Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landsamband íslenskra vélsleðamanna hafa nú í sameiningu gefið út bæklinginn Öryggi og ábyrgð, upplýsingarit um akstur vélsleða. Þar er farið yfir helstu þætti hvað notkun vélsleða s.s. lög og reglur, aðsteðjandi hættur, ástæður vélsleðaslysa, hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir þessi slys, hlífðar og öryggisbúnað og almennar ferðareglur svo eitthvað sé nefnt.
Frá því síðla árs 2004 hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg átt í samstarfi við Rannsóknarnefnd umferðarslysa og Landssamband íslenskra vélsleðamanna um forvarnir í notkun vélsleða. Strax í upphafi þessa samstarfs varð ljóst, að umræða um notkun vélsleða og vélsleðaslys var lítil á meðal almennings og hvorki heilbrigðis né lögregluyfirvöld hafa haldið utan um þennan slysaflokk með skipulögðum hætti. Það sem af er þessu ári hefur verið unnið að nauðsynlegum breytingum hvað þetta varðar og hafa Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landsaband íslenskara vélsleðamanna og Rannsóknarnefnd umferðarslysa, unnið að því í sameiningu að opna umræðuna um þessi mál og þá ekki síst slysin sjálf, orsök og afleiðingar þeirra svo að draga megi lærdóm af þeim og nota þá vitneskju í forvarnarstarfi. Vélsleðaeign íslendinga eykst með ári hverju og slysunum fjölgar samhliða því. Til að auka öryggi vélsleðamanna hefur m.a. verið gert átak á meðal vélsleðamanna um að nota svokallaðar brynjur sem verja brjóstkassa og hrygg og geta dregið verulega úr áverkum ef slys/óhapp verður og hefur notkun þeirra aukist til muna það sem af er þessu ári. En brynjur og annar búnaður kemur ekki í veg fyrir slysin. Það verðum við að gera sjálf.
Leitast verður við að dreifa nýja bæklingnum sem víðast þannign að hann komist helst í hendur allra vélsleðamanna landsins. Bæklingnum var m.a. dreift á Vetrarsportsýningunni á Akureyri um síðustu helgi.
Bæklingurinn er einnig aðgengilegur á vef LÍV