Um síðustu helgi fór hópur jeppamanna í ferð inn á Vatnajökul. Hittu þeir á hreint einstakt veður og sendi Guðni í Straumrás ferðasögu úr túrnum sem vert er að lesa.
Fyrri sögustundir frá mér hafa fjallað um heimaslóðir í Grýtubakkahreppi en nú er allt annað hljóð í strokknum því um helgina 4-6 mars fór ég sem aðstoðarökumaður í jeppaferð vítt og breitt um Vatnajökul, aðstoðarökumaður er fínt orð (en afar sjaldan notað) yfir “kóara” eða “skófludýr” og stundum er “kóari” líka “hálfviti” en það gildir að vísu líka yfir suma bílstjóra.
Oddvitinn og hreppstjórinn
En semsagt, góður hópur fólks á fimm bílum lagði af stað frá Akureyri um kvöldmat á föstudag og var farin þjóðvegaleið í Gæsavötn og þar bættust í hópinn oddvitahjónin í Gæsavatnahreppi Ingi og Ingunn frá Húsavík , hreppstjórinn og frú voru þá þegar með í för. (Nærri má geta að enginn boraði í nefið í Gæsavötnum það kvöldið).
Bongóbongóbongó, longóblíða
Laugardagurinn heilsaði okkur með aldeilis frábæru veðri og ætla ég að klára sem snöggvast veður þátt þessarar ferðar með nýyrði sem ætti að skýra sig sjálft = bongóbongóbongó, longóblíða. Við fórum á jökul, nánast beint upp frá Gæsavötnum og fyrsti áfangastaður var Bárðarbunga, þar sem staðfestist enn einu sinni að Ísland er alls ekki svo lítið. Af Bárðarbungu var “straujið” tekið þvert yfir jökul, yfir á Snæbreið, (ps, gaman að vita hvort þessir menn strauja einhverntíma heima hjá sér). Af Snæbreið er aðeins snertispölur á Hvannadalshnjúkinn sjálfan og má nærri geta að bæði menn og konur vildu á toppinn. Þrátt fyrir harðfenni og svell, og þá staðreynd að klifurbúnaðurinn samanstóð einungis af einni ísexi, tveim göngustöfum og þrem teskeiðum var samt ákveðið að reyna uppgöngu, sú tilraun mistókst að þessu sinni en sannaði þó svo að óhyggjandi var, verkfræðingnum til nokkurs hugarléttis að það sem fer upp kemur stundum miklu hraðar niður aftur og er ekki frítt við að dálítil hjartsláttaróregla hafi tekið sig upp hjá nokkrum í hópnum. Á leið okkar frá Hvannadalshnjúk á Grímsfjall litum við ma. niður í Morsárdal og Gísli “ninefinger” Spielberg mátaði sig við Þumal.
Lífræn vekjaraklukka með í för
Olíubaðaðar, grillaðar lambaafturhásingar frá Grímsstöðum á Fjöllum, bragðast náttúrulega hvergi betur en á Grímsfjalli, enda tóku menn og konur vel til matar síns við miðnæturkvöldverð. Sunnudagurinn var tekinn snemma, enda lífræn vekjaraklukka í hópnum sem sefur aldrei svo stutt að hún vakni ekki fljótt aftur. Við drifum okkur niður í Grímsvötnin sjálf og litum á ylströnd sem myndaðist við síðasta gos, engan langaði þó í bað, ef sá svarti sjálfur á einhversstaðar heitan pott gæti þetta verið staðurinn. Á leið í Kverkfjöll ókum við þvert í gegnum það sem eftir er af Gjálp og eru þar að verða lítil ummerki um þær miklu hamfarir sem urðu þar haustið 1996. Þeim sem finnst ekkert varið í Ísland bendi ég á að heimsækja Kverkfjöll, fullyrði að sá sem hefur komið þar og horft í kringum sig verður aldrei samur aftur. Næsti áfangastaður var á Goðahnúkum. Reiknaður meðalhraði okkar á þessum 60 km spotta frá Kverkfjöllum þvert yfir Brúarjökul á Goðahnúka reyndist réttir 90 km pr klst. Þar er skáli, lítill og myglaður í eigu jöklarannsóknafélagsins, að sögn fróðra manna er þar minnsti snjór í manna minnum. Fórum þaðan niður Eyjabakkajökul og inn á þjóðveg við Snæfell, gegnum Kárahnjúka, niður Jökuldal og inná þjóðveg eitt. Stórkostlegri ferð um víðáttur Vatnajökuls var lokið um ellefuleytið á sunnudagskvöld.
860 kílómetrar að baki heiman og heim, eldsneyti á bílana rokkaði á bilinu 150-240 lítrar. Lesendur verða bara að giska á hvor eyddi minna, OfurFreyja hjá símamálastjóranum eða Sassjonginn hjá bakaranum. Þá lætur nærri að um 2.500 myndir hafi verið teknar í ferðinni.
-Guðni í Straumrás.
PS. Þótt ótrúlegt sé tóku margir ferðafélagar fætur sína svo til kostanna í þessarri ferð að sumir vilja nefna ferðalagið “Göngutúrinn” sem er náttúrulega alls ekki viðeigandi fyrir sanna jeppamenn.