Vel hefur Drottinn vandað sig…

Guðni Hermanns tók léttan rennig um heimaslóðir í nágrenni Grenivíkur í liðinni viku. Hann sendi magnaða ferðalýsingu og er réttast að gefa honum orðið:

Hér eru nokkrar myndir teknar á ýmsum stöðum í Grýtubakkahreppi 27. janúar síðastliðinn. Í þessarri yfirreið ók ég skv. gps tækinu mínu 59,87 kílómetra á fjórum klukkutímum sléttum =15km klst.

Afi minn heitinn , Friðbjörn orti eitt sinn þessa vísu og veit ég að ég má fá hana lánaða.

Heimabyggðin heillar mig
hér er mold af gróða rík
vel hefur Drottinn vandað sig
við að skapa Grenivík.

Ég renndi út Hvammsheiði (Vesturheiði) út að Strjúgsgili (Strjúgur er fyrir þá fáu sem ekki vita “matur” þeas. kjötbein voru látin liggja í súr þar til þau urðu meyr og voru síðan étin með spónum, þeir sem áttu spóna eða skeiðar notuðu svoleiðis hinir notuðu náttúrulega guðsgafflana, Nú er ég með tillögu til þeirra frænda minna Bjössa og Himma í Harðfiskverkuninni Darra að þeir geri nú tilraunir með framleiðslu á Strjúg, ef vel tekst til er ég alveg viss um að Jóhannes undrakokkur vinur þeirra bætir þessum vafalaust sérkennilega rétti inn á þorrahlaðborð Múlakaffis fyrir næsta vetur. Ástæða þess að gil þetta heitir þessu matarmikla nafni Strjúgsgil er ekki ljós en kannski hefur ferðamaður sem átt hefur leið þarna um týnt nestinu sínu sem þá hefur náttúrulega verið súrsað beinasull.)

Þessi langloka er nú útúrdúr frá þessarri sleðaferð minni. Höldum nú áfram inn með Gljúfurá innfyrir Víðilæk og ofaní Brattáslautina, sem er að mínu mati einn fallegasti staður í Grýtubakkahreppi þar eru lygilega hávaxin birkitré og veðursælt með afbrigðum, þar var sel frá Bárðartjörn. Ofaní Brattáslautina fór ég í fyrsta sinn á SnoTric (já vélsleða)fyrir um þrjátíu árum, barátta mín við að komast upp brekkuna aftur er einhver hroðalegasta raun sem ég hef átt í á vélsleða. Úr Brattáslautinni lá leið mín norður yfir Sandfell upp Botnana uppá Grenivíkurfjall niður í Grenjárdal upp hjá Skógaröxl út og niður hjá Borgum ofan við Finnastaði og Hjalla, norður Torfdal og niður í Hringsdal og út að Jaðri, til að komast yfir Svíná þurfti nokkrar krókaleiðir aðeins upp í Svínárdal og síðan niður á Svínárnes, þaðan niður á sjávarbakka að Borgarhól og síðan út og upp til Steindyra , Steindyr bera nafn með rentu því þar þarf þó nokkrar krókaleiðir til að komast framhjá öllu stórgrýtinu sem þar er og hafa sig þar norðurfyrir en það tókst nú samt. Skammt er frá Steindyrum að Skeri og eru þar töluverðar rústir, ég hafði hugsað mér að komast alla leið í Grímsnes en sneri við í Ausugilinu, held ég að hæpið sé að fara öllu lengra á sleða. Ég fór svipaða leið til baka að vísu með viðkomu á Kaldbak. Við þetta var ég að gaufa í nærri fjóra klukkutíma og kom heim alveg himinsæll og glaður og ekki spilltu nú fyrir soðiðbrauðið og kleinurnar sem ég fékk hjá mömmu í lokin.

Leave a comment