Drangajökull með stefnu á Reykjarfjörð

15. febrúar 2005:

Þórarinn Sverrisson (Tóti Musso) sendi eftirfarandi ferasögu og mynd af ferð hans og Kristjáns Dalton sendibílstjóra um Strandir um síðustu helgi.

Við ákváðum að skella okkur á Strandirnar þar sem veðurspáin lofaði góðu fyrir laugardaginn 12.feb og með myndirnar hér á Sleðasíðunni frá för þeirra Strandamanna á þetta svæði fyrir skömmu átti ekkert að stoppa okkur.

Lögðum af stað á föstudagskvöldið og gistum á Gistiheimilinu hjá Hrólfi. Laugardagur rann upp fagur og var heiðskírt og útlitið gott. Á Steingrímsfjarðarheiði var samt smá mugga og gat veðrið farið á hvorn veginn sem var. Samt sást til sólar af og til. Við lögðum síðan af stað í snjóblindu og smá snjókomu. Hart færi var á Steingrímsfjarðar- og Ófeigsfjarðaheiði en betra færi tók við er við komum upp á Drangajökul. Við kíktum á Hrolleifsborg en sáum ekki niður í Reykjarfjörð. Ekki virtist skriðjökullinn vera frýnilegur og fórum því hefðbunda leið.

Er 5 km. voru eftir í laugina í Reykjarfirði var orðið snjólaust. Við reyndum að finna smá föl til að komast niður með ánni en himinn og haf skildi að. Ekkert bað í þetta skipti takk fyrir. Stoppuðum við því til að næra okkur og horfðum á þokubakkann læðast upp dalinn. Áður en við vissum af var komin þétt snjókoma og talsverður vindur. Allt hafðist þetta að samt lokum en það fór ekki að rofa til fyrr en við komum aftur niður á Steingrímsfjarðarheiði.

Leave a comment