Sleðamennskan er skemmtilegt sport. Það er fátt sem býður upp á meira frelsi, fleiri möguleika til að njóta þess sem veturinn hefur uppá að bjóða. Frelsið sem við höfum er dýrmætt og vandmeðfarið. Svo vandmeðfarið að lítið þarf til að klúðra því.
Slys á vélsleðamönnum eru alltof algeng því nánast um hverja helgi má heyra í fjölmiðlum frásagnir um alvarleg slys tengd sleðamennskunni. Stærsti þátturinn í að fyrirbyggja slys liggur hjá ökumanninum sjálfum. Undirbúningur ferðar, þar sem tæki og tól eru höfð í góðu lagi, allur öryggisbúnaður yfirfarinn og menn hafa aflað sér kunnáttu varðandi notkun þeirra tækja og tóla sem þeir hafa, er sá grunnur sem leggja þarf upp með. Landssamband íslenskra vélsleðamanna og deildir þess hafa lagt mikið uppúr þessum öryggisþáttum. Hvatt menn óspart til að nýta allan þann öryggisbúnað sem tiltækur er, hvatt ferðalanga til að nota og læra á GPS tæki, nota hjálma, vera í brynjum, með snjóflóðaýli, stöng og skóflu. Margir hafa tileinkað sér þessi hjálpartæki og er það vel. Réttur öryggisbúnaður sem viðkomandi kann að nota ásamt stöðugri árvekni við aksturinn, þar sem heilbrigð skynsemi og reynsla eru notuð til að leggja mat á aðstæður, eru þeir þættir sem líklegastir eru til að fækka slysum og draga úr afleiðingum þeirra.
Áfengi og akstur vélsleða á enga samleið – aldrei
Einn er þó löstur á sportinu en það er notkun áfengis. Áfengið gerir engum neitt að fyrrabragði svo ekki er því sjálfu um að kenna. Vandamálið liggur hjá þeim sem eru að nota það, á rögnum stað á röngum forsendum. Áfengi og akstur vélsleða á enga samleið – aldrei. Samt er alltof algengt að vélsleðamenn taka með sér áfengi í ferðir. Sumir byrja að drekka í upphafi ferðalags og síðan er “mottó” að halda sverar matarveislur með tilheyrandi drykkjarföngum. Mörg dæmi eru um að mann fari eftir slíkar veislur út að keyra. Þessi háttur er hreint fáránlegur og er kominn tími til að menn þroskist og láti af þessum ósóma, sem auðvitað kemur óorði á alla sem í sportinu eru.
Er ekkert lát á?
Í mörg ár hafa sleðamenn reynt að vinna bug á þessum ósóma innan sinna raða með stöðugum áróðri. Samt er þetta enn að gerast. Nú berast t.d. sögur af drukknum sleðamönnum á akstri á einum fjölfarnasta stað á hálendinu fyrir skömmu. Haft var samband við lögreglu en hún er í byggð og getur lítið aðhafst. Þetta er því miður ekki einsdæmi.
Sýnum ábyrgð – tökum frumkvæði í umræðunni
Hvað er til ráða? Hingað til hafa sleðamenn heldur veigrað sér við að taka þessi mál til opinberrar umræðu. Rökin eru þau að nógu slæmt sé orðspor okkar fyrir þótt við séum ekki sjálfir að auka þar á með opinberri umræðu um ölvunarakstur innan okkar raða. Nú verður ekki lengur undan því vikist. Of stór hópur sleðamanna virðist ekki taka neinum rökum heldur blanda saman áfengi og akstri. Við getum ekki lengur horft upp á þennan ósóma, degið annað augað í pung, blikkað hinu og látið sem ekkert sé. Við verðum að taka frumkvæði í umræðunni áður en einhverjir aðrir gera það fyrir okkur.
Nú er kominn tími til að vélsleðamenn láti áfengið afskiptalaust í kringum sleðamennskuna, hvort heldur í akstri eða í skála á kvöldin þegar heimferð liggur fyrir næsta dag. Dæmin sanna að við eigum fullt í fangi með að koma heilir heim allgáðir, hvað þá undir áhrifum áfengis eða afleiðingum þess. – Smári Sigurðsson.
