Flott jeppaferð um helgina

Nokkrir jeppamenn frá Akureyri og Húsvík fóru fínan túr inn á hálendið um helgina. Smári Sig sendi smá ferðasögu.

Á föstudagskvöld var farið upp Bárðardal og stefnt á Gæsavötn. Í upphafi ferðar var lítill snjór en þegar komið var inn að Kiðagilshnjúk var kominn flottur snjór og alveg skruggu færi alveg í Gæsavötn.

Á laugardagsmorgni var haldið austur með jökli (sleðaleiðina) í fínu færi allt austur fyrir Kistufell. Þá var rétt eins og klippt hefði verið á snjóinn og við Sigurðarskála er algerlega snjólaust. Þangað væri ekki hægt að komast á sleða, jafnvel með einbeittan vilja. Tíma tók að finna færa leið en Jökulsá á Fjöllum hafði breitt nokkuð úr sér og ísinn hélt ekki alsstaðar.

Á sunnudag var haldið niður með Jökulsá að vestan og kíkt á fossinn í Svartá og upptökin árinnar, sem er alltaf jafn magnað á að horfa. Þar var miklu betri og meiri snjór en upp við Kverkfjöll og gaman að vera til. Litið var við í Dreka og dáðst að nýja húsi Ferðafélags Akureyrar. Í Herðubreiðarlindum var lítill snjór eins og venjulega en þegar norðar dró fór snjórinn að aukast fyrir alvöru. Var orðið flott færi við Ferjuásinn og hægt að sprauta í allar áttir. Myndirnar tóku Gísli Óla. og Halldór Jóns.

Leave a comment