Arctic Cat hefur nú afhjúpað alla 2006 línuna og hafa þá allir bandarísku framleiðendurnir lagt spilin á borðið. Aðeins Lynx á eftir að sýna á hverju þeir luma. Því ættu menn fyrir alvöru að geta farið að velta fyrir sér hvað á að kaupa fyrir næsta vetur.
Arctic Cat er ekki með neinar stórar flugeldasýningar að þessu sinni heldur einbeitir sér að ýmsum þáttum sem gera eiga Kattarfjölskylduna enn meira aðlaðandi fyrir væntanlega kaupendur. Þegar var búið að kynna nýja Crossfire sleðann og eru meira að segja fyrstu eintökin komin hingað til lands. Annað sem hæst ber eru endurbættar 500 og 600 EFI vélar. Litið er á nýju 600 vélina (600 EFI II) sem fyrsta skref Arctic Cat í að mæta strangari reglum um mengum sem væntanlegar eru. Hitaskynjarar í pústinu eru notaðir til að hafa blöndu lotfs og bensíns eins veika og mögulegt er (án þess þó að steikja vélina) sem bæði skilar auknu afli og minni eyðslu.
Arctic Cat kynnir nú einnig ýmsan búnað sem gera á notkun ferðasleðana enn þægilegri. Fyrst má nefna upphitað sæti á LE Touring. Svona fyrirfram efast ég reyndar um gildi þessa búnaðar hérlendis og spurning hvort þetta veldur ekki fyrst og fremst því að menn sitja stöðugt á bautu sæti. Svona búnaður hefur sést áður og ekki slegið í gegn.
Annar og sýnu áhugaverðari búnaður í LE Touring er innbyggt talstöðvakerfi með 15 rásum, Cat Comm. Það á að draga 2 mílur og hefur að sögn einhverja möguleika á samhæfingu við önnur talstöðvakrefi. Í boði er hjálmur með innbyggðum hátalara og míkrafóni fyrir þetta kerfi og spurning er hvort hægt væri að nýta hjálminn með VHF talstöðvunum sem margir sleðamenn hérlendis hafa verið að kaupa. En kíkjum þá aðeins á framleiðslulínuna.
Stuttir sportsleðar
ZR 900 lifir enn góðu lífi en kemur nú með EFI í stað blöndunga. Val er um standard eða Sno-pro útgáfu sem öflugri dempurum og grófara belti. Firecat koma á nýju belti frá Camoplast og eru fáanlegir 700 með og án EFI, 600 EFI II og 500 með blöndungum. Allir annað hvort boðnir í standard eða Sno-pro útgáfu. F6 og F7 verða nú fáanlegir með bakkgír og fá þá aftur hefðbundin drifbúnað með keðjuhúsi.
Millilangir
Nýi Crossfire sleðinn hefur þegar verið kynntur hér á vefnum og litlu við það að bæta. Þetta er án efa afar skemmtilegur alhliða sleði sem byggður er á M-7 fjallasleðanum en með Firecat framfjöðrun. Í boði eru 600 EFI eða 700 EFI vélar og beltið er 15x136x1.25 tommu Camoplast Rip Saw.
M-línan
M-línan eða fjallasleðarnir koma að mestu óbreyttir frá 2005 árgerðinni enda hafa viðtökurnar og dómarnir verið með þeim hætti að vandséð er hvað hægt væri að bæta. Nýir demparar líta þó dagsins ljós og aðrar útfærslur af beltislengdum. Öll beltin eru 15 tommu breið frá Camoplast með 2,25 tommu spyrnum (nema í M5) en val er um Attack (stífara) eða Callenger (mýkra) í mismunandi lengdum. Það er vert að gefa einfaldlega smá yfirlit:
M7: 153 eða 162 tommu Attack-belti eða 141, 153 eða 162 tommu Challenger-belti.
M6: 153 tommu Attack eða 141 eða 153 tommu Challenger.
M5: Hinn nýi M5 EFI kemur á 15x141x1.6 tommu Attack-belti.
Ferðasleðar
Sabercat í ýmsum úrfærslum og T660 ST fjórgengissleðinn eru allir boðnir áfram í 2006 árgerðinni. Eini sleðinn sem enn ber hina kunnuglega EXT skammstöfun er græja sem ég hygg að margir gætu verið spenntir fyrir. Þetta er Sabercat 700 EFI sem skartar 13.5×144 tommu belti meðan aðrir Arctic Cat sleðar í þessum flokki eru boðnir á 128 tommu löngu belti. Áður hefur verið farið yfir nýjungar í Touring LE sleðunum, svo sem upphitað sæti og talstöðvakerfið.
Að lokum
Sem sjá má er margt spennandi í boði hjá Arctic Cat fyrir næsta vetur. M-línan verður án efa áfram vinsæl hérlendis sem erlendis og fyrstu viðbrögð við Croccfire benda til að hann verði vinsæll hérlendis, en þegar eru nokkrir á leið til landsins eða þegar komnir. Þá er Sabercat 700 EFI EXE áfram með áhugaverðustu sleðum sem boðnir eru. Sjálfur ætti ég erfitt að gera upp hug minn en sem betur fer er enn nokkur tími til stefnu.
