eyjafirði og í Laugafell.
Gæsavötn
Um morguninn var vaknað í flottu veðri í Laugafelli og meðal hefðbundinna morgunverka var að sjálfsögðu ferð í laugina. Ákveðið var að aka áleiðis í Gæsavötn og farin svokölluð forsetaleið áleiðis að Fjórðungsöldu. Þarna hefði verið vandræðalaust að aka um á sleða þótt sennilega teljist snjóalög vera í lélegu meðallagi. Farið var yfir Bergvatnskvísl á vaðinu og virtist þar vera traustur ís. Þaðan var stefnan tekin norður í Sandbúðir þar sem bjartsýnustu menn vonuðust eftir því að staðarhaldari biði með heitt á könnunni. Það brást hins vegar eins og oftast áður. Frá Sandbúðum var stefnan tekin austur á bóginn að Skjálfandafljótsbrú og sveigt suður fyrir hraunið. Veður var fremur hryssingslegt og snjólaög léleg á þessari leið. Austan Skjálfandafljóts og að Gæsavötnum hefði t.d. varla verið hægt að komast á sleða á laugardaginn með góðu móti.
Um kl. 4 var rennt í hlað á Gæsavötnum og þar sem veðrið var ekkert sérstakt til aksturs var ákveðið að taka bara lífinu með ró. Kvöldmaturin var tekinn með fyrra fallinu, sverar grillsteikur með brúnuðum kartöflum að hætti hússins og hefði maturinn dugað í 20-30 manna veislu. Það voru því saddir menn sem gengu snemma til náða.
Þungt færi á jökli
Á sunnudagsmorgni var vaknað í frábæru veðri, björtu og köldu. Þótti tíðindum sæta að tókst að halda Smára í koju þar til klukkan var langt gengin níu. Eftir frágang í skálanum var stefnan tekin inn á jökul upp frá Gæsavötnum. Var gaman að fylgjast með sólinni koma upp og byrja að skína á fjöllin eitt af öðru. Þrátt fyrir brattar brekkur og laust færi gekk all vel að komast inn á jökul og sannaði skriðgírinn hjá Smára þar ágæti sitt í fyrsta en ekki síðasta sinn í ferðinni.
Eftir að hafa sprautast inn Dyngjujökulinn dágóða stund í allgóðu færi var ákveðið að taka hring um Bárðarbungu og niður Köldukvíslarjökul. Sóttist ferðin vel framan af en þegar komið var upp undir 1.700 metra hæð fór að kárna gamanið og færið að þyngjast svo um munaði. Máttu menn sætta sig við að mjakast áfram í lægsta gír klukkutímum saman. Hörð skel var ofaná en skraufþurrt púður undir sem reyndis jeppunum afar erfitt. Fyrst þegar fór að halla aftur niður Köldukvíslarjökulinn fór ferðahraðinn aftur að aukast. Kalt var á jöklinum (-18gráður), sólskin en nokkur skafrenningur. Höfðu menn á orði að gott væri að dreifa snjónum aðeins betur því mikill snjór virtist vera kominn á jökulinn þótt lítið væri á hálendinu umhverfis hann.
Upp Gjóstuklifið
Farið var að dimma þegar komið var ofan í Vonarskarð og var ákveðið að reyna að komast Gjóstuklifið. Eins og þeir vita sem til þekkja er það bæði brött og löng brekka sem fara þarf til að komast norður úr Vonarskarði, eða krækja að öðrum kosti fyrir klifið og eiga á hættu brölt yfir ótryggar ár og læki, sem ekki þótti freistandi í myrkrinu. Í Gjóstklifinu sannaði skriðgírinn hjá Smári sig enn frekar og upp komust allir eftir nokkrar tilfæringar. Var nú leiðin greið að kalla norður úr skarðinu þaðan sem stefnan var tekin á Sandbúðir og áleiðis niður í Bárðardal. Heim í Eyjafjörð var komið um miðnættið eftir langan en skemmtilegan dag og viðburðarríka helgi. -HA
- Komnir í snjó og Smári að hleypa úr.
- Valgeir Hugi í sinni fyrstu fjallaferð að vetri – alsæll.
- Smá kaffistopp.
- Morgunmatur í Laugafelli. Valgeir, Gísli, Maggi og Smári.
- Valgeir að smyrja nesti til dagsins.
- Krúserinn hans Magga hrímaður að morgni dags.
- Ofur Hi-luxinn hans Gísla með gamla Laugafellsskálann í baksýn.
- Hópur Eyfirðinga gisti á loftinu í snyrtihúsinu.
- Maggi að minnka loftið.
- Úbbs-hér brotnaði aðeins undan okkur.
- Hjólin dingluðu bara í lausu lofti og meira en skóflulengd var eftir niður á botn.
- Smári byrjaður að moka frá.
- Tveimur beitt fyrir í drættinum og auðvitað var þetta lítið mál fyrir vana menn.
- Valgeir í holunni eftir bílinn.
- Komnir að brúnni yfir Skjálfandafljót. Veðrið ekkert spes.
- Séð af brúnni ofan í fljótið.
- Smári að fara yfir.
- Málin rædd.
- Komnir í Gæsavötn og byrjað á að moka frá hurðinni.
- Smári dregur upp nýja grillsettið.
- Búið að kveikja upp og Gísli klár við grillið.
- Verið að gefa skýrslu heim.
- Valgeir að pakka saman í Gæsavötnum.
- Morgunverk í Gæsavötnum.
- Gæsavötn í morgunskímunni.
- Fallegur himinn og sérstök birta með tunglið hátt á lofti.
- Morgunbirta í Gæsavötnum.
- Lagðir af stað áleiðis á jökul. Sólin gyllir Trölladyngju.
- Tunglið enn á sínum stað..
- Smári mjakast upp brekkurnar í skriðgírnum.
- Maggi að hleypa meira úr.
- Sér til vesturs á Tungnafellsjökul.
- Í ólgusjó á jökli.
- Gísli á fartinni.
- Með sólina beint í andlitið.
- Valgeir norðaustan undir Bárðarbungu með Kverkfjöll á baksýn.
- Hleypt meira úr enda færið orðið þungt.
- Á jökli í -18 gráðum og strekkingi.
- Rosabaugur um sólu.
- Áfram “veginn”, fet fyrir fet.
- Í Vonarskarði. Gísli að kanna lækina.
- Meira af því sama. Maggi að ná í spottann.









































