Eftirminnileg afmælishelgi LÍV

Um síðustu helgi var afmælisfundur Landssambands íslenskra vélsleðamanna haldinn í Nýjadal. Þrátt fyrir að veðurguðirnir væru sleðamönnum afar óhliðhollir var engu að síður nokkuð á fjórða tug manna sem lagði á sig erfiða ferð inn á hálendið til að minnast stofnunar sambandsins fyrir 21 ári.

Raunar virðist veðrið jafnan leggja sig fram við að vera í aðalhlutverki þegar stórviðburðir á vegum LÍV eru annars vegar. Sambandið var stofnað í Nýjadal þann 9. apríl 1984 og varð það athæfi landsfrægt á sínum tíma. Hið versta veður brast á og lenntu margir í hrakningum af þeim sökum. Þegar síðan átti að fagna 20 ára afmælinu í fyrravetur urðu menn að hætta við vegna snjóleysis! Stjórn LÍV var einhuga um að gefast ekki upp og halda fast við að minnast stofnunarinnar. Í vetur hittist líka svo vel á að stofndaginn bar upp á laugardag og því kjörið að stefna sleðamönnum saman um þessa helgi.

Undanfararnir

Fyrstu menn lögðu af stað um miðjan dag sl. fimmtudag og þar voru á ferð Ásbjörn Helgi og Jóhann Gunnar stjórnarmenn í LÍV við þriðja mann. Vildu þeir mæta tímanlega á staðinn þar sem langan tíma tekur að ná upp hita í húsunum í Nýjadal. Ferðin var ekki tíðindalaus því nokkuð austan við Laugafell ók forsetinn á stein með þeim afleiðingum að “Kóngurinn” varð óökufær. Þeir gáfust þó ekki upp heldur tvímenntu áfram á Gand Touringnum hans Jóka. Komið var nokkuð fram á nótt er þeir náðu í Nýjadal og voru þá höfð snör handtök við að kveikja upp og moka út mesta snjónum. Var síðan lagst til svefns í eldhúsinu en nokkuð mun mönnum hafa verið kalt á tánum er leið á nóttina.

Um morguninn brunuðu þeir félagar síðan aftur til baka og var nú “Kóngurinn” bundinn öfugur aftan á Jóka. Þannig var ekið í Laugafell og beðið eftir varahlutum sem símað hafði verið eftir til byggða.

Sendiboðarnir

Næstir eru kynntir til sögunnar sendiboðar þeir sem valist höfðu til að færa forsetanum varahluti til að lífga “Kónginn” við. Voru það þeir sálufélagar Siggi Bald. og Mummi Lár. og höfðu uppi stór orð um að ekki yrði mikið mál að skjótast þennan spotta. Lögðu þeir af stað af Öxnadalsheiði um kl. fjögur á föstudaginn en komust all nokkru skemur en áætlun gerði ráð fyrir. Raunar börðust þeir áfram í tvo tíma en komust þó ekki nema rétt fram í miðjan Kaldbaksdal, enda færi og skyggni með því versta sem gerist. Voru þeir að koma til baka örþreyttir eftir óteljandi festur um kl. sex, rétt í sama mund og aðal hópurinn var að mæta upp á heiði.

Flokkurinn ógurlegi

Undirritaður var með síðustu mönnum til að mæta upp á Öxnadalsheiði, klukkan langt gengin sjö. Má þá segja að hálfgert upplausnarástand hafi verið ríkjandi og vildu ýmsir snúa heim aftur ekki seinna en strax. Veðrið var vissulega frekar fúlt en þó var verra að skyggni til aksturs var u.þ.b. ekkert og færið erfitt, mikill blautur og þungur snjór. Líkt og fyrir 21 ári var það “barnsfaðir” LÍV, Steini Pje. sem hvatti menn óspart til dáða og hélt uppi móralnum, staðráðinn í að leggja sem fyrst af stað. Hreiðar formaður, Jón Björns. og Úlli höfðu farið þrír af stað til að kanna aðstæður í dalnum, sem Siggi og Munni höfðu ekki fagrar lýsingar á, en á meðan biðu aðrir átekta. Var nokkuð spáð í hverning þeim þremenningum myndi reiða af en þeir sem þekktu umrædda menn vissu sem var að þeir myndi ekki snúa við fyrr en þeir væru komnir upp úr dalnum og inn á Nýjabæjarfjall.

