Nokkuð hefur borið á þunglyndi meðal sleðamanna upp á síðkastið og svo virðist sem menn haldi að hvergi sé snjó að finna. Þetta er þó fjarri sanni því til fjalla er nægur snjór, eins og snnaðist í ferð sem farin var á jeppum um Barárðardal og upp í Laugafell um síðustu helgi.
Lagt var af stað seinnipart á föstudag á 5 jeppum, Ingólfur bakari, Ingi og Ingunn frá Húsavík, Haukur Stefáns, Gísli Óla. og Smári Sig. með Hreiðar og Halldór A. sem farþega. Neðantil er Sprengisandsleið alauð eða allt upp undir Fossgilsmosa. Þegar síðan land fer að hækka er nægur snjór og vandræðalaust að aka um allt á sleða. Fremur fúlt veður var á uppeftirleiðinni á föstudagskvöldið, hvasst og skafrenningur. Gat kom á eitt dekk og var það haft til sannindamerkis um hversu veðrið væri slæmt að Ingi fór í kuldagalla á meðan gert var við.
Laugardagurinn heilsaði hins vegar bjartur og fagur með flottasta veðri sem hægt er að fá á fjöllum. Tilgangur ferðarinnar var einkum að lagfæra útihurð á baðhúsinu í Laugafelli og einnig var tækifærið notað í ýmsar aðrar aðdyttingar á staðnum. Að því loknu var ákveðið að renna í Nýjadal en ekki var búið að aka langt þegar Landkrúserinn hans Hauks lagist niður öðru megin að aftan. “Brotinn gormur,” var samhljóða sjúkdómslýsing allra þeirra frægu jeppakalla sem þarna voru samankomnir og ekki annað til ráða fyrir Hauk en að læðast af stað heim. Smári fylgdi í humátt á eftir en aðrir tóku stærri slaufur um miðhálendið. Þegar komið var niður á Sprengisandsleið til móts við skálann í Kvíum var ákveðið að renna niður að skálanum. Þangað niður er brött leið og vandfarin. Allt gekk þó að óskum og er sannarlega gaman að koma þarna niður. Þegar síðan komið var aftur upp á veg brá svo við að bílinn hans Hauks stóð þar bísperrtur og engin merki um brotinn gorm. Heyrðist það síðast af þessu einkennilega máli að réðgert er að skrifa bréf til hr. Toyota sjálfs í Japan og fræða hann um þessa einstöku eiginleika 80 Krúsera, þ.e. að þeir geti læknað sig sjálfir.
Eftir ferðina hefur heyrst…
…að sleðajaxlarnir tveir sem ferðuðust með Smára séu enn aumir í höndunum eftir að ríghalda í sætisbrúnina
…að Landkrúser sé svo fullkominn bíll að hann geti sjálfur grætt saman brotna gorma
…að Haukur ætli ekki á fjöll aftur fyrr en 44 tommurnar eru komnar undir
…að Gísli sé lélegur Halldór
…að Ingi brosi því breiðar sem götin á dekkjum félaganna eru stærri
Gísli Óla. tók flottar myndir í ferðinni.
- Morgun í Laugafelli.
- Smári og Haukur í morgunverkunum.
- Vefstjóri, eigandi og ritstjóri Sleðasíðunnar, Halldór Arinbjarnar.
- Halldór að vinna í tölvunni hjá Inga. Takið eftir áhyggjusvipnum.
- Haukur hress þótt græjan liggi alveg niðri á samsláttarpúðunum.
- Við Landakot.
- Ofur-Hiluxinn hans Gísla við Kvíar.
- Væntanlega eru ekki margir sem koma í Kvíar á bökkum Skjálfandafljóts.
- Hreiðar formaður myndar við Kvíar.








