Vel heppnaður landsfundur LÍV

Árlegur landsfundur Landssambands Íslenskra vélsleðamanna var haldinn á Hveravöllum í dag. Um 30 manns sóttu fundinn og var Ásbjörn Helgi Árnason endurkjörinn forseti sambandsins.

Störf fundarins voru með hefðbundnum hætti. Ásbjörn flutti skýrslu stjórnar þar sem hann fór yfir liðið starfsár og tæpti á helstu málum sem verið hafa á borði stjórnar. Jóhann Gunnar Jóhannsson gjaldkeri fór yfir peningamálin og voru reikningar samþykktir samhljóða. Þá fluttu formenn svæðafélaganna skýrslur sínar um starf félaganna, þ.e. Ríkarður Sigmundsson frá LÍV-Reykjavík, Sigurjón Jónsson frá Snæ-LÍV í Skagafirði og Björn Magnússon frá Ey-LÍV. Í kjöri til stjórnar og gaf Ásbjörn Helgi kost á sér til áframhaldandi setu. Kjósa þurfti um tvo aðalmenn í stjórn til tveggja ára en kjörtímabil Jóhanns Gunnars og Böðvars Finnbogasonar var útrunnið. Jóhann gaf kost á sér áfram og nýr í stjórn var kjörinn Sigurjón Jónsson úr Skagafirði.

Undir liðnum önnur mál bar ýmislegt á góma, svo sem öryggismál og innra skipulag sambandsins. Fram kom að í vinnslu er bæklingur um öryggismál sem LÍV gefur út í samvinnu við Landsbjörg og er stefnt á útgáfu á honum í næsta mánuði. Talsverðar umræður urðu um skipulag og lög sambandsins. Samþykkt var að beina því til formanna svæðafélaganna að þeir kanni hug félagsmanna sinna til skipunar nefndar er fari yfir og geri tillögu um breytingar á lögum sambandsins fyrir næsta landsfund að ári liðnu. Þá var nokkuð rætt um tengingu LÍV við keppnisgeirann en LÍV-Reykjavík steig skref í þá átt á liðnu starfsári. Lýstu þeir fundarmenn sem til máls tóku yfir ánægju með þessa þróun og verður væntanlega nánar tekið á þessum málum í umræðum um lagabreytingar. Að loknum fundi var síðan grillveisla í boði LÍV.

Þess má geta að einn fundarmanna mætti á Hveravelli á vélsleða og rak menn ekki minni til að slíkt hefði gerst áður. Þótti þetta ótvírætt merki um að í framundan væri mikill snjóavetur.

Leave a comment