Fullt rör hjá Yamaha 2006

Hinn nýi Apex.

Hinn nýi Apex.

Eins og jafnan áður er það Yamaha sem ríður á vaðið við að kynna 2006 árgerðina af sleðum en það var gert síðastliðinn mánudag. Þeir sem spáð hafa að Yamaha væri að draga sig út úr sleðabransanum ættu að hugsa sig um tvisvar. Ný vél, nýtt boddý, nýir sleðar. Hvað meira er hægt að biðja um? Hjá Yamaha er gjöfinni því haldið þétt við stýrið fyrir árið 2006 – já það er fullt rör og ekkert minna – í urrandi fjórgengistakti.

Sárt en…

Undirritaður verður þó að viðurkenna að ánægjan yfir öllum nýjungunum er að vissu leyti tregablandin. RX-1 hverfur nefnilega af sjónarsviðinu, sorglegt en engu að síður staðreynd. RX-1 var framleiddur í 3 ár og batnaði stöðugt ár frá ári. Kynning hans á sínum tíma markaði tímamót í vélsleðasögunni því hann var fyrsti alvöru fjórgengissleðinn með afl og akstureiginleika á við bestu tvígengissleða. Og enn eftir þessi 3 ár er hann í raun kógur í ríki sínu því jafnoki hans hefur ekki komið fram á sjónarsviðið – fyrr en núna.

Hámarkinu náð

Apex er það nafn sem Yamha valdi fyrir hinn nýja sleða. Nafnið mun merkja hátindur eða hámark og því ljóst að Yamaha ætlar honum stóra hluti. Apex skartar nýrri vél og nýju boddýi og er boðinn í fimm útgáfum, þótt einn sleðinn nefnist raunar Attak. Byrjum á grunngerðinni, Apex ER. Með því að skipta út RX-1 nafninu vill Yamaha væntanlega undirstrika að hér sé kominn algerlega nýr sleði, ekki bara endurbætt módel síðasta árs. Enda er Apex sannarlega nýr sleði með aðra eiginleika en forverinn.

Ný vél

EngineHjartað í Apex er ný fjögurra strokka fjórgengisvél með beinni innspýtingu. Það hlaut að koma að því að menn skelltu innspýtingu í fjórgengissleða og Yamha reið á vaðið eins og stundum áður. Vélin á að skila nokkrum helstöflum umfram RX-1 og er gefin upp 150 hestöfl. Innspýtingin á að skila betra viðbragði en blöndungsvél og gera sleðann þannig skemmtilegri. Flest í vélinni hefur verið endurhannað frá RX-1 og til viðbótar því að skila meira afli er hún nokkrum kílóum léttari.

Nýtt boddý

Þótt línurnar í útliti Apex séu í grófum dráttum þær sömu og lagaðr voru með RX-1 er ekki allt sem sýnist. Apex kemur í alveg nýju boddýi sem Yamaha kallar Delta Box II. Grunnhugmyndin með því er að færa ásetu ökumanns framar líkt og þróunin hefur verið í vélsleðum almennt (rider forward). Með því telja menn sig ná betri þyngdardreifingu auk þess sem auðveldara verði að höndla sleðann. Þessu má þó ekki rugla saman við snjókross þar sem byggingarlagið gerir ráð fyrir að ökumaðurinn standi lengst af. Hér er hugsunin sú að auðveldara verði að standa upp og setjast til skiptis og þannig mæta mismunandi aðstæðum, hliðarhalla, brekkum o.s.frv. Sætið og stýrið á Apex hafa verið færð fram um 15 cm sé miðað við RX-1 og stýrið einnig hækkað nokkuð.

Rider Forward

Þetta kallaði einnig á fleiri breytingar á boddýinu, svo sem ljósinu, rúðunni, og bensíntanknum. Lofthreinsarinn er nú í raun hluti af framstykkinu og sjálft húddið er aðeins tiltölulega lítið lok sem fjarlægt er til að komast að vélinni. Útlit og frágangur hefur löngum verið fyrsta flokks hjá Yamaha og virðist hvergi slakað á því í Apex. Hvert smáatriði er þaulhugsað og t.d. er útlit og frágangur á mælaborði Apex í algerum sérflokki – og þetta er jú sá hluti sleðans sem maður hefur fyrir framan sig þegar setið er á honum. Sennilega verða minnstu breytingarnar á fjöðruninni frá RX-1 í Apex ER. Afturfjöðrunin er sú sama, enda ein sú besta í bransanum, en framfjöðrunin hefur verið endurbætt þannig að sleðinn stýri betur og lyfti skíðunum síður í beygjum.

