Línur eru nú mjög farnar að skýrast með hvaða sleðar verða í boði fyrir næsta vetur og þær skýrðust enn frekar í dag þegar Polaris afhjúpaði 2006 línuna. Eins og vænta mátti er þar ýmislegt áhugavert á ferðinni og ólíklegt annað en að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Nóg er a.m.k. úrvalið.
Þrennt má segja að beri hæst hjá Polaris fyrir árið 2006. Þar af er tvennt sem e.t.v. þarf ekki að koma á óvart, þ.e. annars vegar fleiri vélar með Cleanfire-innsprautun og hins vegar að IQ-boddýið tekur nánast yfir alla framleiðslulínuna. Það þriðja er hins vegar óvæntara en það er kynning á 135 hestafla fjórgengisvél.
Vélamálin
Polaris kynnti 900 Cleanfire-vélina í 2005 módelinu og bauð hana bæði í Fusion og RMK. Nú hefur fjölgað um helming í Cleanfire-fjölskyldunni með kynningu á nýrri 700 vél, sem reydar er nær því að vera 800, þ.e. hún er 755 cc að rúmtaki. Innspítingin mun hafa verið endurhönnuð talsvert frá upprunalegu útgáfunni. Nú sjá tveir spíssar í hvorum sílendur um að fæða vélina og sprautar annar þeirra beint inn í sílendurinn þegar vélin er á lágsnúningi. Mér vitanlega eru þetta fyrstu tvígengis-vélsleðavélarnar sem sprauta beint inn í sílendurinn. Nýja 700 vélin á að skila 138 hestöflum sem hlýtur að teljast ansi gott og 900 vélin, sem einnig er með nýju innsprautunina, eitthvað nálægt 145.
700 Fusion
Önnur ný tvígengisvél er síðan 600 cc HO vél sem byggir á 440 keppnisvélinni frá því í ár. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að breyttar reglur í snjókrossinu gera ráð fyrir að stækka vélarnar í Stock-flokki úr 440 í 600 og því má búast við því að fleiri nýjar 600 vélar líti dagsins ljós. Þessi vél um um 120 hestöfl.
En þá að fjórgengisvélunum. Þar er um tvær útgáfur að ræða sem byggja á vél sem Polaris notar í sæþotur. Í standard útgáfu skilar vélin um 50 hestöflum en með því að bæta við hana túrbínu fjölgar hestöflunum um heilan helling, eða upp í 135. Þessum sleða er stefnt gegn 600 Turbo frá Arctic Cat og verður fróðlegt að sjá hvernig honum reiðir af.
Enn betra IQ-boddý
Því verður vart á móti mælt að Polaris hafi hitt í mark með IQ-boddýinu. Eins og vera ber eru ýmsar endurbætur kynntar fyrir árið 2006. Þær virðast þó allar vera minniháttar sem sýnir að frumgerðin hafi verið vel heppnuð. En án frekari málalenginga er nú vert að snúa sér að því að líta á einstakar sleðalínur.
Fusion:
Í fyrra var IQ-boddýið kynnt með Fusion. Þá með með nýju 900 vélinni en Fusion verður einnig fáanlegur með nýju Cleanfire 700 vélinni og 600 HO fyrir 2006. Þetta eru ekta sportsleðar á hefðbundnu 121 tommu belti.
Nýja Classic línan kemur öll í IQ-boddýinu en með RMK-útfærslunni. Vélar í boði eru nýja 700 Cleanfire og báðar fjórgengisvélarnar. Þessir sleðar koma með nýrri M-10 afturfjöðrun á 128 tommu löngu belti. Eins og vera ber er Classic vel búinn, m.a. með rafstarti og speglum.
Tveggja manna ferðasleðarnir koma í sömu útfærslu og Classic, með sömu vélum en á 136 tommu belti og M-10 búkka.
Millilangir:
Polaris kynnti 900 Switchback í IQ-boddýi sem miðsvetrarmódel ekki alls fyrir löngu. Nú liggur fyrir að sleðinn verður einnig boðinn með 600 HO vélinni og sem fjórgengis Turbo. Í Switchback er blanadað saman framenda af Fusion en afturenda af RMK með það fyrur augum að til verði alhliða sleði. Beltið er 144 tommur á lengd og er aftasti hluti meiðanna sveigður upp líkt og á RMK til að bæta aksturseiginleika í hörðu færi.
RMK:
Miklar vinsældir RMK sleðanna undanfarin ár eru engin tilviljun og Polaris ætlar þeim áfram stórt hlutverk. Nú verður IQ-boddýið allsráðandi og útfærslurnar eru eftirtaldar: 900 cc með 151, 159 og 166 tommu belti; 700 cc með 144, 151 og 159 tommu belti og 600 cc HO á 144 tommu belti.
Af þessari upptalningu má sjá að úr nógu verður að velja fyrir Polarismenn næsta haust. Því er um að gera að byrja velta hlutunum fyrir sér sem fyrst.