Það stóð líka heima og eftir um tvo tíma komu þeir félagar til baka, frekar góðir með sig, búnir að leggja slóð inn allan dal. Fóru menn nú að ferðbúast en í ljósi slæmrar veðurspár verð niðurstaðan sú að meirihlutinn ákvað að bíða átekta fram á morgun og taka þá ákvörðun um framhaldið. Átta manns lögðu hins vegar af stað á sleðum og gekk ferðin að óskum, enda farið að dimma þannig að mun auðveldara var að aka. Ferðin inn í Laugafell var tíðindalítil að því undanskyldu að Eiríkur Jóns. tók skykki úr drifhúsinu eftir að hafa gert helst til ágengur við jarðfastan stein. Var gripið til þess ráðs að troða tusku í gatið, hella húsið fullt af olíu og aka síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Í Laugafelli biðu undanfararnir spenntir eftir varahlutunum og þótt komið væri fram á nótt drifu þeir sig í gallana og hófu að gera við, á meðan aðrir lögðust til svefns. Óku þremenningarnir síðan í Nýjadal um nóttina, eftir að “Kóngurinn” hafði öðlast fyrri reisn.

Dag skal að kveldi lofa…

Morguninn í Laugafelli var tekinn rólega eins og vera ber, enda ekki ástæða til óðagots í blíðviðrinu. Farið var í laugina, borðað vel og reynt að afla frétta úr byggð. Kom í ljós að all stór flokkur stefndi upp á Öxnadalsheiði. Varð að ráði að Hreiðar og Smári óku til baka noður Nýjabæjarfjall á móti hópnum, Eiríkur varð eftir í Laugafelli og beið eftir viðgerðarefni í drifhúsið á meðan afgangurinn átti tíðindalitla en góða ferð í Nýjadal. Er leið á daginn bættist þar við harðsnúinn flokkur Skagfirðinga sem farið hafði frá Hveravöllum og um Ingólfsskála. Létu þeir frekar illa af sleðafæri norðan Höfsjökuls.

Af ferð þeirra Smára og Hreiðars er það hins vegar að segja að þeir óku norður allt Nýjabæjarfjall og niður í Kaldbaksdal til móts við hóp Eyfirðinga og Skagfirðinga sem þá var lagður af stað af Öxnadalsheiði. Þar var staðan sú að ýmsum gekk verr að kljást við púðrið í brekkunum en öðrum og nutu þeir aðstoðar hinna reyndari við að komast leiðar sinnar. Inn á Nýjabæjarfjalli var síðan leiðinda veður og gekk á ýmsu við að koma öllum hópnum inneftir. Tók það reyndar megnið af deginum og það voru þeyttir en ánægðir menn sem óku í hlað í Nýjadal að áliðnu kvöldi.

Heiðusfélagarnir

Eftir að menn höfðu nært sig og náð andanum stóð stjórn LÍV fyrir stuttum hátíðarfundi. Þar voru fjórir af frumkvöðlunum að stofnun LÍV sæmdir nafnbótinni “heiðursfélagi LÍV”, þeir fyrstu í sögu sambandsins. Þetta voru þeir Villi Ágústar., Steini Pje., Tómas Búi og Sveinn í Kálfsskinni. Voru þrír þeir síðasttöldu mættir í Nýjadal til að taka við viðurkenningum sínum en Villi átti ekki heimangengt að þessu sinni. Þeir félagar þökkuðu að sjálfsögðu heiðurinn og launuðu fyrir sig með nokkrum góðum sögum.
Á sunnudagsmorgni var risið snemma úr rekkju og áttu menn ánægjulega heimferð eftir því sem best er vitað. Verður ekki annað sagt en að þetta afmælismót LÍV hafi tekist vel og verður án ef lengi í minnum haft, ekki síst hjá þeim sem voru þarna að stíga sín fyrstu skref í sleðamennsku. –HA

Fleyg umæli sem féllu um helgina:
(Athugið að góð saga má aldrei líða fyrir sannleikann)

  • “Skyggnnið í þessu dalrassgati er mínus núll.” –Mummi Lár eftir glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Þetta veður ekkert mál því ég þekki dalinn út og inn. Pabbi hefur svo oft labbað hann.” Siggi Bald. FYRIR glímuna við Kaldbaksdalinn.
  • “Ósköp hljóta þessir menn að eiga bágt.” – Hreiðar þegar hann sá Ski-doo flotann sem Skagfirðingar óku.
  • “Það er botlaus krapi, allt á kafi í púðri og maður sér ekki neitt.” – G. Hjálmarsson að lýsa aðstæðum á Öxnadalsheiði á föstudagskvöldið
  • “Ég skellti “Kónginum” bara á krókinn og strappaði hann fastan.” – Jóki að lýsa flutningi á sleða forsetnas.
  • “Ég hafði nú hálf gaman af því að sjá Bjössa tak´ana langsum.” – Sveinn í Kálfsskinni eftir að Hesjuvalla-Björn hafði fest sig í sprungu.

Leave a comment