Fyrir þá kröfuhörðu

Auk grunngerðarinnar Apex ER eru í boði tvær aðrar gerðir til að mæta þörfum þeirra kröfuhörðustu, þeirra sem kerfjast þess að fjöðrunin geti tekið við meira álagi en gengur og gerist hjá hinum almenna sleðamanni. Annar nefnist Apex GT og verður aðeins framleiddur í takmörkuðu upplagi. Hann skartar m.a. hágæða Öhlins dempurum sem stilla má á fullri ferð með takka við stýrið. Loks er það síðan Apex RTX með Fox-loftdempurum fyrir þá allra villtustu.

Millilangur með 150 hestöfl

Þeir þrír sleðar sem hér hafa verið nefndir, þ.e. Apex ER, Apex GT og Apex RTX eru allir stuttir, þ.e. með hefðbundið 121 tommu belti. Fjórði sleðinn í nýja boddýinu og með nýju vélina nefnist hins vegar Attak og hann kemur á 136 tommu bleti. Hér er því kominn arftaki RX Warrior. Í Attak var smíðuð ný útgáfa af “mono-shock” afturfjöðruninni sem Yamaha kynnti í fyrra og hlaut mikið lof fyrir. Þessi sleði er aðeins lægra gíraður en Apex, til að mæta lengra belti, og er um 12 kg léttari en RX-Warrior. Með 150 hestöfl og 136 tommu belti ættu mönnum að vera flestir vegir, eða fjöll, færir.

Alvöru púðursleði sem hentar líka í ferðalögin

Apex MTNFimmti sleðinn sem byggir á sama grunni og hinir er Apex Mountain. Hér er kominn alvöru fjallasleði og beltið er ekkert smáræði, 162 tommur á lengd og 16 á breidd. Það er af nýrri gerð þar sem sumir fliparnir í beltinu eru mjúkir en aðrir harðir, auk þess sem þeir eru ekki allir jafn langir. Með þessu á beltið að henta betur í misjöfnu færi, þ.e. bæði í púðri og stífari snjó. Þyngd þessa sleða er sannarlega talsvert meiri en annarra fjallasleða, eða tæp 300 kg (596 lbs) á meðan t.d. Summit 1000 á 162×16 tommu belti er gefin upp 529 lbs. Ekki kæmi mér á óvart þótt margir hérlendis muni horfa spenntir til þessa sleða. Auk þess að skilja flesta eftir í brekkunum ætti hann að henta vel til ferðalaga. Pústinu er beint út til hliðanna og aftan við sætið er ágætis geymslurými fyrir farangur.

120 hestafla deildin

GYT-R shocksÍ fyrra kynnti Yamaha til sögunnar nýja 3ja stokka, 120 hestafla fjórgengisvél í nokkrum sleðum og heldur nú áfram á sömu braut. M.a. kemur sleði með þessari vél sem kallast Nytro ER og er smíðaður sem skemmtilegt leiktæki með góða aksturseiginleika og öfluga fjöðrun. RC Vector og RS Rage sleðarnir með 3ja strokka vélinni halda áfram og fá ýmsar endurbætur. Nýir sleðar í þessari línu eru Vector GT, sambærilegur við Apex GT að vélinni undanskildri, RS Vector með “mono-shock” afturfjöðruninni og RS Vector Mountain SE með 162×16 tommu beltinu. Sá millilangi, þ.e. RS Rage á 136 tommu belti, fær einnig “mono-shock” afturfjöðrunina og endurbætur sem létta hann nokkuð á milli ára. Lokst má nefna lúxus ferðasleðann Venture sem kemur óbreyttur í stórum dráttum, enda toppurinn í ferðasleðum að margra mati. Þess má síðan geta að sögusagnir eru á kreiki um endurkomu Yamaha í snjókrossið næsta vetur en það eru sögusagnir enn sem komið er.

Er Yamaha á réttri leið?

Enn á ný hlýtur sú spurning að vakna hvort Yamaha sé á réttri leið með því að veðja á fjórgengistæknina. Því verður ekki á móti mælt að henni fylgir aukin þyngd og það mun alltaf há þessum sleðum í samanburði við tvígengissleða. Síðan verður hver og einn að meta og gera upp við sig hvers konar sleði hentar honum. Þótt aukin þyngd sé sjaldnast kostur er vert að spyrja sig hversu oft þær aðstæður skapast að þyngdin skipti höfuðmáli. Hana verður einnig að vega á móti þeim kostum sem fylgja fjórgengisvél, svo sem meira tog, minni eyðsla, lengri ending og lægri bilanatíðni. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn að ég tek ofan fyrir Yamaha fyrir að fara þessa leið. Ekki endilega vegna þess að ég sé á leiðinni að fá mér fjórgengissleða heldur fyrir að þora að taka áhættuna og framkvæma það sem sleðamenn höfðu rætt um árum saman og flestir talið óhugsandi – að smíða alvöru fjórgengissleða sem ekki bara er sambærilegur við það besta í tvígengisheiminum heldur stendur framar á mörgum sviðum.

Leave a comment